150. löggjafarþing — 32. fundur
 14. nóvember 2019.
sérstök umræða.

spilling.

[11:02]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Liðin er sú tíð að fólk geti skýlt sér á bak við furðu og hneykslan þegar kemur að umræðu um spillingu á Íslandi. Hún er víðfeðm, hún er vel skjalfest og hún viðgengst því sem næst óáreitt. Kerfislæg linkind gagnvart spillingu einkennir íslenskt stjórnarfar. Uppljóstranir um starfsemi Samherja í Namibíu og Angóla sem birtist í fréttaflutningi Kveiks og Stundarinnar eru sláandi. Fyrir liggja sannanir um skipulagt arðrán á auðlindum annarrar þjóðar, sannanir um gríðarlegar, reglubundnar mútugreiðslur til embættismanna og stjórnmálamanna frá fyrirtæki sem hefur verið flaggberi íslensku útgerðarinnar og byggt auðsöfnun sína á nýtingu íslenskra auðlinda. Fyrirtækið byggir auð sinn á fiskveiðistjórnarkerfi sem hvetur til svona hegðunar. Söfnun kvóta á hendur hinna fáu er afleiðing þess að pólitísk tengsl séu nýtt til að treysta það eignarhald, lágmarka greiðslur í sameiginlega sjóði og hámarka hagnað.

Það eru mistök að horfa fram hjá uppsprettu og rót vandans en það er tilgangslaust að þingmenn komi hér hver á fætur öðrum og lýsi því hversu hrikaleg spillingarmál Samherja séu. Við vitum það öll. Það sem fólk vill heyra frá okkur núna er hvað við ætlum að gera í málinu. Við þurfum að horfa á ákveðnar staðreyndir. Í a.m.k. nokkur ár hefur verið vitað að eitthvað óeðlilegt væri í gangi í Namibíu. Fjölmiðlar hafa flutt af því fréttir. Það verður að svara því hvers vegna ekki var brugðist við þeim rökstudda grun. Einnig er auðvelt að sjá á fyrirtækjaskrám landa á borð við Kýpur og Panama að fjölmargir Íslendingar eiga fyrirtæki í þeim löndum. Það er ekki ólöglegt en lögmætar ástæður fyrir að stunda viðskipti í gegnum aflönd eru fáar. Við megum ekki vera svo barnaleg að halda að notkun skattaskjóla hafi óspilltan tilgang. Tvenns konar öfl í heiminum hafa náð fullkominni alþjóðavæðingu, stórfyrirtæki og skipulagðir glæpahópar. Mörkin eru stundum óskýr. Ríkisstjórnir hafa staðið sig illa í að bregðast við þeirri glæpsamlegu hegðun sem viðgengst í skjóli alþjóðlegrar leyndarhyggju. Fyrir því er ein ástæða, viljaleysi. Mörg ríki ýta vísvitandi undir undanskot og vonda hegðun. Þau græða á því, stundum hagkerfi landsins en oftar pólitíska stéttin. Pólitísk spilling birtist ekki bara í formi mútugreiðslna. Greiðara aðgengi, styrkir, völd o.fl. fylgir.

Í skýrslu starfshóps forsætisráðherra um traust á stjórnvöldum segir, með leyfi forseta:

„Ef ekki er brugðist við mögulegri gagnrýni og hún ekki tekin alvarlega er það út af fyrir sig spillingarhvati.“

Það verður að taka hart á ásýnd spillingar, ekki bara sannaðri spillingu. Um 60 lönd í heiminum veita alþjóðlegum stórfyrirtækjum leynd. Alþjóðlegur vinnuhópur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, FATF, er skásta tilraun alþjóðasamfélagsins til að sporna við þeirri hegðun. Frá vormánuðum 2018 hefur hópurinn beint til Íslands tilmælum um ágalla í lögum, regluverki og verklagi og skort á fjármunum til að berjast gegn peningaþvætti. Ísland var fyrir stuttu sett á gráan lista hópsins fyrir að hafa ekki brugðist nægilega vel við. Starfsemi Samherja í Afríku setur veru Íslands á þeim lista í nýtt og alvarlegra samhengi. Við vitum nú að Bank of New York Mellon stöðvaði millifærslu frá bankareikningi kýpversks félags tengdu Samherja stuttu áður en DNB NOR lokaði á viðskipti sama félags vegna hættu á peningaþvætti. Fjórum dögum síðar lokaði DNB NOR á félag Samherja á Marshall-eyjum. Á fimm árum sendi kýpverska félagið um 3 milljónir evra til félags í Rússlandi í gegnum aflandsþjónustuna Common World Trust Ltd. sem komið hefur við sögu í peningaþvættismálum. Það er ekki langt stökk að ætla að tengsl séu milli þessarar starfsemi og þess að Ísland sé nú á gráum lista.

Forseti. Fyrir okkur liggja spurningar um hvað við ætlum að gera til að bregðast við þeim augljósu vandamálum og veikleikum sem birtast okkur í núverandi ástandi. Hver verða viðbrögð ríkisstjórnar, viðbrögð stjórnvalda og viðbrögð Alþingis? Það þarf að auka gagnsæiskröfur til íslenskra aðila sem eiga erlendar eignir. Það þarf að koma á öflugu og virku eftirliti með fjármagnsflutningum. Það þarf að lögfesta ákvæði um afhjúpendavernd og tryggja öryggi þeirra sem uppljóstra um glæpi. Við verðum að víkka út skilgreiningu á lágskattaríkjum og birta leiðbeinandi lista um slík ríki og kveða á um tilkynningarskyldu til skattyfirvalda um beina og óbeina eignarhlutdeild í lögaðilum í lágskattaríkjum.

Það er auðvitað margt fleira sem þarf að gera en þetta er byrjunarreitur. Við getum reynt að kafa djúpt í þetta mál og það er orðið mjög tímabært að við gerum það.

Ég ætla að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að bregðast skjótt við beiðni minni um þessa sérstöku umræðu. Hún skiptir máli. Við vitum af þessari spillingu. Við getum ekki látið eins og við séum saklaus lengur og við þurfum ekki að þykjast hissa. Það sem við þurfum að gera er að laga þetta. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:07]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir að eiga frumkvæði að þessari mikilvægu umræðu sem kemur í kjölfar sláandi myndar sem var byggð á gögnum um samskipti eins stærsta útgerðarfyrirtækis Íslands við namibísk yfirvöld. Það er ljóst að þar koma fram sterkar vísbendingar um að framin hafi verið lögbrot. Þess vegna er mikilvægt, og ég vil byrja á að segja það, að þetta mál er komið til rannsóknar hjá héraðssaksóknara. Það er mjög mikilvægt að þar verði vandað til verka og að allar staðreyndir málsins verði dregnar fram. Að sjálfsögðu munu stjórnvöld tryggja að þær stofnanir sem fara með rannsókn málsins hafi fullt svigrúm til að sinna henni af kostgæfni. Þessi umfjöllun minnir okkur líka á hversu mikilvægt er að eiga annars vegar öflugan og óháðan almannaþjónustufjölmiðil, Ríkisútvarpið, og hins vegar á mikilvægi sjálfstæðra fjölmiðla sem geta sinnt rannsóknarblaðamennsku.

Ég er líka sammála hv. þingmanni um að það er tilgangslaust að hneykslast, þó að auðvitað geri það margir í kjölfar slíks máls, það eru eðlileg viðbrögð, og að mikilvægara sé að horfa til þess sem gert hefur verið og hvað gera þarf. Hv. þingmaður sagði: Við erum ekki saklaus lengur. Ég spyr: Höfum við einhvern tímann verið saklaus? Er ekki staðreyndin sú að mjög margt hefur breyst í íslensku samfélagi frá því að við hv. þingmaður vorum börn að aldri? Heldur hv. þingmaður að svona umfjöllun hefði komið upp þá og vakið þessi viðbrögð? Ég segi nei við því, ég held nefnilega að íslenskt samfélag hafi breyst til batnaðar og að kröfur almennings séu aðrar en þær voru. Og það er gott, það er nefnilega gott. Ég held að við eigum ekki að horfa fram hjá því að undanfarinn áratug, allt frá hruni, hafa umfangsmiklar breytingar verið gerðar á laga- og regluverki sem tengist fjármálaumsvifum og við eigum að halda því til haga þó að ég sé að sjálfsögðu sammála hv. þingmanni um að við getum lengi gert betur í þessum málum og tryggt betur stjórnsýslu okkar í þeim.

Ég vil nefna í stuttu máli nokkur atriði sem tengjast veru Íslands á gráum lista FATF. Mér finnst mikilvægt að undirstrika enn og aftur að þegar síðasta úttekt þeirra samtaka kom fram í apríl 2018 var vissulega brugðist við og það hefur verið ráðist í umfangsmiklar úrbætur þrátt fyrir að við höfum endað á þessum gráa lista. Það sýnir hins vegar að ekki var brugðist við nægjanlega snemma, það er alveg rétt, en ég vil þó minna á að þetta hafa stjórnvöld gert síðan með dyggum stuðningi Alþingis. Ég vil sérstaklega nefna frumvarp ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um raunverulega eigendur sem var samþykkt á Alþingi sem mun skipta mjög miklu máli til að bæta umgjörð þessara mála.

Ég minni líka á að mútugreiðslur, hvort sem eru til innlendra eða erlendra opinberra starfsmanna, eru ólöglegar að alþjóðalögum. Ég minni á að íslensk stjórnvöld undirrituðu fyrst OECD-samninginn í París 1997 og hann var fullgiltur 1998. Í fyrra, 2018, fjölluðum við um frumvarp í þessum sal þar sem refsingar vegna mútugreiðslna voru hertar vegna þess að við höfum verið að taka á þessum málum.

Þarna skiptir það máli sem við höfum verið að gera. Hv. þingmaður nefnir líka reglur um skattalagabrot og skattundanskot. Mjög miklar breytingar hafa orðið á þeim vettvangi undanfarinn áratug, allt frá því að reglurnar um CFC-félögin voru settar árið 2010, reglur um milliverðlagningu árið 2014, skil á ríki-fyrir-ríki skýrslu árið 2017, takmörkun á frádrætti vaxtagjalda 2017, fyrir utan þá 44 upplýsingaskiptasamninga sem hafa verið gerðir frá árinu 2008. Vissulega er búið að gera margt.

Sömuleiðis hef ég lagt mikla áherslu á lagabreytingar og regluverk í kringum hagsmunaskráningu, hagsmunaárekstra og upplýsingar og gagnsæi. Það er auðvitað með þessi mál að því meira gagnsæi, því betra.

Ég mun á þessu þingi leggja fram frumvarp um lagabreytingar til varnar hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands. Alþingi hefur þegar samþykkt ýmis frumvörp mín, m.a. um tjáningarfrelsi og þagnarskyldu opinberra starfsmanna og breytingar á upplýsingalögum, og mér skilst að í dag eigi að mæla fyrir frumvarpi um vernd uppljóstrara. Því verðum við að segja að undanfarinn áratug hefur einfaldlega mjög margt gott verið gert af hálfu stjórnvalda og Alþingis til að bæta laga- og regluverk um fjármálakerfið, fjármálaumsvif og viðskipti.

Ég vil líka segja að við gerum að sjálfsögðu þá skýru kröfu að íslensk fyrirtæki fylgi lögum hvar sem þau starfa því að þegar íslensk fyrirtæki starfa í öðrum löndum bera þau ekki aðeins ábyrgð á eigin orðspori, heldur orðspori heils samfélags. Þetta er mál sem varðar okkur öll, ekki bara einstök fyrirtæki, og því verður það ekki liðið að íslensk fyrirtæki brjóti lög og reglur. Næsta skref hlýtur að vera að (Forseti hringir.) rannsaka þetta mál ofan í kjölinn og þó að lagaumhverfið hafi tekið breytingum til batnaðar þurfum við þingmenn að fara yfir það nú hvort (Forseti hringir.) frekari breytingar þurfi að gera. Það er líka alveg ljóst að lögum þarf að fylgja og það hefur afleiðingar ef þeim er ekki fylgt.



[11:13]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu og þakka sérstaklega forsætisráðherra fyrir það sem hún sagði áðan. Það mál sem við ræðum hér er grafalvarlegt og getur, ef málsatvik eru með þeim hætti sem lýst hefur verið, haft veruleg áhrif í för með sér. Því ríður á að viðbrögð stjórnvalda séu fumlaus, örugg og með réttum hætti.

Við skulum líka hafa í huga að málið er nú þegar í höndum réttra og til þess bærra aðila. Samkvæmt því sem fram kom í máli héraðssaksóknara í morgun í fjölmiðli hefur málið verið til rannsóknar um nokkurn tíma. Við sem hér erum skulum líka hafa í huga að þessi salur er málstofa en ekki dómsalur. Það er ekki okkar sem hér erum að fella dóm í þessu máli hér og nú. Það er hvorki tímabært né samkvæmt lögum. Við skulum sjá hvað kemur í ljós þegar rannsókninni vindur fram. Það er þó óneitanlega dapurlegt að sjá að svo virðist sem íslenskt stórfyrirtæki hafi beitt fátækt ríki ofríki í nýtingu náttúruauðlinda þess. Við vorum í denn upptekin af því að hér voru flotar stórríkja uppi í landsteinum en nú erum við farin að beita sömu aðferðum annars staðar í heiminum. Það er dapurlegt. Við skulum samt hafa í huga að það er hverju ríki nauðsynlegt að varðveita náttúruauðlindir sínar og tryggja vald yfir þeim. Mjög nýlega stigum við skref í þessum sal í þveröfuga átt.

Ég ætla að ljúka ræðu minni með því að vitna í Søren Kierkegaard. Hann sagði einhvern tímann á þessa leið, með leyfi forseta: „Ef þú brennur í skinninu að breyta heiminum, byrjaðu þá á einhverju nærtæku, sjálfum þér.“



[11:15]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við erum stolt af landinu okkar. Við viljum vera í fremstu röð. Við erum framsækin, metnaðarfull og bjartsýn þjóð. Við viljum, þrátt fyrir að vera smá í alþjóðlegu samhengi, skipa okkur á bekk með þeim sem standa fremst á alla mælikvarða mannlífsins og okkur hefur gengið vel samkvæmt öllum úttektum að gera einmitt það. Við tökumst á við áföll af æðruleysi og við gerum skýra kröfu um að lög og reglur séu virt. Við sækjum brotamenn til saka og við fellum dóma yfir þeim. Við tökum fullan þátt í alþjóðlegu samstarfi til að auka velmegun og velsæld landsmanna á grundvelli frjálsra viðskipta og friðar.

Þegar upp koma mál eins og það sem nú er til umfjöllunar í samfélaginu skiptir öllu að við höldum í þessi grundvallaratriði og að við treystum á stofnanirnar og eflum þær ef þess er þörf. Við getum litið til baka og spurt hvað gert hefur verið. Hér hefur þegar komið fram að við höfum einmitt verið að vinna þá vinnu vel. Alþjóðleg samskipti Íslands skipta mjög miklu, upplýsingaskiptasamningar, tvísköttunarsamningar, öflugum stofnunum er betur treyst til að eiga samskipti yfir landamæri, til að skiptast á upplýsingum. Þetta eru atriði sem við höfum á undanförnum árum verið að vinna að.

Þegar mæld er spilling þá skipum við okkur í flokk með þeim þjóðum í heiminum þar sem spilling er minnst. Og þrátt fyrir að í mælingum meðal almennings komi fram áhyggjur af spillingu sýna alþjóðlegar úttektir að dæmin um spillingu á Íslandi eru afskaplega fá, raunveruleg dæmi. (Forseti hringir.) Við stöndum nú frammi fyrir erfiðu verkefni þar sem öllu skiptir að við bregðumst ekki þeim grundvallaratriðum sem við höfum hingað til náð góðum árangri með.



[11:17]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Herra forseti. Í þessu máli blasir við að fé hefur verið borið á ráðamenn í fjarlægu landi til þess að komast yfir lífsbjörg fátækrar þjóðar sem Íslendingar höfðu um árabil varið fjármunum og fyrirhöfn í að kenna handtök og aðferðir við sjávarútveg og voru stoltir af þeirri hjálp. Svo breytist stolt í skömm. Margir Íslendingar hafa með réttu áhyggjur af stórfelldum kaupum erlendra auðkýfinga hér á landi með þeim landkostum sem fylgja. Í Namibíu er Samherji slíkt afl, gráðugi, ríki útlendingurinn sem ásælist auðlindir almennings. Fyrirtækið óx upp hér á landi í skjóli þar sem því hefur tekist að sölsa undir sig svo mikla hlutdeild í sjávarauðlindinni okkar að óhugsandi er að sjávarútvegsráðherra hverju sinni geti sagt sig frá málefnum fyrirtækisins.

Spilling er hugarfar. Hún lýsir sér í því að sætta sig smám saman við hið óásættanlega. Hún lýsir sér í því að verða samdauna atferli sem er rangt eftir siðferðislegum og lagalegum mælikvörðum. Hún lýsir sér í þeirri hugmynd að einhver sé yfir lög og reglur og siði hafinn vegna auðs og valda. Hún lýsir sér í því að líta á annað fólk fremur sem bráð en samborgara á þessari jörð. Spilling er það þegar dyggðir víkja fyrir löstum. Spilling er líka val, sakleysið hverfur og við stöndum frammi fyrir því vali hvort við ætlum að bregðast við með því að taka á því sem opnaði augu okkar eða loka þeim aftur og verða samsek. Á þessari stundu er slík ögurstund í íslensku þjóðlífi.



[11:20]
Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka Pírötum fyrir frumkvæðið að þessari umræðu og ábyrga umfjöllun um málið en það er nauðsynlegt að ræða þetta viðfangsefni á öllum stöðum stjórnkerfisins og stjórnsýslustigum. Siðferði, heilindi og heiðarleiki verða ekki skrifuð í lög en einhvern veginn urðu til þau orðatiltæki að margur verði af aurum api og að mikið vilji meira.

Það er ömurlegt til þess að vita að fólk og fyrirtæki séu tilbúin að nýta sér yfirburðastöðu sína til að græða og skilja eftir sviðna jörð, hvort sem er hér á landi eða utan landsteinanna, í þróunarríki í Afríku. Það er ljóst að orðspor Íslands hefur beðið hnekki á erlendri grundu og að mikið endurreisnarstarf er fram undan. Að íslensk fyrirtæki, einstaklingar og hvað þá stjórnmálamenn eigi fjármuni í skattaskjólum og stundi viðskipti í gegnum þau dregur að sjálfsögðu úr trausti á landi og þjóð. Þess vegna er gagnsæi og eftirlit lykilatriði í öllum viðskiptum, en getur verið að í menningu okkar og orðræðu umberum við um of spillingu? Spilling er misnotkun á valdi og þrífst því miður í öllum stjórnkerfum. Við Íslendingar verðum í okkar litla samfélagi að slíta á alla frændhygli.

Ég vil að lokum vitna í orð Henrys Alexanders Henryssonar siðfræðings, með leyfi forseta:

„… hvað fólki gengur til að sýna af sér það virðingarleysi gagnvart fólki í viðkvæmri stöðu sem mútugreiðslurnar bera með sér. Skilningsleysið á arðráninu er svo víðtækt að mann setur hljóðan. …

Hvað segir þessi atburðarás um íslenska þjóð og viðskiptalíf? …

Að skella allri skuldinni á uppljóstrara er þekkt bragð en lýsir um leið karakter þeirra sem þannig bregðast við.“



[11:22]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ástæða þessarar umræðu hér eru fréttir af skipulögðu, úthugsuðu athæfi íslensks útgerðarfyrirtækis, flaggskips í eiginlegri merkingu þess orðs, við aðstæður sem eru eiginlega eins ömurlegar og hægt er að hugsa sér. Við erum þjóð sem byggir lífsviðurværi sitt á náttúruauðlindum en núna erum við líka þjóð sem svíkur aðra þjóð um eðlilegt endurgjald fyrir auðlind sína. Það er ástæða til að rifja upp að við erum heimsmeistarar í aflandsfélagaeign í skattaskjólum miðað við höfðatölu, eins og fram kom í Panama-skjölunum, og við vitum líka að það eru ekki einu skjölin. Við erum einnig eina ríkið á Evrópska efnahagssvæðinu sem er á gráum lista vegna ónógra peningaþvættisvarna. Staðreyndin er sú að við í íslensku samfélagi þurfum að gæta okkar sérstaklega vel. Við erum einfaldlega í áhættuflokki og höfum ekki staðið okkur nægilega vel í forvörnum. Áhættan felst í frændhygli. Það er ekki flóknara en svo. Áhættan felst í því að við höfum tamið okkur hér, í þessu litla þétta samfélagi okkar, að líta gjarnan á viðleitni til að innleiða lög og reglur sem persónulegar árásir, þar á meðal siðareglur til að koma í veg fyrir að fólk misfari með vald og traust, til að koma í veg fyrir að slíkar aðstæður myndist. Sú tækni virkar mjög vel í okkar litla samfélagi. Ég frábið mér þessar dylgjur, er upphrópun sem gjarnan hefur verið viðbragð við tilraunum til að koma á fót fyrirbyggjandi kerfi. Ertu að ásaka mig? Ég sem var með þér í skóla. Ég þekki mömmu þína, ég réð pabba þinn, ég keypti íbúð af vini þínum, ég hef séð þig með bleiu o.s.frv. Þetta verður alltaf persónulegt og þeirri nálgun er kerfisbundið viðhaldið af þeim sem hafa hagsmuni af því að halda öllum leiðum opnum.

Herra forseti. Það er kominn tími til að við hlýðum kalli almennings og tökum á þessum kerfislæga vanda okkar og sú vinna þarf að byrja hér í þessum sal.



[11:24]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa þörfu umræðu. Manni er brugðið og ég er verulega miður mín yfir því að við séum í þessari stöðu. Ég hef alltaf litið upp til þess dugnaðar og þeirrar elju sem við höfum séð hjá þeim Samherjamönnum, ótrúlegur baráttuvilji. Þeir hafa, eins og ég nefndi áðan, skaffað okkur þarfar krónur í þjóðarbúið. Á sama tíma hefur það líka verið í boði stjórnvalda hverju sinni og þá sérstaklega, eins og við höfum gjarnan sagt, hagsmunagæsluhópsins í Sjálfstæðisflokknum sem hefur búið til þá umgjörð utan um auðlindina okkar að hægt er að fara svona með hana. Það þarf enginn að velkjast í vafa um það hvernig stendur á því að krafturinn og mátturinn varð það mikill að eitt fyrirtækja okkar, Samherji í þessu tilviki, hefur getað haslað sér völl svo víða. Það er einfaldlega út af því að það hefur haft þetta aðgengi að auðlindinni okkar án þess að þurfa að greiða hátt verð fyrir, án þess að þjóðin hafi fengið fullt verð fyrir.

Ég segi: Við verðum að stíga varlega til jarðar. Við erum búin að ganga í gegnum mikinn skell. Við misstum flugfélag sem varð gjaldþrota. Við fengum á einni nóttu fleiri hundruð manna inn á atvinnuleysisskrá. Við duttum inn í hagsveiflu. Við erum búin að týna loðnustofninum okkar, hann verður ekki veiddur í ár frekar en síðastliðið ár. Við skulum vanda okkur vegna þess að það er eftir því tekið út um allan heim hvernig við tökum á þessu máli. Einhvern tíma var byggð skjaldborg utan um fjármálaöflin hér af stjórnvöldum á meðan gjaldborgin var slegin um heimilin í landinu. Við verðum að stíga varlega til jarðar. Við verðum að slá skjaldborg utan um okkar eigin hagsmuni um leið og við viðurkennum aldrei skipulagða glæpastarfsemi eða annað slíkt sem í raun virðist vera uppi á borðum hér. Með rannsóknum og öðru slíku á allt eftir að koma betur í ljós. Við skulum bíða, við skulum reyna að vera hógvær hvað það varðar.



[11:27]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Einhverra hluta vegna sjáum við sífellt ráðamenn rekast á hagsmunaveggi án þess að átta sig á því. Tökum dæmi. Ráðherra hittir hákarla og forstjóra óvart á skrifstofu Samherja og hringir í forstjórann til að spyrja hvernig honum líði. Samt hefur hann engin afskipti haft af fyrirtækinu í 20 ár. Ráðherra segist vera sinn eigin maður en mætir með reglugerð Hvals hf. í ráðuneytið. Ráðherra segist ætla að stíga til hliðar þegar málefni Samherja koma á hans borð en þegar í ljós kemur að Samherji er með hærri hlut aflaheimilda en leyfilegt er samkvæmt lögum, hvað gerir ráðherra þá? Hann skipar starfshóp. Stígur hann til hliðar? Nei, aldrei, af því að ráðherra er sinn eigin maður sem á erfitt með að greina á milli þess hvort hann sé að tala við vin eða stærsta hagsmunaaðilann á málefnasviði hans.

Hvernig dettur okkur í hug eftir öll þau spillingarmál sem eru búin að koma upp á undanförnum árum að þetta sé bara tilfallandi vandamál, einstakt óheppilegt dæmi þar sem útgerð lenti óvart í spillingu, því að annars hefði einhver annar gert það? Við verðum að vakna af þessum þyrnirósarsvefni af því að spillingin, frændhyglin, er nornin okkar. Í tilviki sjávarútvegsráðherra veit ég ekki hvort er verra, að hann hafi verið misnotaður til að bæta ásýnd Samherja eða hvort það hafi verið viljandi. Ásýnd um traust og ábyrgð skiptir nefnilega máli.

Auðvitað er eðlilegt að ráðherra stígi til hliðar í þessum málum í það minnsta því að það safnast þegar saman kemur, sérstaklega á reikningum aflandsfélaga, svo vísað sé til sameiginlegs vandamáls Samherja og Panama-skjalanna. Hvar var rannsóknin þá, virðulegi forseti?



[11:29]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Spillingin hefur fylgt mannkyninu um allar aldir og gerir enn og græðgin rekur menn út á foraðið eins og dæmin sýna. Þjóðir heims hafa sem betur fer í alþjóðasamstarfi með alþjóðlegum samningum unnið að því að herða löggjöf og regluverk til að koma í veg fyrir skattaskjól og peningaþvætti og aðra spillingu í viðskiptalífinu. Mér finnst því mjög jákvætt að þetta mál, þetta skammarlega mál, sé komið til saksóknara og skattrannsóknarstjóra til vinnslu. Það er mikilvægt að bregðast við svona málum strax af festu. Síðustu ár hafa verið stigin mikilvæg skref til að vinna gegn spillingu og auka gagnsæi hér í landi, t.d. hefur umgjörð fjármálakerfisins, regluverk utan um peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka o.fl. verið gjörbreytt en augljóst er að það er verk óunnið og við þurfum að gera betur.

Það kom fram í gær að spillingarmál í namibískum sjávarútvegi hafa verið til skoðunar þar í landi frá árinu 2014 og íslenskur maður er þar með stöðu uppljóstrara. Það á ekki að líða það að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki notfæri sér fátækar þjóðir þar sem oftar en ekki er undirliggjandi spilling til að komast yfir auðlindir þessara fátæku þjóða þar sem misskipting og fátækt ríkir. Það er ósiðlegt og saknæmt athæfi. Það verður aldrei hægt að útrýma spillingu og siðlausum einstaklingum. Það held ég að verði aldrei hægt að gera. En það sem við getum gert er að herða löggjöfina og regluverkið til að taka á spillingu og koma í veg fyrir að menn geti vaðið uppi þvert á öll lög og reglur í skjóli græðgi og óskammfeilni gagnvart samfélaginu. Það verðum við að gera og erum að gera.



[11:31]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Hér er til umræðu spilling í samhengi við nýlega umfjöllun um úthlutun á fiskveiðikvóta í Afríkuríkinu Namibíu og aðkomu íslensks fyrirtækis að kvótaúthlutun á hafsvæði úti fyrir ströndum Suðvestur-Afríku. Málið snertir mikilvægar auðlindir lítillar þjóðar. Þetta leiðir hugann að því hversu mikilvægt það er að við stöndum vörð um auðlindir okkar fyrir ásælni öflugra ríkja, ríkjabandalaga eða alþjóðlegra auðhringja. Þetta er áminning um að við þurfum að standa vörð um allar auðlindir okkar, þar á meðal orkuauðlindirnar, eins og við reyndar ræddum allnokkuð fyrr á þessu ári.

Þetta er ekki mál sem á að reka á pólitískum vettvangi. Það þarf að gefa réttum yfirvöldum ráðrúm og vinnufrið til að vinna sína vinnu og ég treysti lögreglu og saksóknurum okkar til þess verkefnis. Á hinum pólitíska vettvangi eru sumir jafnvel tilbúnir að ganga svo langt að kalla eftir grafalvarlegum og íþyngjandi aðgerðum meðan málið er á frumstigi og setja atvinnuhagsmuni hundraða manna í uppnám.

Herra forseti. Slíkt er fallið til þess að grafa undan réttaröryggi og gerir okkur ekki betur sett á nokkurn hátt. Það er mikilvægt að við stöndum stöðugan vörð um réttarríkið og búum svo um hnútana að þeim stofnunum sem ber að rannsaka þessi mál verði bæði gefinn friður til að vinna þau í sæmilegu næði og að vel sé að þeim hlúð og þær hafi mannafla og önnur verkfæri til að sinna verkefnum sínum af fagmennsku og alúð.

Herra forseti. Það er enginn dómur fallinn og ég hvet til hófsemi í orðavali og viðbrögðum öllum. Skilaboð mín eru einföld: Menn skyldu halda ró sinni og gefa réttum yfirvöldum hér á landi ráðrúm til að rannsaka málið til hlítar.



[11:33]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þau mál sem hér hafa verið til umræðu eru þess virði að ræða í þingsölum, sérstaklega út frá almennum forsendum því að erfiðara er að ræða sértæk mál, enda er hlutverk til þess gerðra og bærra eftirlitsstjórnvalda, rannsóknaraðila, ákæruvalds og eftir atvikum dómstóla, ef mál fara þá leið, að kveða upp úr um það hvort lög hafi verið brotin og hver beri á því ábyrgð. Þessi mál virðast vera komin í eðlilegan farveg og við í þinginu verðum að vænta þess að þau fái þann framgang sem nauðsynlegt er og lög gera ráð fyrir.

Þetta mál vekur óhug. Þær upplýsingar sem fram hafa komið eru vísbendingar um alvarleg brot og mikilvægt er að á því sé tekið með réttum hætti. Þegar við veltum fyrir okkur hvert hlutverk okkar í þinginu er er það ekki, eins og fleiri hafa nefnt í dag, að rétta í málum eða komast að niðurstöðu. Hlutverk okkar er að setja hinn almenna lagaramma sem þarf að fara eftir á sviði viðskiptalífs, stjórnmála og á öðrum sviðum.

Eins og fram hefur komið í ræðum bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hefur þetta í raun verið viðvarandi viðfangsefni í langan tíma hér. Löggjöf hefur sætt miklum breytingum hvað varðar umhverfi fjármálalífs, atvinnulífsins almennt og stjórnsýslunnar, svo dæmi séu nefnd. Þrátt fyrir að við eigum enn þá eftir verkefni á því sviði getur enginn sagt annað en að löggjafarstarf undanfarinna ára, a.m.k. síðustu tíu ára, hefur miðað að því (Forseti hringir.) að færa okkur fram og lagfæra það sem gagnrýnisvert hefur verið í löggjöf okkar á þeim sviðum.



[11:35]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hvað er spilling og hvernig greinum við hana? Hugtakið spilling hefur í raun enga afdráttarlausa og óumdeilda merkingu en orðið er samt þannig að það vekur upp tilfinningar hjá okkur öllum, harðar tilfinningar hjá sumum, skömmustulegar hjá öðrum og enn aðrir hrökkva í vörn. Þrátt fyrir að ekki sé til nein einhlít skýring má halda því fram að spilling sé þegar misfarið er með opinbert vald til persónulegs ávinnings fyrir einn eða marga. Spilling er þannig á kostnað fjöldans í þágu fárra.

Þegar mörg merki birtast í samfélögum um að þar kunni spilling að þrífast veldur það gríðarlegu vantrausti á þá sem valdið hafa. Valdið getur verið alls konar; opinbert vald, lögregluvald, fjármunalegt vald, vald í viðskiptum, vald í dómskerfinu og vald yfir auðlindum. Þeir einu sem hafa í raun og veru vald til að móta umgjörð sem fyrirbyggir spillingu, eða segjum að minnki líkurnar á að spilling þrífist í samfélagi, erum við, stjórnmálafólkið sem mótar reglurnar. Hvar erum við þar þegar innan við 20% þjóðarinnar treysta okkur til að fara rétt með valdið? Það felast nefnilega mikil völd í að setja leikreglurnar en það felast líka heilmikil völd fyrir meiri hluta að setja ekki reglur, að tryggja að ekki séu leikreglur til staðar. Þar liggja mjög mikil völd, að bregðast ekki við þegar á reynir eða fyrirbyggja að leikreglur séu skýrar í þágu allra en ekki bara sumra.



[11:38]
Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er voðalega þægilegt að koma í seinni part umræðunnar vegna þess að þá hafa meginlínurnar svolítið komið fram. Þessi umræða hefur verið góð og á fullan rétt á sér í ljósi þess sem verið hefur í gangi síðustu daga og ég heyri að við hér erum sammála um að sú mynd sem dregin var upp af fyrirtækinu Samherja fyrir tveimur dögum lítur alls ekki vel út. (Gripið fram í.) Okkur er mörgum brugðið.

Það sem skiptir máli hér hjá okkur er að ná að aðgreina hvað er hvers. Hlutverk okkar hér er að setja lög, eins og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir fór ágætlega yfir, það er okkar hér að setja rammana. Við höfum gert margt. Hæstv. forsætisráðherra taldi það upp í ræðu sinni í byrjun hvað hefur verið gert og hvernig umgjörðin lítur út í dag. Er nóg gert? Nei, augljóslega ekki og þessi vinna mun halda áfram. Ég held að henni ljúki aldrei vegna þess að alltaf koma upp nýjar áskoranir sem Alþingi þarf að bregðast við til að þróa lagaumgjörðina sem fyrirtækjum og öðrum ber að starfa eftir.

Ábyrgð allra fyrirtækja er skýr. Það er fyrst og fremst að fylgja lögum og jafnframt að sýna samfélagslega ábyrgð og iðka siðferði í gegnum alla sína starfsemi. Það er svo þar til bærra yfirvalda að rannsaka mál sem upp koma eins og það sem við erum að ræða hér í dag og annarra jafnframt að dæma, ekki okkar hér. Þess vegna þurfum við að fara varlega. (Forseti hringir.) Rannsókn er hafin á þessu tiltekna máli. Dómur er ekki fallinn, við skulum bíða og sjá hverju fram vindur áður en við höfum um þetta stór orð. Okkar hlutverk hér er þó skýrt, það er að bæta lagaumgjörðina um þessi mál.



[11:40]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það er ástæða til að fagna þessari mikilvægu umræðu sem hér fer fram. Við þekkjum það auðvitað öll að nándin í okkar litla samfélagi er mikil sem undirstrikar svo vel mikilvægi þess að leikreglur séu skýrar, að gagnsæi sé til staðar og að við höfum skilvirkt eftirlit með starfsemi sem þeirri sem er m.a. til umræðu. Það leiðir hins vegar hugann að því hvernig við höfum staðið okkur sjálf í svo mikilvægu máli þegar kemur að þeirri atvinnugrein sem hér er til umræðu beint og óbeint, sjávarútveginum í landinu okkar.

Vissulega getum við verið stolt af íslenskum sjávarútvegi fyrir hagkvæmni, fyrir góðan rekstur, fyrir skilvirkni, en um leið hljótum við líka að velta fyrir okkur að í þessum sal höfum við um áratugaskeið glímt við sömu ágreiningsefnin án þess að fá á þeim lausn; auðlindaákvæði í stjórnarskrá, ítrekaðar ráðleggingar starfshópa eftir starfshópa um tímabindingu veiðiheimilda í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, þá miklu samþjöppun sem orðið hefur í atvinnugreininni svo að samanlögð hlutdeild sumra fyrirtækja er komin langt yfir þau viðmiðunarmörk sem við settum okkur þegar fiskveiðistjórnarkerfinu var komið á fót, án þess að við því hafi verið brugðist hér. Og síðast en ekki síst að við leggjum á raunveruleg auðlindagjöld, raunverulegt gjald fyrir aðganginn, fyrir nýtingarréttinn af sameiginlegri auðlind landsmanna sem ítrekað hefur verið reynt að takast á við í þessum sal en við höfum alltaf brugðist.

Það er alveg ljóst þegar við horfum á þá miklu samþjöppun sem orðið hefur í atvinnugreininni að arðsemi hennar er með slíkum hætti að greinin sjálf væri tilbúin til að greiða mun meira fyrir nýtingarréttinn en Alþingi hefur áskilið henni að gera. (Forseti hringir.) Maður spyr sig hverju sæti að í þeirri nánd sem við tölum um í íslensku samfélagi takist okkur í þessum sal ekki að taka á þeim málum og (Forseti hringir.) tryggja að það séu almannahagsmunir sem ráði för en ekki sérhagsmunir atvinnugreinarinnar sjálfrar.



[11:43]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Fyrr í umræðunni kom upp orðatiltækið: Margur verður af aurum api. Ég held að við ættum að biðja þessa prímata, vini okkar í dýraríkinu, afsökunar því að margur maðurinn verður af aurum spilltur og þarf í sjálfu sér ákveðna hjálp. Græðgin verður að fíkn. Er græðgin góð? Andrúmsloftið í samfélaginu einkennist í ríkum mæli af græðgi sem við höfum ekki áður upplifað jafn ríkt og um þessar mundir. Það hefur fjarað undan samfélagslegum skyldum sem og samkennd og samhjálp.

„Það sem ég á við, dömur mínar og herrar, er að græðgi — ef svo má að orði komast er góð. Græðgi er rétt. Græðgi skilar árangri. Græðgi skerpir, tekur af allan vafa og er kjarninn í allri framþróun. Græðgi í öllum sínum myndum — lífsgræðgi, peningagræðgi, ástargræðgi, þekkingargræðgi — hefur einkennt framrás mannkynsins.“

Þetta er bein tilvitnun í bíómynd sem Michael Douglas lék í 1987 og á vel við enn í dag hjá okkur.

Orðspor Íslands bíður aftur og aftur hnekki. Við virðumst ekki geta hamið okkur í allri þeirri græðgi sem á okkur dynur. Eru 110 milljarðar á tíu árum nógu mikill gróði? Eru 10 milljarðar á ári nógu mikill gróði? Nei, svo virðist ekki vera. Í allri þessari umræðu hefur líka komið í ljós að forstjóri Samherja hefur stigið til hliðar meðan rannsókn málsins fer fram. Það er gott.

Við verðum að átta okkur á því að við erum ekki á góðum stað hvað varðar peningamál hjá okkur og við verðum og eigum að gera betur. Ég segi hér og nú: Betur má ef duga skal.



[11:45]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Spilling þrífst í öllum löndum heims. Ísland er ekki sértilfelli. Við erum kannski skárri en mörg önnur lönd og ég fullyrði reyndar að við séum skárri en mörg önnur lönd. Ég hef séð stór peningaþvættismál sem teygja sig yfir margar heimsálfur. Reyndar er þetta stórt peningaþvættismál sem teygir sig yfir margar heimsálfur en þau eru oft stærri. Ég hef séð peningaþvættismál upp á 120 milljarða dollara.

Fórnarlömb alþjóðlegrar spillingar finna ekki fyrir umfanginu. Þau finna bara fyrir afleiðingunum sem eru fátækt, örbirgð og hryllingur. GFI mat árið 2008 að um 1.200 milljarðar dollara flæði út úr þróunarríkjum á hverju ári á móti 100 milljörðum dollara sem flæða inn í formi þróunaraðstoðar. Í svona málum verðum við að átta okkur á alþjóðlega samhenginu og það er rétt sem hæstv. forsætisráðherra sagði, það er gott að þessi mál séu að koma upp á yfirborðið. Við erum að takast á við þessi vandamál. Við höfum staðið okkur mjög vel og ég vil meira að segja meina að hæstv. forsætisráðherra hafi staðið sig einstaklega vel í þessum málaflokki. Það er margt að gerast og ég hef samúð með því að þetta taki langan tíma en við þurfum svolítið að spýta í lófana, ekki bara hér á landi heldur líka í alþjóðasamhengi. Það er ekki hægt að skýla sér á bak við það að þessi mál þurfi að fara í einhvers konar ferli og að réttaröryggi þurfi að tryggja vegna þess að þegar við bíðum alþjóðlegan álitshnekki þurfum við að bregðast við. Það segir líka sitt um rót vandans á Íslandi hvað sumir eru fljótir til að heimta að umræðu um stjórn einnar helstu auðlindar okkar sé haldið utan við umræðuna. Hvers vegna ætli það sé?

Við erum að reyna að bæta okkur og það er gott en við skulum ekki horfa fram hjá rót vandans. Við skulum ekki leyfa okkur að afvegaleiðast. Við verðum að takast á við þetta (Forseti hringir.) fyrir okkur sjálf og fyrir allt mannkynið.



[11:47]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil að lokum þakka fyrir umræðuna. Ég held að minna beri á milli hv. þingmanna í þessum málum en mörgum öðrum og þá er ég sérstaklega að vísa til þess sem hefur verið gert á undanförnum áratug, eins og ég nefndi í fyrri ræðu. Margar umbætur hafa verið gerðar, flestar í góðri samstöðu, en um leið tek ég undir það með hv. þingmanni og málshefjanda, Smára McCarthy, að við getum gert betur, ekki síst þegar kemur að hinu alþjóðlega samstarfi. Þar höfum við bætt okkur á undanförnum árum með upplýsingaskiptasamningum og mikilli vinnu innan OECD en vegna eðlis spillingarinnar, vegna þess eðlis fjármagnsins að leita til þeirra staða þar sem ljósið skín ekki, skiptir alþjóðlegt samstarf og alþjóðleg samskipti alveg gríðarlega miklu máli. Þar höfum við verið að taka okkur á en getum gert betur.

Ég tek líka undir með þeim sem tala sérstaklega um nándina í íslensku samfélagi. Við vitum öll að nándin og smæðin gerir verkefni okkar flóknara en ég vil líka segja að þegar ég var kjörin á þing árið 2007 voru engar siðareglur fyrir þingmenn. Þau mál voru ekki til umræðu. Í dag finnst okkur sjálfsagt að hafa siðareglur, ræða þær, velta því fyrir okkur hvað það þýðir að vera kjörinn fulltrúi þannig að margt hefur gerst. Ég sagði áðan að ég væri nokkuð viss um að málið sem við erum að ræða í dag hefði ekki vakið sömu viðbrögð árið 1997, svo dæmi sé tekið. Mér finnst ekki hægt að stíga fram og segja: Við lærum aldrei neitt. Það gerist aldrei neitt.

Það er ekki þannig. Ég tel að við höfum gert mjög margt gott, til að mynda árið 2016 þegar skattundanskot voru hvað mest til umræðu. Þá náðum við samstöðu í þinginu þvert á flokka um mjög miklar umbætur í þeim málum.

Það er samt mikilvægt að vera alltaf á tánum og ég nefndi áðan boðað frumvarp mitt um hagsmunaárekstra í stjórnsýslunni sem ég vonast til að geti orðið enn til að bæta þessi mál, frumvarp um vernd uppljóstrara o.fl. Við þurfum alltaf að vera (Forseti hringir.) á vaktinni og meðvituð um að við getum gert betur en ég er mjög bjartsýn eftir þessa umræðu um að við getum það.