150. löggjafarþing — 34. fundur
 25. nóvember 2019.
tímabundnar úthlutanir veiðiheimilda.

[15:34]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Samherjamálið hefur sett á dagskrá, ofan í áratugalangar deilur um það, hver fari með forræði yfir nýtingarrétti á sameiginlegri sjávarauðlind landsmanna, þjóðin eða útgerðin, og hvernig þjóðinni skuli tryggð sanngjörn hlutdeild í mikilli arðsemi þessarar greinar. Arðsemin skýrist auðvitað af því að greinin nýtir þá sameiginlegu auðlind okkar gegn mjög vægu veiðigjaldi, gjaldi sem áætlað er upp á 5 milljarða kr. á næsta ári og til samanburðar má nefna að Samherji greiddi tvöfalt hærra verð á hvert tonn fyrir veiðiheimildir sínar í Namibíu. Fjöldi tilrauna hefur verið gerður til að ná sátt í þessu máli. Fyrst ber auðvitað að nefna tillögu auðlindanefndar Jóhannesar Nordals frá árinu 2000 sem fól í sér að veiðiheimildum skyldi úthlutað gegn gjaldi til afmarkaðs tíma. Þeirri niðurstöðu var raunar fagnað af þáverandi formanni Sjálfstæðisflokksins en komst aldrei til framkvæmda. Þá má minnast á svonefnda sáttanefnd sem starfaði í tíð vinstri stjórnarinnar og að sama skapi tillögur um tímabundnar veiðiheimildir sem samráðsvettvangur stjórnvalda um aukna hagsæld lagði fram. Síðast en ekki síst reyndi þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og núverandi formaður Framsóknarflokksins í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að leggja til breytingar í þá veru en því var hafnað af samstarfsflokki ráðherra og málið komst aldrei til þinglegrar meðhöndlunar.

Það er því ljóst að Framsóknarflokkurinn styður hugmyndir Viðreisnar og fleiri flokka um tímabundna úthlutun veiðiheimilda en Sjálfstæðisflokkurinn virðist standa uppi sem helsti andstæðingur þeirra. Í ljósi þeirrar staðreyndar að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa setið í ríkisstjórn, ýmist annar eða báðir, í 32 af þeim 36 árum sem kvótakerfið hefur verið við lýði, hljótum við getað dregið þá ályktun að ábyrgðin þarna liggi helst hjá Sjálfstæðisflokknum því að Framsóknarflokkurinn er klár. Því vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins: Hverra hagsmuna er flokkurinn að gæta í þessari andstöðu sinni við tímabundnar veiðiheimildir; hagsmuna þjóðarinnar eða hagsmuna sífellt fámennari eigendahóps íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja?



[15:36]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður veit mætavel þá þurfti hvorki aðkomu formanns Framsóknarflokksins né flokksins yfir höfuð til þess að setja í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar að fiskveiðistjórnarfyrirkomulag með tímabundnum samningum yrði tekið til skoðunar. Þeirri vinnu var ekki lokið. Það að menn hafi athugasemdir við ákveðna útfærslu af því þýðir ekki að menn séu kategórískt á móti sérhverri breytingu á því fyrirkomulagi sem við erum með í dag. Það er bara skrum að halda því fram, ekkert annað.

Ég hef hins vegar alltaf spurt mig, þegar á góma ber hugmyndir Viðreisnar um uppboð á aflaheimildum, hvernig flokkurinn hyggst tryggja hið dreifða eignarhald. Eftir því sem menn gera kröfu um hærra veiðigjald er ljóst að það verða einungis hinir fáu stóru sem munu geta risið undir gjaldinu og eftir því sem menn ætla að auka frelsið með viðskipti með aflaheimildirnar, t.d. með því að bjóða þær allar upp á hverjum tíma, verður hreyfanleiki þeirra mögulega meiri og líkurnar á því að þær safnist á færri hendur aukast verulega. Daði Már Kristófersson prófessor orðaði það þannig á sínum tíma að besta leiðin til að stórauka framleiðni í sjávarútvegi, auka hagræði, væri að hækka veiðigjaldið. Það tryggir að heimildirnar fara á færri hendur en það er einmitt hluti gagnrýninnar þessa dagana að veiðiheimildirnar séu á of fárra höndum. Þá koma menn eins og hv. þingmaður hér upp í ræðustól og segja: Allar heimildir á markað, við skulum taka upp tímabundnar heimildir, fyrnum heimildirnar allar og tryggjum frjáls viðskipti með allan kvóta. Það mun auðvitað á endanum ekki leiða til annars en að það verða enn færri og stærri aðilar en við sjáum í dag vegna þess að allir sjá í hendi sér að það eru bara þeir allra stærstu sem munu geta risið undir stórhækkuðu veiðigjaldi sem þessir aðilar boða.



[15:38]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég saknaði þess að hæstv. fjármálaráðherra svaraði fyrri fyrirspurn. Ef við horfum einmitt til þess sem ráðherra kom inn á er auðvitað staðreynd að arðsemi sjávarútvegs hefur verið mjög mikil á undanförnum árum. Greinin hefur byggt upp tæplega 500 milljarða eigið fé á um áratug á sama tíma og Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa verið helst uppteknir við það að lækka veiðigjöld. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í útvarpsþættinum Sprengisandi um helgina að það truflaði hann ekki persónulega þótt einhverjir hefðu hagnast á þessari vegferð. Það er auðvitað alveg rétt, það er ekki út af fyrir sig athugavert við að fólk efnist á útsjónarsemi í rekstri, en því verður vart haldið fram að þjóðin hafi á sama tíma notið sanngjarnrar hlutdeildar í arðsemi greinarinnar.

Hvað er það sem hæstv. ráðherra, sem á tyllidögum kallar sig hægri mann, óttast svo við að veiðiheimildir séu boðnar út til 23 ára í senn eins og tillaga formanns Framsóknarflokksins á sínum tíma hljóðaði upp á? Er það kannski svo að útgerðin sé reiðubúin að greiða meira fyrir afnotaréttinn líkt og dæmin sýna, m.a. frá Namibíu? (Forseti hringir.) Er það kannski einmitt að það komi í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn hafi með áralangri andstöðu sinni við (Forseti hringir.) breytingar á fiskveiðistjórn snuðað þjóðina um sinn hlut?



[15:40]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að talsmenn Viðreisnar hafi einmitt tekið það sérstaklega fram að engin trygging sé fyrir því að hærra gjald komi fyrir aðgengi að takmarkaðri auðlind með uppboðsleiðinni, það sé engin trygging fyrir því, þetta sé bara prinsippmál; það skipti ekki máli hvort menn muni greiða hærra eða lægra gjald, heldur að það verði einfaldlega að ráðast á markaði. Það er mjög holur hljómur í þeim málflutningi að það fari saman og að það sé einhver trygging fyrir því að fara með heimildirnar á markað og tryggja þjóðinni aukna hlutdeild í því að veita aðgengi að auðlindinni.

Þetta bara gengur ekki upp. (ÞorstV: … borga meira.) Þetta gengur ekki upp. Það sem við vitum er að eftir því sem menn hafa náð meiri hagræðingu hefur þeim gengið betur. Það sem við vitum er að 1993 og 1983–1984 gekk útgerðin á Íslandi almennt mjög illa og, já, það er ágætt og það kemur mér svo sem ekki mjög á óvart en hv. þingmaður þurfti að hafa dálítið fyrir því (Forseti hringir.) að draga það fram hér að það sé í lagi að hafa arðsemi af útgerð eins og öðrum atvinnurekstri í landinu en það hefur stundum verið dálítið djúpt á því hjá Viðreisn að taka þetta fram, meira að segja hjá fyrrverandi framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. (Gripið fram í: Við viljum að þjóðin fái arð.)