150. löggjafarþing — 34. fundur
 25. nóvember 2019.
upplýsingagjöf um kolefnislosun.
fsp. ÞKG, 199. mál. — Þskj. 208.

[16:58]
Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég hef beint fyrirspurn til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra sem hljóðar svo: Hvernig hyggst ráðherra efla upplýsingagjöf um kolefnislosun þannig að tölur um losunina verði ekki meira en hálfs árs gamlar?

Það er ákveðin ástæða fyrir því að ég set þetta fram. Ég geri mér grein fyrir því að hæstv. ráðherra mun væntanlega svara því — ég er að reyna að geta mér til um það hver svörin verða — að Umhverfisstofnun hafi nú þegar verið falið að gera losunarspá til næstu tveggja ára og ég vil undirstrika að það er fínt og það er vel en það er aðeins spá. Spáin byggir ekki á endanlegum gögnum. Auðvitað eru þær mjög gagnlegar en við þurfum að fá niðurstöður fyrr sem eru byggðar á raunverulegum gögnum og miklu fyrr en núna er raunin. Ég vil helst sjá að við fáum raunupplýsingar ekki síðar en sex mánuðum eftir hver áramót.

Það þarf að efla og styrkja upplýsingagjöf stjórnvalda þannig að almenningur viti hver árangurinn er miklu nær rauntíma en nú er. Ég vil spyrja í leiðinni hvort ráðherra sé mér ekki sammála hvað það varðar og þá nálgun.

Við vitum að hægt er að gera betur en raunin er og ég veit að hæstv. umhverfisráðherra hefur fullan hug á að standa fyrir slíkum vinnubrögðum. Ég tel líka, ekki síst í ljósi margs konar umræðu af hálfu alls konar hópa og fólks, að betri upplýsingar, skjótari upplýsingar séu valdeflandi fyrir allan almenning, ekki síst unga fólkið. Unga fólkið okkar vill sjá aðgerðir, helst um leið. Við verðum að reyna að koma fram með svör og úrlausnir eins fljótt og hægt er. Þess vegna skipta upplýsingar máli en að mínu mati ekki síst núna fyrir þessa hópa fólks. Það væri hjálplegt að hafa upplýsingarnar nær í tíma í samskiptum okkar, ég veit t.d. að hæstv. ráðherra stendur í því alla daga að vera í samskiptum við loftslagshlýnunarafneitunarsinna. Þá hjálpa upplýsingar mjög mikið, rök og upplýsingar eins nálægt í tíma og hægt er.

Þess vegna hvet ég ráðherra og vil fá um leið svar frá honum um hvort hann ætli ekki að efla upplýsingagjöf, ekki bara benda á og vera með einhverjar losunarspár til næstu tveggja ára heldur hvernig hann hyggist bæta upplýsingagjöfina og hvort hann ætli ekki að færa hana nær tíma. Ég held að það væri mjög í þágu allrar umhverfisumræðu.



[17:01]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir góða fyrirspurn. Fyrst er kannski að segja að miklar kröfur eru lagðar á Ísland líkt og önnur ríki um bókhald um losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisbindingu og mikilvægt að vel sé haldið utan um það líkt og hv. þingmaður kom inn á. Bókhaldið tengist alþjóðlegum skuldbindingum Íslands og hjálpar okkur að beina aðgerðum í þá átt að þær skili sem mestum ávinningi fyrir loftslagið. Einnig skiptir miklu að upplýsingagjöf sé bæði áreiðanleg og skýr. Umræða um loftslagsmál hefur stóraukist á síðustu misserum og erfitt getur verið að henda reiður á tölum um losun og hvað þær þýða, t.d. varðandi skuldbindingar Íslands.

Lögum samkvæmt er það Umhverfisstofnun sem ber ábyrgð á að halda utan um losunarbókhald Íslands og skila því til annars vegar loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og hins vegar til Evrópusambandsins. Árlega er send umfangsmikil skýrsla til loftslagssamningsins. Bókhaldið er líka tekið út árlega af hálfu samningsins og athugasemdir gerðar ef eitthvað er óljóst. Margir fleiri koma að bókhaldinu, ekki síst Landgræðslan og Skógræktin, sem sjá um bókhald varðandi losun og kolefnisbindingu sem tengist landnotkun. Umhverfisstofnun þarf gögn frá fjölmörgum aðilum, svo sem Orkustofnun, Hagstofu Íslands, Matvælastofnun og fyrirtækjum.

Ég nefni þetta til að gefa hugmynd um umfang bókhaldsins. Ég held að ég geti fullyrt að engin upplýsingasöfnun á vettvangi umhverfismála hljóti jafn mikla og góða rýni og loftslagsbókhaldið. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur fengið beiðnir um að birta upplýsingar um losun Íslands fyrr en nú er gert og hefur beint þeim til Umhverfisstofnunar. Stofnunin hefur þá bent á að miklar kröfur séu gerðar til bókhaldsins, að upplýsingar komi frá mörgum aðilum og að unnið sé samkvæmt dagsetningum og ferlum sem kveðið er á um í lögum og reglugerð og í alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Iðulega hafi auk þess verið gerðar breytingar á tölum frá því að þær koma inn og þar til bókhaldi og skýrslu sé skilað til loftslagssamningsins. Umhverfisstofnun hefur af þeim sökum verið hikandi við að birta tölur fyrr.

Ég hef ákveðinn skilning á því og sýnist að erfitt sé að birta áreiðanlegar heildartölur um losun Íslands öllu fyrr en gert er. Það er hins vegar spurning hvort ekki sé hægt að setja fram fyrr bráðabirgðatölur um ákveðna þætti sérstaklega. Þar vil ég nefna losun vegna eldsneytisnotkunar sem gæti komið að verulegu gagni í tengslum við aðgerðir varðandi orkuskipti í samgöngum sem líka er áherslumál. Þetta mætti gera með fyrirvara um nákvæmara mat síðar. Ég tel rétt að kanna þetta því að krafa um skýra og tímanlega upplýsingagjöf innan lands hefur vaxið með auknum áhuga á loftslagsmálum. Ég mun því biðja starfsmenn ráðuneytisins að skoða þetta í samstarfi við Umhverfisstofnun og tek þar með undir með hv. þingmanni, ég held að við séum nokkuð sammála um þetta og mikilvægi þess að þessar upplýsingar séu sem fyrst á reiðum höndum í tíma.

Ég vil líka benda á í því samhengi að Hagstofa Íslands hefur eflt starf sitt varðandi loftslagsmál og gefur núna reglulega út tölfræði um losun. Þar er notast við aðra flokkun á uppsprettum losunar gróðurhúsalofttegunda en Umhverfisstofnun notar. Flokkun Hagstofunnar er í samræmi við alþjóðlega hagstofustaðla en Umhverfisstofnun styðst við leiðbeiningar loftslagssamningsins. Hvort tveggja er rétt, en ég hef orðið var við að þessi mismunandi framsetning hafi valdið ruglingi. Það er ekki gott því að við þurfum að bera upplýsingar á borð fyrir almenning og áhugasöm þannig að þær séu skýrar og vel skiljanlegar. Ég hef því beðið ráðuneytið að skoða þau mál með Umhverfisstofnun og Hagstofunni, einmitt með það fyrir augum að samræma framsetningu upplýsinga eða a.m.k. að útskýra hvers vegna tölur virðast vera mismunandi. Það skiptir ekki bara máli að fá tölur fyrr, heldur þarf að setja þær fram á skýran og aðgengilegan hátt.

Ég tek aftur fram að ég held að við hv. þingmaður séum nokkuð sammála um það atriði sem er til umræðu og þakka aftur kærlega fyrir fyrirspurnina.



[17:06]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil nýta tækifærið til að taka undir með hæstv. ráðherra og hv. þingmanni sem flytur þessa fyrirspurn um mikilvægi þess að slíkar upplýsingar liggi fyrir og séu hvað skýrastar vegna þess að við kljáumst enn þá við það stórfurðulega vandamál að jafnvel fólk sem ætti alveg að geta vitað betur hafnar einhverju sem er vitað með þeirri vissu sem vísindin bjóða upp á í tilheyrandi málaflokki. Fólk kemur í pontu jafnvel og talar eins og það sé ekki alveg fullkomlega sannfært um að verulegar loftslagsbreytingar eigi sér stað af mannavöldum eða þá að það fer í þann málflutning sem er náskyldur, að ekkert sé hægt að gera í því, alveg sama hverju fólk stingi upp á, það muni aldrei laga vandann, það sé alltaf eitthvað annað. Svo kemur auðvitað aldrei í ljós hvað nákvæmlega þetta annað er.

Eins þreytandi og það er að vera sífellt að tyggja staðreyndir ofan í fólk er sömuleiðis mjög mikilvægt að staðreyndirnar séu hvað skýrastar þannig að (Forseti hringir.) það sé þó hvað auðveldast að kveða niður bábiljur sem eru fluttar fram af fólki sem tekur þátt í umræðunni af allt annarri ástæðu en þeirri að reyna að vernda hagsmuni mannkyns til framtíðar.



[17:07]
Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með fyrirspyrjanda að nauðsynlegt er, ef menn vilja ræða tölfræði í þessum málum, að rétt tölfræði liggi fyrir. Fyrirspyrjandi leggur áherslu á að auka upplýsingagjöf. Í þessum málum verða upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda ekki hristar fram úr erminni. Losun byggir á ýmsum gögnum, m.a. frá atvinnulífinu, og það að fjölga skýrsluskilum í atvinnulífinu með tilheyrandi kostnaði tel ég ekki málinu til framdráttar og ekki heldur mikið upplýsandi vegna þess að losun er mjög árstíðabundin. Fyrirspyrjandi vísar sérstaklega til þess að upplýsingar verði ekki meira en hálfs árs gamlar eins og stendur í fyrirspurninni. Ég teldi fyrsta skref miklu vænlegra, þ.e. að Umhverfisstofnun myndi ekki nýta þær upplýsingar og þá tölfræði sem hún þegar hefur til að villa fyrir um í umræðunni, með tölum eins og hún hefur t.d. verið að gera núna um losun frá bifreiðum (Forseti hringir.) sem hún hefur haldið fram að væri 34% en ekki 6%, hlutdeildin, sem stofnunin hefur nýverið hins vegar leiðrétt (Forseti hringir.) eftir umræðu um þau efni.



[17:08]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég verð fljótur að þessu. Mig langar bara að benda á að losunartölur eru tvenns konar. Það eru þær sem hægt er að reikna út frá eins og notkun jarðefnaeldsneytis hvar sem er eða kola eða annars í iðnaði. Það er sem sagt hægt að reikna það út vegna þess að vitað er um innihaldið í hverju tonni eða kílógrammi. Hinar tölurnar sem um er að ræða eru þær sem eru fengnar með því að vinna mælingar í t.d. votlendi eða skógi. Það getur verið bindingin í skóginum eða losunin í votlendinu. Það væri hægt að gera mælingar fyrir ýmsar gerðir og síðan er hægt að margfalda þær tölur sem þar fást við flatarmál skóga eða votlendis.

Í öllum tilvikum er þetta flókið og það eru verulegar óvissutölur sem fást með þessu móti, bara svo það sé sagt.



[17:10]
Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Spurningin snýst um það að við getum verið svolítið sambærileg og á svipuðu pari og vinaþjóðir okkar til að mynda á Norðurlöndum þannig að við höfum úr sömu upplýsingum og sömu gögnum að vinna. Það kemur mér í sjálfu sér ekki á óvart að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hnýti í stofnanir sem tengjast umhverfismálum og reyna að miðla gagnmerkum gögnum. Ég lýsi yfir ákveðinni samúð með hæstv. ráðherra að þurfa að standa í þessari baráttu lon og don samhliða því stóra verkefni að efla umhverfisvitund og horfast í augu við hamfarahlýnun vegna loftslagsmála.

Við verðum að hafa hugfast, af því að Parísarsamningurinn var nefndur, að við erum að tala um það samhengi að samdráttur í losun er frá þessum fimm geirum; samgöngum, sjávarútvegi, landbúnaði, minni iðnaði og úrgangi. Þetta eru nákvæmlega þeir geirar sem falla undir ábyrgð stjórnvalda gagnvart Parísarsamningnum. Ef við skoðum þessa fimm geira er einmitt losunin vegna vegasamgangna 34%. Það er ekki hægt að tala það niður. Það skilar mestum árangri, ef við getum gagnályktað sem svo, að einblína einmitt á þennan geira með aukinni rafbílavæðingu og/eða auknum almenningssamgöngum. Ég fagna því sem er að gerast einmitt á höfuðborgarsvæðinu hvað það varðar.

Ég ítreka og undirstrika aftur það sem ég kom ekki nægilega skilmerkilega frá mér áðan að mig langar að spyrja hæstv. umhverfisráðherra, um leið og ég tek undir með honum að gögnin þurfa að vera sambærileg, við þurfum að hafa þau skýr, aðgengileg, nýtileg og gegnsæ, hvort hæstv. ráðherra telji unnt að reka trúverðuga loftslagsstefnu eða aðgerðaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda ef gögnin eru tveggja ára gömul.



[17:12]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum fyrir þátttökuna í þessari umræðu. Ég held að það sem er hér til umræðu sé kannski frekar það að geta komið fyrr fram með gögn og upplýsingar en endilega að fjölga skýrsluskilum og held að það sé kannski ekki það sem hv. þingmaður og alla vega ekki ég var að benda á. Ég tek undir þær útskýringar sem koma fram í máli hv. þingmanns varðandi hlutdeild í vegasamgöngum. Þessi 34% eru það sem er af beinum skuldbindingum Íslands gagnvart Parísarsamkomulaginu. Ef fleiri þættir en þeir eru teknir inn í minnkar vægi þeirra.

Ég er spurður hvort það sé trúverðug stefna í loftslagsmálum með aðgerðaáætlun ef gögn sem notuð eru til að sýna hver losunin hefur verið eru tveggja ára gömul. Ég myndi vilja svara því þannig að alltaf er betra að hafa gögnin nær í tíma. Ég held hins vegar að stefnan geti alveg verið trúverðug. Hvert erum við að stefna? Við höfum séð t.d. að útlosun frá vegasamgöngum hefur aukist á síðustu árum. Það er mikil áhersla á það í stefnu stjórnvalda.

Við fylgjum þeim leiðbeiningum sem koma frá alþjóðasamfélaginu um að orkuskipti skipta hvað mestu máli þegar kemur að því að draga úr losun, þ.e. að fara úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlegar orkuauðlindir, og síðan kolefnisbinding. Ég hef ekki allt of miklar áhyggjur af því að stefnan sé ekki trúverðug þó að við séum með tveggja ára gögn því að það byggir í rauninni á því sem þegar hefur verið losað, þó að vissulega væri betra að geta fylgst með því á hvaða stað við erum og hvernig við getum borið það saman við áætlanir, markmið og aðgerðir sem við erum að gera ef við erum með gögn nær okkur í tíma. Ég held að það sé mögulega hægt að ná því, alla vega í sumum þáttum, (Forseti hringir.) sérstaklega sem snúa að brennslu jarðefnaeldsneytis.