150. löggjafarþing — 37. fundur
 28. nóvember 2019.
tekjustofnar sveitarfélaga og sveitarstjórnarlög , 1. umræða.
stjfrv., 391. mál (forsendur úthlutana úr Jöfnunarsjóði). — Þskj. 524.

[14:17]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og sveitarstjórnarlögum. Markmið frumvarpsins er fyrst og fremst að styrkja það lögbundna hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga. Tilefnið er fyrst og fremst hæstaréttardómur frá 14. maí 2019 í máli nr. 34/2018. Þar komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að lagaákvæði sem kvað á um að heimilt væri að mæla fyrir í reglugerð um niðurfellingu á jöfnunarframlögum til tekjuhæstu sveitarfélaga landsins fullnægði ekki þeim lagaáskilnaði sem kveðið er á um í 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrár. Umrætt ákvæði stjórnarskrárinnar segir að tekjustofnar sveitarfélaga skuli ákveðnir með lögum svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir. Í kjölfar dómsins hóf ráðuneytið vinnu við að yfirfara regluverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að skýra heimildir löggjafarinnar um að fella niður framlög úr sjóðnum í samræmi við forsendur hæstaréttardómsins. Ráðuneytið hefur jafnframt komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að lögfesta tilteknar reiknireglur sjóðsins í þeim tilgangi að færa frekari stoðir undir reglur um úthlutanir jöfnunarframlaga og skýra grundvöll og forsendur framlaga sjóðsins.

Í stórum dráttum má skipta meginefni frumvarpsins í nokkra hluta. Í fyrsta lagi er um að ræða breytingar sem lagðar eru til í þeim tilgangi að uppfæra tilvísanir laga og úreld ákvæði. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um tekjustofna sveitarfélaga þar sem nánar er gerð grein fyrir forsendum og útreikningi framlaga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Breytingarnar sem lagðar eru til eru að mestu leyti lögfesting þeirra reglna sem er að finna í reglugerðum og settar hafa verið á grundvelli laganna í gegnum tíðina. Hafa þannig margar af þeim reglum sem er að finna í frumvarpinu verið í gildi í áratugi og varða m.a. framlög til sameiningar sveitarfélaga, grunnskólaframlög og hin almennu jöfnunarframlög sjóðsins.

Það er rétt að vekja sérstaka athygli á því að þau lagaákvæði sem hér eru lögð til hafa ekki í för með sér breytingar á framlögum sjóðsins frá því sem nú er, heldur er fyrst og fremst markmiðið að styrkja grundvöll og útreikning þeirra framlaga sem þegar eru veitt úr sjóðnum. Hafa ákvæðin öll það málefnalega markmið að jafna stöðu einstaklinga sem búa í sveitarfélögunum auk þess sem þau byggja á hlutlægum mælikvörðum sem standa sannarlega í samhengi við þörf sveitarfélaganna á jöfnun tekna sinna og útgjalda.

Í þriðja lagi er að finna í frumvarpinu ákvæði sem heimila jöfnunarsjóði að gera ákveðnar tilfærslur á úthlutun framlaga sjóðsins. Lagt er til að lögfest verði bráðabirgðaákvæði sem veiti sjóðnum heimild til að halda eftir allt að 1.000 millj. kr. á ári í 15 ár af tekjum jöfnunarsjóðs sem ekki renna til málefna fatlaðs fólks eða reksturs grunnskóla. Af þessu tilefni er rétt að nefna að það er og hefur verið lögbundið hlutverk jöfnunarsjóðs að veita framlög vegna sameiningar sveitarfélaga og hafa framlög vegna þessa numið að meðaltali um 300 millj. kr. síðustu tíu ár. Það bráðabirgðaákvæði sem nú er mælt fyrir um veitir jöfnunarsjóði eingöngu heimild til að halda eftir fjármunum á hverju ári næstu 15 árin til að safna í sjóð sem mætir auknum útgjöldum vegna fyrirhugaðra sameininga sveitarfélaga næstu ár. Auk þess er lagt til að jöfnunarsjóði verði veitt heimild í bráðabirgðaákvæði til að nýta laust fjármagn úr fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að greiða fyrir þau uppgjör við þau fimm sveitarfélög sem urðu fyrir skerðingu jöfnunarframlaga á grundvelli reglugerðarákvæðisins sem ekki hafði nægjanlega lagastoð á árunum 2013–2018. Um er að ræða allt að 1.300 millj. kr. sem greiddar hafa verið til umræddra sveitarfélaga. Greiðslan úr fasteignasjóði verði síðan jöfnuð út með því að halda eftir litlum hluta af framlögum sjóðsins í allt að sex ár til að lágmarka áhrif uppgjörsins á heildarframlög til sveitarfélaga.

Í fjórða lagi er lögð til breyting á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, um að felld verði úr gildi regla sem kveðið er á um í 132. gr. sveitarstjórnarlaga. Ákvæði 132. gr. í heild sinni veitir ráðuneyti sveitarstjórnarmála heimild til að staðfesta samþykkt um stjórn sveitarfélags sem gerir ráð fyrir öðru stjórnskipulagi en kveðið er á um í sveitarstjórnarlögum ef um tilraunaverkefni er að ræða vegna sameiningar sveitarfélaga. Reglan sem lagt er til að felld verði úr gildi er sú að einungis ein sameiningartilraun sama eðlis verði heimiluð í einu. Niðurfelling reglunnar er hluti af aðgerðum sem hafa þann tilgang að auðvelda sameiningar sveitarfélaga.

Þá er að lokum lagt til að lögfest verði almenn heimild til að fella niður framlög til sveitarfélaga sem eru með 50% hærri meðaltekjur á hvern íbúa miðað við sambærileg sveitarfélög. Reglan sem um ræðir var umfjöllunarefni hæstaréttardóms nr. 34/2018 og er megintilefni frumvarpsins. Reglan felur í sér að eftir að framlög jöfnunarsjóðs hafa verið reiknuð út samkvæmt reiknireglunum sjóðsins eru framlög til allra tekjuhæstu sveitarfélaga landsins felld niður áður en til úthlutunar kemur. Ákvæðið gerir það að verkum að framlög til sveitarfélaga sem síst þurfa á slíkum framlögum að halda falla niður og renna í stað þess til þeirra sveitarfélaga sem hafa meiri þörf á tekjunum til að geta þjónustað íbúa sína með lögbundnum hætti.

Virðulegi forseti. Við þessa lagasetningu kann að vera spurt: Hver er tilgangur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga? Er ástæða til að halda í kerfi sem dreifir skatttekjum til sveitarfélaga með mismunandi hætti, jafnvel þannig að framlög til ákveðinna sveitarfélaga falli alfarið niður? Því er til að svara að öllum þeim reglum sem hér er mælt fyrir er ætlað að ná þeim markmiðum að jafna stöðu þeirra sveitarfélaga sem eru með lægri tekjur í samanburði við sambærileg sveitarfélög. Tilgangurinn er að allir íbúar landsins fái notið sams konar þjónustu frá sínu sveitarfélagi, sama hvar þeir búa á landinu og er það lykilforsenda í allri löggjöf um jöfnunarsjóð sem heitir jú einmitt jöfnunarsjóður. Í þessu samhengi er rétt að nefna að í 5. tölulið 9. gr. Evrópusáttmála um sjálfstjórn sveitarfélaga sem Ísland hefur fullgilt, segir, með leyfi forseta:

„Til þess að tryggja hag sveitarstjórna, sem standa verr að vígi fjárhagslega, þarf að vera fyrir hendi fyrirkomulag um jöfnun tekna eða samsvarandi aðgerðir sem hafa það markmið að leiðrétta áhrif ójafnrar tekjuskiptingar og þeirra útgjalda sem þær þurfa að standa undir. Slíkar leiðir eða aðgerðir skulu ekki draga úr athafnafrelsi sveitarstjórna innan valdsviðs þeirra.“

Gerir Evrópusáttmálinn þannig ráð fyrir að starfrækt verði kerfi sem tryggir hag sveitarfélaga með því að jafna tekjur þeirra. Tilurð og starfsemi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er því einnig mikilvægur hluti af því að tryggja sjálfsstjórn sveitarfélaga þannig að öll sveitarfélög geti staðið undir lögbundnum verkefnum sínum með hag allra íbúa þessa lands að leiðarljósi.

Með frumvarpi þessu er stefnt að því að eyða réttaróvissu um lagastoð fyrir þeirri stjórnsýslu sem Jöfnunarsjóður sveitarfélaga annast fyrir hönd íslenska ríkisins og sveitarfélaga samkvæmt markmiði laganna. Verði frumvarpið að lögum er um mikla réttarbót að ræða sem einnig ætti að girða fyrir hættu á málaferlum sem gætu haft í för með sér frekari ríkisútgjöld og lækkun framlaga úr sjóðnum til allra sveitarfélaga. Miðar frumvarpið því annars vegar að því að gera Jöfnunarsjóði sveitarfélaga áfram kleift að sinna því meginhlutverki sínu að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum og hins vegar að því að styrkja sveitarstjórnarstigið með því að auðvelda sameiningar sveitarfélaga.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til um.- og samgn.