150. löggjafarþing — 38. fundur
 2. desember 2019.
heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 183. mál. — Þskj. 184, nál. 495 og 498.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[16:34]

[16:26]
Karl Gauti Hjaltason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um svokallað Guðmundar- og Geirfinnsmál, heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar. Af því tilefni vil ég árétta þá afstöðu Miðflokksins í málinu að þetta mál eigi ekki á þessu stigi heima í sölum Alþingis. Eins og málið liggur fyrir á þessu stigi núna, samningar og ákvörðun um bótaskyldu og bótafjárhæð, er það tvímælalaust verkefni viðkomandi stjórnvalda sem sinna samningum fyrir ríkisvaldið og dómstóla ef ekki semst um. Á meðan þau mál hafa ekki hlotið afgreiðslu á þeim vettvangi og niðurstaða liggur ekki fyrir á málið ekki erindi á Alþingi. Miðflokkurinn telur skylt að horfa til þrígreiningar ríkisvaldsins samkvæmt stjórnarskránni, að ein grein ríkisvaldsins gangi ekki inn á verksvið annarrar. Hitt ber þó ekki að útiloka, herra forseti, að málið komi á dagskrá eftir að dómstólar hafa komist að niðurstöðu ef svo ber undir, en það er þeirrar tíðar mál.



[16:28]
Jón Steindór Valdimarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég styð málið og skrifaði undir nefndarálitið. Ég gerði það þó með fyrirvara ásamt fleiri þingmönnum sem ég vil ítreka og tel rétt að komi fram. Það er skrifað undir með fyrirvara um að málsmeðferð stjórnvalda í sáttaferlinu, sérstaklega framlagning greinargerðar setts ríkislögmanns í umboði ríkisstjórnarinnar sem vörn í bótamáli gegn ríkinu, hafi ekki verið til þess fallin að greiða fyrir farsælli lausn og sáttum.



[16:29]
Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég kem hingað upp til að taka undir með þó nokkrum af þeim lögspekingum sem hafa tjáð sig um þetta mál. Málið er í raun óþarfi og ég vísa þar m.a. til umsagnar ekki minna virts lögspekings en Ragnars Aðalsteinssonar sem ég held að sé einn af okkar fremstu spekingum. Hann tínir til í mörgum liðum að öll þau atriði sem tiltekin eru í þessu frumvarpi megi finna í öðrum lögum. Ég mun þó að sjálfsögðu greiða atkvæði með þessu frumvarpi en bendi á að sýknukrafa ríkisstjórnarinnar í máli Guðjóns Skarphéðinssonar stendur enn og er óbreytt, sem og að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki orðið við margítrekaðri beiðni Erlu Bolladóttur um viðtal. Ég verð að lýsa yfir sárum vonbrigðum með (Forseti hringir.) að henni hafi ekki enn verið svarað eftir allan þennan tíma.



[16:30]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Samfylkingin styður þetta mál og ég er í hópi þeirra þingmanna sem skrifa undir álitið með þeim fyrirvara sem hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson gerði grein fyrir áðan. Ég tel eins og hann að ríkislögmaður hafi haldið þannig á málinu í umboði ríkisstjórnarinnar, m.a. með greinargerð sinni, að það hafi ekki verið til þess fallið að sættir næðust í því en úr því sem komið er sé ekki um annað að ræða en að styðja þetta mál.



[16:31]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst nota tækifærið og þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir umfjöllun hennar um málið. Ég tel að nefndarálitið sem meiri hlutinn skrifar undir sýni fram á nauðsyn þessa frumvarps í þingsal og sömuleiðis vonast ég sannarlega til þess, af því að ég ætla ekki að fara í pólitískar umræður um þetta mál, að samþykkt þessa frumvarps geti greitt fyrir því að ljúka þessu máli með einhvers konar sátt eftir því sem unnt er að ná sátt í jafn flóknu máli og hér er undir.

Fyrst og fremst kem ég hingað upp til að þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir framlag hennar í þessu máli og þá vinnu sem þar hefur verið lögð í þetta flókna og viðkvæma mál.



[16:32]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég skrifaði undir nefndarálitið með sama fyrirvara og var lýst áðan. Ég verð að segja að þótt ég styðji málið finnst mér það asnalegt. Mér finnst asnalegt að þess þurfi. Mér finnst það bera vott um að yfirvöld virðist þess ekki megnug að gera nokkurn tíma nokkurn skapaðan hlut rétt þegar kemur að Guðmundar- og Geirfinnsmálunum.

Eftir stendur engu að síður ákvörðun um það hvort þetta mál eigi að ná fram að ganga eða ekki og mín afstaða er sú að það eigi að ná fram að ganga. Þess vegna styð ég það. Aftur á móti mun ég sitja hjá vegna persónulegra tengsla við aðila sem varða málið þannig að mér líður ekki vel með að taka afstöðu til þess með atkvæði mínu. Hið sama má gilda um aðra þingmenn Pírata.



[16:33]
Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég verð aðeins á tæknilegum nótum. Ég skil málið ekki alveg. Þetta er ekki fjárlagafrumvarp, ekki fjárheimildarmál en það er samt upphæð í málinu og ýmislegt sem ég átta mig ekki alveg á við undirbúning og framlagningu málsins, rökin sem því fylgja o.s.frv. Ég skil þó viðkvæmni málsins mjög vel og því styð ég það.

Við þurfum samt að gera þetta betur og á einhverjum tímapunkti sleppi ég tökunum hvað það varðar vegna þess hversu viðkvæmt málið er. Það þarf að fara gríðarlega varlega í næstu skref í þessu máli, allir hljóta að skilja það. Ég segi því bara: Takk fyrir þetta mál þó að það sé eins og það er. Gerum samt betur.



 1. gr. samþ. með 43:8 atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  ÁÓÁ,  ÁslS,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BLG,  BHar,  GBr,  GÞÞ,  GIK,  GuðmT,  HSK,  HallM,  HKF,  HarB,  HVH,  IngS,  JSV,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  LE,  MH,  NTF,  OH,  ÓGunn,  ÓBK,  PállM,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  UnaH,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞorstV,  ÞórP,  ÞórdG.
nei:  BirgÞ,  BN,  JÞÞ,  KGH,  ÓÍ,  SDG,  SPJ,  ÞorS.
4 þm. (HHG,  JónG,  JÞÓ,  ÞSÆ) greiddu ekki atkv.
8 þm. (AKÁ,  ATG,  ÁsmD,  GBS,  SÁA,  SIJ,  SMc,  ÞKG) fjarstaddir.

 2.–3. gr. samþ. með 43:8 atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  ÁÓÁ,  ÁslS,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BLG,  BHar,  GBr,  GÞÞ,  GIK,  GuðmT,  HSK,  HallM,  HKF,  HarB,  HVH,  IngS,  JSV,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  LE,  MH,  NTF,  OH,  ÓGunn,  ÓBK,  PállM,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  UnaH,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞorstV,  ÞórP,  ÞórdG.
nei:  BirgÞ,  BN,  JÞÞ,  KGH,  ÓÍ,  SDG,  SPJ,  ÞorS.
4 þm. (HHG,  JónG,  JÞÓ,  ÞSÆ) greiddu ekki atkv.
8 þm. (AKÁ,  ATG,  ÁsmD,  GBS,  SÁA,  SIJ,  SMc,  ÞKG) fjarstaddir.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.