150. löggjafarþing — 39. fundur
 3. desember 2019.
staðfesting ríkisreiknings 2018, 1. umræða.
stjfrv., 431. mál. — Þskj. 595.

[16:51]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um staðfestingu ríkisreiknings 2018 í samræmi við ákvæði laga um opinber fjármál. Þessi ríkisreikningur fyrir árið 2018 er annar reikningurinn sem er gerður upp í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila, svonefndur IPSAS-staðall, með þeim frávikum sem þriggja ára innleiðingaráætlunin gerir ráð fyrir.

Rekstrarafkoma ársins 2018 var samkvæmt ríkisreikningi jákvæð um 84 milljarða kr. Tekjur námu samtals 828 milljörðum kr. en þar af voru tekjur af virðisaukaskatti um 237 milljarðar kr. og skattar á tekjur og hagnað einstaklinga um 189 milljarðar kr. Gjöld ríkissjóðs fyrir fjármagnsliði námu 780 milljörðum kr., þar af voru rekstrartilfærslur 303 milljarðar, laun og launatengd gjöld 209 milljarðar og gjaldfærðar lífeyrisskuldbindingar 41 milljarður.

Annar rekstrarkostnaður nam 187 milljörðum, aðrir gjaldaliðir, svo sem fjármagnstilfærslur, námu 19 milljörðum og afskriftir og niðurfærslur 19 milljörðum. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur námu 56 milljörðum, vaxtagjöld um 77 milljörðum og vaxtatekjur 21 milljarði. Hlutdeild í afkomu félaga og samrekstrar var jákvæð um 84 milljarða.

Virðulegi forseti. Efnahagsreikningur ríkissjóðs tók umtalsverðum breytingum í ársbyrjun 2017 þegar m.a. var byrjað að eignfæra varanlega rekstrarfjármuni og nú gefur efnahagsreikningurinn góða heildarmynd af eignum, skuldum og eiginfjárstöðu ríkissjóðs. Eignir alls samkvæmt efnahagsreikningi 31. desember 2018 námu 2.224 milljörðum og skuldirnar 1.611 milljarði. Eigið fé var því jákvætt um 613 milljarða og hækkaði um 117 milljarða frá ársbyrjun 2018. Handbært fé var 217 milljarðar í árslok og hækkaði um 29 milljarða á árinu.

Þess ber að geta að rekstrarafkoma ríkisreiknings er birt samkvæmt reikningsskilastaðli fyrir opinbera aðila, IPSAS, eins og ég hef áður nefnt, en heildarafkoma í fjármálaáætlun og fjárlögum er birt samkvæmt hagskýrslustaðli, GFS. Báðum aðferðum er ætlað að tryggja samkvæmni og alþjóðlega samanburðarhæfni. Afkoma ríkissjóðs samkvæmt ríkisreikningi er því ekki sambærileg við afkomumarkmið fjármálaáætlunar og fjárlaga. Í ríkisreikningi nú er birt séryfirlit, séryfirlit 9, þar sem niðurstaða er flokkuð í samræmi við GFS-flokkun fjárlaga og er jákvæð um 38 milljarða og því tæpum 6 milljörðum betri en fjárlög gerðu ráð fyrir, þ.e. á GFS-staðlinum var afkoman á árinu 2018 u.þ.b. 6 milljörðum betri en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum ársins 2018.

Virðulegi forseti. Þessi ríkisreikningur sýnir afar sterka stöðu ríkissjóðs. Afkoma ársins er jákvæð, hún er umfram áætlanir. Staða eigin fjár er sterk. Sterk staða ríkissjóðs er afleiðing þess góða árangurs sem náðst hefur undanfarin ár og leiðir til þess að unnt er að halda áfram myndarlegri uppbyggingu innviða og grunnþjónustu ríkisins.

Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til fjárlaganefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.



[16:55]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Pínulítil klassík hjá mér, þarna kemur fram að á árinu 2019 eigi að ljúka innleiðingu á því að færa í ríkisreikning þær eignir og skuldir sem eru eftir og eiga eftir að uppfylla kröfur IPSAS og þess háttar. Í tengslum við það finnst mér áhugavert um 2019 að hafa ekki fengið svör um það hvaða eignir voru færðar til ríkisins vegna kirkjujarðasamkomulagsins og hvaða skuldbindingar eru á þeim eignum fyrst þetta á allt að vera samkvæmt bókinni miðað við það sem stendur í ríkisreikningi.



[16:56]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi reikningur fyrir árið 2018 er, eins og ég tók fram, birtur á þessum staðli með þeim undanþágum sem ákveðnar hafa verið, þ.e. þessi þriggja ára tími sem við höfum til þess smám saman að innleiða staðalinn. Hér er spurt um samkomulag við kirkjuna og vísað í fyrirspurn um nákvæma útlistun á eignunum. Það verður bara að segjast alveg eins og er að eins og fram kom í svarinu á sínum tíma virðist vera mjög umfangsmikið verkefni og afar flókið að gera nákvæma grein fyrir þessu en á endanum mun þurfa að taka ákvörðun um hvernig eigi að færa þetta til eignar í bókum ríkisins. Ég held að þetta verði ekki eina dæmið um það þar sem einhver álitamál koma upp um það með hvaða hætti sé nákvæmlega rétt að verðmeta á eignahlið efnahagsreikningsins. Það er hægt að búa sig undir að það geti verið álitamál við innleiðingu á staðlinum. Verkefnið er í sjálfu sér til þess hugsað að við getum yfir tíma áttað okkur á því hvort við erum t.d. með opinberri fjárfestingu að viðhalda stofni eigna ríkisins eða hvort við erum að trassa nauðsynlega fjárfestingu til að halda þessum eignum við. Hugmyndin er að við höfum gleggri mynd af raunverulegri stöðu opinberra fjármála á eftir.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það eru vandkvæði vegna þessara tilteknu jarða.



[16:58]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Má þá búast við því að þessu verði lokið fyrir ríkisreikning 2019 vegna þessa innleiðingarferlis og þess háttar? Fengi fjárlaganefnd ekki aðgang að því til að geta klárað að svara þeim spurningum sem hafa þegar verið bornar upp?



[16:59]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef engar aðrar upplýsingar en að þessi áætlun muni standast. Það voru mínar síðustu upplýsingar þegar ég spurðist fyrir um það. Ég veit að þetta hefur ekki verið létt verk en við erum komin vel af stað og þegar að því kemur ætti að vera sjálfsagt að veita svör við því með hvaða hætti menn hafa eignfært þær jarðir sem hv. þingmaður er að spyrja um, að því gefnu að hægt verði að afmarka eignasafnið svo að hægt sé að ná utan um það sem spurt er eftir.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til fjárln.