150. löggjafarþing — 39. fundur
 3. desember 2019.
búvörulög, 1. umræða.
stjfrv., 433. mál (endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar). — Þskj. 597.

[18:24]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 597, máli nr. 433. Hér er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, er lýtur að endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar. Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Megintilgangur þess er að framfylgja samkomulagi um breytingar á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar sem skrifað var undir 25. október sl. og bókun við samkomulagið sem skrifað var undir 26. nóvember sl.

Samkomulagið er liður í endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar frá 19. febrúar 2016 sem var undirritaður þá, eins og nú, með fyrirvara um samþykki Alþingis á nauðsynlegum lagabreytingum og samþykki félagsmanna Landssambands kúabænda og Bændasamtaka Íslands í atkvæðagreiðslu. Með samkomulaginu var fallið frá niðurfellingu heildargreiðslumarks sem kveðið var á um í samningnum og mun greiðslumark því gilda áfram út gildistíma sem viðmið vegna beingreiðslna. Þá verða viðskipti með greiðslumark leyfð að nýju frá og með árinu 2020 og munu þau byggja á tilboðsmarkaði sem er sama markaðsfyrirkomulag og gilti á árunum 2001–2016. Vissar takmarkanir verða á viðskiptunum sem verða útfærðar nánar í reglugerð. Aukin áhersla er lögð á loftslagsmál og í samkomulaginu kemur fram það markmið að íslensk nautgriparækt verði að fullu kolefnisjöfnuð eigi síðar en árið 2040.

Þá kemur fram að fyrirkomulag verðlagningar mjólkurafurða verði endurskoðað á grunni ákveðinna atriða og er áætlað að starfshópur skili tillögum eigi síðar en 1. maí 2020. Auk þess verði skipaður starfshópur sem mun hafa það hlutverk að fara yfir m.a. hugmyndir um aðlögunarsamninga og aukinn stuðning við minni bú og meta þörf á aðgerðum vegna svæða þar sem framleiðsla hefur dregist saman.

Rétt er að geta þess að áætlað var að atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna Bændasamtaka Íslands og Landssambands kúabænda færi fram dagana 20.–29. nóvember. Atkvæðagreiðslu var hins vegar frestað af hálfu Bændasamtaka Íslands vegna óánægju ákveðins hluta bænda með það samkomulag sem gert var. Atkvæðagreiðslu lýkur þar af leiðandi ekki fyrr en 4. desember næstkomandi. Vegna þessa var fyrrgreind bókun gerð við samkomulagið. Hún kveður á um það m.a. að í janúar 2020 skuli framkvæmdanefnd búvörusamninga taka afstöðu til þess hvort setja skuli hámarksverð á greiðslumark á fyrsta markaði ársins með hliðsjón af markaðsaðstæðum.

Með frumvarpinu eru í fyrsta lagi lagðar til breytingar á 53. gr. laganna til samræmis við það sem samið var um í fyrrgreindu samkomulagi. Lagt er til að innlausn á greiðslumarki með ríkisábyrgð verði aflögð og að aðilaskipti á greiðslumarki fari fram í gegnum markað. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á 54. gr. laganna sem kveða á um að öll aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur skuli fara fram á markaði. Þó sé heimil tilfærsla greiðslumarks milli lögbýla í eigu sama aðila og við ábúendaskipti eða breytingu skráningar ef um hjón eða sambúðarfólk er að ræða. Markaðsverð greiðslumarks verði grundvallað á jafnvægisverði, þ.e. því verði sem myndast þegar framboð magns er jafnt og eftirspurn, eða lægsta verði sem jafnvægismagn getur verið selt og keypt á. Hámark verði sett á það magn sem hægt er að kaupa á hverjum markaði, auk þess sem ráðherra verði heimilt að fenginni tillögu framkvæmdanefndar búvörusamninga að setja hámarksverð á greiðslumark ef verðþróun á markaði verður óeðlileg að teknu tilliti til framboðs, eftirspurnar og aðstæðna að öðru leyti.

Hlutdeild framleiðanda má ekki nema hærra hlutfalli en 1,2% af árlegu greiðslumarki mjólkur og gert er ráð fyrir að nýliðar eigi forkaupsrétt að 5% af því greiðslumarki sem er til sölu á hverjum markaði. Ráðherra mælir svo nánar fyrir um framkvæmd markaðar með greiðslumark í reglugerð en þess má geta að drög að slíkri reglugerð hafa nú verið sett í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda.

Líkt og hér hefur verið rakið er markmið frumvarpsins fyrst og fremst að framfylgja samkomulagi um breytingar á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar sem skrifað var undir þann 25. október sl. Í samræmi við ákvæði gildandi samnings létu Bændasamtök Íslands fara fram atkvæðagreiðslu um það á árinu 2019 hvort kvótakerfið skyldi afnumið frá og með 1. janúar 2021 líkt og stefnt var að með þeim samningi sem í gildi hefur verið. Greiddu 89,4% mjólkurframleiðenda atkvæði með áframhaldandi kvótakerfi. Samkomulagið gerir því ráð fyrir að greiðslumark haldi sér sem kvóti sem tryggir forgang að innanlandsmarkaði og sem viðmiðun fyrir beingreiðslur. Tilætluð áhrif þeirra breytinga á starfsumhverfi kúabænda sem lagðar eru til með frumvarpinu eru taldar stuðla að framþróun og nýsköpun í nautgriparækt. Í samkomulaginu er kveðið á um breytingar sem krefjast breytinga á gildandi búvörulögum og af því leiðir að því verður ekki framfylgt nema með setningu laga. Verði frumvarpið óbreytt að lögum kallar það ekki á aukin útgjöld fyrir ríkissjóð heldur er einungis um að ræða tilfærslu fjármuna innan gildandi samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni þessa frumvarps og vil að öðru leyti vísa til þeirrar greinargerðar sem fylgir því en þar er ítarlega fjallað um efni frumvarpsins. Að lokinni umræðu hér legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.



[18:30]
Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu þessa frumvarps um breytingu á búvörulögum. Mig langar að spyrja ráðherrann út í það sem kemur fram í 2. gr. þar sem lagt er til að stofnsettur verði markaður fyrir greiðslumark mjólkur og að viðskipti muni byggjast á markaðsfyrirkomulagi sem gilti á árunum 2011–2016, þ.e. markaði með greiðslumark þar sem óskað er eftir að kaupa greiðslumark mjólkur eða það boðið til sölu. Markaðsverð grundvallast á jafnvægisverði og ef þróun á markaði verður óeðlileg að teknu tilliti til framboðs, eftirspurnar og aðstæðna að öðru leyti er gert ráð fyrir í samkomulagi dagsettu 25. október 2019 að ráðherra verði heimilt, að fenginni tillögu framkvæmdanefndar búvörusamninga, að setja hámarksverð á greiðslumark. Þá er lagt til að ráðherra skuli í reglugerð mæla fyrir um nánari framkvæmd markaðar með greiðslumark, forgang, nýliða og frekari skilyrði til tilfærslu eða breytingar skráningar greiðslumarks.

Þá langar mig til að spyrja ráðherrann í framhaldi af þessu: Hvar myndi ráðherra geta hugsað sér að stíga inn í markaðinn eða við hvaða aðstæður eða á hvaða stigi að þessu gefnu?



[18:33]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég get í sjálfu sér alveg haft hugmyndir um það á hvaða stigi ég gæti hugsað mér að ráðuneytið tæki afstöðu á þessum markaði en við höfum náð samkomulagi við bændur um það fyrirkomulag að framkvæmdanefnd búvörusamninga, þar sem sitja þrír fulltrúar bænda og þrír fulltrúar ríkisins, geri tillögu til ráðherra eftir mat á stöðu mála á markaði. Ég mun við þá ákvörðun sem mér ber að taka reiða mig á þá tillögu sem þaðan kemur vegna þess að ég ætlast til þess að framkvæmdanefndin um framkvæmd búvörusamninga geti aflað sér upplýsinga og lagt raunhæft mat á það með hvaða hætti verðþróun á þessum markaði verði áður en fyrsti markaður fer fram, sem áætlað er að verði, ef ég man rétt, 1. apríl. Það er fyrirkomulagið sem samið hefur verið um og ég hlýt að reiða mig á að þessi ágæta nefnd og þeir ágætu einstaklingar sem þar sitja muni leggja sig fram við það að leggja fyrir mig vel ígrundaða tillögu sem ég tek afstöðu til.



[18:34]
Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar þar sem fram kemur að hann ráðfæri sig við framkvæmdanefnd búvörusamninga um þá stöðu sem gæti komið upp. Það er náttúrlega gríðarlega mikilvægt að ef þetta frumvarp nær fram að ganga sé sæmileg sátt í greininni og að bú af hinum ýmsu stærðum geti unað við sitt því að maður þekkir það úr öðrum heimi, heimi kvótamála í sjávarútveginum, að þar hefur þróunin orðið á þann veg að þetta hefur þjappast á færri hendur. Er það nú að mínu áliti meira og minna okkur stjórnmálamönnunum að kenna, en það er önnur saga. Ég þakka ráðherranum fyrir þetta svar og hef að svo komnu máli ekki neinar frekari spurningar fram að færa en mun að sjálfsögðu, þar sem ég sit í atvinnuveganefnd, fylgjast vel með þessu máli.



[18:35]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur. Hann nefndi í sínu síðara andsvari ef frumvarpið næði fram að ganga. Ég vona að við séum á sama stað, ég og hv. þingmaður, í því. Ég tel afar brýnt að þetta frumvarp nái fram að ganga, sérstaklega í ljósi þess að 90% þeirra sem starfa við greinina eru mjög áfram um að fyrirkomulagi því sem samið var um 2016 verði breytt. Og já, ég vona svo sannarlega að það geti orðið sæmileg sátt um þetta, til að mynda kom til sú bókun sem við gerðum eftir samkomulagið af þeirri ástæðu að við ætluðum að létta aðeins á þeirri pressu sem hafði m.a. valdið því að atkvæðagreiðslu um samninginn var frestað, þó svo að bændaforystan hefði samið um annað. Við virtum það ágætlega og ég vænti þess að það geti orðið til þess að búa til betri sátt um málið heldur en í stefndi.

Það eru inni í samkomulaginu sem við gerðum við bændur ýmis atriði sem lúta að því að hamla gegn samþjöppun. Ég nefni sem dæmi takmarkanir á hámarkseign á greiðslumarki, hámarksmagn sem boðið er á hverjum markaði o.s.frv. Það eru ýmsir þættir inni í samkomulaginu sem eiga að geta spornað gegn gríðarlega mikilli samþjöppun í þessu en eins og þingmenn þekkja hefur hún orðið mikil á síðustu árum og atvinnugreinin hefur í rauninni gengið í gegnum alveg ótrúlega mikil umskipti.



[18:38]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Blessunarlega hefur greinin gert vel og haldið áfram að eflast í gegnum margs konar breytingar og rýmri reglur nema kannski að einu leyti. Ég held að menn átti sig á því að ég hlýt að koma hingað upp og spyrja hæstv. ráðherra. Fyrir það fyrsta spyr ég: Af hverju er samningurinn, sem reyndar er ekki enn búið að samþykkja, ekki fylgiskjal með frumvarpinu? Samningurinn varpar eðlilega ljósi á ákveðna þætti og forsendur og hvernig ríkisvaldið hefur nálgast samningsgerðina. Ég hefði vissulega viljað sjá ríkisvaldið nýta tækifærið og huga að fleiri þáttum en ég vil líka hrósa ráðherra fyrir að snert er á ýmsum þáttum í samningnum. Ég tel því að það hefði verið til bóta að hafa hann með sem fylgiskjal.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi tekið það upp að eigin frumkvæði að afnema undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum, hvort hann hafi sagt: Hluti af þessari endurskoðun er að við skrifum undir samninga um að mjólkuriðnaðurinn falli allur undir samkeppnislög. Mig langar að vita hvort ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna hafi tekið það eðlilega samkeppnismál upp af því verið er að endurskoða búvörusamninginn, þennan þátt sem snertir kúabændur. Ef við horfum á þann umdeilda samning sem var gerður 2016 — það er margt ágætt í þeim samningi, ég held að það megi alveg draga það fram — er engu að síður verið að fylgja honum eftir, þá kannski með réttu. Kúabændum var veitt þetta svigrúm til að taka afstöðu um það hvort leggja ætti kvótakerfið niður 2021 en afgerandi meiri hluti þeirra hafnaði því og ráðherra er að fylgja því eftir. En það er greinilega meira sem var dregið þarna inn.

Mig fýsir í mínu fyrra andsvari (Forseti hringir.) að fá að vita hvort ráðherra hafi sýnt því frumkvæði að afnema þessar undanþágur á mjólkurmarkaði sem veita sérstaklega einu fyrirtæki algjöra einokunaraðstöðu.



[18:40]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið, hún kom nokkuð víða við. Ég kann ekki skýringar á því hvers vegna samningurinn er ekki fylgiskjal með frumvarpinu en það er ekkert vandamál með það, það er hægt að koma honum til þingsins og til atvinnuveganefndar þegar hún fær frumvarpið til meðferðar. Hann er ekkert leyndarmál, ég hélt að hann hefði verið kynntur ágætlega þegar við gengum frá þessu. Í sjálfu sér kann ég ekki skýringar á því hvers vegna hann er ekki heftaður við gagnið en hann er ekkert læstur niðri í skúffu eða neitt því um líkt.

Eins og hv. þingmaður nefndi er snert á ýmsum þáttum í þessu. Ég bendi hins vegar á að við erum með endurskoðunarákvæði í samningnum sem gerður var 2016 og hann gildir til 2026. Við verðum að komast að samkomulagi við bændur um breytingar á þessum samningi. Það er rétt að ákveðin tækifæri eru nýtt til að reyna að ná samstöðu meðal bænda og ríkisvaldsins um að skoða m.a. verðlagsmál. Það er sérstakur kafli í samkomulaginu sem snýr að þeim þáttum. En við vorum ekki á þessu stigi að semja við bændur um breytingar á samkeppnislögum. Það er annar vettvangur til þess og það kann vel að vera að út úr þeirri vinnu sem við erum að leggja í þarna komi einhverjar tillögur sem snúa að þeim þáttum. Miðað við það hvernig textinn í samkomulaginu er finnst mér líklegt að snert verði við umræðu um þá þætti sem hv. þingmaður nefndi áðan. En ég hef ekki í þessum samningum samið um það við bændur að gera breytingar á starfsskilyrðum þriðja aðila sem í raun á enga beina aðild að samningsgerðinni sem hér er undir.



[18:42]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka ráðherra svörin. Það liggur þá alveg ljóst fyrir að ríkisstjórnin og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins beittu sér ekki fyrir því að samkeppnishlutinn yrði tekinn upp. Það hefði verið ágætt að fá að vita að menn hefðu þó alla vega reynt að leggja sig fram um að láta almenn samkeppnislög, sem eru vissulega og fyrst og fremst í þágu neytenda, gilda um allan markaðinn. En við erum búin að fá á hreint að svo sé ekki. Mér finnst samningurinn fyrir margra hluta sakir áhugaverður, þessi viðbót, t.d. varðandi loftslagsmálin, þó að mér finnist það, þegar betur er rýnt í það, svolítið þunnur þrettrándi, það á að skoða og athuga og hugsanlega ná einhverjum árangri 2040. En engu að síður er ákveðinn vilji til staðar og ég fagna því.

Ég geri ráð fyrir því, hæstv. ráðherra leiðréttir mig ef svo er ekki, af því að loftslagsmálin hafa verið nefnd, að umhverfisráðuneytið hafi komið að málum. Þá langar mig að fá að vita hvaða athugasemdir umhverfisráðuneytið setti fram í tengslum við endurskoðun á þessum samningi.



[18:44]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er dálítið langt í þrettándann og ég veit ekki hvort hann verður mjög þunnur að þessu sinni. Ég fullyrði hins vegar að það samkomulag sem náðist milli bænda og ríkisins varðandi loftslagsmálin er tímamótamál. Það er engin þynnka í því, langur vegur frá. Það er full samstaða meðal bænda og á milli bænda og stjórnvalda varðandi þessi efni og umhverfisráðuneytið mun eiga sinn fulltrúa í þeirri vinnu ásamt ráðuneyti landbúnaðar og bændum að útfæra þær áherslur sem við erum að stefna að. Þær eru í fullu samræmi við þau metnaðarfullu markmið sem ríkisstjórnin hefur sett fyrir landið í loftslagsmálum. Og þegar rætt er um verðlagsmálin þá ítreka ég það hér að bændur hafa ekkert umboð til að semja um breytingar á lögum varðandi þriðja aðila úti í bæ. Þetta snýr fyrst og fremst að endurskoðun samnings sem er í gildi milli bænda og stjórnvalda. Ég ætla að lesa örstutta klásúlu um samninginn fyrir hv. þingmann svo að það fari ekkert á milli mála að það er rætt með hvaða hætti við ætlum að nálgast þessi mál.

„Í samkomulaginu sameinast stjórnvöld og bændur um að skoða breytingar á verðlagsmálum mjólkurafurða. Gerð verður greining á tækifærum til frekari aðskilnaðar milli söfnunar og sölu á hrámjólk frá vinnslu mjólkurafurða og öðrum rekstri. Þá verður fyrirkomulag verðlagningar mjólkurvara á heildsölustigi tekið til endurskoðunar og skoðaður sá möguleiki að hætta opinberri verðlagningu mjólkurafurða.“

Þetta kemur með einhverjum hætti inn á þær spurningar sem hv. þingmaður bar hér fram. En ég frábið mér það sem hv. þingmaður fullyrðir um afstöðu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á þessu stigi varðandi það áhugaefni sem hún hefur vissulega barist fyrir á undanförnum árum, þ.e. að gera breytingar á þessu ákvæði samkeppnislaga. En það er ekki efni þessa máls sem ég er að leggja hér fram.



[18:46]
Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir framsöguræðuna þegar hann flutti þetta mál fyrir þinginu og byrja á því að fagna því að þetta samkomulag liggi fyrir. Ég get lýst því yfir strax í upphafi ræðunnar að ég styð það heils hugar og mun vinna að samþykkt þess. Búvörusamningar og búvörumál eru oft mikið hitamál og kveikja tilfinningar hjá mörgum. Núna erum við að endurskoða gildandi búvörusamning til lengri tíma sem samþykktur var 2016 þannig að við erum í svolítið öðruvísi umhverfi en við höfum oft áður verið í með þessa samninga. Yfirleitt hafa þeir verið með þeim hætti að þeir hafa verið gerðir til sjö ára og síðan í einhverjum tilfellum hefur verið samið um tímabundnar framlengingar á þeim samningum, eins og gert var í hruninu, en svo hafa þeir samningar haft endadagsetningu og óvissa ríkt um framtíðina og um starfsskilyrði þessarar atvinnugreinar. Ég held að þetta fyrirkomulag, að hafa opnað fyrir það að gera lengri samning með opnunum, hafi fullkomlega sannað gildi sitt. Þá finnst mér líka kannski eilítið vanta upp á það í umræðu um þennan samning, ekki síst meðal bænda, svo ég bara segi það sem mér býr í brjósti, að menn hafi skilning á þeirri breytingu sem er á framkvæmd búvörusamninga og gerð samninga um starfsskilyrði mjólkur- eða nautgriparæktar og sauðfjárræktar og fleiri samninga sem gerðir eru.

Mér finnst ástæða, virðulegur forseti, til að draga fram við 1. umr. þessa máls í hvaða ljósi þessi samningur var gerður sem nú er verið að endurskoða árið 2016, t.d. það meginefni þessa frumvarps sem hæstv. landbúnaðarráðherra flytur hér um framtíð greiðslumarks, greiðslumarkskerfis eða framleiðslustýringar. Það lágu tvær meginástæður fyrir því að á þeim tíma í samningagerðinni sem hófst 2005, að því er ég best veit, voru uppi þær aðstæður hér á mjólkurmarkaði og mjólkurmörkuðum í kringum okkur að menn horfðu til þess að það væri gríðarleg eftirspurn eftir mjólkurvörum. Hin meginástæðan var sá kostnaður sem greinin hafði af því að versla með framleiðsluheimildir sín á milli sem menn voru að reyna að ná utan um í þeirri samningagerð. Rétt eftir samningagerðina, eða raunverulega í henni miðri, breyttust sumar aðstæður og forsendur aðrar en þær sem snúa að framleiðslu eða kostnaði við framleiðslustýringarkerfið. Þess vegna var mikilvægt að við frágang málsins í þinginu á sumardögum 2016 var sett inn ákvæði um að greiðslumatshafar myndu kjósa um framtíð framleiðslustýringarkerfis og sú afstaða liggur fyrir núna með mjög afgerandi hætti. Það er raunverulega megintakmark þessa frumvarps og þeirra breytinga sem hæstv. landbúnaðarráðherra hefur nú gengið frá við Bændasamtök Íslands að fylgja eftir og viðhalda þeirri framleiðslustýringu sem ég held og veit að er mjög mikilvæg. Þó svo að hún hafi náttúrlega og eðlilega, eins og öll mannanna verk, sína annmarka er hún samt það grundvallartæki sem hefur breytt þessari búgrein hvað mest og unnið með henni að þeim breytingum en ekki á móti henni eins og dæmin sanna.

Rétt aðeins í tilefni af því að umræða spratt upp í andsvörum hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um hið fræga undanþáguákvæði frá samkeppnislögum sem að mjólkuriðnaði lýtur er eðlilegt að ég árétti að mjólkuriðnaður eða fyrirtæki er vinna úr mjólk á Íslandi lúta samkeppnislögum. Þau hafa aðeins mjög þrönga heimild til samstarfs um ákveðna verkaskiptingu. Það var lykillinn að þeirri gríðarlegu hagræðingu sem varð í þessari grein á árunum upp úr 1990. Og forsenda þess að við stöndum með þó þetta sterka búgrein í dag, mjólkurframleiðsluna, var að sú samstarfsheimild eða verkaskiptaheimild fékkst. Þannig að menn hafa á undanförnum árum fyrst og fremst borið uppi hagræðingu í þessari framleiðslugrein með því að taka til í framleiðslu og úrvinnsluiðnaði. Ég held að það megi aldrei slíta þá umræðu úr samhengi við hina raunverulega torveldu umræðu um þetta fræga undanþáguákvæði. Það geta hins vegar alveg komið þeir tímar að það verði eðlilegt að menn endurskoði það hver framtíð þessa undanþáguákvæðis sé. Ég bind vonir við það að við endurskoðun Alþingis á samkeppnislöggjöfinni í heild sinni megi útfæra sterkari tæki til að heimila ákveðna verkaskiptingu á almennum samkeppnismarkaði sem myndi þá m.a. grípa hina frægu undanþágu sem svo oft er gerð að pólitísku bitbeini.

Ég held að það sé ástæða til þess líka að nefna ákveðna þætti sem leiða til þeirrar niðurstöðu sem hæstv. landbúnaðarráðherra kynnir í framsögu og framlagningu á þessu frumvarpi. Flestar búgreinar á Íslandi hafa gengið í gegnum mjög miklar umbreytingar á undanförnum árum. Ég ætla að rifja upp nokkrar tölur og nefna að í ríkisreikningi fyrir árið 1986 lætur nærri að 10% af útgjöldum ríkissjóðs séu vegna landbúnaðarmála. Þegar ég fletti upp ríkisreikningi 2018 og ber hann saman við þann samning um starfsskilyrði nautgriparæktar sem er til umræðu er talan komin niður í 0,7%. Auðvitað var ég í fyrri tölunni með heildarlandbúnaðarkerfið svokallaða undir með útflutningsbótum sem þá voru og fleiri greiðslum. En þetta er stóra breytingin. Þetta er stóra breytingin fyrir hinn sameiginlega ríkissjóð. Hér er verið að fjalla um útgjöld ríkissjóðs sem nema 0,7% af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Þetta, ásamt því að horfa til stórfækkunar á framleiðendum, stærri fjósa, stærri og öflugri rekstrareininga, hefur náttúrlega leitt fram alveg ótrúlega hagræðingu í þessari búgrein á Íslandi á undanförnum árum.

Sú meginbreyting var gerð við gerð samkomulags um starfsskilyrði nautgriparæktar 2004 að fram að þeim tíma höfðu greiðslur úr ríkissjóði verið bundnar við framleiðslu fyrir innanlandsmarkað. Því fagna ég sérstaklega að í þessu samkomulagi núna er enn og aftur hnykkt á því að við séum fyrst og fremst að styðja framleiðslu mjólkurvara fyrir innlendan markað. Breytingin fólst í því að heildargreiðslumark er ákveðið var hvert ár hafði raunveruleg áhrif á fjármuni er runnu úr ríkissjóði. Ef heildargreiðslumark mjólkur hækkaði þá hækkuðu greiðslur úr ríkissjóði á móti. Kerfið var einfaldlega stillt þannig af og það var metið samkvæmt verðlagsgrundvelli að 49% af framleiðslukostnaði væru greidd með svokölluðum beingreiðslum. Þetta var aftengt 2004. Frá þeim tíma hafa orðið óskaplegar breytingar sem er líka rétt að draga fram þegar við ræðum um útgjöld hins opinbera til málaflokksins. Þá var greiðslumark mjólkur um 104–106 milljónir lítra. Árið 2018 eru það 145 milljónir lítra mjólkur en ekkert hærri greiðslur úr ríkissjóði til að styðja við þá framleiðslu. Mér finnst mikilvægt að við drögum þetta fram í þessari umræðu því að oftar en ekki er umræðan um landbúnaðarmál svolítið drifin áfram af því að stilla þessu upp í því ljósi.

Við áttum í umræðu fyrr í dag, virðulegur forseti, um þjóðhagslega hagkvæmni þess að skipta um orkugjafa. Ástæðan fyrir því að ég nefni það er að mér finnst einboðið að sá samningur sem Bændasamtökin og hæstv. landbúnaðarráðherra gerðu og ráðherra leggur nú fyrir Alþingi til samþykktar sé ekki síður þjóðhagslega mikilvægur fyrir þetta samfélag. Við ættum að hafa fleiri orð og lengri ræður um gildi landbúnaðar fyrir samfélagið, gildi landbúnaðarframleiðslunnar og starfs bænda í þeim efnum. Ég ætla svo sem ekki að fara dýpra í þá umræðu en ég vil bara rifja upp að það er orðið almennt viðurkennt og við höfum gengið fram í því á undanförnum árum, reyndar í ótrúlega mörgum málaflokkum, að búa til ýmiss konar kerfi til stuðnings tiltekinni atvinnustarfsemi sem við viljum vernda vegna þess að við teljum hag fyrir samfélagið vera að því. Ég get nefnt hluti eins og kvikmyndaframleiðslu, bókaútgáfu og núna er umræða um fjölmiðla. Í því ljósi vil ég líka beina athyglinni að umræðunni um orkuskipti sem við áttum í dag og því samkomulagi sem er í þeim samningi sem hæstv. landbúnaðarráðherra kynnti um loftslagsmál. Það er því miður ekki oft talað um að t.d. það framleiðslustýringarkerfi og sú hagræðing sem greinin hefur farið í gegnum á undanförnum árum hefur orðið til þess að það er um 40% samdráttur í notkun á jarðefnaeldsneyti á bak við hvern framleiddan lítra. Það hefur verið hreinn samdráttur á undanförnum 25 árum.

Og áfram skal haldið vegna þess að við ræðum hér um endurskoðun samnings frá 2016. Þar voru áherslurnar fyrst og fremst á aðbúnað búfjár. Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að við veitum því athygli hversu mikilvægt það getur verið að gera samninga til langs tíma með endurskoðunarákvæðum því að tíðarandinn breytist og verkefnin breytast. Það sem var efst á baugi árið 2016 var að ræða og bregðast við auknum kröfum um velferð búfjár. Allar búgreinar á Íslandi hafa tekið það mjög alvarlega og ekki síst nautgriparæktin. Það hefur orðið hrein bylting í aðbúnaði búfjár á Íslandi. Í dag setjum við á oddinn umhverfismálin og þessi atvinnugrein, landbúnaður og mjólkurframleiðsla og nautakjötsframleiðsla, á stóra möguleika á að taka þátt í því stóra verkefni okkar að ráðast í umhverfismálin. Það mætti í því sambandi svo sem tíunda fjölmörg verkefni í þeim efnum, t.d. nýtingu á mykju, dreifitíma búfjáráburðar, fóðrun búfjár og fleiri slíka þætti sem ég reikna með að verði frekar ræddir og útfærðir í öðru samkomulagi er Bændasamtökin gera við ríkisvaldið, hinum svokallaða rammasamningi landbúnaðarins yfir almenn starfsskilyrði og markmiðasetningu á þeim vettvangi.

Ég vil ítreka það sem ég sagði í upphafi. Ég held að þetta sé ákaflega mikilvægt samkomulag. Það skiptir gífurlegu máli fyrir atvinnugreinar eins og landbúnað, fyrir nautgriparækt, sem hafa langa framleiðsluferla, að hafa fyrirsjáanleika. Ég myndi eindregið vilja að í þessari umræðu og umfjöllun hv. atvinnuveganefndar þegar hún tekur þetta mál til athugunar ræði menn líka þegar kemur að næstu endurskoðun samninga um starfsskilyrði landbúnaðarins, næsta endurskoðun samkvæmt gildandi samningum er um 2023, ef ég man rétt, um framhaldið eftir árið 2026. Ég held að tímabært sé að við förum að ræða það. Ekki það að ég leggi til að það verði gerðar breytingar á þessum samningi og hann lengdur í þá áttina heldur að rætt sé hvað tæki við eftir þann tíma, því að tíminn líður ótrúlega hratt. Ég nefndi áðan langa framleiðsluferla. Það sem bóndinn tekur ákvörðun um í dag er ekki orðið að framleiðsluverðmæti hans fyrr en eftir tvö, tvö og hálft ár þannig að tíminn skiptir óskaplega miklu máli og fyrirsjáanleikinn í þessari atvinnugrein.

Virðulegur forseti. Ég held að það sé alveg hægt að segja það kinnroðalaust að þetta samkomulag sem um ræðir tekur á þeim tveimur meginþáttum sem hæstv. ráðherra gerði grein fyrir, greiðslumarki og framleiðslustýringu. Það hefur verið sett í farveg að ræða og endurskoða verðlagningu á mjólk og ég er ekki í nokkrum vafa um að þjóðhagslegur ábati samfélagsins af því að standa að verki með þeim hætti sem hér er gert er verulegur.



[19:00]
Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Það kom bara spurning upp í hugann þegar hv. þm. Haraldur Benediktsson flutti sína ræðu. Hún var mjög góð og hann er hokinn af reynslu. Hann er eins og sagnfræðingur í pontu um þessi mál. En þar sem þetta frumvarp er byggt á undirritun þessa samnings þann 25. október 2019 er bara einföld spurning: Hvað hefði tekið við ef þessi samningur hefði ekki náðst? Hvernig hefði þá landslagið verið í þessari grein landbúnaðar?



[19:01]
Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa spurningu og andsvar frá hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni. Ég held að svarið sé augljóst. Þá hefði endurskoðun samkvæmt ákvæðum samningsins einfaldlega ekki farið fram og þar með gilti samningurinn eins og frá honum var gengið hér á Alþingi 2016 og greiðslumarkskerfið hefði verið lagt niður og framleiðslustýringarkerfið aflagt. Ég held að það hefði verið ákaflega döpur niðurstaða. Ég horfi á það að í kjölfarið á niðurlagningu framleiðslustýringar innan Evrópusambandsins, sem mjög var horft til hérna á árunum 2015 og 2016, hafa skapast veruleg vandræði þar fyrir framleiðendur. Ég var staddur úti í Skotlandi um daginn og hitti þar bændur þar sem þeir eru að takast á við það að draga mjólkurframleiðslu saman um 26%. Ef þessi endurskoðun hefði ekki gengið eftir er ég ekki í nokkrum vafa um það að á tiltölulega stuttum tíma hefði þurft að lækka skilaverð til bænda fyrir hvern innlagðan lítra mjólkur verulega. Það er miklu meiri kostnaður og miklu meiri ógn við þessa atvinnugrein en t.d. að takast á við það að viðhalda framleiðslustýringarkerfi og aðilaskiptum á því sem er hitt meginefni þessa máls. Þess vegna fagna ég því að þetta samkomulag geri einfaldlega ráð fyrir því að menn fari með varfærni þar um dyr.



[19:03]
Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar og þá kemur í raun og veru önnur spurning í framhaldi af því. Eins og þingmaðurinn kom inn á um verð á mjólk og hvernig það hefði getað þróast, hefði mátt gefa sér að þá hefði þróunin getað orðið á þann veg að samþjöppunin hefði orðið meiri, að það hefði verið þá frekar í krafti stærðarinnar sem bú hefðu getað rekið sig? Þingmaðurinn kom inn á að það er meiri hagræðing í því að hafa stærri fjós. Þetta er þá önnur spurningin. Seinni spurningin er að þegar frumvarpið verður að lögum — eða ef, ég veit ekki hvort ég þori að segja „ef“ núna (Gripið fram í.) eftir andsvar ráðherra áðan. En sér þingmaðurinn fyrir sér að það sé meiri grundvöllur fyrir lítil, meðalstór og stór bú að geta starfað í greininni eftir að þetta frumvarp verður samþykkt þannig að litlir og stórir geti verið í sátt og samlyndi að mjólka sínar kýr?



[19:05]
Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka aftur fyrir andsvör hv. þm. Sigurðar Páls Jónssonar. Ég vil bara draga fram eina staðreynd. Við höfum í samanburði á milli skilaverða á búfjárafurðum til bænda við önnur lönd sérstöðu þegar kemur að skilaverði, verði til bænda á mjólk. Þar hefur okkur hefur tekist, vegna þeirrar samþjöppunar og hagræðingar í rekstri mjólkurstöðvar sem ég fjallaði um í ræðunni, út af hinu fræga undanþáguákvæði sem oft er gert að bitbeini, að ná algerri sérstöðu. Við höfum fyrst og fremst tryggt lækkun á markaði til neytanda með hagræðingu í mjólkuriðnaði og ásættanlegu skilaverði til bænda. Það er það skilaverð sem ég hefði séð fyrir mér að hefði fallið mjög hratt ef við hefðum ekki stigið það skref að halda römmum utan um það. Auðvitað var í samkomulaginu frá 2016 gert ráð fyrir ákveðnum aðgerðum til þess að grípa inn í til að hefta óæskilega þróun í þeim efnum en í það minnsta höfðum við sem fjölluðum um það samkomulag árið 2016 ekki sannfæringu fyrir því að þær myndu virka.

Ég held að það sé verðmæti fyrir íslenskan landbúnað að viðhalda fjölbreytileika í stærð búa og samsetningu búa. Ég ætla ekkert að segja annað en það að búskapur er stoð við aðra búsetu í sveitum, hvort sem það er ferðaþjónusta eða aðrar búgreinar, og ég held að það sé mikilvægt. Það eru ákveðin skref stigin í þessu samkomulagi eins og t.d. um hámarkseign á greiðslumarki, um hámarkskaup á hverjum kvótamarkaði. Þá eru menn að stíga skref til að vernda þennan fjölbreytileika án þess að það komi niður á megindrifkraftinum sem er að sækja hagkvæmni og meira frelsi til að stunda þessa atvinnugrein sem er í raun og veru drifkraftur framfara að mínu viti.



[19:07]
Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og einnig vil ég óska honum til hamingju með það samkomulag sem nú liggur á borðinu og er hér til umfjöllunar. Ég treysti því að frumvarpið verði að lögum og efast ekki um það því að þetta er mjög mikilvægt. Ég efast heldur ekki um það að kúabændur komi til með að samþykkja þetta samkomulag.

Ég vil líka þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir ræðuna áðan sem var verulega upplýsandi og góð og fagna því að gamli Halli hafi risið upp. [Hlátur í þingsal.] — Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki gert þetta eins og reglur gera ráð fyrir að menn geri í ræðustóli en að hlusta á hv. þm. Harald Benediktsson áðan minnti mig á þá gömlu góðu tíma þegar Haraldur var formaður Bændasamtakanna. Þetta er akkúrat það sem við þurfum inn í þennan sal, að menn ræði landbúnaði af skynsemi og þekkingu. Það er mjög mikið atriði. Vissulega ræða menn hér um landbúnað fram og til baka en því miður er undirstaðan ekki alltaf sú sem maður vildi og svo sem ekki hægt að gera ráð fyrir því að allir hafi sömu þekkingu og undirstöðu og hv. þm. Haraldur Benediktsson. En þetta er mjög mikilvægt í þeirri umræðu sem hér fer fram.

Það er að bera í bakkafullan lækinn að bæta í það sem hv. þm. Haraldur Benediktsson sagði en ég ætla aðeins að koma inn á, sem ég held að hv. þingmaður hafi ekki gert, þá breytingu sem varð. Það lá fyrir ákveðið samkomulag milli bænda og ríkis og við þekkjum þann spíral sem síðan fór í gang og þær óánægjuraddir sem heyrðust meðal bænda sem sneru fyrst og fremst að því að í upphaflega samkomulaginu var ekki hið svokallaða hámarksverð tíundað, sem ég tel að sé til mikilla bóta í því samkomulagi sem liggur fyrir. Það ber að þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa hlustað á raddir bænda en þeir höfðu verulegar áhyggjur af því hvert mjólkurframleiðslan myndi stefna ef ekki yrði ákveðið taumhald haft á því þegar við opnum á það framsal sem fyrirhugað er á milli manna. Við getum alveg séð fyrir okkur að þó svo að það hefði verið ákveðið hámark sem mátti versla upp að á þessum jafnvægismarkaði, þ.e. menn máttu í mesta lagi kaupa 50.000 lítra í einu, hefði mjólkurlítrinn jafnvel geta farið í 500–700 kr. En í því samkomulagi sem hér liggur fyrir er talað um þrefalt lágmarksverð á innveginni mjólk sem við getum séð að eru 260–270 kr. Ef ég hef skilið þetta rétt kemur framkvæmdanefnd búvörusamninga þá til skjalanna og fer eitthvað að skakka leikinn og biðja menn að róa sig. Ég sé alveg í hendi mér að menn fari mjög fljótlega í það því að eftirspurnin eftir mjólkurkvóta er mikil. Við vitum að framleiðslugeta í íslenskum fjósum er gríðarleg. Menn hafa verið að byggja og fjárfesta í auknum tæknibúnaði og þessi fjós kalla á mjólkurkvóta. Auk þess vitum við, og skulum hafa það á hreinu í þessari umræðu, að það er fjöldinn allur af kúabændum sem bíður eftir því að geta selt frá sér framleiðsluréttinn. Það væri engin sanngirni í því fyrir framtíð mjólkurframleiðslunnar að fara að bera þær þungu byrðar sem gætu skapast ef við hefðum ekki ákveðið taumhald á því hvert verð á mjólkurkvóta gæti orðið. Sá samningur sem er milli ríkis og bænda er fyrst og fremst hugsaður sem slíkur fyrir neytendur í landinu. Það er lykilatriði. Þetta er ekki hugsað þannig að við ætlum að vera hér með einhver verðbréfaviðskipti. Sá samningur sem er á milli ríkis og bænda er fyrst og fremst íslenskum neytendum til bóta.

Varðandi þá atkvæðagreiðslu sem nú stendur yfir skilst mér að hún fari nokkuð rólega af stað og það kemur mér í sjálfu sér ekkert á óvart. Það hefur oft verið þannig með bændur að menn greiða atkvæði með seinni skipunum og núna rétt áðan skilst mér að 25% bænda á kjörskrá væru búin að greiða atkvæði, mig minnir að það séu rétt um 1.300 bændur á kjörskrá. Ég minni líka á að það hefur verið ansi misjöfn þátttaka í þeim samningum sem hafa verið til afgreiðslu hjá bændum undanfarin ár. Einna best var hún held ég 2016 þegar 70% bænda tóku þátt í atkvæðagreiðslunni sem þá var.

Að lokum, hæstv. forseti, trúi ég því mjög fastlega að kúabændur, mjólkurframleiðendur, komi til með að samþykkja þetta samkomulag. Og af hverju segi ég það? Af því að í samkomulaginu er horft til framtíðar. Þar er ákveðin framtíðarsýn. Við vitum þá hvernig við eigum að haga okkur í mjólkurframleiðslunni til ársins 2026. Það að við séum að festa greiðslumarkskerfi í sessi núna með ákveðnum heimildum varðandi framsal veitir stöðugleika innan greinarinnar. Við viljum líka sjá, eins og hv. þm. Haraldur Benediktsson kom inn á í andsvari við hv. þm. Sigurð Pál Jónsson, fjölbreytileika í mjólkurframleiðslu. Við viljum sjá mjólkurframleiðsluna vítt og breitt um landið, ekki bara á ákveðnum svæðum hér á landi. Það er eins með hana og ýmsar aðrar búgreinar, og tala ég um þá búgrein sem stendur mér næst sem er sauðfjárræktin, mjólkurframleiðslan er ekkert ósvipuð. Hún er hryggjarstykki í ansi mörgum byggðum og veitir gríðarlegum fjölda fólks atvinnu, myndi ég segja. Það er svolítið öðruvísi með þessa búgrein en þá búgrein sem oft er rætt um, sauðfjárræktina, að þar eru menn ekki í því í sjálfu sér að sækja mikið vinnu utan búsins. Mjólkurframleiðslan stendur það vel að hún getur greitt fólki mannsæmandi laun. Það er held ég líka hluti af þessu samkomulagi sem tryggir það áfram að greinin er ekki að fara í neinum um heljarstökkum áfram heldur er stöðugleiki fram undan. Við höfum framtíðarsýn og því ber að fagna.

Herra forseti. Ég vona að þetta mál fái fljótan framgang innan þingsins. Ég á von á því að atvinnuveganefnd taki rösklega til hendinni og komi málinu vel áfram því að það er engum greiði gerður með því að bíða með þetta ágæta og góða samkomulag sem nú liggur á borðinu.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til atvinnuvn.