150. löggjafarþing — 39. fundur
 3. desember 2019.
hollustuhættir og mengunarvarnir, 1. umræða.
stjfrv., 436. mál (viðaukar). — Þskj. 600.

[19:30]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir er varðar starfsleyfis- og skráningarskylda starfsemi. Megintilgangur frumvarpsins er einföldun regluverks með því að fækka flokkum starfsemi sem er starfsleyfis- eða skráningarskyld með hliðsjón af stefnu ríkisstjórnarinnar um einföldun regluverks í þágu almennings og atvinnulífs. Jafnframt eru lagðar til aðrar breytingar á viðaukum laganna í þeim tilgangi að auka á skýrleika þeirra. Frumvarpið var samið í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og drög að því voru kynnt í samráðsgátt Stjórnarráðsins í október sl. Alls bárust 12 umsagnir um frumvarpið og því var breytt með hliðsjón af framkomnum umsögnum og þeim flokkum starfsemi fækkað sem fella átti brott starfsleyfis- og skráningarskyldu fyrir.

Með frumvarpinu er lagt til að flokkum starfsemi sem heyrir undir starfsleyfis- og skráningarskyldu verði fækkað. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem lúta að fækkun á flokkum starfsemi sem háð er útgáfu starfsleyfa eða er skráningarskyld. Í mörgum tilvikum er ekki nauðsynlegt að kveða á um starfsleyfis- eða skráningarskyldu til að ná fram markmiðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Fyrirtæki bera ábyrgð á að starfa í samræmi við gildandi löggjöf hverju sinni og geta notið leiðbeiningar stjórnvalda um gildandi reglur. Telja verður að í mörgum tilvikum geti stjórnvöld leiðbeint rekstraraðilum nógu vel án þess að starfsleyfis- eða skráningarskylda sé fyrir hendi. Óháð starfsleyfis- eða skráningarskyldu hafa stjórnvöld ákveðið eftirlitshlutverk með starfsemi sem heyrir undir lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og getur þurft að ganga úr skugga um að hún sé í samræmi við löggjöfina.

Við mat á því hvort starfsemi skuli vera háð starfsleyfi eða skráningu var byggt á áhættumati af viðkomandi starfsemi. Þannig er lagt til að sú starfsemi sem skorar hátt í áhættumati verði áfram starfsleyfis- eða skráningarskyld en sú starfsemi sem skorar lágt verði ekki háð starfsleyfis- eða skráningarskyldu. Í viðaukum I og II með lögunum er að finna lista yfir starfsemi sem er háð starfsleyfi frá Umhverfisstofnun. Lagt er til að fækka flokkum þeirrar starfsemi sem er að finna í viðaukum IV og V og fella niður starfsleyfis- eða skráningarskyldu tiltekinnar starfsemi sem þar er tilgreind og háð er eftirliti heilbrigðisnefnda. Dæmi um flokka starfsemi sem falla brott eru áramótabrennur, garðaúðun, meindýravarnir, almenningssalerni og biðstöðvar leigubifreiða og strætisvagna.

Þá er í frumvarpinu lagt til að verkaskipting milli Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda við útgáfu starfsleyfa fari samkvæmt viðaukum I, II og IV við lögin. Þá er lagt til að viðauki III hafi að geyma lista yfir starfsemi sem skal hafa starfsleyfi með sérstökum efnisákvæðum, samanber IV. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir um sérákvæði fyrir starfsemi sem notast við lífræna leysa.

Að mati ráðuneytisins mun frumvarpið ekki hafa í för með sér kostnaðaráhrif fyrir ríkissjóð.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni þessa frumvarps og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.



[19:33]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er dæmi um frumvarp þar sem eru þannig breytingar að í stað einnar tilvísunar kemur önnur og í stað þessa orðs kemur annað orð. Maður nær alls engu samhengi við lögin sjálf, hvernig þau líta út eftir breytingarnar, og verður að treysta algjörlega á greinargerðina sem er samt ekki alltaf hárnákvæm þegar allt kemur til alls.

Mig langaði til að spyrja um eitt sem ég er búinn að leita að: Er í þessu frumvarpi verið að færa starfsemi nefndanna til Umhverfisstofnunar þar sem voru þó gerðar athugasemdir um tilfærslu á ábyrgð og eftirliti? Eða er það í öðru? Ég næ því ekki alveg. Það er skipting á milli heilbrigðisnefnda og Umhverfisstofnunar en ég sé ekki tilfærsluna sem var í samráðsgáttinni. Var það í þessu frumvarpi eða öðru?



[19:35]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Með þessu frumvarpi er ekki verið að færa til á milli Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda nema í einu tilfelli þar sem fært er frá Umhverfisstofnun til heilbrigðisnefndar, ef ég man þetta rétt. Vegna orða hv. þingmanns um frumvarpið og orðalag þess vill sá sem hér stendur taka undir með að stundum væri ágætt að hafa texta með aðgreindum þeim breytingum sem bornar eru fram, alla vega í nefndarstarfinu.



[19:35]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á í framsögu sinni sættu drögin að frumvarpinu talsverðri gagnrýni og fram komu athugasemdir í samráðsgáttinni. Ég vil þess vegna spyrja hvort hann geti farið aðeins nánar út í það við hverju var brugðist áður en frumvarpið var lagt fram hér. Ég hef fengið ábendingar frá einhverjum af heilbrigðisnefndunum um að við þurfum að fylgjast vel þessu máli og fara vel yfir það í meðförum nefndarinnar. Þetta er ein spurning sem ég var með.

Síðan langaði mig að koma inn á sömu atriði og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson. Það er ekki einfalt að skilja þessi mál og í hverju breytingarnar felast. Ég sé líka að í samráðsgáttinni hefur verið lagt fram samanburðarskjal þar sem breytingar eru sýndar í öðrum lit. Ég óska eftir því að hægt verði að koma með slíkt skjal þegar málið er kynnt fyrir umhverfis- og samgöngunefnd. Einnig sé ég af athugasemdum sem fram hafa komið að erfitt sé að skilja þessa breytingu öðruvísi en að hafa til hliðsjónar reglugerð um skráningu. Er sú reglugerð þá til og er það álit ráðherra að mikilvægt sé að kynna sér hana samhliða efni frumvarpsins?



[19:37]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi tek ég undir að það þarf að fylgjast vel með öllum málum og fara vel yfir öll mál sem koma til þingnefnda. Varðandi samráðið brá ég á það ráð sem algengt er að gera þegar athugasemdir koma fram, eins og gerðist í samráðsgáttinni, að kalla á fund til mín fulltrúa heilbrigðiseftirlita og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að ræða með hvaða móti væri hægt að mæta athugasemdum þeirra sem við og gerðum. Ég tel að það sem hér er lagt fram og er breytt frá því sem var lagt fram í samráðsgáttinni eigi í meginatriðum að mæta því og það er vel.

Það er sjálfsagt mál að koma með skjöl í umhverfis- og samgöngunefnd sem sýna breytingar á lögunum. Ég kalla sjálfur oft eftir þessu í ráðuneytinu enda miklu auðveldara að átta sig á málum með þeim hætti.

Hvað varðar reglugerðina um skráningu er það mat mitt og ráðuneytisins að þetta tvennt þurfi ekki endilega að fara saman. Ég tók þá ákvörðun að við myndum byrja á að taka lögin til umfjöllunar á Alþingi áður en við förum að klára það mál sem þar um ræðir en var vissulega kynnt á svipuðum tíma í samráðsgáttinni.



[19:39]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og vil þá einmitt byrja á að spyrja út í reglugerðina. Er það ekki rétt skilið að þegar reglugerðin verður sett tengist hún bæði þeirri breytingu sem hér er lögð til og einnig fyrri breytingu og að það hafi kannski að einhverju leyti áhrif á afstöðu þeirra sem þurfa að vinna eftir reglugerðinni að hún skuli ekki hafa komið fram tímanlega eftir fyrri breytingar?

Þá vil ég spyrja aðeins um leiðbeiningarnar. Það sem hefur verið gagnrýnt af heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna er að þegar starfsleyfisskylda breytist í skráningarskyldu falli líka niður tækifæri til að veita leiðsögn og leiðbeiningar í tíma. Hvernig yrði því mætt í nýju lagaumhverfi og hvert yrðu leiðbeiningar sóttar? Myndu þeir sem skrá atvinnustarfsemi hjá Umhverfisstofnun sækja leiðbeiningar þangað eða til heilbrigðiseftirlitsins? Hvort er æskilegra að svona leiðbeiningar komi úr nærumhverfi eða frá miðlægri stofnun?

Eins vil ég spyrja um atriði sem hefur verið bent á að kunni að flækja málin þar sem hluti af starfsemi er starfsleyfisskyldur og annað skráningarskylt, að það geti jafnvel flækt eftirlitsferilinn og eftirlitsskylduna. Er búið að mæta því nú þegar? — Ætli þetta sé ekki orðið gott í bili.



[19:41]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi, eins og ég kom inn á áðan, er það mat okkar að þetta þurfi ekki hvort tveggja að liggja fyrir á sama tíma. Reglugerðin sem hv. þingmaður kom inn á og snýr að því hvaða starfsemi væri skráningarskyld en ekki starfsleyfisskyld er í rauninni eitthvað sem við hyggjumst fara í mjög náið samráð um við Samband íslenskra sveitarfélaga og heilbrigðiseftirlitin í framhaldi af þessari vinnu. Mér finnst skynsamlegra að bíða með það þangað til við vitum með hvaða hætti frumvarpinu reiðir af. Ef þar verða gerðar breytingar gæti það haft einhver áhrif á með hvaða hætti sú reglugerð yrði sett.

Varðandi spurninguna um hlutverk heilbrigðiseftirlitanna annars vegar og Umhverfisstofnunar hins vegar er mjög mikilvægt að staðinn verði vörður um þá nánu samvinnu og leiðbeiningarhlutverk heilbrigðiseftirlitanna. Ég er mjög meðvitaður um mikilvægi þess, enda oft þau sem eiga í samskiptum, ekki síst við smærri og meðalstór fyrirtæki, og það getur oft skilað okkur miklum árangri þegar kemur að því að framfylgja í rauninni markmiðum þessara laga.

Varðandi aðrar spurningar er það eitthvað sem við munum eiga gott samráð við viðkomandi aðila um.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til um.- og samgn.