150. löggjafarþing — 40. fundur
 4. desember 2019.
samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034, fyrri umræða.
stjtill., 435. mál. — Þskj. 599.

[20:42]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um stefnumarkandi samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034. Í þeirri tillögu að samgönguáætlun sem hér er sett fram eru lögð drög að úrlausn mikilvægra samgöngumála sem sum hafa lengi verið föst vegna deilna eða fjárskorts. Framlög til bæði viðhalds og þjónustu á vegum eru stóraukin, eða um ríflega milljarð á ári samtals út tímabilið. Það er óhjákvæmilegt að umræða um þetta seinna mál sé ekki ósvipuð umræðunni sem var áðan. Það er ekki hægt að tala um þessi mál nema í einu þótt valið hafi verið að gera það í tvennu lagi að þessu sinni.

Ég ætla að stikla á stóru í stefnunni en vísa að öðru leyti til fyrri ræðu minnar um fimm ára áætlunina. Það sem við erum að gera í þessu verkefni, þessari uppfærslu á samgönguáætlun, er að við flýtum vegaframkvæmdum, sem samtals eru metnar á um 214 milljarða, frá núgildandi samgönguáætlun, annaðhvort eru það ný verkefni, verkefni flutt framar í röðina eða þeim komið inn með fjármögnun með öðrum hætti en beint úr samgönguáætlun. Að loknu 15 ára tímabilinu verða umferðarmestu vegirnir, sem við leggjum mesta áherslu á út frá öryggissjónarmiði, til og frá höfuðborgarsvæðinu komnir með aðskilda akstursstefnu, 2+1, 2+2 á Vesturlandsvegi alla leið fram hjá Borgarnesi, á Suðurlandsvegi að Hellu og Reykjanesbraut að flugstöðinni. Reyndar gildir það um bæði Suðurlandsveg og Reykjanesbraut að þeir vegir verða kláraðar á fyrstu tveimur tímabilunum, örugglega fyrir árið 2029 og væntanlega eitthvað fyrr.

Það er ekki rétt sem hefur komið fram að mikilvægt sé að allir vegirnir hér verði byggðir upp sem 2+2 með mislægum gatnamótum og öðru slíku. Vegagerðin telur að það muni kosta 40% meira í þjónustu þangað til umferðin verður komin í 20.000 bíla eða rúmlega það. Það er þess vegna sem þetta er lagt til svona. Það er einfaldlega skynsamlegra að nýta fjármunina betur núna og koma síðan seinna og klára tvöföldunina. Þannig er það gert til að mynda á nýjum vegi í Ölfusinu þar sem grunnurinn er lagður og ódýrara að bæta við fjórðu akreininni og breyta síðan hringtorgum í mislæg gatnamót þegar þar að kemur.

Við leggjum jafnframt í þessari áætlun á ráðin um enn frekari flýtingu með frumvarpi um samvinnuverkefni, fyrir utan þessa 214 milljarða. Í áætluninni er lögð aukin áhersla á að koma á samvinnu milli einkaaðila og hins opinbera við uppbyggingu innviða og tryggja þannig að þjóðhagslegur ábati þeirra skili sér hraðar en ella. Til að mynda er lagt til að hringvegur norðaustan við Selfoss ásamt nýrri brú yfir Ölfusá geti komið fyrr, fimm, sex, sjö árum fyrr, heldur en ef við værum með forgangsröðun í samgönguáætlun. Tvöföldun Hvalfjarðarganga, hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli auk Sundabrautar verði þannig unnin sem samvinnuverkefni fullfjármögnuð af einkaaðilum. Þar að auki munu Axarvegur og hringvegur um Hornafjarðarfljót verða framkvæmdir með svokallaðri blandaðri aðferð en þá stendur beint framlag af samgönguáætlun undir hluta framkvæmdakostnaðar og svo fjármagna einkaaðilar það sem upp á vantar. Þeim hluta þeirra verkefna er þannig haldið utan fjárhagsramma áætlunarinnar.

Það er verið að kanna fýsileika þess hvort aðilar séu tilbúnir að taka þátt í slíkum verkefnum og þegar það liggur fyrir verður haldið áfram. Það kemur frumvarp hingað inn á vorþingi til að óska eftir heimild til handa ráðherra að fara þá leið og ég vænti þess að því verði vel tekið miðað við þá umræðu sem hér hefur verið og mikilvægi þess að flýta framkvæmdum.

Hér er líka verið að leggja fram jarðgangaáætlun í fyrsta sinn í mörg ár, sem sagt sérstaka jarðgangaáætlun sem hluta af samgönguáætlun. Hún gerir ráð fyrir að hafist verði handa við framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng árið 2022 og þeim þannig flýtt umtalsvert frá núgildandi samgönguáætlun. Með því mun langþráð markmið um að rjúfa einangrun Seyðisfjarðar nást fyrr en síðar. Í kjölfar þeirra er síðan gert ráð fyrir að það verði tvenn göng til viðbótar til að búa til hringtengingu á Austurlandi sem gæti umbylt lífskjörum almennings og styrkt byggðir innan svæðisins. Svara ég þar með gagnrýni formanns Samfylkingarinnar sem talaði um að mikilvægt væri að horfa til alls landsins. Ég er sammála honum að það er hættuleg þróun komin af stað. Hún er reyndar orðin sú að 84% íbúa búa frá Hvítá til Hvítár, á stórhöfuðborgarsvæðinu. En bæði það sem við erum að gera á Vestfjörðum og Austurlandi í því tilliti er einmitt verið að gera til að búa til svæði sem geta tekist á við áskoranir, frekari fækkun eða með öðrum orðum farið að byggja sig upp.

Við höfum náð sátt um framtíðarsýn og lausn á umferðarvanda höfuðborgarsvæðisins, svokallaðan samgöngusáttmála. Sáttmálinn tengir saman hagsmuni allra aðila, boðar byltingu í uppbyggingu samgönguinnviða fyrir alla fararmáta; fjölskyldubílinn, almenningssamgöngur, göngu og hjólreiðar. Þar er gert ráð fyrir uppbyggingu um allt að 120 milljarða á þessu 15 ára tímabili. 52 milljarðar fari í uppbyggingu stofnvega, tæpir 50 í uppbyggingu borgarlínu í almenningssamgöngukerfinu, rúmir 8 milljarðar fara í uppbyggingu göngu- og hjólastíga, göngubrúa, undirganga og tæpir 7 fara í sérstakar öryggisaðgerðir, umferðarstýringu sem lögð er áhersla á núna til að byrja með og mun hjálpa okkur verulega af stað við að bæta flæðið og aðrar flæðis- og öryggisbætandi framkvæmdir.

Við leggjum fram í fyrsta sinn stefnu í almenningssamgöngum milli byggða. Hin nýja stefna hefur það að markmiði að efla almenningssamgöngur sem valkost til ferðalaga milli byggðarlaga og styrkja þannig grundvöll þeirra og bæta mannlíf. Lykilviðfangsefni stefnunnar er að til verði heildstætt leiðakerfi á lofti, láði og legi. Aðgengi að upplýsingum um leiðir milli áfangastaða verði aukið og farmiðakaup auðvelduð. Ferðamátinn verður að vera samkeppnishæfur við ferðir með einkabílnum. Það hefur verið unnið að því áfram. Stefnan er komin og útfærslan heldur síðan áfram á næstu árum.

Við leggjum einnig fram í fyrsta sinn stefnu í flugmálum. Við höfum flogið hér í 100 ár og þetta er fyrsta stefnan. Ein af áherslum flugstefnunnar er að stutt verði við uppbyggingu Akureyrar- og Egilsstaðaflugvallar sem alþjóðlegra fluggátta, sem er stefna ríkisstjórnarinnar sem hefur verið unnið eftir. Við uppbyggingu innviða þar verði lögð áhersla á að þeir mæti sem best þörfum flugrekenda fyrir varaflugvelli hér á landi. Það hefur jafnframt verið samið um það við Isavia að þeir taki að sér rekstur og uppbyggingu á Egilsstaðaflugvelli. Við það verður til svigrúm strax á næsta ári sem m.a. nýtist til viðhalds á öðrum flugvöllum. Það er aukið fé til innanlandsflugsins strax á næsta ári sem nemur nokkur hundruð milljónum umfram þá 2,5 milljarða sem eru í þjónustusamningnum til flugvallakerfisins en eru ekki sundurliðaðir í samgönguáætlun, eins og kom ágætlega fram í máli einstakra hv. þingmanna. Það getur nýst auðvitað þar með talið á Akureyrarflugvelli en ég vil líka minna á í því samhengi að við settum 200 milljónir umfram samgönguáætlun í ÍLS-búnað á Akureyrarflugvelli til þess einmitt að styrkja hann sem nýja fluggátt inn í landið, ekki vegna þess að það væri krafa frá íslenskum flugmönnum og það væri nauðsynlegt öryggisins vegna heldur vegna þess að það var nauðsynlegt fyrir erlenda flugmenn sem þekkja ekki eins vel aðstæður þegar flogið er í aðflugi til Akureyrar til að auka öryggi þeirra og löngun til að fljúga á Akureyri. Við höfum því sannarlega staðið við það að halda þar áfram og ætlum að halda því áfram. Í því sambandi má nefna að við afgreiðslu fjárlaga var samþykkt að ríkinu væri heimilt að kaupa eða leigja húsnæði sem nýtist sem stækkun á flugstöðinni á Akureyrarflugvelli.

Samhliða þessu öllu er ég sammála þeim þingmönnum sem hafa rætt um flugið, að við þurfum að finna leiðir til þess að auka fjármögnun á næstu árum í viðhald og uppbyggingu á flugvöllum landsins og jafna þannig aðstöðumun landsmanna. Skoska leiðin svokallaða er mikilvægt skref í þá átt. Flugfargjöld eru há í samanburði við það sem býðst í millilandaflugi, þegar menn bera það saman. Greiðsluþátttaka stjórnvalda í Skotlandi hefur staðið frá árinu 2006, hefur reynst vel og það er ætlunin í samræmi við samþykkta samgönguáætlun að við tökum þetta kerfi upp næsta haust og að eftir ár geti íbúar landsbyggðarinnar notið góðs af henni.

Nýverið var undirritað samkomulag þess efnis að farið verði í nánari rannsóknir á mögulegri nýrri staðsetningu flugvallar á höfuðborgarsvæðinu, sem hefur talsvert verið rætt hér í dag. Samningurinn tryggir framtíð Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri og það að hann muni áfram sinna innanlandsflugi og að ekki verði þrengt frekar að vellinum næstu 15–20 ár, hið minnsta. Þar með er hægt að byggja upp flugstöð og koma því á með skilvirkum hætti. Það er líka lögð áhersla á að til verði skilvirkt og samþykkt kerfi alþjóðaflugvalla á einni hendi og að stutt verði við möguleika á fleiri hliðum inn í landið eins og áður hefur komið fram.

Samningurinn sem við gerðum við Reykjavíkurborg, sem síðan í starfshópi koma að sveitarfélögin á Suðurnesjum, er líka mikilvægur í því tilliti að við megum ekki loka augunum fyrir því sem er ókannað. Við þurfum að svara því þannig að við getum tekið ákvarðanir á réttum grundvelli þegar við erum að tala um svo stórar fjárhæðir og svo mikil áhrif sem það hefur ef við tækjum ákvörðun um að byggja upp nýjan flugvöll á suðvesturhorninu. Ef það reynist hins vegar ekki hægt, ef Hvassahraun reynist ekki ganga, er líka samkomulag um að þá þurfi að setjast niður að nýju því að þá erum við svolítið komin á núllpunkt aftur nema hvað að við höfum þá tryggt að búið verði að bæta Reykjavíkurflugvöll á því tímabili til þess að hann standi undir því hlutverki sem hann þarf að standa undir þangað til jafn góður eða betri flugvallarkostur finnst í nágrenninu. Þar á meðal gildir það fyrir einka- og kennsluflugið sem við höfum fyrir margt löngu tekið á okkur í samskiptum við borgina að færa það við það tækifæri þegar staðurinn er fundinn.

Við leggjum jafnframt grunn að því að málefnum barna verði gert hærra undir höfði í vinnslu samgönguáætlunar framtíðarinnar og þau gerð þátttakendur í mótun stefnunnar. Landsmenn allir, hvar sem þeir búa, munu með einum eða öðrum hætti njóta þeirrar uppbyggingar sem áætlun þessi boðar. Í lok fyrsta tímabils verður komin á hringtenging Vestfjarða með Dýrafjarðargöngum og uppbyggðum vegum á Dynjandisheiði. Á öðru tímabili bætist við uppbygging Vestfjarðavegar við Bíldudal og vonandi á næstu vikum verður boðinn út vegurinn um Teigsskóg svokallaðan eða Reykhólasveitina og þá verður kominn á uppbyggður vegur sem við höfum mörg hver hér verið að bíða eftir og uppbygging grunnkerfisins á Vestfjörðum þá þegar komið á allt annan stað. Hér talaði einn hv. þingmaður í dag um að hann hefði ekki séð nein stórvirki gerast á síðastliðnum tveimur árum en ég get farið yfir langan lista með honum ef hann vill.

Með vegbótum áætlunarinnar á sunnanverðum Vestfjörðum til að mynda og uppbyggingu vegar til Borgarfjarðar eystri verður þar af leiðandi á tímabilinu náð mikilvægu markmið í samgönguáætlun til langs tíma, þ.e. að tengja saman með bundnu slitlagi byggðir með yfir 100 íbúa og endurnýja margar eldri stórar brýr, svo sem brúna yfir Ölfusá, Jökulsá á Fjöllum, brúna yfir Lagarfljót, báðar brýrnar yfir Skjálfandafljót og eru reyndar fleiri brýr komnar á teikniborðið og aðrar voru þegar boðnar út í haust, ef ég man rétt, ég held að það hafi verið boðnar út fimm eða sex brýr á leiðinni til Hornafjarðar, hv. þingmaður, sem var að bíða eftir framkvæmdum.

Nýr vegur á milli Kotár og Morsár styttir Hringveginn um 5 km og fækkar einbreiðum brúm á Hringveginum um þrjár. Nýr vegur um Lón á þriðja tímabili mun stytta Hringveginn um 4 km og fækka einbreiðum brúm á Hringveginum um sex, þannig að það er mjög margt í pípunum.

Á öðru tímabili verður einnig unnið að endurgerð vegarins um Uxahryggi. Norðausturvegur í Aðaldal um Skjálfandafljót verður endurgerður á öðru tímabili og um leið afleggjast tvær einbreiðar brýr þar. Á fyrsta og öðru tímabili verður Strandavegur um Veiðileysuháls endurgerður og Vatnsnesvegur endurgerður með bundnu slitlagi á öðru og þriðja tímabili. Á þriðja tímabili verði svo Hringvegurinn suður fyrir endurbættur verulega.

Framlög til uppbyggingar hjólainnviða eru stóraukin í áætluninni. Framlög til tengivega aukast um 4,4 milljarða á tímabilinu að teknu tilliti til þess að Vatnsnesvegur er nú kominn á áætlun. En ég er sammála hv. þingmanni að þar er áskorun sem við þurftum að gera betur í, í tengivegakerfinu á Íslandi, það þarf meira fjármagn þar inn. Ég legg þess vegna til að að lokinni þessari umræðu um þennan hluta samgönguáætlunarinnar gangi þingsályktunartillagan til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og síðari umræðu.

Ég vil að lokum, vegna þess að ég heyrði talsverðar umræður um að hér væri mikið um áætlanir og stefnur, útskýra fyrir þeim þingmönnum sem ekki hafa enn þá áttað sig á því að þingsályktun er stefna og 15 ára áætlun er stefna til 15 ára. Fimm ára aðgerðaáætlun er betur niðurnjörvuð stefna og markmið um það hvað við ætlum að gera. Svo mun það skýrast á hverjum degi héðan í frá, þegar stefnan hefur verið samþykkt, hvort okkur takist að framkvæma í takt við þá stefnu. Séu menn að bíða eftir því sem gerist eftir 15 ár þurfa þeir auðvitað að bíða eftir því sem stefnt er að gerist eftir 15 ár. Þetta er stefna. Þetta er áætlun. Þetta er ekki loforðalisti eða listi daginn fyrir kosningar þar sem við segjum: Sjáið hvað við gerðum á síðustu fjórum árum. Þetta er stefna til næstu 15 ára.



[20:57]
Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði að halda aðeins áfram með umræðuna um flugvallarmálin, það sem snýr að þjónustusamningnum. Það er búið að ganga frá samkomulagi við Isavia um Egilsstaðaflugvöll og þá losnar um fjármagn. Hvenær er von á að við heyrum eitthvað af sundurliðun á því fjármagni, hvernig við munum nýta það í framhaldinu á næsta ári? Ég er viss um að það eru margir sem bíða spenntir eftir að heyra af því.

Varðandi Hvassahraunsskýrsluna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig þetta tengist, Hvassahraunið, Reykjavíkurflugvöllur og aðalskipulagið í Reykjavík þar sem er bara gert ráð fyrir norður/suðurbrautinni til 2022 og austur/vesturbrautinni til 2024, það eru ekki nema tvö ár í að aðalbraut Reykjavíkurflugvallar sé í aðalskipulaginu. Er ekki nauðsynlegt, eins og kemur fram í samkomulaginu, að ítreka það og fá það fram að borgarstjórnin í Reykjavíkurborg, meiri hlutinn í Reykjavík, breyti aðalskipulaginu með þeim hætti að gert sé ráð fyrir Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýri til 2040 meðan þetta langa ferli fer fram, sem er einmitt rætt í Hvassahraunsskýrslunni, að menn geti farið í þetta 20 ára ferli sem kemur fram í skýrslunni að þarf að fara í, veðurfarsrannsóknir og aðrar rannsóknir og allt sem því fylgir? Þarf sá vilji af hálfu borgarinnar ekki að koma skýrt fram núna áður en menn fara í miklar pælingar? Þessi tímarammi í aðalskipulaginu verður að vera á hreinu í stóra samhenginu og ef hann er ekki til staðar þá erum við í slæmum málum vegna þess að ekki getum við haft flugvöllinn í Vatnsmýrinni ekki í aðalskipulagi og verið á sama tíma í þessu ferli sem einhverju óvissuferðalagi.



[20:59]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurn um flug, hún kom mér á óvart. Varðandi þetta viðbótarfjármagn leitum við auðvitað til Isavia um hvernig þjónustusamningurinn lítur út og forgangsröðun verkefna þar. Þegar við sjáum fyrir okkur hvaða fjármuni við höfum til viðbótar við þjónustusamninginn þá munum við að sjálfsögðu leita til þeirra. En eins og hv. þingmaður veit og margir aðrir hérna í salnum þá vantar okkur verulega meira fé í innanlandsvellina og þeir eru margir hverjir alveg komnir á síðasta damp eins og hér hefur komið fram hjá einstaka þingmönnum. Það verður enginn vandi að koma þessum fjármunum út til þess sem nauðsynlega þarf. Ég held að það muni hjálpa okkur verulega að hafa úr nokkur hundruð milljónum meira úr að spila á næsta ári en ella.

Varðandi hina fyrirspurnina, um aðalskipulag Reykjavíkurborgar, þá segjum við einfaldlega í þessu samkomulagi að stefnt skuli að því flytja núverandi flugstarfsemi, reynist það vera vænlegur kostur og liggi fyrir niðurstaða um fjármögnun. Svo segir:

„Aðilar eru sammála um að tryggt verði rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli á meðan undirbúningi og gerð nýs flugvallar stendur, þar með talið eðlilegt viðhald og endurnýjun mannvirkja í samræmi við ákvæði gildandi samgönguáætlunar Alþingis. Miðað verði við að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til nýr flugvöllur er tilbúinn til notkunar.

Reykjavíkurborg lýsir yfir vilja sínum til að tryggja nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur í samræmi við 2. mgr. 5. gr. samkomulags þessa.“

Þetta liggur því í augum uppi. Sem ráðherra mun ég ekki segja Reykjavíkurborg fyrir um hvernig nákvæmlega þau breyta aðalskipulagi sínu en það er hluti af þessari undirritun að breyta aðalskipulagi, þó að það sé vissulega fyrirvari í núgildandi skipulagi. En ég held að það sé miklu skýrara og umræðan á Íslandi verður miklu gáfulegri þegar við tölum um hlutina eins og þeir eru.



[21:01]
Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir greinargott svar. Það liggur þá nokkuð ljóst fyrir í þessu máli hver vilji hæstv. ráðherra er í málinu. Mig langaði að víkja þá aðeins að Isavia en fyrir ári síðan, ég held í lok nóvember á síðasta ári, sendi Isavia umsögn við samgönguáætlun sem við vorum að eiga við fyrir ári síðan, átta til níu síður, þar sem var sýnt fram á hversu illa flugvallarkerfi landsins stæði, þá var líka verið að tala um litlu flugvellina vítt og breitt um landið, í grunnnetinu og reyndar þó víðar væri leitað. Umsögnin sagði okkur það raunverulega að þetta kerfi er handónýtt eins og það er statt núna. Ég hef rætt hérna fjármögnun í fyrri ræðum í dag, fjármögnun kerfisins og hvað gerðist 2011 þegar það hvarf í raun milljarður út úr kerfinu. Er þetta ofarlega á listanum núna hjá ráðuneytinu og hæstv. ráðherra að fara í að laga þetta, varðandi þá miklu athugasemdir við grunnetið sem gerðar voru í umsögn Isavia fyrir ári síðan?



[21:02]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er alveg klárt og ég held að við séum öll sammála um að það vantar fjármagn þarna inn. Eins og kom fram hjá hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni varðandi gjaldtökuna, og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson hefur áður rætt við mig um hana, þá hvarf gjaldið hvarf auðvitað ekki, þ.e. peningarnir. Þeir fóru í uppbygginguna í Keflavík, skiluðu sér ekki í uppbyggingu á varaflugvöllunum. Við höfum velt fyrir okkur að koma á einhvers konar uppbyggingargjaldi fyrir varaflugvallakerfið, ekki á næsta ári heldur kannski frá árinu 2021. Við erum í ágætissamtali við aðila um það, Isavia, fjármálaráðuneytið og fleiri. En við þurfum jafnframt, og ég tek undir það og ætla bara að segja það hér, það er mín skoðun, að leita allra leiða til að finna meira fjármagn í næstu fjármálaáætlun til að forgangsraða í flugið vegna þess að það er þörf á því.



[21:03]
Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Mig langar til að víkja aðeins að þessu samkomulagi — kannski erum við að endurtaka okkur hér, ég og félagi minn, hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson. Ég vil ítreka það sem ég sagði hér fyrr í dag, ég ætla hæstv. ráðherra ekki annað en góðan tilgang einan í þessu. En það sem ég hef áhyggjur af er þetta nýyrði með nýtingarstuðulinn, það er ekki í samræmi við reglugerðina sem um ræðir heldur ætti þetta að heita nothæfisstuðull og miðast við reglugerð 464 frá 2007. Það sem ég hef líka áhyggjur af er orðalagið í samkomulaginu sjálfu og það er að ekkert er fast í hendi þó að Reykjavíkurborg lýsi yfir vilja sínum til að tryggja nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur. Maður myndi vilja sjá það fastar niður sett þannig að völlurinn haldi sér örugglega vegna þess að tíminn sem þyrfti, ef farið yrði í uppbyggingu á nýjum velli, er einfaldlega það langur. Það er þetta orðalag, þar sem segir að starfshópurinn skuli skila skýrslu sinni og niðurstöðum fyrir lok árs 2021, sem er akkúrat degi áður en árið 2022 gengur í garð en þá er heimilt samkvæmt gamla samkomulaginu að loka norður/suðurbrautinni og svo þeirri seinni, eða síðustu öllu heldur, 2024.

Það er talað um innanlandsflugið, að miðað verði að því að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt en í gamla samkomulaginu frá 2013 segir, með leyfi forseta:

„Óháð öðrum verkþáttum sem í samkomulaginu felast munu innanríkisráðuneytið og Isavia hafa forgöngu um að kennslu- og einkaflugi verði fundinn nýr staður í nágrenni borgarinnar …“

Mig langar til að spyrja ráðherra: Eigum við von á því að þessir tilteknu þættir í flugstarfseminni víki af Reykjavíkurflugvelli?



[21:06]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svo að ég svari aftur vil ég lesa upp úr samkomulaginu. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Reykjavíkurborg lýsir yfir vilja sínum til þess að tryggja nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur í samræmi við 2. mgr. 5. gr. samkomulags þessa.“

Og hvað stendur í 2. mgr. 5. gr.?

„Aðilar eru sammála um að tryggt verði rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli á meðan á undirbúningi og gerð nýs flugvallar stendur, þar með talið eðlilegt viðhald og endurnýjun mannvirkja í samræmi við ákvæði gildandi samgönguáætlunar Alþingis. Miðað verði við að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til að nýr flugvöllur er tilbúinn til notkunar.“

Það gildir auðvitað um sjúkraflugið. Við þekkjum samkomulagið um að kennslu- og einkafluginu verði fundinn nýr staður. Þegar við erum sammála um að skoða Hvassahraun og ef niðurstaðan verður jákvæð erum við komin með ákveðna uppbyggingarfasa sem við getum skalað upp — þetta er ekki góð íslenska, ég biðst forláts á því — og þá erum við með eitthvert plan. Ef þessi tveggja ára rannsókn leiðir það hins vegar í ljós að Hvassahraun gengur ekki erum við á svolítið verri stað og þurfum að setjast niður aftur.

Það er tryggt með þessu samkomulagi að við höldum áfram því sem við þekkjum í dag í tiltekinn tíma, förum og skoðum og svörum þeim ósvöruðu spurningum sem sumir hafa haldið fram að búið væri að svara í þessa átt eða hina. En það kom í ljós í könnuninni að þeim var ósvarað, spurningum um veðurfar, um flugprófanir, um umhverfismat, um fleiri þætti, um ferðatíma frá Hvassahrauni að Landspítala eða inn í miðborgina að stjórnsýslunni fyrir þá sem eru að koma með innanlandsflugi. Síðan eru hlutir er lúta að sjúkrafluginu til að tryggja að sá tími sé sem stystur. Ég vil fullyrða að þetta samkomulag taki á þeim þáttum og Reykjavíkurborg mun að sjálfsögðu gera sitt til þess að uppfylla það.



[21:08]
Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Þetta er kannski það sem ég var að reyna að fá fram, að það væri algjörlega kristaltært að búið væri að tryggja veru Reykjavíkurflugvallar og þjónustuhlutverk hans til þessa tíma fyrir alla þá starfsemi sem er þar, hvort sem það er sjúkraflug, verkflug, innanlandsflug, æfinga- eða einkaflug. Ég held að það sé afar mikilvægt til að sátt náist. Mig langar einnig að ítreka að ef það er svo að menn eru sammála um þetta og ætla sér að standa við þetta miðað við þann skilning sem hæstv. ráðherra leggur í plaggið þá er það vel. Ef í ljós kemur að Hvassahraun er álitlegur kostur og þar verði hægt að byggja upp góðan flugvöll sem sinni öllum þessum hlutverkum væri afar ánægjulegt að ná að lokum sátt í þetta stóra mál.



[21:09]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta verður kannski bara meðsvar og verður ekki langt. Ég er sammála hv. þingmanni. Þetta mál hefur dálítið snúist um það að menn hafa verið í skotgröfum hægri, vinstri, einn hópur hefur haldið einu fram og annar hópur öðru. Ég sé það jafnframt í umræðunni síðustu daga að menn eru enn að flagga sínum sjónarmiðum, gömlum skýrslum og slíku, í staðinn fyrir að fjalla um niðurstöður þessarar skýrslu þar sem reynt var að leiða allar skýrslurnar saman. Við vorum að vonast til að öll svörin væru komin fram. Þau voru það ekki. Þá eru þær spurningar settar í skýran farveg til að fá svör við þeim í starfshópi þar sem sveitarfélögin á Suðurnesjum eiga líka sæti, sem er mjög mikilvægt, og fulltrúar úr Vogunum þar sem Hvassahraun er að stærstu leyti ef ekki öllu. Þetta varðar mjög hagsmuni sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Við getum vonandi svarað þessum spurningum og þá getum við tekið umræðuna á faglegan og málefnalegan hátt um það hvað eigi að gera þegar sú niðurstaða liggur fyrir. Þangað til eru hlutirnir í eins öruggu og góðu lagi og hægt er á Reykjavíkurflugvelli.



[21:10]
Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir framsögu hans um tillögu um samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034. Ég verð að segja að af því sem ég hef gluggað í að dæma er þetta metnaðarfull áætlun og ályktun, stefna eins og ráðherrann sagði. En mig langar að spyrja ráðherrann út í fjármögnunarleiðir. Nú talar ráðherrann um að fimm ára áætlunin sé fullfjármögnuð. Hvernig er með fjármögnunarleiðir í þessari langtímastefnu? Hvað sér ráðherra fyrir sér í framtíðinni? Hv. þm. Jón Gunnarsson kom inn á það í lok ræðu sinnar um fimm ára áætlunina að stór hluti umræðunnar þá hefði snúist um að gjaldtökuleið væri að verða ofan á í umræðunni og það má vel vera. Sá sem hér stendur ræddi um að gjöld á ferðamenn væri eitthvað sem þyrfti að horfa meira til og fleira á þá leið. Hvað sér ráðherrann fyrir sér í framtíðinni með fjármögnunarleiðir sem svona metnaðarfullt plagg hlýtur að kalla á?



[21:12]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst aðeins leiðrétta hv. þingmann. Ég sagði einmitt að í fimm ára áætluninni núna, í samgönguáætluninni, vantaði 1,5 milljarða 2022, 2023 og 2024 miðað við núgildandi fjármálaáætlun. Það kemur auðvitað fjármálaáætlun á hverju ári þannig að það er svolítil áskorun í því og við getum farið yfir það betur ef hv. þingmaður vill.

Varðandi fjármögnun standa yfir, eins og hér hefur aðeins verið rætt í dag, orkuskipti í samgöngum sem munu kalla fram að við þurfum að skipta um tekjukerfi á umferðinni. Það hefur líka komið fram að hæstv. fjármálaráðherra hefur sett á laggirnar starfshóp sem miðar að því að hugsanlega verði hægt að taka upp nýtt gjaldtökukerfi strax á árinu 2022. Það er ekki markmiðið með endurskoðun á tekjumódelinu að hækka gjöld á bifreiðaeigendur heldur verður það gert með notendamiðaðri hætti. Við þekkjum í vaxandi mæli að allir þeir sem keyra á umhverfisvænum bílum í dag borga ekki til kerfisins því að þeir borga ekki bensín- og dísilgjöld og þegar þeim bílum fjölgar, vonandi sem hraðast, munu tekjurnar inn í þetta kerfi okkar minnka og hverfa smátt og smátt. Þess vegna er mikilvægt að sú fjármögnun komi þar inn.

Ég nefndi samvinnuverkefnin sem eru þá viðbótarverkefni. Þar er á ferð samvinna einkaaðila, lífeyrissjóða, fjárfestingarbanka, Vegagerðarinnar og annarra við hið opinbera um að fara í sérstakar framkvæmdir sem yrðu fjármagnaðar að fullu með slíku fé. Þá gætum við hækkað framkvæmdastigið og flýtt verkefnum sem eru ábatasöm fyrir alla, fyrir samfélagið og líka fyrir þann sem fer ferðina. Það er val um aðra leið og hún er stytting. Hún er þar af leiðandi loftslagslega jákvæð líka. Það er einn þáttur í því sem við erum að skoða í þessari samgönguáætlun.



[21:15]
Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og tek þau góð og gild. Mig langar að spyrja ráðherrann í seinna andsvari um skosku leiðina títtnefndu. Hann nefndi að hún kæmi inn á næsta ári. Nú hafa flugrekstraraðilar talað um það í fjölmiðlum að þeir hafi áhyggjur af því að þó að þetta sé skref í rétta átt gagnist það meira farþegum en félögunum sem reka fyrirtækin, að þeir hafi áhyggjur af því að þetta hjálpi þeim ekki til að halda sjó í sínum rekstri.

Ég ætlaði líka að spyrja ráðherrann út í, af því að ég talaði um þá í minni ræðu, þungaflutninga upp á land. Hefur verið skoðað að koma strandsiglingum aftur á koppinn?



[21:16]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Með strandsiglingarnar vil ég bara segja að ég hef ekki skoðað sérstaklega að koma þeim á með sérstökum hætti en það hefur verið að gerast á síðastliðnum árum með vaxandi útflutningi frá fleiri höfnum að þær eru líka notaðar til að flytja vörur á milli hafna á Íslandi sem og í innflutningi. Þannig að það hefur í raun verið að gerast að einhverju leyti.

Varðandi skosku leiðina er það alveg rétt að hún var ekki hugsuð sem niðurgreiðsla til flugrekenda. Hún er til þess að jafna aðstöðumun fólks sem býr úti á landi, langt frá þeirri starfsemi sem við höfum ákveðið að byggja hér upp í Reykjavík, hvort sem er á sviði heilbrigðismála eða menningar og menntastofnana. Hún er til þess gerð. En það sem við höfum séð — og þess vegna var hún áhugaverð — er að hún býr til aukinn hvata fyrir að fólk nýti sér þennan ferðamáta, sem þýðir að flugið verður vinsælla, það verða fleiri sem nýta sér það. Þannig styrkir hún einnig rekstrargrundvöll flugrekenda.



[21:17]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Við höldum áfram að ræða samgönguáætlun, nú áætlun til næstu 15 ára, til 2034. Ekki að ég ætli að fjalla um þessa áætlun ofan í kjölinn. Til þess hef ég ekki kynnt mér hana nægjanlega. En það liggur fyrir að umhverfis- og samgöngunefnd á fyrir höndum mikla vinnu við að fjalla um þessa áætlun, endurraða verkefnum og leggja til eitt og annað sem til úrbóta gæti horft. Á ég von á vandaðri vinnu í nefndinni.

Ég hafði nefnt í ræðu fyrr í kvöld að það sem einkennir þessa áætlun væri helst að flest stærri verkefni eru sett töluvert fram í tímann þannig að flest þeirra verða á höndum næstu eða þarnæstu ríkisstjórnar eða jafnvel enn þá lengra inn í framtíðina. Margar mikilvægar og brýnar framkvæmdir eru ekki á dagskrá á næstu misserum eða árum. Ég ætla aðeins að fara betur ofan í það sem ég ræddi í minni fyrri ræðu um vandamál sem steðja að framkvæmdum. Við stöndum frammi fyrir því, frú forseti, að flækjustig allra framkvæmda er orðið slíkt að stórkostlegur kostnaður leggst á framkvæmdir löngu áður en fyrsta skóflustungan er tekin og er stór hluti kostnaðar þá þegar fallinn á verkið. Þetta er eitthvað sem þarf að skoða. Það sem ég nefndi áðan ætla ég að fara aðeins dýpra ofan í. Ég held að það sé mikilvægt að leita nýrra leiða hvað framkvæmdir varðar, þ.e. að leitast við að gera einstakar framkvæmdir ódýrari, eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni, t.d. með því að einfalda gerð undirganga sem fara undir þá vegi sem fyrir eru. Ég held að þar sé miklum verðmætum sóað, frú forseti, þar sem unnt er að gera slíkt með forsteyptum einingum — hér vísa ég í samtöl við þá sem gerst þekkja — sem eru bæði ódýrari og einnig taka slíkar framkvæmdir miklu styttri tíma, eru til hægðarauka fyrir vegfarendur og minnka slysahættu meðan á framkvæmdum stendur. Við verðum að fara að hætta að finna upp hjólið. Hönnun, teikning, gröftur, uppsláttur jafnvel í þrígang og jafnoft er beðið eftir að steypan þorni — þetta er eitthvað sem er bæði dýrt og tímafrekt og á að heyra fortíðinni til. Sama mætti einnig segja um aðferðir við að byggja einfaldar brýr. Það má gera á einfaldari hátt en við gerum núna. Allt þetta hefur verið hannað margsinnis áður. Öll þessi þrautaganga er að mínu mati algerlega óþörf. Ég veit satt að segja ekki hverjum þetta þjónar, a.m.k. ekki skattgreiðendum.

Frú forseti. Í þessari ræðu ætla ég að tína til nokkrar einstakar framkvæmdir sem eru mörgum hugleiknar. Ég veit að verkefnin eru sannarlega mörg í vegagerð og skil hæstv. ráðherra mætavel. Honum er mikill vandi á höndum að forgangsraða og ekki er hægt að gera allt samtímis, ég átta mig alveg á því. En það má kannski reyna að hugsa hlutina svolítið upp á nýtt eins og ég var að nefna varðandi aðferðina og ýmislegt annað sem ég gæti nefnt. Ég nefndi fyrr í dag Sundabrautina sem hvergi sést í þessari áætlun og endurtekin vonbrigði mín með uppgjöf stjórnvalda í því. Ég ætla að nefna Reykjanesbraut frá Hafnarfirði og suður á flugstöð. Þeir vegarkaflar sem þar á helst eftir að ljúka á að ljúka á árunum 2024–2029, sem er að mínu mati mjög seint miðað við umferðarþungann á þessum vegi. Þarna er um að ræða kaflana frá flugstöð og einnig kaflann við Straum. Báðir þessir kaflar eru settar í þennan tímaramma, þ.e. á 2. tímabili áætlunarinnar. Varðandi Suðurlandsveg á Selfoss verður samkvæmt þessari áætlun austurkafla þess vegar lokið 2029, eftir tíu ár, en nú er verið að leggja lokahönd á 3 km kafla austan við Hveragerði en kafli neðan Hveragerðis er settur á árin 2004–2029. Allur þessi vegarkafli, alla leið á Selfoss, er brýn samgöngubót, ekki hvað síst þegar horft er til öryggissjónarmiða. Vesturhluti þessa sama vegar austur á Selfoss, þ.e. nær höfuðborginni, héðan frá Rauðavatni og að Lögbergsbrekku, virðist samkvæmt áætluninni, a.m.k. lokakafli framkvæmdar við þann vegarkafla, vera á dagskrá á tímabilinu 2024–2029. Ég verð að segja að mér finnst þetta vera ansi seint. Þetta eru vegir með eina akrein í hvora átt alveg í bakgarði höfuðborgarinnar þar sem mesti umferðarþunginn er og hann eykst ár frá ári.

Brúin yfir Ölfusá, sú bráðnauðsynlega framkvæmd — núverandi brú er mikill farartálmi, þó að ekki sé litið nema til þeirra viðbragðsaðila sem þurfa að komast leiðar sinnar. Sú framkvæmd er í áætluninni og hugmyndir um að fjármagna kostnaðinn, þ.e. 6 milljarða, í samstarfi við einkaaðila og þá er ætlunin að fjármagna verkið með veggjöldum, líklega, en ekki er gert ráð fyrir fjármagni í þetta verkefni til ársins 2024, nema þá í forhönnun. Varðandi brúna yfir Jökulsá á Sólheimasandi, sem er fyrsta einbreiða brúin á þjóðvegi eitt frá höfuðborginni austur um: Hún er á áætlun 2020–2024, 550 milljónir, og er það vel og löngu kominn tími til miðað við þann umferðarþunga sem er á þessum slóðum og hefur verið að aukast mjög hratt. Brúin yfir Hornafjarðarfljót — þar er einnig gert ráð fyrir að ganga til samstarfs við einkaaðila um fjármögnun, sem er annað nafn yfir veggjöld, og er gert ráð fyrir tæpum 2,5 milljörðum í verkefnið á næstu fjórum árum, sem er þá líklega helmingurinn af kostnaðinum. Ég vil taka undir með hæstv. ráðherra að þetta sé mjög brýn framkvæmd og stytti leiðina austur til Hornafjarðar og hún losar einnig út nokkrar einbreiðar brýr sem eru nú á þessum vegarkafla. Ég tek undir með hæstv. samgönguráðherra um styttingu vegarins við Morsá og Kotá en mér sýnist ansi langt í að það gerist.

Hugsunin varðandi láglendisveginn í Mýrdal og göng undir Reynisfjall er að vinna þá framkvæmd í samstarfi við einkaaðila, þ.e. að fjármagna þá framkvæmd með veggjöldum upp á 6,5–8 milljarða í samstarfi við einkaaðila. Alla vega er ekki gert ráð fyrir fjármagni í þetta verkefni á næstu 15 árum nema þá í frumathugun verkefnisins.

Ég ætla einnig aðeins að nefna Vatnsnesveginn sem er löngu orðin víðfrægur fyrir að líta fremur út eins og þvottabretti en vegur og er því miður ekki á dagskrá fyrr en á síðasta tímabili áætlunar, 2030–2034.

Loks ætla ég að nefna Landeyjahöfn. Varð þar vel að vonum. Í gær eða fyrradag var samþykkt þingsályktun um að framkvæma óháða úttekt á þessari höfn og ég er ansi ánægður með það og vil lýsa því yfir að ég á von á að sú úttekt taki skamman tíma og niðurstöðurnar komi fljótt. Ef niðurstaðan verður sú að gera þurfi einhverjar endurbætur á höfninni þarf að ganga í það sem fyrst. Það er búið að leggja í þessa framkvæmd mikið fjármagn og ef hún virkar ekki þarf að ganga í að laga hana. Það getur verið minni kostnaður við það að laga hana en að dýpka hana stanslaust eins og gert hefur verið síðustu ár. Ég vil því brýna hæstv. ráðherra í þessum efnum, sem er kannski alger óþarfi.



[21:27]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og langar aðeins að fá að eiga orðastað við hann um nokkuð sem kom fram hjá honum, bæði nú og í fyrri ræðu, þegar hann ræddi fimm ára áætlunina og það er hár kostnaður sem oft virðist jafnvel koma á óvart í einfaldari og minni verkefnum, ef ég skildi hv. þingmann rétt. Mig langaði eiginlega bara til þess að spyrja hvort hann hafi eitthvað skoðað það — af því að hv. þingmaður kom aðeins inn á að það gætu verið einhverjar ástæður eins og öryggiskröfur, eða hvað það væri, sem gerði að verkum í undirbúningi að slík verkefni yrðu kostnaðarsamari en stundum mætti ætla — eða gert samanburð við þau lönd sem við berum okkur helst saman við eða hvort hann hefði gefið sér tíma til að fara ofan í kjölinn á þessari tilteknu þróun.

Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það kemur gjarnan á óvart að þessar tilteknu framkvæmdir, hvort sem um er að ræða göngubrýr eða jafnvel brýr, göng undir tiltekna vegi, eitthvað slíkt, eru ansi fyrirferðarmiklar í fjármálaáætlunum þegar kemur að framkvæmdum. Mér þætti bara gaman að heyra, úr því að hv. þingmaður nefnir þetta tvívegis eða kemur inn á þennan hluta, hvort hann hafi gefið sér tíma til að kafa ofan í þetta og reynt að vega og meta hvort við séum að fylgja einhverri almennri þróun eða hvort eitthvað annað sé undirliggjandi sem vert sé að skoða í stóru myndinni.



[21:29]
Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu sem er afskaplega áhugaverð. Það vill svo til að ég hef hitt nokkra verktaka sem hafa nú kannski ekki verið að gera þessa hluti en mér skilst að í öðrum löndum sé þetta gert með miklu einfaldari hætti, það séu forsteyptar einingar sem eru gjarnan járnbundnar og uppfylla allar kröfur. Ég hef ekki skoðað þetta alveg ofan í kjölinn, ég verð að játa það. En af viðtali við verktaka virðist eins og við séum jafnvel ein meðal fárra þjóða sem framkvæmum þetta á þennan flókna hátt, þ.e. að það sé slegið upp, það sé fyrst hannað, það sé teiknað. Þetta eru nú samt alltaf eins undirgöng undir vegi, það er alltaf eins, það þarf bara að komast þarna undir, keyra undir eða ganga undir, og þetta er raunverulega mjög einfaldur kassi sem þarna er slegið upp, fyrst gólfi, síðan veggjum beggja vegna og síðan þaki. Í hvert sinn þarf að bíða eftir að steypan þorni og svo þarf að bíða lengi eftir að hleypa megi umferð á. Þeir sem ég hef talað við fullyrða að þetta sé ekki gert svona víðast hvar annars staðar heldur séu forsteyptar einingar fluttar á staðinn þegar búið er að grafa, þær settar niður og síðan fyllt að og þá er hægt að keyra yfir. Ég nefndi þetta nú bara vegna þess að ekki er langt síðan ég hitti einn mann sem nefndi þetta líka. Þetta er kannski ein leið til að spara. Mér hefur vaxið í augum kostnaðurinn við framkvæmdir, eins og að hringtorg kosti 300 milljónir. Mér finnst það ótrúlega mikið fjármagn. Og hvar erum við stödd? Hvert er vandamálið? Eru einhverjir menn einhvers staðar í kerfinu sem sitja að einhverjum kjötkötlum sem erfitt er að koma þeim frá? Mér dettur það helst í hug.



[21:31]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega andsvarið. Ég hef ekki svarið heldur en þessu er bara fróðlegt að velta upp. Við vitum náttúrlega að við búum oft og tíðum við sérstakar aðstæður. Það er bæði virknin hér hjá okkur, við viljum jú að byggingarnar standi, og það eru veðraskil sem við búum við. Svo erum við jú þjóð sem vill vinna hlutina vel og ég held að það sé engin ástæða — og ég hef ekkert slíkt í höndunum — til að vera að draga einhverjar ályktanir af þessu. En mér þykir þetta fróðlegt. Það er eins og ekki sé lagt af stað í nein verkefni án þess að hundruð milljóna kostnaður komi nánast strax. Þetta er bara mjög áhugavert og í ljósi þeirrar yfirferðar sem hæstv. samgönguráðherra hefur haft um þau brýnu verkefni sem eru fram undan — og nú er styttist í að málinu sé vísað í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem ég og hv. þingmaður eigum bæði sæti — er alla vega að mínu viti einnar messu virði að taka umræðu um þetta, hvort sem það er með því að fá til okkar aðila sem þekkja til eða hvað það er. En þetta er alla vega áhugavert innlegg þegar svona miklar og brýnar framkvæmdir eru fram undan. Eins og fram hefur komið hjá hæstv. ráðherra verður áskorun að fjármagna þetta. Það þarf alla vega að halda vel utan um þessa hluti og ég fagna því að hv. þingmaður hafi vakið máls á þessu hér. Ég hef í sjálfu sér ekki neina aðra frekari fyrirspurn. Mig langaði bara til að vekja athygli á þessu og taka undir.



[21:33]
Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir andsvarið og tek undir ýmislegt sem kom fram hjá henni. Þetta er auðvitað mjög áhugavert en ég er alveg viss um að hæstv. samgönguráðherra hefur örugglega heyrt þetta allt saman áður og gerir sér fulla grein fyrir því hvert vandamálið er. Það þarf bara að vinna í því, held ég, og það er í hans verkahring. Þetta á líka við um brýr, a.m.k. minni brýr, þær væri hægt að gera á einfaldari hátt en að hanna þær og teikna og slá síðan upp með öllum þeim fyrirgangi og tíma sem í það fer. Það er ýmislegt fleira hægt að gera til þess að framkvæmdir geti gengið hraðar fyrir sig. Það er ekki bara til að spara kostnað og tíma heldur er líka eitthvað sem heitir slit á vegum sem má að langmestu leyti rekja til þungaflutninga, alls ekki fólksbifreiða heldur að langmestu leyti til þungaflutninga. Það má kannski breyta kröfum til þessara bifreiða. Það skiptir máli hversu breið dekkin eru. Það skiptir máli hvað eru margir ásar. Það skiptir máli hversu mörg dekkin eru. Það mætti kannski skoða það. Ég held að það sé stórkostlegt fjármagn sem liggur í því að reyna að minnka álag á vegum og kannski er hægt að leysa eitthvað af því með einföldum breytingum á kröfum til þungabifreiða sem eru að flytja tugi tonna eftir vegunum. Eins og sérfræðingar segja eru það þessar bifreiðar sem slíta vegunum þúsund eða tugþúsund sinnum meira en litlar fólksbifreiðar, þannig að ég held að það sé ýmislegt hægt að skoða. Við þurfum ekki að gera þetta svona rosalega flókið og rosalega dýrt. Við hljótum að reyna að finna lausnir.

Ég er ánægður með að hæstv. ráðherra situr undir þessari umræðu og heyrir þær uppástungur sem hér hafa komið fram.



[21:35]
Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034. Eins og ég sagði í andsvörum við hæstv. ráðherra áðan virðist, alla vega við lestur fyrstu síðna ályktunarinnar sem ég er ekki kominn djúpt inn í, um frekar metnaðarfulla áætlun að ræða, þó að fram hafi komið í máli síðasta ræðumanns að það sé ýmislegt sem betur mætti fara. Nefndi sá sem hér stendur malarvegi og tengivegi og nokkrar leiðir sem eru aftarlega í þessari áætlun, svo sem Vatnsnesvegur og Veiðileysuháls og svo vantar t.d. Skógarstrandarveg þarna inn.

Ég ætlaði að vera á svipuðum nótum og ég var í ræðu minni áðan um hina þingsályktunina og fjalla um stóru myndina í samgöngumálum. Þau eru eitt stærsta innviðamál okkar Íslendinga. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa aðeins upp úr því sem kemur fram á fyrstu blaðsíðu í ályktuninni um framtíðarsýn og meginmarkmið:

„Ísland verði í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Tækni tengi byggðir landsins og Ísland við umheiminn í jafnvægi við umhverfið.“

Um meginmarkmið áætlana í samgöngu- og sveitarstjórnarmálum segir:

Þjónusta samgöngu- og fjarskiptakerfa mæti þörfum samfélagsins.

Sjálfbærar byggðir og sveitarfélög verði um land allt.“

Þetta eru háleit markmið og ber að fagna því. En svo er spurning hverju fram vindur þegar fram líða stundir og þá þarf í fyrsta lagi að vera hægt að fjármagna svona háleit markmið. En það er góðra gjalda vert að vera með háleit markmið. Það kom líka fram í máli ráðherrans að þetta væri í fyrsta skipti sem jarðgangaáætlun væri á dagskrá og eins flugáætlun. Ég hef í mörg ár verið mjög áhugasamur um aukna jarðgangagerð. Mér hefur oft fundist, þegar verið er að gera plön um nýja vegi, að jarðgöngin verði ekki ofan á heldur undir í framkvæmdum og er það fyrst og fremst út af því að þau eru dýrari. En þau eru örugglega ekki dýrari þegar til lengri tíma er litið vegna þess að göng kalla á minna viðhald. Það snjóar ekki inn í göngin og þá sparar það snjómokstur og annað slíkt. Það má segja að Vegagerðin hafi verið ofan jarðar vegna þess að hún er ódýrari en til lengri tíma litið eru jarðgöngin örugglega mun hagkvæmari. Ég nefndi áðan að ég kem úr Norðvesturkjördæmi. Þar er mikið um fjallvegi og myndi leysa samgöngumál betur þar ef göng væru gerð á fleiri stöðum.

Það er líka annað sem mig langar að koma inn á og það er í sambandi við það að þegar verið er að gera áætlun, plön, og undirbúa framkvæmdir þá strandar oft á málum sem heita umhverfis- og náttúruverndarmál. Það var maður sem er eldri en ég og reyndari sem sagði — ég hef reyndar ekki leitað eftir því sjálfur — að umhverfisverndarmál í sambandi við samgöngumál hafi í upphafi verið allt öðruvísi hugsuð en þau eru framkvæmd í dag. Mér fannst gott að heyra þetta og fór hann svolítið vel ofan í þetta. Þetta var meira svona til að vernda umhverfið og náttúruna en líka, það sem vantar oft í umræðuna í dag, var talað um samfélagsvernd og öruggar samgöngur á milli byggðarlaga. Ég skora á alla sem vilja ræða samgöngumál og setja inn í þau umhverfis- og náttúruvernd að bæta þá samfélagsvernd við líka vegna þess að maðurinn er jú partur af náttúrunni og við þurfum að taka tillit til þess.

Við sjáum títtnefnda leið um Gufudalssveit, Teigsskógsleiðina, sem var á sínum tíma tilbúin til útboðs, að ég held í kringum 2004. Hún er búin að vera í endalausum kærumálum og vandræðagangi allar götur síðan og er loksins núna, vonandi, að komast til framkvæmda. En það er með það verkefni eins og önnur sem illa hefur gengið að koma á koppinn að ég ætla ekki að fagna því fyrr en ég sé það. Auðvitað er til leið sem stjórnmálamenn geta farið í svona málum og það er að setja lög ef allt um þrýtur. Það er kannski allt of lítið um það en það er líka kannski algjör nauðvörn. En mér finnst þetta dæmi um leið sem hefur lent í þeim kröggum að umræðan og allt í kringum hana hefur farið út í tóma vitleysu, leyfi ég mér að segja. Er það mjög miður. Þetta er eitthvað sem þarf að breytast í framtíðinni, að verkefni af þessu tagi gangi ekki svona rosalega illa. Það bara gengur ekki.

Ég spurði ráðherra í andsvari um framtíðina, hvað hann sæi fyrir sér í fjármögnunarleiðum. Hann svaraði því nokkuð vel, það væru mjög breyttir tímar. Þeir hafa breyst mjög hratt núna, bara hvað varðar t.d. orkugjafa, fjölgun fólks og farþega og annað, eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan, og örugglega koma þeir til með að breytast hratt í framtíðinni líka þannig að það þarf að bregðast við þeim staðreyndum. Talandi um langtímamarkmið held ég að það sé rétt hjá mér að Dýrafjarðargöng, sem nú eru að verða staðreynd, hafi verið á langtímaplani. Svo var komið að þeim og farið var af stað en það á eftir að ljúka — hönnun er reyndar í gangi yfir Dynjandisheiði en það á eftir að ljúka henni og það er ekki fyrr en 2024 sem sú framkvæmd gæti hafist. Samt sem áður ber að fagna því að þessi göng séu í framkvæmd og það var bara af því að komið var að þeim í áætlun og svo var byrjað að vinna að þeim. Þannig að öll svona framtíðarplön eru til góðs. En þau þurfa líka að standast og fjármögnun þarf að vera í lagi og annað slíkt.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra núna, enda er tíminn að renna frá mér. Ég á eftir að skoða þetta betur, enda er þetta bara fyrri umr. og málið á eftir að fara til umhverfis- og samgöngunefndar sem fer örugglega vel yfir það og verður gaman að vita hvað kemur út úr þeirri vinnu. Ég mun fylgjast vel með þegar þetta kemur aftur hingað inn í þingið.



[21:45]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þá sýnist mér líða að lokum fyrri umr. um samgönguáætlun í dag en nú erum við að ræða samgönguáætlun til næstu 15 ára, þ.e. til ársins 2034. Hér hefur farið fram mjög gagnleg umræða þar sem einkum hefur verið fjallað um vega- og flugmál og kannski óvenjumikið um flugmálin og það er vel að þau séu virkilega komin á dagskrá, enda skipta þau samfélagið máli á marga vegu. En ég fór yfir ýmis mál í umræðunni um fimm ára áætlunina og ætla aðeins að stoppa við aðra hluti núna. Mig langar að byrja á að stoppa aðeins við það að með framkvæmdum sem nú eru á áætlun á Vestfjörðum og uppbyggingu vegar til Borgarfjarðar eystri er verið að ná markmiði um að tengja alla byggðakjarna með bundnu slitlagi. Þetta tengist svo líka áherslu í núgildandi samgönguáætlun, og áfram í þessari sem við fjöllum um hér, á að leggja bundið slitlag á umferðarlitla tengivegi þó svo að þeir uppfylli ekki kröfur um burðarþol og veglínu. Þetta er afskaplega mikilvægt fyrir strjálbýlið og getur umbylt lífsgæðum fjölda fólks og ekki síst barna um land allt sem eiga leið um þessa vegi daglega til skóla og leikskóla eða til að sækja tómstundir. Auðvitað er þetta líka grunnur að tækifærum til atvinnusköpunar í dreifbýlinu. Þegar vegirnir eru lagðir bundnu slitlagi koma þeir líka í veg fyrir að býli þar sem er stunduð matvælaframleiðsla séu í stöðugum rykmekki heilu sumrin frá malarvegum, eins og því miður allt of margir búa við enn þá, því að enn eru malarvegirnir lengri en vegirnir með bundnu slitlagi.

Í tengslum við þetta finnst mér mikilvægt að vekja athygli á því að í fimm ára áætluninni og í markmiðunum í 15 ára áætluninni eru sameiginlegir óskiptir liðir í bundið slitlag á tengivegi, í að fækka einbreiðum brúm, í hjóla- og göngustíga, til samgöngurannsókna, til héraðsvega, landsvega utan stofnvegakerfisins, sem eru vegir á hálendinu sem ég ætla aðeins að nefna betur á eftir. Þar eru líka styrkir til þess sem hefur verið kallað styrkvegir og falla ekki undir skilgreinda þjóðvegi. Það er óskiptur liður í reiðvegi, smábrýr og girðingar. Þarna er fjármagn sem getur skipt mjög miklu máli í verkefni sem ekki eru endilega tíunduð sundurliðað í áætluninni en við megum ekki gleyma að halda til haga og fara aðeins yfir í vinnu umhverfis- og samgöngunefndar hvernig þessum liðum er síðan deilt út og þeim forgangsraðað.

Þá ætla ég aðeins að nefna hafnirnar sem eru auðvitað mjög mikilvægur liður í samgönguáætlun og eru samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga. Hafnir eru lykill að verðmætasköpun í mörgum byggðarlögum og þar með samfélagsins alls. Nú á að móta siglingastefnu fyrir Ísland sem er mjög mikilvægt mál. Framlög til Hafnabótasjóðs nema um milljarði árlega og styrkjum er forgangsraðað m.a. með hliðsjón af mikilvægi framkvæmda fyrir samgöngukerfi landsins, viðhaldsþörf, öryggi sjófarenda og hagkvæmni.

Eitt sem er mjög mikilvægt að samþættist samgönguáætlun eru loftslagsmálin en þar er lagt til að unnið verði í samræmi við áherslur aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum. Þetta er mál sem við þurfum að rýna vel í vinnu umhverfis- og samgöngunefndar. Svo eru það almenningssamgöngurnar sem eru mjög mikilvægt verkefni, hafa mikla þýðingu, hafa mikil áhrif á lífsgæði íbúa. Vel skipulagðar almenningssamgöngur eru liður í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og jafna aðgengi einstaklinga að gæðum og þjónustu samfélagsins. Það á við hvort sem verið er að nota almenningssamgöngur á landi, í lofti eða á legi. Það má segja að síðustu ár hafi farið fram mikilvæg tilraun í almenningssamgöngum um land allt, þ.e. utan höfuðborgarsvæðisins. Sumt hefur gengið vel en annað verr. Af þeirri reynslu verðum við að halda áfram að læra. Nú tekur Vegagerðin aftur við almenningssamgöngum á landsbyggðinni, enda ljóst að það þarf heildarsýn fyrir allt landið. En það þarf líka að byggja upp í hverjum landshluta samgöngunet í samræmi við sérstöðu hvers svæðis og í samstarfi við sveitarfélögin og landshlutasamtökin. Einhver dæmi eru um að landshlutasamtökin vilji áfram halda utan um verkefnið. Nú er ný heildarstefna í almenningssamgöngum hluti samgönguáætlunar og fylgiskjal með henni. Stefnan hefur að markmiði að efla almenningssamgöngur sem valkost til ferðalaga milli byggða svo að til verði heildstætt leiðakerfi í lofti, á láði og legi. Þá getum við vonandi farið að nota almenningssamgöngur tengdar innanlandsfluginu um land allt.

Að lokum langaði mig aðeins að koma inn á landsvegina, stofnvegakerfið og miðhálendið. Sama hvernig við lítum á verndun og nýtingu á miðhálendinu er mjög mikið verk óunnið, bæði við að skipuleggja hvernig við viljum forgangsraða samgöngum á hálendinu, hvar við viljum greiða leið fyrir umferð, hvernig vegi við viljum byggja upp og hvar við viljum halda umferð mjög takmarkaðri. Það er eitt af því sem við þurfum að fjalla um, tel ég, í umhverfis- og samgöngunefnd í vinnunni fram undan, hvernig samstarfi um það mál verði best háttað í samvinnu við sveitarfélögin sem fara með skipulag í landinu.

Virðulegi forseti. Ég hlakka til vinnunnar við þessa samgönguáætlun sem er metnaðarfull eins og fram hefur komið. Ég tel að verkefnin í samgöngumálum séu alltaf þannig að það sé heilladrjúgt að stíga eitt skref í einu því að þannig komumst við örugglega áfram veginn.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til um.- og samgn.