150. löggjafarþing — 40. fundur
 4. desember 2019.
leigubifreiðaakstur, 1. umræða.
stjfrv., 421. mál. — Þskj. 577.

[21:53]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra laga um leigubifreiðaakstur. Frumvarpið hefur verið í vinnslu um nokkurn tíma en heildarendurskoðun laga um leigubifreiðar hófst með skipun starfshóps um endurskoðun á þeim reglum sem gilda um leigubifreiðaakstur á Íslandi í október 2017. Starfshópurinn skilaði tillögum sínum í skýrslu til ráðuneytisins í mars 2018. Í skýrslunni kom fram það mat hópsins að breytingar á íslensku regluverki um leigubifreiðar væru óhjákvæmilegar.

Frumvarpið byggir að meginstefnu til á tillögum þeim sem starfshópurinn lagði til í skýrslu sinni. Þá hafa þær umsagnir sem bárust um efni skýrslunnar og frumvarpsdrögin á fyrri stigum verið hafðar til hliðsjónar, auk þess sem tekið hefur verið mið af þróun löggjafar í nágrannaríkjum okkar.

Í janúar 2017 hóf Eftirlitsstofnun EFTA frumkvæðisathugun á leigubifreiðamarkaðnum á Íslandi og mögulegum hindrunum að aðgengi að honum. Í kjölfarið átti samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið í bréfaskriftum við stofnunina og mátti ráða af samskiptunum að eftirlitsstofnunin teldi líkur á að íslensk löggjöf um leigubifreiðar fæli í sér aðgangshindranir sem samræmdust ekki alþjóðlegum skuldbindingum ríkisins. Eftirlitsstofnunin hafði þá þegar gefið út rökstutt álit um leigubifreiðalöggjöf í Noregi en þágildandi löggjöf þar í landi svipaði um margt til þeirrar íslensku. Í álitinu komst eftirlitsstofnunin að þeirri niðurstöðu að norska ríkið bryti gegn skyldum sínum samkvæmt EES-samningnum að því er varðar stofnsetningarrétt ríkisborgara EES-ríkjanna.

Stofnsetningarréttur felur í sér rétt til að hefja og stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi og til að stofna og reka fyrirtæki með þeim skilyrðum sem gilda að landslögum um ríkisborgara þess ríkis þar sem stofnsetning fer fram.

Það frumvarp sem hér er lagt fram er afrakstur vinnu áðurnefnds starfshóps samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Samgöngustofu og samráðs við hagsmunaaðila og almenning. Áform um lagasetningu og frummat á áhrifum voru birt í samráðsgátt stjórnvalda 19. júní 2018. Alls bárust sjö umsagnir í samráðsgáttina frá hagsmunaaðilum og stjórnvöldum, auk þess sem ein umsögn barst frá einstaklingi. Flestar umsagnirnar voru jákvæðar í garð breytinga sem myndu opna aðgengi að leigubifreiðamarkaðnum. Drög að frumvarpi til nýrra laga um leigubifreiðar voru svo birt í samráðsgáttinni 20. maí á þessu ári og bárust þá 12 umsagnir í gáttina frá 15 aðilum.

Í kjölfar samráðsins voru gerðar talsverðar breytingar á frumvarpinu í samræmi við ábendingar umsagnaraðila. Þannig voru m.a. gerðar breytingar á ákvæðum um mat á góðu orðspori og heimildir Samgöngustofu til slíks mats betur afmarkaðar, ákvæði um framsetningu verðskráa var einfaldað, reglugerðarheimildir ráðherra á ýmsum stöðum voru takmarkaðar eða felldar brott og sett var inn ákvæði sem skyldar rekstrarleyfishafa til að skrá upplýsingar samkvæmt gervihnetti um hverja ekna ferð. Að lokinni úrvinnslu umsagna og eftir að gerðar höfðu verið breytingar á frumvarpsdrögunum í kjölfar fyrra samráðsferlis voru ný drög að frumvarpi birt í samráðsgáttinni 29. júlí 2019. Þá bárust níu umsagnir í samráðsgáttina og voru í kjölfarið gerðar breytingar á m.a. ákvæðum frumvarpsins um skilyrði fyrir leyfisveitingum og reglugerðarheimildir ákvæðanna þrengdar enn frekar.

Með frumvarpi þessu er lagt til að til verði tvenns konar leyfi til að stunda leigubifreiðaakstur. Lagt er til að fjöldatakmarkanir atvinnuleyfa verði afnumdar og að skylda til að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð verði sömuleiðis afnumin. Þá eru gerðar breytingar á skilyrðum til þess að mega starfa sem leigubifreiðastjóri og reglur um lágmarksnýtingu leyfa eru felldar brott.

Markmiðið með frumvarpinu sem ég mæli hér fyrir er fyrst og fremst að tryggja gott aðgengi að hagkvæmri, skilvirkri og öruggri leigubifreiðaþjónustu fyrir almenning á Íslandi. Þá er frumvarpinu ætlað að færa lög og reglur um leigubifreiðar til nútímalegra horfs þar sem öruggar og tryggar samgöngur eru hafðar að leiðarljósi, auk þess að tryggja að íslenska ríkið uppfylli þjóðréttarlegar skuldbindingar sínar.

Verði frumvarpið að lögum munu þau auka atvinnutækifæri fjölbreyttra hópa. Þannig eru karlar mun fjölmennari en konur í stéttinni í dag en almennt eru konur taldar líklegri til að starfa í hlutastörfum en karlar. Afnám reglna um lágmarksnýtingu leyfis er þannig til þess fallið að veita kynjunum jafnara aðgengi í stéttina. Þá er afnám reglna sem kveða á um að umsækjandi um leyfi hafi starfað fyrir leyfishafa í ákveðinn dagafjölda til að eiga möguleika á að fá útgefið leyfi til þess fallið að veita þeim sem hafa engin persónuleg tengsl við stéttina jafnari möguleika á við aðra til að fá útgefið starfsleyfi. Neytendur hafa kallað eftir því að opnað verði á þjónustu farveitna hér á landi til viðbótar við þjónustu hefðbundinna leigubifreiða. Hvergi er í frumvarpinu minnst berum orðum á farveitur en með frumvarpi þessu eru stigin ákveðin skref sem gera farveitum sem nýta nútímatækni til viðskipta kleift að hefja starfsemi hér á landi uppfylli þau skilyrði laganna að öðru leyti. Þannig er gætt að sjónarmiðum um jöfn samkeppnisskilyrði og þannig er gert ráð fyrir því að kjósi bílstjórar að starfa fyrir farveitur sem nýta snjalltækni við milligöngu um þjónustuna þurfi þeir að uppfylla öll sömu skilyrði og þeir sem hyggjast starfa sem leigubifreiðastjórar í hefðbundnari skilningi. Þá verður farveitum gert að lúta sömu skilyrðum og leigubifreiðastöðvar og í raun lítur frumvarpið á farveitur sem leigubifreiðastöðvar. Hvergi er þannig slakað á kröfum um öryggi og gæði þjónustu að því er varðar farveitur.

Nú mun ég gera nánari grein fyrir helstu nýmælum og breytingum sem felast í frumvarpi þessu.

Í fyrsta lagi ber að nefna að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að þrjár tegundir leyfa verði í umferð. Fyrst ber að nefna atvinnuleyfi sem veitir mönnum rétt til að starfa sem leigubifreiðastjóri. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að til verði rekstrarleyfi sem veiti mönnum rétt til að reka eina leigubifreið auk þess að starfa sem leigubifreiðastjóri. Loks ber að nefna starfsleyfi fyrir leigubifreiðastöðvar. Atvinnuleyfi samkvæmt frumvarpinu svipar til leyfis forfallabílstjóra samkvæmt gildandi lögum. Gert er ráð fyrir að leyfið veiti mönnum rétt til að starfa við leigubifreiðaakstur án þess að reka eigin leigubifreið. Leyfið er ekki háð skilyrðum um lágmarksnýtingu og veitir því rétt til að starfa við leigubifreiðaakstur hvort heldur sem er að aðalstarfi, hlutastarfi eða í afleysingum.

Rekstrarleyfi samkvæmt frumvarpinu svipar til atvinnuleyfis samkvæmt gildandi lögum um leigubifreiðar. Gert er ráð fyrir að leyfið veiti mönnum rétt til að starfa sem leigubifreiðastjóri og til að reka eigin leigubifreið. Þannig þurfi rekstrarleyfishafar ekki að hafa atvinnuleyfi að auki. Rekstrarleyfi er ekki, frekar en atvinnuleyfi, háð skilyrðum um lágmarksnýtingu. Gerðar eru talsverðar breytingar á ákvæðum um leigubifreiðastöðvar og starfsleyfi þeirra. Þannig er gert ráð fyrir því að skylda leigubifreiðastjóra til að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð verði afnumin en engu að síður eru settar í lög reglur um starfsleyfi stöðva. Gert er ráð fyrir því að fjöldatakmarkanir á útgefnum leyfum til að stunda leigubifreiðaakstur verði afnumdar og munu takmörkunarsvæði því heyra sögunni til.

Heimildir Samgöngustofu til eftirlits með starfseminni eru skýrðar og auknar frá því sem verið hefur samkvæmt gildandi lögum. Þannig er gert ráð fyrir því að Samgöngustofu verði heimilt að krefjast þeirra upplýsinga úr hendi leyfishafa sem nauðsynlegar eru til eftirlits. Heimildir stofnunarinnar til að svipta leyfishafa leyfi eru einnig gerðar skýrari og áhrifaríkari en verið hefur.

Gerðar eru breytingar á þeim skilyrðum sem umsækjendur þurfa að uppfylla til að geta fengið útgefið leyfi til að stunda leigubifreiðaakstur, m.a. eru ákvæði um brotaferil umsækjanda gerð skýrari.

Herra forseti. Nú hef ég farið yfir helstu nýmæli frumvarpsins. Í þessari ræðu gefst ekki tími til að greina nákvæmlega frá öllum þeim breytingum sem felast í frumvarpinu en ítarlega er gerð grein fyrir þeim í almennri greinargerð sem fylgir því. Það er mikilvægt að vel takist til við endurskoðun laga og regluverks um leigubifreiðar. Um er að ræða lagabálk sem snertir stóran hluta þjóðarinnar að einhverju leyti, jafnt neytendur sem veitendur þeirrar þjónustu. Þá snertir regluverkið marga þá sem dvelja hér til skamms eða lengri tíma.

Það er ljóst að skoðanir eru skiptar um einstök útfærsluatriði í frumvarpinu en með samþykkt þess mun íslensk löggjöf um leigubifreiðar að mínu mati uppfylla þjóðréttarlegar skuldbindingar ríkisins ásamt því að tryggja betur en nú er öryggi jafnt farþega sem leigubifreiðastjóra. Þá er samþykkt frumvarpsins til þess fallin að auka heilbrigða samkeppni og nýsköpun í greininni og gera skilyrði betri til að framboð svari eftirspurn.

Að lokum legg ég til, herra forseti, að eftir 1. umr. verði málinu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.



[22:03]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Sú sem hér stendur er sérstök áhugamanneskja um leigubílamarkaðinn í seinni tíð, ekki síst frelsi á honum. Mig langar eiginlega bara að byrja á því að óska hæstv. ráðherra til hamingju með þetta mál, til hamingju með það að hafa komið því í gegnum ríkisstjórn, í gegnum þingflokka ríkisstjórnarinnar.

Sú sem hér stendur lagði fram þingsályktunartillögu árið 2018 um frelsi á leigubílamarkaði ásamt þingmönnum Viðreisnar og Pírata. Það er skemmst frá því að segja að það mál hlaut ekki brautargengi og var nú eiginlega skotið hraustlega niður af ákveðnum þingmönnum stjórnarinnar. En það er nú bara eins og það er. Í þeirri tillögu var ráðherra falið að afnema hámarksfjölda atvinnuleyfa til leigubílaaksturs, fækka kvöðum fyrir veitingu þeirra og opna markaðinn fyrir aukinni samkeppni, svo að helstu atriði séu nefnd. Sú tillaga var svæfð í hv. umhverfis- og samgöngunefnd eins og títt er um mál sem hljóta ekki náð fyrir augum stjórnarflokka. En nú stöndum við hér með þetta stjórnarfrumvarp samgönguráðherra sem er bara, a.m.k. við fyrstu sýn, prýðismál. Ég er ekki komin af þeirri skoðun eftir að hafa hlýtt á hæstv. ráðherra fara yfir málið. Ég verð að segja að ég hef ekki oft í höndunum ástæðu til að hrósa ríkisstjórninni, allra síst fyrir breytingar í frjálsræðisátt, en nú er það svo. Hér er verið að vinna í átt að meira frelsi á leigubílamarkaði sem kemur neytendum til góða og var löngu tímabært. Í þessum drögum er verið að leggja til afnám á hámarksfjölda leyfa, að fækka kvöðum fyrir veitingu þeirra og opna markaðinn fyrir aukinni samkeppni og það án þess að slaka í nokkru á kröfum um öryggi, eins og mikilvægt er.

Mig langar til að hnykkja á því að þetta mál, eins og svo margt annað gott, kemur frá Evrópu. Það er ástæða til að minna þingheim á, og það gerði hæstv. ráðherra svo sem, að þessi vinna hófst vegna þess að Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hóf frumkvæðisathugun á leigubílamarkaði hér í kjölfarið á því sem hún gerði í Noregi og niðurstöðunnar þar, enda var fyrirkomulagið svo sem svipað. Hún hóf frumkvæðisathugun á þessum markaði og mögulegum hindrunum á aðgengi. Það er bara ágætt að minna okkur reglulega á það hvað neytendur fá margt gott af veru okkar á hinu Evrópska efnahagssvæði.

Leigubílaþjónusta er almenningssamgöngumál. Það er mikilvægt að við ræðum hana sem slíka. Eins og margt annað í því ágæta kerfi er rúm fyrir umbætur. Til að leigubílar geti sinnt sínu hlutverki þarf þjónustan einfaldlega að vera aðgengileg og á viðráðanlegu verði og að mínu mati er heilbrigð samkeppni lykillinn að því að ná þeim markmiðum, með áherslu bæði á samkeppni og heilbrigði samkeppninnar. Lögbundin fákeppni er að sama skapi til þess fallin að hækka verð til neytenda. Ef samkeppnin verður virk, ef þetta gengur upp, er auðvelt að sjá fyrir sér að í samhengi við aðrar úrbætur sem verið er að gera í almenningssamgöngum eigi fleiri þess kost að leggja einkabílnum nær varanlega ef þeir kjósa svo, nýta leigubíla og strætisvagna og aðrar almenningssamgöngur til að sinna sínum erindagjörðum með minni kostnaði og minna álagi á kerfið okkar, svo ekki sé talað um umhverfismálin.

Meðal þeirra kvaða sem núgildandi kerfi á leigubílamarkaði felur í sér má nefna að leyfishafar þurfa að hafa leigubílaakstur að meginatvinnu. Það hefur hindrað námsmenn og einstaklinga með skerta starfsgetu í að starfa sem leigubílstjórar og það sýnist mér að sé lagað í þessu frumvarpi og það er vel. Ástæða er til að fagna því.

Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að aðili geti ekki átt fleiri en einn bíl til leigubílaaksturs og ég hef ekki alveg áttað mig á því, svona við fyrstu sýn, af hverju sú kvöð er höfð inni. En mér sýnist að ætti að vera nóg að bifreiðin uppfylli þau skilyrði sem leigubílar þurfa að uppfylla. Það ætti ekki að skipta máli hvort einstaklingur, að þeim skilyrðum uppfylltum, eigi eða geri út fleiri en einn bíl. En ég geri svo sem ráð fyrir því að við munum fara yfir þetta í umhverfis- og samgöngunefnd.

Síðan ber að mínu mati að fagna því að loksins séu reglur um löggilta gjaldmæla undir eftirliti endurhugsaðar. Samkvæmt þessu frumvarpi er hægt að semja um verð fyrir fram. Notandi getur spurt: Hvað kostar ferðin frá Kringlu upp í Grafarvog? og fengið svar og jafnvel séð í smáforriti leiðina sem verður ekin og endanlegan heildarkostnað í stað þess sem nú er, að maður sest upp í, sér mælinn tikka og veit ekki hver lokatalan verður. Það að þvinga leigubíla til að nota gjaldmiðla eins og verið hefur hamlar tæknilegri framþróun á borð við greiðslu í gegnum snjallsímaforritin. Það er auðvitað lykilþáttur í því að opna íslenskan markað fyrir þjónustufyrirtæki á borð við Uber og Lyft sem margir þekkja af góðri reynslu að utan. Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra nefndi að þetta væri ekki sérstaklega sniðið að þeim. Auðvitað er það svo í leigubílaakstri eins og öðrum atvinnugreinum að þeir sem ríða á vaðið eru gjarnan orðnir einhvers konar samheiti yfir þessa þjónustu en Uber og Lyft eru ekki upphaf og endir alls í nýsköpun í leigubílaþjónustu, nema síður sé. Sú þjónusta sem þau fyrirtæki veita byggir hins vegar á grundvelli samningsfrelsis og kostum deilihagkerfisins og það er eiginlega ómögulegt að ræða samgöngur í þéttbýli sérstaklega án þess hafa það í huga kosti þess og framþróun. Mig langar þó að árétta að þessi jákvæða opnun markaðsins á ekki á nokkurn hátt að koma í veg fyrir að þeir sem nýta sér þá opnun standi sig eins og aðrir á íslenskum vinnumarkaði í því að standa skil á launatengdum gjöldum og öðrum opinberum gjöldum í takt við lög og reglur þar að lútandi. Við erum með nokkuð skýrt regluverk hér á landi um sjálfstæðan atvinnurekstur. Það er mikilvægt að hafa það í huga hér sem annars staðar að frelsinu fylgir ábyrgð.

Ég hlakka til að vinna með þetta frumvarp áfram í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Hins vegar velti ég því fyrir mér hér, að gefnu tilefni, hvort það muni falla í hlut stjórnarandstöðunnar eða hluta hennar að koma þessu máli í gegnum þingið því við vitum, herra forseti, að það er andstaða gegn þessu máli — eða öðru máli sem er efnislega eins — í tveimur af þremur stjórnarflokkum, a.m.k. miðað við orð tiltekinna stjórnarþingmanna í þingsal fyrir rúmu ári síðan. Þá voru tillögur í því frumvarpi Viðreisnar sem lagt var fram taldar nokkuð róttækar. Það voru viðraðar miklar áhyggjur af kunnáttu ökumanna og af öryggi farþega og gott ef ekki af þrifum bíla að innan og utan.

Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að vitna í orð hv. stjórnarþingmanna, t.d. Ara Trausta Guðmundssonar sem sagði:

„Ef þær breytingar sem verið er að ræða innan starfshópsins verða meira eða minna samhljóða þessu frumvarpi, verð ég þá með eða á móti? Ja, ætli ég verði ekki á móti.“

Ég vona að það trufli ekki hv. þingmann að þetta frumvarp er meira eða minna draumafrumvarp flutningsmanna umræddrar þingsályktunartillögu.

Annar stjórnarþingmaður, hv. þm. Brynjar Níelsson, sagði í umræðum um þingsályktunartillögu Viðreisnar og Pírata, með leyfi forseta:

„Það skiptir máli að það séu alvörumenn í leiguakstri og þegar menn sem hafa verið lengi í leiguakstri, eins og þeir eru, eins frábærir og þeir eru, eins sérstakir og þeir eru, þá megum við ekki eyðileggja það.“

„Þar blasir við að tilgangurinn með þessari þingsályktunartillögu er sá að slaka á kröfunum, hleypa inn hér fyrirtækjum sem starfa allt öðruvísi, veita allt öðruvísi þjónustu, gera minni kröfur o.s.frv. og það er það sem ég er að finna að.“

Herra forseti. Meira frelsi á leigubílamarkaði mun ekki stranda á þingflokki Viðreisnar. Frumvarpið er komið í gegnum þingflokka stjórnarinnar svo líklegast er útkoman tryggð. Það er svo umhugsunarefni, og hver getur hugsað sitt, hvort stjórnarþingmenn hafi náð þeim þroska að skipta um skoðun á síðustu mánuðum eða hvort það hafi einfaldlega skipt máli hver lagði málið fram upphaflega. En málið er gott og nær vonandi fram að ganga. Það skiptir mestu.



[22:11]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir ræðuna. Ég var kannski ekki sammála öllu sem hún sagði en mörgu, eins og verða vill. Þingmaðurinn ræddi m.a. um svokölluð deilifyrirtæki, deiliapparöt, ef við getum kallað þau svo, Uber og Lyft, og nefndi í sömu andrá hvernig leigubílaakstur og þess háttar akstur væri í raun ein tegund af almenningssamgöngum. Það má kannski að einhverju leyti til sanns vegar færa. Mig langar að inna þingmanninn eftir því hvort hún hafi engar áhyggjur af því að í þeim borgum, kannski sérstaklega borgum í Bandaríkjunum, þar sem þéttni Uber-bifreiða og aukning þeirra hefur verið mest hefur dregið úr notkun almenningssamgangna. Og einkabílaeign hefur líka aukist, þvert á þær væntingar sem menn höfðu haft um þessa tegund af deilihagkerfi. Nú ætla ég þingmanninum ekki að hafa skýringar á þessu á reiðum höndum en mig langar að eiga samtal við þingmanninn um hvort þetta sé ekki áhyggjuefni og hvort þingmaðurinn telji að þessu yrði öðruvísi farið hér á landi eða hvort til eru lausnir á þessum vanda sem virðist vera raunverulegur.



[22:13]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar, þessar spurningar, og það er rétt, ég hef séð þessar fréttir. Ég hef líka séð fréttir, og þær eru reyndar frekar frá Evrópu, um öfuga þróun. Ég hef ekki skoðað það ofan í kjölinn en hlakka til að fá tækifæri til að gera það þegar þetta mál kemur inn í nefndina vegna þess að það eru ákveðnar vísbendingar um að þetta tengist annarri uppbyggingu almenningssamgangna, þ.e. þar sem þær eru í góðum gangi vinni þetta vel að þeim markmiðum að draga úr umferð einkabíla þar sem hver og einn keyrir sinn bíl, jafnvel þó að menn kjósi að nýta sér aðra möguleika. En á stöðum þar sem almenningssamgöngur eru ekki jafn sterkar hefur þetta þau áhrif að færa fólk yfir í þessa nýtingu. Þetta er það sem ég hef séð svona algerlega við fyrstu sýn. En þetta er rétt. Þetta er eitt af því sem er mjög áhugavert að velta upp.



[22:14]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir svarið. Þetta er nefnilega mjög áhugavert. Ég get upplýst að ég hef verið einn þeirra sem hafa trúað því að fyrirbæri eins og deilihagkerfið ætti, alla vega að einhverju leyti, að geta hjálpað okkur að minnka neyslu. Þá þurfa ekki allir að eiga bíl. En í samantekt á veftímaritinu Transportation and Environment, sem kom út 2. september 2019, er einmitt farið ofan í nokkrar rannsóknir sem hafa verið gerðar, eins og þingmaðurinn kom inn á, í Bandaríkjunum þar sem þetta kemur fram, sem sagt almennt þeir þættir sem ég rakti áðan. Það er þá spurning hvort neyslumynstur Evrópubúa sé að einhverju leyti öðruvísi og ég ætla svo sem ekki að segja eitt eða neitt um það hvort Íslendingar séu í neyslumynstri líkari Evrópu eða Norður-Ameríku. Það má deila um það og velta því fyrir sér. Ég held að menningarlega séum við kannski líkari Evrópu en hitt veit ég ekki. Ég verð að spyrja hvort þingmaðurinn hafi velt því fyrir sér hvort Uber eða Lyft, eftir atvikum, hafi í raun unnið gegn öðrum almenningssamgöngum, alls ekki meðvitað náttúrlega en samt einhvern veginn orðið til þess að aðrar almenningssamgöngur yrðu ekki eins virkar. Þingmaðurinn þekkir það eins og ég að almenningssamgöngur víða í Bandaríkjunum eru ekki með sama styrk og í Evrópu. En það er önnur saga.



[22:17]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er einfaldlega mjög áhugaverð umræða og maður hefur svo sem lítið að gera annað en að spá í hlutina. En það er hægt að koma með vangaveltur. Segjum að fyrirtæki sem byði upp á þessa þjónustu væri starfandi Reykjavík með þær almenningssamgöngur sem hér eru í boði núna, ég hugsa að því myndi ganga ansi vel að ná fótfestu. Ef hugmyndir samgönguyfirvalda og yfirvalda í Reykjavík og nærliggjandi sveitarfélögum og bæjum um almenningssamgöngur hefðu náð fram að ganga held ég að staðan væri allt öðruvísi. Ég er sannfærð um að þetta hangir verulega mikið saman. Sjálf hef ég búið í Bandaríkjunum, á stað þar sem ég átti enga leið aðra en að nýta einkabíl, nema hreinlega þegar ég var að ferðast verulega langar vegalengdir á milli bæja. Þar hefði Uber komið sér mjög vel. Ég hefði frekar viljað nýta einfaldari leiðir en ég held að þetta snúist alltaf um sambland og að því leyti til held ég að við séum að gera þetta í ágætissinki.

Svo má líka alveg velta fyrir sér hvernig upphafsstaðan sé. Við búum á Íslandi við þær aðstæður að fólk á — hvað vorum við farin að tala um sem fjölda bíla á heimili? Þetta eru gígantískar tölur. Hér er fólk að keyra mikið eitt þannig að það að Uber kæmi hingað inn núna og fólk notaði það mikið væri töluvert annað en á svæðum þar sem bílaeign er einfaldlega ekki mikil, þó að hún aukist að einhverju leyti þar. Það þarf að vega þetta og meta og reyna einhvern veginn að hafa samanburðinn eins réttan og hægt er. Ég er sannfærð um að þetta er skref í rétta átt og þetta fyrirkomulag, til hliðar við góðar almenningssamgöngur, er okkar sterkasta leið til þess að draga úr einstaklingsbílaumferð.



[22:19]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja þetta frumvarp fram og segi bara: Loksins, loksins er komið frumvarp um að gefa leigubílaakstur frjálsan. Það er eiginlega næstum því svekkjandi að það þurfi einhvern eins og ESA til að ýta okkur út í að gera leigubílaakstur frjálsan. En það er ágætt að halda því til haga að þetta hefur verið í umræðunni í einhvern tíma og starfshópur að störfum — þótt ég hrósi hæstv. ráðherra held ég að það hafi reyndar verið fyrrverandi hæstv. samgönguráðherra Jón Gunnarsson sem setti þann starfshóp af stað. En það breytir því ekki að málið er brýnt og ég segi nú líka: Guði sé lof fyrir ESA ef fyrirstaðan er svo mikil í kerfinu hjá okkur að það þurfi til að afnema ofboðslega úrelta reglugerð um leigubílaakstur þar sem við skömmtum atvinnuleyfi, þrátt fyrir atvinnufrelsi sem skrifað er í stjórnarskrána okkar, skömmtum það eftir svæðum. Þessi ágætu atvinnuleyfi erfast meira að segja ef svo ber undir. Það er í rauninni algerlega ótrúlegt að við búum enn þann dag í dag, árið 2019 og bráðum 2020, við við þessa hugmyndafræði. Þess vegna held ég að það mál sem hér liggur fyrir sé mjög brýnt. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki búin að lesa mig alveg í gegnum það. Ég fagna því mjög að þetta sé komið fram og ég verð að viðurkenna að þegar ráðherra fór yfir þetta eiginlega hugsaði ég: Bíddu, þarf samt sem áður öll þessi leyfi? Það eru alla vega þrjár tegundir af leyfum sem tekin eru fram í þessu frumvarpi. Það kann að vera. En ég hvet engu að síður hv. umhverfis- og samgöngunefnd til að fara vel yfir þetta mál og velta fyrir sér hvort þetta mætti vera jafnvel einhvern veginn enn þá einfaldara.

Ég átta mig líka á því að hér er um ákveðna málamiðlun að ræða þar sem starfshópur var að störfum og hagsmunaaðilar, hagaðilar og mismunandi sjónarmið fengu að sjálfsögðu að koma fram. Ef ég skil þetta rétt varð úr einmitt það frumvarp sem við ræðum hér.

Hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson kom einmitt inn á það að hafa sjálf verið með umræðu og tillögur um leigubílaakstur. Ég held að við deilum svolítið því sjónarmiði og ég minnist þess sjálf þegar ég kom hingað inn á þing að hafa viljað taka á þessu máli en mér var þá mjög fljótlega sagt að þetta væri komið í þennan farveg og auðvitað full ástæða til að bíða eftir því og ana ekki að neinu. Ég þakka bara þeim ágætu einstaklingum sem tóku þátt í þessum starfshópi fyrir vinnuna og fagna því að þetta sé komið hingað inn til þingsins og treysti því að hv. umhverfis- og samgöngunefnd fari vel og vandlega yfir þetta mál og ef eitthvað er þá væri jafnvel hægt að ganga enn lengra í því að minnka báknið.



[22:22]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það er ekki allt gott sem kemur frá ESA. Það er ekki allt nauðsynlegt heldur. Hér erum við að tala um að herða ólarnar um eina starfsstétt á Íslandi og við ætlum að opna gáttir á að nánast hver sem er geti farið að keyra leigubíl. Við þurfum ekki fleiri leigubíla í sjálfu sér, herra forseti. Það eru 671 leyfi í gildi og nokkuð á annað þúsund afleysingabílstjórar að störfum og auk þess eru væntanlega í kringum 4.000 bifreiðar skráðar til fólksflutninga sem ekki eru skráðar sem leigubílar en lúta að mörgu leyti lögmálum leigubíla og eru tilgreindar sem eðalvagnar og ýmislegt slíkt, þannig að það er enginn skortur á akstri með leigubílum.

Ég er búinn að lýsa því yfir áður á öðrum vettvangi og ég get bara endurtekið það hér að svokallað deilihagkerfi er fínt orð yfir skattsvik og við höfum nóg af skattsvikum á Íslandi. Sá angi deilihagkerfisins sem hefur kannski helst rutt sér til rúms á Íslandi til þessa er gisting sem er kennd við Airbnb. Í sex ár var ekkert gert til að skrá þessar eignir og koma þeim t.d. undir skattalög, þangað til einn ágætur ráðherra tók á sig rögg — og hafi hún þökk fyrir — og setti á stofn nokkurs konar aðgerðahóp sem varð til þess að þriðjungur þessara eigna er nú skráður. Fyrir fjórum árum var innan við 10% þeirra skráður. Og ekki nóg með að þessi starfsemi sé í svona 60–70% tilfella óskráð og greiði þar með ekki skatta og skyldur, hún er samt í samkeppni við aðra sem greiða skatta og skyldur. Ég hélt alltaf að Sjálfstæðisflokkurinn sem er merkisberi frjálsrar samkeppni vildi að samkeppnin væri á jafnréttisgrundvelli, að þeir sem væru að störfum á ákveðnu svæði eða í ákveðnu kerfi stæðu svona nokkurn veginn jafnfætis. Það hefur ekki verið með þann anga af deilihagkerfinu svokallaða sem hingað hefur komið til Íslands. Við erum hér með hótelrekstur sem í velflestum tilfellum skilar öllum sínum sköttum og skyldum og síðan erum við með þá sem eru undir radarnum og borga ekki neitt. Þessa sér líka dæmi í veitingarekstri í dálitum mæli þar sem menn sem jafnvel eru með erlent vinnuafl á kjörum sem jaðra við mansal eru að keppa við aðra sem eru með allt sitt á hreinu.

Og nú eftir þessa reynslu ætlum við að opna glugga á að það sama gerist í leigubílaakstri. Hér var í síðustu ræðu vitnað í slagorðið „Báknið burt“. En til að hafa eftirlit, ef það á að hafa eftirlit með afleiðingum af þessu frumvarpi, er ég hræddur um að þurfi að bæta í báknið. Þá þarf að bæta í eftirlitið til að ganga úr skugga um að þeir sem komast að starfi eins og lög gera ráð fyrir.

Ég sé hvergi í greinargerðinni getið þess að það er til nýleg sænsk skýrsla um reynslu Svía af því að færa leigubílaakstur í Svíþjóð í „frjálsræðisátt“ og sú skýrsla er mjög svört. Svíar eru í standandi vandræðum og ætla sér reyndar að reyna að snúa til baka, sem er alltaf erfitt, og reyna að koma taumhaldi á þennan rekstur aftur. Ég sé ekki, eftir að hafa gluggað í þetta frumvarp, ég hef ekki lúslesið það, neitt sem sannfærir mig um að eftirlit með þeim sem verður hleypt að þessum rekstri verði fullnægjandi. Það er nú einu sinni þannig að þegar við erum að fjalla um viðskipti — og þetta hélt ég að Sjálfstæðismenn vissu líka — snúast viðskipti ekki einvörðungu um að gera öllum sem vilja stunda viðskipti endilega miklu léttara að stofna fyrirtæki og hefja starfsemi vegna þess að það er annar hópur sem kemur að þessu máli. Hann heitir viðskiptavinir. Það þarf líka að tryggja bæði öryggi og rétt þess hóps. Það er ekki nóg að slaka svo á kröfum og reglum til þeirra sem stofna til viðskipta, þ.e. fyrirtækja eða reksturs, að það komi niður á neytendum eða notendum þjónustunnar. Og það er akkúrat það sem ég óttast að muni geta gerst ef þetta frumvarp fer hratt í gegnum þingið.

Það er að vísu, eins og ég sagði áðan, ekkert sem hastar á að afgreiða þetta frumvarp og það er alveg sjálfsagt fyrir þá ágætu nefnd sem þetta fær, ætli það verði ekki hv. umhverfis- og samgöngunefnd eða hv. efnahags og viðskiptanefnd, að fara mjög gaumgæfilega yfir frumvarpið og kanna til hins ýtrasta hvort það sem hér er sett fram um eftirlit o.s.frv. muni halda og duga. Það er mjög athyglisvert, verð ég að segja, að núna á þeim dögum sem við erum að opna glugga í átt að Uber er stórborgin London að banna Uber vegna þess að reynslan af því er hvergi góð í London. Það er mjög eftirtektarvert en það væri svo sem ekki í fyrsta skipti sem við Íslendingar tökum eitthvað upp sem reynst hefur illa annars staðar, bara svona af því bara. Þetta virðist vera plagsiður og hefur verið gert oft, því miður.

Það segir hér, með leyfi forseta, í greinargerð með frumvarpinu:

„Í Danmörku skulu leigubifreiðar hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð en ekki er gerð krafa um að fleiri en ein leigubifreið hafi afgreiðslu á hverri stöð.“

Hver sá sem fær rekstrarleyfi þarf að hafa einhverja aðstöðu sem má kalla leigubifreiðastöð. Þetta er nú eitt af því sem skapar öryggi fyrir þá sem neyta, þ.e. neytendur, farþega.

Það segir hérna líka, með leyfi forseta:

„Í Finnlandi hefur verðlagning leigubifreiðaþjónustu verið gefin frjáls, atvinnuleyfi eru ekki lengur bundin við ákveðin landfræðileg mörk önnur en landamæri ríkisins og ekki er skylt að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð.“

Samkvæmt þeim fregnum sem manni hafa borist frá Finnlandi er þar líka gríðarlega erfitt ástand sem bitnar að lokum á farþegum, á notendum, á neytendum. Þannig að ég hefði í sjálfu sér ráðlagt hvorri nefndinni sem þetta mál fær til meðferðar að kanna mjög ítarlega þær afleiðingar sem þetta aukna „frjálsræði“ hefur haft á hinum Norðurlöndunum. Ég hefði líka ráðlagt að sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar fari mjög vel yfir það að hvort nefndin telji að eftirlit samkvæmt frumvarpinu sé með þeim hætti að fullnægjandi megi teljast, auk þess að kanna hvað það eftirlit muni geta kostað, vegna þess að allur sá kostnaður sem fellur til hjá ríkinu vegna þess arna mun um síðir ratað út í verðlagið. Þegar við erum að kaupa þjónustu yfirleitt er það þannig að ef vara eða þjónusta er miklu ódýrari en einhver annar hefur að bjóða er það venjulega vegna þess að minni kröfur eru gerðar. Við þekkjum þetta ágætlega t.d. úr farþegaflugi þar sem svokölluð lággjaldaflugfélög bjóða náttúrlega ekki upp á sömu þjónustu og önnur félög sem bjóða upp á meiri þjónustu. Ef menn ætla að lækka verð á einhverri ákveðinni þjónustu minnka gæði þjónustunnar. Það mun líka verða í þessu dæmi. Það er ekki til nein töfralausn til að reka bifreiðarþjónustu með einhverjum ódýrari hætti en gert er í dag og ef það er svo að skilyrði eða kröfur samkvæmt þessu frumvarpi hér, t.d. um tryggingar, eigi að teljast sambærilegar við þær tryggingar sem t.d. leigubílar hafa í dag þá erum við að tala um mjög verulegan kostnað. Tryggingagjöld fyrir leigubílaakstur eru mjög há þannig að hvar ætla menn að spara sem setja upp leigubílaþjónustu? Ætla þeir að kaupa sér ódýrara eldsneyti? Þeir fá væntanlega ekki ódýrari tryggingar nema tryggingarnar séu ekki af þeim standard sem aðrir nota. Þeir geta hugsanlega sparað með því að þurfa ekki að hafa stöðina eins og aðrir en eins og ég og segi: Hvar ætla menn að spara? Hvar verður sparnaðurinn? Hvar eru tækifæri til stórkostlegra verðlækkunar á akkúrat þessum markaði, sem er vissulega nokkuð erfiður?

Og þá kemur spurningin líka um að bæta við þessi tæplega 700 leyfi og þessar 4.000 bifreiðar sem eru skráðar til fólksflutninga á Íslandi. Hvað þurfum við margar í viðbót? Ég sé ekki í dag að það sé nokkur skortur á þessari þjónustu. Sá skortur er ekki til staðar þannig að ég vara við því að menn flýti sér um of að opna allar gáttir og afnema takmarkanir á leyfisfjölda. Ég sá heldur ekki við fyrsta yfirlestur að hér væri gert ráð fyrir svipuðum takmörkunum og í Noregi, þ.e. í dreifbýli. Ef það er hér hefur það farið fram hjá mér.

Ég segi aftur: Við skulum nýta reynslu þeirra sem hafa þegar stigið þessi skref vegna þess að sumir þeirra sjá eftir því í dag og við skulum bara fara þannig að þessu máli að við hröpum ekki að því að hnika til kerfi sem virkar ef við þurfum það ekki. Við skulum fara okkur hægt í þessu máli og við skulum hafa samráð við þá sem eru nú þegar starfandi á markaðnum. Ég held að það væri líka affarasælt. Ég vona að þegar málið gengur til nefndar fái það mjög gaumgæfilega yfirferð í þeirri nefnd sem tekur það að sér þannig að við getum verið þess fullviss að við séum ekki með samþykkt þessa frumvarps, þegar þar að kemur, að stíga skref sem við kynnum að sjá verulega eftir síðar.



[22:37]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég veit að við erum ekki alveg sammála um þessi mál en það er ekki það sem ég ætlaði að ræða. Ég tek undir með hv. þingmanni um að málið muni hafa sinn gang og ég efast ekki um að bæði sjónarmiðin fái að heyrast á fundum nefndarinnar og meðal þeirra gesta sem nefndin boðar á sinn fund.

Mig langar aðeins að eiga orðastað við hv. þingmann út af dæminu sem hann tók um Uber í London vegna þess að þetta eru fréttir sem rötuðu hingað heim. Miðað við fréttaflutninginn sem ég sá var þarna einfaldlega á ferðinni fyrirtæki sem braut lög og reglur og missti þess vegna leyfið. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður viti eitthvað meira um það eða hvort hann telji ástæðu til að óttast að slíkt gerðist hér. Það er í mínum huga svolítið eins og ef við hættum að veiða fisk af því að ákveðið flaggskip fyrirtækja hefði brugðist trausti okkar. Við höldum fiskveiðunum hins vegar áfram en reynum að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur.

Ég veit ekki hvort dómur er fallinn í London en telur hv. þingmaður að sá dómur, ef hann er fallinn, eða sú ákvörðun yfirvalda í London að banna Uber tengist frekar deilihagkerfinu sem þetta fyrirtæki keyrir eftir en bara því að menn brutu þarna lög og reglur og tóku afleiðingunum?



[22:39]
Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta andsvar. Hún spurði hvort ég óttaðist að reglur yrðu brotnar á Íslandi af þessum völdum. Stutta svarið er: Já, (Gripið fram í.) ég myndi óttast það af fenginni reynslu, t.d. af því dæmi sem ég nefndi í upphafi ræðu minnar. Það er mjög nýlegt dæmi um hvað gerist ef við opnum fyrir deilihagkerfið. Það virkar alveg svakalega vel fyrir alla nema ríkissjóð. Sem gamall innheimtumaður ríkissjóðs er ég ekkert ánægður með það vegna þess að mér þykir vænt um ríkissjóð og ég vil að hann njóti allra tekna sem hann á skilið og á að fá. Ég minni líka á mjög nýlegt svar hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurn minni þar sem hann eða hans starfsfólk komst að því að á Íslandi séu að staðaldri 80 milljarðar á floti í hagkerfinu sem ekki eru greiddir skattar af.

Óttast ég það að starfsemi eins og þessi geti orðið farvegur fyrir skattsvik og undanskot? Svo sannarlega óttast ég það. Ég hraðlas svo sem þetta frumvarp en ég sé ekki alveg í hendi mér hvernig menn ætla að hafa eftirlit með ótilgreindum fjölda þegar búið er að afnema leyfafjöldann nema við bætum í báknið sem er ekki vinsælt en kann að vera nauðsynlegt vegna þess að í sjálfu sér er flókið að hafa eftirlit með svona smárekstri. Það er eiginlega flóknara að mörgu leyti en að hafa eftirlit með stærri aðilum. Það er dýrara og erfiðara á allan hátt. Þess vegna þurfum við líka að vera vakandi fyrir því að ef við ætlum að koma í veg fyrir það sem hv. þingmaður spurði mig hvort ég óttaðist og ég sagði já við þurfum við að vera viss um að við séum búin að setja lok á þá krukku.



[22:41]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og biðst afsökunar á því að hafa ekki komið spurningunni rétt og skiljanlega frá mér vegna þess að þetta er alls ekki það sem ég var að spyrja um. Ég var að spyrja hvort hv. þingmaður væri ekki á því að þarna hefði verið um að ræða ásetningsbrot hjá ákveðnu fyrirtæki frekar en að það að opna deilihagkerfið í frjálsræðisátt leiddi til þess að eitthvað slíkt gerðist. Það væri hægt að opna á það án lögbrota. Mér þykir mjög dapurlegt ef óttinn við það að einhverjir brjóti sett lög og reglur hindri menn í því að opna á hlutina. Eftirlitsaðilar eiga að fylgjast með því að það séu viðeigandi viðurlög, rétt eins og ég sé að er að gerast í London ef þetta er svona. Nú á Uber sjálfsagt eftir að áfrýja þessu. Ég þekki málið sannarlega ekki ofan í kjölinn, er bara búin að lesa þrjár fyrirsagnir um það.

Ástæðan fyrir því að ég kem hingað upp er sú að hér er lagt fram frumvarp með ákveðnum breytingum í frjálsræðisátt hvað þetta varðar og hv. þingmaður segir: Sjáið hvað gerðist í London. Uber er þessi vondi aðili, þetta opnar á lögbrot. Staðreyndin er hins vegar sú að þarna er fyrirtæki sem brýtur lög og reglur á tilteknu svæði sem það starfar á. Það þarf ekki farveitur til að brjóta sett lög og reglur, rétt eins og hv. þingmaður kemur inn á.

Ég get hins vegar alveg tekið undir það að oft og tíðum er erfiðara að fylgjast með litlum fyrirtækjum, einfaldlega vegna þess að fjölbreytileikinn verður slíkur að eftirlitskerfið verður flóknara. Ég held þó að svarið felist í að bregðast við því á einhvern hátt, ekki endilega að stækka báknið. Það er hægt að koma fyrir einhverjum girðingum öðruvísi en að tína alltaf til dæmin þar sem illa fer til að verja óbreytt ástand. Það er það sem ég er að tala um.

Að öðru leyti þakka ég fyrir samtalið.



[22:43]
Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er búinn að segja það við mörg tækifæri í umræðum um ýmis mál á Alþingi að óttinn á ekki að stjórna gerðum okkar, sérstaklega ekki okkar stjórnmálamanna. Við eigum ekki að vera hrædd við eitt eða neitt vegna þess að þeir sem eru hræddir og taka ákvarðanir undir slíkum kringumstæðum taka yfirleitt vondar ákvarðanir. Það sem ég er að segja er að til þess eru vítin að varast þau. Við eigum að læra af því sem illa hefur reynst annars staðar og við eigum ekki endilega að stíga sporglöð ofan í sama pollinn og aðrir eru búnir að blotna í. Við eigum að nýta reynsluna af þessu fyrirkomulagi í kringum okkur og eins og ég segi aftur er hún víða mjög slæm. Þá vitna ég til sænskrar skýrslu sem ég sé ekki að sé getið í frumvarpinu. Ég held að það væri mjög hollt fyrir nefndina sem fær þetta mál, og reyndar nauðsynlegt, að taka þessa sænsku skýrslu til mjög gaumgæfilegrar athugunar vegna þess að í henni er að finna reynslu af því að opna þetta kerfi sem fór illa. Við getum örugglega opnað það með því að sneiða fram hjá því sem Svíum gekk illa með.

Við skulum ekki endurtaka mistök annarra alveg blindandi. Við skulum læra af öðrum, en okkur Íslendingum gengur oft rosalega illa að læra af öðrum af því að við höldum að við þurfum ekki að læra af neinum og önum þess vegna beint af augum án þess að sjá fúamýri eða keldur sem fyrir framan okkur eru. Við skulum fara varlega að þessu máli. Við skulum ekki flýta okkur við það, við skulum vinna það vel og við skulum fara mjög vel yfir það áður en við förum með það í gegnum þingið.



[22:45]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það gleður mig reyndar ef hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson er aðeins kannski að mildast í afstöðu sinni og ég skal taka undir það að auðvitað eigum við að fara vel yfir þetta mál eins og öll önnur mál. En ég verð að viðurkenna það að mér fannst mikill ótti í ræðu hv. þingmanns, svona ákveðin fortíðarþrá en mikill framtíðarótti. Ég er manneskja sem talar fyrir nýsköpun og framtíðarsýn þar sem einstaklingurinn fær notið sín, að skapa nýjar hugmyndir og fær frelsi til að virkja þær og nýta þær. Þess vegna fannst mér miður að hv. þingmaður talaði um aukið frjálsræði, í frumvarpinu, og hafði það innan gæsalappa. Í mínum huga erum við hér að tala um atvinnufrelsi. Mér finnst, eins og ég sagði, virðulegur forseti, í fyrri ræðu minni ótrúlegt að við séum enn þann dag í dag með ákveðinn fjölda á atvinnuleyfum í þessari stétt. Ég velti því hreinlega fyrir mér hvort einhver myndi færa rök fyrir því í dag að við ættum að ákveða hversu margir mega selja mjólk og brauð eða föt eða einhverja aðra þjónustu sem við nýtum okkur í daglegu lífi, en það er það sem gert er í lagarammanum okkar í dag.

Ég get ekki séð, virðulegur forseti, að með því frumvarpi sem hér liggur fyrir, sem er augljóslega í átt að auknu atvinnufrelsi, sé einhvern veginn verið að herða ólarnar að einni stétt. Hér er um að ræða að auka frjálsræði, já, og bæta atvinnufrelsi, ýta undir nýsköpun og ákveðna framtíðarsýn. Ég er ekki þingmaður sem vill sjá ríkisstýringu á atvinnulífinu. Ég tel að neytandinn sé fullfær um að ákveða hvers konar þjónustu hann velur. Ég er ekki sannfærð um að lækkun verðs þýði endilega lækkun gæða. Það getur bara þýtt öðruvísi þjónusta. Mér finnst ofboðslega mikilvægt að neytandinn fái frelsi til að velja þá þjónustu sem hann telur henta sér.

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður sem talaði á undan mér, Þorsteinn Sæmundsson, talaði um deilihagkerfi og líkti því við skattsvik, setti einhvers konar samasemmerki á milli deilihagkerfis og skattsvika. Það er vissulega rétt, hv. þingmaður hefur nefnt það áður í ræðum um önnur mál. Mér finnst nauðsynlegt að það komi hér fram að þegar ég heyri orðið deilihagkerfi þá sé ég fyrir mér nýsköpun, ákveðna þróun í atvinnulífinu og síðast en ekki síst risastórt umhverfismál, eitthvað sem eykur nýtni og minnkar sóun. Það er svo sem ekki nýtt að þingmönnum Miðflokksins finnist umhverfismál ekki skipta miklu máli og hafa ekki lagt mikla áherslu á það í málflutningi sínum hér á þingi nema síður sé.

Hv. þingmaður spurði áðan hvað þyrfti marga leigubíla og yfirfór það hversu marga væri fjallað um í reglugerðinni. Ég spyr: Hver á að ákveða hversu marga leigubíla við þurfum, ef ekki neytendur sjálfir og markaðurinn?

Virðulegur forseti. Mér finnst mikilvægt að þegar við ræðum þetta mál og fleiri mál sem augljóslega eru pólitísk — það er auðvitað pólitík fólgin í því hvort við viljum bæta atvinnufrelsi og opna leigubílamarkaðinn, það er mjög mikil pólitík í því. En ég verð að viðurkenna að mér finnst fulltrúar Miðflokksins stundum skreyta sig með stolnum fjöðrum. Þá er ég sérstaklega að vísa í hið ágæta slagorð „Báknið burt“. Þingmenn flokksins hafa jafnvel talað fyrir lækkun skatta. Þess vegna er merkilegt að núna á allra síðustu dögum hafa þingmenn Miðflokksins ekki greitt atkvæði með lækkun skatta og reynt að færa það í einhvern annan búning. Þegar rætt er um sameiningu stofnana þá hentar það ekki alveg þó að augljóslega sé fólgin hagræðing í því og er nákvæmlega báknið burt. Einföldun regluverks — nei, það má ekki einfalda það um of. Og núna þegar við ræðum um frelsi og aukið frjálsræði á leigubílamarkaðinum og atvinnufrelsi þá hentar það ekki heldur.

Virðulegur forseti. Ég held að við séum hérna með mjög gott mál sem snýst um að auka frelsið á þessum markaði, frelsi eins og á að vera til staðar á sem flestum mörkuðum.



[22:50]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Þetta var athyglisverð ræða sem hér heyrðist á undan. Miðflokkurinn hefur ekki áhuga á umhverfismálum, sagði hv. þingmaður. Það er einfaldlega rangt. Það er svo sem ekki mikil umhverfisstefna í því að vilja fjölga bifreiðum á götum Reykjavíkur eins og fram kemur í þessu frumvarpi. Og jú, ég sagði frjálsræði innan gæsalappa vegna þess að frelsi eins er yfirleitt helsi annars. Frjálsræði sem slíkt tekur á sig marga myndir. Það var skemmtilegur útúrsnúningur hjá hv. þingmanni varðandi framgöngu okkar Miðflokksmanna undanfarandi út af skattalækkunum. Það vill nú þannig til að við lögðum t.d. til að tryggingagjald yrði lækkað um 2 milljarða og það var snarfellt (Gripið fram í.) af m.a. Sjálfstæðismönnum. Við lögðum til að ódýrari lausna yrði leitað í skurðaðgerðum á einkamarkaði sem Sjálfstæðismenn felldu að viðhöfðu nafnakalli. Ef við ætlum að fara að tala um það hverjir standa við það sem verið er að tala um á hverjum tíma þá held ég að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki alveg í þeirri stöðu um þessar mundir, hafandi gengið í björg öfgavinstrisins í heilbrigðismálum. Hann er ekki alveg í færum til þess að skjóta föstum skotum að öðrum og saka þá um skort á frjálsræði, síður en svo. Hv. þingmaður sagði að við hefðum fengið að láni slagorð sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði einu sinni sem heitir Báknið burt. Já, það er dálítið sannleikskorn í því vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki notað þetta slagorð undanfarandi nema kannski á tyllidögum og 90 ára afmælinu eða eitthvað svoleiðis. En að öðru leyti hefur hann þanið út báknið undanfarin ár með óþekktum hraða. Það er alveg ástæða til þess að frjálst hugsandi menn og skynsemishugsandi menn dusti rykið af þessu slagorði þó að Sjálfstæðismenn hafi notað (Gripið fram í.) það hér áður fyrr þegar þeir voru sjálfstæðismenn. Það eru kannski ákveðin sárindi í þessu hjá þeim ágæta þingmanni sem hér talaði á undan mér því að auðvitað skynja Sjálfstæðismenn að það er búið að sveigja þá af leið. Það er núna verið að flækja skattkerfið (Gripið fram í.) og eins og ég segi hafa menn gengið í öfgavinstrið í heilbrigðismálum. Ég skynja þessi sárindi og skil þau.

Það er hins vegar ekkert að því að þegar við erum að taka ákveðnar ákvarðanir sem varða hópa fólks mjög miklu — þá er ég bæði að tala um þá sem vinna við þjónustuna og þá sem nota hana — þá förum við okkur hægt og tryggjum öryggi þeirra sem best við getum. Það er það sem ég er að leggja til hér. Og ég segi aftur: Það er viss umhverfisvernd að vilja ekki hafa nema ákveðinn fjölda leigubíla á götum Reykjavíkur.

Hv. þingmaður sem talaði á undan mér sagði að það væri hægt að bjóða upp á öðruvísi þjónustu til að vera ódýrari. Jú, það er rétt, það er t.d. hægt að bjóða upp á eldri bíla sem eru ekki jafn verðmiklir og nýir bílar sem yfirleitt eru notaðir af leigubílstjórum. Það er hægt að spara þar. Það er hægt að spara í viðhaldi en með því erum við náttúrlega á endanum að draga úr örygginu fyrir notandann. Það var enginn ótti í því sem ég sagði áðan, þvert á móti, en við eigum að læra af reynslunni, herra forseti. Við eigum að læra af þeirri reynslu að sá angi deilihagkerfisins sem hefur haslað sér sem mestan völl á Íslandi er 30% skráður, hann borgar ekki skatta af 70%. Það nýjasta sem kom fram á ráðstefnu í Ráðhúsi Reykjavíkur í fyrra á vegum Reykjavíkurborgar og lögreglunnar er það að þessi tegund gistingar sem kennd er við Airbnb er yfirleitt stærsti vettvangur mansals og vændis. Þess vegna er aukið frjálsræði ekki alltaf ávísun á eitthvað betra því að frelsi eins getur verið helsi annars, eins og ég benti á áðan. Þess vegna eigum við að vanda okkur. Ameríkanar hafa ágætismálshátt. Þeir segja: Ef það virkar, ekki laga það. Og leigubílaþjónusta á Íslandi virkar alveg ágætlega, herra forseti.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til um.- og samgn.