150. löggjafarþing — 45. fundur
 13. desember 2019.
fæðingar- og foreldraorlof, 2. umræða.
stjfrv., 393. mál (lenging fæðingarorlofs). — Þskj. 529, nál. m. brtt. 705, breytingartillaga 720.

[18:20]
Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar. Það er rétt að taka það fram strax í upphafi að breytingartillögur sem kynntar eru í þingskjalinu hafa verið kallaðar til baka. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund góða gesti en umsagnir bárust einnig frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Barnaheillum, BSRB, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Geðverndarfélagi Íslands, Jafnréttisstofu, Ljósmæðrafélagi Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Það er líka rétt í upphafi, herra forseti, að nefna það sem ég nefndi í ræðu minni þegar málið var lagt fram við 1. umr., að málið kom fram seint og ég held að það sé óhætt að segja að vinna nefndarinnar hafi nokkuð mótast af því og má í rauninni með ágætum rökum segja að við hefðum gjarnan viljað fá lengri tíma til að klára þetta mál.

Með frumvarpinu er lagt til að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs verði lengdur úr níu mánuðum í 12 mánuði og að lengingin komi til framkvæmda í tveimur áföngum, þ.e. á árinu 2020 og á árinu 2021. Eins og þingmönnum er kunnugt er lenging fæðingarorlofsins hluti af stefnu núverandi ríkisstjórnar og hefur raunar verið á stefnuskrá sennilega flestra stjórnmálaflokka á Íslandi, ef ekki allra, um alllangt skeið og augljóslega, eins og hv. þingmönnum er kunnugt um, mjög mikið baráttumál íslenskrar verkalýðshreyfingar. Framlagning frumvarpsins á þessum tíma er því að nokkru leyti tengd lífskjarasamningunum sem gerðir voru síðastliðið vor.

Umsagnir um málið voru almennt mjög jákvæðar og raunar einnig þær umsagnir sem bárust inn á samráðsgátt stjórnvalda í aðdraganda framlagningarinnar. Hins vegar komu fram við umfjöllun nefndarinnar athugasemdir um að í lögum um fæðingar- og foreldraorlof væri ekki tekið með fullnægjandi hætti á aðstæðum einstæðra foreldra sem gætu verið mismunandi, enda réttur hvors foreldris óframseljanlegur. Markmið laganna væri að tryggja barni samvistir við foreldri. Í aðstæðum þar sem einungis annað foreldrið hefur áhuga á að nýta rétt sinn til töku fæðingarorlofs gæti barnið ekki notið samvista sem lögunum er ætlað að tryggja. Þá var bent á að einnig kæmu þar til skoðunar jafnréttismál, til að mynda þegar einstæðir foreldrar sem sinna einir uppeldi barns þurfa að hverfa af vinnumarkaði í lengri tíma en gildandi lög gera ráð fyrir til að annast hið nýfædda barn.

Nefndin tekur undir þessi sjónarmið en bendir jafnframt á að þegar hefur verið skipuð nefnd í tengslum við heildarendurskoðun laganna og meiri hluti velferðarnefndar telur brýnt að við vinnu þeirrar nefndar verði mótaðar tillögur sem taki sérstaklega á þeim fjölbreytilegu fjölskyldumynstrum sem eru og munu halda áfram að verða í íslensku samfélagi.

Í vinnu nefndarinnar komu einnig fram, innan nefndarinnar og einnig í samtölum við gesti, margvísleg sjónarmið um með hvaða hætti væri best að haga skiptingu fæðingarorlofs á milli foreldra. Það var til að mynda bent á í sumum umsögnum að best væri að skilgreina allan réttinn, hann væri algjörlega niðurnjörvaður, og síðan heyrðust sjónarmið alveg yfir á hinn vænginn, að það væri óþarfi að skilgreina nokkurn hluta réttarins. Þessi umræða mun að einhverju leyti fara fram í nefnd um heildarendurskoðun laganna. Í rauninni má segja að frumvarpið eins og það er lagt fram felli kannski nokkurs konar salómonsdóm í því hvað sé heppilegast í því en það er í sjálfu sér ekki gefið að nefnd um heildarendurskoðun komist að sömu niðurstöðu. Það eru, eins og ég nefndi áðan, uppi margvísleg sjónarmið. Nefndin hafði talið að með þeirri niðurstöðu sem hafði verið kynnt með breytingartillögum væri komin ásættanleg lending og hægt að una við hana. En ég legg til, herra forseti, eins og ég hef nefnt áður, að breytingartillögurnar verði kallaðar til baka, málið komi aftur til nefndarinnar milli 2. og 3. umr. þannig að nefndinni gefist ráðrúm til þess að taka a.m.k. einn snúning í viðbót á því með hvaða hætti skiptingin verður. Það liggur hins vegar algerlega ljóst fyrir að fyrir árið 2020 verður skiptingin það sem kallað hefur verið fjórir, fjórir, tveir, þ.e. fjórir mánuðir skilgreindir á hvort foreldri og tveir mánuðir til ráðstöfunar eftir mati foreldranna. Að því leyti til eykst réttur beggja foreldra miðað við það sem er í núgildandi lögum úr þremur mánuðum í fjóra en til móts við það styttist sá tími sem þessi svokallaði sameiginlegi réttur verður.

Nefndin, eða ég tel hins vegar heppilegast — það er hugsanlega ekki rétt að vitna í nefndina hér — að fremur en að skrifa það út í lögunum á þessu stigi málsins endanlega með hvaða hætti skiptingin verður árið 2021 fari betur á því að mæla fyrir um það að niðurstaða endurskoðunarnefndarinnar verði lögð til grundvallar þegar ráðherra leggur fram frumvarp þar um. Engu að síður verði tryggt, eins og kemur fram í frumvarpinu, að á þessu stigi máls festum við 12 mánaða rétt til fæðingarorlofs. Við tökum hins vegar ekki endanlega ákvörðun um með hvaða hætti skiptingin verður og þess vegna er mikilvægt að fá málið inn milli 2. og 3. umr. þannig að nefndin hafi ráðrúm til að smíða breytingartillögu í samræmi við þau sjónarmið sem ég hef nefnt.

Ég vil að lokum þakka hv. nefnd fyrir góða vinnu og góðar umræður um málið. Það er mikið fagnaðarefni að Alþingi Íslendinga skuli vera að ákveða að lengja réttinn til fæðingarorlofs. Það er í mínum huga stórmál og sennilega eitt stærsta málið sem lagt hefur verið fram á þessu kjörtímabili, a.m.k. hvað varðar réttindi borgaranna, og mikið ánægjuefni að fá að taka þátt í þeirri vinnu og taka þátt í því að ljúka því máli þannig að foreldrar og börn á Íslandi eigi rétt til 12 mánaða fæðingarorlofs.



[18:30]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það var margt rétt sem kom fram í máli hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar hér rétt áðan um þau vinnubrögð sem átt hafa sér stað um þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof sem við hljótum öll að fagna, þ.e. tilurð frumvarpsins, tilgangi þess og markmiðum. En ég get ekki látið hjá líða að koma hingað upp einfaldlega vegna þess að ég á mjög erfitt með þau vinnubrögð sem Alþingi Íslendinga er boðið upp á. Nefndarálit er lesið upp, nú kynnt sem nefndarálit meiri hluta, og breytingartillaga sem var í nefndaráliti er kölluð til baka hér í 2. umr., og við erum á lokadögum þings fyrir jólahlé og fyrirséð að fleiri fundir verði í velferðarnefnd. Þessar breytingartillögur voru afgreiddar með hraði í nefndinni en augljóslega var það á einhvern hátt vanhugsað af meiri hlutanum að leggja þær breytingar til. Nú er búið að kalla þær til baka og einhvern tímann á næstu sólarhringum eigum við að fara að vinna þetta upp á nýtt. Ég veit að þetta hljómar illa en þetta er svona.

Frumvarpið snýst um lengingu á fæðingar- og foreldraorlofi. Það fór inn í samráðsgátt í örstutta stund. Kemur hingað inn til Alþingis þann 26. nóvember sl. og þá var algerlega morgunljóst að það fengi ekki sómasamlega þinglega meðferð. Mér finnst það alveg ömurlegt, herra forseti, að bjóða upp á að við ástundum vinnubrögð af þessu tagi. Það kallar bara á eitthvert klúður. Í dag hafa ýmsir hagsmunaaðilar haft samband við þingmenn hægri, vinstri, ýmist til að lýsa ánægju eða óánægju með þær breytingartillögur sem komu frá meiri hlutanum. Það sýnir bara að hv. velferðarnefnd hefur ekki verið gefið tækifæri til að vinna þetta mál og ég talaði um það hér í 1. umr.

Þetta er því miður ekki eina málið sem við fengum frá hæstv. félags- og barnamálaráðherra þar sem hv. velferðarnefnd á bara að afgreiða hlutina í slíkum flýti. Nú dembast inn athugasemdir frá umsagnaraðilum sem segja: Af hverju fengum við ekki að koma fyrir nefndina? Af hverju fáum við ekki að koma? Ert þú ekki formaður? Af hverju fær þessi hópur ekki að koma? Af hverju erum við ekki kölluð inn til að segja skoðanir okkar á þeim breytingartillögum sem verið er að leggja til? Af hverju er núna verið að afturkalla breytingartillögurnar? Það er ekkert rökstutt af því að engin vinna hefur átt sér stað. Við erum löggjafinn og ég þreytist ekki á að tuða yfir því hér í þingsal að þessi vinnubrögð, með leyfi forseta þingsins, eru óþolandi. Forseti þingsins þarf að fara að senda skýr skilaboð til ráðherra í ríkisstjórn af því að það er út af þessu sem hér verður klúður sem á endanum kostar ríkissjóð stórfé.

Það bárust 28 umsagnir í samráðsgáttina þar sem fólk var að skiptast á skoðunum eða senda inn álit sitt varðandi skiptingu á fæðingarorlofi. Hv. velferðarnefnd gat ekkert tekið á því máli, ekki neitt. Það komu tíu umsagnir fyrir hv. velferðarnefnd á þeim stutta tíma sem gefinn var. Gestakomur hófust löngu áður en umsagnarfresti lauk og það var enginn tími til að kalla inn alla þá sem sendu inn umsögn. Þess vegna erum við í þeim sporum núna að það er tekin ákvörðun, vegna ósættis innan ríkisstjórnarinnar um skiptinguna, um að senda inn breytingartillögu — og hvar erum við núna? Ég vil bara að þingheimur átti sig á þessari stöðu því að það er óboðlegt að setja okkur í þessar aðstæður. Í staðinn fyrir að geta staðið hér og fagnað af öllu hjarta, því að við erum að lengja fæðingarorlofið, býður ríkisstjórnin okkur upp á þetta klúður. Mér finnst það alveg ótrúlega sorglegt. Það er frábært að verið sé að lengja fæðingarorlofið en það er ömurlegt hvernig hæstv. félagsmálaráðherra stendur að þessu máli.

Það verður fróðlegt að vinna þetta áfram. Ég gat ekki heyrt að hv. þingmaður og framsögumaður nefndarinnar kallaði málið inn milli 2. og 3. umr. þannig að ég geri það núna. Það getur vel verið að ég hafi misst af því en ég geri það þá núna. Málið fer til hv. velferðarnefndar sem fundar um helgina eða eftir helgi til að reyna að taka til eftir það sem hefur átt sér stað.



[18:37]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég ætlaði að halda reiðilestur um vinnubrögðin í kringum þetta mál en í stað þess tek ég heils hugar undir orð hv. formanns velferðarnefndar, Helgu Völu Helgadóttur, enda er þessi flýtimeðferð búin að gera okkur ofboðslega erfitt fyrir við að skoða t.d. umsagnir. Það eru ekki bara umsagnaraðilar sem fá stuttan tíma til þess að rýna málið og skila inn umsögnum heldur fáum við stuttan tíma til að rýna í umsagnir og við fáum einnig stuttan tíma til að kalla eftir gögnum frá ráðuneytinu og rýna í þau gögn sem koma. Allt í kringum þessa flýtimeðferð gerir okkur, löggjafanum, mjög erfitt fyrir að vinna málið á fullnægjandi hátt og það er það sem ég hef áhyggjur af.

Það sem mig langar kannski mest til að ræða varðandi þessa lengingu — sem ég fagna svo sannarlega, það er alveg kominn tími til að við lengjum fæðingarorlofið og mikil þörf á því — er þessi skipting og það að við skulum vera að taka þetta í tvennu lagi. Núna í sumar setti hæstv. félags- og barnamálaráðherra saman nefnd til að gera heildarendurskoðun á fæðingarorlofslögum, sem er einnig mjög gott, en það er verið að gera breytinguna í tvennu lagi. Mér finnst þörf á því þegar við erum að fara í heildarskoðun að það sé skoðað meðfram henni hvernig við skiptum upp lengingu á fæðingarorlofinu. Mér finnst fyrst og fremst óþægilegt að verið sé að gera þetta í tvennu lagi.

Hitt sem mig langar til að segja varðar þessa nefnd sem hefur verið sett saman og var sett saman í sumar. Ég ætla bara að lesa, með leyfi forseta, úr tilkynningu Stjórnarráðsins varðandi hana en þar segir, með leyfi forseta:

„Nefndin mun hafa það hlutverk að endurskoða lögin í heild sinni og vinna frumvarp þar sem meðal annars verði brugðist við fyrirliggjandi álitum frá umboðsmanni Alþingis. Jafnframt er gert ráð fyrir að í frumvarpinu verði kveðið á um lengingu á samanlögðum rétti foreldra til fæðingarorlofs í tólf mánuði“ — mig langar til að árétta að þarna stendur samanlögðum rétti foreldra til fæðingarorlofs í tólf mánuði — „vegna barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar. Er það í samræmi við stefnu stjórnvalda þess efnis að efla fæðingarorlofskerfið en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að samanlagður réttur foreldra til fæðingarorlofs verði lengdur.“

Ég ætla ekki að lesa restina en þarna er verið að setja rammann utan um þá vinnu sem mun eiga sér stað í nefndinni. Þar er bara talað um rétt foreldra. Það er hvergi talað um rétt barna og ekki nóg með það heldur sitja í þessari nefnd einungis aðilar vinnumarkaðarins, fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðuneytið. Þetta er allur fókus þeirrar vinnu sem á sér stað í þessari nefnd og ég hef miklar áhyggjur af þessu af því að í 2. gr. barnasáttmálans, ef ég man rétt, er talað um að það megi ekki mismuna börnum. Ég hefði talið, og það kemur fram í markmiðsgrein fæðingarorlofslaganna, að markmiðið sé að tryggja samvist barna með foreldrum. Ég hef áhyggjur af því að í þeirri nefnd sem á að fara með það mikilvæga hlutverk að vera með heildarendurskoðun á þessum lögum vanti algerlega talsmenn barna. Af hverju er umboðsmaður barna ekki í nefndinni? Af hverju er enginn fulltrúi einstæðra foreldra? Af hverju eru í nefndinni ekki fagaðilar í t.d. þroska barna og hvað sé börnum fyrir bestu? Hver heldur því á lofti í nefndarvinnunni?

Ef við horfum fram á það að skiptinguna eigi að festa þannig að hvort foreldri fái einhverja mánuði fasta og þessum sameiginlegu eða sveigjanlegu mánuðum fækki, þá erum við að halda í mismunun barna, þ.e. börn sem eiga eitt foreldri eða börn sem eiga tvö. Við getum horft á hvernig við viljum hafa hlutina en svo þurfum við að horfa á raunveruleikann. Í fullkomnum heimi tækju feður auðvitað jafn langt orlof og mæður. En það er bara ekki þannig. Börn einstæðra foreldra eða börn sem kannski eiga foreldri sem hafa takmarkaðan áhuga eða getu á að taka þátt í uppeldinu og taka ekki sitt fæðingarorlof, fá mun minni tíma með foreldri sínu en börn sem eiga tvö foreldri og þarna erum við að mismuna.

Þetta eru sjónarmið sem mér finnst gífurlega mikilvægt að séu rædd í þaula í nefndarvinnunni. Ég kem hingað upp og ég fagna því að við séum að lengja orlofið. En á sama tíma hvet ég ráðherra í raun og veru til að endurskoða hverjir sitji í þessari nefnd og koma fleiri sjónarmiðum þar inn vegna þess að annars hef ég áhyggjur af því að sú niðurstaða eða sú skýrsla sem kemur frá nefndinni verði mjög einhliða og muni hafa allan fókus á þarfir vinnumarkaðarins, á jafnréttisbaráttuna, sem ég er ekki að grafa undan á neinn hátt, jafnréttisbaráttan er gífurlega mikilvæg. En við verðum að horfa líka til þess hvað sé barninu fyrir bestu. Það má ekki týnast og sérstaklega þegar kemur að fæðingarorlofi og að tryggja rétt barnsins til samvista við foreldra sína og mismuna ekki börnum.



[18:44]
Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna og þessar hugleiðingar sem komu skýrt fram núna, og hafa gert áður hjá hv. þingmanni, um rétt barnsins af því að ég held að við þurfum líka að horfa á það. Þetta eru sjónarmið sem maður sér vegast á í umsögnum sem bárust við málið og eru einmitt þau sjónarmið sem maður myndi gjarnan vilja fá að heyra meira af innan nefndarinnar og ræða við sérfræðinga sem koma að þessu, við fulltrúa verkalýðshreyfinga og einnig fulltrúa Geðverndarfélags Íslands sem sendi inn umsögn. Hv. þingmaður talaði um umboðsmann barna og Félag einstæðra foreldra og þá langar mig að nefna við hv. þingmann t.d. þennan hóp, geðvernd. Hvað með Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi? Hvað með Afstöðu? Hvað með hópa þar sem mögulega er fyrirséð að þessi skipting geti verið erfið og það þurfi að horfa á hagsmuni barnsins fyrst og fremst, þar sem það gæti verið einhvers konar þröskuldur þannig að réttur barnsins til fæðingarorlofs skerðist? Ég hef bent á það nokkrum sinnum að stjórnvöld taka líka ákvörðun um að skerða rétt barns til fulls fæðingarorlofs með foreldri þegar hinu foreldrinu er t.d. ekki veitt leyfi til dvalar á landinu. (Forseti hringir.) Mig langaði að spyrja hv. þingmann aðeins út í þessa hópa.



[18:46]
Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er líka til Félag einstæðra foreldra og ég hefði viljað sjá umsögn frá þeim. Mögulega hefði hún komið hefðum við verið að vinna þetta mál í aðeins lengri tíma og ég hefði líka viljað fá fleiri gesti, t.d. kom eins og hv. þingmaður nefndi umsögn frá Geðverndarfélagi Íslands. Það er flott umsögn og þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Sú breyting sem er lögð til með þessu frumvarpi felst í því að tryggja foreldrum, ekki barninu, rétt til samvista, þrátt fyrir að markmiðsgrein laganna, sem áður var vitnað til, orði það skýrt að markmiðið sé að tryggja barninu rétt til samvista.“

Þetta er mjög mikilvægt og er sjónarmið sem við fengum ekki að heyra í nefndinni af því að það er ofboðslega mikil flýtimeðferð á þessu máli. Réttilega snýst þetta frumvarp um að lengja orlofið en þarna er verið að koma á einhverri skiptingu og það er gert áður en við erum búin að fá niðurstöður frá nefnd sem er að vinna málin. Í þeirri nefnd finnst mér ekki augljóst að áherslan sé á réttindi barnsins heldur miklu meira réttindi foreldranna. Þá veltir maður fyrir sér hver niðurstaðan verði og hvort hún sé í samræmi við markmið laganna. Það finnst mér bagalegt.



[18:48]
Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Það er einmitt þetta með þá hópa sem ekki náðu að skila inn umsögn í þessu máli af því að umsagnarfresturinn er mjög skammur. Þá vil ég upplýsa hv. þingmann, sem jafnframt er nefndarmaður í nefndinni, um það að ég óskaði sérstaklega eftir að fá umsagnir frá námsmönnum, frá Félagi einstæðra foreldra, frá Félagi um foreldrajafnrétti, frá Samtökum kvenna af erlendum uppruna, frá Afstöðu og frá fleiri félagasamtökum en við fengum iðulega þau svör að það væri ekki tími og það var náttúrlega alls ekki tími til að kalla þessa aðila fyrir nefndina. Það er auðvitað staðan. Þá veltir maður fyrir sér skiptingunni, hvort það eigi að vera að taka ákvörðun. Til þess að upplýsa það hér þá var umræða í nefndinni um hvort það ætti þá í raun að hafa þessa þrjá hluti jafna. Einhverjir vilja ekki hafa nein skil, einhverjir vilja að þetta verði á endanum alveg sex mánuðir og sex mánuðir. Það þarf alla vega að eiga sér stað umræða um það. Eins og þetta er þá eru ákveðin börn sem fá minni tíma. Og það er ekki eins og það sé eitthvert kerfi sem tekur við. Það er ekki eins og ungbarnaleikskólar séu þess eðlis að allir, líka þeir sem hafa mögulega lítið á milli handanna, geti hreinlega nýtt sér þá af því að þeir eru mjög dýrir. Við erum einhvern veginn komin í algjört öngstræti sem bitnar mest á börnum efnaminni foreldra. Við þurfum alla vega að klára umræðuna um þetta og það fáum við því miður ekki að gera hér.



[18:50]
Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Það skiptir máli að vera með fjölbreytt sjónarmið. Ástæðan fyrir því að ég tala mikið um einstæða foreldra er að ég er einstætt foreldri. Ég þurfti á sínum tíma að teygja mitt fæðingarorlof yfir í níu mánuði, ég fékk bara sex, og þá voru launin mín mjög svo lág, með því að teygja það yfir í níu mánuði. Ég hefði í raun og veru ekki getað gert þetta ef ekki hefði verið fyrir það að ég á mömmu sem á ágætlega stóra íbúð sem ég gat búið í á meðan. Það er ekki á færi allra og það er voða lítið hugsað um þetta, hvað verður um einmitt þá foreldra sem hafa ekki tök á því að lengja fæðingarorlof sitt. Hvað verður um þau börn? Þau fá bara miklu minni tíma með sínu foreldri. Með þá þekkingu sem við höfum í dag, um hversu mikilvægur þessi tími er í þroskaferli barnsins, þá eigum við að taka ákvarðanir um hvernig fæðingarorlofi er skipt út frá þeim gögnum, út frá þeirri þekkingu sem við höfum um hvað er barninu fyrir bestu. Mér finnst við ekki vera að gera það hérna. Mér finnst við vera dálítið að taka ákvarðanir út frá því hvað er vinnumarkaðinum fyrir bestu og reyna að tryggja það að feður fái orlof með barninu sínu, sem er auðvitað rosalega mikilvægt. En ef markmiðið væri að börn fengju jafn miklar samvistir með feðrum sínum og mæðrum værum við mögulega að skoða spurninguna: Af hverju gefum við ekki báðum aðilum fæðingarorlof á sama tíma? Það er gríðarlega kostnaðarsamt, myndi kosta samfélagið fullt af peningum en það myndi ná þessum markmiðum líka, ef fjölskyldur fengju að vera saman, bæði feður og mæður saman með barninu, í einhvern tíma.

Ég held að við verðum að horfast í augu við það að sveigjanleiki er mikilvægur af því að fjölskyldumynstur eru svo ofboðslega fjölbreytt, það sem hver fjölskylda þarf á að halda. Það (Forseti hringir.) að taka ákvörðun um hvað sé fjölskyldum fyrir bestu er eitthvað sem við getum ekki séð fyrir (Forseti hringir.) og við getum ekki tekið ákvörðun fyrir fólk. (Forseti hringir.) Ef við viljum að feður taki meiri þátt í uppeldi barnanna eða taki lengra fæðingarorlof þurfum við bara að hækka greiðslur í fæðingarorlofi. (Forseti hringir.) Ég held að það sé góð leið til að fá fleiri karlmenn til að taka fæðingarorlof. (Forseti hringir.) Ég biðst afsökunar, forseti.



[18:53]
Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Mig langar kannski að byrja á því að nefna, svo það sé sagt í þessari umræðu, hvað fæðingarorlofskerfið á Íslandi er frábært. Þrátt fyrir alla sína annmarka og allt sem betur má fara var það svo stórkostlegt skref sem stigið var fyrir nokkrum áratugum að koma þessu kerfi á. Það hefur verið bætt — kannski er ekki hægt að segja að jöfnum skrefum því að langt hefur verið á milli skrefanna — í tímans rás þannig að í dag er kerfið, þrátt fyrir allt sem betur má fara, eitt það besta sem í boði er í heimi.

Hér erum við dálítið mikið að ræða skiptingu fæðingarorlofs á milli foreldra. Það er aftur eitt af því sem Ísland hefur gert með öðrum hætti en gengur og gerist og þykir til eftirbreytni, að eyrnamerkja drjúgan hluta fæðingarorlofs hvoru foreldri fyrir sig og vera síðan með pott sem er framseljanlegur á milli þeirra. Þetta skref var stigið fyrir 20 árum þegar í önnur 20 ár hafði verið valkvætt fæðingarorlof fyrir feður sem enginn nýtti. Það tók enginn faðir fæðingarorlof fyrr en Alþingi hér í þessum sal tók þá ákvörðun að ef feður tækju ekki sína mánuði þá féllu þeir bara dauðir niður. Það er nefnilega stundum svo leiðinlegt að þurfa að horfast í augu við að það er ekki bara vinnumarkaðurinn sem er kynjaður heldur líka verkaskipting innan náinna sambanda og inni á heimilunum. Uppeldi barna er gríðarlega kynjað. Ef enginn rammi væri settur í þessum sal utan um fæðingarorlofskerfið, sem ég vil segja að skikki feður til að taka sitt orlof, þá myndu þeir ekki gera það, því miður, þrátt fyrir góðan vilja.

Af hverju erum við að þessu? Við megum líka spyrja okkur stundum að því. Markmiðsgrein laganna segir að þeim sé ætlað að tryggja barni samvistir við báða foreldra og ætlað að gera bæði konum og körlum kleift að „samræma fjölskyldu- og atvinnulíf“. Seinni punktinum náum við fram með því að mæður og feður séu nokkurn veginn jafn lengi utan vinnumarkaðar í tengslum við hverja fæðingu, því að sú fjarvera hefur auðvitað áhrif á áunnin réttindi og það skekkir þann launamun sem er í samfélaginu nú þegar enn meira ef konur eru hlutfallslega miklu lengur frá vinnu en karlar vegna fæðinga barna.

Svo er fyrsta markmiðið, sem er að tryggja barni samvistir við báða foreldra, sem ég vil segja að sé í rauninni gamalt merki þess að velsældarhagkerfið sé ekki nýtt fyrirbæri í þessum sal. Þetta er ákvæði sem er sett inn vegna þess að hamingja fólks eykst einfaldlega með því að taka virkan þátt í uppeldi barna sinna, hvort sem það eru feður eða mæður. Hagsmuna barna er best gætt með því að tryggja samveru og náið samband við báða foreldra. Þannig myndast tengsl sem allir aðilar í fjölskyldunni búa að um aldur og ævi.

Einn helsti styrkleiki fæðingarorlofskerfisins hér á landi er sú sterka tenging sem er á milli þess og verkalýðshreyfingarinnar. Það er fjármagnað með hlutfalli af tryggingagjaldi af launum og er þar með eitt sterkast fjármagnaða úrræði hins opinbera og siglir nokkuð lygnan sjó í gegnum árin. Þetta er hins vegar mögulega að verða, varðandi ákveðna hópa, einn af veikleikum kerfisins líka. Eins og komið hefur fram í umræðunni í dag eru hópar sem eru ekki undir verndarvæng verkalýðshreyfingarinnar, sem kerfið hefur ekki náð almennilega utan um. Má t.d. nefna fólk í námi, fólk utan vinnumarkaðar, fólk sem er nýflutt til landsins og hefur ekki áunnið sér þau réttindi sem fólk vinnur sér inn á vinnumarkaði. Það fólk lendir allt saman á fæðingarstyrk sem er allt of lágur til að fólk geti upplifað fyrstu mánuðina í ævi barns síns áhyggjulaust. Svo er það það sem hv. þm. Halldóra Mogensen nefndi, óhefðbundin fjölskyldumynstur, fjölskyldur, svo maður taki dæmi, þar sem faðir gengst ekki við barni. Sú einstæða móðir nýtur ekki sömu verndar innan kerfisins og einstæð móðir sem eignast barn getið með tæknifrjóvgun. Það eru ýmis smáatriði af þessu tagi sem þarf að taka á og hafa komið oftar og oftar í ljós á síðustu árum og eru auðvitað ástæða þess að yfir stendur heildarendurskoðun á lögunum — vegna þess að heildarendurskoðunar er þörf.

Frumvarpið sem liggur fyrir þinginu snýst ekki um þessi smáatriði, ef svo má segja, heldur um stærstu línurnar, heildartímalengd fæðingarorlofs. Það er gríðarlegt fagnaðarefni að nú hilli loksins undir að fæðingarorlof verði lengt upp í 12 mánuði. Það er löngu tímabært, svo maður noti mildasta orðalagið, þegar við stöndum hér í þessum sal sjö árum eftir að fæðingarorlof var lengt upp í 12 mánuði. Þeirri lengingu var síðan snúið við ári síðar af þeirri ríkisstjórn sem hafði tekið við eftir kosningarnar 2013. En stundum gerast góðir hlutir hægt. Það er áhugavert, þar sem hér hefur verið talað um skiptinguna, að líta til þess að þingið ákvað árið 2012 að 12 mánuðirnir skyldu skiptast þannig að hvort foreldri fengi fimm mánuði fyrir sig og að tveir mánuðir skyldu vera framseljanlegir. Sama niðurstaða kemur fram í tillögum sem starfshópur um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum skilaði árið 2016. Þar var þessi fimm, fimm, tveir skipting niðurstaðan. Og að sömu niðurstöðu hefur hæstv. félags- og barnamálaráðherra komist. En nú bíðum við þess að sjá hver lendingin verði hjá velferðarnefnd á næstu dögum. Þetta er eitthvað sem þarf ígrundun því að það er ekki endilega augljóst í þessu. Verkalýðshreyfingin leggur til að þessu sé skipt hnífjafnt í sex mánuði fyrir hvort foreldri og enginn hluti sé framseljanlegur, enda tíðkist það ekki um réttindi á vinnumarkaði að þau séu framseljanleg að nokkru leyti. Aðrir vilja stækka sameiginlega pottinn, en þar verð ég alltaf dálítið stressaður vegna þess að tölurnar sýna okkur hvað gerist. Þá erum við að búa til meiri skekkju í kerfinu. Í dag skiptist níu mánaða fæðingarorlof þannig að foreldrar taka þrjá mánuði hvort og geta skipt á milli sín þremur mánuðum. Reyndin er sú að vel ríflega 90% mæðra taka sameiginlegu mánuðina alla þannig að í raun erum við með sex, þrjú kerfi í dag, ef við námundum. Í raun erum við ekki einu sinni með sex, þrjú kerfi vegna þess að mæður, og það vegna þeirrar kynjaskekkju sem er í samfélaginu, taka sína sex mánuði, teygja þá yfir segjum níu mánuði, prjóna síðan sumarfríið við og eiga kannski eitthvert orlof inni og ná þannig að teygja þetta sex mánaða orlof upp í kannski ár, sem er næstum það sem dugar til að hoppa yfir í dagvistun hjá dagmömmu eða ungbarnaleikskóla, sem er hin hliðin á þessum peningi sem verður að laga og er vel að merkja hin megintillagan í þessari þriggja ára gömlu skýrslu starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum, annað löngu tímabært skref að stíga.

Þess vegna hallast ég að því að sú lending sem hefur birst æ ofan í æ varðandi það hvernig skipta eigi 12 mánuðum á milli foreldra, sem sé fimm, fimm, tveir sem varð niðurstaðan í þingsal 2012, sem var niðurstaða starfshóps 2016 og sem var niðurstaða ráðherra sem lagði fram frumvarp nú í haust, sé mögulega skásta leiðin til að skipta þessum 12 mánuðum. Vegna þeirrar afstöðu minnar brá mér nokkuð þegar ég sá breytingartillögu velferðarnefndar sem stækkaði sameiginlega pottinn og lagði þess vegna fram breytingartillögu við þær tillögur en fagna því að nú eigi að skoða þetta betur innan velferðarnefndar og vona að tími gefist til að gera það almennilega á þeim fáu dögum sem við eigum eftir.

Herra forseti. Svo að formlega sé frá því sagt lít ég svo á að sú breytingartillaga sem ég lagði fram við málið í morgun falli um sjálfa sig þar sem tillaga meiri hluta velferðarnefndar var dregin til baka. Ég óska nefndinni alls hins besta í þeirri vinnu sem er fram undan og vona að niðurstaðan verði mjög góð.



[19:06]
Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Ég fann mig knúna til að koma upp vegna orða hv. þingmanns um að skiptingin eins og hún hefur verið og eins og hún er hugsuð sé best vegna þess að með henni séu feður frekar knúnir til að taka fæðingarorlof. Ég er auðvitað mjög fylgjandi því að báðir foreldrar taki fæðingarorlof. Ég vil bara greina frá því hér í pontu að það er besta mögulega staða sem við höfum að báðir foreldrar taki fæðingarorlof, taki jafnt fæðingarorlof og skipti því jafnt á milli sín. Rannsóknir sýna að það sé best fyrir barnið að fá að tengjast báðum foreldrum og best fyrir foreldrana að fá að tengjast barninu. Það dýpkar öll tilfinningatengsl við barnið. Að þessu sögðu erum við að fjalla hér um hina hefðbundnu fjölskyldu. Við sem löggjafi þurfum að horfa á hvernig við getum tryggt hagsmuni barnsins sem best þegar ekki eru báðir foreldrar til staðar. Stundum er bara um að ræða eitt foreldri, hvernig sem á því stendur. Það er mjög slæmt þegar löggjafinn fer í gegn með mál af þessu tagi án umræðu og (Forseti hringir.) tekur ekkert tillit til þess að barn fái nægjanlegan tíma.



[19:08]
Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Forseti er farinn að skipta tímanum jafnt. [Hlátur í þingsal] Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að nefna þetta vegna þess að ég hefði viljað nefna það í ræðu minni hér áðan. Það þarf einhvern sveigjanleika í kerfið sem er ekki í því í dag. Sum börn eiga bara eitt foreldri, það er alveg rétt. En sum börn sem eiga eitt foreldri njóta meiri réttar samkvæmt gildandi lögum en önnur börn sem eiga bara eitt foreldri, það fer eftir því hvernig börnin eru til komin. Ég nefndi börn sem getin eru með tæknifrjóvgun. Það einstæða foreldri nýtur meiri réttar en einstæða foreldrið sem eignast barn með einstaklingi sem gengst ekki við því. Þann sveigjanleika náum við ekki að útfæra í stuttu frumvarpi sem snýst um að lengja fæðingarorlofið. Það er almenn breyting sem nær einhvern veginn yfir allt kerfið. En það sem hv. þingmaður nefnir er eitthvað sem ég held að nefnd um heildarendurskoðun kerfisins hljóti að taka til rækilegrar skoðunar. Mér dettur t.d. í hug að það mætti leysa með því að það væri einfaldlega eitthvert stjórnvald, einhver stofnun, sem gæti metið aðstæður fjölskyldu, aðstæður einstaklinganna, aðstæður barnanna, til að segja til um hvort tiltekið dæmi geti fallið undir einhverja grein sem væri í lögum framtíðarinnar um að eitt foreldri fengi aukinn rétt til fæðingarorlofs. Það er sveigjanleiki sem ég held að ætti að vera í lögunum. En ég held einnig að það sé sveigjanleiki sem við setjum ekki í þau hér og nú.



[19:10]
Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans andsvar. Það eru auðvitað ekki allir í þeirri stöðu að hitt foreldrið gangist ekki við hlutverki sínu. Stundum er bara hreinn ómöguleiki til staðar. Ég tek heils hugar undir þá hugmynd hv. þingmanns að til verði einhvers konar stjórnvald sem meti þann ómöguleika. Það á að vera meginregla að báðir foreldrar nýti sér töku fæðingarorlofs af því að það er barninu til heilla og við viljum ekki hverfa til baka til þess þegar annað foreldrið tekur allt fæðingarorlofið og hitt foreldrið kemur heim á kvöldin. Það er einhvern veginn ekki þangað sem við viljum fara. En ég er ósammála hv. þingmanni þegar kemur að því að þingnefnd, fastanefnd á vegum þingsins, geti ekki gert breytingar í þessa veru. Fastanefndir þingsins gera iðulega margvíslegar breytingar á lögum, jafnvel að eigin frumkvæði, og við erum að afgreiða slík mál hér bara í dag og í gær og eftir helgi. Það að taka góða umræðu um þetta er af hinu góða þegar verið er að fást við mál eins og þetta. Nú er verið að lengja fæðingarorlofið. Eftir áramót fæðast börn í þessum aðstæðum og auðvitað eigum við að nota hvert einasta tækifæri til að gera það. Ef ekki hefði verið beðið frá lífskjarasamningunum í apríl fram til loka nóvember með að koma með málið inn í þingið hefðum við t.d. getað gert það. Ef við hefðum fengið þetta mál inn til okkar í ágúst eða september, þegar þingið tók til starfa í haust, hefðum við getað unnið það 2020-börnunum til heilla. En því miður bauð ríkisstjórnin okkur ekki upp á það.



[19:13]
Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er hjartanlega sammála þingmanninum um að þetta mál hefði þurft að koma miklu fyrr til þingsins. Þetta er mjög lítið og afmarkað mál sem ég hefði gjarnan viljað sjá líta dagsins ljós í september eða október þannig að það fengi meiri og betri umfjöllun í nefnd. Þegar ég segi að ekki sé hægt að gera viðamiklar breytingar á því hvernig tekið sé á stöðu barna þar sem ómögulegt er að annað foreldrið taki fæðingarorlof, þá meina ég það bara hreint praktískt út frá því hvar við erum á almanakinu. Ég sá fyrir mér að velferðarnefnd næði kannski ekki utan um þá hugsun sem ég held, alla vega við fyrstu sýn, að gæti verið pínulítið flókin á þeim örfáum sólarhringum sem eru til jólaleyfis vegna þess að þetta er mál sem við viljum öll klára fyrir áramót. En þar sem hv. þingmaður er formaður velferðarnefndar treysti ég henni til að meta það betur en ég og þau skoða það náttúrlega í velferðarnefnd þegar hún kemur saman.



[19:14]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég stenst ekki freistinguna að taka hér aðeins orðið, þó að ekki væri nema til þess, ef ég hef fylgst rétt með, að það gæti leitt til þess að aldrei þessu vant yrðu í umræðum á Alþingi um fæðingarorlof fleiri karlar en konur, eða a.m.k. jafn margir, sem tækju þátt í umræðunni og væru það nokkur tímamót því að stundum vildi það bera við hér á árum áður að í allt of miklum mæli væri litið á þetta sem einkamál kvenna.

Ég fagna þessu frumvarpi mjög. Ég er mikill stuðningsmaður þess kerfis sem hér var tekið upp á sínum tíma, lagði að vísu af stað í ákaflega litlum skrefum, að feður öðluðust rétt og síðan sjálfstæðan rétt til að vera þátttakendur í fæðingarorlofi. Ég hefði helst viljað getað talað um skyldu í þessum efnum, að þetta væru foreldraskyldur. Ég hygg að það sé rétt munað að ég hafi orðið fyrsti faðirinn á Alþingi til þess að taka fæðingarorlof. Það var þegar yngsta barn mitt var komið í heiminn, 1998, og það voru heilar tvær vikur. Þannig var það nú. Það voru ákaflega eftirminnilegar og dýrmætar tvær vikur, þó að þær væru ekki meira en það.

Ég hef síðan fylgst með þessu þróast upp í gegnum tíðina. Það var gaman að vera Íslendingur t.d. á árunum upp úr aldamótunum þegar þetta kerfi okkar með sjálfstæðum óframseljanlegum rétti feðra vakti mikla athygli og ruddi brautina annars staðar á Norðurlöndunum. Þá var virkilega gaman að vera alþingismaður Íslendinga og geta stoltur tekið þátt í að fræða nágrannaþjóðirnar um þetta fyrirkomulag. En svo gerðist það, því miður, að við fórum að dragast aftur úr og það er hárrétt hjá hv. þm. Andrési Inga Jónssyni að þessu er sko meira en tímabært að ljúka, a.m.k. þessari lengingu upp í 12 mánuði. Við höfum af ýmsum ástæðum, sem ég ætla af diplómatískum ástæðum ekki að fara út í, tapað sjö árum í þeim efnum. Það var nefnilega þannig að á árinu 2012 var um það samstaða, a.m.k. í þáverandi ríkisstjórn og stutt af fleirum, að við ættum að sjálfsögðu að nota batnandi þjóðarhag sem þá var í augsýn til að hafa þetta sem eitt af forgangsverkefnunum, að sækja fram aftur í uppbyggingu íslenska velferðarkerfisins og lengja fæðingarorlofið. En það er betra seint en aldrei.

Ég held að menn eigi ekki að missa sjónar á því hversu gríðarlega mikilvægt jafnréttistæki þetta fyrirkomulag er gagnvart vinnumarkaðnum um leið og það er auðvitað mikilvægt réttlætismál, mikilvægt félagslegt mál, að þetta sé með þeim hætti að fæðingarorlofsréttinum sé deilt á milli foreldra og að hann sé ekki framseljanlegur nema þá í litlum mæli. Það má ekki vera nema í litlum mæli þegar allt er með felldu og báðir foreldrarnir til staðar vegna þess að þá byrjar bitið í tækinu að minnka af ástæðum sem var ágætlega farið yfir í síðustu ræðu. Það tengist svo aftur hinu, að þetta er samspil við kynbundinn launamun og þá staðreynd að því miður eru það of oft feðurnir sem eru betur launaðir en mæðurnar. Það er ósköp einfaldlega þannig að þetta vinnur á kynjahallanum sem annars er á vinnumarkaðnum og hefur tilhneigingu til þess að vera þá til trafala ungum konum á barneignaaldri á tvennan hátt aðallega, tel ég. Annars vegar eiga þær erfiðara með framgang í starfi og hins vegar þykja þær kannski ekki að öllu leyti jafn tryggur vinnukraftur. Þannig var það auðvitað í gamla daga. Það verður bara að tala mannamál um þá hluti. Það var stórkostlega hamlandi fyrir ungar konur að andrúmsloftið var a.m.k. í þá tíð þannig í samfélaginu að vinnuveitendur í stórum stíl réðu þær ekki nema þeir ættu ekki kost á karlmanni vegna þess að þær yrðu svo bara alltaf ófrískar og þá væri ómögulegt að standa í þessu. Svona var gamli hugsunarhátturinn. Við erum auðvitað komin langa leið. Ég held að viðhorfin séu gjörbreytt. Að þessu leyti til er þetta kannski ekki eins mikið áhyggjuefni og þetta var einu sinni. En hitt er til staðar.

Síðan vil ég nefna inn í þetta samhengi, ásamt með auðvitað fleiru sem tengist því hvernig að ungu barnafjölskyldunum er búið, að þetta er gríðarlega mikilvægt þjóðhagslegt mál sem hefur ekki fengið það vægi í umræðunni á þeim forsendum sem því bæri vegna þess að þetta er auðvitað hluti af því að gera almenna atvinnuþátttöku kvenna mögulega. Við höldum kannski í dag að hún sé sjálfsagður hlutur en hún var það ekki einu sinni. Og auðvitað er það þannig að þeim mun betur sem búið er að barnafjölskyldum að þessu leyti og þeim gert auðveldara að ala upp börnin og búa þeim gott umhverfi en vera jafnframt virk á vinnumarkaði, þeim mun meiri verður atvinnuþátttaka beggja kynjanna. Það hefur gríðarlegt þjóðhagslegt gildi. Það er ekki erfitt að lesa saman, ef við lítum 50 eða 70 ár aftur í tímann, að stór hluti af aukinni velsæld á Íslandi tengist vaxandi atvinnuþátttöku kvenna. Það er einfaldlega þannig að verðmætasköpunin vex. Við nýtum allan mannauðinn í staðinn fyrir að sumar þjóðir eiga enn þá langt í land að þessu leyti þar sem atvinnuþátttaka kvenna er sorglega lág og það er auðvitað sorglegt í öllu tilliti.

Ég vil aðeins fá að hugleiða, ég vona að ég stuði engan með því, að ég er ekki alveg sammála eða átta mig ekki til fulls á uppstillingunni þegar menn vilja aðgreina og tala aðgreint um réttindi foreldranna í þessu sambandi og réttindi barnsins. Ég er ekki alveg staddur þar vegna þess að í mínum huga er þetta algerlega samofið. Algerlega. Réttindi barnsins snúa auðvitað í fyrstu umferð að því að það búi við eins hagstæð skilyrði, góða umönnun og gott uppeldi og mögulegt er. En það er líka hluti af rétti barnsins að njóta samvista við báða foreldra. Það skiptir í mínum huga ekki máli hvort við nálgumst málið þannig að segja: Jú, það eru foreldrarnir sem taka fæðingarorlofið. Það er í öllu falli eitt sem er ljóst. Og er þá réttur barnsins leiddur af rétti foreldranna til að taka fæðingarorlof eða er réttur foreldranna leiddur af rétti barnsins? Skiptir bara engu máli fyrir mér. Þetta er samofið og við eigum að nálgast þetta út frá þeirri heildstæðu hugmyndafræði, að mínu mati, þetta eru eiginlega tvær hliðar á sama peningnum. Mikilvægur hluti af þessu öllu saman er að barnið njóti samvista við báða foreldra sína, enda séu þeir til staðar.

Kem ég þá að því sem hér hefur aðeins verið nefnt réttilega, að þetta er ekki eins einfalt og það væri í hinum besta heimi allra heima, að barn eigi að báða foreldra sína, ég væri alveg til í að segja alla ef fjölskyldumynstrið hefði verið skilgreint upp á nýtt, svo ég játi bara þá róttækni að ég gæti vel hugsað mér nútímalegri og róttækari skilgreiningu á fjölskyldunni. Ágætt að búið sé að ræða þjóðkirkjuna þegar maður segir þetta. En þannig er það ekki og vissulega erum við með aðstæður þar sem bara einu foreldri er til að dreifa. Við viljum auðvitað ekki eins og kostur er að það verði á kostnað réttinda foreldrisins og/eða barnsins. En það er hægara sagt en gert að sameina þetta tvennt þannig að vel fari. Annars vegar að missa ekki kosti kerfisins sem jafnar aðstæður kynjanna á vinnumarkaði og tryggir rétt barnsins til að kynnast báðum foreldrum og hins vegar að reyna einhvern veginn að finna leiðir til þess að það verði ekki á kostnað þeirra tilvika sem eru sannarlega til staðar þar sem bara er einu foreldri til að dreifa. Hvernig reyna menn þá að nálgast það? Jú, það er auðvitað þannig að lögin geyma undanþágur, að sjálfsögðu, og það er mögulegt að annað foreldrið taki þá meira þegar augljósar ástæður blasa við, þegar annað foreldrið er látið þegar að fæðingu barns kemur eða að töku fæðingarorlofs kemur, þegar annað foreldrið er í fangelsi eða eitthvað slíkt. Þá er ekki svo erfitt að segja já, þá auðvitað verður tekið tillit til þess. Málin vandast þegar ástæðurnar eru flóknari, þegar einhverjar félagslegar eða heilbrigðislegar aðstæður eru sem gera það mjög hæpið eða eiginlega ómögulegt kannski að annað foreldrið taki sinn hluta fæðingarorlofsins. En það er til staðar. Þetta hafa menn talsvert glímt við og ég held að það væri allt í lagi fyrir velferðarnefnd að láta fletta upp á pappírum og/eða eftir atvikum draga aðeins á reynslu þeirra sem sátu einmitt í velferðarnefnd fyrir líklega þremur, fjórum árum og glímdu heilmikið við þetta mál. Þá fórum við mjög í gegnum spurninguna: Er hægt að gera þetta einhvern veginn betur en er í núgildandi löggjöf? Mitt svar er: Já. Glíma á við það að ná betur utan um þessi jaðartilvik með þetta í huga, að varðveita réttindin eins og mögulegt er við mismunandi og breytilegar, jafnvel að einhverju leyti félagslegar, heilbrigðislegar aðstæður. En það þarf að vanda sig rosalega vel. Slíkar undanþágur verða að vera vandlega og þröngt skilgreindar til þess að hitt fari ekki fyrir borð. Það er bara þannig. Ég hallast að því, og ég heyrði það nefnt áðan, sem var einmitt okkar eiginlega niðurstaða, án þess að það hefði nein áhrif því að það komi aldrei til breytinga á lögunum á sínum tíma þegar við sátum yfir þessu í velferðarnefnd einhvern tímann fyrir allmörgum árum, að það yrði þá hreinlega að koma upp einhverjum aðila sem gæti metið og eftir atvikum úrskurðað eða verið til ráðgjafar gagnvart því þegar þyrfti að taka á slíkum jaðartilvikum. Það yrði þá einfaldlega að vera þannig að ef slíkar flóknar aðstæður gerðu þetta að sérstökum tilvikum gætu menn eftir atvikum sótt um að fá að fara yfir mörkin og nýta meira réttinn sem má skipta, en það gengi þá í gegnum mat og faglegan farveg og eftir atvikum væri einhver sem t.d. hefði möguleika á því að aðstoða viðkomandi aðila sem fóstrar fæðingarorlofið og sér um greiðslurnar við það að komast að niðurstöðu um hvort forsendur væru fyrir að veita undanþágur. Auðvitað staldrar maður við sveitarfélögin í þessum efnum og félagsþjónustu þeirra. Þau stóru og öflugu myndu að sjálfsögðu geta verið þar til staðar því að þau vinna mörg mjög skyld verk, ekki satt? En hugsanlega þarf að búa um þetta einhvern veginn öðruvísi.

Ég fagna því að það verði rýnt ásamt með öðru og lít svo á og veit að það er í gangi. En það sem við erum að tala um hér er fyrst og fremst þetta einfalda mál sem snýr að því í þeim skilningi að lengja fæðingarorlofið og binda það í lög og þá er það loksins í höfn að það sé komið upp í 12 mánuði.

Ég vil nefna svo í lokin annan hlut sem ég hef verið áhugasamur um og talað fyrir. Það er að sveigjanleikinn verði aukinn þegar kemur að réttinum til að taka fæðingarorlofið lengra upp með aldri barnsins. Ég tel að við eigum líka að skoða það mjög vel að geyma megi einhvern hluta fæðingarorlofsins og taka hann út í einhverjum skömmtum, vikur í senn eða eitthvað slíkt. Að mínu mati ætti það að vera allt upp að a.m.k. sex ára aldri barnsins þannig að foreldrar geti átt geymt fæðingarorlof, viku, mánuð, hálfan mánuð og nýtt hann, t.d. þegar barn hefur göngu í leikskóla eða grunnskóla. Þannig er þetta t.d. í Svíþjóð, ef ég þekki það rétt, það var a.m.k. þannig fyrir um tveimur áratugum síðan þegar ég þekkti kerfið þar.

Og svo að lokum: Vonandi dugar þetta framlag ríkisins til að setja verulega pressu á sveitarfélögin að mæta því með því að loka gatinu þannig að þessu hörmulega dagvistunargati, sem hefur verið um ár eða meira, upp í 15 mánuði sums staðar, verði bara lokað því að það á ekki að skilja eftir eitthvert vandræðatímabil fyrir fjölskyldur á meðan barnið er á milli eins og tveggja ára gamalt. Það verður einfaldlega að ganga í það mál að setja upp einhverjar áætlanir um að sveitarfélögin og eftir atvikum ríkið, ef þarf að gera eitthvað enn þá meira, hjálpist að við að loka þessu gati og að mínu mati, að sjálfsögðu, er ég ekki horfinn frá gömlu baráttumáli um að leikskólinn eigi að vera gjaldfrjáls, svo ég haldi því til haga.

Ég minni á að sveitarstjórnarkosningar verða árið 2022. Af því að enn sitja hér í salnum fulltrúar nokkurra flokka gerðu menn margt vitlausara en að reyna að hafa áhrif á það í gegnum sín sambönd og flokka að setja myndarlegan þrýsting á sveitarfélögin að þetta verði að stórmáli fyrir kosningarnar 2022. Þá er þetta komið til framkvæmda af hálfu ríkisins, fæðingarorlofið orðið 12 mánuðir. Að mínu mati ætti það að vera eitt af stóru verkefnunum sem sveitarfélögin tækjust á við að lofa umbjóðendum sínum, íbúum, að þau ætli sér að koma á móti ríkinu og loka umönnunargatinu á fyrstu æviárum barna.



[19:30]
Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Við lok þessarar umræðu vil ég þakka hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls og einnig þeim nefndarmönnum í hv. velferðarnefnd sem eru hér enn og hafa tekið til máls fyrir þá vinnu sem þar hefur farið fram. Það hefur augljóslega komið fram í máli hv. nefndarmanna að þessir þættir togast á, annars vegar fæðingarorlofið sem vinnumarkaðsúrræði og hins vegar fæðingarorlofið sem réttindi barna. Við erum með þessi tengsl á Íslandi. Við fjármögnum kerfið í gegnum vinnumarkaðinn með hluta af tryggingagjaldinu. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt um vorum við einmitt nú við afgreiðslu fjárlaga og mála tengdra þeim að breyta hlutföllunum í tryggingagjaldinu fæðingarorlofinu í hag. Sá hluti tryggingagjaldsins sem er eyrnamerktur fæðingarorlofinu var aukinn, einmitt vegna þess að við erum annars vegar að stíga skref í að lengja fæðingarorlofið og hins vegar höfum við verið að stíga skref í þá átt að hækka tekjumörkin sem gilda í fæðingarorlofinu. Ég tek undir það með þeim þingmönnum sem hafa tjáð sig í þá veru að auðvitað þurfum við að halda áfram á þeirri braut að hækka tekjumörkin því að það mun, ásamt og með því að halda áfram að skylda báða foreldra til að taka hluta, helst stóran, af fæðingarorlofinu, halda áfram að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Ég tek undir það sem hv. þingmaður og hæstv. forseti þingsins kom inn á hér áðan að auðvitað eru réttindi barnanna og réttindi fjölskyldna mjög samofin, það liggur náttúrlega í hlutarins eðli. Og auðvitað hljótum við sem löggjafarsamkunda að líta svo á að þessir hagsmunir fari saman, ég tek undir það.

Ég tek einnig undir með hv. þm. Andrési Inga Jónssyni í því sem hann kom inn á í sambandi við það hvernig við ættum að hugsa þetta, hvernig við höfum í raun verið að ná utan um það mikilvæga verkefni að koma þeim skilaboðum út í samfélagið að uppeldi barna er hlutverk okkar allra og í tilfelli hvers einstaks barns oftast hlutverk tveggja foreldra. Ég tek undir það með hv. þm. Steingrími Jóhanni Sigfússyni að auðvitað geta fleiri komið þar til en einungis tveir foreldrar. Það hafa komið fram hér í umræðunni, hjá hv. þingmönnum Halldóru Mogensen, Helgu Völu Helgadóttur, Andrési Inga Jónssyni og Steingrími Jóhanni Sigfússyni, vangaveltur um ýmis atriði sem er mjög mikilvægt að endurskoðunarnefndin, sem við höfum nefnt alloft hér í dag, taki á. Ég treysti því og trúi að fulltrúar þeirrar nefndar fylgist vel með þeim umræðum sem hér hafa farið fram eða kynni sér þær a.m.k. og taki tillit til þeirra. Það skiptir miklu máli.

Sveigjanleikinn í fæðingarorlofinu skiptir líka máli. Hann er annað atriði sem má gjarnan taka tillit til við endurskoðun laganna og ég tel persónulega að kaflinn um foreldraorlof í lögunum um fæðingarorlof sé líka mikilvægur. Það ættu kannski að vera næstu skref í þá veru að styrkja íslenskt samfélag sem fjölskylduvænt samfélag að taka með einhverjum hætti á þeim þáttum að foreldraorlofið sé ekki bara „á kostnað“ fjölskyldnanna heldur reynum við að leita leiða til að fá vinnumarkaðinn til að taka þátt í því. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt um er hægt, allt upp að átta ára aldri barna, að fá foreldraorlof en það er ekki skylda vinnuveitenda að greiða fyrir það. Fyrir vikið er það sennilega minna nýtt úrræði en ella væri.

Umönnunarbilið er svo hitt atriðið sem mig langar í blálokin að nefna. Auðvitað þarf að taka á því. Það verður væntanlega sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga að ganga í það verk og ég tek sérstaklega undir það sem kom fram áðan að þessi mál eiga að verða stórmál í sveitarstjórnarkosningunum árið 2022 og þannig er hægt að klára, alla vega að þessu leyti til, þá mikilvægu hugsun sem felst í framlagningu þessa frumvarps, að tryggja að við séum að stíga skref í þá átt að bæta hag íslenskra barna og fjölskyldna þeirra. Lenging fæðingarorlofsins er gríðarlega mikilvægt skref í þá átt.