150. löggjafarþing — 46. fundur
 16. desember 2019.
úrvinnsla eigna og skulda ÍL-sjóðs vegna uppsafnaðs vanda Íbúðalánasjóðs, 2. umræða.
stjfrv., 381. mál. — Þskj. 487, nál. 713, breytingartillaga 714.

[13:19]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs vegna uppsafnaðs vanda Íbúðalánasjóðs. Ég ætla að reyna að klára þessa framsögu í eins stuttu máli og kostur er. Almennt má segja að í þeim umsögnum sem nefndin fékk vegna þessa máls, sér í lagi frá Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu, var nokkuð gagnrýnt að umgjörð á ÍL-sjóði, eins og hann myndi þá starfa innan fjármálaráðuneytisins, væri ekki nægjanlega skýr en almennt má þó segja að umsagnaraðilar hafi tekið undir það meginmarkmið frumvarpsins að það væri til bóta að aðskilja þessa starfsemi frá því sem frá áramótum verður Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Nefndin tók að talsverðu leyti tillit til þeirra umsagna sem fram komu og gerir þó nokkrar breytingartillögur við frumvarpið til að skerpa á einmitt áðurnefndri umgjörð um starfsemi sjóðsins.

Í stuttu máli er í 1. gr. bætt við að kveðið skuli á um áhættustefnu sjóðsins til að stuðla að meginmarkmiði hans sem er að draga úr áhættu ríkissjóðs vegna þessara eigna og skulda Íbúðalánasjóðs.

Jafnframt er gerð sú breyting við 2. gr. að ráðherra skuli, en sé ekki aðeins heimilt, skipa verkefnisstjórn, að hún skuli skipuð til þriggja ára í senn að hámarki og að þeir stjórnarmenn skuli uppfylla hæfisskilyrði stjórnarmanna lífeyrissjóða.

Við 5. mgr. 3. gr. er bætt tveimur nýjum málsliðum sem skerpa á því hvað koma skuli fram í þeirri skýrslu sem leggja skal fyrir Alþingi árlega vegna starfsemi sjóðsins.

Af öðrum meginbreytingum má nefna að í 6. gr. er ráðherra aftur gert skylt að setja reglugerð um starfsemi sjóðsins þar sem m.a. skuli kveðið á um áhættuvilja og áhættustýringu ÍL-sjóðs, hvernig eignastýringu sjóðsins og eftirliti skuli háttað og um hlutverk verkefnisstjórnar að öðru leyti. Í reglugerðinni skuli jafnframt kveðið á um hvernig opinberri upplýsingagjöf til verðbréfamarkaðar skuli háttað og um meðferð trúnaðarupplýsinga og viðskipti innherja.

Síðan er lagt til að í ákvæði til bráðabirgða verði bætt inn tveimur nýjum málsgreinum, að ráðherra skuli skipa verkefnisstjórn í fyrsta sinn fyrir 1. apríl 2020 og að skýrsla ráðherra til Alþingis fyrir árið 2021, samanber 5. mgr. 3. gr., skuli innihalda umfjöllun um þá vinnu sem fram hafi farið um endurskoðun laganna.

Ég hygg að með þessum breytingum sem meiri hluti nefndarinnar leggur til sé komið að verulegu leyti til móts við þær athugasemdir sem bárust um málið í umsagnarferli.

Undir nefndarálitið rita Óli Björn Kárason formaður, Þorsteinn Víglundsson framsögumaður, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Jóhann Friðrik Friðriksson.



[13:23]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða um frumvarp til laga um úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs vegna uppsafnaðs vanda Íbúðalánasjóðs. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það sé vitað hversu mikið tap verður á þessu safni út af vaxtamun. Það er búið að greiða rosalega mikið upp af lánum Íbúðalánasjóðs, ég gerði það t.d. sjálfur. Vaxtamunurinn er alveg gígantískur. Þetta er rosalega mikið tap og það er talað um að 200 milljarðar fari niður í 140 eða ég veit ekki. Er reiknað með að tapið haldi áfram og þá hversu mikið? Er nokkurn veginn áætlað hvað ríkisstjórnin tapar miklu?

Síðan langar mig að spyrja um annað. Það er áréttað að sett verði þriggja manna verkefnisstjórn og að hún eigi að hlíta sömu skilyrðum og starfsemi lífeyrissjóða. Hvaða laun fá þessir menn? Er vitað um launakjör þeirra? Er það svipað og er hjá lífeyrissjóðunum? Eitt af því sem er alveg stórfurðulegt er hversu marga lífeyrissjóði við erum með starfandi og rosalega háar launagreiðslur þar.

Mér þætti vænt um að vita bæði um tapið og hvort það sé vitað hvað það kostar að hafa þessa þriggja manna verkefnisstjórn yfir eignunum.



[13:25]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Stutta svarið um tapið er að þær upplýsingar sem nefndin fékk í umfjöllun um málið eru að það er áætlað að það geti orðið allt að 140 milljarðar. Það er eins og margt í þessu enn háð verulegri óvissu og ræðst m.a. og kannski fyrst og fremst af því hver þróunin verður á langtímavöxtum hérna á næstu árum. Haldi vextir áfram að lækka enn frekar er viðbúið að þetta tap geti orðið jafnvel enn meira.

Hins vegar er það í sjálfu sér ekki viðfangsefni þessa frumvarps. Það er ekkert sem við getum gert til að stemma stigu við því tapi sem þarna er orðið, það varð vegna mistaka sem áttu sér stað í tengslum við lagasetningu árið 2004, ef ég man rétt, þar sem gert var ráð fyrir uppgreiðsluheimildum á útlánum Íbúðalánasjóðs en þau skuldabréf sem Íbúðalánasjóður fjármagnaði sig með voru ekki uppgreiðanleg. Það er meginorsökin fyrir því mikla tapi sem þarna hefur myndast á undanförnum árum.

Það var hins vegar samdóma álit þeirra sem veittu umsögn um málið, og mér heyrðist nefndin að sama skapi vera nokkuð sammála um það, að skynsamlegt væri að taka þessar eignir út og undir beina stjórn ríkissjóðs til að reyna að lágmarka tapsáhættuna eins og frekast væri unnt.

Hvað varðar verkefnisstjórnina verður fjármálaráðuneytið að svara hvort um verði að ræða einhverjar sérstakar launagreiðslur fyrir setu í slíkri verkefnisstjórn eða ekki. Minn skilningur er í það minnsta sá að þarna sé um að ræða starfsmenn ráðuneytisins sem hafa að hluta til þær starfsskyldur að sitja í þessari verkefnisstjórn. En fjármálaráðuneytið verður að svara fyrir nákvæmlega hvernig þetta verður útfært.



[13:27]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það hlýtur að vera rannsóknarefni hvernig þau mistök gátu orðið að þetta rosalega tap er komið til út af einhverjum mistökum sem voru gerð og hvort það hafi verið kannað hvort menn læri af því til frambúðar í þessu samhengi. Virkir vextir heildarskulda sjóðsins eru 4,34% og eins og staðan er í dag virðist vaxtastigið vera það lágt að það verði það áfram. Tapið virðist vera töluvert mikið og mér sýnist það eiga eftir að aukast. Maður hlýtur að spyrja hvernig þetta hafi getað skeð og hvort verið sé að hnýta alla lausa enda þannig að þetta komi ekki fyrir aftur. Það hlýtur að vera eitthvað að í stjórnun þegar við erum að tala um þessa gífurlegu upphæð. Þetta er ekki nein smáupphæð. Hárin rísa á mörgum þegar talað er um 10–15 milljarða gagnvart öryrkjum og eldri borgurum en þarna erum við að tala um vel á annað hundrað milljarða. Það hlýtur að þurfa að athuga þetta mjög vel.



[13:29]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki annað en tekið undir það með hv. þingmanni að það er mjög mikið umhugsunarefni hvernig svona grundvallarmistök gátu átt sér stað. Þetta ætti ekki að koma sérfróðum aðilum á óvart, þ.e. að skilja svona á milli uppgreiðsluheimildar á útlánum sjóðsins en hafa ekki slíka heimild fyrir hendi í þeim skuldabréfum sem sjóðurinn gefur út til eigin fjármögnunar. Þetta er grundvallaratriði í fjármálafræði. Þarna er búin til áhætta fyrir sjóðinn sem hefur komið í ljós að var mjög mikil og enn algjörlega ófyrirsjáanlegt hversu mikil hún getur orðið. Haldi vextir áfram að lækka og aukist enn frekar á uppgreiðsluhraða þeirra lána sem þarna eru undir getur þetta orðið verulegt tap fyrir ríkissjóð.

Hvort þarna er um að kenna óvandaðri umfjöllun Alþingis á sínum tíma fyrir utan þau mistök sem gerð voru í upphafi máls ætla ég ekki að kveða upp úr um hér en þetta er áminning fyrir okkur um að þegar ekki er vandað til verka geta afleiðingarnar orðið mjög alvarlegar eins og þetta er mjög skýrt og gott dæmi um.

Gerð voru grundvallarmistök þegar þessu fyrirkomulagi var hleypt af stokkunum á sínum tíma og skattgreiðendur munu greiða reikninginn fyrir þau mistök, því miður. Undan því verður ekki komist, á þessu hvílir einfaldlega ríkisábyrgð, og viðfangsefni þessa máls er fyrst og fremst að reyna með öllum ráðum að lágmarka áhættu ríkissjóðs eins og kostur er. Þegar upp er staðið verður þetta samt reikningur sem endar hjá skattgreiðendum.