150. löggjafarþing — 46. fundur
 16. desember 2019.
300 þús. kr. lágmarksframfærsla almannatrygginga, síðari umræða.
þáltill. IngS og GIK, 17. mál. — Þskj. 17, nál. 743.

[15:37]
Frsm. meiri hluta (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta hv. velferðarnefndar um tillögu til þingsályktunar um 300.000 kr. lágmarksframfærslu almannatrygginga. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti auk þess sem umsagnir bárust frá Landssamtökunum Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands.

Með tillögunni er lagt til að félags- og barnamálaráðherra verði falið að undirbúa og leggja fram frumvarp þess efnis að fullur örorkulífeyrir, endurhæfingarlífeyrir og ellilífeyrir, tryggi 300.000 kr. lágmarksframfærslu á mánuði, skatta- og skerðingarlaust.

Meiri hlutinn vekur athygli á því að yfir stendur endurskoðun á almannatryggingakerfinu og eru vonir bundnar við að afurðir þeirrar vinnu líti brátt dagsins ljós. Þess utan má nefna að settir hafa verið til hliðar fjármunir í kerfisbreytingar í bæði fjárlögum og fjármálaáætlun til að draga úr skerðingum á örorkulífeyri. Munu 4 milljarðar kr. renna í það verkefni á komandi ári. Meðal annarra breytinga sem gerðar hafa verið undanfarin ár er að dregið hefur verið úr hinni svokölluðu krónu á móti krónu skerðingu. Þá hafa komugjöld aldraðra og öryrkja á heilsugæslu verið felld niður og vegna nýtilkominna breytinga er tannlæknaþjónusta við langveika aldraða og öryrkja á stofnunum þeim nú að kostnaðarlausu.

Bendir meiri hlutinn á að tillögunni fylgir ekkert kostnaðarmat en miðað hefur verið við að kostnaðurinn vegna slíkrar breytingar gæti hlaupið á tugum milljarða kr. Ljóst er að ekki er svigrúm til slíkrar útgjaldaaukningar í fjármálaáætlun.

Á fundi nefndarinnar kom fram það sjónarmið að með tillögunni væri verið að mismuna launafólki annars vegar og öryrkjum og öldruðum hins vegar. Þá kom einnig fram að atvinnuleitendur og námsmenn væru oft og tíðum í svipaðri stöðu og þeir sem tillagan ætti að ná til og því væri ómögulegt að fara þá leið sem lögð er til í tillögunni. Í öllum kerfisbreytingum sem innleiddar hafa verið síðustu ár hefur það verið haft að leiðarljósi að þær nýtist þeim tekjulægstu best. Þannig má nefna að þegar nýsamþykktar tekjuskattsbreytingar verða að fullu komnar til framkvæmda mun tekjuskattur einstaklings með lágmarkstekjutryggingu lækka um rúmar 90.000 kr. á ári. Þingsályktunartillagan tekur einungis til örorku-, endurhæfingar- og ellilífeyrisþega en ekki annarra hópa eins og atvinnulausra, fólks í fæðingarorlofi eða vinnandi fólks. Þannig eru miklar efasemdir um að umrædd tillaga standist jafnræðisregluna. Ekki hafa verið færð rök fyrir því að taka skuli þessa hópa út fyrir sviga með svo sértækum aðgerðum.

Þegar allt er vegið og metið er það mat meiri hlutans að ekki séu forsendur til að ráðast í þær breytingar sem lagðar eru til. Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til að tillagan verði ekki samþykkt.

Ásmundur Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Undir álitið skrifa Ólafur Þór Gunnarsson, Ásmundur Friðriksson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Vilhjálmur Árnason.



[15:41]
Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir framsöguna og innleggið frá meiri hluta velferðarnefndar. Mig langar að spyrja hv. þingmann, fyrst hann talar um 4 milljarða sem eigi að eyða á árinu í að koma til móts við skerðingar hjá nákvæmlega þessum þjóðfélagshópi, hvar hann hafi fundið þá tölu. Ég er náttúrlega bara aumur þingmaður í fjárlaganefnd. Ég hef algjörlega misst af þessum 4 milljörðum. Í fyrra fundust 2,9 milljarðar, þeir voru settir í krónu á móti krónu á meðan 1,1 milljarður upp í þessa 4 á að koma til framkvæmda á þessu ári. Það virtist vera svo illa ígrundað að öryrkjar eru hreinlega skelfingu lostnir. Áttar þingmaðurinn sig á því að það er dálítið mikill munur á því hvort við erum að tala um krónu á móti krónu eða lágmarksgrunnframfærslu upp í 300.000 kr., skatta- og skerðingarlaust?

Mig langar að spyrja hvort hv. þingmaður hafi áttað sig á því að það sem er verið að fara fram á hér er að koma til móts við rétt um 30% kjaragliðnun hjá þessum þjóðfélagshópi sem sannarlega hefur verið brotið jafnræði á síðustu tíu árin. Það er ekki verið að reyna að brjóta jafnræði á einum eða neinum, enda býst ég við að hv. þingmaður hafi tekið eftir því að í hinum svokölluðu lífskjarasamningum eru þessir hópar sannarlega ekki teknir með í reikninginn. Til að byrja með langar mig því til að spyrja hann hvort þessir aðilar hafi t.d. verið jákvæðir þegar umsagnir komu með tillögunni og hvort hv. þingmaður átti sig á því að hér er um að ræða þingsályktunartillögu þar sem við felum ráðherra að sjá um útfærslu á henni eða hvort hann haldi að við séum hér með frumvarp þar sem við þurfum að leggja fram hvernig við ætlum að fjármagna það.

Hins vegar má til gamans geta þess að þetta er eitt af fimm málum í svokölluðum velferðarpakka Flokks fólksins sem við lögðum fram í upphafi og mæltum fyrir. Við erum svo heppin að þetta er eina málið sem við fengum eftir mikið japl, jaml og fuður í samningaviðræðum að taka út úr nefnd. Nú er það komið hingað, hv. þingmaður. Ég spyr um meira næst.



[15:43]
Frsm. meiri hluta (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Fyrst varðandi það sem þingmaðurinn kom inn á síðast. Mér er hreinlega ekki kunnugt um hvort einhver önnur mál frá Flokki fólksins hafi verið tilbúin til úttektar úr nefndum en ég vissi að þetta mál var það þannig að því sé svarað fyrst. Varðandi það hvernig við teljum 4 milljarða eða hvort við köllum þá 2,9 eða hvað liggur fyrir og þingmaðurinn veit náttúrlega að í fjármálaáætlun er gert áfram ráð fyrir að þessir 4 milljarðar verði til reiðu, ekki bara á þessu ári heldur næsta og þarnæsta og þarnæsta. Þetta er varanleg breyting á framlögum til málaflokksins. Þetta veit þingmaðurinn (Gripið fram í.) og það er þess vegna sem ég nefni það sérstaklega. Hluti þessarar upphæðar er notaður til að mæta krónu á móti krónu skerðingum, ekki að fullu, ekki fremur en hjá ellilífeyrisþegum. Þar er skerðingin 45 aurar á móti krónu og hún er 65 aurar á móti krónu hjá öryrkjum. Ég geri ráð fyrir að þingmaðurinn sé mér sammála í því að auðvitað væri heppilegast að þetta væri á sama hátt hjá báðum hópunum. En þessi tillaga snýst ekki um það heldur snýst hún um að biðja ráðherra um að búa til frumvarp sem tryggði skatta- og skerðingarlausar fyrstu 300.000 kr. hjá öllum. Ég sé ekki hvernig væri hægt að búa til frumvarp sem snerist um eitthvað annað. Hvernig ætti lagafrumvarp að tiltaka tiltekna þjóðfélagshópa sem hefðu einhverja aðra skattprósentu en aðrir? Það er hluti af ómöguleikanum við tillöguna.



[15:45]
Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég ætla að byrja á að segja að ég skal með gleði semja þetta frumvarp, það er minnsta mál í heimi og ekkert því til fyrirstöðu. Við erum að tala um, eins og hv. þingmaður nefndi áðan, 90.000 kr. sem koma til framkvæmda að fullu rétt fyrir næstu kosningar ef að líkum lætur, sem eru 7.500 kr. á mánuði til fátækasta þjóðfélagshópsins, hópsins þar sem 12–15% barna búa við fátækt, hópsins sem hefur verið skilinn eftir. Meginþunginn í þessari tillögu er leiðrétting á þeirri kjaragliðnun sem þessir þjóðfélagshópar hafa orðið fyrir, tæplega 30% á síðustu tíu árum. Þeir hafa ekki fengið að fylgja 69. gr. almannatryggingalaga þar sem kveðið er á um að þeir skuli fá leiðréttingu framfærslu sinnar einu sinni á ári samkvæmt launaþróun í landinu. Var það t.d. brot á jafnræðisreglu þegar hv. þingmenn fengu 43% hækkun á sínum launum? Er það brot á jafnræði þegar forstjóri Landsvirkjunar fær tvöföldun á sínum launum á fimm árum? Er það brot á jafnræði þegar laun bankastjóra ríkisbankanna hækka um 1,2 millj. kr. á ári eða er það brot á mannréttindum að halda þúsundum einstaklinga langt undir fátæktarmörkum?

Þetta er mannanna verk og ekkert annað. Ég ítreka að ég skal með gleði taka utan um málið og smíða þetta frumvarp persónulega og prívat sjálf ef þið treystið ykkur ekki til þess.



[15:47]
Frsm. meiri hluta (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er afar mikilvægt, og ég hef oft sagt það í ræðu áður, að á þingi séu á hverjum tíma málsvarar sem flestra hópa og að þingmenn taki upp baráttumál, hver með sínu nefi, og hafi skilning á þeim hópum sem þar eru undir. Hv. þm. Inga Sæland fellur undir þetta. Þingmaðurinn hefur af miklum krafti barist fyrir kjörum og málefnum fólks með örorku og eldra fólks og hún á heiður skilinn fyrir það. Það breytir því miður ekki því að málið sem hér er fram komið er að mínu viti ekki þess eðlis að hægt sé að klára það eins og það er lagt fram.

Varðandi orð þingmannsins um kjaragliðnun og kjör kom ég einmitt inn á það í framsögu minni, þótt með óbeinum hætti væri, að kjör varða fleira en bara launin sem fólk hefur. Kjör felast líka í því þegar álögur eru lækkaðar á fólk. Kjör felast líka í því þegar fólk þarf að borga minna fyrir læknisþjónustu eða tannlæknaþjónustu. (Gripið fram í.) Kjör felast líka í því þegar skattar eru lækkaðir og þess vegna verður að líta á heildarsamhengið. Ég held að við þingmaðurinn séum algjörlega sammála um að það verkefni að bæta kjör þeirra sem minnst hafa í þessu samfélagi er eilífðarverkefni og ég veit að þingmaðurinn er mér sammála í því (Forseti hringir.) að á þeirri braut eigum við að reyna að halda áfram.



[15:49]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um 300.000 kr. lágmarksframfærslu. Það er svolítið skrýtið að hv. framsögumaður meiri hlutans bendi á skattadótið í því sambandi ef við horfum á hvernig skattlagning var 1988 þegar þessir einstaklingar voru skattlausir. Þá var lífeyrir frá Tryggingastofnun skattlaus og meira að segja var afgangur upp í lífeyrissjóð. Það segir okkur þá sögu að persónuafslátturinn hefur aldrei fylgt. Það eru stórhækkaðir skattar og ég mun taka það fyrir á eftir þegar ég flyt ræðuna mína.

Síðan eru 65 aurar á móti krónu sem 4 milljarðar voru settir í. Hvernig skilaði það sér? Er jafnræði að setja það út og svo skerðir þetta sérstakar húsaleigubætur og alls konar bætur þannig að fólk kemur með núll út úr því? Hvaða jafnræði er það? Er eitthvert jafnræði í því að atvinnulausir hafi 30.000 kr. hærri framfærslu en öryrkjar? Er eitthvert jafnræði í því að þeir fái 80.000 kr. jólabónus meðan hinir fá 44.000 kr.? Þið talið um jafnræði en þess á milli er það hunsað algjörlega.

Mér finnst þessi málflutningur mjög undarlegur. Þetta er þingsályktunartillaga sem fer til ráðherra og ef það þarf að breyta getur ráðherra breytt skattumhverfinu og hverju sem er. Það er ekki eins og þetta sé frumvarp sem verði að lögum heldur erum við að benda á þessa leið vegna þess að það er alveg ömurlegt til þess að vita hvernig farið er með þennan hóp. Hann hefur setið eftir. Hann hefur ekki fengið hækkanir. Skattar á hann eru stórhækkaðir og skerðingar og allt saman. Það verður að gera eitthvað og við erum að reyna það. Þetta myndi einfalda kerfið alveg svakalega. Hv. þingmaður hlýtur að vera sammála mér um að kerfið væri mjög einfalt ef það væri svona.



[15:52]
Frsm. meiri hluta (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir andsvarið. Þingmaðurinn nefndi skatta, skattleysismörk og persónuafslátt og hvernig þau viðmið og mörk hefðu breyst á undangengnum árum. Ég er alveg sammála þingmanninum í því að þar hefur orðið breyting í þá átt að við erum núna, eins og kerfið er í dag, að taka hærri skatta af lægstu launum en við ættum að gera. Einmitt þess vegna erum við núna að breyta skattkerfinu aftur í þriggja þrepa skattkerfi til að reyna að svara þeim sjónarmiðum að einhverju leyti.

Við getum verið alveg sammála um að ekki er hægt að gera allt í einu. Það er ekki hægt að taka öll skrefin til fulls á hverjum tíma. Þetta er samt eitt mjög mikilvægt skref, vil ég meina, og ég held að hv. þingmaður sé mér sammála um að þarna innan um séu hópar sem þurfi að líta sérstaklega til og þá með almennum aðgerðum. Það sem lagt er til í tillögunni er ekki almenn aðgerð. Ég ítreka það sem ég sagði í andsvari við hv. þm. Ingu Sæland áðan, einar reglur um skatta og skattleysismörk verða að gilda fyrir alla þjóðfélagshópa og þess vegna er ekki hægt að taka þessa hópa út fyrir sviga eins og hér er lagt til.



[15:54]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Við erum búin að búa til alveg stórfurðulegt kerfi, almannatryggingakerfið. Ég myndi segja að við værum að einfalda það með því taka út þessa skerðingar. Við erum að fara að samþykkja 10.000 kr. skatta- og skerðingarlaust fyrir öryrkja núna fyrir jólin. Hvers vegna gerðum við það? Það eru kannski settir 4 milljarðar í að hafa 65 aura á móti krónu í staðinn fyrir krónu á móti krónu en það skilar sér allt í ríkiskassann eða í kassa sveitarfélaganna. Hvers lags jafnræði er það að segja við fólk að við ætlum að hjálpa því en svo hverfur þetta allt saman? Í sumum tilfellum kemur sveitarfélagið og skerðir líka þegar ríkið er búið að skerða, eins og með jólabónusinn. Af því að hann er skattskyldur skerðist hann algjörlega ef maður er t.d. með sérstaka uppbót hjá ríkinu og síðan skerðist líka sérstaka uppbótin í húsnæðiskerfinu hjá sveitarfélögunum. Þegar upp er staðið getur svona peningur orðið tap. Er þá ekki eitthvað að hjá okkur? Verðum við ekki að taka þetta kerfi gjörsamlega til endurskoðunar og einfalda það mjög mikið til að hætta að plata veikt fólk sem getur ekki varið sig? Það tekur við peningunum og heldur að það sé að fá eitthvað rosalega gott en þegar upp er staðið tapar það kannski á því að taka við þessari hungurlús, eins og ég kalla það, sem skilar sér í mínus.



[15:56]
Frsm. meiri hluta (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson á þakkir skildar fyrir þá baráttu sem hann hefur haldið uppi í þingsal fyrir öryrkja og þá sem minnst mega sín í samfélaginu. Auðvitað veit hv. þingmaður að í grundvallaratriðum erum við sammála um að skerðingar á lífeyri og í almannatryggingakerfinu mega ekki verða til þess að festa fólk í fátæktargildru. Við hv. þingmaður erum sammála um það. Þegar við erum á hinn bóginn með takmarkaða fjármuni verður að velja að ráðstafa þeim þannig að þeir komi til þeirra fyrst og síðast sem mest þurfa á því að halda. Það er m.a. gert með almannatryggingakerfinu eins og hv. þingmaður kom inn á og ég er ekki sannfærður um að einföldun eins og þessi væri besta nýtingin á fjármunum ríkisins.

Ef við ákvæðum til að mynda að bætur hjá einhverjum sem er með 500.000 kr. úr almannatryggingum yrðu skattfrjálsar upp að 300.000 kr. væri ríkið í raun að neita sér um ákveðna fjármuni sem það gæti notað til að bæta hag þeirra sem eru allra verst settir. Í kerfi þar sem við eigum ekki endalausa fjármuni verðum við að reyna að beina þeim þangað sem þörfin er brýnust. Á þeim grundvelli sé ég ekki hvernig hægt er að ganga að tillögu (Forseti hringir.) hv. flutningsmanns.



[15:58]
Frsm. minni hluta velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um tillögu til þingsályktunar um 300.000 kr. lágmarksframfærslu almannatrygginga og ég fer hérna fyrir minni hluta velferðarnefndar. Þetta er þingsályktunartillaga Flokks fólksins, okkar hv. þm. Ingu Sæland. Með tillögunni er lagt til að félags- og barnamálaráðherra undirbúi og leggi fram frumvarp þess efnis að fullur örorkulífeyrir, endurhæfingarlífeyrir og ellilífeyrir tryggi 300.000 kr. lágmarksframfærslu á mánuði skatta- og skerðingarlaust. Umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar voru almennt hlynntir efni tillögunnar og tóku undir að þörf væri á að tryggja viðunandi lágmarksframfærslu örorku- og ellilífeyrisþega og að hún tæki mið af launaþróun. Í því samhengi var nefndinni m.a. bent á að atvinnuleysisbætur væru orðnar umtalsvert hærri en lífeyrir almannatrygginga. Þykir það skjóta skökku við enda atvinnuleysisbætur hugsaðar sem skammtímaúrræði en lífeyrir almannatrygginga langtímaúrræði fyrir einstaklinga sem alla jafna eiga ekki nokkurn kost á að bæta hag sinn, samanber umsögn Öryrkjabandalagsins frá 28. október 2019 við fjárlög fyrir árið 2020.

Minni hlutinn tekur undir framangreint, telur kjör örorkulífeyrisþega ekki ná að fylgja launaþróun sem hafi þar af leiðandi leitt af sér ákveðna kjaragliðnun. Þá bendir minni hlutinn á að lífeyrisþegar geta ekki nýtt sér sömu úrræði og launþegar eins og verkfallsrétt. Að mati minni hluta er mikilvægt að tryggja lífeyrisþegum lágmarksframfærslu skatta- og skerðingarlaust. Þá er það mat minni hlutans að tillaga þessi feli í sér nauðsynlega kjarabót í þeim efnum og áréttar mikilvægi þess að frumvarp þess efnis verði lagt fram fyrir lok yfirstandandi löggjafarþings.

Ef við hugsum um hversu rökrétt það væri að vera með 300.000 kr. skatta- og skerðingarlaust verðum við að horfa á það að, eins og ég benti á í síðustu ræðu minni, að árið 1988, við upphaf staðgreiðslunnar, var lífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins skattlaus og fólk átti allt að 30% afgang upp í lífeyrissjóðsgreiðslur. Í dag er staðan þannig að örorkulífeyrisþegar borga frá 36.000 kr. og alveg upp undir 67.000 kr. í skatt. Það eru þeir sem eru með hæstu örorkubæturnar. Þetta segir mér að hrein og klár skattahækkun hefur átt sér stað á síðustu áratugum. Eiginlega má líka horfa á þetta frá hinu sjónarhorninu, að ef kjaragliðnunin sem hefur ekki skilað sér hefði skilað sér liti þetta mun betur út en þá væru skattatölurnar sennilega enn hærri. Persónuafslátturinn fylgdi aldrei með, hann var skilinn eftir. Þar af leiðandi er hann kolrangur í dag. Ef rétt væri gefið væri talan sennilega í kringum 300.000 kr. sem væru skattlausar. Það verður að segjast eins og er að þetta sýnir svart á hvítu hversu stórlega skattheimta hefur aukist á þá sem síst skyldi.

Við umfjöllun nefndarinnar fékk hún send tvö erindi, annað frá Öryrkjabandalaginu þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„ÖBÍ fagnar fram kominni tillögu og tekur undir með flutningsmönnum hennar að lífeyrisþegar hafa setið eftir við kjarabætur síðustu ára og nauðsynlegt er að bæta verulega í við þennan hóp. Eins og ÖBÍ hefur bent á í umsögnum um fjárlagafrumvörp síðustu ára hefur sá hópur sem nýtur aðeins bóta frá Tryggingastofnun dregist verulega aftur úr öðrum hópum í samfélaginu. Er svo komið í dag að lífeyrir einstaklings sem ekki býr einn og nýtur því ekki heimilisuppbótar er með lægri greiðslur en nemur grunnatvinnuleysisbótum en margir þurfa að lifa á lífeyri árum saman eða jafnvel alla ævi á meðan atvinnuleysisbætur eru skammtímaúrræði.

ÖBÍ hvetur þingmenn alla sem einn að sameinast um þessa tillögu þannig að fjármunum verði forgangsraðað til að tryggja öllum lífeyrisþegum mannsæmandi framfærslu.“

Þarna fer ekkert á milli mála að Öryrkjabandalagið tekur heils hugar undir þessa þingsályktunartillögu og bendir líka á að við erum með stórfurðulegt kerfi á sama tíma og sagt er við okkur að hér sé verið að brjóta einhverjar jafnræðisreglur af því að atvinnulausir og námsmenn fylgi ekki með. Atvinnuleysi er tímabundið, enginn reiknar með að neinn verði atvinnulaus alla sína ævi. Ég ætla að vona að ekki sé innbyggt í einhverja að þeir haldi að það sé þannig. Ég vona líka að það sé ekki innbyggt í okkur að einhverjir verði á námslánum alla ævi. Það gengur ekki upp, það segir sig sjálft. Hins vegar er alveg á hreinu að stór hópur öryrkja verður á örorkubótum alla sína ævi og hefur enga vinnugetu. Þetta er hópurinn sem við erum að tala um. Það er ekki hægt að segja að þetta sé bara þingsályktunartillaga sem geti farið til ráðherra sem geti tekið við henni og séð til þess að hlutirnir séu í lagi.

Í hinni umsögninni sem kemur frá Þroskahjálp segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að fá þingsályktunartillöguna senda til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri við velferðarnefnd og Alþingi varðandi hana.

Sá hópur fólks sem býr við alverstu kjörin í íslensku samfélagi eru þeir sem engar tekjur hafa aðrar en bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þær bætur eru af óútskýrðum og órökstuddum ástæðum umtalsvert lægri (um 30.000 kr.) en atvinnuleysisbætur, sem enginn er þó of sæll af. Staðreyndin er hins vegar sú að atvinnuleysisbætur eru tímabundið ástand á meðan örorkuþegar eru í þessari kröppu stöðu árum saman og margir allt sitt líf, án tækifæra til þess að afla sér annarra tekna.

Örorkuþegar hafa ítrekað setið eftir á síðustu árum. Sú hækkun sem boðuð er í frumvarpi til fjárlaga vegna ársins 2020 er langt undir hækkun lágmarkslauna. Því er óhjákvæmilegt að minna ríkisstjórnina og Alþingi á 69. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, sem hljóðar svo:

„Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Með vísan til framangreinds lýsa Landssamtökin Þroskahjálp stuðningi við tillöguna og hvetja velferðarnefnd að beita sér fyrir því að hún verði samþykkt.“

Í umsögn meiri hlutans kemur fram að tillagan sé ekki fullfjármögnuð, hún sé dýr og að eiginlega vanti fjármögnun. En horfum bara á söguna, ég þarf ekki nema að fletta upp í ræðu sem ég hélt hér fyrir stuttu í sambandi við Íbúðalánasjóð. Það er verið að skipta upp Mannvirkjastofnun og Íbúðalánasjóði og setja lánasafn Íbúðalánasjóðs sérstaklega í umsjón fjármálaráðherra. Um hvað erum við að tala þar? Mistök. Einhver gerði einhvers staðar mistök sem ég held að kosti okkur að lágmarki 140 milljarða. Þau geta farið vel yfir 200 milljarða. Enginn er að tala um það, enginn að lemja hausnum við steininn út af því. Hvar voru allir útreikningarnir á þeim tíma? Ef séð yrði til þess að svona mistök ættu sér ekki stað sýnist mér vera nóg til af fjármagni. Ef hægt er að gera svona mistök og yppta öxlum yfir þeim, 140–200 milljörðum, sé ég ekki að neinn hængur ætti að vera á því hreinlega að fjármagna þessa tillögu. Þessir fjármunir myndu duga í nokkur ár til að borga kostnaðinn af breytingum á almannatryggingakerfinu, en þetta er ekki kostnaður. Við megum ekki heldur horfa á þetta alltaf sem kostnað, að kalla það alltaf kostnað ef verið er að reyna að ná fólki úr fátækt og koma í veg fyrir að börn séu í fátækt.

Ef hins vegar ríkisforstjórar eða þingmenn þurfa að fá ofsalega há laun talar enginn um kostnað. (Gripið fram í.) Það þykir bara mjög sanngjarnt og allt í lagi, það sé bara ósköp eðlilega rétt að hækka alla upp úr öllu valdi, tvöfalda launin hjá Landsvirkjun, ekkert mál, bara sanngjarnt vegna þess að forstjórinn ber svo mikla ábyrgð. En hvar er ábyrgðin? Ber ekki hver einasta ríkisstjórn ábyrgð á því ár eftir ár að sjá til þess að öryrkjar fái hvorki kjaragliðnunina, skattar stórhækkaðir hjá þeim — og hver ber ábyrgð á skerðingunum?

Við skulum tala um skerðingarnar. Mitt fyrsta verk þegar ég kom á þing var að sjá til þess að hætt væri að skatta og skerða styrki til lyfja og alls konar hjálpartækja sem fólk þurfti nauðsynlega á að halda. Það var samþykkt vegna þess að fólk áttaði sig allt í einu á þeirri staðreynd að það var verið að rétta fólki 10.000-kall með annarri hendinni en jafnvel taka 15.000 með hinni. Hvers lags ofbeldi er að það skuli vera hægt að búa til kerfi sem segir við fólk: Heyrðu, við ætlum að hjálpa þér, við ætlum að rétta þér 10.000-kall til að auðvelda þér lífið svo þú getir keypt þér lyf eða hvað sem þú þarft og þegar viðkomandi tekur við því er ári seinna tekinn af honum 15.000-kall? Hvers lags hjálp er það? Ég segi að þetta sé fjárhagslegt ofbeldi og að það brjóti í bága við stjórnarskrána. Þetta er svo mikið ofbeldi. Að hugsa sér að geta ár eftir ár gert þetta við veikt fólk sem getur ekki varið sig er alveg stórfurðulegt og okkur á hinu háa Alþingi til háborinnar skammar. Svo segja menn: Heyrðu, við getum ekki gert þetta vegna jafnræðisreglunnar, við erum að brjóta jafnræðisregluna. Þá verð ég kjaftstopp, ég verð orðlaus vegna þess að það segir sig sjálft að þetta stenst ekki. Ég vona heitt og innilega að þeir fari að sjá meira en þessa ljóstíru sem þeir hafa séð í sambandi við 10.000-kallinn sem verður skatta- og skerðingarlaus, þeir fái bara ljóskastara á sig og sjái að það besta sem þeir geta gert er að samþykkja þetta, 300.000 skatta- og skerðingarlaust, og þá förum við bara í að einfalda kerfið. Þá eru skerðingarnar farnar og fólk getur farið að lifa mannsæmandi lífi.

Því miður er ekki útlit fyrir það, við erum enn með þúsundir barna í fátækt, enn lifa þúsundir einstaklinga undir fátæktarmörkum og við erum með stóran hóp í sárafátækt. Það virðist vera eitthvert lögmál í því, einhver tregða, og ég vona að menn hætti að hæla sér af því að setja 4 milljarða inn í krónu á móti krónu skerðingu sem skilar sér ekki eitt eða neitt nema í skerðingum og fari að gera það sem þeir gerðu núna og eru búnir að átta sig á, eins og með 10.000-kallinn, að setja hann inn skatta- og skerðingarlaust, og setja nú inn skatta- og skerðingarlaust 300.000-kall, skatta- og skerðingarlausan jólabónus. Menn verða að hætta að mismuna. Ef einhver fær 80.000 kr. jólabónus eiga allir að fá 80.000 kr. jólabónus. Ekki mismuna fólki. Ef alþingismenn hafa rosalega þörf fyrir 180.000 kr. jólabónus þurfa allir að hafa 180.000 kr. jólabónus. Við eigum að hætta þessu ójafnræði. Hvar er jafnræðið? Það væri gaman að heyra í stjórnarliðum um hvers konar jafnræði er í því að við fáum 180.000-kall, (Gripið fram í.) atvinnulausir 80.000-kall, þau sem eru með langveik börn 60.000-kall og öryrkjar 44.000-kall. Hver fann út þessa jafnræðisreglu? Ég vona að hann komi hingað og skýri út fyrir mér hvernig hann fann hana út.



[16:12]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég styð að sjálfsögðu þetta góða mál. 300.000 kr. lágmarksframfærsla er ekki mikið. Stór hluti örorkulífeyrisþega á börn þannig að samþykkt þessarar tillögu myndi kannski létta örlítið undir með þeim. Hæstv. félagsmálaráðherra segir að sér sé annt um að uppræta fátækt barna og þessi þingsályktunartillaga væri gott skref í átt að því markmiði en ef marka má nefndarálit meiri hluta velferðarnefndar er það skref sem ekki má taka og ástæðan er „af því bara“. Í alvörunni, forseti, í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar er að finna skammarlegar afsakanir. Þar er hent saman aumum afsökunum fyrir því að gera ekki neitt. Ein þeirra er sú að þingsályktunartillögunni fylgi ekkert kostnaðarmat. Þetta er bara þingsályktunartillaga, ekki lagafrumvarp, forseti. Ef þessi tillaga yrði samþykkt þyrfti félags- og barnamálaráðherra að leggja fram frumvarp og þar á kostnaðarmatið heima, ekki hér. Jafnframt segir í álitinu, með leyfi forseta:

„Þingsályktunartillagan tekur einungis til örorku-, endurhæfingar- og ellilífeyrisþega en ekki annarra hópa eins og atvinnulausra, fólks í fæðingarorlofi eða vinnandi fólks. Þannig eru miklar efasemdir um að umrædd tillaga standist jafnræðisregluna.“

Að halda því fram að efni þessarar tillögu brjóti á einhvern máta jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar er í besta falli útúrsnúningur. Nefndarálitið rökstyður auðvitað ekkert hvernig þetta brot lýsir sér enda er það ekki hægt. Það er ekki brot á jafnræðisreglu að hjálpa bágstöddum. Þetta er algjör afbökun á jafnræðisreglunni og því sem hún stendur fyrir. Ef við viljum tala um brot á jafnræðisreglunni er það að halda öryrkjum og ellilífeyrisþegum undir lágmarkslaunum svo árum og áratugum skiptir líklega skýrasta dæmið um mismunun. Að tryggja þeim ekki lágmarksframfærslu gerir það að verkum að við meinum þeim þátttöku í samfélaginu og takmörkum getu þeirra til að sækja sér nauðsynlega þjónustu og taka þátt yfir höfuð. Það er ekki mismunun að bæta hag fólks sem hefur búið við mismunun og ójöfn tækifæri um langt skeið, jafnvel þótt aðrir hópar samfélagsins búi einnig við slíka mismunun í boði stjórnvalda.

Hér er öllu snúið á haus, forseti. Ef vilji meiri hluta velferðarnefndar hefði staðið til að auka velferð öryrkja, eldri borgara og annarra bágstaddra en fundið á því annmarka vegna jafnræðisreglunnar lægi fyrir breytingartillaga um að láta 300.000 kr. lágmarksframfærslu einnig ná til atvinnulausra, fólks í fæðingarorlofi og vinnandi fólks. En auðvitað er slíkt ekki að finna hér því að við vitum öll að þetta er afsökun meiri hlutans fyrir því að hleypa ekki í gegn góðum málum sem koma frá einhverjum öðrum en honum sjálfum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[16:15]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að nefna að við í Flokki fólksins höfum ítrekað bent á í umræðum á yfirstandandi kjörtímabili að aðgerðir ríkisstjórnarinnar, hvort sem er í sambandi við tannheilsu eða hvað annað sem hér er tínt til af fulltrúum stjórnarmeirihlutans sem eiga að bæta hag þeirra verst settu í samfélaginu, ganga ekki nógu langt. Það segir sig sjálft þegar við erum nýbúin að fá skýrslu, 28. febrúar sl., um úttekt á stöðu íslenskra barna hjá Kolbeini H. Stefánssyni, að hér búi 12–15% barna við mismikinn skort. Hann dregur sérstaklega fram í skýrslunni hvaða þjóðfélagshópur á um sárast að binda og það er hópur öryrkja. Þegar við erum með þetta í fanginu og ætlum að reyna á einhvern máta að réttlæta það að við hér, löggjafinn með fjárveitingavaldið, séum ekki bær og burðug til að koma til móts við þennan þjóðfélagshóp er dregið fram eitthvað sem heitir hugsanlegt brot á jafnræðisreglu. Ég hef heyrt alls konar hugmyndir en þessi toppar þær sennilega flestar.

Til að byrja með langar mig líka að benda á að akkúrat þetta mál um 300.000 kr. skatta- og skerðingarlaust fyrir almannatryggingaþega, sem hafa ekkert annað á að stóla en þessa framfærslu, er eitt af þeim fimm málum Flokks fólksins sem við höfum þegar mælt fyrir í haust í hinum svokallaða velferðarpakka okkar. Eitt af þessum fimm málum, sem ugglaust kemur ekki hingað inn, er um nákvæmlega það hvernig við förum að því að fjármagna þetta. Ég bjóst við að málið færi ekki lengra og er bara glöð að fá það inn því að allt er svæft í nefnd. Það er vondur málstaður að verja fyrir hvaða ríkisstjórn sem er þegar greidd verða atkvæði á móti því að veita ráðherra heimild til að leggja fram frumvarp sem kemur á 300.000 kr. skatta- og skerðingarlaust fyrir fátækasta fólkið í landinu. Það hlýtur að vera ömurlegur málstaður að verja, ég segi ekki annað en það, og sérstaklega fyrir ríkisstjórn undir forystu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sem hefur gefið sig út fyrir að vilja koma til móts við þá sem höllustum fæti standa í þessu samfélagi. En svona er að marka það. Hér eru tínd til alls konar atriði, t.d. 7.500 kr. skattalækkun í þriðja skattþrepi sem kemur til framkvæmda rétt fyrir næstu kosningar. Þá er hægt að hreykja sér á hæsta tindi og segja: Sjáið hvað við gerðum. Við lækkuðum skattana ykkar um 7.500 kr., sjáið bara, en það kostar ríkissjóð 23 milljarða kr. Er þetta eðlileg forgangsröðun fjármuna? Ég segi: Nei, það er ekki eðlileg forgangsröðun fjármuna að lækka skattana um 7.500 kr. eftir meira en eitt og hálft ár á sama tíma og ríkisstjórnin hrúgar inn alls konar sköttum og viðbótargjöldum á almenning í landinu. Ég hef ekki einu sinni hugmyndaflug til að nefna alla þá skatta og allar þær álögur sem er núna verið að leggja á landsmenn.

Við í Flokki fólksins lögðumst gegn gildandi fjármálaáætlun, m.a. vegna þess að fjármuni vantaði til að leiðrétta uppsafnaða kjaragliðnun lífeyrisþega almannatrygginga. Það var ekkert gert með það. Hvað þýðir það, virðulegi forseti, þegar einhver þjóðfélagshópur er skilinn eftir í tíu ár á meðan aðrir fá kjarabætur? Hvernig var það aftur eftir hrun? Er nokkur búinn að gleyma hruninu? Við höfum aldrei almennilega gert það upp og sannanlega ekki gagnvart þeim þjóðfélagshópum sem við erum að berjast fyrir hér og nú, sem við erum að reyna að draga hér upp í 300.000 kr. lágmarksframfærslu. Nei, þá á að tengja það saman við aðra sem eru með miklu betri afkomu og miklu meiri möguleika á að bjarga sér. Eitt af fimm málum Flokks fólksins í hinum svokallaða velferðarpakka er akkúrat 350.000 kr. útborgaðar fyrir vinnandi fólk í landinu til að koma í veg fyrir sorgarsögu eins og ég las í blaði um daginn, um unga konu sem er að vinna á elliheimilinu Grund. Hún vinnur fulla vinnu, einstæð móðir með litla telpu, leigir 40 fermetra holu fyrir 150.000 kr. á mánuði og fær útborgaðar 240.000 kr. ef hún er heppin. Að hugsa sér, virðulegi forseti, að á sama tíma talar hæstv. fjármálaráðherra um hvað excel-skjalið er okkur jákvætt, hvað við skorum hátt hjá OECD, hvað við höfum það alveg rosalega frábært. Það er alltaf gott að geta lifað á meðaltali og gera lítið úr því hversu mörg tugþúsund Íslendinga eiga virkilega um sárt að binda.

Það er eiginlega með hreinum ólíkindum hvað hugmyndaflugið er slappt í meirihlutaáliti hv. velferðarnefndar en eins og ég sagði verður að reyna að finna upp eitthvað sem gæti hljómað vel hér, eitthvað sem gæti virkað eins og það væri skynsamlegt sem það er alls ekki.

Við felum ráðherra að undirbúa að leggja fram frumvarp til að hann taki það í sitt fang, að ráðuneyti hans útbúi kostnaðarmat verði tillagan samþykkt. Það er auk þess best að fela ráðuneytinu að útbúa slíkt kostnaðarmat, ekki satt, þrátt fyrir að ég hafi boðist til þess í andsvörum áðan við hv. þm. Ólaf Þór Gunnarsson að ég skyldi gjarnan semja þetta frumvarp sjálf því að hann var ekki viss um að það væri gerlegt, þetta yrði svo rosalega þvælið og erfitt viðfangs.

Flokkur fólksins hefur lagt til leiðir til tekjuöflunar sem myndu standa undir útgjaldaaukningu vegna leiðréttinga á kjaragliðnun lífeyrisþega almannatrygginga. Vilji Alþingi leiðrétta uppsafnaða kjaragliðnun eru möguleikar til staðar til að tryggja fjármögnun þess, það er ekkert vandamál. Við höfum bent á ýmislegt. Ýmsar leiðir eru í boði. Hver þekkir ekki sölu ríkiseigna? Hver þekkir það ekki hvernig ríkiseigur okkar, sem við höfum átt, hafa verið seldar langt undir kostnaðarverði? Ég ætla ekki einu sinni að fara út í það hér og nú til hverra, handa hverjum, fyrir hvern og hvers vegna. Það ætla ég ekki að gera, ég ætla að láta það liggja algjörlega á milli hluta. En almenningur talar og sjaldan lýgur almannarómur.

Þegar bent er á námsmenn og atvinnuleitendur munum við auðvitað taka fagnandi öllum þeim tillögum sem miða að því að tryggja betur hagsmuni þeirra. Það segir sig sjálft. En þessi tillaga er afmörkuð við eitt ákveðið markmið, eitt ákveðið efni, og það er að tryggja fátækasta fólki í landinu 300.000 kr. skatta- og skerðingarlaust. Ég hef sjálf verið í þeim sporum, var þar meira og minna þar til ég kom á þing. Ég hef þurft að horfa á börnin mín fjögur og kvíða jólunum. Ég veit hvernig það er að geta ekki gefið þeim nokkurn skapaðan hræranlegan hlut og þakkað fyrir að geta gefið þeim að borða. Það eru þúsundir svoleiðis foreldra úti í samfélaginu í dag. Þetta er allt saman mannanna verk og það eina sem þarf til að breyta því er vilji valdhafanna. Og hverjir ráða? Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstrihreyfingin – grænt framboð. Í þeirra umboði er staðan eins og hún er í dag. Það er þeirra að breyta henni til batnaðar. Það er þeirra að sýna að þau hafi meint eitthvað með því sem þau voru að tjá sig um fyrir síðustu kosningar. Það er ekki nóg að tala um 300.000 kr. lágmarkslaun, virðulegi forseti, þegar búið er þannig um hnútana að 42.000 kr. eru teknar af þeim beint til ríkisins aftur í formi skatta.

Það er óforsvaranlegt að meiri hluti velferðarnefndar noti þau rök gegn þessari tillögu að hún brjóti gegn jafnræðisreglunni. Tillagan hefur það að markmiði að vinna gegn viðvarandi mismunun kerfisins gagnvart lífeyrisþegum almannatrygginga sem felst í því að Alþingi tryggi ekki að kjör lífeyrisþega fylgi launaþróun. Tillagan miðar einmitt að því að leiðrétta uppsafnaða kjaragliðnun. Uppsöfnuð kjaragliðnun lífeyrisþega almannatrygginga er hið raunverulega brot á jafnræðisreglunni og ekkert annað. Ríkisstjórnin hefur ekki sýnt í verki vilja til að leiðrétta það brot á jafnræðisreglunni en beitir þess í stað jafnræðisreglunni sem rökstuðningi gegn því að leiðrétta kjör hinna verst settu. Hvers lags eiginlega er þetta, virðulegi forseti? Af hverju skyldi þessi meiri hluti sem er kominn að jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar hafa gleymt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar sem segir skýrt og skorinort: „Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika“? Af hverju ætli hann gleymi þessari grein stjórnarskrárinnar og geri nánast ekkert úr henni?

Með tillögunni eru ekki skertir með neinum hætti hagsmunir atvinnulauss fólks, fólks í fæðingarorlofi eða vinnandi fólks. Þetta eru eðlisólík mál. Fæðingarorlof og atvinnuleysisbætur eru tímabundin úrræði en lífeyrir almannatrygginga miðar hins vegar að því að tryggja framfærslu til frambúðar. Hér er því um eðlisólíka greiðsluflokka að ræða og ekki hægt að leggja þá að jöfnu með jafnræðisreglu.

Ég hlakka virkilega til þegar málið kemur til atkvæðagreiðslu. Ég hlakka til þegar kemur að nafnakalli. Ég hlakka til að fólkið í landinu sjái raunverulegan vilja löggjafans og fjárveitingavaldsins til að koma til móts við okkar minnstu bræður og systur. Ég leyfi mér að efast um að þau sem segja nei hafi nokkurn tímann vitað hvað það er að vera fátækur, hafi nokkurn tímann þurft að kvíða jólunum af því að þau geti ekki einu sinni gefið barninu sínu skó í jólagjöf, hvað þá annað. Hvert einasta viðvik sem fátæka fjölskyldan þarf að gera, sem er ekki akkúrat að koma mati á diskinn, svo sem að kaupa skó, tösku, föt, úlpu, kostar of mikið og hún hefur ekki ráð á því. Mikið ofboðslega væri ég glöð í hjartanu ef hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar gerðu sér í einn dag grein fyrir þeirri líðan sem fylgir því að vera fátækur í því ríka landi sem við búum í. Ekki vildi ég vera sá maður sem tekur ákvörðun um að neita þessu fólki um réttlæti, að neita því um að taka þátt í þeirri velmegun sem hér ríkir í dag.



[16:28]
Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir ræðu hennar og innlegg um kjör þeirra einstaklinga í landinu sem við þurfum að hlúa miklu betur að. Ég minni á tillögu okkar Samfylkingarmanna þar sem við göngum jafn langt eða lengra og verðleggjum. Þetta kostar um 38 milljarða ef við leiðréttum með þeim hætti sem lagt er til sem eru auðvitað miklir peningar en við erum að tala um hópa í samfélaginu, í sömu andránni þó að við eigum kannski ekki að gera það, um öryrkja annars vegar og eldri borgara hins vegar. Þessir hópar eru mjög illa settir. Að áliti Félags eldri borgara ná aðeins um 26% lífeyrisþega 300.000 kr. lágmarkstekjum á mánuði. Um helmingur öryrkja er undir 270.000 kr. og 70% öryrkja eru með tekjur undir 300.000 kr. á mánuði og það er áður en að við förum að tala um skattinn. Það er öfugsnúið og afkáralegt, eins og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson kom inn á áðan, að öryrkjar borgi jafnvel 36.000–70.000 kr. í skatt á mánuði af tekjum sínum.

Fyrir síðustu kosningar, þarsíðustu og jafnvel kosningarnar þar áður var þessum lágmarkstekjum lofað, 300.000 kr., (Forseti hringir.) og mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún eygi þennan möguleika núna og hvort ekki muni um þær skattalækkanir sem búið er að lofa og núverandi ríkisstjórn stendur fyrir.



[16:31]
Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir andsvarið. Ég ætla að byrja á því að segja að vitaskuld munar um 7.500 kr., sérstaklega þegar aukaskattar bætast við á almenning upp á enn hærri upphæð, þannig að eftir standi fólk ekki í alveg jafn miklum mínus, fólk sem á ekki til hnífs og skeiðar. Hvað varðar 38 milljarða kostnaðarpakkann sem við hv. þingmaður og fleiri gerðum sameiginlega erum við með næga peninga. Við þurfum ekki að stofna þjóðarsjóð á meðan við erum að reyna að koma fólki upp úr fátækt. Við getum nýtt okkur hluta af 110 milljarða væntanlegri arðgreiðslu Landsvirkjunar, við höfum fengið 127 milljarða frá Landsbankanum á síðustu árum í arðgreiðslur. Ef við viljum getum við forgangsraðað fjármunum fyrir fólkið í landinu og sett það í fyrsta sæti, eins og ég veit að hv. þingmaður er mér hjartanlega sammála um.

Hvað lýtur að efndum kosningaloforða er búið að sýna sig í gegnum tíðina að það eru lélegar eftirlíkingar sem geta staðið fyrir framan alþjóð á fjögurra ára fresti, og stundum skemur, og lofað gulli og grænum skógum vitandi það að einhverjir muni trúa því og freistast til að setja X við þá á meðan við hin sem þekkjum það betur vitum að það er akkúrat ekkert að marka loforðin.



[16:33]
Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hún er skýrmælt og það fer ekkert á milli mála hvar hún vill leggja sinn hatt. Þeir hópar sem við erum að fjalla um hafa ekki sterkan samningsrétt og við sem höfum áhrif höfum ekki staðið okkur nægilega vel varðandi þessi atriði. Þeir hafa dregist aftur úr hvað varðar kjör. Það vitum við. Okkur gengur illa að rétta hag þeirra. Ég spyr hv. þingmann hvernig standi á því að hagur þeirra hefur, miðað við aðra, ekki batnað sem skyldi. Af hverju hafa þeir dregist svona mikið aftur úr? Af hverju gerum við ekki betur?

Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson tæpti á því í ræðu þegar hann fylgdi nefndarálitinu úr hlaði að hugsanlega væri verið að vinna að endurskoðun almannatrygginganna að þessu leyti. Er það ekki heila málið? Þurfum við ekki að taka þetta dálítið upp á breiðum grundvelli? Það eru skerðingarnar líka og hvernig við erum búin að flækja þær inn í þessi erfiðu kerfi eins og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson er margbúinn að áminna okkur um úr ræðustól. Þurfum við ekki að taka þetta dálítið vel upp? Við þurfum á því að halda að hver vinnandi hönd, hver máttug hönd, hver sem getur lagt eitthvað til, fái tækifæri til þess, að það sé verðlagt og framlög þeirra metin að verðleikum, hvort sem um er að ræða öryrkja eða aldraða.

Þrír þingmenn hafa nú lagt fram jafn margar þingsályktunartillögur sem taka m.a. á málefnum aldraðra í þessu efni.



[16:35]
Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað er til ráða og hvernig stendur á þessu öllu saman? Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Staðan er einfaldlega sú að ekkert er gert fyrir þessa hópa. Þeir eru ekki bara í vondri samningsstöðu, þeir hafa enga samningsstöðu. Þessum þjóðfélagshópi líður eins og hann sé þriðja flokks þjóðfélagsþegnar. Við höfum kallast örorkubyrði af mörgum stjórnendum. Það er það sem öryrkjar heita á excel-skjalinu vegna þess að við erum ekki að skila nógu. Það er enginn að spá í hvað maður var búinn að skila miklu áður en maður örkumlaðist eða slasaðist, eftir að maður er búinn að vinna og þræla og borga skatta og skyldur. Maður er orðinn að örorkubyrði allt í einu og búið að kippa undan manni fótunum.

Það sem við erum að tala um líka og mig langar að nefna við hv. þm. Guðjón Brjánsson er að við í Flokki fólksins höfum lagt til svokallaðan fallandi persónuafslátt til að sækja aukið fjármagn fyrir nákvæmlega þetta. Þegar talað er um forgangsröðun fjármuna höfum við sagt: Allt í lagi, við þingmenn erum á ofurlaunum, kannski reyndar ekki ef við ætlum að miða við einhverja ríkisforstjóra úti í bæ, þeir eru flestallir miklu betur borgaðir. Þetta var smáháðsglósa hjá mér vegna þess að maður á ekkert einasta aukatekið orð þegar aðilar úti í bæ sem vinna fyrir ríkið eru jafnvel launahærri en sjálfur forsætisráðherra landsins. Fallandi persónuafsláttur felur það í sér, eins og við lögðum hann fram, að um leið og stigið er inn í hátekjuskattsþrepið fær viðkomandi einfaldlega ekki lengur persónuafslátt. Hann hefur ekki með hann að gera eins og sá sem fær útborgaðar 230.000–240.000 kr. Við viljum alfarið koma fólkinu upp í 300.000 kr. lágmarksframfærslu með því að færa fjármuni í kerfinu til þeirra sem mest þurfa á þeim að halda. Við köllum þetta fallandi persónuafslátt og hann er bara einn liður í því hvernig við getum, ef einhver vilji er fyrir hendi, komið hlutunum í gegn. Eins og ég segi er þetta mannanna verk. Þetta er í höndum núverandi ríkisstjórnar og við skulum sjá hvernig henni tekst til.