150. löggjafarþing — 47. fundur
 17. desember 2019.
fjáraukalög 2019, 3. umræða.
stjfrv., 364. mál. — Þskj. 434, breytingartillaga 784.

[12:54]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum í 3. umr. um fjáraukalagafrumvarp. Það var kallað til nefndar milli 2. og 3. umr. og ég vil gera örlitla grein fyrir umfjöllun nefndarinnar á milli umræðna sem og þeim breytingartillögum sem gerðar eru við málið. Nefndin kallaði eftir viðbrögðum fjármálaráðuneytisins vegna ábendinga sem fram komu í umsögn ríkisendurskoðanda. Ráðuneytið kom á fund fjárlaganefndar og skilaði inn sérstöku minnisblaði, auk þess sem ráðuneytið brást við spurningum nefndarmanna á fundinum um einstaka liði og útgjaldatilefni í tengslum við skilyrði 26. gr. laga um opinber fjármál þar sem kveðið er á um að tilefnin verði að vera tímabundin, ófyrirséð og óhjákvæmileg, enda hafi ekki verið unnt að bregðast við með öðrum úrræðum eins og þar segir.

Það er sannarlega vilji nefndarinnar, og kom fram í álitum bæði meiri hluta og minni hluta við 2. umr., að fara yfir þessi skilyrði og hvort þau megi endurskoða án þess að gefa nokkuð eftir um það aðhald og þann aga sem slík skilyrði þurfa að veita og ná þeim markmiðum að draga úr vægi fjárauka. Þá leggur nefndin áherslu á að notkun varasjóða, bæði er varðar málaflokka sem og almenna varasjóðsins, þurfi að vera markvissari og að nefndin hafi tök á að fylgjast með þeirri notkun og hafa reglubundið yfirlit yfir þá notkun samhliða því að þeir verði notaðir sem það fjárstjórnartæki sem lögin ætla þeim, þeir verði þannig notaðir markvissar og jafnvel fyrr, frá miðju ári eins og lögin heimila.

Þá er mikilvægt að ársskýrslur ráðherra greini frá öllum frávikum og viðbrögðum við því, þar með talið notkun varasjóða, bæði með fjárlagaferlið og framkvæmd fjárlaga. Þetta snýst um það samhengi sem er klárlega markmið laganna og nýtist þá nefndinni sem það tæki.

Þá er það mat nefndarinnar að fram þurfi að fara markviss endurskoðun á lögum um opinber fjármál í samhengi við þá reynslu sem byggst hefur upp frá þeim tíma að þau voru samþykkt og tóku gildi, 1. janúar 2016. Meiri hlutinn taldi ekki þörf á framhaldsnefndaráliti en ég vildi koma þessu á framfæri. Kollegar mínir í hv. fjárlaganefnd geta bætt um betur.

Hér legg ég svo fram tvær breytingartillögur sem komu til á milli umræðna. Önnur tillagan er lagfæring á breytingum sem voru gerðar í frumvarpinu sjálfu og hin er um breytingu sem átti sér stað við 2. umr. Í sjálfu frumvarpinu til fjáraukalaga var lagt til að 9 millj. kr. færðust af fjárfestingu yfir á rekstur hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa. Nú hefur komið í ljós að aðeins voru 8 millj. kr. í fjárlögum á fjárfestingarliðnum og það yrði ankannaleg staða ef staðan yrði mínus 1 millj. kr. í fjárheimildum. Nú er lagt til að færa 1 millj. kr. til baka til leiðréttingar á millifærslu í frumvarpinu.

Við 2. umr. var síðan í seinna tilvikinu gert ráð fyrir að færa 12,3 millj. kr. rekstrarframlag af lið Sjúkratrygginga yfir til Sjúkrahússins á Akureyri vegna flutnings verkefna heimahlynningar til sjúkrahússins. Fjárheimild fjárlaga á þessum lið Sjúkratrygginga er öll skráð sem rekstrartilfærslur en ekki rekstrarframlög. Rekstrarheimild stendur því með mínus 12,3 millj. kr. og nú er lagt til að bæta úr þessu með millifærslu inn á lið Sjúkratrygginga þannig að rekstrarframlög hækki um 12,3 millj. kr. á móti lækkun rekstrartilfærslna um 12,3 millj. kr. Í sjálfu sér hefði ekki neitt stórkostlegt gerst en þetta hefði ekki litið vel út á pappír, virðulegur forseti, og við því er brugðist hér.

Ég vil síðan nota tækifærið og þakka nefndinni fyrir vinnu við frumvarpið. Óhætt er að segja að nefndin sé einhuga í því að kappkosta bætt vinnubrögð og verklag og skerpa á öllum þáttum í tengslum við það sem ég fór yfir áðan, notkun varasjóða og það markmið okkar að draga úr umfangi fjáraukans, og allt það sem betur má fara í tengslum við lagarammann í fjárlagaferlinu og þar með talið því frumvarpi sem við ræðum hér og þannig styrkja eftirlitsþátt nefndarinnar og þingsins.



[12:59]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vissulega vilja allir í nefndinni eftir því sem ég best fæ séð kappkosta góð vinnubrögð og bæta verklagið til framtíðar en við erum enn að afgreiða fjáraukalög. Við höfum verið að því að undanförnu og ég sé ekki að þau framtíðarvinnubrögð sem lofað er hafi verið notuð við núverandi framkvæmd afgreiðslu fjáraukalaga.

Mig langar til að spyrja hv. formann fjárlaganefndar um þrjú álit sem liggja fyrir nefndinni, álit Ríkisendurskoðunar á því hvort viðbótin í fjáraukalögum varðandi kirkjujarðasamkomulagið standist lög um opinber fjármál, minnisblað sem við fengum frá ráðuneytinu sem segir að kirkjujarðasamkomulagið standist lög um opinber fjármál og í þriðja lagi álit ráðuneytisins í framsögu á nefndarfundi um hvort það standist lög um opinber fjármál eða ekki.



[13:01]
Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi kirkjujarðasamkomulagið fór nefndin mjög vel yfir það. Ég veit að hv. þingmaður hefur jafnframt gert grein fyrir því í sínum fjölmörgu ræðum þar um og vísað til fimm ára reglunnar. Ég met þær skýringar svo að það standist lögin vegna þess að hér er viðbótarsamningur á grundvelli eldra samkomulags.

Hinar spurningarnar tvær duttu þær út þegar ég var að móta svarið við fyrstu spurningunni. (Gripið fram í.) Já, akkúrat, í fjáraukanum. Ég met það svo að það standist fjáraukann. Ráðuneytið kom einmitt með ágætissamantekt á því af hverju það var samþykkt í fjárauka. Við fórum vel yfir það í nefndinni og ég er með minnisblað þess efnis. Við ræddum það býsna opinskátt líka í 2. umr. að af því að samningar voru opnir og að við sjáum þetta ítrekað í fjárauka getum við sagt að vegna þeirra samninga sem hafa verið svona lifandi í gegnum a.m.k. þrenn fjáraukalög sem ég man fögnum við því að það sé frá með þessum viðbótarsamningum.



[13:03]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Herra forseti. Það var áhugaverður fundur um fjáraukann og hvernig hann stenst lög um opinber fjármál en ég bað um að fjáraukinn færi til nefndar á milli 2. og 3. umr. til að fá frá ráðuneytinu ítarlegar útskýringar á því hvernig hver einasta fjárheimild stæðist lög um opinber fjármál eða ekki, a.m.k. útskýringar á þeim atriðum sem komu fram í gagnrýni Ríkisendurskoðunar að virtust ekki standast lög um opinber fjármál. Þar á meðal er afgreiðsla, í rauninni geymsla, hluta af kirkjujarðasamkomulaginu til fjáraukalaga sem Ríkisendurskoðun sagði að gengi klárlega gegn lögum um opinber fjármál ef maður les á milli línanna í stofnanamálinu sem slíku. Því er áhugavert að sjá annars vegar í gagnrýni Ríkisendurskoðunar minnisblað ráðuneytis sem segir að þetta sé fullkomlega samkvæmt lögum um opinber fjármál og sjá síðan og heyra framsetningu ráðuneytisins á sama máli fyrir nefndinni þar sem það kom ekki svo skýrt fram í máli ráðuneytisins að það að geyma kirkjujarðasamkomulagið á þennan hátt væri samkvæmt lögum um opinber fjármál. Réttara sagt voru svör ráðuneytisins að þessu viðbótarfjármagni, sem vantaði upp á kirkjujarðasamkomulagið sem var geymt til hliðar til að vera í betri samningsstöðu gagnvart kirkjunni, væri stungið inn í almenna varasjóðinn til að örugglega yrðu heimildir fyrir því í lok árs. Ráðuneytið vissi hvort eð er að það kæmi til með að kosta þetta að lokum. Dágóður hluti af varasjóðnum, þetta 1% sem á að vera í varasjóði fyrir allan ríkissjóð, var tekinn til hliðar fyrir fram fyrir kirkjujarðasamkomulagið í fjáraukanum. Það rýrir afl varasjóðsins til að glíma við tilfelli sem koma upp á fjárlagaárinu til að vera varasjóður fyrir allt hitt sem er ófyrirsjáanlegt samkvæmt lögum um opinber fjármál. Þarna var tekinn til hliðar rúmlega 1 milljarður af fyrirsjáanlegu fjármagni og settur í varasjóðinn. Upp kemur í lok ársins að varasjóðurinn dugar ekki fyrir öllum þeim óhöppum sem koma upp innan ársins. Ef tekin eru þau atriði sem passa alveg undir skilyrði fyrir notkun á varasjóðum og notkun á fjáraukanum eru þau hærri en sem nemur varasjóðnum þannig að það þyrfti að koma með eitthvað í fjáraukalögum. En það þarf meira í fjáraukalögum en fyrirsjáanlegt var út af þessu bixi með kirkjujarðasamkomulagið enn og aftur.

Í það heila er gott að vera loksins laus við þetta. Það er komið nýtt, lélegt samkomulag og við höldum okkur við það. Öll hringavitleysan með fjárheimildirnar gengur einfaldlega ekki upp og það er þar sem ég gagnrýni einfaldlega vinnubrögðin. Það er ekki hægt að segja: Við ætlum að vera með góð vinnubrögð til framtíðar en við ætlum að sleppa þessu í gegn, þetta er nú síðasta árið sem er í svona rugli.

Ég get ekki tekið alveg undir þau húrrahróp að augljóslega verði vinnubrögðin betri í framtíðinni þegar ekki er hægt að standa við þau þegar tækifæri er til þess. Á þessum nótum segi ég að þó að meiri hluti tillagnanna í fjáraukalagafrumvarpinu, eins og kom fram á fundi fjárlaganefndar á milli 2. og 3. umr., sé samkvæmt lögum um opinber fjármál tókst ekki þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir að draga upp hvaða heimildir í minni hluta tillagnanna passa ekki við lög um opinber fjármál og eiga því ekki heima í fjáraukalögum. Ítrekað var spurt en aldrei svarað.



[13:08]
Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni ræðuna. Ég er í sjálfu sér ekki með beina spurningu til hv. þingmanns en vil vegna síðustu orða hans minna okkur á að við erum að greiða atkvæði um dæmigerð fjáraukalagaútgjöld. Vissulega fór hv. þingmaður vel yfir það og viðurkenndi það en út af kirkjujarðasamkomulaginu hafa viðræðurnar dregist eins og hv. þingmaður hefur margoft komið inn á. Sú ákvörðun var tekin hér á sínum tíma að setja ekki tiltekna fjárhæð inn í fjárlagafrumvarp til að raska ekki þessum samningum og viðræðum. Við hljótum að hafa einhvern skilning á því eins og ég hef alveg skilning á því, eins og ríkisendurskoðandi gerir og hv. þingmaður gagnrýnir, að þetta finni sér stað í fjáraukalagafrumvarpinu. Samt sem áður eru sjónarmið sem styðja það.

Ég minni okkur á að við erum að greiða atkvæði um dæmigerð fjáraukalagaútgjöld vegna aukins atvinnuleysis, vegna dóms um ólögmæti afturvirkrar skerðingar, umframgjöld ýmissa sjúkratryggingaliða, endurmetin útgjöld vegna fæðingarorlofs og leiðréttingu örorkulífeyris vegna búsetutíma. Það eru 95% af útgjöldunum en síðan eru önnur útgjöld upp á 5% sem eru jafnframt færð rök fyrir í greinargerð með frumvarpinu að séu tímabundin, ófyrirséð og óhjákvæmileg.



[13:10]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, það kom mjög vel og mjög skýrt fram í máli ráðuneytisins á fundinum á milli 2. og 3. umr. að meiri hluti tillagnanna passar við lög um opinber fjármál. Hins vegar eru atriði sem passa ekki við skilyrði laga um opinber fjármál og þrátt fyrir ítrekaðar spurningar fékkst aldrei fram hvaða heimildir það eru ekki. Ég get talið til 8 milljónirnar fyrir Landsrétt. Það er ekkert ófyrirsjáanlegt við þær, það er ákvörðun um ný útgjöld sem á ekki heima í fjáraukanum. Ég get alveg talið til fleiri dæmi en ég vildi ekki gera það af því að ég vildi að fjármálaráðuneytið væri að segja satt og rétt frá, að það kæmi með rökstuðninginn þannig að það væri hægt að gagnrýna hann út frá þeim forsendum, ekki mínum forsendum. Rökstuðningurinn kom hins vegar aldrei. Ráðuneytið hamraði á því að það væri allt gott og rétt en eftir tiltölulega kammó samtal á síðasta fundi kom fram í lok fundarins að meiri hlutinn væri samkvæmt lögum um opinber fjármál — en ekki allt.

Meiri hlutinn hafði engan áhuga á að vita hver þessara heimildarákvæða pössuðu ekki við lög um opinber fjármál og þar við situr eiginlega. Það sem við erum að greiða atkvæði um í þessum fjáraukalögum er að meiri hluti þingsins telur eftirlitshlutverkið ekki það sterkt að hann gagnrýni atriði í fjáraukalögum sem augljóslega er ekki hægt að rökstyðja samkvæmt skilyrðum laga um opinber fjármál.