150. löggjafarþing — 47. fundur
 17. desember 2019.
staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl., frh. 3. umræðu.
stjfrv., 449. mál (viðbótarsamningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar). — Þskj. 773.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[15:01]

[14:52]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mig langar að nýta tækifærið og þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir mjög hraða framgöngu í þessu máli. Hér erum við að útfæra gamalt samkomulag og tökum engar nýjar skuldbindingar á okkur, þetta er einungis útfærsla á viðbótarsamkomulagi sem samþykkt var í september við kirkjuna, viðbótarsamkomulagi sem gerir það að verkum að frá áramótum verða starfsmenn þjóðkirkjunnar ekki lengur starfsmenn ríkisins heldur starfsmenn kirkjunnar sjálfrar og þá mun kirkjan fremur líkjast frjálsu trúfélagi líkt og önnur.



[14:53]
Birgir Þórarinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í tengslum við þetta mál hefur mikið verið rætt um kirkjujarðasamkomulagið frá 1997. Málflutningur Pírata á Alþingi hefur verið óvæginn í garð kirkjunnar og hafa ýmis orð fallið sem eru þeim ekki til sóma. Samningurinn um kirkjujarðir er ekki til endurskoðunar í þessu nýja samkomulagi. Kirkjujarðasamkomulagið stendur sem fyrr óhaggað. Kirkjan vinnur mikilvægt starf um allt land. Athafnir á vegum hennar eru um 8.000 á ári og kirkjur rúmlega 270, sumar hverjar ómetanlegar í trúar- og menningarsögu þjóðarinnar. Með þessu nýja samkomulagi er stigið mjög stórt skref í átt að sjálfstæði kirkjunnar. Hér er um tímamót að ræða í samskiptum ríkis og kirkju. Kirkjan nýtur sem fyrr verndar ríkisins í stjórnarskrá en fjarlægist það mjög að vera ríkisstofnun með þessum samningi. Vonandi kemur kirkjan til með að nýta frelsið sem í þessu nýja samkomulagi felst þjóðinni til blessunar.

Miðflokkurinn fagnar þessu samkomulagi.



[14:54]
Jón Steindór Valdimarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þjóðkirkjan er merk stofnun og hefur unnið gott starf. Mál þetta snýst ekkert um störf þjóðkirkjunnar, málið snýst um aðkomu Alþingis að viðbótarsamningi til viðbótar við svokallað kirkjujarðasamkomulag. Málið sem hér er flutt hvílir á þeim grundvelli. Alþingi hefur ekki haft neina aðkomu að þessari breytingu sem sögð er vera einungis tæknileg breyting. Það er ekki svo, þetta er grundvallarbreyting.

Hér var nefnt að kirkjan starfaði um allt land. Það hefur hún væntanlega gert vegna þess að henni hafa verið tryggð laun ákveðins fjölda presta og biskupa. Því er kippt úr sambandi með þessari litlu tæknilegu útfærslu. (Forseti hringir.) Því er kippt úr sambandi, kirkjan hefur engar skyldur samkvæmt þessum samningi til að halda uppi starfi, hvorki úti um land né hér ef út í það er farið. (Gripið fram í: Það er rangt.)



[14:56]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hv. 3. þm. Suðurk. nefndi áðan að orðræða Pírata hefði verið óvægin í garð kirkjunnar. Þetta er rangt. Hún hefur verið óvægin í garð kirkjujarðasamkomulagsins. Kirkjujarðasamkomulagið er ekki kirkjan og kirkjujarðasamkomulagið er ekki heilagt — né kirkjan ef út í það er farið frekar en aðrar mannlegar stofnanir. Ég leggst gegn þessu máli vegna þess að ég er á móti kirkjujarðasamkomulaginu. Ég er á móti sérstökum forréttindum gagnvart nokkrum trú- eða lífsskoðunarhópi, hvort sem hann er þjóðkirkjan eða einhver annar. Ég vil bara jafnræði fyrir lögum, mér finnst það sjálfsagt, og sömuleiðis er ég á móti því að þegar ríkið semur við svokallaðan sjálfstæðan aðila sé ríkið að sinna hagsmunum þess gagnaðila frekar en hagsmunum Íslendinga, íslensku þjóðarinnar og skattgreiðenda. Mér finnst að ríkið eigi að verja hlut skattgreiðenda í slíkum samningaviðræðum sem ríkið gerir augljóslega ekki sem sést mjög augljóslega á því að þetta kirkjujarðasamkomulag skuli vera til staðar yfir höfuð, hvað þá að það sé útfært með þessum hætti.

Ég leggst gegn málinu (Forseti hringir.) og vona að ríkið muni einhvern tímann fara að huga að hagsmunum skattgreiðenda frekar en kirkjunnar í samningum sínum.



[14:57]
Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Eins og ég vísaði til í ræðu um þetta mál sendi Jörmundur Ingi allsherjargoði inn erindi þegar þetta kirkjujarðasamkomulag var samþykkt 1997 þar sem kemur fram að grundvöllur þessarar lagasetningar sé, með leyfi forseta, „drög að samkomulagi milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um yfirfærslu kirkjujarða til ríkisins“.

Jafnframt kemur fram, með leyfi forseta:

„Eignarhald á kirkjujörðum mun vera nokkuð á reiki. Tilheyra þær hverri kirkju fyrir sig eða söfnuðunum eða prestakallinu? (sbr. bréf biskups til Alþingis 15-1-1907). Eitt mun vera nokkuð ljóst, þær tilheyra ekki kirkjunni sem stofnun.“

Þegar ég talaði við lögfræðing þingflokks Pírata um þetta mál kom í ljós að ekki er til listi yfir þær eignir sem voru færðar til ríkisins, en allar eignir eru skráðar á Íslandi og sagan um hver átti þær. „Basically“ framseldi þá kirkjan sem stofnun jarðirnar sem söfnuðirnir áttu ríkinu (Forseti hringir.) og hafði ekki heimild til þess. Það er eignarnám. Við munum halda áfram að kalla eftir upplýsingum um það hver átti raunverulega þessar eignir. Það var ekki kirkjan sem stofnun samkvæmt þessu.



[14:58]
Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í því samkomulagi sem liggur undir þessu frumvarpi er augljóst að kirkjan samdi bara mjög vel en ríkið samdi alveg gríðarlega illa. Það er ekkert flóknara en það. Í þessu er líka breyting á því að kirkjan er ekki ríkisstofnun í A-hluta heldur er orðin sjálfstæð stofnun hvað þetta varðar og starfsmenn kirkjunnar núna ekki lengur ríkisstarfsmenn. Ef það er ekki grundvallarbreyting á kirkjuskipun veit ég ekki hvað og ef svo er ætti að vera þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál.



Frv.  samþ. með 43:10 atkv. og sögðu

  já:  AKÁ,  ATG,  ÁÓÁ,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BergÓ,  BÁ,  BirgÞ,  BjG,  BjarnB,  BHar,  BN,  GBS,  HSK,  HarB,  HildS,  JónG,  KGH,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  NTF,  OH,  ÓGunn,  ÓBK,  PállM,  RBB,  SIJ,  SPJ,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞorgS,  ÞorS,  ÞórP,  ÞórdG.
nei:  AIJ,  BLG,  HallM,  HKF,  HHG,  JÞÓ,  JSV,  SMc,  ÞorstV,  ÞSÆ.
7 þm. (GBr,  GIK,  GuðmT,  HVH,  LE,  MH,  ÞKG) greiddu ekki atkv.
3 þm. (GÞÞ,  IngS,  ÓÍ) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[15:00]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Stundum er talað um pólitískan rétttrúnað. Það þarf að aðskilja hann frá venjulegum rétttrúnaði vegna þess að svo vill til að venjulegur rétttrúnaður er sögulega trúarlegt hugtak, þ.e. þegar maður á einfaldlega að trúa einhverju og ef maður trúir því ekki sé maður einhvern veginn siðferðislega mistækur, þá hafi maður gert eitthvað rangt með því að sjá ekki sama heim og einhver annar.

Þetta atkvæði hérna er ekki á móti kirkjunni sjálfri, það er ekki á móti kristinni trú og ekki á móti kristnum mönnum. Það kemur málinu ekkert við. Þetta atkvæði er á móti kirkjujarðasamkomulaginu sem er alfarið mannanna verk — og breyskra eins og vitnin segja til um. Ég vildi bara hafa þetta á hreinu vegna þess að ítrekað er okkur Pírötum sérstaklega en líka öðrum lagt það í munn að við séum einhvern veginn á móti kirkjunni eða á móti kristni eða á móti kristnum mönnum. Það er rangt, virðulegur forseti, við erum bara á móti fúski eins og þessu máli og erum á móti óeðlilegum forréttindum til handa ákveðnum hópum umfram aðra. Það væri jafnræði fyrir lögum og fyrir samning við ríkið í þessu landi. Um það snýst málið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)