150. löggjafarþing — 48. fundur
 17. desember 2019.
veiting ríkisborgararéttar, 3. umræða.
frv. allsh.- og menntmn., 480. mál. — Þskj. 717.

[17:17]
Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér enn einu sinni efnislega sömu ræðu undir þessum lið og þessari afgreiðslu og hún snýr að verklaginu sem hér er viðhaft. Ég vil enn einu sinni gera athugasemdir við það verklag sem viðhaft er við vinnslu þessa máls. Á síðasta þingi ræddi að ég held þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra um að vinna væri í gangi við að breyta þessu verklagi og ég vil nýta þetta tækifæri til að lýsa eftir þeirri vinnu og vona að hún verði kláruð áður en við afgreiðum hér næst mál sama eðlis.

Ég mun ekki greiða atkvæði við afgreiðslu málsins frekar en í fyrri skiptin en það hefur ekkert að gera með þá einstaklinga sem nú fá íslenskan ríkisborgararétt og ég vona að þeir verði góðir og gegnir þegnar landi og þjóð til sóma, en ég ítreka að ég lýsi eftir því að uppfært verklag verði kynnt og klárað áður en við verðum í sömu sporum við lok vorþings.



[17:19]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Bara til að upplýsa hv. þingmann er frumvarp um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd. Það felur það í sér að afgreiða verði a.m.k. töluvert miklu fleiri mál á vettvangi stjórnsýslunnar en er í dag sem ætti að þjóna þeim tilgangi að fækka verulega þeim álitamálum sem koma til kasta Alþingis. Vegna orða hv. þingmanns er rétt að þessar upplýsingar komi fram.