150. löggjafarþing — 48. fundur
 17. desember 2019.
fæðingar- og foreldraorlof, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 393. mál (lenging fæðingarorlofs). — Þskj. 529, breytingartillaga 778, 783, 825 og 826.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[18:22]

[18:13]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Stærsta framfaraskref í þágu kynjajafnréttis á Íslandi hefur verið uppbygging leikskóla fyrir okkur öll og uppbygging fæðingarorlofs sem bæði mæður og feður nýta. Þetta er ástæðan fyrir því að Ísland mælist enn á ný efst á lista Alþjóðaefnhagsráðsins yfir jafnrétti kynjanna. Ég á sjálf þrjú börn. Ég væri ekki í þeirri stöðu sem ég er í í dag ef ekki væri fyrir fæðingarorlof og leikskóla. Þess vegna er þetta mér mikill fagnaðardagur, að við séum að lengja fæðingarorlofið úr níu mánuðum í 12. Ég hefði gjarnan viljað hafa það þannig þegar ég eignaðist mín þrjú börn en ég samfagna þeim foreldrum sem eiga eftir að fá þessi auknu réttindi því að þetta skiptir máli fyrir konur, fyrir karla og fyrir börnin í þessu landi. Þetta er alveg gríðarlegt framfaraskref fyrir allt barnafólk á Íslandi og yfir því gleðst ég hér í dag. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[18:14]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við þingmenn Miðflokksins munum sitja hjá við breytingartillögur sem komið hafa fram í þessu máli. Við munum vissulega styðja 12 mánaða fæðingarorlofsþáttinn, enda hagsmunir barna og fjölskyldna í húfi. Það sem birst hefur okkur hér í dag er leikhús fáránleikans og ég vona sannarlega að það verði ekki að vana í þessum sal.

Ég tek undir þau orð að það sé þó fagnaðarefni að við séum að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði.



[18:15]
Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég fagna því að sjálfsögðu að það eigi að hafa 12 mánaða fæðingarorlof. Það er frábært. Mér finnst samt ömurlegt hvernig hefur verið farið með þetta mál. Mér finnst algjörlega glatað að þurfa að standa hérna og gagnrýna þetta í staðinn fyrir að vera að fagna. Það er ömurlegt. Ég verð að segja að við Píratar verðum gul á þessum breytingartillögum þótt ég geri mér grein fyrir því að það þýðir líka að við verðum gul á því að hækka upp í 12 mánuði. Þetta er því miður komið á þann stað. Ég styð það að við fáum 12 mánuði í fæðingarorlof en ég get ekki stutt þessa breytingartillögu, m.a. finnst mér að það eigi ekki að vera undir ráðherra komið hvernig fæðingarorlofi er skipt. Það virðist vera til staðar í breytingartillögu meiri hluta. Það þarf að byggjast á einhverjum málefnalegum sjónarmiðum sem fara svo í lýðræðislega umræðu í þingsal. Við eigum ekki að framselja réttindavernd í reglugerðarheimild til ráðherra. Það er það sem ég hef mestar áhyggjur af í breytingartillögu meiri hlutans og er (Forseti hringir.) ástæðan fyrir því að ég verð á gulu. Mér finnst þetta ólýðræðislegt og óheilbrigt og mér finnst þetta sýna hversu ósamstæð og ósamvinnuþýð þessi ríkisstjórn er, meira að segja innan sinna eigin raða, að hún er búin að klúðra þessu frábæra máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[18:17]
Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Já, það er mikið fagnaðarefni að verið sé að draga til baka styttingu fæðingarorlofsins sem ákveðið var af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur á kjörtímabilinu 2009–2013, en þá samþykkti einmitt Alþingi 12 mánaða fæðingarorlof. Við megum ekki gleyma því. Nú er verið að draga til baka þá styttingu sem ríkisstjórnin sem tók við 2013 gerði þá. Við fögnum því að sjálfsögðu. Hins vegar er alveg ótrúlega sorglegt hvernig ríkisstjórnin fór með þetta, hvernig hæstv. félags- og barnamálaráðherra klúðraði málinu og hvernig meiri hlutinn er búinn að henda inn fjórum, fimm breytingartillögum. Ég held að það sé langbest að við förum í það að samþykkja bara frumvarpið eins og það er. Þar eru 12 mánuðir, þar er skiptingin fimm, fimm, tveir — og hættum þessu klúðri. Þessar breytingartillögur eru eingöngu til komnar vegna ágreinings innan ríkisstjórnarflokkanna. Ég er viss um að það er meiri hluti fyrir því í salnum (Forseti hringir.) að hafa fæðingarorlofið fimm, fimm, tveir eins og við samþykktum í gær. Þá var meiri hluti fyrir því þannig að ég held að við eigum bara að sitja hjá í breytingartillögunum og styðja frumvarpið af því að frumvarpið gengur út á 12 mánaða fæðingarorlof.



[18:18]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Líkt og aðrir fagna ég því að við séum að greiða atkvæði um lengingu fæðingarorlofs úr níu mánuðum í 12 mánuði. Það er gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir börn og barnafjölskyldur á Íslandi að þessi lenging komi til framkvæmda. En við skulum heldur ekki gleyma því að núverandi ríkisstjórn er líka búin að hækka greiðslur í fæðingarorlofi. Það er gaman frá því að segja að að loknu þessu kjörtímabili munu heildargreiðslur sem renna til barnafjölskyldna á Íslandi í gegnum fæðingarorlofskerfið hafa aukist úr 10 milljörðum í 20 milljarða á ársgrunni. Það er fjármagn sem rennur beint til barnafjölskyldna á Íslandi. Ég er ótrúlega ánægður með að við séum að greiða atkvæði um þessar breytingar hér í dag og ég hlakka líka til þess að kynna í október nk. vinnu við heildarendurskoðun laganna sem m.a. mun þá taka afstöðu til þeirra atriða sem beint er inn í þá vinnu. Á næsta ári er fæðingarorlofskerfið okkar orðið 20 ára gamalt og það er þörf á að endurskoða það vegna þess að við viljum hafa öflugt og framsækið fæðingarorlofskerfi á Íslandi vegna þess að það skiptir mjög miklu máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[18:20]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Eins og aðrir fagna ég því innilega að við horfum fram á lengingu fæðingarorlofsins. Fyrir tæpum 20 árum var þetta markmiðið. Það hefur þokast hægt en það er að komast í höfn og það er fagnaðarefni. Hins vegar er verra með þetta dómadagsklúður ríkisstjórnarinnar. Við sjáum þrjár eða fjórar breytingartillögur frá stjórnarmeirihlutanum — og hvað segja þessar breytingartillögur okkur? Þær segja okkur e.t.v. að það sé algjört vantraust á að hæstv. félagsmálaráðherra komi með málið í tæka tíð af því að við upplifðum síðast í gær að hann kemur með málin seint og illa. Það er vantraust innan ríkisstjórnarflokkanna í hans garð eða það er einfaldlega vantraust í garð Sjálfstæðisflokksins, að hann standi við það að þetta verði ekki bara 12 mánuðir í fæðingarorlofi heldur að þetta verði áfram það jafnréttistæki sem hefur skipt okkur Íslendinga miklu máli, hvort sem það er að forsætisráðherra hafi komist til sinna starfa eða að við höfum verið í fremstu röð í tæp 11 ár á lista þjóða þar sem við (Forseti hringir.) erum með mest jafnrétti. Við megum ekki klikka á því og ég hvet þingheim allan til að að passa upp á að þessi vinkill í málinu glatist ekki.



[18:21]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um lengingu á fæðingarorlofi. Það er með miklu stolti sem ég mun greiða atkvæði með þessu máli. Ég held að við getum varla tekið betri ákvörðun í jafnréttismálum, í málefnum barna og í málefnum alls samfélagsins í einu vetfangi en með þessu máli. Við ætlum áfram að tryggja að Ísland sé framsækið í jafnréttismálum. Við ætlum áfram að tryggja að Ísland standi í fremstu röð þegar kemur að málefnum barna. Ég hvet þá þingmenn sem velta því fyrir sér að greiða ekki atkvæði með breytingartillögunum að greiða atkvæði með málinu svo breyttu og sýna þannig raunverulega hug sinn í verki til þessa máls.



Brtt. 778,1–3 samþ. með 31 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ATG,  ÁslS,  ÁsmD,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BHar,  BN,  GÞÞ,  HSK,  HarB,  HildS,  JónG,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  NTF,  ÓGunn,  ÓBK,  RBB,  SIJ,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórP,  ÞórdG.
23 þm. (AIJ,  AKÁ,  ÁÓÁ,  BergÓ,  BirgÞ,  BLG,  GBr,  GuðmT,  GBS,  HallM,  HKF,  HVH,  HHG,  JSV,  KGH,  OH,  SPJ,  SMc,  ÞKG,  ÞorgS,  ÞorS,  ÞorstV,  ÞSÆ) greiddu ekki atkv.
9 þm. (ÁsF,  GIK,  IngS,  JÞÓ,  LínS,  LE,  MH,  ÓÍ,  PállM) fjarstaddir.

Brtt. 783 kom ekki til atkv.

Brtt. 826 felld með 30:11 atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  ÁÓÁ,  GBr,  GuðmT,  HKF,  HVH,  JSV,  OH,  SMc,  ÞKG,  ÞorstV.
nei:  ATG,  ÁslS,  ÁsmD,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BHar,  BN,  GÞÞ,  HSK,  HarB,  HildS,  JónG,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  NTF,  ÓGunn,  ÓBK,  SIJ,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórP,  ÞórdG.
13 þm. (AKÁ,  BergÓ,  BirgÞ,  BLG,  GBS,  HallM,  HHG,  KGH,  RBB,  SPJ,  ÞorgS,  ÞorS,  ÞSÆ) greiddu ekki atkv.
9 þm. (ÁsF,  GIK,  IngS,  JÞÓ,  LínS,  LE,  MH,  ÓÍ,  PállM) fjarstaddir.

Brtt. 825 samþ. með 31 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ATG,  ÁslS,  ÁsmD,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BHar,  BN,  GÞÞ,  HSK,  HarB,  HildS,  JónG,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  NTF,  ÓGunn,  ÓBK,  RBB,  SIJ,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórP,  ÞórdG.
23 þm. (AIJ,  AKÁ,  ÁÓÁ,  BergÓ,  BirgÞ,  BLG,  GBr,  GuðmT,  GBS,  HallM,  HKF,  HVH,  HHG,  JSV,  KGH,  OH,  SPJ,  SMc,  ÞKG,  ÞorgS,  ÞorS,  ÞorstV,  ÞSÆ) greiddu ekki atkv.
9 þm. (ÁsF,  GIK,  IngS,  JÞÓ,  LínS,  LE,  MH,  ÓÍ,  PállM) fjarstaddir.

Brtt. 778,4 samþ. með 31 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ATG,  ÁslS,  ÁsmD,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BHar,  BN,  GÞÞ,  HSK,  HarB,  HildS,  JónG,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  NTF,  ÓGunn,  ÓBK,  RBB,  SIJ,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórP,  ÞórdG.
23 þm. (AIJ,  AKÁ,  ÁÓÁ,  BergÓ,  BirgÞ,  BLG,  GBr,  GuðmT,  GBS,  HallM,  HKF,  HVH,  HHG,  JSV,  KGH,  OH,  SPJ,  SMc,  ÞKG,  ÞorgS,  ÞorS,  ÞorstV,  ÞSÆ) greiddu ekki atkv.
9 þm. (ÁsF,  GIK,  IngS,  JÞÓ,  LínS,  LE,  MH,  ÓÍ,  PállM) fjarstaddir.

Frv., svo breytt, samþ. með 54 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  AKÁ,  ATG,  ÁÓÁ,  ÁslS,  ÁsmD,  BergÓ,  BÁ,  BirgÞ,  BjG,  BjarnB,  BLG,  BHar,  BN,  GBr,  GÞÞ,  GuðmT,  GBS,  HSK,  HallM,  HKF,  HarB,  HVH,  HHG,  HildS,  JónG,  JSV,  KGH,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  NTF,  OH,  ÓGunn,  ÓBK,  RBB,  SIJ,  SPJ,  SilG,  SMc,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞKG,  ÞorgS,  ÞorS,  ÞorstV,  ÞórP,  ÞórdG,  ÞSÆ.
9 þm. (ÁsF,  GIK,  IngS,  JÞÓ,  LínS,  LE,  MH,  ÓÍ,  PállM) fjarstaddir.