150. löggjafarþing — 50. fundur
 21. janúar 2020.
ræktun iðnaðarhamps.

[13:34]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Í fréttum RÚV í gær var fjallað um tilraunaræktun með hamp í Gautavík í Berufirði. Þar fer fram öflugt frumkvöðlastarf við að þróa sjálfbærar og umhverfisvænar vörur úr iðnaðarhampi. Ég hef átt þetta samtal við iðnaðarráðherra tvisvar sinnum og fæ nú tækifæri til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra út í þetta en vísbendingar eru um að iðnaðarhampur hafi verið ræktaður á Íslandi í nokkrar aldir, allt fram að banni gegn kannabis um miðbik síðustu aldar. Iðnaðarhampur er hráefni sem leysir af hólmi fjölmörg önnur mengandi efni, svo sem koltrefjar og steinsteypu og hampur bindur koltvísýring einstaklega hratt og fjölhæfi plöntunnar nær yfir byggingariðnað, matvælaiðnað, lyfjaiðnað og textíliðnað, svo að dæmi séu tekin.

Nú er svo komið að Lyfjastofnun hefur ákveðið að banna með öllu innflutning á hampfræjum en án þeirra verður öllum forsendum kippt undan þessari starfsemi. Í fréttum kom fram að Lyfjastofnun hefur ákveðið að taka þann pól í hæðina að allar afleiður kannabisplöntunnar séu ólöglegar á Íslandi, líka þær sem eru ekki nothæfar til að valda vímu. Þetta eru plöntur sem ættu í raun ekki að flokkast undir lög um ávana- og fíkniefni til að byrja með. Annars vegar hafa undirstofnanir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins veitt heimild fyrir tilraunaræktun ásamt því að hafa veitt bændum í Gautavík styrk til áframhaldandi tilrauna en hins vegar hefur Lyfjastofnun, sem heyrir undir hæstv. heilbrigðisráðherra, ákveðið að stöðva innflutning á öllum fræjum. Mér skilst að ef þetta mál leysist ekki núna á innan við mánuði sé orðið of seint að hefja undirbúning ræktunar fyrir komandi sumar. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það skjóti ekki skökku við að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sé að veita fé til starfsemi sem Lyfjastofnun telur ólöglega. Hvað er eiginlega í gangi hjá þessum stofnunum? Og hvenær og hvernig hyggst hæstv. heilbrigðisráðherra leysa stöðuna sem upp er komin, því að ég geng út frá því að hæstv. ráðherra hafi áhuga á að leysa þessa stöðu svo að þessir frumkvöðlar geti haldið áfram.



[13:37]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt að það var frétt á RÚV í gærkvöldi sem fjallaði beinlínis um þetta mál. Það hefur verið til umfjöllunar um allnokkurt skeið og hefur komið upp í ýmsum fréttatímum enda hefur Lyfjastofnun borist fjöldi fyrirspurna og erinda sem snúa að því hver sé sú lögformlega staða sem hv. þingmaður vísar til í fyrirspurninni. Þess vegna var staða iðnaðarhamps og CBD af þeim sökum tekin sérstaklega til skoðunar hjá stofnuninni. Niðurstaða Lyfjastofnunar er að ákvæði ávana- og fíkniefnalaga með síðari breytingum feli í sér að plöntur af þessum toga falli undir ákvæði laganna, þ.e. að ef til kæmi eða til stæði að skoðuðu máli að breyta þessari stöðu þyrfti að breyta lögum um ávana- og fíkniefni. Það er a.m.k. niðurstaða Lyfjastofnunar.

Ég hef líka fylgst með umræðunni að því er varðar samskipti við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og af þeim sökum höfum við komið á samskiptum milli ráðuneytanna tveggja, heilbrigðisráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, í því skyni að setja saman starfshóp til að skoða málið. Markmiðið er ekki alveg fastmótað en það yrði líklega að skoða möguleika á því að nota hamp í iðnaði og hvaða lagabreytinga yrði þá þörf o.s.frv., og þetta yrði til skoðunar. Ég býst við, og var að ræða það við sessunaut minn í ríkisstjórn, að við náum að koma starfshópnum saman í þessari viku. Væntanlega þyrfti þar líka aðkomu umhverfisráðuneytisins í ljósi þess að þarna er um að ræða ræktun.



[13:39]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er jákvætt og gott að heyra að setja eigi á fót þennan hóp sem allra fyrst. Á sama tíma hef ég samt smááhyggjur af þeirri stöðu sem upp er komin. Við erum með mikla lagaflækju og dálítið að draga lappirnar í málinu sem getur gert það að verkum að uppskera fyrir sumarið sé ónýt, að ekki verði hægt að fá fræin. Lyfjastofnun hefur í þessu máli haldið á lofti þeirri lögskýringu að orðið kannabis sé að finna á bannlista yfir efni sem talin eru upp í lögum um ávana- og fíkniefni, eins og ráðherra segir. Í svari við umsókn til Lyfjastofnunar um innflutning á hampfræjum árið 2013 segir samt, með leyfi forseta:

„Hins vegar virðist óhætt að segja að sé gengið út frá því að þú sýnir fram á að yrkið sem þú hyggst flytja inn fræ fyrir henti ekki til ræktunar plantna með verulegu THC-innihaldi þannig að um ólögmæta ræktun væri að ræða þá falli fræin ekki undir ákvæði laga um ávana- og fíkniefni.“

Afstaða Lyfjastofnunar virðist hafa breyst furðulega mikið á þessum tíma. Lyfjastofnun (Forseti hringir.) hefur heimild til að veita undanþágu og það sem mig langar að spyrja um í lokin er hvort hæstv. ráðherra telji sig geta (Forseti hringir.) beitt sér fyrir því á einhvern hátt, a.m.k. á meðan við erum að greiða úr þessari flækju, að Lyfjastofnun geti (Forseti hringir.) veitt undanþágu til þessara frumkvöðla (Forseti hringir.) svo þeir geti fengið fræ og að hér verði þá einhver uppskera í sumar (Forseti hringir.) svo við séum ekki að eyðileggja þeirra góða starf. — Afsakið, forseti.



[13:40]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mér hefur ekki gefist ráðrúm til að setja mig inn í nákvæmlega aðstæður þeirra aðila sem hér er vísað til eða setja mig inn í leyfisveitingaferlið, hvernig það er byggt upp og aðkomu einstakra stofnana í þeim efnum. Það er Matvælastofnun sem gefur leyfi til að byrja með og síðan kemur fram þessi athugasemd. Mér finnst í þessu máli eins og öðrum skipta mestu að reyna að ná utan um málið í heild, meginreglurnar sem þarf að fara eftir. Ég vænti þess að í ljósi þeirra hagsmuna sem hér eru undir og þeirra spurninga sem hafa vaknað og hv. þingmaður ber fram þá þurfi hópur sem þessi að hafa hraðar hendur og ég mun gera mitt til þess að svo megi verða.