150. löggjafarþing — 50. fundur
 21. janúar 2020.
eftirlit með gjaldeyrisútboðum Seðlabanka Íslands.

[13:48]
Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Á nokkurra ára tímabili stóð opinber stofnun, Seðlabanki Íslands, fyrir aðgerð sem fólst í því að bjóða upp á vildarkjör í gjaldeyrisviðskiptum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Hér ræðir um svonefnd gjaldeyrisútboð bankans sem fólu í sér að þeir sem kusu að koma með gjaldeyri til Íslands, eins og það var orðað, gátu skipt þeim í íslenskar krónur á hagstæðara gengi en ef þeir myndu gera það í viðskiptabanka eftir venjulegum leiðum.

Nú hefur hæstv. ráðherra svarað fyrirspurn frá mér, og ég þakka honum fyrir svarið, um það hvernig eftirliti var háttað með því að í þessum gjaldeyrisútboðum væri fylgt ákvæðum um uppruna fjármuna með vísan til reglna um eftirlit með peningaþvætti og því að fjárfestir hafi verið raunverulegur eigandi fjármuna. Það kemur fram í svari hæstv. ráðherra að formlega hafi þátttaka í útboðunum verið í nafni innlends fjármálafyrirtækis og réttarstaðan því sú, eins og það er orðað, að það væri gagnaðili Seðlabankans í viðskiptunum. Það kemur fram að þessum fjármálafyrirtækjum var skylt að kanna fjárfesta með tilliti til laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og staðfesta gagnvart Seðlabankanum.

Þetta vekur upp þá spurningu, herra forseti, hvort ráðherra telji að þarna hafi verið nægilega tryggilega staðið að verki, að fela fjármálastofnunum eftirlitshlutverk af þessu tagi. Það er til að mynda ekkert minnst á Fjármálaeftirlitið í þessu svari. En spurningin er um viðhorf hæstv. ráðherra til þess hvort þarna hafi verið staðið að verki með fullnægjandi hætti.



[13:50]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mun ekki fullyrða neitt um það að þetta hafi verið nægjanlegt til að uppræta möguleikana á því eða komast á snoðir um tilraunir til peningaþvættis í þessum gjörningum, ekki frekar en að með fjölgun í lögreglunni myndum við trúa því að við gætum komið í veg fyrir innbrot eða þjófnað, búðahnupl, eitthvað slíkt. En það verða hins vegar að vera til staðar reglur og það verður að vera eitthvert kerfi og það þarf að vera eftirlit. Í þessu svari sem vitnað er til þá er, já, bent á að þetta hafi verið sett upp með þeim hætti að gagnaðili Seðlabankans hafi verið innlendu fjármálafyrirtækin, þau hafi ákveðnum skyldum að gegna. Það sem við vitum eftir úttekt á Íslandi vegna þátttöku okkar í alþjóðastarfi um þessi efni — ég er hér að vísa til FATF-úttektarinnar — er að það komu ekki í ljós sérstakir veikleikar í fjármálafyrirtækjunum sem voru grundvöllur grálistunar. Hins vegar kom fram hjá fjármálaeftirlitinu innan lands að það voru vissir verkferlar hjá sumum fjármálafyrirtækjum sem þurftu einhverja yfirferð. Þetta höfum við séð í nýlegri opinberri umræðu um þessi mál.

Ef menn vilja bera það undir mig hvort ég sé alveg viss um að það hafi verið gætt að öllu sem máli skipti þá get ég ekki sagt að ég sé 100% viss um það. Ég kom svo sem sjálfur ekki að eftirlitinu með þessu en það áttu þeir að gera sem tóku þátt og ef við höfum vísbendingar um að þátttaka í útboðunum hafi verið einhver af hálfu þeirra sem voru með ólöglega peninga þá er mikilvægt að þeir sem rannsaka slíka hluti fái upplýsingar um það.



[13:53]
Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er annað atriði í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn minni sem ég vil gera að umtalsefni. Þegar ég spyr hvort ráðherra telji koma til greina að birta nöfn raunverulegra eigenda sem fengu samþykkt tilboð og nutu með þeim hætti þeirra kjara, þeirra vildarkjara leyfi ég mér að segja, sem buðust af hálfu Seðlabanka Íslands í umræddum gjaldeyrisviðskiptum, þá er svarað og vísað í ákvæði um þagnarskyldu samkvæmt gildandi lögum og sagt að listi yfir nöfn einstaklinga og lögaðila ásamt fjárhæðum sem hver aðili flutti til landsins falli undir þagnarskylduákvæði samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Ég spyr ráðherra líka í ljósi þess að það er talið, ég vitna hérna í grein í Kjarnanum frá því 26. desember sl., að virðisaukningin sem fjárfestingarleiðin færði eigendum gjaldeyrisins í íslenskum krónum hafi numið nærri 49 milljörðum kr. Ég spyr hæstv. ráðherra um (Forseti hringir.) viðhorf hans til þess að þannig hafi verið búið um hnúta að ekki sé hægt að greina frá því hverjir það voru sem nutu þessara vildarkjara og nutu þess ávinnings (Forseti hringir.) sem þarna er metinn hátt í 50 milljarðar kr.



[13:54]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mitt viðhorf til þess að það þurfi að gæta að reglum um þau efni er að mér finnst það eðlilegt í sjálfu sér, en mér finnst það óheppilegt. Mér finnst óheppilegt að þetta sé ekki betur fyrir opnum dyrum, svipað og við værum almennt með útboð á vegum hins opinbera um kaup á opinberri þjónustu eða einhverjum vörum eða öðru, það væri langheppilegast og þá gildir almennt sú regla að það er opinbert hverjir taka þátt í útboði. Þarna er í sjálfu sér með ákveðnum hætti verið að halda útboð en við verðum samt sem áður að virða leikreglurnar sem lagt var af stað með.

Mig langar samt að nefna í því sambandi að öll þau mál verða að skoðast í ljósi þess tíma sem þetta var framkvæmt. Það hljómar undarlega núna þegar við sitjum á rétt um 900 milljarða gjaldeyrisvaraforða að við höfum verið að framkvæma útboð fyrir nokkrum árum til að fá gjaldeyri inn í landið. Þannig var það nú samt. Það er svo stutt síðan.