150. löggjafarþing — 50. fundur
 21. janúar 2020.
menningarsalur Suðurlands, fyrri umræða.
þáltill. ÁsF o.fl., 55. mál. — Þskj. 55.

[18:36]
Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég legg hér fram tillögu til þingsályktunar um menningarsal á Suðurlandi, sem hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að leita samninga við Sveitarfélagið Árborg um að ljúka gerð menningarsalar Suðurlands á Selfossi. Samningurinn taki gildi árið 2020 og verði frágangi salarins lokið eigi síðar en við árslok 2021.

Þessi þingsályktunartillaga var lögð fram á 149. löggjafarþingi, 290. mál. Þetta mál er búið að eiga sér langan aðdraganda. Það eru allt að því 30 ár síðan byggingu þessa salar í sjálfu sér lauk. Hann stendur sem hluti af Hótel Selfossi, óinnréttaður. Eins og fram kemur í greinargerðinni er gert ráð fyrir því að það að ljúka frágangi á þessum menningarsal muni kosta á bilinu 300–400 millj. kr. Það liggur auðvitað fyrir að það er ekki há upphæð ef tekið er mið af byggingu nýrra menningarhúsa sem hafa verið byggð víða um land, sem betur fer. En það vantar sárlega húsnæði á Suðurlandi til að hýsa þá miklu menningarstarfsemi sem þar er og við þingmenn Suðurkjördæmis, sem flytjum þessa tillögu, höfum margoft bent á það áður, bæði með flutningi þessarar tillögu og með framgöngu í nefndum, fjárlaganefnd. Verkefnið er nú komið á rekspöl og er komið inn á fimm ára fjármálaáætlun. Nú er mikilvægt fyrir okkur að síðustu skrefin í því að gera þetta verkefni að veruleika, eins og fram kemur í greinargerðinni, verði stigin á þessu ári þannig að við getum farið að hefja framkvæmdir. Þetta er mikilvægt menningarverkefni sem kallar á skjótar ákvarðanir. Í sjálfu sér kostar þetta auðvitað 300–400 milljónir eins og ég hef sagt áður en það er ekki stór upphæð í því samhengi sem slíkt menningarhús myndi kosta frá grunni.

Selfoss er orðinn má segja heimabær menningarinnar á Suðurlandi. Þar er gríðarlega öflugt menningarlíf og með því að ljúka þessum sal væri komið til móts við þá miklu þörf sem er ekki bara á Selfossi og í Árborg heldur líka í nágrannasveitarfélögunum sem sannarlega myndu nýta þá aðstöðu sem þarna yrði til boða.

Ég ætla ekki að hafa þetta í sjálfu sér lengra, virðulegur forseti. Flutningsmenn þessarar tillögu eru auk mín hv. þingmenn Páll Magnússon, Vilhjálmur Árnason, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Karl Gauti Hjaltason, Birgir Þórarinsson og Oddný G. Harðardóttir.



[18:40]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og frumkvæðið að þessu ágæta máli sem ég styð heils hugar, enda einn af flutningsmönnum með hv. þingmanni. En ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður vildi kannski rifja upp með okkur hvar verkið er statt. Hvað myndi taka langan tíma ef byrjað yrði bara strax í næstu viku, segjum það? Við þingmenn Suðurkjördæmis höfum nú farið þarna saman um og við sjáum að það er heilmikið búið. En það er auðvitað ýmislegt eftir og það er spurning hvað það myndi taka langan tíma ef fjárveitingin kæmi strax, hvort hv. þingmaður viti það. Annars ætla ég ekki að lengja þessa umræðu mikið. Mig langaði bara að spyrja um þetta og þakka þingmanninum um leið fyrir frumkvæðið að þessu máli.



[18:41]
Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir fyrirspurnina. Það liggur fyrir að það gæti tekið bara nokkra mánuði. Ef við myndum samþykkja t.d. fyrir vorið að gera þetta þá gæti ég trúað því að að ári frá þeim tíma yrði þessi salur fullbúinn, jafnvel fyrr. Þarna eru komnir stólar, það er komið svið og gryfja og þessi salur er inni í miðri stórri byggingu, það eina sem er óinnréttað. Það eru nú gerð slík kraftaverk í byggingu stofnanahúsa í dag og ég heyrði það nú bara á leiðinni hingað í þingið í dag að sveitarfélag hér á þessu svæði er að fara að byggja knattspyrnuhús, sem er væntanlega 120 sinnum 90 eða 100 metrar eða eitthvað álíka og kostar 4,5 milljarða, og það á að verða tilbúið innan árs. Byggingarhraði er orðinn svo afstæður í dag. Ég held að þarna liggi fyrir teikningar að öllu. Það þarf kannski eitthvað að endurskoða þar. En ég held að við gætum séð þennan sal koma í notkun, kannski ekki í lok þessa árs en mjög snemma á næsta ári.



[18:42]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég er meðflutningsmaður á þessari þingsályktunartillögu sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson hefur hér mælt fyrir og styð ég hana að sjálfsögðu heils hugar. Það er ánægjulegt, herra forseti, að málið virðist hafa verið að hreyfast að undanförnu en það hefur verið á dagskrá árum og áratugum saman. Síðan sá ég að málið var á dagskrá ríkisstjórnarfundar 10. janúar sl. og það er vonandi góðs viti og nú fari loksins eitthvað að gerast í málinu og Sunnlendingar sjái fram á að eignast veglegan sal til að hýsa alla þá margháttuðu menningarstarfsemi sem í landshlutanum er að finna. Fyrir réttu ári síðan skoðaði hæstv. forsætisráðherra salinn og orðaði það svo í viðtali að menningarsalurinn á Selfossi væri eitt best geymda leyndarmál Suðurlands, en salurinn hefur staðið fokheldur í rúmlega þriðjung aldar. Við þetta tækifæri lýsti hæstv. forsætisráðherra bjartsýni sinni á að eitthvað færi að gerast í málefnum salarins.

Herra forseti. Auðvitað viljum við ekki að salurinn verði áfram einhvers konar leyndarmál heldur fremur að hann verði kláraður og verði miðstöð menningar á Suðurlandi. Það væri því vonum framar að gengið væri í þetta mál. Ég sá það í fjármálaáætlun fyrir 2019–2023, eins og kemur fram í greinargerð með þessu máli, að ráðgert er að hefja undirbúning að byggingu menningarhúsa í Skagafirði og á Fljótsdalshéraði sem er vel, en það er vert að klára fyrst það sem áður hefur verið gert áður en lengra er haldið á þeirri vegferð að setja mál af stað án þess að klára þau. Það er auðvitað ótrúlegt að menningarsalurinn á Selfossi, sem svo heitir, hafi staðið hrár og ófullgerður í meira en þriðjung aldar. Hann er fokheldur og stendur raunverulega albúinn til þess að vera innréttaður og kláraður. Hann getur tekið nær 300 manns í sæti og í honum er stórt svið og kjallari undir þessu svæði.

Selfyssingar hafa með bæjarfulltrúana í broddi fylkingar á undanförnum mánuðum teymt inn í fokheldan salinn þingmenn og ráðherra, auðvitað í þeirri von að eitthvað fari að gerast í málinu. Fjölmargir aðrir hafa barist fyrir salnum og í lok mars 2017 voru hollvinasamtök menningarsalar Suðurlands stofnuð. Það á auðvitað að vera alger óþarfi, herra forseti, með verkefni á vegum ríkisins að það sé ekki talið í mánuðum eða árum heldur í áratugum eða jafnvel hluta úr öldum sem tekur að ljúka einhverri byggingu á vegum ríkisins. Það er algerlega óboðlegt.

Það kemur fram í greinargerð að gert er ráð fyrir að það kosti 300–400 milljónir að koma salnum í fullkomið stand. Er þá vonast eftir myndarlegu framlagi frá ríkinu. Ég tek undir með flutningsmanni, hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni, að þetta telst ekki mikið fjármagn til að ráðast í svona þarft verkefni eins og menningarsalur er, vegna þess að þarna stendur steypan ónotuð og hefur gert lengi. Það þarf bara að klára þetta. Það er mikilvægt, ekki bara vegna þess að á svæðinu hefur íbúum fjölgað mikið heldur líka vegna þess að á Suðurlandi er miðstöð og hefur verið lengi miðstöð menningar í mörgum skilningi, bæði á sviði íþrótta og alls kyns annarrar menningar. Ég var þarna síðast fyrir nokkrum vikum á stórri skákhátíð, móti heimsmeistara, og var vel að því staðið í alla staði. Ég sé líka í auglýsingum og öðru að þarna fara fram stanslausir menningarviðburðir sem þurfa auðvitað að fá veglegri sess en nú er. Þarna er Fischer-setrið í skák, staðsett á Selfossi, og ég held að landslið okkar í handbolta sé að megninu til skipað íþróttamönnum sem geta rekið ættir sínar og æfingar til þessa staðar.

Í lokin vil ég mæla með því að þetta mál sæti hraðri meðferð til nefndar og verði afgreitt í vor þannig að hægt sé að ljúka þessu máli, sem ég styð heils hugar og vona að fái farsælan endi.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allsh.- og menntmn.