150. löggjafarþing — 53. fundur
 28. janúar 2020.
sérstök umræða.

útgreiðsla persónuafsláttar.

[14:16]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Persónuafsláttur frá tekjuskatti hefur verið við lýði í rúmlega 30 ár. Hann hefur reynst mjög gott tæki til að auka ráðstöfunartekjur þeirra sem minnstar tekjur hafa og aukið tækifæri lágtekjufólks. Aftur á móti hafa þeir sem engar tekjur hafa ekki notið góðs af persónuafslætti enda engar tekjur til að veita afslátt af. Þrátt fyrir að það hljómi misvísandi þá er það engu að síður hægt. Slíkt má gera með því að greiða út til einstaklinga þá fjárhæð persónuafsláttar sem viðkomandi nýtir sér ekki í hverjum mánuði. Slík útgreiðsla á ónýttum persónuafslætti, öðru nafni neikvæður tekjuskattur, myndi hér á Íslandi nýtast sérstaklega ungu fólki og námsmönnum sem margir hverjir afla lítilla tekna en safna í stað þess skuldum í formi námslána.

Sífellt aukast kröfur til barna og ungmenna á Íslandi. Þar sem áður dugði að vera með stúdentspróf þarf a.m.k. eina háskólagráðu, helst tvær. Slíkt tekur auðvitað mörg ár, ár þar sem viðkomandi einstaklingur er tekjulaus eða í besta falli mjög tekjulítill. Samhliða háskólanámi hlaðast upp námslán og þrátt fyrir að fullvíst sé að námslánin þurfi að borga til baka er alls ekki á vísan að róa með örugga atvinnu að loknu námi. Allt þetta veldur streitu og vanlíðan. Ef námsmönnum væri greiddur út ónýttur persónuafsláttur á meðan á námi stæði gætu einhverjir þeirra mögulega tekið lægri námslán eða hreinlega bara látið enda ná saman. Einhverjir munu hins vegar nýta tækifærið sem svona öryggisnet veitir til að hætta að láta sig eingöngu dreyma og raungera hugmyndir sínar. Einnig mun þessi hógværa upphæð geta haft áhrif á hvenær fólk ákveður að stofna fjölskyldu og eignast börn að loknu námi því það er alveg víst að miklar skuldir þegar fólk útskrifast úr námi hljóta að hafa áhrif á ákvarðanir fólks um fjölskylduhagi og barneignir. Allt eru þetta atriði sem eru talin þjóðfélagi til tekna í nýjum velsældarmarkmiðum ríkisstjórnarinnar.

Útgreiddur ónýttur persónuafsláttur nýtist ekki bara námsmönnum. Atvinnulíf um allan heim er að þróast í þá átt að fólk ræður sig til einstakra verkefna frekar en í fastlaunaða vinnu. Það sem kallast „gig economy“, og við höfum kallað harkhagkerfið, veitir atvinnurekendum aukinn sveigjanleika en er ekki beint til þess fallið að auka öryggi starfsfólksins sem um ræðir. Það gerir hins vegar að verkum að upp munu koma tilvik þar sem fólk missir út tekjur í stuttan tíma og gæti þessi aðgerð hjálpað til við að brúa þau tímabil. Krafan um símenntun er einnig komin til að vera og mun eingöngu aukast á næstu misserum. Með þessari aðgerð yrði fólki gert auðveldara um vik að sækja sér hana, mennta sig og efla sig í starfi. Útgreiðsla ónýtts persónuafsláttar nýtist þó ekki eingöngu innan menntakerfisins eða á atvinnumarkaði. Hluti öryrkja og þeirra sem búa við fjárhagsaðstoð sveitarfélaga hefur svo lágar tekjur að þær ná ekki upp í þá upphæð sem fullnýtir persónuafsláttinn. Neikvæður tekjuskattur mun geta breytt stöðu þeirra verst stöddu meðal þeirra verst stöddu og það eitt og sér gerir þessa hugmynd þess virði að láta á hana reyna.

Forseti. Það er þekkt að það kostar peninga að búa til peninga. Þrátt fyrir að eiga uppruna sinn í rekstri fyrirtækja nær orðatiltækið alveg jafn vel yfir hið opinbera. Það sem átt er við er að innviðir sem styrkja einstaklinga búa til betri einstaklinga sem munu skila meiru til samfélagsins til baka. Streita, áhyggjur af skuldum og sérstaklega glötuð tækifæri frumkvöðla sem aldrei náðu flugi kostar þjóðfélagið gríðarlega mikið. Þessi hugmynd er ekki ókeypis í framkvæmd. Hún kostar um 10 milljarða en greiningar sýna að ávinningurinn yrði mun meiri. En eina leiðin til að komast að því fyrir víst er að láta af henni verða og mæla árangurinn. Ef niðurstaðan verður sparnaður í heilbrigðiskerfinu, aukin aðsókn í nám og aukin nýsköpun með tilheyrandi stofnun nýrra fyrirtækja, eins og rannsóknir benda til, mun aðgerðin borga sig margfalt til baka.

Í lokin auglýsi ég hér eftir nýju heiti yfir þessa hugmynd sem þekkist nú sem neikvæður tekjuskattur, eitthvað sem er aðeins jákvæðara og fallegra. Eftir að hafa lagt höfuðið í bleyti datt mér í hug að ónýttum útgreiddum persónuafslætti, annað svona ónothæft orðskrípi, væri líklega best lýst með orðinu persónuarður, sem mér finnst vera fallegt. Ég hvet þingmenn og ráðherra til að koma með hugmyndir, annars nota ég persónuarð hér með.

Forseti. Þótt orðið persónuarður sé nýtt er hugmyndin hvorki ný né frumleg. Hún er ekki einu sinni dýr en engu að síður hefur aldrei á það reynt af alvöru hvort lágmarksframfærsla muni auka velsæld fólksins í landinu. Í staðinn hefur verið reynt að plástra yfir einstaka göt gloppótts kerfis með aðgerðum sem annaðhvort ná ekki utan um vandamálið eða kosta meira í umsýslu en vandamálið sjálft. Með breyttum atvinnuháttum, snarlækkandi tryggð á vinnumarkaði og aukinni kröfu um menntun og þekkingu, gengur ekki að hið opinbera ríghaldi í gamlar kennisetningar (Forseti hringir.) og reyni að troða samfélaginu í þann ramma því að það er ekki nóg að tala fallega um framtíðina. Við þurfum að fara að búa hana til og til þess þurfum við að fjárfesta í fólki því fólkið er framtíðin.



[14:21]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að taka þessa umræðu hér í þinginu. Vissulega er þetta ekki algerlega ný hugmynd en við höfum svo sem aldrei tekið hana til djúprar athugunar. Hér virðist útgangspunkturinn vera sá að útgreiðsla ónýtts persónuafsláttar væri ekki sérlega dýr aðgerð en ávinningurinn yrði mikill, sérstaklega fyrir ungt fólk og námsmenn. Og já, hv. þingmaður nefnir 10 milljarða. Okkar úttekt á þessu sýnir að í fyrra, árið 2019, var ónýttur persónuafsláttur við álagningu ársins 11,2 milljarðar sem gefur mynd af áhrifum þessara hugmynda. Að mínu áliti eru þetta verulegar fjárhæðir. Því til viðbótar verður að teljast afar líklegt að þessi breyting myndi hafa tiltekna hvata í för með sér sem gætu orðið til þess að auka enn frekar fjárhagslegu áhrifin. Það kemur einnig fram í greiningu ráðuneytisins að af þessum 11,2 milljörðum eru það ríflega 3 milljarðar sem nýtast ekki hjá 16 og 17 ára einstaklingum og alls um 5 milljarðar hjá framteljendum sem eru undir tvítugu.

Vegna þess að hér er námið nefnt til sögunnar þá vil ég láta þess getið að það liggur fyrir þinginu frumvarp til breytinga á Lánasjóði íslenskra námsmanna sem felur í sér töluvert miklar breytingar á stuðningi stjórnvalda við námsmenn sem munu hafa veruleg áhrif á kjör námsmanna til hins betra. Þar er m.a. verið að leggja til að nýtt námslánakerfi feli í sér möguleika á niðurfellingu á 30% af höfuðstóli námslána að námi loknu. Við sjáum hvernig framvinda þess máls verður en sú hugmyndafræði hefur fengið aukinn stuðning á undanförnum árum.

Það er einnig ljóst að við erum í miðju verki við að vinna úr ýmsum hugmyndum sem að öðru leyti er beint sérstaklega að ungu fólki. Þar má nefna fjölþættan húsnæðisstuðning, svo sem stuðning við fyrstu kaup, auk þess sem áhrif skattkerfisbreytinganna sem tóku gildi núna um áramótin gagnast væntanlega ungu fólki sem jafnframt er fremur tekjulágt, enda eru þær aðgerðir sérstaklega sniðnar að þeim hópi. Þar var byggt m.a. á úttekt sérstaks sérfræðihóps sem taldi ekki gagnlegt að fara í útgreiðslu á ónýttum persónuafslætti, sérstaklega vegna þess að það myndi leiða til svo hárra jaðarskatta og þeir jaðarskattar yrðu þá sérlega háir á fólk með lágar tekjur. Þetta myndi með öðrum orðum hafa mjög neikvæða hvata á vilja fólks til vinnu.

Það má segja að þessar hugmyndir séu í ætt við hugmyndir um borgaralaun og þeir sem hafa fylgst með þeim málum í tilraun annars staðar hafa væntanlega tekið eftir því að það hafa komið fram ýmsir vankantar á slíkum hugmyndum. Ég ætla ekki að fara út í langt mál um þau atriði, bara nota það sem eftir er af mínum tíma til að segja: Ef við viljum gera ráðstafanir upp á 10, 11, 12 milljarða þá tel ég að við ættum einfaldlega að lækka skattana. Þegar við höfum búið til kerfi sem segir við þá sem geta farið að vinna að þeir geti gert það skattlaust vegna persónuafsláttarins skil ekki hvers vegna við ættum að ganga lengra en það. Persónuafsláttarfyrirkomulagið nýtist einmitt mjög vel námsmönnum og ungu fólki. Það dregur svo verulega úr árlegri skattbyrði þessa hóps vegna þess að hann getur þá nýtt sumarmánuðina til vinnu og persónuafslátturinn tryggir að heildarskattbyrði ársins verður mun minni. Ef það er eitthvað sem við þurfum á að halda á næstu árum þá er það að auka framleiðnina í landinu og það gerum við ekki með því að senda fólki tékka heim og hvetja það til þess að fara ekki að vinna. Það er akkúrat öfugt við það sem við þurfum að gera á næstu árum. Við þurfum að auka framleiðni í landinu, m.a. vegna þess að við erum hætt að fjölga okkur eins og við áður gerðum. Það dregur úr líkunum á því að hér verði viðunandi hagvöxtur á komandi árum.

Ég er ekki hrifinn af hugmyndinni. Ég tel að við gætum ráðstafað þessum fjármunum með skynsamlegri hætti og ég tel almennt að við eigum að byggja upp kerfi okkar þannig að það sé hvati til að leggja á sig og fara að vinna og skapa verðmæti.



[14:27]
Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu. Það er gott að fá tækifæri til að fjalla aðeins um tekjuskattskerfið. Við Miðflokksmenn höfum að meginstefnu að sem mest af sjálfsaflafé einstaklinga sé í þeirra höndum. Já, að lækka skatta, að skattlagning sé einföld og hagkvæm. Að þessu leyti var fjölgun skattþrepa nýlega ekki til bóta, herra forseti.

Þróun tekjuskattskerfisins undanfarna áratugi hefur einkennst af þyngingu skattbyrði á öllum tekjuhópum en þó mest á því fólki sem lægstar hefur tekjurnar. Þetta kemur glöggt fram í vandaðri skýrslu ASÍ frá því í ágúst 2017. Í nýlegri tímaritsgrein eftir dr. Axel Hall háskólakennara kemur fram, þegar litið er yfir allt tímabil staðgreiðslunnar, að tengsl persónuafsláttar við vísitölu neysluverðs á tímum hækkunar kaupmáttar hefur aukið meira skattbyrði hjá hinum tekjulægri en þeim sem hafa hærri tekjur. Þessi þróun er nefnd í þessari ritsmíð raunskattskrið og ég nefni þetta sérstaklega af því að ég veit að hv. forgöngumaður þessarar umræðu er áhugamaður um íslenskt tungutak þegar kemur að skattamálum.

Herra forseti. Ríkissjóður og þá ekki síður sveitarsjóðir eru afar frekir til fjárins þegar kemur að skattlagningu á lægstu tekjur og hleypur hún á tugum milljarða. Hér erum við að tala um tekjur undir 300.000 kr., þ.e. tekjur sem ekki duga fyrir nauðþurftum samkvæmt opinberum viðmiðunum sem eru aðgengileg á vef Stjórnarráðsins.

Herra forseti. Þegar kemur að tekjuskattskerfinu er sannarlega verk að vinna.



[14:29]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir að vekja máls á þessu … verkefni, skulum við segja, sem við öll höfum, þ.e. að tryggja réttlæti í samfélaginu og finna leiðir til þess að menn geti lifað af þeim tekjum sem þeir hafa á hverjum tíma. Í því sambandi er athyglisvert að taka þessa 10 milljarða sem hv. þingmaður er þarna með undir vegna þess að ég er ekki sannfærður um að það að ákveða í einu vetfangi að taka 10 milljarða og deila þeim út nánast í hugsunarleysi, óháð því hvort það liggi fyrir að þeir einstaklingar sem þar eru undir þurfi á fjármunum að halda sér til framfærslu, sé endilega besta leiðin. Það þyrfti a.m.k. einhverja betri greiningu á þörf áður en farið væri í þessa aðgerð. Sé verkefnið eða hugmyndin að reyna fremur að gagnast námsmönnum sérstaklega, þá sé ég það kannski miklu frekar sem verkefni að endurbæta námslánakerfið meira en verið er að gera ráð fyrir núna, þá annaðhvort með auknum niðurfellingum eða styrkjum, þannig að það væru fyrst og fremst þeir sem eru í námi sem hefðu hag af því. Hins vegar vil ég ítreka það að ég tel að umræðan sé af hinu góða því að markmið hv. þingmanns, að finna leiðir til að bæta stöðu námsmanna eins og ég sé þetta svona aðallega og að einhverju leyti annarra samfélagshópa, er sannarlega jákvætt og við eigum auðvitað að halda áfram á þeirri vegferð.



[14:31]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Halldóru Mogensen kærlega fyrir þessa umræðu og hennar seiglu í þessum hugmyndum og þeirri umræðu sem lýtur að einhverju leyti að borgaralaunum, ef ég skil þessa umræðu rétt. Að þessu sinni er verið að ræða hvort það megi kalla borgaralaun eitthvað annað, eins og t.d. að greiða ónýttan persónuafslátt út. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni að við eigum að fjárfesta í fólki en ég velti því fyrir mér hvort þessi hugmynd sé góð lausn á því. Persónuafsláttur á mánuði er 54.624 kr. á árinu 2020 og á ári 655.000 kr. og þetta er jafn há tala fyrir alla. Ég velti fyrir mér hvort við eigum að færa t.d. manneskju sem hefur allar sínar tekjur í fjármagnstekjum, hefur milljónatugi eða milljarða í fjármagnstekjur eingöngu, slíkan stuðning, persónuafslátt sem er 655.000 kr. á ári, hvort það sé nauðsynlegt eða hvort við gætum nýtt 11,2 milljarða frekar til stuðnings við þá sem virkilega þurfa á því að halda.

Hv. þingmanni varð tíðrætt um námsmenn og stöðu námsmanna og það er mjög oft þannig að námsmenn reyna að nýta allar mögulegar stundir sem ekki fara í skólann til að vinna, á sumrin og í hléum, og geta þá nýtt uppsafnaðan persónuafslátt sinn. Ég held að þetta myndi bitna á námsmönnum á öðrum tímum og gera mögulega að verkum að sá uppgripstími sem oft er á sumrin myndi ekki nýtast eins og verið hefur. Þannig að um leið og ég fagna þessari umræðu sé ég í fljótu bragði ýmsa vankanta á þessari hugmynd.



[14:34]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir þessa sérstöku umræðu um útgreiðslu á ónýttum persónuafslætti. Þá vil ég þakka innlegg hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í þessa umræðu. Mér finnst umræðan góðra gjalda verð sem og hugmyndafræðin sem liggur að baki. Mér finnst hún hafa dregið fram einkum tvennt, í fyrsta lagi að þetta sé augljóslega rætt í samhengi við tekjuskattskerfið og hlutverk persónuafsláttar í því kerfi og í öðru lagi aukinn stuðning við þá sem hafa lægri tekjur. Hv. framsögumaður og hæstv. ráðherra fóru yfir þessa 10 milljarða tölu. Ef ég fer í svar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni sýnast mér tölurnar lítið hafa breyst. Þetta eru 10 milljarðar og tveir þriðju af þessum hópi eru augljóslega námsmenn á aldursbilinu 16–25 ára. Þá velti ég fyrir mér hvernig við styðjum þetta fólk best. Ég held að flestir séu sammála því að fjárfesting í ungu fólki og fólki almennt sé lykillinn að framtíð og nýsköpun. Það er oft sagt forsenda framtíðarhagvaxtar. Þess vegna er öflugt menntakerfi og forsendur þess í raun og veru að við tryggjum að allir geti aflað sér menntunar. Fyrir þinginu liggur frumvarp sem felur í sér þá helstu nýbreytni að auka og jafna stuðning í formi styrkja.



[14:36]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég tek undir með öðrum hér og fagna þessari umræðu. Það er mjög gagnlegt að fara í gegnum umræður um útgreiðanlegan persónuafslátt. Þessi hugmynd er mjög í takt við þær skattatillögur sem unnar voru á vegum samráðsvettvangs á sínum tíma þar sem gerð var tillaga um að stokka tekjuskattskerfið upp, hækka persónuafslátt umtalsvert en láta hann hins vegar fjara út með hækkandi tekjum á móti. Viðreisn studdist við þær tillögur í sínum skattatillögum einfaldlega vegna þess að þetta einfaldar mjög margt í tekjuskattskerfinu. Það hefur verið eilíft þrætuepli varðandi tekjuskattskerfið okkar hvernig við eigum að nota persónuafsláttinn, hvernig hann eigi að fylgja verðlagi eða launaþróun o.s.frv. Staðreyndin hefur verið sú að fyrir ríkissjóð hefur það alltaf verið mjög kostnaðarsamt að hækka persónuafsláttinn vegna þess að hann gagnast öllum. Það að láta hann falla niður með hækkandi tekjum, eins og tillögur hafa verið um, myndu gera okkur mun auðveldara að stýra tekjuskattskerfinu og ekki síður mikilvægur þáttur af þeim tillögum er að hann sé þá einmitt útgreiðanlegur til þeirra sem ekki ná að nýta hann til fulls. Mér finnast það mjög áhugaverðar tillögur því að slíkt myndi nýtast tekjulægsta endanum langbest. Það yrði í raun nokkurs konar stuðningur við námsmenn. Og margítrekað hefur verið bent á að það sé löstur á okkar stuðningsfyrirkomulagi við námsmenn hversu mikið námsmenn telja sig yfir höfuð þurfa að vinna til að framfleyta sér og ná þar af leiðandi síður að einbeita sér að námi.

Ég fagna þessari umræðu. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi valið aðra leið í tekjuskattsbreytingum tel ég að það sé fullkomlega eðlilegt að halda þessari umræðu áfram og skoða betur hvort hægt sé að breyta tekjuskattskerfinu í þessa veru.



[14:38]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir þessa góðu umræðu um persónuafslátt sem sannarlega er þörf á að ræða hér. Við höfum í gegnum tíðina horft á hvernig breytingar hafa verið gerðar á persónuafslætti. Við höfum séð að hjón geta nýtt persónuafslátt sem er ónýttur. Það hefur nú komið eitthvað fram um að það eigi ekki að vera lengur mögulegt. Þó að það sé ekki alveg búið að taka gildi enn þá hefur það verið í farvatninu. Við höfum mælt sérstaklega fyrir því í Flokki fólksins að við vildum taka upp svokallaðan fallandi persónuafslátt og við höfum gjarnan sagt hér og ég í þessum ræðustóli að mér finnst alveg með ólíkindum að þeir sem eru milljónamenn og -konur fái persónuafslátt. Ég get ekki alveg skilið hvernig stendur á því að við færum ekki persónuafsláttinn frá þeim sem hafa akkúrat ekkert með hann að gera yfir til þeirra sem virkilega þurfa á honum að halda.

Það kom fram í ræðu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að sennilega upp undir fjórðungur þeirra sem týna sínum persónuafslætti um hver áramót séu börn undir lögaldri eða 16 og 17 ára unglingar, það eru ríflega 3 milljarðar af þeim 11,2 sem féllu niður ónýttir til um síðustu áramót. Spurningin er einfaldlega þessi þegar við erum að hugsa um nákvæmlega þetta: Hvernig getum við tekið þessa 11,2 milljarða og virkilega fært þá þangað sem þörf er fyrir þá? Það er það sem mér finnst nauðsynlegt að umræðan snúist um. Hvernig getum við forgangsraðað fjármunum þangað sem þeirra mest er þörf?

Þessi umræða er mjög góð. Ég vildi ekkert frekar en að allir fengju borgaðan út sinn ónýtta persónuafslátt. En mér finnst að við verðum að útfæra það svolítið betur og við gætum gert það þannig að hann nýttist best þeim sem mest þurfa á að halda.



[14:40]
Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með framsögumanni um mikilvægi þess að styðja við ungt fólk og sérstaklega námsfólk. En grundvallarspurningin í dag er hvort útgreiðsla persónuafsláttar myndi gagnast þessum hópi best og væri í raun gagnleg til að draga úr fátækt, þ.e. hvort hún nái til þeirra hópa sem helst þurfa. Það þyrfti að skoða þetta í kjölinn og gott betur. Jafnréttismat gæti t.d. leitt í ljós að það myndi draga úr hvata fyrir því að hækka grunnlaun láglaunafólks, hóps sem er mjög oft að meiri hluta konur. Lægri grunnlaun þýða minni ávinnsla réttinda þegar kemur að töku eftirlauna og þar með myndum við ýkja enn kynbundinn mun á lífeyrisaldri sem er enn meiri en kynbundinn launamunur á vinnumarkaði eins og við þekkjum vel.

Hvað varðar námsmenn þá hallast ég að því að lausnin þar sé einfaldari en einhver breyting á tekjuskattskerfinu. Þar þarf einfaldlega að styrkja námslánakerfið og hækka grunnframfærsluna sem ekki er til umræðu í þeim breytingum sem liggja fyrir þinginu í dag. En fyrir ungt fólk almennt, og þá sérstaklega ungar barnafjölskyldur sem eru að koma undir sig fótunum, er rétt að minna á skýrsluna Barnabætur á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin sem unnin var fyrir BSRB á síðasta ári og sýndi svo skýrt fram á nauðsyn þess að endurskoða það mikilvæga stoðkerfi algerlega frá grunni. Ég held að það væri jafnvel meira aðkallandi að fara í slíka endurskoðun en að hræra eitthvað í tekjuskattskerfinu, að skoða bara í víðu samhengi hvernig hægt er að endurskoða stuðningskerfi við ungar fjölskyldur þar sem skilgreint er með skýrum hætti hvert markmið kerfisins eigi að vera og sníða síðan kerfi sem nær þeim markmiðum fram.



[14:42]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þessi hugmynd um persónuarð er auðvitað ekkert annað en hlutdeild í arðsemi samfélagsins. Sá árangur sem hefur leitt til þess að við höfum öfluga innviði og gott menntakerfi og verðmæta atvinnuvegi hefur aukið velsæld Íslendinga á marga vegu. Sparnaður samfélagsins af því að vatn berist um vatnspípur í stað þess að það þurfi að sækja það úr brunni er einhvers virði á hverjum degi. Sparnaðurinn af því að geta keyrt milli bæjarfélaga í stað þess að vera á hestbaki er einhvers virði á hverjum degi. Öll tækniþróun eykur arðsemi samfélagsins. Persónuafsláttur er auðvitað ekkert ódýrt fyrirbæri ef hugsað er um skatta sem fjármögnunarleið ríkisins, að persónuafsláttur valdi því að ríkið verði af einhverjum tekjum sem það eigi einhvern veginn rétt á. En hugsi maður persónuafslátt sem arð af því að samfélagið sem heild gekk upp í einn mánuð í viðbót og skattana sjálfa sem leið til að tempra hagkerfið þá birtist okkur önnur mynd.

Hæstv. fjármálaráðherra segist hafa áhyggjur af hærri jaðarsköttum sé þetta gert en það er auðvitað þannig að þótt jaðarskatturinn kunni að vera örlítið hærri, sem hann yrði reyndar ekki, þá breytir það samt engu um það að þetta hefði eingöngu áhrif, jákvæð áhrif, á fólk sem hefur litlar sem engar tekjur. Þetta er ekki fullkomin tillaga enn sem komið er en auðvitað má útfæra hana, auðvitað má hugsa hana. Það er enginn að fara að hætta við að fara á vinnumarkað vegna örfárra þúsundkalla á mánuði, þótt þeir vissulega hjálpi. Enn fremur er fráleitt að líta á skattalækkun sem gagnlegri aðferð en hækkun persónuafsláttar, enda kemur hún aðallega þeim ríku til góða.

Það er líka forvitnilegt að heyra fólk sem talar gjarnan um einföldun kerfisins tala nú gegn einföldun kerfisins. Það er eðlilegt að við ræðum um þessa hugmynd og það er eðlilegt að við reynum að skoða hvaða áhrif þetta hefði á verðbólgu og kaupmátt og velsæld. Það er eðlilegt að við áttum okkur á því að í ríkum samfélögum eiga allir að njóta góðs af. Það er mjög líklegt að alla vega 2,5 milljarðar af þessu myndu koma til baka í formi virðisaukaskatts og aukin efnahagsumsvif sem myndu fylgja þessu myndu leiða af sér stækkun hagkerfisins og ábata þar. (Forseti hringir.) Við getum alla vega skoðað hvernig reikningsdæmið kemur út vegna þess að þetta er forvitnileg hugmynd.



[14:45]
Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Þegar við stöndum frammi fyrir því að taka ákvörðun um hvernig við eigum að verja sameiginlegum fjármunum — við skulum tala um sameiginlega fjármuni 10–12 milljarða — þá skulum við velta því fyrir okkur hvernig það er skynsamlega gert. Ég man eftir því að fyrir svona tveimur, þremur áratugum hreykti þekktur stjórnmálamaður, áhrifamaður í íslenskum stjórnmálum, sér af því að hann ætti mjög snjallan son sem stundaði háskólanám og tæki námslán sem báru þá enga vexti en hann þyrfti ekki á þeim peningum að halda vegna þess að pabbi og mamma sæju fyrir honum og hann tæki þessi námslán og keypti fyrir þau ríkisskuldabréf sem væru verðtryggð og bæru 5–6% vexti. Þetta væri fjármálasnilld — sem það var. En þetta er svipuð hugmynd. Það á sem sagt að veita þetta ungu fólki sem er í námi og þarf ekki sérstaklega á aðstoð að halda, t.d. börnum efnaðra foreldra. Þau velja þá að vinna ekki á sumrin, skella sér frekar — að vísu ekki til Tenerife, ég held að þau fari til Taílands, Japans, Nýja-Sjálands, Ástralíu, Brasilíu o.s.frv. og fá síðan tékkann frá ríkissjóði í formi ónýtts persónuafsláttar. Það eru akkúrat börn þeirra sem efnaðastir eru í þjóðfélaginu. Ég held að þeir sem eru að gæla við hugmyndir af þessu tagi ættu að velta því fyrir sér hvort þetta sé sú jafnaðarmennska sem við eigum að vera að berjast fyrir eða hvort ekki væri skynsamlegra að nota þessa 10–12 milljarða til að lækka neðsta skattþrepið enn frekar en gert hefur verið. Það kemur öllum en ekki síst láglaunafólki best.



[14:47]
Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Ég vil líkt og aðrir þakka fyrir þessa umræðu sem er fyrir margra hluta sakir áhugaverð. Ég verð að segja að sú hugmynd sem frummælandi þessa máls talar fyrir er áhugaverð. Ég tek hins vegar undir með þeim sem hafa lýst efasemdum, sagt að það þurfi í það minnsta að útfæra þetta þannig að þetta skili sér á þann stað sem það á að skila sér. Ég er sammála þeim sem hafa sagt að svona aðferð megi vitanlega ekki verða til þess að mismuna fólki með neinum hætti. Ég tel ekki ástæðu til þess. Við höfum talað fyrir því í Miðflokknum að það eigi frekar að nota fjármuni sem eru til reiðu til að lækka skatta almennt. Að lækka lægsta skattþrepið er ein leið til þess. Við höfum líka talað fyrir því að með því að lækka t.d. skatta á fyrirtæki verði til svigrúm til að fara í nýsköpun og ráða til sín fólk, ekki síst ungt fólk. Það má líka hugsa sér að breyta reglum okkar og lögum þannig að tekjur námsmanna sem hafa tækifæri til þess að vinna sér inn saltið í grautinn yfir sumarmánuðina geti verið hærri en þær eru í dag þannig að skerðingar og annað dragi ekki úr þeim. Ég held að það sé mjög mikilvægt að allar hugmyndir fái umfjöllun og til þess m.a., held ég, er hv. þingmaður að taka þessa umræðu hér, að varpa fram einhverri pælingu, hugmynd, hvað sem svo verður um hana. Ég held að það sé mjög mikilvægt að reikna dæmið til enda. Hv. þingmaður nefndi hér rannsóknir sem hefðu sýnt að það væri sniðugt og snjallt að gera þetta. Það er mikilvægt að slíkt sé dregið fram þannig að hægt sé að grandskoða við hvað er átt með því, hvort það séu ábyggilegar rannsóknir og það allt saman. En ég held að það sé ágætt í raun að við förum héðan með þetta í veganesti, að hugsa þetta mál til hlítar. Vonandi verður önnur umræða síðar þegar við höfum náð að pæla betur í þessu.



[14:49]
Una Hildardóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu og hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Ég tel þó að breytingar af þessu tagi muni ekki skila sér til þeirra sem raunverulega þurfa á stuðningi að halda. Ónýttur persónuafsláttur er mestur hjá aldurshópnum 15–20 ára og ef við horfum til núverandi uppsveiflu í hagkerfinu frá árinu 2010 hefur kaupmáttaraukning verið mest hjá aldurshópnum 65 ára og eldri annars vegar og 16–24 ára hins vegar. Þar er um að ræða í kringum 40% kaupmáttaraukningu en á meðan er aukningin minnst í aldurshópnum 24–44 en þar er hún í kringum 20%. Það má því segja að um sé að ræða tekjujöfnunaraðgerð fyrir rangan aldurshóp ungs fólks. Aðgerð sem þessi tekur ekki á þeim ójöfnuði á milli kynslóða sem myndast hefur frá hruni en ungt fólk, sem hefur vissulega setið eftir í þessari kaupmáttaraukningu, þarf á einhverjum aðgerðum að halda. Samkvæmt Tekjusögunni hefur félagslegur hreyfanleiki ungs fólks minnkað síðastliðna áratugi sem er töluvert áhyggjuefni. Það mætti rekja það beint til sífellt verri fjárhagsstöðu ungs fólks.

Ég vil impra á því að það er mikilvægt að stjórnvöld vinni að því að bæta hag ungs fólks og komi til móts við þann aldurshóp sem setið hefur eftir. Ég tel þó tillögu hv. þingmanns ekki vera rétta nálgun. Frekar ættum við að horfa á námslánakerfið, húsnæðisstuðningskerfið, uppbyggingu almennra íbúða, stúdentaíbúðir, barnabótakerfið og styrki til nýsköpunar. Ef við ætlum að ráðast í breytingar á persónuafsláttarkerfinu ættum við kannski frekar að leggja áherslu á að nýta það sem tekjujöfnunartæki og beina stuðningnum til þeirra sem raunverulega þurfa á honum að halda.



[14:51]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég, rétt eins og aðrir þingmenn, þakka þessa umræðu. Það er gott að ræða grundvallaratriði og til þess, m.a. og ekki síst, erum við hér, til að ræða þau grundvallaratriði sem hafa þarf að leiðarljósi þegar við setjum þessu samfélagi ramma. Þetta er, eins og sumir hafa sagt hér á undan mér, áhugaverð hugmynd — og þegar ég segi áhugaverð þá meina ég áhugaverð, ekki slæm eins og fólk á gjarnan við þegar það segir að því finnist eitthvað áhugavert. Þetta er mjög áhugaverð hugmynd, þetta eru áhugaverð viðbrögð við því sem er við sjóndeildarhringinn og við erum þegar farin að verða vör við sem er sjálfvirknivæðing með þeim afleiðingum að alls konar störf hverfa og svo þetta hark-hagkerfi svokallaða sem snýst um tímabundin störf sem réttindi fylgja ekki með. En ég myndi samt telja að hér sé verið að bregðast við ástandi sem ekki er alveg komið, þ.e. ástandið þar sem tækifærin eru af mjög skornum skammti til að fá vinnu og til að framfleyta sér. Það er enn ekki svo komið. Og ég er nú enn svo gamaldags, kannski, má segja, að ég aðhyllist úrræði hefðbundinnar jafnaðarstefnu sem er að jafna kjörin í gegnum tekjuskattskerfið, námslánakerfið, húsnæðiskerfið, gegnum barnabætur, ekki síst, og almannatryggingar. Brýnast er núna að bæta aðbúnað og kjör ungs barnafólks sem (Forseti hringir.) þarf að leggja í allt of mikinn kostnað og allt of fjárfrekar aðgerðir við að sinna lágmarksþörfum fjölskyldunnar.



[14:54]
Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir þessa góðu umræðu og ráðherra fyrir hans svör og í raun öllum þeim sem tekið hafa þátt í umræðunni. Það er ótrúlega margt sem hefur komið fram sem veldur því að hugurinn fer á flakk. Ég verð að segja að ég kaupi ekki alveg hugmyndina eins og hún er lögð fram en það má vinna með hana og gera ýmislegt úr henni. Það var sérstaklega talað um að þetta gæti haft í för með sér neikvæða hvata á vilja fólks til vinnu og þá ungs fólks og námsmanna. Að minni reynslu sem stjórnanda með ungt fólk í sumarvinnu er ekkert skemmtilegra en vorin þegar krakkarnir koma í vinnu og eru að kynnast nýjum störfum. Mörg hver velja sér ævistarf út frá því sem verið er að gera á sumrin. Þarna er ég helst að horfa á menntaskólaaldurinn en svo fær fólk þjálfun í því sem það velur sér til að hafa lífsviðurværi af seinna þegar það vinnur með háskólanámi eða verknámi og öðru slíku. Þannig að ég myndi segja að ég hræðist svolítið að þetta dragi úr því að krakkar komi og vinni á sumrin og kynnist þá einhverju sem þeim hafði alls ekki komið til hugar að vinna við áður og gefur þeim aukin tækifæri. Krakkar á suðvesturhorninu hafa oft ekki úr miklu að moða þannig að svæðin okkur úti á landi fyllast lífi þegar krakkarnir koma og kynnast líka bara landinu sínu. Margir fara svo jafnvel í sjálfstæðan atvinnurekstur eftir að hafa verið úti á landi. Þar gætum við t.d. nýtt þessa peninga í nýsköpun, í verkefni og annað fyrir nýútskrifaða listamenn eða fjallaleiðsögumenn eða annað slíkt, til að koma undir sig fótunum seinna í lífinu.



[14:56]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég hef tvær mínútur, ég veit ekki hvar ég á að byrja. En mér finnst bara mikilvægt að tala aðeins um að þessi hugmynd, eins og hæstv. fjármálaráðherra nefndi, er ekkert ný. Einn helsti talsmaður hennar er Milton Friedman sem er þekktasti hagfræðingur frjálshyggjunnar. Sú útgáfa sem hér er til umræðu, útgreiðsla ónýtts persónuafsláttar á Íslandi, er meira að segja ívið minni í sniðum en upprunalega hugmyndin um neikvæðan tekjuskatt vegna þess að persónuafslátturinn á mánuði er mjög lágur. En tækifærin sem felast í aðgerðinni eru engu að síður fjölmörg.

Það sem mér finnst kannski mikilvægt að ræða líka er hvernig eigi að borga fyrir þetta. Þetta er ekkert ódýrt, það er rétt. En það er langt frá því að vera óyfirstíganlegt vandamál. Upphæðin er hófleg og vel hægt að gera ráð fyrir henni án þess að setja rekstur ríkisins á hliðina. Ég held að við séum ekki að tala um þannig upphæðir. Fjórðungur upphæðarinnar ratar beint aftur inn í kerfið í formi virðisaukaskatts og framlög til LÍN munu lækka að einhverju marki og fljótlega mun svo árangur aðgerðarinnar tikka inn, t.d. í minni kostnaði við brottfall nemanda, en hann hleypur á tugum milljarða á hverju ári. Mikilvægi þessa sem ég er að tala um hérna er að við sem hér sitjum og ríkisstjórnin tökum að okkur smáfrumkvöðlahugsun, þ.e. nýsköpunarhugsun, horfum aðeins út fyrir kassann og prófum nýja hluti. Þetta er ekki útúrfríkuð hugmynd. The Economist er að tala um þetta. Milton Friedman hefur talað um þetta. Obama hefur talað um þetta. Það eru fjölmargir þekktir aðilar og vel metnir hagfræðingar sem hafa talað um þessa hugmynd og það er verið að setja hana í samhengi við fjórðu iðnbyltinguna og hvernig við sem samfélag eigum að bregðast við henni.

Mér finnst afleitt að hlusta á þingmenn eins og hv. þm. Óli Björn Kárason tala um að það sé ekki hægt að gera þetta því að ungu fólki sé ekki treystandi fyrir þessum peningum, það muni bara eyða honum í vitleysu og fara til útlanda eða í eitthvert rugl. Hvað er þetta? Þetta er keimlíkt umræðunni um að það eigi ekki að gefa fátæku fólki pening, það fari bara beint út í búð og kaupi sér áfengi og tóbak og vímuefni. Það er bara búið að sýna það með rannsóknum og tilraunum að þetta er rangt. Þetta er rangt og við getum alveg treyst ungu fólki og 60.000 kall — við erum að tala um það, útgreiddur, ónýttur persónuafsláttur, 60.000 kall — er ekki bara að stoppa fólk við að fara í vinnuna. Af hverju er okkur svona annt um að senda ungt fólk í sumarvinnu? (Forseti hringir.) Það búið að vera tíu mánuði ársins í hörðu námi. Má það ekki fá sér smáfrí ? Ef sumarvinnan er svona æðislega skemmtileg fær það sér hana þrátt fyrir að fá 60.000 kr. á mánuði frá ríkinu í útgreiddan persónuafslátt eða persónuarð, eins og ég kýs að kalla það hér með.



[14:59]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er stór umræða sem krefst þess að maður taki með í reikninginn öll önnur stuðningskerfi sem við erum með í tekjuskattskerfinu og bótakerfunum. Staðreyndin er sú að tilfærslur, útgreiddar bætur af ýmsum toga, hafa verið að vaxa mjög verulega á undanförnum árum. Það er í raun og veru ekki mögulegt að taka einangraðan þátt eins og persónuafsláttinn og segja: Það eru til talsmenn þess að greiða út persónuafsláttinn ónýttan, og láta sem svo að þeir séu með slíka hugmyndafræði alveg óháð öllu öðru sem við erum að gera. Það er auðvitað ekki þannig. Við erum með fjölmörg önnur stuðningskerfi til að styðja við atvinnulausa og tekjulága. Ef við spyrjum okkur bara þessara grundvallarspurninga: Hvaða vanda er verið að reyna að leysa með þessari hugmynd? Við hverju er verið að bregðast og til hvaða hóps værum við sérstaklega að ná? finnst mér í raun og veru koma mörg svör. Eins og ég rakti hér áðan færi tæplega helmingur af heildarstuðningnum til fólks sem er undir tvítugu sem þó býr við þær aðstæður að séu menn tilbúnir til að leggja eitthvað á sig, t.d. að sumri til í vinnu, þá eru fyrstu krónurnar skattfrjálsar, skattbyrðin í algeru lágmarki. Þannig er skattkerfið okkar hvetjandi til þess að leggja eitthvað á sig.

Ég veit það ekki. Ég horfi bara þannig á þetta mál að það væri eitthvað óeðlilegt við það að sumir myndu ákveða að sitja heima með hendur í vösum og þiggja 60.000 kr. meðan aðrir væru að spyrja sig: Bíddu, til hvers er ég að þessu? Mér verður hugsað til samtals sem ég átti við 15–16 ára stelpur um daginn sem hafa verið að leggja það á sig að vinna í ísbúðinni með námi til að eiga einhvern vasapening. Ég held að þær væru fljótar að sjá það í hendi sér að það hreinlega borgar sig ekki þegar sá sem er á næsta stól í bekknum fær sendan tékkann án þess að leggja neitt á sig. (Forseti hringir.) Ég held bara að almennt eigi ekki að vera að senda þau skilaboð út í samfélagið að það sé hægt að fá eitthvað mikið fyrir ekki neitt.