150. löggjafarþing — 55. fundur
 30. janúar 2020.
lögþvinguð sameining sveitarfélaga.

[10:38]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er ein af þeim sem hæstv. ráðherra var eiginlega að setja ofan í við hér í gær þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu; ein af þeim sem kyjuðu sönginn um sjálfræði sveitarfélaganna og kyrjuðu sönginn um að það væri algerlega ólíðandi að ætla að lögþvinga sveitarfélag sem ekki kærði sig um sameiningu í slíka sameiningu. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort honum þyki sjálfsagt að lögþvinga sveitarfélag í sameiningu, hvort sem íbúum þar líkar það betur eða verr. Ráðherra orðaði það svo í framsögu sinni hér í gær, þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu: Ef þau væru ekki sjálfbær, ef þau gætu ekki rekið sig sjálf. En nú þekkjum við lítil sveitarfélög sem eru sjálfbær og geta rekið sig sjálf og kæra sig ekki um sameiningu á sama tíma og við þurfum að horfast í augu við það að í raun eigi að lögþvinga þau í slíka aðgerð.

Ég ætla ekki að fara að rökræða við hæstv. ráðherra um það hvað 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar felur í sér um sjálfstæði sveitarfélaga heldur er ég að tala um lögþvingun. Ég er að tala um aðför að þeirra lýðræði, þeirra frelsi til að lifa sjálfstæðu lífi þegar þau eru sjálfbær til þess. Finnst hæstv. ráðherra það sem sagt alveg sjálfsagt að stíga inn og framkvæma slíkar aðgerðir þrátt fyrir það sem á undan er sagt? Og þá er ég ekki að tala um þau sem virkilega vilja sameiningu og kalla hreinlega eftir henni og allan hópinn sem er sammála ráðherra, ég er að tala um hópinn sem er það ekki.



[10:40]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir að taka þetta upp og við getum kannski aðeins dýpkað umræðu sem erfitt var að fara í í atkvæðaskýringum og mínúturæðum í gær. Mér fannst í afstöðu sumra þingmanna og sérstaklega í útskýringum þeirra að þeir hefðu misskilið málið að nokkru leyti. Málið er auðvitað þannig til komið að menn hafa í mjög langan tíma, og ég býst við að hv. þingmaður deili þeirri skoðun með flestum Íslendingum, talið mjög mikilvægt að stjórnsýslustigið, sveitarstjórnarstigið, sé öflugt og sjálfbært og geti tekist á við þau verkefni sem við hér, löggjafinn, felum þeim og það sé algerlega óumdeilt að löggjafinn geti gert það, bæði tekið verkefni af sveitarfélögum en einnig fært þeim önnur verkefni.

Þetta mál er þannig vaxið að það er unnið í samráði við sveitarfélögin, mjög nánu, í mjög langan tíma. Ég lýsti því hér í gær að það væri byggt á skýrslu sem kom fram fyrir tveimur árum sem hafði verið unnin á árunum þar á undan í samskiptum við öll sveitarfélögin og síðan skipuð sérstök samráðsnefnd með fulltrúum sveitarfélaga landsins og þau fjölluðu sérstaklega um málið á sínu aukalandsþingi þar sem mjög stór og afgerandi meiri hluti studdi það að þetta væri aðgerð sem snerti allt sveitarstjórnarstigið. Það breytir því ekki að auðvitað eru alltaf á einhverjum tíma aðilar sem mál varða, eins og í þessu tilfelli einstök sveitarfélög, sem eru kannski ekki nákvæmlega sammála þeim 90% sem telja að þetta sé nauðsynlegt til þess að efla og styrkja sveitarstjórnarstigið. Ég minni á að þarna eru ellefu aðgerðir. Það hafa áður verið ákvæði um lágmarksíbúafjölda þannig að það er ekki nýtt. Löggjafinn hefur áður tekið slíkar ákvarðanir og löggjafinn hefur áður haft talsverð áhrif á umfang og stærð og verkefni sveitarfélaga þannig að ég tel að þetta sé ekki lögþvingað. (Forseti hringir.) Menn hafa talsverðan tíma til að koma til móts við þetta og í frumvarpssmíðinni verður líka tekið tillit til þeirra athugasemda sem koma fram hjá þinginu og birtust í gær.



[10:42]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á þessu nema hæstv. ráðherra sé að segja að honum þyki sjálfsagt að lögþvinga sveitarfélög, að þótt þau séu sjálfbær sé það bara löggjafans að ákveða að þau séu samt sem áður ekki nógu hagkvæm og þau skuli sameina. Hann vísar í fulltrúana sem eru í stjórnum sveitarfélaga, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og öðru slíku. Ég sé ekki fyrir mér að við getum kannski safnað 10–20 manns í hverjum kosningum og látið þá fara inn í kjörklefann í umboði okkar allra hinna. Ég tel að hvert og eitt einasta okkar eigi að fá að njóta sín og það sé lýðræði, að við eigum sjálf að fá að kjósa og segja til um hvað okkur finnst, hvað við viljum. Í þessu tilviki þegar lítið sveitarfélag er sjálfbært og við þurfum ekki að greiða með því og það stendur undir sér sjálft þá finnst mér sannarlega eðlilegt og sjálfsagt, í því réttarríki og því lýðræðisskipulagi sem við viljum vera láta að við búum við, að það fái að njóta vafans og fá að halda sínu algerlega án okkar íhlutunar og lögþvingunar.



[10:44]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður talaði um sveitarfélög sem væru fullkomlega sjálfbær og þyrftu ekki á öðrum stuðningi að halda. Þá gleymir hv. þingmaður því kannski að löggjafinn hefur einmitt búið til verkfæri jöfnunarsjóðs sem mjög mörg af minni sveitarfélögunum hafa stóran hluta af tekjum sínum úr. Hv. þingmaður gleymir því líka að samkvæmt núgildandi sveitarstjórnarlögum hafa menn fyrst og fremst tvær leiðir um samstarf. En þegar ráðuneytið kannaði fyrir nokkrum árum hvernig því væri háttað voru gjarnan 20–25 samstarfssamningar inni í myndinni en flestir þeirra voru ekki byggðir á sveitarstjórnarlögum heldur fóru menn aðra leið. Menn eru alltaf að leita allra leiða til að standa undir lögboðnum verkefnum og hafa staðið sig býsna vel. En það er hins vegar samdóma álit mjög margra, og ég endurtek ekki nákvæmlega allra, að til þess að sveitarstjórnarstigið geti verið öflugt og sjálfbært, tekist á við framkvæmdarvaldið og átt eðlileg samskipti við löggjafann sé mikilvægt að sveitarstjórnarstigið sé stærra, að sveitarfélögin séu öflugri og stærri og þess vegna er þessi þingsályktunartillaga komin fram. En frumvarpið sem við þurfum að smíða þarf auðvitað að byggja á þeim sjónarmiðum sem komu m.a. fram í þingsal og í nefndaráliti og áliti einstakra þingmanna hér í gær.