150. löggjafarþing — 55. fundur
 30. janúar 2020.
nýting og vistfræðileg þýðing loðnustofnsins 2000 - 2019, munnleg skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

[11:47]
Forseti (Brynjar Níelsson):

Samið hefur verið um fyrirkomulag umræðunnar. Ráðherra hefur 10 mínútur til framsögu og 2 mínútur í lok umræðunnar. Einnig hefur fulltrúi flokksins sem óskaði eftir skýrslunni 2 mínútur undir lok umræðunnar. Að öðru leyti skiptist ræðutími svo á milli þingflokka: Flokkur fólksins 8 mínútur, Miðflokkurinn 12 mínútur, Samfylkingin 11 mínútur, Sjálfstæðisflokkurinn 11 mínútur, Píratar 11 mínútur, Framsóknarflokkur 12 mínútur, Viðreisn 9 mínútur og Vinstrihreyfingin – grænt framboð 13 mínútur.



[11:47]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu um nýtingu og vistfræðilega þýðingu loðnustofnsins fyrir árin 2000–2019. Sú skýrsla sem liggur til grundvallar þessari umræðu er nokkuð umfangsmikil og hún er rúmlega 200 síður en áður en ég kem beint að efni hennar vil ég fara nokkrum orðum yfir sérstaka áherslu stjórnvalda á loðnurannsóknir á þessu kjörtímabili.

Samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun fóru fjárframlög til loðnurannsókna úr 351 millj. kr. árið 2017 í 424 millj. kr. árið 2018. Þannig hafa stjórnvöld á þessu kjörtímabili forgangsraðað fjármunum í þágu loðnurannsókna og í samræmi við þetta hefur leit að loðnu aldrei verið jafn víðtæk og umfangsmikil og á síðasta fiskveiðiári. Þannig var m.a. í fyrsta skipti farið til loðnuleitar í samstarfi við Grænlendinga til að leita upplýsinga um orsakir þeirra miklu breytinga sem hafa orðið á loðnunni og útbreiðslu hennar undanfarin ár. Þrátt fyrir þetta gáfu niðurstöður þessara miklu rannsókna ekki tilefni til að hefja loðnuveiðar.

Hinn 13. janúar sl. hófst loðnuleit þessa árs. Leitin var umfangsmikil en alls tóku fimm skip þátt í leitinni. Eins og komið hefur fram hefur hún lítinn árangur borið enn sem komið er, en áfram verður leitað og haldið verður aftur til mælinga í byrjun febrúar. Vonandi ber þetta verk árangur enda miklir hagsmunir í húfi fyrir fólk og fyrirtæki og raunar samfélagið allt. Það yrði mikið högg, m.a. fyrir sveitarfélög líkt og Vestmannaeyjar, sveitarfélögin á Suðausturlandi og á Austurlandi, ef loðnubrestur yrði annað árið í röð.

Virðulegi forseti. Ég vil hefja yfirferð um efni skýrslunnar á umfjöllun um ástand og framtíðarhorfur loðnustofnsins. Síðastliðin 20 ár hefur útflutningsverðmæti loðnuafurða verið á bilinu 3–34 milljarðar kr. Það er því ljóst að loðnan er einn af mikilvægustu nytjastofnum Íslandsmiða þegar vel árar og hún er ekki bara mikilvæg vegna veiðanna heldur er hún einnig stór hluti fæðu margra annarra nytjastofna og því ein af lykiltegundum í vistkerfi Íslandsmiða. Þar sem langstærstur hluti hrygningarstofnsins drepst að lokinni hrygningu í mars samanstendur veiðistofn loðnu að mestu af einum árgangi, þ.e. þriggja ára loðnu. Vegna þess hve lífsferill loðnunnar er stuttur er erfitt að leggja mat á stærð hrygningarstofnsins. Það helgast m.a. af því að matið byggir að mestu á mælingum sem fara fram mánuðina september til október og vikurnar í janúar og febrúar áður en hrygning á sér stað.

Horfur fyrir vertíðina sem nú ætti að vera í fullum gangi hafa ekki verið góðar miðað við þær upplýsingar sem eru fyrirliggjandi. Samkvæmt mælingum Hafrannsóknastofnunar haustið 2019 er hrygningarstofn loðnu einungis metinn um 186.000 tonn og stofnunin hefur gefið út að mjög lítið hafi fundist í nýafstöðnum leiðangri sem lauk í síðustu viku, eins og ég nefndi áðan.

Ráðgjöf um aflamark byggist á því að 95% líkur séu á að hrygningarstofninn í mars verði yfir 150.000 tonnum. Samkvæmt framreikningum mælinganna frá því síðastliðið haust munu viðmið um aflareglu ekki nást jafnvel þótt engar veiðar verði stundaðar í vetur. Vísitala ungfisks var hins vegar sú hæsta síðan árið 2010 og það gefur vonir um að ástand stofnsins gæti farið að skána, að veiðar geti verið leyfðar vertíðina 2020/2021. Það verður því fróðlegt að fylgjast með mælingum Hafrannsóknastofnunar næsta haust.

Í skýrslunni er fjallað sérstaklega um hugsanleg áhrif loðnu á meðalþyngd þorsks. Margir hafa lýst áhyggjum af áhrifum minnkandi loðnustofns á vöxt þeirra nytjastofna sem éta loðnu. Frá því að mælingar á stærð stofnsins hófust og fram undir aldamót var góð fylgni milli meðalþyngd þorsks eftir aldri í afla fiskiskipa og stærðar loðnustofns hjá algengustu aldursflokkum í veiðinni, þ.e. 4–7 ára þorsks. Þetta hefur breyst, trúlega vegna breytts atferlis og útbreiðslu loðnu í tengslum við breytt umhverfisskilyrði en e.t.v. einnig vegna breytinga í fæðuvali eða fæðuframboði þorsks. Þá getur fleira haft áhrif á meðalþyngd þorsks eftir aldri og afla, svo sem á hvaða árstíma hann er veiddur og e.t.v. einnig í hvaða veiðarfæri. Fæða ungþorsks er töluvert frábrugðin fæðu stærri og eldri fisks sem ræðst að sjálfsögðu af stærð fisksins og því að hann heldur sig að mestu á grunnslóð. Hlutdeild loðnu hefur farið minnkandi á undanförnum árum. Hlutdeild ljósátu og hlutdeild rækju hafa haldist nokkuð svipuð.

Árið 2015 var tekin upp ný aflaregla við ákvörðun á aflamarki loðnu. Þar er m.a. tekið tillit til afráns þorsks, ýsu og ufsa og loðnu frá því að stofnmælingu á loðnu lýkur og fram að hrygningu. Beitt er svokölluð afránslíkani sem nýtir gögn um áætlaða stofnstærð og dreifingu framangreindra botnfiska, fæðu þeirra og meltingarhraða. Líkanið er látið meta afránið frá þeim tíma sem vetrarmælingum er lokið þannig að spátíminn er yfirleitt frekar stuttur eða innan við tveir mánuðir. Þannig var t.d. á tímabilinu 15. janúar til 15. mars 2018 metið að um 220.000 tonn af loðnu hafi verið étin af þorski, ýsu og ufsa, þar af hafi þorskurinn étið um 150.000 tonn. Þetta varð til þess að ráðlagt aflamark vertíðina 2017/2018 var lægra en sem nam áætluðu afráni enda veiðistofninn lítill. Þannig tekur núverandi aflaregla betur en sú gamla til breytinga í stærð helstu nytjastofna sem nýta loðnu sem fæðu og eykst metið afrán þegar þeir stofnar stækka. Enda þótt núverandi aflaregla sé heldur varkárari en fyrri regla sem ekki tók tillit til óvissu í mælingu stofnsins er ljóst að breyting aflareglunnar er ekki ástæða fyrir minnkandi veiði úr stofninum undanfarna tvo áratugi eða svo.

Virðulegi forseti. Mikið hefur verið rætt um áhrif stækkandi hvalastofna á stærð loðnustofnsins. Hrefnu hefur fækkað mikið á grunnsævi við Ísland en hnúfubak fjölgað að sama skapi og hefur hnúfubakurinn tekið við af hrefnu sem ríkjandi tegund skíðishvala á landgrunni Íslands. Útbreiðsla hrefnu virðist hafa hliðrast norður, langreyði hefur fjölgað mikið við landið en sú tegund heldur sig mest utan landgrunnssvæðisins. Samkvæmt mati frá 1997 var heildarafrán 12 tegunda hvala við landið metið um 6 milljónir tonna á ári. Leiddar hafa verið líkur að því að skiptingin væri u.þ.b. á þann veg: 3 milljónir tonna af krabbadýrum eða átu, 2 milljónir af fiski og 1 milljón tonna af smokkfiski. Séu útreikningar uppfærðir miðað við nýjustu upplýsingar um stofnstærðir og fæðuval hefur afránið í heild aukist og reiknast 7,6 milljónir tonna, þar af 3,3 milljónir tonna í fiski. Stórtækustu afræningjarnir eru langreyður, hrefna og hnúfubakur.

Þótt þessir útreikningar Hafró séu einungis uppfært mat á útreikningum sem gerðir voru 1997 sýna þeir að aukning hefur átt sér stað í áti hvalastofna við landið. Hnúfubak hefur mikið fjölgað á undanförnum áratugum og vísbendingar eru um að hver hnúfubakur éti meira af fullorðinni loðnu en aðrir skíðishvalir og fylgja þeir gjarnan loðnugöngum eftir alveg fram að hrygningu.

Af öðrum afræningjum á loðnu má nefna sjófugla. Á Íslandi verpa 24 tegundir sjófugla en þær tegundir sem helst nýta sér loðnu sem fæðu eru lundi, fýll, langvía, stuttnefja, álka og rita. Litlar rannsóknir hafi verið stundaðar á tengslum sjófugla og loðnu á undanförnum árum en samkvæmt rannsóknum sem birtar voru árið 1997 var talið að sjófuglar éti rúmlega 200.000 tonn af loðnu á ári.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum fjalla stuttlega um hugsanleg áhrif hlýnunar sjávar á loðnustofninn. Síðustu tvö til þrjú ár hefur verið áberandi að yfirborðshiti sjávar á hafsvæðinu við land að vetri hefur verið hærri en árin þar á undan. Ástæða er til að ætla að breytt hitafar og breytt staða skili kaldari sjó úr norðri og leifar hlýsjávar úr suðri á svæðinu norðan og austan landsins hafi áhrif á göngu loðnu á þessum slóðum. Fullorðin loðna sækir æti sitt norður í kaldan sjó Íslandshafs og í Grænlandssundi á sumrin þar sem hún meira en þrefaldar þyngd sína og fitnar. Á haustin gengur hún til baka upp á íslenska landgrunnið og ber þangað orku af norðlægum slóðum. Enda þótt ekki sé hægt að fullyrða um áhrif hlýnunar sjávar á stærð loðnustofnsins eru vísbendingar í þá átt að tengsl séu þar á milli. Sýnt hefur verið fram á að dreifing ungloðnu sem og fullorðinnar loðnu er ólík því sem var allt frá því að rannsóknir hófust á áttunda áratug síðustu aldar og fram undir aldamót. Breytingar á útbreiðslunni gætu þannig verið ástæða þess að minna af loðnu virðist komast á legg en áður sem skilar sér í minnkandi veiðistofni. Sjá má af gögnum frá Hafrannsóknastofnun að samhliða hlýnuninni sem hófst upp úr miðjum tíunda áratug síðustu aldar minnkaði meðalstærð stofnsins sem og veiðin. Þetta endurspeglast síðan í veiðinni en síðastliðinn aldarfjórðung hefur ársafli loðnu verið mjög sveiflukenndur, þrisvar sinnum farið yfir milljón tonn og þrisvar sinnum verið undir 100.000 tonnum, þar með talið síðastliðið ár þar sem engin loðna var veidd.

Ef borin er saman meðalveiði áranna 1980–2000 og síðan 2000–2015 sést glögglega hversu miklar breytingar hafa átt sér stað varðandi veiðina. Þannig breyttist meðalafli úr rúmlega 900.000 tonnum á ári á fyrrgreindu 20 ára tímabili í rétt rúmlega 300.000 tonn síðustu 15 árin. Enda þótt sveiflur séu í afla bæði tímabilin tel ég að þessar tölur sýni að loðnustofninn hafi átt erfitt í þeim hlýindum sem komið hafa fram í hafinu norðan Íslands undanfarinn aldarfjórðung.

Það er ljóst að rannsóknir á loðnustofninum og tengslum loðnunnar við aðrar lífverur í hafinu umhverfis Ísland hafa verið allt of takmarkaðar. Til að efla þær rannsóknir sem og vöktun á stærð stofnsins ákvað Alþingi að veita auknum fjármunum í verkefnið árin 2018–2022. Það er von mín að sú innspýting í rannsóknir nái á komandi árum að auka þekkingu okkar á stofninum og að við náum að skýra ástæður þess að loðnustofninn, þessi mikilvæga auðlind þjóðarinnar, hafi átt undir högg að sækja á undanförnum áratugum.



[11:57]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir ræðu hans og skýrsluna sem hér er til umræðu, um nýtingu og vistfræðilega þýðingu loðnustofnsins á árunum 2000–2019. Ég var 1. flutningsmaður þingmálsins sem fól í sér skýrslubeiðnina en ásamt mér voru 16 þingmenn úr Flokki fólksins og Samfylkingu, Viðreisn og Pírötum með á málinu. Ég vona að mér fyrirgefist að telja þau ekki öll upp hér því að ræðutíminn er naumur.

Beiðni um þessa skýrslu var lögð fram 18. mars í fyrra þegar ljóst var að engin loðnuveiði yrði á síðasta vetri. Lagðar voru fram 17 spurningar með það í huga að fá heildarmynd yfir það hvað gerst hefur í veiðistjórnun og nýtingu á loðnustofninum allt frá aldamótum. Ég vil þakka starfsmönnum Hafrannsóknastofnunar, Fiskistofu og Hagstofu fyrir þeirra greinargóðu svör.

Nú er ljóst að dökkar horfur eru í loðnuvertíð í vetur og mjög umfangsmikil leit nú í janúar austur, norður og vestur af landinu skilaði litlu sem engu. Það er mjög alvarlegt áfall fyrir atvinnulíf og efnahag þjóðarinnar þegar fiskstofn á borð við loðnu hrynur. Það er ekki hægt að tala um neitt annað en hrun, virðulegur forseti, þegar lítið eða ekkert er hægt að veiða úr næststærsta nytjastofni þjóðarinnar um árabil og framtíðarhorfur varðandi nýtingu stofnsins eru dökkar. Í þessari skýrslu, á bls. 177, kemur fram að loðnan hefur að jafnaði staðið fyrir nálega 10% af árlegu heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða frá aldamótum, árlegu verðmæti sem hleypur á tugum milljarða. Hrun loðnustofnsins er fjárhagslegt reiðarslag, ekki bara fyrir þjóðarbúið, ríki og sveitarfélög, heldur líka fyrir landsbyggðina, íbúa í sjávarbyggðum, svo sem á Austfjörðum, Hornafirði og í Vestmannaeyjum og víðar.

En það eru fleiri þættir í myndinni. Loðnan skiptir líka afar miklu máli fyrir vistkerfi í náttúru Íslands, bæði fyrir sjófugla en ekki síður lífríkið í hafinu. Hún er mikilvæg fæða fyrir aðra stofna fiska og hryggleysingja og þar ber helst að nefna þorskinn sem er okkar verðmætasti nytjastofn. Þegar rætt er um loðnustofninn þarf því að hafa marga þætti í huga. Það var beðið um þessa skýrslu svo að Alþingi mætti fá upplýsingar sem gætu hjálpað til við að takast á við þann vanda og þær hættur sem hrun loðnustofnsins hefur í för með sér.

Þegar skýrslan er lesin vakna ýmsar spurningar. Í henni kemur glöggt fram að gríðarmiklum tíma og fjármunum hefur verið eytt í loðnuleit í gegnum tíðina, finna og mæla loðnu svo að hægt væri að gefa út kvóta. Einhvern veginn þykir mér sem minna hafi farið fyrir líf- og vistfræðilegum rannsóknum á loðnustofninum. Loðnan er búin að vera í vandræðum í töluverðan tíma, nýliðun léleg nánast í hverjum einasta árgangi frá árinu 2001, eins og sjá má á bls. 15. Hrun loðnunnar er ekki nýhafið. Það hófst þá. Því verður ekki einvörðungu skellt á loðnar útskýringar um umhverfisbreytingar og hlýnun í hafinu. Við lestur þessarar skýrslu vakna nefnilega grunsemdir um að við Íslendingar höfum ekki verið til fyrirmyndar í nýtingu loðnustofnsins og það sé nú að koma okkur rækilega í koll.

Allt frá árinu 2005 fer að draga mjög úr útgefnum loðnukvótum vegna þess að það mælist ekki mjög mikið af loðnu, eins og sjá má á bls. 5. Heildartillögur náðu síðast milljón tonna kvótanum árið 2003 en síðan hefur hann alltaf verið minni. Síðustu árin fyrir algert veiðibann var hann langt undir 500 þús. tonnum. Spyrja má hvort ekki hefði verið tilefni til alveg sérstakrar varúðar þegar loðnukvóti var aðeins á bilinu 173.000–285.000 tonn eins og á árunum 2015–2018 þar sem menn leituðust við að veiða sem mest til hrognatöku. Þessi litli fiskur var veiddur upp loks kominn að hrygningu til að ná úr honum hrognunum sem áttu að verða undirstaða fyrir nýja kynslóð loðnu. Voru þetta alvarleg og afgerandi mistök? Var gengið of nærri hrygningarstofninum? Hefði verið réttara að banna veiðar til að tryggja að sem mest af þeirri litlu loðnu sem þá var til fengi að hrygna í friði? Voru gerð mistök í veiðiráðgjöf og veiðistýringu? Var þetta rányrkja? Í kjölfar þessara ára verður algjör nýliðunarbrestur og stofninn hrynur.

Annað sem vekur athygli mína, virðulegi forseti, er það að gegndarlausar loðnuveiðar með flotvörpu hafi verið leyfðar norður og austur af landinu, eins og sjá má á bls. 6 og 8 í skýrslunni. Þá er loðnan á göngu norðan úr höfum suður með Austfjörðum. Segja má að þetta sé eitt mikilvægasta skeið hrygningargöngunnar. Þarna hafa menn kosið að mæta henni með dregnum veiðarfærum og hér voru Íslendingar langstórtækastir. Ég fæ ekki betur séð af töflu á bls. 193 í skýrslunni en að af heildarloðnuveiðum upp á 9 milljónir tonna frá aldamótum höfum við Íslendingar veitt tæpar 2 milljónir tonna í flottrollið eða sem nemur um fimmtungi. Flotvörpuveiðarnar eru mjög umdeildar. Það heyrir maður vel ef rætt er við sjómenn. Fullyrt er að þær sundri torfum og trufli göngu þeirra. Fiskur drepst við að fara í gegnum möskva, rannsóknir skila óljósum niðurstöðum. Hvers vegna í ósköpunum er loðnan ekki látin njóta vafans, beitt varúðarreglu sem annars er talin til góðra gilda í náttúruvernd og flottrollsveiðarnar bannaðar? Menn geta bara veitt loðnuna í nót sem er allt annað veiðarfæri en troll. Nótin lokar af torfu að hluta eða hluta úr torfu en sundrar henni ekki eins og flottrollið. Hér áður fyrr var öll loðna einvörðungu veitt í nætur og það gekk alveg ágætlega. En nú skal endilega skarkað í henni með risastórum togveiðarfærum á öflugustu fiskiskipum sem við höfum séð í kringum landið þegar hún er að ganga upp að landinu. Hverjum dettur eiginlega í hug að leyfa svona lagað?

Við skulum athuga það, virðulegi forseti, að nýting loðnustofnsins snýst öðrum þræði um vernd á náttúru og lífríki landsins Íslands. Með loðnuveiðunum erum við að fikta í viðkvæmu úrverki, sjálfum vélbúnaðinum sem knýr áfram gangverkið í því sem hafa verið ein auðugustu fiskimið í heimi. Hvað er það sem gerir þennan litla og næringarmikla laxfisk svo mikilvægan? Jú, við skulum aðeins leiða hugann að því, og nú vona ég að þingheimur hlusti, að á hverju ári verður stórkostlegt ævintýri að veruleika í Íshafinu norður af Íslandi þar sem kaldir straumar úr Dumbshafi mæta hlýrri sjávarstraumum að sunnan. Þarna er geysileg frumframleiðni og næringarframleiðsla í sjónum á vorin og sumrin þegar dagsbirta og sól er nánast allan sólarhringinn. Þarna verður loðnan til, þéttvaxinn en lítill fitu- og orkuríkur fiskur sem verður til við að éta svifdýr. Við eðlilegar aðstæður verður geysimikil næring til í þessum fiski. Eftir að framleiðslutímanum er lokið seint á haustin hefur þessi fiskur göngu suður á bóginn upp að Íslandi. Hann á að öllu jöfnu að ganga suður með Austfjörðum eftir landgrunninu við suðurströndina inn á Faxaflóa og Breiðafjörð þar sem hann hrygnir og drepst. Eitthvað af loðnu kemur líka norðan úr höfum beint upp að Norðurlandi eða gengur suður með Vestfjörðum. Allt þetta gerist á svipuðum tíma og þorskurinn okkar er að fara að hrygna og hann þarf næringu til að eiga fyrir henni ef ekki á illa að fara. Loðnugöngur eru sjálf vélin sem flytur næringu og orku úr framleiðslu Íshafsins inn á íslensku grunnslóðina. Þetta er ein helsta undirstaða lífríkisins. Því þó að þessi loðna hrygni og drepist þá fer hún ekki út úr kerfinu. Hún verður mikilvægt æti fyrir aðrar lífverur sem mynda vistkerfið í hafinu allt árið um kring. Þetta verða menn að fara að skilja. Ef við þurrkum upp loðnuna þá spörkum við stoðunum ekki bara undan efnahag heldur líka undan sjálfu lífríkinu.

Loðnan hefur afar mikla þýðingu sem æti fyrir þorsk, ekki bara þegar þorskurinn er að alast upp heldur líka þegar hann er að undirbúa hrygningu. Það er ekki einleikið hve okkur hefur gengið illa að byggja upp þorskstofninn. Það er heldur ekki einleikið að þrátt fyrir að stjórnvöld státi sig af því að nýta fiskimiðin samkvæmt vísindalegri ráðgjöf eru margir aðrir nytjastofnar en loðnan hrundir. Hér má nefna humarinn og rækjuna sem eru tegundir sem lifa af lífrænum úrgangi á hafsbotni eða rétt yfir botninum. Eru kannski tengsl milli hruns þessara stofna og hruns loðnunnar? Þorskurinn okkar er nú að öllum líkindum í niðursveiflu. Vísitölur í togararöllum að hausti og vori fara hratt lækkandi eins og sjá má af nýrri skýrslu Hafró. Ekki kæmi á óvart þótt þorskkvótar yrðu minnkaðir verulega á þessu ári. Við sjáum að þorskurinn hefur miklu minna af loðnu að éta nú en áður. Er þorskurinn að dala nú þegar loðnan er hrunin?

Virðulegi forseti. Klukkan tifar hratt og synd hve lítinn tíma Alþingi fær til að tala um þetta afar mikilvæga mál sem er staða loðnunnar og lífríkisins í víðum skilningi. Hér hef ég aðeins náð að tæpa á nokkrum atriðum, hefði viljað tala um hvali og afkomu sjófugla. Ég vil líka mælast til þess að gert verði stórátak í hafrænum vistfræðirannsóknum á loðnu hér við land.



[12:07]
Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og þessa skýrslu og skýrslubeiðni hv. þm. Ingu Sæland og framsögu þeirra beggja, hæstv. ráðherra og hennar. Ráðherrann fór yfir staðreyndir úr skýrslunni og rannsóknum fræðinga. Ég hef velt fyrir mér þeirri spurningu núna í morgun hversu mikið við stjórnmálamenn eigum að fjalla um vísindi hér á Alþingi, þar sem vísindamenn eru sérfræðingar í vísindum. Þetta er mjög viðkvæmt og hefur raunar farið meira í þá áttina að við förum einvörðungu eftir ráðgjöf fiskifræðinga, t.d. í úthlutun aflahlutdeilda, og það er vel. Hér á árum áður vorum við meira að setja puttana í þetta sjálfir, eða ráðherrarnir, en nú er það orðið þannig að það er algjörlega farið eftir vísindamönnum og er það framför.

Þetta er alvarleg staða sem komin er upp í loðnu og það fara náttúrlega af stað alls konar lærðir og ólærðir vísindamenn til að finna orsök stöðunnar. Það sem maður hnýtur mest um eða vekur mesta athygli í skýrslunni er það að kaldari sjór hefur leitað norðar og loðnan er kaldsjávarfiskur og hefur þar af leiðandi elt þennan kalda sjó. Það hefur verið meira um það síðustu árin að loðnan hafi færst norðar og hefur verið erfiðara að finna hana nær. Allar vangaveltur um hvað sé veiðum að kenna og veiðarfærum eru náttúrlega réttlætanlegar en þær eru kannski ekki endilega alltaf réttar. Spurningin um hvort flottroll hafi mikil áhrif á göngu loðnunnar — ég hafði sjálfur miklar skoðanir á því fyrir nokkrum árum en hef svolítið mýkst í því eftir að hafa fengið upplýsingar hjá vísindamönnum um það. En að sjálfsögðu eigum við að gæta okkar í því með veiðarnar. Við erum rosalega háð því hvernig viðgangur lífríkis er og við ráðum ekkert mikið við það. Það er alveg sama hvað við rannsökum mikið, það framleiðir ekki fisk í sjónum. En það er um að gera að rannsaka samt sem áður orsök og ástæður þess hvernig lífríkið gengur fyrir sig. Þegar þetta kemur inn á borð okkar í stjórnmálunum erum við að mestum hluta að ræða um verðmæti. Auðvitað kemur þetta rosalega mikið við vissa staði og þjóðarbúið í heild ef það er staðreynd að við erum að fara núna inn í annað árið í röð þar sem verður ekki veidd loðna, þótt maður bindi veika von við að eitthvað verði hægt að veiða. En við höfum gengið í gegnum slíkt áður, eins og kom fram áðan, t.d. í sambandi við úthafsrækjuna. Mig langar líka að nefna karfann og svo er humarinn á válista.

Hér fyrir nokkrum árum var veitt mikið af þorski norður í Barentshafi, svokallaðar Smuguveiðar. Þær gengu það vel að þær voru farnar að skipta þjóðarbúið miklu máli og voru komnar inn á borð ríkisstjórnar eða stjórnmálanna, farið var að gera ráð fyrir þessum peningum í fjárlögum. Síðan klikkuðu þessar veiðar og þá varð að stroka þá út. Einhverjir fengu kvóta en hann er það lítill að menn eru jafnvel ekki að beygja sig eftir honum, en þarna var þetta farið að skipta miklu máli.

Ég vil bara segja að auðvitað verðum að ganga hægt um gleðinnar dyr þegar við erum að ræða þessi mál. Allar fullyrðingar eru erfiðar og samspil veiða og vísinda þarf að vera það sem við höfum í hávegum. Loðnan skiptir rosalega miklu máli í lífríkinu, sérstaklega fyrir þorsk og eins fyrir annan fisk eftir að hún hrygnir og leggst á botninn. Þetta er því grafalvarlegt mál. En öll stóryrði, allt sem lýtur að því að kenna einhverju um er mjög viðkvæmt og mér finnst að við eigum að ræða þetta með opnum huga og reyna að komast að því hvað veldur. Ég er enginn vísindamaður en ég dreg þá ályktun að það sé þessi færsla kaldari sjávar norður á við. Það kemur einmitt fram í skýrslunni að það sé ekki endilega samspil á milli kaldari sjávar og hlýnandi loftslags, sem er mjög athyglisvert. Það væri hægt að ræða þetta miklu lengur en ræðutíminn er að verða búinn. Ég þakka bara fyrir umræðuna og mun hlusta af athygli áfram.



[12:13]
Njörður Sigurðsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu. Það eru margir fletir á þessu máli og mig langar að ræða um tekjutap vegna loðnubrests fyrir þau samfélög sem hafa byggt upp myndarlega starfsemi í kringum loðnuvinnslu og mögulegar leiðir til að mæta slíku tekjutapi ef loðnubresturinn verður viðvarandi. Það er ljóst að loðnubrestur hefur veruleg áhrif á samfélögin en árið 2018 var útflutningsverðmæti loðnu næstum 18 milljarðar kr. Tekjutap ríkisins er mikið en mig langar að beina sjónum að áhrifum á samfélögin sem reiða sig á loðnuvinnslu.

Í fréttum Ríkisútvarpsins fyrir áramótin var fjallað um þessi áhrif. Ekki eingöngu varð gífurlegt tekjutap árið 2019 hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum heldur líka hjá fyrirtækjum sem þjóna sjávarútveginum, t.d. netagerðum, löndunarþjónustu og öðrum fyrirtækjum sem þjónusta sjávarútveginn á þeim stöðum þar sem unnið er með loðnu. Til samanburðar má nefna að framkvæmdastjóri Tandrabergs, löndunarþjónustu á Neskaupstað, taldi að samdráttur á milli áranna 2018 og 2019 hefði verið um 35%. Áhrif á starfsfólk sem vinnur við loðnuvinnslu eru jafnframt mikil, allt frá tekjutapi til atvinnumissis. Í sömu frétt Ríkisútvarpsins kemur fram að tekjur starfsmanna hafi lækkað um 10–20% á milli ára. Fyrir suma getur það munað allt að milljón krónum á ársgrunni.

Sveitarfélög verða líka af miklum tekjum við loðnubrest. Minnkandi tekjur íbúa leiða af sér lægri útsvarstekjur. Þá lækka einnig tekjur sveitarfélaganna af hafnargjöldum. Í skýrslu sem gerð var fyrir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi kom fram að hjá fimm sveitarfélögum var tekjutap vegna þessa frá 23,5 milljónum og upp í 280 millj. kr. Því er ljóst að tekjutapið hefur gífurleg áhrif á þau samfélög sem reiða sig á loðnuvinnslu, hvort sem litið er til sveitarfélaga, fyrirtækja eða starfsmanna. Ef um áframhaldandi loðnubrest verður að ræða er rétt að velta upp þeim möguleika hvort ríkið geti á einhvern hátt mætt þessu tekjutapi með mótvægisaðgerðum. Við höfum fyrirmyndir um slíkt þegar árið 2007 var farið í nokkuð umfangsmiklar mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar á þorskkvóta og var tæpum 14 milljörðum kr. varið í þær yfir nokkurra ára tímabil. Mótvægisaðgerðirnar á landsbyggðinni á sínum tíma voru fjölbreyttar, allt frá innslætti gamalla manntala til vegaframkvæmda og endurbóta á fasteignum ríkisins, og skiptu verulegu máli, einkum fyrir starfsfólk sem misst hafði störf sín við sjávarútveg.

Herra forseti. Það er mikið högg fyrir þau samfélög sem reiða sig á loðnuvinnslu þegar tekjur dragast svo mjög saman. Þó er rétt að halda til haga að loðnubrestur kemur misjafnlega niður á samfélögum en sem dæmi hefur aukning makrílkvóta vegið upp á móti tekjutapi á nokkrum stöðum. Ein leið til að mæta þessu tekjutapi væri að ríkisstjórnin færi í mótvægisaðgerðir eins og gert var árið 2007. Þá mætti jafnframt skoða að veiðigjald eða hluti þess renni til sveitarfélaga til uppbyggingar á fjölbreyttri atvinnustarfsemi og það sé þá í höndum sveitarfélaganna sjálfra að nýta fjármagnið.



[12:17]
Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Við ræðum ástand sem er uppi núna varðandi loðnuveiðar við Ísland og þá skýrslu sem út er komin. Í þessari ræðu ætla ég fyrst og fremst að leggja áherslu á samfélagslega þáttinn fyrir þær byggðir, sérstaklega á landsbyggðinni, sem lenda verst í loðnuleysinu. Við erum að upplifa það að loðna finnst ekki annað árið í röð og íslensk uppsjávarfyrirtæki og heilu byggðarlögin hafa þurft að mæta verkefnaleysi sem fylgir því og draga saman seglin. Ríkissjóður er hugsanlega að verða af 4–5 milljörðum en útflutningsverðmæti loðnu 2018 nam tæpum 18 milljörðum kr. og hafði verið á þeim nótum um þriggja ára skeið, um 18 milljarðar á ári. Mest var veiðin og verðmætin 2013, 34 milljarðar.

Loðnan er að jafnaði næstverðmætasta útflutningstegund íslensks sjávarútvegs. Á eftir loðnu í aflaverðmæti er karfi með 13,5 milljarða kr. verðmæti. Þorskurinn er náttúrlega í efsta sæti og hefur verið það um langt árabil. Loðnubresturinn hefur því mikil áhrif á samfélögin þar sem útgerðirnar rækja starfsemi sína, bæði á starfsmenn og bæjarsjóðina. Bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð hafa ein og sér metið tekjumissi sinn vegna loðnubrestsins árið 2019 á 260 milljónir. Það er upphæðin sem gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Loðnubresturinn hefur jafnframt verulegar afleiðingar á afkomu hafnarsjóðs viðkomandi sveitarfélaga. Enda þótt rekstur Fjarðabyggðarhafna þoli slíkan skell mun lækkandi framkvæmdastig á vegum hafnanna hafa keðjuverkandi áhrif út í atvinnulífið. Sá samdráttur bætist við lægri atvinnutekjur hjá stórum hópi fólks, langt út fyrir raðir útgerðarfélaganna í Fjarðabyggð. Áhrifanna gætir þó mest í Vestmannaeyjum af einstökum byggðakjörnum en þar hefur síðustu árin verið stærsta löndunarhöfn loðnu og var milli áranna 2016 og 2018 29% aflans landað í Eyjum. Bæði Ísfélagið sem á stærstan hlut loðnukvótans, eða rétt undir 20% hámarkinu, sem og Vinnslustöðin sem er fjórði stærsti kvótaeigandinn, með tæplega 11%, eru staðsett í bænum en fjögur stærstu fyrirtækin eiga tæplega 60% alls loðnuflotans.

Fréttir hafa borist af því að fyrstu loðnutorfur vetrarins séu fundnar á Íslandsmiðum. Leitarleiðangur þriggja skipa undir forystu hafrannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar sá torfur norður af Hornströndum og Húnaflóa. Ekki er um gríðarlegt magn að ræða en þó er um að ræða fyrstu eiginlegu loðnutorfurnar sem hafa fundist um langan tíma. Á meðan staðan er þetta alvarleg og enginn vertíð fyrirsjáanleg munu sjávarútvegssveitarfélögin, Fjarðabyggð, Langanesbyggð, sveitarfélagið Hornafjörður, Vestmannaeyjar, Vopnafjörður, eiga töluvert hart fram undan. Þessi sveitarfélög ásamt Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga halda kröfu á lofti um hlutdeild í tekjum af auðlindanýtingu í sjávarútvegi til þess að geta tekist á við þær sveiflur sem eru óumflýjanlegar í rekstri sem byggir á nýtingu auðlindarinnar og til að byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf.

Á fyrri hluta síðasta árs endurskoðaði Alþingi og ríkisstjórnin fjármálaáætlun hins opinbera til að mæta þeim áföllum sem þá höfðu komið fram vegna gjaldþrots WOW air og loðnubrest. Vandamál tengd Boeing 737 Max vélum Icelandair voru ekki fyllilega komin í ljós á þeim tímapunkti eða hversu alvarleg þau yrðu.

Sömu forsendur eiga við um sveitarfélög landsins þar sem áhrifin koma mismikið fram. Samtök sjávarútvegssveitarfélaga óskuðu um mitt síðasta ár eftir aðstoð RR ráðgjafar við að greina áhrif loðnubrests á sveitarfélögin fyrir stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga. Markmið greiningarinnar var að meta bein áhrif loðnubrests á fjárhag og rekstur sveitarfélaganna, fyrst og fremst að líta til tekjutaps vegna lægri launatekna íbúa og vegna minni umsvifa í hafnarstarfsemi. Ekki var lagt mat á aðra þætti. Í greiningu RR ráðgjafar kemur m.a. fram að loðnan hefur verið næstmikilvægasta útflutningsfisktegund á Íslandi á eftir þorski. Veiðar á loðnu eru bundnar við tiltekin veiðitímabil og byggja á aflareglu og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Sú regla gerir ráð fyrir að heimilt sé að veiða upp að því marki að skilin séu eftir um 400.000 tonn af kynþroska loðnu hverju sinni. Rannsóknir Hafrannsóknastofnunar fyrir síðustu loðnuvertíð gáfu til kynna að þau viðmið myndu ekki nást ef veiðar yrðu heimilaðar. Hafrannsóknastofnun lagði því til að ekki yrðu leyfðar loðnuveiðar á vertíðinni 2018/2019. Loðna hefur verið veidd við Ísland samfleytt frá árinu 1963. Þótt komið hafi vertíðir með mjög litlum veiðum hefur það aldrei áður farið svo að ekki hafi orðið nein veiði. Það sýnir alvarleika málsins nú að annað árið í röð skuli stefna í sömu þróun og fyrir ári síðan. Útflutningsverðmæti loðnu nam um 17,8 milljörðum kr. á árinu 2018 en mest, eins og ég kom inn áðan, 34 milljörðum kr. á árinu 2013. Algjör aflabrestur í loðnu hefur þannig gríðarleg áhrif á sjávarútvegsfyrirtæki í landinu, starfsfólk þeirra fyrirtækja, sjávarútvegssveitarfélögin og ríkissjóð. Áætlað er að loðnubrestur á árinu 2019 lækki landsframleiðslu um 0,6%.

Loðnuvinnsla fer fyrst og fremst fram í fimm sveitarfélögum, Fjarðabyggð, Langanesbyggð, sveitarfélaginu Hornafirði, Vestmannaeyjabæ og Vopnafjarðarhreppi. Hlutfallslega er áfallið því enn meira þar en í öðrum sveitarfélögum. Bein áhrif loðnubrests á tekjur þeirra sveitarfélaga eru áætluð um rúmar 500 millj. kr. á árinu 2019 eða á bilinu 4,5–6,7% af skatttekjum og tekjum hafnarsjóða. Í sveitarfélögunum búa samtals tæplega 13.000 íbúar. Áætlað tekjutap er því um 40.000 kr. á hvern íbúa eða um 160.000 kr. fyrir fjögurra manna fjölskyldu. Má geta þess að það fram kemur í töflu sem fylgir, og hægt er að benda á skýrslu RR ráðgjafar varðandi hvernig þetta kemur niður á einstökum sveitarfélögum. Þetta er áfall fyrir viðkomandi sveitarfélög eins og komið hefur fram.

Samband íslenskra sveitarfélaga tók saman upplýsingar á síðasta ári um tekjur sveitarfélaga vegna staðgreiðslu útsvars á fyrri hluta árs 2019 og bar saman við árið á undan. Staðgreiðsla hækkaði á öllu landinu um 6,1%. Staðgreiðslan hækkaði á bilinu rúmlega 4% í tæplega 7% í öllum landshlutum nema á Austurlandi þar sem hækkunin var um 2,3%. Það má því glöggt greina hversu stórt áfallið er á Austurlandi. Austurland er stærsta verstöð landsins í uppsjávarveiðum og vinnslu.

Eins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra benti á í ræðu áðan hefur þessi ríkisstjórn lagt sérstaka áherslu á eflingu hafrannsókna. Sú áhersla birtist m.a. í auknum fjármunum til loðnurannsókna frá árinu 2018, eins og ráðherrann fór ágætlega yfir. Hins vegar er það þannig með þennan nytjastofn eins og aðra að þrátt fyrir að við eigum mjög færa og öfluga vísindamenn er auðveldara að telja fé í haga en fiska í sjó. Vitneskja okkar um lífríki sjávar er þrátt fyrir allar tækniframfarir mjög takmörkuð.

Nokkur orð um framtíðarhorfur fyrir loðnustofninn á Íslandsmiðum. Í skýrslunni er fjallað um þær framtíðarhorfur. Þar er vísað til þess að horfur fyrir komandi vertíð séu ekki góðar miðað við þær upplýsingar sem eru fyrirliggjandi. Þannig er vísað til þess að mæling á magni eins árs loðnu haustið 2018 gefi ekki miklar vonir. Sú vísitala mældist 10,8 milljarðar og er með þeim lægstu sem sést hafa undanfarin ár. Í skýrslunni er vísað til þess að ekki hafi verið óalgengt á tíunda áratug síðustu aldar að mælingin væri um eða yfir 100 milljörðum eða tífalt stærri. Þá segir að það sé fullvíst að loðnustofninn muni áfram vera í lægð. Samkvæmt þessu má velta því upp hvort við þurfum ekki að hreinlega að undirbúa okkur fyrir þann möguleika að hér verði viðvarandi loðnubrestur á allra næstu árum.

Það vakna spurningar þegar farið er í gegnum efni skýrslunnar: Hvaða áhrif hefur þetta á þau samfélög sem eiga mest undir? Er hægt að gera eitthvað í staðinn? Þarf og er mögulegt að grípa til einhverra mótvægisaðgerða vegna þessarar þróunar? Ég átta mig á því að það kann að vera fullsnemmt að taka þessa umræðu en ég held að ef loðnubrestur raungerist annað árið í röð þurfum við að velta upp þeim spurningum, enda eru þetta spurningar sem við þurfum að leita svara við og undirbúa okkur fyrir.

Í skýrslunni er að finna áhugaverða umfjöllun um hugsanleg áhrif hlýnunar sjávar á vöxt, göngur og útbreiðslu loðnu við Ísland. Þar kemur m.a. fram að ástæða sé til þess að ætla að breytt hitafar og þar af leiðandi breytt staða skili kaldari sjó úr norðri og að leifar hlýsjávar úr suðri á svæðinu norðan og austan landsins hafi haft áhrif á göngu loðnu á þeim slóðum. Þessu er ágætlega lýst í skýrslunni en ég velti fyrir mér hvort tilefni sé til þess að skoða þær breytingar nánar. Það á ekki einungis við loðnustofninn heldur fleiri stofna. Þannig mætti m.a. skoða hvort hækkandi hitastig sjávar gefi tækifæri til að veiða stofna sem hingað til hafa ekki verið veiddir.

Umræðuefnið hér í dag er stórt og gríðarlega mikilvægt enda er, eins og hefur komið fram í máli hv. þingmanna, loðnan raunverulega undirstaða fæðukeðjunnar á Íslandi. Ég vildi hins vegar fyrst og fremst vekja athygli á þeim samfélögum í landinu sem eiga mest undir í þessari mikilvægu umræðu.



[12:28]
Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Hvarf loðnunnar er mikið áhyggjuefni en það er ekki á okkar færi að stöðva loðnuna. Það sem er á okkar færi er að hafa eftirlit með sjávarauðlindinni, bæði því hvernig umhverfi hennar er að breytast og hvernig stofnar fara eða koma inn í lögsöguna, að fylgjast með því til að geta gefið góðar upplýsingar til þeirra sem sinna veiðunum og finna hana og bera sig eftir því hvernig hlutirnir gætu breyst, spá fyrir um það.

Þá er spurningin: Hvernig er staðan hvað varðar eftirlit með sjávarauðlindinni? Og svo náttúrlega eftirlit með því að það sé ekki veitt meira en sjálfbært sé, sem er náttúrlega grunnforsenda kvótakerfisins, alla vega eins og lagt var upp með það. Núna í lok síðasta árs vorum við að klára fjáraukalögin, sem eru sá hluti fjárútláta ríkisins þar sem er horft yfir árið, hugsað og athugað hvort frá síðustu fjárlögum hafi eitthvað óvænt gerst, orðið breytingar sem kalli á frekara fjármagn. Þeim sem sáu Kveiksþáttinn um eftirlit með sjávarauðlindinni ætti ekki að koma neitt á óvart að það er gríðarlegt fjársvelti þegar kemur að eftirliti með fiskveiðiauðlindinni. Þegar við vorum að klára fjáraukalögin, og kom fram frá eftirlitsaðilum í sjávarútvegi að þá vantaði fjármagn til að geta sinnt sínu starfi, fjármagn sem var ekki sett inn, vildi ég vita: Hver er staðan? Þannig að ég óskaði eftir því að atvinnuveganefnd, sem hefur að gera með þennan málaflokk, sjávarauðlindina okkar, góða og sjálfbæra nýtingu hennar, fengi að vita hjá þeim aðilum sem sinna eftirliti í sjávarútvegi hver staðan raunverulega væri. Ég óskaði eftir því að Hafrannsóknastofnun, Fiskistofa og Matvælastofnun, sem öll sinna eftirlitshlutverki á sínu sviði, kæmu fyrir nefndina og upplýstu okkur, gæfu svör við spurningum sem þeim voru sendar. Við fengum þau á fund nýlega. Spurt var: Hvernig sér stofnunin framtíð starfsemi sinnar miðað við það fjármagn sem henni var úthlutað samkvæmt fjárlögum? Sér stofnunin fram á að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu? Sér stofnunin fram á að þurfa að fjölga starfsfólki? Og ef svo er, getur stofnunin fjármagnað þá fjölgun? Sér stofnunin fram að það þurfi að fjölga verkefnum? Og ef svo er, getur hún fjármagnað það? Sér stofnunin fram á að þurfa að fækka starfsfólki? Eftirlit með fiskeldi fórum við sérstaklega í, en þetta tengist loðnunni, umræðunni sem við erum í hér.

En svörin? Atvinnuveganefnd sendi spurningarnar til eftirlitsaðilanna, Hafrannsóknastofnunar, Fiskistofu og Matvælastofnunar. Svörin sem við fengum frá þeim þegar þau komu á okkar fund voru að mjög miklu leyti algjörlega í ósamræmi við þau svör sem við fengum frá ráðherra. Ég sendi nefnilega samhliða, í desember, ráðherra þessarar sömu spurningar — sem þingmaður get ég sent fyrirspurn til ráðherra með beiðni um skriflegt svar og hefur hann 15 daga til að svara. Daginn eftir að þessar eftirlitsstofnanir í sjávarútvegi komu fyrir atvinnuveganefnd og segja okkur sína sögu fengum við allt aðra sögu ráðherra. Það er ekki samræmi þarna á milli. Ráðherra segir að það fjármagn sem er nauðsynlegt fyrir þessar stofnanir sé til staðar. Þetta geta menn lesið á síðum Alþingis. Svörin hafa verið birt þar.

Sá aðili sem á að starfrækja sjálfstæða rannsókna- og ráðgjafarstofnun, Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, aðili sem heyrir undir ráðherra, starfar samkvæmt lögum. Í þeim lögum segir, með leyfi forseta:

„Markmið með lögum þessum er að efla vísindalega þekkingu á umhverfi og lifandi auðlindum í hafi og ferskvatni og stuðla í senn að sjálfbærri og arðbærri nýtingu auðlindanna.“

Þessi aðili kom fyrir nefndina og benti á það að hann hafi farið í gegnum mikla hagræðingu. Hann telur sig enn þá geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu, ber sig vel miðað við kringumstæður, segist rétt halda sjó en það er ekki mikið borð fyrir báru hvað þetta varðar og þeir geta illa sinnt eftirliti með loðnunni, að fylgjast með loðnunni, hvar hún er. Þeir segja að þeir hafi verið að fá aðstoð útgerðarinnar við það en þeir vilja núna fara að fá eitthvað fyrir sinn snúð og þessu þarf ráðherra að huga að inn í framtíðina. Því að hafið og straumarnir, segja þeir, og hitinn hefur breyst. Og á akkúrat þeim tíma sem þessar miklu breytingar eiga sér stað — loðnan er að hverfa, við finnum hana ekki nema að mjög litlu leyti, makríllinn er að koma, það eru gríðarlegar breytingar — er verið að skera niður. Það er verið að krefjast gríðarlegrar hagræðingar hjá þessari sömu stofnun, Hafrannsóknastofnun, sem á að sinna þessu eftirliti. Þetta er mjög óskynsamleg forgangsröðun.

Síðan varðandi Fiskistofu sem kom líka á fund. Þeir sem fylgdust með Kveik vita hver staðan þar er, hún er ekki góð. Þeir sinna eftirliti með framkvæmd laga um stjórn fiskveiða og eftirlits með fiskveiðum. Hérna í umræðunni hafa menn verið að nefna að mögulega sé verið að ofveiða. Eftirlitið með ofveiði eða brottkasti og slíku er ekki gott á Íslandi. Þessar stofnanir eru sveltar, þær ná ekki að sinna því hlutverki — meginhlutverki kvótakerfisins — að passa upp á að þetta sé sjálfbær nýting. Þær eru ekki að gera það. Þær segja okkur að það vanti fjármagn til þess að geta gert það betur. Fiskistofa nefnir og hefur ítrekað nefnt það. Það vantar t.d. myndavélar, það væri arðbær og skýr leið. Hvers vegna er ekki hægt að setja á eftirlit með brottkasti? Maður fer að spyrja sig, virkilega fer að spyrja sig: Hvers vegna er þetta trassað? (Gripið fram í: Rólegur.) Ráðherra bendir mér á að vera rólegur. Þetta er bara mikið hitamál. Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir gríðarlega marga (Gripið fram í: Já.) og bendir jafnvel á að viðmið um lágmarkseftirlit hafi aldrei verið sett. Þetta er svakalega slæm staða með mikilvægustu auðlindina okkar, það er rosalega lélegt eftirlit með henni, ekki vegna skorts á vilja þeirra sem sinna þessu eftirliti sjálfir og kalla einmitt eftir því ítrekað, trekk í trekk, að það þurfi að sinna því betur.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um þetta eftirlit er bara svartur blettur á stjórnsýslu gagnvart sjávarútveginum okkar. Jafnframt er verið að benda á að það séu fyrirmæli frá ráðuneytinu um að sinna ákveðnu eftirliti sem er ekki verið að sinna, sem er á kostnað þess eftirlits sem er nauðsynlegt til þess að passa upp á að það sé ekki verið að misfara með auðlindina. Og svo kemur fram hjá Matvælastofnun um eftirlit með fyrirtækjum í sjávarútvegi að þau segjast geta sinnt hlutverki sínu ágætlega. Þau telja sig geta sinnt þessu hlutverki vel. En þegar kemur að Hafrannsóknastofnun og Fiskistofu er staðan svakalega slæm. Ef við viljum raunverulega fara vel með auðlindina okkar, ef við viljum raunverulega vita hver þróun hennar sé, ef við viljum raunverulega vita hvert loðnan er að fara, þá verður að gera betur.



[12:36]
Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Í skýrslunni kemur margt fram og annað ekki. Svörin og skýrslan í heild sinni undirstrika mikilvægi öflugra og fjölbreyttra hafrannsókna og að þær séu fjármagnaðar með fullnægjandi hætti. Það þarf einnig að beita nýjum nálgunum vegna breyttrar gönguhegðunar, lífssögu og hátta loðnustofna líkt og stofna margra annarra sjávardýra. Hér þarf líka að koma til aukið samstarf rannsóknarstofnana, Hafrannsóknastofnun og fleiri stofnanir geta komið að því. Þannig náum við líka að skapa fjölbreyttari sýn og nýja vinkla á viðfangsefnið.

Það er kvikt og dýnamískt samspil tegunda þar sem síbreytilegir umhverfisþættir spila inn í. Gríðarlegar sveiflur eru í staðsetningu á farleiðum loðnustofna og líklega lífshátta. Það kristallast vel í þeim gögnum sem lögð eru fram í skýrslunni. Sterkt samband var á milli magns veiddrar loðnu og þorsks áður en tegundin var kvótasett. Þannig gáfu veiðitölur vísbendingar um stofnstærðir og jafnvel hvers var að vænta með stöðu þorskstofna. Ég vil leggja mikla áherslu á mikilvægi rannsóknaskipanna okkar, að þeim sé haldið úti og ekki síður á gott samstarf við útgerðirnar sem stunda loðnuveiðar og veiðar á öðrum uppsjávartegundum.

Ég vil í tengslum við þetta rifja aðeins upp svar við fyrirspurn sem ég lagði fram á löggjafarþingi 2016–2017 til þáverandi ráðherra um úthaldsdaga rannsóknarskipa á vegum Hafrannsóknastofnunar og fleiri spurningar. Ég fékk virkilega greinargóð svör þar sem var farið yfir úthaldsdaga og verkefni þeirra, t.d. við mælingar á stærð loðnustofnsins, sjávarrannsóknir, mælingar á veiði og hrygningarstofni loðnu að vetrarlagi o.s.frv. Var þetta yfir langt árabil, 2000–2016. Einnig spurði ég ráðherra eftir því hvort hún teldi að nægt fé væri veitt til rannsókna hjá Hafrannsóknastofnun og svarið var svo sem ekki flókið, svo var ekki. Það þyrfti verulegt viðbótarfjármagn til slíkra rannsókna, svo ég vísi nú í þessa ágætu fyrirspurn og ekki síður svörin.

Aftur að skýrslunni. Hér var rakin ágætlega af ráðherra áðan staðan og framtíðarhorfur varðandi stofnstærð og veiðar og kom fram að veiðistofn samanstandi núna mest af einum árgangi, 85–90% hverju sinni, og hann hrygnir mest við þriggja ára aldur o.s.frv. og síðan aðeins um hvernig mælingar fara fram. En það kemur líka fram í skýrslunni að mælingar á ungri loðnu, þ.e. loðnu á fyrsta ári, hafi ekki farið fram frá árinu 2003 þegar síðast var farið í svokallaðan seiðaleiðangur. Seiðaleiðangur var aflagður í sparnaðarskyni en hann var farinn árlega frá árinu 1976 og til 2003 til að meta magn seiða nytjastofna við Ísland. Það er ekki gott að svona mikilvægar rannsóknir séu lagðar af og skapar enn meiri óvissu um stöðu mála. Horfur eru mjög slæmar nú varðandi næstu vertíð, eins og kom fram, það eru mjög dökkar horfur að óbreyttu. Við vonum að sjálfsögðu það besta. Í ljósi þess hve loðnuveiðar eru þýðingarmiklar fyrir þjóðarbúið er afar slæmt hve mikil óvissa er sífellt uppi um hvernig staðið verði að loðnuleit og með hve umfangsmiklum og vönduðum hætti ár hvert. Verða rannsóknarskip til staðar og fjármunir til að halda þeim úti við rannsóknir? Hverjir fleiri taka þátt í þeim rannsóknum? Í ljósi mikilvægis þarf að koma þessu í fastari, ákveðnari og betri skorður til framtíðar. Það á líka við um rannsóknir á fleiri tegundum, bæði nytjategundum og öðrum, samspili þeirra og ekki síst hvernig útbreiðsla tegunda og vistkerfa hafsins er að breytast.

Vil ég nú aðeins koma að því. Við þekkjum makrílinn, sem hefur vissulega komið í staðinn fyrir ýmislegt, sem hefur fært sig hingað. Við þekkjum fleiri tegundir sem hafa virkilega verið að flytja sig til og margar kaldsjávartegundir sem hafa þá jafnvel verið og eru í vandræðum eins og lúðan sem er að færast norðar. Við erum að fá aðrar suðlægari tegundir inn á landgrunninn. Ég get nefnt ósakolann eða flúndru sem ég fann að fyrsta hrygningin var við Ísland árið 2001 og sem nam síðan land í kringum landið á næstu árum á eftir. Við getum talað um skötuselinn sem hefur síðan líka einnig breiðst út og þessar tegundir, jafnvel þótt þær séu þekktar með ákveðnu lífsmynstri þar sem þær áður voru, geta komið fram sem algerlega nýjar skepnur með nýjum háttum og fæðuvali og óþekktum áhrifum á þau lífríki og vistkerfi sem þær nema land í, eins og við þekkjum með skötuselinnn. Til að mynda BioPol á Skagaströnd stundaði fagrannsóknir á honum á mismunandi landsvæðum þar sem var nánast um gjörólíka hætti að ræða eftir hvar var borið niður og ólíkt því sem var þekkt hjá tegundinni annars staðar, svo ég nefni nú dæmi um það.

Við erum sem sagt nokkuð berskjölduð í veiðiráðgjöfinni vegna takmarkaðrar þekkingar, ekki síst í ljósi þess hve margt er að breytast hjá okkur og kannski höfum við verið of mikið njörvuð niður í að vera að beita sífellt sömu aðferðum, sömu nálgunum, og ég get ekki annað en ítrekað mikilvægi þess að við skoðum fleiri nálganir, fleiri leiðir til að nálgast þessi viðfangsefni. Skýrslan sem hér er til umræðu er gagnleg, eins langt og hún nær, en vekur ekki síður athygli á því hve takmörkuð vitneskja er til staðar um hvað er að gerast í sjávarvistkerfum okkar umhverfis landið. Okkur vantar meiri þekkingu á áhrifum mismunandi veiðarfæra á lífríki sjávar og einstökum tegundum eins og loðnu. Er til að mynda verið að valda óþarfa raski eða dauða sjávardýra og fiska með einhverjum veiðarfærum? Hafrannsóknastofnun og ráðuneytið hafa svo sem verið fremur sinnulaus gagnvart slíku, samanber opnun á friðuðum svæðum aftur fyrir dragnótaveiðum. En svona til að draga þetta saman: Hér þarf að gera miklu betur í rannsóknum, bæði náttúrunnar sjálfrar vegna og ekki síður mikilvægis margvíslegra nytjategunda fyrir Íslendinga og byggðarlög víðs vegar um landið og núverandi staða er grafalvarleg.



[12:44]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á því að þakka, eins og fleiri, fyrir skýrslubeiðnina og ekki síður fyrir ljómandi skýrslu. Það er margt sem er áhugavert og margt sem skýrslan undirstrikar sem við vitum en erum kannski ekki endilega að einblína á að leysa sem skyldi hverju sinni. Það er auðvitað reiðarslag fyrir okkur Íslendinga þegar útlit er fyrir loðnubrest aftur. Það held ég að hafi aldrei gerst tvö ár í röð á síðari árum. En ég vil þó geta þess að ég vil halda í bjartsýnina. 2017 fannst lítil loðna fram yfir mánaðamótin janúar/febrúar en síðan kom hún upp úr miðjum febrúar og varð m.a. til þess að hið langvarandi sjómannaverkfall leystist. Það var alla vega mikilvæg breyta inn í það erfiða verkfall allt saman. Loðnan kom og hún kom í verulegum mæli þá og hafði mikla þýðingu fyrir þjóðarbúið, um 18 milljarða, ef mig minnir rétt, í útflutningstekjum m.a. Þannig að þetta er stórmál sem við erum að ræða hér ef við stöndum frammi fyrir því, við Íslendingar, að það verði kannski loðnubrestur núna og hugsanlega um einhvern tíma næstu árin.

Þegar maður rennir í gegnum skýrsluna er hún fyrst og fremst fræðileg. Mér finnst það gagnlegt og vil hrósa ráðherra fyrir að taka mjög fræðilega á málum og hafa leitað til okkar bestu sérfræðinga varðandi hvalarannsóknir, varðandi lífríki sjávar. Ég held að það innlegg skipti máli inn í uppbyggilega umræðu til skemmri og lengri tíma, hvort sem við erum að ræða rannsóknir á loðnustofni eða öðrum fiskstofnum í kringum Ísland. Hv. þm. Bjarni Jónsson nefndi svar fyrir tæpum þremur árum eða rúmum tveimur árum um hvort Hafrannsóknastofnun hafi verið og sé nægilega fjármögnuð. Ég finn til að vissu leyti með ráðherra, það er ekki verið að setja nóg í hafrannsóknir. Það er ekki verið að halda nægilega vel utan um Hafrannsóknastofnun þegar kemur að fjármagni af því að kröfurnar til okkar sem forysturíkis í sjávarútvegi eru miklar. Það er litið til okkar og hefur ávallt verið litið til okkar á síðustu 20–30 árum þegar kemur að rannsóknum og sjálfbærri nýtingu, hvort sem það er fisktegund í sjónum eða aðrir þættir í lífríkinu. Þetta er því gömul saga og ný og ég held að ég hafi ekki hitt þann sjávarútvegsráðherra sem er sáttur við það fjármagn sem er sett í Hafrannsóknastofnun.

Það er vissulega fagnaðarefni að við erum að fara að fá, vonandi innan þriggja ára, helst tveggja, nýtt hafrannsóknaskip. Það mun skipta miklu máli. Þá þýðir það líka að við verðum að láta fjármagn fylgja rekstri nýs skip. Það getur haft gríðarlega mikla þýðingu fyrir okkur og sjávarútveginn í heild sinni. Það eru ein skilaboðin, að halda betur utan um Hafrannsóknastofnun. Ég vara við því sem stundum vill verða, út af hinum og þessum hagsmunum, að menn leggi lykkju á leið sína og noti tækifærið og hnýti í Hafró því að niðurstöður eru þeim ekki þóknanlegar eða leiðsögn, hvort sem það er í sjávarútvegi eða fiskeldi, er þeim ekki þóknanleg. Ég vara við því. Það eru gríðarlegir hagsmunir fyrir okkur Íslendinga að Hafró standi sjálfstæð og hljóti stuðning allra til að sinna því merkilega verkefni sem henni er falið hverju sinni.

Síðan er hitt sem mér finnst líka skipta miklu máli, það sem þessi skýrsla segir okkur varðandi stóru myndina. Hún er sú að við þurfum að vera á tánum og við þurfum að taka öll þau merki sem eru og tengjast m.a. hlýnun sjávar þegar kemur að umhverfismálum. Þessi skýrsla finnst mér líka vera brýning til okkar að gera enn betur í umhverfismálum, til að gera enn betur þegar kemur að umræðu og ákvörðunum varðandi hlýnun sjávar og umhverfismálin og loftslagsbreytingar almennt. Þetta hefur áhrif á okkur og grundvallaratvinnuveg okkar og þess vegna megum við hvergi slaka á þeirri kló og þeim kröfum sem við gerum til okkar sem ríkis er bindur lífsgæði sín við auðlindanýtingu.

Það hefur verið rætt hvort eigi að vera einhverjar sértækar aðgerðir ef þetta brestur. Ég hef ekki endilega verið hlynnt því og er ekki hlynnt því. Ég vil miklu frekar skoða almennar aðgerðir í þá veru að styrkja innviði en við sjáum að það voru 8.000 manns án atvinnu núna í desember á Íslandi. Það er meira en hefur verið nokkurn tíma síðan árið 2013. Það þýðir að við þurfum, og ekki síst núna vegna slaka í efnahagslífinu, slaka í hagkerfinu, að ráðast í innviðafjárfestingar. Það er það sem við þurfum að gera, reyna að horfa áfram á stóru myndina, fara í innviðafjárfestingar þar sem við byggjum upp dreifikerfi raforku, förum í vegagerð eða fleiri þá þætti sem kalla á uppbyggingu innviða.

Ég vil líka benda á, og geri það eðlilega í tengslum við þetta, þá leið sem við í Viðreisn höfum iðulega bent á varðandi stjórn í sjávarútvegi. Það er ekkert launungarmál að við höfum sagt að það eigi að setja aflaheimildir á markað og m.a. að nota það andvirði sem fæst í gegnum markaðsleiðina til þess að fara í innviðauppbyggingu á þeim svæðum þaðan sem aflinn kemur, á þeim sjávarsvæðum sem sinna fiskveiðum. Ég held einmitt að sú leið myndi stuðla að því að svæði sem eru að fara halloka vegna hugsanlegs loðnubrests myndu standa sterkari eftir.

Við vitum það líka að loðnubresturinn mun hafa einna mestu þýðingu þar sem stærstu loðnuvinnslurnar eru, úti í Vestmannaeyjum. Ég held að það hefði verið ágætt ef auðlindagjaldið í gegnum markaðsleið, og þó að menn segðu einfaldlega auðlindagjaldið, myndi renna inn í sjávarþorpin, sjávarbæina okkar. Það myndi hafa mikla þýðingu fyrir sveitarfélögin til að byggja upp. Mér skilst að búið sé að skila tillögum til hæstv. ráðherra, eitthvað í svipuðum dúr og var gert á sínum tíma fyrir tæpum þremur árum, þ.e. breytingar á byggðakvóta og þeim 5,6% sem eru veitt í gegnum byggðakvóta, í gegnum línuívilnun, strandveiðar o.s.frv. Þar held ég að skipti miklu máli að við höfum þor til að fara í það að styrkja sveitarfélögin, veita þeim meira sjálfræði og sjálfdæmi um það hvernig þau úthluta byggðakvótum þannig að það sé þeirra að meta, eins og ég hef nefnt áður í þessum stól. Þegar við ræddum þessar hugmyndir á sínum tíma sagði til að mynda Súðavík: Við höfum í rauninni ekki mikið við byggðakvótann að gera en andvirðið myndi fara í það að byggja upp ferðaþjónustu. Hana eru þau að einblína á og ég held að við eigum að veita sveitarfélögunum aukið sjálfdæmi í gegnum þá miklu fjármuni sem eru í sjávarútveginum. Það er hægt að gera með þeim tillögum sem við í Viðreisn höfum bent á og lagt fram tillögur um.

Það er reiðarslag að horfa upp á að það er ekki nægileg loðnugengd. Ég bind þó, eins og ég sagði áðan, enn vonir við að úr rætist. Við höfum enn þá þrjár, fjórar vikur af tíma til að fá þessa mælingar betri og ég vona innilega að af verði því að þetta hefur þýðingu fyrir sjómenn, þetta hefur þýðingu fyrir landverkafólk. Þetta hefur þýðingu fyrir sveitarfélögin öll sem hafa byggt m.a. (Forseti hringir.) afkomu sína að hluta til á loðnuvinnslunni og þess vegna er þetta alvarlegt mál sem við á þingi verðum að fylgja eftir.



[12:54]
Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Herra forseti. Hér ræðum við skýrslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um nýtingu og vistfræðilega þýðingu loðnustofnsins á árunum 2000–2019. Loðnan hefur verið veidd við Íslandsstrendur frá árinu 1963. Þó að þekktar séu sveiflur í stærð loðnustofnsins hefur það aldrei áður gerst, eins og útlit er fyrir núna, að tvær vertíðir í röð bregðist og ekki verði heimiluð nein veiði. Hafrannsóknastofnun gefur út heimild til veiða og hefur byggt á því árlega að skilin séu eftir um 350.000–400.000 tonn af kynþroska loðnu á hverri vertíð en rannsóknir Hafrannsóknastofnunar fyrir síðustu loðnuvertíð gáfu til kynna að þau viðmið myndu ekki nást ef veiðar væru heimilaðar og því var ekki gefinn út neinn kvóti þá vertíðina.

Eins og sjá má af gögnum skýrslunnar hefur göngumynstur loðnunnar breyst. Ástæða er til að ætla að breytt hitafar sjávar með hærri yfirborðshita og breyttum skilum kaldari strauma úr norðri og hlýsjávar úr suðri á svæðinu norðan og austan landsins hafi haft áhrif á göngu loðnu á því svæði. Er breytt göngumynstur loðnunnar að hluta til rakið til þessara breytinga á hita sjávar og strauma.

Ég vil taka undir það sem komið hefur fram í umræðunni að mikilvægt er að auka rannsóknir á þeim breytingum sem hafa orðið í hafinu og áhrifum þeirra á nytjastofna við landið. Ég vil spyrja ráðherra hvort beitt hafi verið fjarkönnun í haf- og loðnurannsóknum eða hvort það sé til skoðunar. Í skýrslunni kemur fram það álit Hafrannsóknastofnunar að í ljósi þess hve loðnan er skammlíf tegund og miklar sveiflur í stærð stofnsins sé ógjörningur að spá fram í tímann um þróun hans. Miðað við breytingarnar sem hafa verið síðustu ár er í mínum huga talsvert erfitt að vera bjartsýnn á styrkingu stofnsins. Í skýrslunni kemur fram það mat Hafrannsóknastofnunar að horfur fyrir næstu vertíð séu ekki góðar miðað við þær upplýsingar sem eru fyrirliggjandi. Mælingar á magni eins árs loðnu haustið 2018 gefa ekki miklar vonir en vísitalan sem mældist 10,8 milljarðar er með þeim lægstu sem sést hafa undanfarin ár. Ekki var óalgengt á tíunda áratug síðustu aldar að hún væri yfir 100 milljarðar eins og sýnt er á mynd í skýrslunni.

Auk þess sem loðna er með verðmætustu nytjategundum hér við landið er hún einnig mikilvæg fæðutegund annarra lífvera, svo sem fiska, hvala og fugla. Erfitt er þó að gera sér grein fyrir áhrifum þess á stærð stofnsins og hefur verið farið mjög vel yfir það í þessari umræðu.

Loðnubrestur hefur mikil áhrif á þjóðarbúið í heild en hvaða áhrif hefur hann á þau samfélög þar sem uppsjávarveiði er hvað mest? Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga fékk RR ráðgjöf til þess að greina áhrif loðnubrestsins á sveitarfélögin. Sú greining kom út í júlí 2019 og byggir á gögnum sem samtökin öfluðu hjá sveitarfélögunum Fjarðabyggð, Langanesbyggð, Sveitarfélaginu Hornafirði, Vestmannaeyjabæ og Vopnafjarðarhreppi. Markmið þessarar greiningar var að meta bein áhrif loðnubrestsins á fjárhag og rekstur sveitarfélaganna. Þá er litið til tekjutaps vegna lægri launatekna íbúa og vegna minni umsvifa í hafnarstarfsemi. Í greiningu RR ráðgjafar kemur fram, með leyfi forseta:

„Bein áhrif loðnubrests á tekjur þeirra sveitarfélaga eru áætlaðar rúmar 500 millj. kr. á árinu 2019, eða bilinu 4,5–6,7% af skatttekjum og tekjum hafnarsjóða. Í sveitarfélögunum búa samtals tæplega 13.000 íbúar. Áætlað tekjutap er því um 40.000 kr. á hvern íbúa. Slíkt tekjutap hefur mikil áhrif á rekstur sveitarfélaganna og dregur úr möguleikum þeirra til að veita lögbundna þjónustu við íbúa sína. Áhrifin koma misjafnlega niður og harðast á þeim sveitarfélögum sem búa við einhæft atvinnulíf. Tækifæri þeirra sveitarfélaga til að afla annarra tekna til að vega á móti tapinu eru takmörkuð og fá tækifæri fyrir íbúa til að finna aðra atvinnu við hæfi.“

Það eru fordæmi fyrir því að fram komi mótvægisaðgerðir þegar aflabrestur verður með þessum hætti og ætti það ekki síst við í þeim sveitarfélögum sem byggja atvinnulíf sitt á uppsjávarveiðum og -vinnslu. Einnig er vert að benda á að samhliða þessum loðnubresti hefur verið mikil niðursveifla í sumargoti síldar vegna þeirrar sýkinga sem hún er að ganga í gegnum. Sá tekjubrestur sem sveitarfélögin, útgerðirnar, sjómennirnir og síðast en ekki síst landverkafólkið hefur mátt þola undanfarin misseri, bæði vegna loðnubrests og síldarsýkingar, er mjög mikill. Því hvet ég ráðherra til að skoða úrlausnir til að bæta þeim samfélögum sem hafa orðið fyrir þessum óvænta tekjumissi það upp á einhvern hátt og eru mörg dæmi þess að slíkt hafi verið gert í gegnum tíðina á Íslandi.



[12:59]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Líffræðingar segja að ferðir loðnunnar séu ekkert annað en einhvers konar flutningur á lífmassa í hafinu, eins dauði er annars brauð. Þarna sjáum við hvernig fæðukeðja lífsins virkar í sinni tærustu mynd. Samspilið er flókið og við skiljum það oft ekki fyllilega þótt kvikindin séu beint fyrir framan nefið á okkur, hvað þá falin í hafdjúpunum. Við erum langt frá því að skilja það til hlítar. Eitt er víst: Loðnustofninn þarf að vera nægilega stór til að það dugi til að loðnan viðhaldi sér sjálf, sé sjálfbær, að ekki sé gengið á stofnstærðina. En loðnan þarf að sæta því að vera að fæða fjölmargra fiska, fjölmargra hvalategunda og sjófugla og maðurinn er þarna í beinni samkeppni við alla þessa afræningja loðnunnar. Samspilið er flókið, herra forseti. Sjófuglar éta loðnu, þorskur étur líka loðnu; 150.000 tonn, segir hæstv. ráðherra og hefur eftir vísindamönnum. Inngrip mannsins geta haft áhrif eins og t.d. ef einum hlekk í keðjunni er kippt burt eða ef einum hlekk er leyft að vaxa óhindrað, allt hefur þetta áhrif. Langreyður, hrefna og hnúfubakur eru stórvirkustu tegundir hvala þegar tekið er mið af áti þeirra á fiski og þar á meðal loðnu. Nú er mannkynið að mestu hætt að veiða hvali nema í takmörkuðum mæli sé miðað við það sem áður var. Hefur það áhrif?

Undanfarin ár hafa orðið breytingar í hafinu kringum Ísland og er koma makrílsins inn í lögsögu okkar skýrasta dæmið um þær breytingar. Enginn veit með vissu hvaða afleiðingar þessar breytingar í hafinu munu hafa á loðnustofninn til framtíðar litið. Í fyrra voru engar loðnuveiðar leyfðar og það lítur alls ekki vel út fyrir komandi vertíð. Loðnuafurðir hafa lengi verið mikilvægur hluti af útflutningsverðmætum þjóðarbúsins og hrun stofnsins og veiðibann ár eftir ár mun setja mark á efnahag þjóðarinnar. Loðnubrestur annað árið í röð mun hafa mjög alvarleg áhrif á þau byggðarlög sem byggja stóran hluta af atvinnulífi sínu á loðnuvinnslu, byggðarlög eins og þau hér við suðurströndina, til að mynda Vestmannaeyjar og Hornafjörð. Loðnubrestur hefur ekki bara áhrif á afkomu útgerða á þessum stöðum heldur á samfélagið allt; bæjarlífið, bæjarfélögin, þjónustuaðila, sjómenn og fiskvinnslufólk. Það er afskaplega mikilvægt fyrir þær byggðir að loðnan birtist.

Herra forseti. Þegar loðnuveiðar stóðu sem hæst í Eyjum lifnaði samfélagið við eftir rólegheit jólanna. Yfirbragð bæjanna gjörbreyttist. Bæjarbúar brostu út að eyrum og allir höfðu nóg fyrir stafni, ekki bara sjómennirnir heldur einnig fiskvinnslufólkið, vélakarlarnir, viðgerðagengin; sjoppurnar voru yfirfullar, veitingastaðirnir og meira að segja hótelin fengu fleiri viðskiptavini sem voru kaupendur úr fjarlægum heimsálfum sem komnir voru til að fylgjast með vinnslu á afurðinni. Þannig var loðnuvertíðin, hún veitti lífi í bæinn alveg eins og loðnan veitir lífi í fæðukeðju hafsins.

Herra forseti. Það verður að hafa í huga að verðmætasköpun á veiddri loðnu hefur gerbreyst undanfarin ár og áratugi. Nú getur miklu minna magn af loðnu skilað gífurlegum tekjum í þjóðarbúið. Það er ekki eins og áður þar sem loðnunni var mokað upp og hún seld fyrir tiltölulega lágt verð. Það er mikilvægt, ekki aðeins fyrir þau byggðarlög sem byggja afkomu sína að miklu leyti á þessum fiski heldur einnig fyrir þjóðarbúið í heild, að haldið verði áfram kraftmikilli leit að loðnugöngum eins og hæstv. ráðherra sagði frá í ræðu sinni. Það er einnig mikilvægt að ef göngur finnast að stuðst verði við bestu vísindi og reynslu síðustu áratugina þegar veiðar eru ákveðnar. Hæstv. ráðherra þarf einnig að hafa það til hliðsjónar að tiltölulega lítið magn af loðnu þarf til að koma í veg fyrir mikið tjón fyrir þjóðarbúið og þau byggðarlög sem um er rætt. Þarna er ég að tala um að sú hætta sé fyrir hendi að mikilvægir markaðir geti tapast, það berast engar afurðir inn á þá tvö ár í röð. Miklu minna magn skapar meiri verðmæti en bara fyrir nokkrum árum. Þar kemur til betri meðferð á afurðinni, miklu betri vinnsluaðferðir, betri nýting og ekki síst betri markaðssetning á loðnuafurðum. Verði loðnubrestur annað árið í röð kalla ég, eins og reyndar fleiri hv. þingmenn, eftir mótvægisaðgerðum af hálfu stjórnvalda í þágu þeirra byggðarlaga sem slíkur brestur kemur þyngst niður á. Oft hefur minna tilefni þurft til slíkra aðgerða.



[13:06]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að það er mjög alvarlegt áfall fyrir atvinnulíf og efnahag þjóðarinnar þegar fiskstofn á borð við loðnu hrynur. Það er ekki hægt að tala um neitt annað en hrun, virðulegi forseti, þegar lítið eða ekkert er hægt að veiða úr næststærsta nytjastofni þjóðarinnar um árabil og framtíðarhorfur varðandi nýtingu stofnsins eru dökkar. Ég vil þakka sérstaklega öllum þeim sem hafa tekið þátt í þessari þörfu umræðu fyrir málefnalega umfjöllun og fyrir það að víkka út sýn okkar á ástandið eins og það er. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans góðu skýrslu því að það var hann sem sá til þess að henni var fleytt af stað að minni ósk og fleiri þingmanna. Ég vil sérstaklega mælast til þess að gert verði stórátak í hagrænum vistfræðirannsóknum á loðnu allt í kringum landið með tilliti til þess ástands sem við horfumst í augu við nú.



[13:07]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil sömuleiðis þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Hún hefur vissulega farið víða og margt gott sem hefur verið sagt og sett fram. Mér finnst þó skorta ákveðna festu í því í umræðunni hvar við viljum sem einstaklingar eða þjóð stilla okkur af í samkeppni við aðra þætti í lífríkinu við nýtingu náttúrugæða. Við erum í samkeppni í þeim efnum um loðnuna við hvali, fugla, fiska og liggur fyrir að okkar bestu vísindamanna mati að fugl er að taka meira en við tókum úr stofninum, fiskurinn sömuleiðis og hvalirnir enn meira. Ef við horfum á þetta gerast svona eins og þetta er þá væri því að jafna við það að Íslendingar fjölguðu bara skipum og ykju sóknina í það litla sem eftir væri. Það er ekkert að gerast. Við styðjumst í þeim efnum við rannsóknir og af því að hér var kallað eftir því að við styddumst við ráð bestu vísindamanna hverju sinni þá gerum við Íslendingar það og stöndum þjóða fremst í rannsóknum á þessum fiski. Ég vil bara minna á að það hafa aldrei verið settir meiri fjármunir til rannsókna á loðnu en gert er akkúrat um þessar mundir en vissulega gætum við nýtt meiri fjármuni til þess að rannsaka samspil lífkerfisins í heild. Það er vissulega eðlilegt og gott og knýjandi að svo verði gert.

Ég vil nefna varðandi umræðuna um afkomu byggðanna — já, vissulega. Sjávarútvegsráðuneytið hefur engin úrræði í þeim efnum. Þetta er byggðamál, þetta er fjármál, tengist sömuleiðis innviðum eins og skóla-, heilbrigðismálum, vegasamgöngum o.s.frv. (Forseti hringir.) Þetta þarf miklu stærri aðkomu en þá að eitthvert eitt ráðuneyti geti borið það ef þetta ætti að fara til þess verks, ef við töpum seinni hálfleik í leitinni að loðnunni líka. (Forseti hringir.) Við töpuðum fyrri hálfleik sem lauk um síðustu helgi, seinni hálfleikur fer fram í febrúar.