150. löggjafarþing — 56. fundur
 3. feb. 2020.
málefni flóttamanna og hælisleitenda.

[15:03]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það var vissulega ágætt hjá ráðherra að kynna lágmarksbreytingu í gær sem tryggir Muhammed og fjölskyldu dvalarleyfi en við getum spurt okkur: Hefði eitthvað verið gert ef þjóðin hefði ekki tekið málið í eigin hendur? Ítrekað hefur nefnilega fólkið í landinu þurft að bjarga einstaklingum í erfiðri stöðu með samtakamætti sínum. Það er ekki nóg að stjórnvöld grípi inn í gagnvart fólki sem er með gott tengslanet eða hreyfir við okkur á einhvern hátt. Við þurfum líka að breyta kerfi sem er ósveigjanlegt og óréttlátt og það er mjög margt sem við getum gert. Haustið 2017 sammæltust allir formenn flokka sem þá áttu sæti á þingi, fyrir utan Sjálfstæðisflokkinn, um tímabundna breytingu á útlendingalögum og jafnframt að bæta lagaumhverfi og stjórnsýslu til að tryggja stöðu barna og fólks í viðkvæmri stöðu strax að loknum kosningum. Nú hafa 26 mánuðir liðið og ekkert hefur gerst annað en að fyrirrennari ráðherra lagði fram frumvarp sem skerðir frekar réttindi og kjör þeirra sem hingað leita eftir alþjóðlegri vernd.

Ég spyr því ráðherra: Mun hún setja það frumvarp til hliðar og veita þingmannanefndinni umboð til að bæta stöðuna eða á þingmannanefndin kannski að taka viðmið af því frumvarpi sem gerir endurupptöku mála erfiðari, takmarkar andmælarétt, styttir tíma fólks til að afla gagna, auðveldar brottvísanir til Grikklands og kemur í veg fyrir að aðstandendur kvótaflóttafólks geti fengið dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar?



[15:06]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að um þessi mál á að gilda jafnræði og við verðum að tryggja það. Það er skýr vilji löggjafans og stjórnvalda að taka sérstakt tillit til hagsmuna barna hvað varðar umsóknir um alþjóðlega vernd. Það höfum við m.a. sýnt með ýmsum breytingum á reglugerðum undanfarna mánuði, en lögin okkar eru líka slík. Af því að hv. þingmaður spyr af hverju stjórnvöld grípi ekki oftar inn í, eða hvað þurfi til til að gripið verði inn í, þá höfum við búið þannig um hnútana að við höfum kærunefnd útlendingamála. Hún er sjálfstæð og úrskurðir hennar eru endanlegir. Henni var m.a. komið á fót til að bregðast við gagnrýni, m.a. frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Rauða krossi Íslands. Hún hefur heimildir til að yfirfara úrskurði Útlendingastofnunar og er sjálfstæð í þeim efnum. Það er mikilvægt að þessi mál fari í faglegan farveg hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála og að málsmeðferð sé ekki löng. Við höfum markvisst unnið að því að stytta málsmeðferð til hagsbóta fyrir það fólk sem sækir um þannig að það geti fengið skýrari svör, hvort sem svarið er já eða nei. Við höfum séð virkilegan árangur í því. Þau mál sem að meðaltali taka lengstan tíma, sem eru efnismeðferðarmálin, eru komin undir sjö mánuði. Við viljum fá þann tíma enn neðar og því eru það afar sjaldgæf og afar einstök mál sem fara lengra og eru lengur í meðferð íslenskra stjórnvalda. Í því máli sem hv. þingmaður nefnir hér sérstaklega er það þannig að íslensk stjórnvöld, Útlendingastofnun og kærunefnd, afgreiddu það þó innan þess 18 mánaða frests sem við höfum sett okkur sem ég hef boðað að verði 16 mánuðir þegar málefni barna eru annars vegar.



[15:08]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Nú mun ég mögulega hafa verið of óskýr vegna þess að hæstv. ráðherra svaraði í engu þeirri spurningu sem ég beindi til hennar og ég ítreka hana: Mun ráðherra setja það frumvarp til hliðar sem fyrrverandi dómsmálaráðherra lagði fram á þingi síðasta vor eða mun þingmannanefndin eiga að taka mið af því sem setur fólk í verri stöðu? Þetta var fyrsta spurningin. Svo langar mig að fylgja þessu eftir með annarri, hvort ráðherra ætli að setja skýra stefnu um málefni barna og viðkvæmra einstaklinga sem sækja um vernd á Íslandi og hvort hún sé tilbúin til að beita sér fyrir því að skilgreina og bæta mat á því sem barni er fyrir bestu, eins og UNICEF hefur bent á og farið fram á.



[15:09]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það frumvarp sem hv. þingmaður vísar til var til umfjöllunar í þverpólitísku þingmannanefndinni fyrr í haust til að fá umræðu um það og ábendingar ef einhverjar væru. Það frumvarp lýtur að miklu leyti að því að hraða málsmeðferð, sér í lagi í verndarmálum sem hv. þingmaður nefndi í fyrri ræðu sinni. Það eru þessi verndarmál þar sem aðili hefur fengið vernd annars staðar. Við erum t.d. ekki að senda fólk, eins og hv. þingmaður nefndi, til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, því hættum við 2010. En við sendum fólk annað eins og önnur Evrópuríki sem við höfum fylgt í framkvæmd, eins og Norðurlöndin, á grundvelli þess að fólk hefur vernd nú þegar í því landi. Það gerist þó ekki sjálfkrafa af því að kerfið okkar er það vel uppbyggt að við gerum einstaklingsbundið mat við hvert og eitt mál. Það gerist því ekki sjálfkrafa og það hefur oft gerst í tilvikum þar sem fólk hefur hlotið vernd annars staðar að það hlýtur samt efnismeðferð á Íslandi, af því að það fer fram einstaklingsbundið mat. Þannig viljum við að kerfið okkar virki og það er þannig í dag. (Forseti hringir.) Það er sjálfsagt að byggja það upp og þingmannanefndin hefur nú þegar, síðastliðinn föstudag, fjallað um málefni barna og ég óskaði eftir að sú vinna héldi áfram.