150. löggjafarþing — 56. fundur
 3. feb. 2020.
tímamörk í útlendingalögum.

[15:30]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að ætla að leggja fram frumvarp um að breyta reglum eins og ráðherra hefur lýst þannig að viðmiðið verði 16 mánuðir en ekki 18 mánuðir þegar kemur að því hvenær hægt sé að veita fólki dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða þegar málsmeðferðin dregst fram yfir þetta tímabil, 16 mánuði samkvæmt tillögu ráðherrans. Aftur á móti tökum við eftir því í fréttum, í sambandi við mál sem hefur verið til umræðu síðustu daga, að fjölskyldan sem um ræðir, þ.e. Muhammed litli og hans fjölskylda, er búin að vera hér í 26 mánuði. Það er verið að spyrja: Hvernig stendur á því og hverju myndi það breyta að stytta þessi tímamörk úr 18 mánuðum í 16 mánuði? Svarið er að niðurstaða málsins lá fyrir eftir u.þ.b. 17 mánuði en hins vegar tók allan þennan tíma, frá þeim tíma, að vísa þeim úr landi, að brottreksturinn væri framkvæmdur. Hann hefði átt að framkvæma í dag að öllu óbreyttu.

Tilgangurinn með þessum tímafresti er væntanlega sá að koma til móts við það að þegar fólk bíður hér lengi þá festir það rætur og það verður í eðli sínu ómannúðlegt að rífa sjö ára barn upp með rótum sem er búið að læra tungumálið og eignast marga vini og senda það úr landi eftir þvílíka bið. En það getur varla skipt miklu máli fyrir barnið hvort biðin sé vegna þess að eitthvað sé ekki búið á stjórnsýslustigi eða vegna þess að ekki sé búið að framkvæma brottvísun. Rótfestingin er sú sama hjá barninu. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort hæstv. ráðherra sé opinn fyrir því að gera einnig þá lagfæringu á löggjöfinni að tíminn sem það tekur að framkvæma brottvísun sé tekinn með inn í þennan tímaramma sem ráðherrann blessunarlega boðar að verði styttur.

Ég veit að þetta er lagatæknileg spurning en mín reynsla af útlendingamálum er sú að lagatæknin er oft vanrækt þegar kemur að svona hjartans málum, tilfinningamálum. En því mikilvægara finnst mér að löggjöfin sé í lagi og taki mið af markmiðinu og ef markmiðið er mannúð hljótum við að vilja taka þennan tíma sem ég hef hér lýst inn í nýju tímamörkin.



[15:33]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég vil ítreka að ég hef boðað breytingar á reglugerð sem byggist á þeirri heimild sem ég hef í 23. gr. laga um útlendinga um að hafa nánari ákvæði um málsmeðferð Útlendingastofnunar eins og var m.a. gert síðastliðið haust. Þá er heimilt að mæla nánar fyrir um málsmeðferðartíma, t.d. sérstaklega fyrir börn. En þetta mun ég kynna betur og er í vinnslu.

Varðandi það sem hv. þingmaður ræðir um brottvísanir er rétt hjá hv. þingmanni að það getur tekið mikinn tíma. Það er þó í fæstum málum sem það tekur marga mánuði að framkvæma brottvísun en það fer oft eftir ýmsum atriðum og m.a. stöðu í móttökuríkinu og möguleikanum á að klára og framkvæma brottvísun héðan. Það er því ekki alltaf einungis komið undir íslenskum stjórnvöldum að framkvæma brottvísunina. En það er rétt hjá hv. þingmanni að þetta er inni í þeim tíma sem fólk er hér og bíður eftir brottvísun. Ég bind vonir við að þingmannanefndin um málefni útlendinga sem fundaði um stöðu barna og fólks í viðkvæmri stöðu sl. föstudag muni halda áfram að ræða þetta af því að við þurfum auðvitað að horfa á það heildstætt sem og annað.



[15:34]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Bara til áréttingar var þetta ekki rætt á fundinum sl. föstudag, ég sit í þeirri nefnd. En auðvitað vona ég eins og ráðherrann að svo verði og geri fastlega ráð fyrir því að það verði rætt þar. Mér finnst hins vegar mikilvægt að viðhorf ráðherrans til þessa atriðis sé skýrt og okkar allra. Það þarf að vera samhugur um þetta, eins og ráðherra fór yfir áðan. Það skiptir máli að allir séu á sömu blaðsíðu.

Nú þekki ég ekki Muhammed litla, ég hef aldrei talað við hann en geri fastlega ráð fyrir að það skipti hann í sjálfu sér litlu máli hvort biðin sé vegna þess að málið sé fast þarna eða hinum megin í kerfinu eða hvort vandræðin séu í Pakistan eða hér. Eftir stendur að börn festa rætur á þessum tíma og þess vegna finnst mér skipta máli að það sé með inni í tímarammanum, sama hvort það er útfært í reglugerð eða með breytingu á lögum. Ég hefði reyndar talið að það yrði breyting á lögum en það er svo sem aukaatriði. Ef mörkin hefðu verið 16 mánuðir í staðinn fyrir 18 mánuði og segjum sem svo að málið hefði klárast á stjórnsýslustigi tveimur mánuðum fyrr þá væri samt verið að reka hann úr landi eftir tveggja ára bið, eftir 24 mánuði í stað 26. Ég sé ekki að það myndi breyta neinu. Mér finnst mikilvægt að koma til móts við þetta. Er ráðherrann opin fyrir því? Það er spurningin.



[15:36]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Já, það er rétt hjá hv. þingmanni að það er kannski ekki eingöngu undir okkar stjórnkerfi komið að ráða því hversu langan tíma þetta tekur. En það fer auðvitað líka oft eftir fólkinu sjálfu. Stundum kýs fólk að fara heim sjálft eins og því er boðið að gera eftir að endanleg niðurstaða er komin í þeirra máli, sjálfviljug heimför áður en farið er í að undirbúa brottvísun. En þegar það er gert er það svolítið undir landinu sjálfu komið og það er mikilvægt fyrir okkur að koma á góðum samskiptum við lönd þess borgara sem við erum að vísa til baka. Ég er auðvitað opin fyrir öllum þeim breytingum sem eru til hagsbóta fyrir börn eins og ég sýni með þeirri reglugerðarbreytingu að hafa þetta 16 mánuði. En það er að sjálfsögðu markmið okkar að það sé enginn í kerfinu okkar eins lengi og það mál sýnir sem hefur verið til umræðu hér.