150. löggjafarþing — 58. fundur
 6. feb. 2020.
skatteftirlit.

[10:39]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Aðeins á öðrum nótum. Í meira en aldarfjórðung hefur reglulega verið vakin athygli á nauðsyn þess að uppræta augljósan tvíverknað í rannsókn á skattsvikum og efnahagsbrotum og útgáfu ákæra á því sviði. Fyrirkomulagið sem er við lýði hér á landi er seinvirkt og kostnaðarsamt og hvorki hinu opinbera né meintum sakborningum í hag. Með löngum málsmeðferðartíma vex auk þess hætta á að réttarspjöll verði og leiðir til mildari dóma en ella og jafnvel sýknunar, eins og dæmin sanna. Héraðssaksóknari gefur út ákærur eftir rannsókn en skattrannsóknarstjóri gerir það ekki eftir sínar rannsóknir, jafnvel þótt niðurstöður skattrannsóknarstjóra séu lagðar til grundvallar fyrir rannsóknir héraðssaksóknara.

Í Panama-skjölunum voru Íslendingar fjölmennir og rannsókn þeirra flókin og margþátta. Samherjaskjölin kalla á rannsókn á flóknum millifærslum og skoðun í minnst þremur löndum og svo erum við á gráum lista vegna þess að við stöndum okkur ekki í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Það er augljóst að það þarf að efla rannsóknir á skattalagabrotum og sjá til þess að þær verði skilvirkari. Í september í fyrra biðu 140 mál afgreiðslu á borði héraðssaksóknara frá skattrannsóknarstjóra. Í nokkrum útgefnum skýrslum hefur verið fjallað um þá mögulegu lausn að færa ákæruvald í þessum málum til skattrannsóknarstjóra og í nýlegu þingmáli Samfylkingarinnar er það einnig lagt til.

Er hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra ekki sammála því að einmitt það þurfi að gera, breyta lögum þannig að skattrannsóknarstjóri fái ákæruvald, koma þannig í veg fyrir tvíverknað við rannsóknir sakamála og í veg fyrir óþarfafyrirhöfn og kostnað fyrir hið opinbera og óþarfa íþyngingu fyrir sakborninga?



[10:41]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við höfum verið með þessi mál í skoðun, m.a. fyrir það að mál hafa tapast hjá Mannréttindadómstóli Evrópu þar sem ekki var samfella í rannsókn þeirra á ólíkum stigum. Það má alveg taka undir það með hv. þingmanni að fyrirkomulag rannsóknar á þessum málum er dálítið flókið en ég hef viljað treysta á ráð okkar besta fólks í þessu efni og hef þess vegna haft að störfum sérstakan sérfræðingahóp til að leggja á ráðin um það hvernig við megum bæði bregðast við niðurstöðu Mannréttindadómstólsins og um leið nýta reynslu og þekkingu kerfisins hér heima til þess að auka skilvirkni í þessum efnum. Þannig myndum við bæði auka afköstin og gæta enn betur að mannréttindasjónarmiðum. Ég hef nýlega birt, fyrir u.þ.b. tveimur vikum, skýrslu starfshópsins sem áfram vinnur að þessum málum.

Ég hef lagt fyrir þingið sérstakt frumvarp um að bregðast við þeirri stöðu sem upp hefur komið eftir niðurstöðu Mannréttindadómstólsins þar sem við höfum ákveðið að koma í veg fyrir að slík atvik geti endurtekið sig. En í þeirri vinnu og í skýrslunni, sem er birt á vef fjármálaráðuneytisins, er ekki verið að gera ráð fyrir því að skattrannsóknarstjóri fái ákæruvald eða að við störfum áfram í óbreyttu stofnanakerfi. Það er frekar verið að horfa til þess með hvaða hætti við gætum sameinað stofnanir og hvernig verkefni myndu þá flytjast á milli þeirra. En mér sýnist að það sé ágætisgangur í þessu og eins og ég hef áður boðað, og birtist í frétt sem er á vef ráðuneytisins frá því 24. janúar, vonast ég til að geta komið fram með frumvarp um þetta efni síðar á árinu.



[10:43]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ég fagna því að það eigi að gera eitthvað í þessum málum. En ég held að það sé nauðsynlegt að hafa hraðar hendur og taka tvíverknaðinn út því að það er ekki þannig sem við viljum láta kerfin okkar virka, að það sé svo seinvirkt og óskilvirkt að sakborningar sleppi og að refsing sé jafnvel mismunandi eftir því einu hver málstíminn er. Ég hef skoðað það sem er að gerast í Þýskalandi í þessum efnum og ég hvet hæstv. ráðherra til að líta þangað eftir breytingum á þessu sviði.

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra út í peningaþvætti og hvernig tekið er á því. Peningaþvætti tengist oft skattsvikum og oft getum við byrjað á að skoða stór peningaþvættismál með því að skoða frumbrotin, sem eru skattsvik. Ég spyr hvort ekki sé betra að halda rannsóknum á peningaþvætti og skattsvikum á sömu hendi.



[10:45]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við höfum, í frumvarpi sem liggur fyrir þinginu, þegar ákveðið að hætta álagningu í málum sem eiga að fara í refsimeðferðarfarveginn. Með því eigum við þegar að hafa brugðist við þeim ábendingum sem okkur hafa borist í gegnum niðurstöður Mannréttindadómstólsins. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að oft geta verið tengsl á milli ólíkra brota, þ.e. eitt og sama málið getur falið í sér slóð brota. Við höfum verið að efla stjórnkerfið í að rannsaka peningaþvættismál. Aukin framlög til skattrannsóknarstjóra eru t.d. vegna þess að þangað berast í stórauknum mæli tilkynningar víða að úr kerfinu, m.a. vegna aukinnar meðvitundar um mikilvægi þess málaflokks og það hefur skapað álag sem við þurfum að mæta með auknum mannskap. (Forseti hringir.) Ég vil bara vekja athygli á þeim meginniðurstöðum sem er að finna í skýrslunni sem þegar hefur verið birt. Það er verið að vinna þetta mál áfram og ég (Forseti hringir.) vonast til þess að koma með frekari svör í frumvarpi á haustþingi.