150. löggjafarþing — 58. fundur
 6. feb. 2020.
norrænt samstarf 2019.
skýrsla ÍNR, 557. mál. — Þskj. 916.

[12:18]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf á árinu 2019. Mér finnst athyglisvert, herra forseti, ef ég má segja áður en ég flyt skýrsluna, að enginn þingmaður skuli sitja í salnum en ég fagna því að hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skuli sitja hér og hlýða á ásamt forseta. Mér finnst þetta athyglisvert af því að mikið er lagt upp úr norrænu samstarfi í ríkisstjórnarsamstarfinu og það kemur fram í samstarfsyfirlýsingunni að megináherslan í utanríkisstefnunni sé lögð á samstarf Norðurlanda. Vonandi eru hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar að velta þessum hlutum fyrir sér annars staðar í húsinu.

Á Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi árið 2019 var Silja Dögg Gunnarsdóttir kjörin forseti Norðurlandaráðs fyrir árið 2020 og sú sem hér stendur, Oddný G. Harðardóttir, varaforseti. Jafnframt var formennskuáætlun Íslendinga samþykkt en meginþemu hennar eru þrjú: upplýsingaóreiða og falsfréttir, líffræðilegur fjölbreytileiki og tungumálaskilningur milli norrænna þjóða. Á þinginu var einnig samþykkt ný stefna Norðurlandaráðs um samfélagsöryggi sem sérstakur vinnuhópur á vegum forsætisnefndar Norðurlandaráðs mótaði. Ég átti sæti í þeim hópi. Meiri hluti þingmanna í Norðurlandaráði samþykkti nýja áætlun norrænu ráðherranefndarinnar um fjármögnun fimm norrænna rannsóknastofnana, þar á meðal Norræna eldfjallasetursins í Reykjavík. Norræna ráðherranefndin hafði dregið til baka fyrri áætlun um að fella niður fastar fjárveitingar til stofnananna, einkum vegna andstöðu íslenskra þingmanna og Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, þegar taka átti tillöguna til meðferðar á vorþingi Norðurlandaráðs á Akureyri 2018. Í nýju tillögunni er gert ráð fyrir lengra aðlögunartímabili vegna breytinganna og fleiri úrbótum til að tryggja norrænar tengingar stofnananna.

Í formennskutíð Íslands í norrænu ráðherranefndinni árið 2020 var mótuð framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf til ársins 2030. Í framtíðarsýninni eru þrjár stefnumarkandi áherslur um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Á árinu 2020 verða mótaðar þverlægar framkvæmdaáætlanir fyrir tímabilið 2021–2024 sem byggjast á áherslunum þremur. Í september árið 2019 báðu samstarfsráðherrar Norðurlanda Norðurlandaráð um að leggja fram tillögur að markmiðum fyrir framkvæmdaáætlanirnar. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs fjallaði um málið í desember og samþykkti m.a. að leggja til skipan ráðherranefndar um samgöngumál, norrænt samstarf um rafvæðingu og hleðslustöðvar við vegi og hafnir, aðgerðir til að auka tungumálaskilning innan Norðurlanda og til varnar lýðræði og gegn upplýsingaóreiðu og tillögur á sviði jafnréttis, menningar og sjálfbærrar þróunar.

Svíar voru í formennsku í Norðurlandaráði árið 2019. Jessica Polfjärd, þingkona sænska hægri flokksins, gegndi stöðu forseta Norðurlandaráðs fyrri hluta árs 2019. Í maí náði hún kjöri til Evrópuþingsins og var því flokksbróðir hennar, Hans Wallmark, kjörinn forseti í hennar stað á sumarfundi forsætisnefndar ráðsins í júní.

Gyða Valtýsdóttir hlaut tónlistarverðlaunin árið 2019. Mikla athygli vakti þegar sænski umhverfisaðgerðasinninn Greta Thunberg hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs en afþakkaði þau í mótmælaskyni við aðgerðaleysi stjórnvalda í loftslagsmálum.

Í skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs er komið víða við og þar er að finna upplýsingar um Norðurlandaráðið, hvenær það var stofnað og hvernig það starfar. Málefnastarf Norðurlandaráðs fór árið 2019 að mestu fram í fjórum fagnefndum auk forsætisnefndar. Á milli þinga stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins, vísar tillögum til nefnda eða afgreiðir þær. Forsætisnefnd fer jafnframt með utanríkis- og öryggismál svo og samskipti Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðastofnanir. Þá fer eftirlitsnefnd yfir ársreikninga ráðsins og stofnana sem starfa innan Norðurlandasamstarfsins. Loks kemur kjörnefnd saman til að gera tillögu að skipan í nefndir og trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs.

Nefndirnar eru forsætisnefnd, þekkingar- og menningarnefnd, hagvaxtar- og þróunarnefnd, sjálfbærninefnd, velferðarnefnd, eftirlitsnefnd og kjörnefnd.

Aðalmenn í Íslandsdeild Norðurlandaráðs árið 2019 voru þau Silja Dögg Gunnarsdóttir formaður frá þingflokki Framsóknarflokksins, Oddný G. Harðardóttir varaformaður frá þingflokki Samfylkingarinnar, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Steinunn Þóra Árnadóttir frá þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Vilhjálmur Árnason frá þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Guðmundur Ingi Kristinsson frá þingflokki Flokks fólksins, og Anna Kolbrún Árnadóttir frá þingflokki Miðflokksins. Varamenn voru þau Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir frá Vinstri grænum, Brynjar Níelsson frá Sjálfstæðisflokki, Inga Sæland frá Flokki fólksins, Logi Einarsson frá Samfylkingunni, Willum Þór Þórsson frá Framsóknarflokki og Þorsteinn Sæmundsson frá Miðflokknum. Helgi Þorsteinsson gegndi stöðu ritara Íslandsdeildar Norðurlandaráðs árið 2019.

Í upphafi árs sátu Silja Dögg Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir í forsætisnefnd Norðurlandaráðs, Vilhjálmur Árnason í sjálfbærninefnd, Anna Kolbrún Árnadóttir í þekkingar- og menningarnefnd og Kolbeinn Óttarsson Proppé og Guðmundur Ingi Kristinsson í velferðarnefnd. Guðmundur Ingi sat einnig í eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs. Fyrir Norðurlandaráðsþingið í Stokkhólmi í október færðist Kolbeinn úr velferðarnefnd í sjálfbærninefnd.

Fulltrúar Íslandsdeildar sátu auk þess á vegum Norðurlandaráðs í stjórnum norrænna stofnana og voru fulltrúar þess út á við. Steinunn Þóra Árnadóttir sat í stjórn Norræna menningarsjóðsins og sótti fund hennar í Ilulissat á Grænlandi í maí. Vilhjálmur Árnason átti sæti í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans og sótti fundi hennar í Helsinki 15. febrúar og 24. október. Silja Dögg Gunnarsdóttir var aðalfulltrúi Norðurlandaráðs á fundum þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins fram til ársfundar samtakanna í Ósló í ágúst, sem hún sótti, og eftir það er hún varafulltrúi. Oddný G. Harðardóttir var varafulltrúi Norðurlandaráðs hjá sömu samtökum til ársfundarins í ágúst. Hún sótti fund fastanefndar þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins í Brussel 21. febrúar. Oddný var einnig skýrslugjafi Norðurlandaráðs á fundum þingmannanefndarinnar um norðurskautsmál og sótti fundi samtakanna í Ottawa í Kanada 23.–24. maí og í Bodø í Noregi 18.–20. nóvember. Kolbeinn Óttarsson Proppé var fulltrúi Alþingis hjá þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins. Hann sótti fundi fastanefndar samtakanna í Brussel í febrúar og í Berlín 10.–11. nóvember og ársfundinn í Ósló í ágúst. Kolbeinn fór einnig sem fulltrúi sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs á fund á vegum Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni í Montreal 26.–27. nóvember og á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Madríd 10.–12. desember. Vilhjálmur Árnason fór sem fulltrúi sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs á fund um orkumálastefnu ESB 20. mars í Brussel.

Íslandsdeild Norðurlandaráðs fundaði tíu sinnum á árinu. Til funda deildarinnar var boðið fulltrúum Norðurlandaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Norræna félagsins, Norðurlandaráðs æskunnar, upplýsingaþjónustunnar Halló Norðurlönd, Norræna hússins og fleiri einstaklingum og samtökum sem tengjast norrænu samstarfi. Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, fundaði með Íslandsdeild Norðurlandaráðs á árinu.

Í skýrslu þeirri sem ég mæli fyrir eru upplýsingar um þessa fundi, um helstu umræðuefni og niðurstöður.

Að lokum, forseti, vil ég rétt aðeins segja frá verðlaunum á vegum Norðurlandaráðs. Þau eru bókmenntaverðlaun sem er mikil spenna í kringum og fólk fylgist vel með, tónlistarverðlaun, umhverfisverðlaun og kvikmyndaverðlaun. Það er alltaf ákveðin hátíð við þing Norðurlandaráðs hverju sinni í kringum þessar verðlaunaafhendingar. Það eru beinar útsendingar í ríkissjónvörpum landanna og listamennirnir nýta það tækifæri oft sem þeir hafa þar til að koma með skilaboð út í samfélögin um alls konar málefni sem liggja þeim á hjarta. Okkar íslensku listamenn sem hafa fengið verðlaun hafa sent út skilaboð sem menn gleyma seint. Þessi stund er mikilvæg og að listamenn nýti þá stund eins og þeir einir kjósa.

Íslendingar fara með formennsku í Norðurlandaráði á árinu 2020 eins og áður sagði og Silja Dögg Gunnarsdóttir er forseti ráðsins og sú sem hér stendur varaforseti. Árið 2020 verður vorþing Norðurlandaráðs haldið dagana 30.–31. mars í Helsinki og aðalþingfundur ráðsins verður haldinn 26.–29. október í Reykjavík.

Forseti. Ég hef þetta ekki lengra en bendi á ítarlega skýrslu sem liggur á vef Alþingis og einnig í prentuðum eintökum frammi í hliðarherbergi. Þar er hægt að fræðast um störf Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sem eru fjölbreytt. Þau eru líka afar mikilvæg sem tenging inn í hin norrænu ríkin.



[12:31]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Ég hef verið í velferðarnefnd Norðurlandaráðs og eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs í nær eitt ár og er loksins að komast inn í þá miklu vinnu sem þar fer fram. Það kemur mér mjög á óvart hversu virkt allt þetta starf er og hversu marga málaflokka það spannar.

Í velferðarnefnd hefur verið tekið á ýmsum málum og mér er mjög minnisstætt þegar ég fékk að mæla fyrir málefnum fatlaðra á Norðurlandaráðsþinginu í Stokkhólmi 28.–30. október. Það er eitt af málunum í velferðarnefnd og hefur verið rætt mikið þar. Eins og kom fram þar í málflutningi mínum er grundvallaratriðið í öllum málefnum þess flokks: Ekkert um okkur án okkar. Það er nefnilega meginstefið. Það sem er einnig merkilegt og ég komst að er að velferðarnefnd hafði ekki komið til Íslands, en verður bætt úr því í sumar og við fáum hana hingað í júnímánuði. Hún ætlar að taka á mjög viðamiklum málefnum, tveimur sérstaklega, jafnréttismálum og síðan baráttunni gegn sjálfsvígum. Þetta eru tvö mjög mikilvæg mál og verður ánægjulegt að taka þátt í þeirri umræðu með velferðarnefndinni og hitta alla þá aðila sem til stendur að hitta á Íslandi.

Einu af því merkilegasta sem gert er í sambandi við eftirlitsnefndina kynntist ég og hefur þó ýmislegt komið mér á óvart. Ég skal alveg viðurkenna að í síðustu ferð til Danmerkur, þegar eftirlitsnefndin fór í eftirlitsferð til Svíþjóðar rétt vestan við Málmey til að heimsækja norrænan genabanka, varð ég eiginlega orðlaus. Ég uppgötvaði þarna mjög vel varðveitt leyndarmál. Ég vissi eitt um þennan genabanka, hafði einhvern tímann heyrt í fréttum að hann væri með frægeymslur á Svalbarða þar sem eru hundruð þúsunda eða milljónir fræja sem eru allt norrænar plöntur.

En þetta er bara brot af því, þeir eru að kortleggja þarna dýrastofna og tré líka. Það sem mér fannst eiginlega merkilegast við að koma þangað á þessu tímabili var þegar við fengum að skoða rannsóknastofuna og sjá þar í tilraunaglösum hvað þar væri á ferðinni og þegar við fengum upplýsingar um að það væru íslenskar rauðar kartöflur. Þær eru meðal elstu kartöflutegunda sem hafa komið til Norðurlandanna, komu fyrst til Svíþjóðar og svo hingað. Þetta var mjög merkilegt. Þarna eru þeir líka að framleiða kartöflufræ og alls konar fræ sem hægt er að kaupa á netinu í gegnum þessa stofnun. Ég ætla að fara aðeins betur ofan í þetta en þetta þarf að upplýsa. Það sem fer þarna fram er stórmerkilegt og það sem sló mig hvað mest og sem ég þarf líka að athuga með er að þarna eru vísindamenn frá öllum Norðurlöndunum en enginn frá Íslandi. Skýringin sem við fengum var sú að það væri enginn hæfur eða með rétta menntun á Íslandi til að vinna á þessari rannsóknastofu. Ef svo er er það grafalvarlegt mál og þarf sérstakrar athugunar við.

Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra. Ég mun fylgja því eftir sem ég hef verið að vinna við núna undanfarið og gefa betri skýrslur um það síðar. Síðan verður líka merkilegt að vinna með velferðarnefnd hér heima í sumar og vonandi kemur eitthvað út úr því samstarfi eins og hingað til hefur komið. Ég átta mig á að þetta skilar okkur ótrúlegum upplýsingum en þeim upplýsingum verðum við sem erum í þessum nefndum að miðla áfram til að það skili sér. Þess vegna þurfum við að vera á tánum og upplýsa um allt það sem þar fer fram. Þetta er stórmerkilegt samstarf sem fer fram á Norðurlöndum og ég verð að segja alveg eins og er að það skilar okkur Íslendingum alveg ótrúlegum upplýsingum. Það dugir þó skammt ef við nýtum okkur það ekki. Það er það sem við þurfum að gera næst.



[12:36]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls á undan mér í þessari umræðu og tek undir með þeim um mikilvægi norræns samstarfs. Vissulega erum við öll þeirrar gerðar að okkur finnst oft mikilvægt það sem við sjálf erum að fást við og ég er viss um að í öllum umræðum um allt alþjóðastarf hér í dag mun sú skoðun koma fram að okkur finnist þetta með því mikilvægara sem við gerum. Það er ekkert óeðlilegt því að alþjóðasamstarf er gríðarlega mikilvægt. Ég ætla að leyfa mér að segja að í því alþjóðasamstarfi sem við Íslendingar tökum þátt í, þá sérstaklega í gegnum Alþingi, finnst mér fátt mikilvægara en að vera í þessu góða samstarfi við okkar nánustu nágranna, bæði í gegnum Norðurlandaráð og einnig í gegnum Vestnorræna ráðið. Ég hygg að við munum ræða það hér á eftir.

Stundum finnst mér örla á því í umræðunni að eitthvað fínna þyki að horfa lengra út í heim þegar kemur að alþjóðasamstarfi. Staðreyndin er sú að við berum okkur saman við helstu nágrannalönd okkar, Norðurlöndin. Við heyrum á þingi sennilega sjaldnar talað um nokkurt svæði í heiminum en einmitt Norðurlöndin, hvort sem við erum að gagnrýna stefnu stjórnvalda hér, dásama stefnu stjórnvalda, segja hvert við viljum fara eða hvað við höfum gert vel. Alltaf lítum við til Norðurlandanna til samanburðar. Við viljum ná að koma íslensku samfélagi meira í takt við það góða sem þar er að finna. Að sjálfsögðu eru þetta engin sæluríki þar sem allt er stórkostlegt en samstarfið í Norðurlandaráði gefur okkur færi á að læra af því sem hefur verið gert hjá þessum nágrannaþjóðum okkar. Það verður að segjast eins og er að á mörgum sviðum hafa þær þjóðir verið aðeins á undan okkur.

Þá ætla ég að draga fram, forseti, það sem mér finnst einnig svo merkilegt við Norðurlandasamstarfið í gegnum Norðurlandaráð og það er sú staðreynd hve ólík staða ríkjanna er í öðru alþjóðlegu samstarfi. Sum Norðurlöndin eru í Atlantshafsbandalaginu, önnur ekki, sum þeirra eru í Evrópusambandinu og önnur ekki svo dæmi séu tekin. Þetta hefur hins vegar engin áhrif á það góða samstarf sem á sér stað innan Norðurlandaráðs. Hér hafa þeir hv. þingmenn sem töluðu á undan mér farið ágætlega yfir það og ef við ætluðum að ræða efnislega um það sem við höfum verið að gera innan Norðurlandaráðsins dygði okkur ekki þessi dagur, sennilega ekki vikan og gott ef við gætum ekki bara séð Alþingi Íslendinga fyrir umræðuefni heilan þingvetur með öllu því sem þar fer fram.

Það er hárrétt sem hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson kom inn á, ábyrgð okkar sem tökum þátt í slíku alþjóðasamstarfi er sú að taka það góða sem við lærum og komum að á vettvangi alþjóðasamstarfsins og færa hingað inn. Um það eigum við mýmörg dæmi, hvort sem það hefur komið inn í fyrirspurnir, lagafrumvörp, þingsályktunartillögur eða annað. Ábyrgðin er samt okkar því að til þess erum við í þessu starfi, bæði til að hafa góð áhrif en einnig til að fræðast og læra.

Ég ætla að leyfa mér að ræða örlítið um Norðurlöndin og stöðu tungumálanna. Það hefur verið töluverð áhersla á það að fulltrúar frá hverju Norðurlandanna fyrir sig geti tjáð sig á eigin tungumáli sem er eðlilegt þegar við eigum í djúpum pólitískum samræðum en ég ætla líka og ekki síður að draga fram mikilvægi þess að við lærum Norðurlandamál. Breyting hefur orðið á í menntakerfinu á síðustu árum eða jafnvel áratugum, ég þori ekki að setja á það nákvæmari tímasetningu af því að ég þekki það ekki nógu vel, forseti, í þá átt að æ færri virðast tileinka sér eitthvert tungumál Norðurlandanna. Við þurfum ekki að fara mörgum orðum um það hvað enskan er alltumlykjandi í menningu, bæði hér og um allan heim. Hún er orðin hið nýja „lingua franca“, afsakaðu slettuna, forseti. Það þýðir ekki að við eigum ekki að tileinka okkur fleiri tungumál, sem við svo sannarlega gerum, en ég held að við þurfum að halda Norðurlandamálunum æ betur á lofti. Það að geta tjáð sig á einhverju af hinum skandinavísku málum opnar einfaldlega fyrir okkur stóran heim sem er alveg við hliðina á okkur. Það má ekki gerast að við búum við hliðina á spennandi nágrönnum sem við getum ekki talað við af því að við skiljum ekki tungumál hvert annars en tölum á því tungumáli sem kannski þykir að einhverju leyti flottara. Þess vegna legg ég áherslu á að efla menntun í tungumálakennslu þegar kemur að Norðurlandamálunum. Einnig er mjög mikilvægt að standa vörð um það samstarf sem hefur verið á sviði Norðurlandaráðs þegar kemur að ungu fólki, þegar kemur að því í gegnum tækifæri til menntunar og í samstarfi þar á milli eða vinnu. Nordjobb er þekkt dæmi um það. Einhver okkar hér inni hafa kannski farið til vinnu á vegum þeirra fínu samtaka en því miður hefur að einhverju leyti dregið úr ásókn í það. Ég velti því upp ábyrgðarlaust eins og ansi mörgu sem ég segi, forseti, hvort það geti verið að minnkandi áhersla á Norðurlöndin í skólakerfinu hafi eitthvað með það að gera og vilja okkar til að læra tungumálin.

Annars fór hv. þm. Oddný G. Harðardóttir mjög vel yfir þá skýrslu sem hér liggur til grundvallar þó að hún sé það ítarleg að vitaskuld hafi hv. þingmaður ekki getað tæpt á öllu. Ísland gegnir þar nú formennsku og formennskuáætlunin hefur verið kynnt. Þar er komið inn á mjög mikilvæga þætti. Mig langar að nefna sérstaklega einn og því veldur ekki einungis sjálfhverfa mín, forseti, þar sem ég er talsmaður í því þema, heldur það að mér þykir það alveg sérstaklega mikilvægt nú um stundir. Það lýtur að upplýsingaóreiðu og falsfréttum. Það er eitt af þeim málefnum sem verið er að taka á og reyna að berjast gegn um allan heim, leyfi ég mér aftur að fullyrða án ábyrgðar. Hvar sem við komum í alþjóðastarfi og hvar sem við fylgjumst með er alls staðar reynt að standa vörð um það að réttum upplýsingum sé komið á framfæri og barist gegn flæði falsfrétta. Við sjáum fjölda ráðstefna og funda um þetta mál á Íslandi, eitt málþing bara á morgun, fyrst það er í kollinum á mér, á vegum Vísindavefs Háskóla Íslands, svo dæmi sé tekið.

Þetta vildi ég sagt hafa um þessi mál. Ég gæti talað töluvert lengur um þau en ég hvet alla hv. þingmenn sem sitja á Alþingi til að nýta sér það að Ísland er nú með formennsku í Norðurlandaráði og að þingið verður því hér í haust. Starfið verður kannski sýnilegra á Íslandi þetta árið en mörg önnur og ég hvet alla hv. þingmenn til að taka þátt í því eins og kostur er.



[12:46]
ráðherra norrænna samstarfsmála (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla að koma örstutt upp undir lok umræðunnar og óska Íslandsdeild Norðurlandaráðs til hamingju með formennskuna og hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur til hamingju með að vera forseti Norðurlandaráðs sem og hv. þingmanni, framsögumanni skýrslunnar í dag, Oddnýju G. Harðardóttur, fyrir einmitt að vera varaforseti þess. Ég þakka fyrir samstarfið við Norðurlandadeildina á síðasta ári, á formennskuári Íslands í norrænu ráðherranefndinni, og lýsi yfir vilja til stuðnings og að koma til samstarfs við íslensku Norðurlandaráðsdeildina vegna þessa mikilvæga verkefni sem er mikið, að standa fyrir Norðurlandaráðsþingi í ár og vera í formennsku á þessum vettvangi. Af því að hér verður líka rætt um skýrslu Vestnorræna ráðsins á eftir þakka ég jafnframt fyrir samstarfið við þau sem þar sitja og forseta þess, hv. þm. Guðjón S. Brjánsson.

Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé kom inn á mikilvægi tungumála sem er einmitt eitt af því sem menn hafa lagt áherslu á af hálfu Norðurlandaráðs við norrænu ráðherranefndina. Ég tek undir með hv. þingmanni.

Nú búa um 30.000 Íslendingar á Norðurlöndunum, mjög margir eru þar í námi eða tímabundnu starfi. Þá er auðvitað mikilvægt að þessi þekking okkar á norrænum tungumálum sé til staðar. Við vitum ekki þegar við erum sjö, átta, níu, tíu ára, 12, 15 eða jafnvel 18 ára hvar við lendum nokkrum árum síðar. Stundum er það gáfulegasta sem við gerum í lífinu að heimsækja Norðurlöndin og dvelja þar um skamma hríð, hvort sem er við nám eða störf. Þá er verulegur kostur að hafa skilning á þessu fyrir utan það að í því samstarfi sem við erum í, þó að við ætlumst til að íslenskan okkar standi jafnfætis öðrum tungumálum, að við séum jafn gjaldgeng, hjálpar vissulega til að hafa einhverja grunnþekkingu í norrænum málum.

Að lokum vil ég segja að það skiptir máli hvernig Norðurlandaráð tókst á við það að koma þessari framtíðarsýn norræns samstarfs næstu tíu árin á laggirnar. Þær hugmyndir, þær tillögur og sá stuðningur sem kom frá Norðurlandaráði, ekki síst núna þegar við erum að koma þessu í gang og innleiða starfið, voru þær hugmyndir sem komu frá Norðurlandaráði og fundi núverandi formennskuríkis, Danmerkur, með forsætisnefnd Norðurlandaráðs allra góðra gjalda verðar. Við studdum þá sýn sem þar hefur verið sem undirstrikar að það er mikilvægt að við eigum samstarf, annars vegar framkvæmdarvaldið, norræna ráðherranefndin, og hins vegar þingmannahópurinn. Ég vildi bara undirstrika það með stuttri tölu.