150. löggjafarþing — 59. fundur
 17. feb. 2020.
fordæming meðferðar bandarískra stjórnvalda á flóttabörnum, fyrri umræða.
þáltill. HVH o.fl., 109. mál. — Þskj. 109.

[16:05]
Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um að Alþingi Íslendinga fordæmi meðferð bandarískra stjórnvalda á flóttabörnum. Flutningsmenn auk þeirrar sem hér stendur eru þingmenn Samfylkingarinnar, þau Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson, en einnig Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan flokka, Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sem og þingmenn Viðreisnar, þau Þorsteinn Víglundsson, Hanna Katrín Friðriksson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Jón Steindór Valdimarsson.

Þingsályktunartillagan hljómar þannig að Alþingi álykti að fordæma ólöglega og ómannúðlega meðferð bandarískra stjórnvalda á flóttabörnum og fjölskyldum þeirra við landamæri Bandaríkjanna og felur ríkisstjórninni að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að sundrun fjölskyldna í leit að alþjóðlegri vernd verði hætt þegar í stað.

Herra forseti. Tilefni þessarar þingsályktunartillögu blasir við. Ríkisstjórn Donalds Trumps hefur á undanförnum misserum hert mjög stefnu sína gegn fólki á flótta frá Suður- og Mið-Ameríkuríkjum til Bandaríkjanna. Frá júlímánuði 2017 hafa bandarísk stjórnvöld aðskilið börn frá foreldrum sínum og geymt þau í sérstökum flóttamannabúðum fjarri nokkru skyldmenni og jókst þetta töluvert árið 2018. Samkvæmt glænýrri skýrslu frá ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, fyrir árið 2019 heldur þessi aukning áfram. Samkvæmt bandaríska heilbrigðisráðuneytinu hafa þúsundir barna verið teknar við landamæri og flutt í sérstakar flóttamannabúðir, ætlaðar börnum og ungmennum, fjarri fjölskyldum þeirra. Þá hefur einnig komið fram að skráningu og utanumhaldi bandarískra stjórnvalda á þeim börnum sem brottnumin hafa verið á landamærunum sé mjög ábótavant og því er það svo að fjöldi barna sem skilin voru frá fjölskyldum sínum er í raun óþekktur. Það er fráleit staða með tilliti til mannúðar, mannhelgi og grundvallarréttar til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu.

Loks er það einnig svo að mörg þeirra þúsunda barna sem tekin hafa verið eru að því er virðist horfin, ferðir þeirra eru órekjanlegar og hafa bandarísk stjórnvöld engu getað svarað um hvað hafi orðið um blessuð börnin. Fregnir af þessari framkomu bandarískra stjórnvalda í garð barna á flótta komust í hámæli árið 2018 og þá brást alþjóðasamfélagið við með skýrum skilaboðum og hvatningu til bandarískra stjórnvalda um að hætta með öllu að skilja börn frá foreldrum sínum á landamærunum, enda slík meðferð á börnum óforsvaranleg og brot á þarlendum sem erlendum sáttmálum sem ætlað er að tryggja að mannréttindi séu ekki brotin.

Mannréttindasamtök, sem og fulltrúar Sameinuðu þjóðanna, fordæmdu aðgerðir bandarískra stjórnvalda og í kjölfar dómsúrskurðar alríkisundirréttar Kaliforníu frá júní 2018 í máli Ms. L gegn landamæraeftirlitsstofnun Bandaríkjanna þar sem kveðið var á um að aðskilnaður barna og foreldra þeirra væri andstæður lögum gáfu þarlend stjórnvöld út þá yfirlýsingu að aðskilnaði barna og foreldra á flótta yrði hætt. Það ber að ítreka að þetta var í júní 2018 en þessu var aldrei hætt.

Þá ber að geta þess að Bandaríkin eru eina ríki Sameinuðu þjóðanna sem ekki hefur fullgilt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er útbreiddasti mannréttindasamningur heims. Fullgilding hans felur í sér að ríki skuldbinda sig til að tryggja og virða réttindi barna, þar á meðal þann skýlausa rétt þeirra að vera ekki skilin frá fjölskyldum sínum.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch hafa bent á að þrátt fyrir yfirlýsingu bandarískra stjórnvalda um stöðvun aðskilnaðar barna og foreldra hefur þeim aðgerðum verið fram haldið og ómannúðlegri meðferð á börnum á flótta sömuleiðis. Bandarísk stjórnvöld hafa nýlega tekið upp reglur sem þau segja að séu til verndar flóttafólki sem fyrirskipar því að snúa frá landamærum Bandaríkjanna og dvelja í mexíkóskum þorpum án nauðsynlegrar verndar og án nauðsynlegs aðbúnaðar fyrir börn og fullorðna.

Þá eru þess einnig dæmi að ferðaskjöl séu tekin af þessu fólki á flótta þannig að fólk er sent til baka til mexíkóskra þorpa eða annarra borga eða þorpa án nokkurra persónulegra gagna sem sanna á þeim deili. Það gerir þessu sama flóttafólki aftur erfiðara fyrir að sækja um alþjóðlega vernd sem og að hverfa aftur til síns heima.

Mexíkósk stjórnvöld gáfu í júní 2019 út þær tölur að rúmlega 15.000 manneskjum á flótta frá Hondúras, Gvatemala og El Salvador hefði þannig verið snúið við á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna og komið fyrir í mexíkóskum landamæraborgum þar til bandarískum stjórnvöldum hugnast að taka á móti og vinna úr umsóknum þeirra. Á meðal þessara 15.000 einstaklinga eru 5.000 börn en einnig þungaðar konur og fjöldi annarra einstaklinga í sérlega viðkvæmri stöðu.

Í áðurnefndri skýrslu og upplýsingum frá ÖSE er fjallað um þessa meðferð á flóttabörnum og þá er horft á hvort þróun hafi átt sér stað til hins betra, ekki síst eftir yfirlýsingar bandarískra stjórnvalda um mannúðlegri stefnu í málefnum barna á flótta. Frá október 2018 til september 2019 komu rúmlega 76.000 fylgdarlaus börn til Bandaríkjanna. Rúmlega 473.000 flóttabörn komu með báðum foreldrum sínum og rúmlega 300.000 með einstæðu foreldri. Fylgdarlausu börnunum, þessum 76.000, fjölgaði um 52% milli áranna 2018 og 2019. Þegar rýnt er í bakgrunn barnanna, sér í lagi þeirra fylgdarlausu, var langstærstur hluti þeirra frá Gvatemala, Hondúras og El Salvador en einnig frá Mexíkó og eru þau að flýja hvort tveggja fátækt og ofbeldi.

Tölur frá ÖSE úr þessari sömu skýrslu sýna að meðallengd aðskilnaðar barna og fjölskyldna á þessi umrædda ári, 2018–2019, er 154 dagar. Það er 22 vikna aðskilnaður milli barna og foreldra. Athugið að þetta er meðalaðskilnaðartíminn. Sum þurfa að þola aðskilnað frá foreldrum sínum mun lengur og allt upp í nokkur ár. Meiri hluti barnanna er drengir og þar af eru 40% barnanna undir tíu ára aldri. 103 börn sem aðskilin voru frá foreldrum sínum á þessu tímabili, þessu eina ári, voru undir fimm ára aldri og allt niður í nokkurra mánaða gömul börn. Þessi börn sem tekin voru af fjölskyldum sínum voru geymd í sérstökum búðum fyrir flóttabörn og hafa þessar búðir fengið algjöra falleinkunn hjá eftirlitsaðilum. Er vitað um dauðsfall a.m.k. sjö barna í slíkum aðstæðum. Eftirlitsaðilar hafa bent á að aðstæðurnar séu beinlínis skaðlegar heilsu barnanna enda fæðan oft úldin, hreinlæti verulega ábótavant og meðferð á börnunum einkennist beinlínis af ofbeldi og vanrækslu. Þessi aðbúnaður einskorðast ekki við þær búðir þar sem börn sem skilin hafa verið frá fjölskyldum sínum dvelja heldur virðist einnig vera í þeim flóttamannabúðum sem hýsa fullorðna einstaklinga.

Þrátt fyrir niðurstöðu dómstóls í júní 2018 um að stöðva eigi aðskilnað barna frá fjölskyldum sínum voru 900 börn aðskilin frá fjölskyldum sínum 2019 með þeim sérkennilegu rökum að það væri gert í þágu barnanna sjálfra, eins sérkennilega og það hljómar. Er því ljóst að bandarísk stjórnvöld halda áfram þeirri ómannúðlegu og vanvirðandi meðferð á börnum á flótta sem fordæmd var af alþjóðasamfélaginu og telja flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld og Alþingi Íslendinga sendi bandarískum stjórnvöldum skýr skilaboð. Með samþykkt þessarar þingsályktunartillögu tekur Alþingi sömuleiðis undir kröfu mannréttindasamtaka víða um heim enda lykilatriði að alþjóðlegum skuldbindingum sé fylgt í hvívetna.

Herra forseti. Ég get ekki lokið framsöguræðu við fyrri umr. þessa máls án þess að minnast á stöðu flóttabarna á Íslandi. Hér eru vissulega allt aðrar aðstæður en þær sem þingsályktunartillaga sú sem hér er fjallað um lýtur að. Hér eru börn ekki aðskilin frá fjölskyldum sínum eða haldið í búrum eða flóttamannabúðum hvar fæðuöryggi og aðstæður eru beinlínis hættulegar. Við getum samt ekki lokið þessari umræðu án þess að skora á íslensk stjórnvöld að endurskoða málsmeðferð sína varðandi börn á flótta. Við ættum þannig mögulega að vera einnig hér í dag að fjalla um þingsályktunartillögu þar sem Alþingi fordæmir meðferð íslenskra stjórnvalda á börnum á flótta en það bíður betri tíma. Hér virðast íslensk stjórnvöld ekki álíta börn vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Þau eru álitin vera í góðri stöðu séu þau á flótta með foreldrum sínum. Íslensk stjórnvöld hafa metið það þannig að þrátt fyrir að líta megi svo á að barn sé eðli málsins samkvæmt í sérstaklega viðkvæmri stöðu sé það í þágu hagsmuna barnsins að fylgja foreldrum sínum úr landi en stjórnvöld hafa ekki litið til þess að það kunni að vera rétt að foreldrarnir byggi rétt sinn til verndar hér á landi á grundvelli sérstaklega viðkvæmrar stöðu barns síns.

Þarna tel ég að málum hafi verið snúið algjörlega á hvolf því að það getur ekki verið sérstaklega í þágu hagsmuna barns að senda það út í fullkomna óvissu án húsnæðis, fæðuöryggis og nokkurrar framtíðar, jafnvel þó að húsnæðisleysi, öryggi og skortur á framtíðarsýn sé bæði hjá barninu og foreldrum þess. Það eru ekki rök sem hægt er að byggja á, herra forseti.

Íslensk stjórnvöld hafa sent eitt barn úr landi í hverri einustu viku síðustu sex ár, 317 talsins. Á síðasta ári sendu íslensk stjórnvöld 74 börn úr landi og byggðu þá ákvörðun sína á að það væri hagsmunum barnsins fyrir bestu.

Ég vil því í lokin skora á íslensk stjórnvöld að endurskoða meðferð sína á börnum á flótta en hvet jafnframt þingheim til að greiða leið þessarar þingsályktunartillögu og legg til að hún verði send til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.



[16:18]
Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram í máli þingmannsins er ég einn af flutningsmönnum málsins þannig að ég tek heils hugar undir það og þakka fyrir að það sé fram komið. Mig langar að fylgja aðeins eftir lokaorðum hv. þingmanns um að við lítum okkur nær því að ég held að það sé mjög mikilvægt í þessu samhengi. Ég held að við þurfum líka að líta aðeins víðar yfir sviðið. Hér erum við að fjalla um þingsályktunartillögu sem snýst sérstaklega um það hvernig bandarísk stjórnvöld koma fram við börn á flótta. Íslensk stjórnvöld mega skoða sinn gang þegar kemur að framkomu við fólk á öllum aldri á flótta. Evrópsk yfirvöld mega það líka almennt. Á meðan Bandaríkin skilja fjölskyldur í sundur hefur Evrópusambandið valið þá leið að girða Miðjarðarhafið af þannig að þar komist enginn yfir nema fuglinn fljúgandi og styður síðan uppsetningu og útvistun á flóttamannavandanum með búðum í Líbíu þar sem fólk býr við mjög slæmar aðstæður.

Íslendingar stunda það að senda fólk eins hratt og örugglega úr landi og hægt er þannig að hér setjist sem fæstir að og það hefur verið kjarninn í flóttamannastefnu Íslands mjög lengi. Svo mættum við líka líta á frændur okkar Dani sem hafa ekki útvistað eins og Evrópusambandið í heild sinni til Líbíu, Danir hafa sett upp sínar eigin flóttamannabúðir þar sem fólki sem ekki er hægt að framkvæma endursendingu á, fólki sem hefur fengið synjun í danska verndarkerfinu, er haldið einhvern veginn í limbói milli dóms og laga jafnvel árum saman við slæmar aðstæður. Þetta hefur meira að segja gengið svo langt (Forseti hringir.) að fólk er farið að tala fyrir því í Danmörku að Danmörk hætti að taka þátt í mannréttindasáttmála Evrópu, segi sig frá Mannréttindadómstólnum vegna þess að þar á bæ finna menn að þessari illu meðferð á fólki á flótta.



[16:20]
Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið og er algjörlega sammála að við eigum að líta okkur nær. Það er hrein tilviljun sem veldur því að þessi þingsályktunartillaga er flutt í dag en ég held að sjaldan hafi verið betra tilefni en einmitt núna til að fjalla um þetta og þennan málaflokk eins og hann leggur sig, ekki síst hjá okkur. Í Evrópu er staðan alls ekki góð. 30.000 börn leituðu skjóls í Evrópu árið 2018, þar af 70% þeirra í þremur ríkjum, Þýskalandi, Frakklandi og Grikklandi. Við vitum öll hvernig staðan er í flóttamannabúðum í Grikklandi og af því að hv. þingmaður nefndi hvernig staðan er í Danmörku, að þar er búið að synja fólki um vernd en samt ómögulegt að senda það áfram, má nefna að það er líka staðan á Íslandi. Þeir einstaklingar sem höfðu áður fengið stöðu í Grikklandi og fengið vernd og stöðu flóttamanna í Grikklandi, eða þeir einstaklingar sem voru þar í flóttamannabúðum og bíða þar, eru ekki sendir í dag frá Íslandi. Þá líta stjórnvöld svo á að það séu einhver lok á þeirra meðferð, að þau séu ekki lengur í óvissunni, að það sé betra fyrir viðkomandi að fá neikvæða niðurstöðu, fá ekki efnismeðferð en er svo bara haldið hér vikum, mánuðum og misserum saman. Það er algjörlega fráleitt að bjóða börnum upp á þetta þannig að um leið og það er ljóst að vísa á viðkomandi til Grikklands aftur hljóta íslensk stjórnvöld að bera ábyrgð á því að senda aldrei börn í þær aðstæður sem þar eru. Ég held að okkur sé það öllum ljóst að það yrði klárt mannréttindabrot og þá þarf að taka (Forseti hringir.) ákvörðun um mál þeirra.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allsh.- og menntmn. [Tillagan átti að ganga til utanríkismálanefndar; sjá leiðréttingu á 61. fundi.]