150. löggjafarþing — 61. fundur
 20. feb. 2020.
sala upprunavottorða.

[10:33]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég býst við að mér sé farið eins og mörgum öðrum að ég er ákaflega hugsi eftir að ég sá Kveik í fyrrakvöld. Maður hefur svo sem gert sér grein fyrir því, og það hefur ekkert farið leynt, að við erum ekki bara með alls konar losunarheimildir og annað slíkt heldur erum við einmitt að selja þessi upprunavottorð. Ég gerði mér hins vegar ekki grein fyrir því að umfangið væri slíkt sem fram kom í þættinum og hvernig það lítur út í alþjóðasamfélaginu að við skulum í raun bæði vera að geyma kökuna fyrir okkur, og segjast vera ótrúlega mikið græn, en síðan vera að selja hana frá okkur og taka í staðinn til okkar jarðvarmaeldsneyti og kjarnorku.

Mig langar einfaldlega til að spyrja hæstv. ráðherra hvort eitthvað af þessu hafi komið henni á óvart eða hvort hún hafi verið algerlega meðvituð um hvernig staðan væri. 900 millj. kr. voru teknar inn í sölu á þessum upprunavottunum til Landsvirkjunar á síðastliðnu ári. Og ef svo er ekki spyr ég hvort ráðherra sé sátt við þetta eins og það er, hvort hún og hennar ráðuneyti sé að skoða þetta eitthvað frekar og hyggist bregðast við. Við höfum verið að auglýsa þá sérstöðu okkar að vera græn en það er ekki nóg að segja að staðreyndin sé sú að við séum græn þegar pappírar segja allt annað.



[10:35]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Til þess að svara því fyrst hvort eitthvað hafi komið á óvart í þessari umfjöllun þá get ég ekki sagt að svo hafi verið. Við höfum auðvitað alloft rætt upprunaábyrgðir og þær eru mjög umdeildar. Ég finn mjög fyrir því að almenningur er heilt yfir kannski ekkert ofboðslega hrifinn af þessu fyrirkomulagi. Þetta er fyrirkomulag sem hefur verið hér við lýði síðan 2008 og er hluti af regluverki frá Evrópu sem við komum á fót hér og önnur lönd gera líka, önnur lönd sem framleiða græna orku gera líka. Ef við myndum ganga það langt að banna til að mynda, ef það er yfir höfuð hægt, fyrirtækjum að selja upprunaábyrgðir þá eru alla vega aðrir framleiðendur grænnar orku í öðrum löndum sem geta gert það og okkar framleiðendur gætu það þá ekki.

Því er stundum haldið fram að þetta kerfi eigi ekki við af því að við erum einangruð. En sú staðreynd að raforka verður ekki flutt á milli Íslands og annarra landa breytir því ekki að sala á upprunaábyrgðum héðan þjónar vissulega meginmarkmiði þessa kerfis, sem menn geta síðan haft skoðun á, sem er í grundvallaratriðum að gera framleiðslu á endurnýjanlegri orku fýsilegri frá sjónarhóli orkuframleiðenda en hún væri annars. Öll almenn fyrirtæki fá þessar ábyrgðir inni í verðinu, eru ekki að kaupa þær sérstaklega. En það á ekki við um stóriðjuna.

Ég hjó eftir því að rætt var um sölu upprunaábyrgða á Spáni, að það væru hindranir þar. En þær hindranir eiga eingöngu við um virkjanir sem voru reistar fyrir ríkisstyrki, þannig að hjá grænum virkjunum sem voru reistar þar á eftir hefur aukist mjög sala á þessum upprunaábyrgðum. Það eru auðvitað önnur lönd, (Forseti hringir.) eins og ég segi, sem eru með græna framleiðslu á raforku og það breytir því ekki að raforkan okkar er (Forseti hringir.) framleidd með grænum hætti. Upprunaábyrgðir breyta þeirri stöðu ekki.



[10:38]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en ég hafði frekar hugsað mér að líta okkur pínulítið nær og tala um Ísland jafnvel þó að við séum í samskiptum úti í hinum stóra heimi og í alþjóðasamfélaginu. En þá var ég fyrst og síðast að hugsa um okkur hér. Við segjum gjarnan að við séum svo rosalega spes og enginn sé eins og við og ég ætla bara að halda því fram að það sé nákvæmlega þannig, a.m.k. ef marka má — ég bara vísa því og spyr hæstv. ráðherra hvort hún viti um eitthvert annað land sem getur sagt það sem við getum sagt: Við erum 100% með græna orku hér. Við erum 100% hrein og framleiðum 100% græna orku. Veit hæstv. ráðherra um eitthvert annað land sem hún gæti dregið upp að hliðinni á okkur og sagt að væri sambærilegt? Og hvað varðar okkur um það hvernig önnur lönd fara með sína orku? Ég hélt að við værum algerlega sjálfstæð í orkumálum okkar hér og hvernig við færum með okkar mál. Við þyrftum ekkert endilega að vera að gera eins og allir hinir, af því að ég tel að við séum sérstök hvað þetta varðar og þetta gæti frekar bitið okkur í skottið en hitt.



[10:39]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það eru auðvitað önnur lönd sem stefna að því sem við erum með hér, þ.e. að vera að fullu með græna framleiðslu á raforku. Markmið þessa kerfis um upprunaábyrgðir er í raun að flýta fyrir því ferli að gera þá framleiðslu fýsilegri en hina, þannig að þau fyrirtæki hafi ákveðið samkeppnisforskot. Það er markmið kerfisins sem ég vissulega bjó ekki til og var innleitt hér fyrir löngu. Landsvirkjun er sá aðili sem selur langstærstan hluta af þessu enda er það langstærsti raforkuframleiðandi í landinu. Það sem væri hægt að skoða er hvort hægt er að láta birtast í eigendastefnu þess fyrirtækis afstöðu eigandans á því hvort og að hve miklu leyti eigi að selja upprunaábyrgðir vegna þess, eins og ég segi, skyldan er að þetta kerfi sé til staðar. Skyldan er ekki að gefa þær út.

Það er eitthvað sem hefur verið rætt nokkrum sinnum og þessi umræða er uppi núna og ég er mjög opin fyrir því að taka þátt í slíkri umræðu og taka það áfram.