150. löggjafarþing — 61. fundur
 20. feb. 2020.
málefni ferðaþjónustunnar.

[10:47]
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Kannski fyrst að skjóta hér örstutt inn að bæði Albanía og Paragvæ eru með 100% endurnýjanlega raforku. En ég kem hér upp til að ræða við hæstv. ferðamálaráðherra um þá alvarlegu stöðu sem ferðaþjónustan er komin í. Ég hef áður lýst áhyggjum af skorti á viðbrögðum frá ríkisstjórninni og hæstv. ráðherra vegna þeirra áfalla sem greinin hefur orðið fyrir á síðustu mánuðum. Fyrst er það fækkun ferðamanna til Íslands vegna gjaldþrots WOW, erfið staða Icelandair vegna Max-vélanna, sterk staða krónunnar og til viðbótar erum við að sjá afbókanir á versta tíma vegna Covid-19 veirunnar. Þannig fækkaði ferðamönnum um 13% milli ára í janúar en í þeim tölum er ekki farið að gæta áhrifa veirunnar.

Allt þetta hefur gert fyrirtækjum í ferðaþjónustu erfitt fyrir þó að vissulega sé jákvætt að þrátt fyrir fækkun ferðamanna hafi verðmæti á hvern ferðamann aukist. Enn meira áhyggjuefni er þó, eins og kom fram í viðtali við framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar og RÚV í gær, að umtalsvert hefur þrengt að fjármagni innan ferðaþjónustunnar sem hefur auðvitað mikil áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækjanna. Sérstaklega hefur þetta slæm áhrif á lítil og meðalstór fyrirtæki sem eiga erfitt með að standa af sér tafir á greiðslum og hafa þá sömuleiðis enga möguleika til uppbyggingar.

Deilir hæstv. ráðherra áhyggjum mínum af stöðu greinarinnar? Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að Seðlabankinn stígi inn í og bregðist við þeirri stöðu sem komin er upp gagnvart fjármögnun greinarinnar?

Herra forseti. Ég spyr einfaldlega: Hvar eru mótvægisaðgerðir við brotthvarf WOW?

Án þess að gera lítið úr þeirri stöðu sem er komin upp vegna loðnubrests, sem er vissulega mjög alvarleg, er gríðarlega mikið lagt í að bregðast við því þegar silfrið úr hafinu hverfur, en hvað með önnur útflutningsverðmæti eins og komur ferðamanna? Hvar eru rannsóknarskipin að leita að þeim? Það er nefnilega loðnubrestur í ferðaþjónustunni en aðkoma stjórnvalda er allt önnur þar í orðum og gjörðum.



[10:50]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Spurt er hvort ég hafi áhyggjur af stöðu greinarinnar og vissulega hef ég áhyggjur af stöðu greinarinnar þegar kemur að verðmætasköpun innan hennar, stöðu hennar í því efnahagsumhverfi sem við erum í núna. Sá samdráttur sem við horfum fram á bítur ferðaþjónustuna a.m.k. ekki minna og jafnvel meira en aðrar greinar.

Ferðaþjónustan er auðvitað ofboðslega mannaflsfrek atvinnugrein. Það er ekki hægt að líta fram hjá þeirri þróun sem átt hefur sér stað hér á Íslandi undanfarin ár þegar kemur að launahækkunum og launahlutfall í ferðaþjónustu er mjög hátt. Ráðuneytið er til að mynda að klára samning við Íslandsstofu, það er hlutverk Íslandsstofu að markaðssetja Ísland sem ferðamannaland. Sá samningur er sterkur og ég veit að Íslandsstofa hefur farið í stefnumörkun. Þar er ferðaþjónustan að sjálfsögðu einn helsti áherslupunktur. Við höfum eflt markaðsstofurnar úti um allt land og erum í frekari vinnu hvað það varðar þegar kemur að stoðkerfi ferðaþjónustunnar um landið. Við höfum farið í meiri háttar stefnumótun þar sem við höfum greinina með, þar sem við göngum í takt og erum sammála um hvert stefnir.

Hagræðing er að eiga sér stað innan greinarinnar. Fyrirtæki munu fara á hausinn, það liggur fyrir. Það er hluti af markaðnum og þau áföll sem við höfum orðið fyrir flýta þeirri þróun. Og þegar spurt er hvort ég muni beita mér þegar kemur að Seðlabankanum þá er Seðlabankinn ofboðslega sjálfstætt stjórnvald og ég geri ráð fyrir því að þar séu þessir þættir greindir sömuleiðis. En ég vil bara að það komi fram að við höfum bæði verið að auka fjármagn í rannsóknir, í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, erum að fara að segja frá úthlutunum þar mjög fljótlega, og höfum tekið á heimagistingu. Mitt seinna svar nýtist þá í að tala um það hversu mikla trú ég hef á þessari grein og framtíðarhorfum hennar.



[10:52]
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Raunveruleikinn er sá að ferðaþjónustan er ekki lengur einhver krúttatvinnugrein heldur er þetta grein sem stóð undir 11% af vergri landsframleiðslu árið 2018. Sama ár störfuðu tæplega 29.000 manns við greinina. Vegna samdráttarins eru ferðaþjónustufyrirtæki í auknum mæli að loka yfir vetrartímann og fækkun fyrirtækja er að verða greinileg vegna gjaldþrota og sameininga. Þrátt fyrir fögur orð um að stuðla að aukinni vetrarferðamennsku hefur ríkið ekki staðið við sitt en vetrarþjónusta við fjölmarga vinsæla ferðamannastaði hefur verið takmörkuð og aðgengi að heilu landshlutunum jafnvel takmarkað líka.

Það var áhugavert að lesa í morgun viðtal við hæstv. menntamálaráðherra um þá skoðun hennar að ríkisstjórnin verði að grípa til aðgerða til að sporna við frekari slaka í hagkerfinu. Mig langar að spyrja hæstv. iðnaðar-, nýsköpunar- og ferðamálaráðherra hvort hún sé sammála hæstv. menntamálaráðherra. Væri ekki mikilvægt nú að fara í raunverulega aukinn stuðning við ferðaþjónustuna til uppbyggingar og viðhalds og þjónustu innviða sem gagnast öllum íbúum landsins, ekki síst utan höfuðborgarsvæðisins?



[10:53]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Þrátt fyrir að ferðamönnum hafi fækkað vil ég að það komi fram að þeir bæði dvelja lengur og eyða meiri fjármunum. Það er þrátt fyrir allt í samræmi við það sem við stefnum öll að, þ.e. að hver ferðamaður skilji meira eftir sig, markmiðið er ekki að fjölga þeim eða þeir séu svo og svo margir heldur að verðmætasköpun og arðsemi sé næg.

Varðandi dreifingu ferðamanna er það alveg rétt, það er viðvarandi verkefni og við höfum alls ekki lokið við allt sem þar þarf að gera. Þegar kemur að tugmilljarða innspýtingu í innviðafjárfestingar í landinu held ég að enginn standi hér og segi að þeim finnist það vond hugmynd. En það þarf bara að horfa á það í samhengi hlutanna; hvaða áhrif það hefur á ríkissjóð, hvaða fjárráð eru nú, hvað er rétt að gera efnahagslega þegar þessi staða er uppi. Kallað hefur verið eftir innviðafjárfestingum í nokkur ár. Það var ekki rétt að fara í meiri háttar fjárfestingar þegar umhverfið var þannig. Nú er annar tími uppi. En það þarf líka að horfa á það í hvað peningarnir hafa farið. Við höfum tekið ákvarðanir um að setja tugi milljarða í þau kerfi sem kallað hefur verið eftir að treysta; heilbrigðiskerfi, velferðarkerfi, fæðingarorlof, atvinnuleysisbætur o.s.frv. (Forseti hringir.) Staðan er einfaldlega þannig að ekki er hægt að eyða sömu krónunni tvisvar. En nú eru vissulega tímar uppi þar sem kallað er eftir innviðafjárfestingu (Forseti hringir.) og það þarf þá að leita leiða til að gera það og þá má líka horfa á (Forseti hringir.) hvaða eignir ríkið á og hvaða eignir er hægt að selja til að nýta í það.