150. löggjafarþing — 61. fundur
 20. feb. 2020.
tekjuskattur, 1. umræða.
stjfrv., 594. mál (milliverðlagning). — Þskj. 973.

[12:43]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt. Í frumvarpinu er lagt til að lögfestar verði reglur um sektarheimild ríkisskattstjóra þegar skjölunarskyldir lögaðilar láta hjá líða að fara að ákvæðum 5. mgr. 57. gr. tekjuskattslaga í milliverðlagningarmálum. Þá er jafnframt lagt til að skýra orðalag sama ákvæðis með þeim hætti að ljóst sé að skjölunarskylda taki einnig til viðskipta lögaðila við fasta starfsstöð sína og málsliðaröðun er lítillega breytt án efnislegra breytinga. Ég vil fyrst taka fram að ríkisskattstjórahugtakið hefur verið lengi við lýði en um áramótin breyttum við með sameiningu ríkisskattstjóra og tollstjórans í nýtt heiti Skattsins sem við ættum að tileinka okkur í þessu máli hérna. Á ræðublaðinu hjá mér er talað um ríkisskattstjóra en hefði átt að vera rætt um Skattinn samkvæmt nýju hugtakanotkuninni.

Grundvallaratriðið við alla framkvæmd í milliverðlagningarmálum er að skjölunarskyldir aðilar uppfylli þær skyldur sínar að skjala með fullnægjandi hætti viðskipti sín við tengda aðila. Þykir því brýnt að leggja til framangreinda sektarheimild.

Við samningu ákvæðisins var horft til nýlega settra laga um raunverulega eigendur, nr. 82/2019, 15. gr. þeirra laga um stjórnvaldssektir, ásamt 120. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006, en um sektarfjárhæð var horft til nágrannalandanna. Þá var litið til þess að nauðsynlegt væri að sektarfjárhæð væri lækkuð ef lögaðili bætti úr annmörkum innan eins, tveggja eða þriggja mánaða að fyrirmynd 120. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006, til að knýja á um upplýsingaskil.

Ef frumvarp þetta verður að lögum er um nýbreytni að ræða í íslenskum skattarétti, að Skatturinn fái heimild til að beita skattaðila sektum vegna umræddra brota á lögum umfram álagsbeitingarheimild 108. gr. tekjuskattslaga. Skatturinn hefur hins vegar heimildir samkvæmt öðrum lögum til að beita aðila sektum, svo sem á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti, laga um raunverulega eigendur og ársreikningalaga í því augnamiði að knýja á um að aðili fari að lögum. Ákvæði XII. kafla tekjuskattslaga, þá 108. gr. um álagsbeitingu Skattsins og ákvæði 109. gr. um sektarheimildir skattrannsóknarstjóra, eru ekki talin ná þeim tilgangi að knýja á um upplýsingaskil. Talið er að verði frumvarp þetta að lögum muni það ekki leiða til þess að beiting 109. gr. verði útilokuð í málum vegna milliverðlagningar lögaðila jafnvel þótt sektarheimild hafi áður verið beitt vegna seinna og/eða ófullnægjandi skila á upplýsingum samkvæmt 5. mgr. 57. gr. laganna.

Ætla má að frumvarpið muni hafa veruleg áhrif, verði það samþykkt, á gæði skjölunar og skil skjölunarskyldra aðila á upplýsingum vegna milliverðlagningar þar sem það muni hafa kostnað í för með sér að láta hjá líða að skila inn upplýsingum eða standa skil á upplýsingum með ófullnægjandi hætti. Er þá litið til reynslu af tilkomu sektunarheimildar ársreikningaskrár Skattsins og verulega bættra skila á ársreikningum eftir að sektarheimild var tekin upp í lög á árinu 2007 og eftir að heimildin var hert verulega á árinu 2016, samanber 120. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006.

Ákvæði um lækkun stjórnvaldssektar ef skattaðili bregst við innan mánaðar til þriggja mánaða er jafnframt talið nauðsynlegt til þess að skattaðili sjái fremur ávinning af því að bregðast við sektarbeitingu en ekki.

Ekki er talið að áhrif breytingartillögunnar verði veruleg á stjórnsýslu ríkisins verði frumvarpið að lögum. Þetta frumvarp er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í samvinnu við starfsmenn Skattsins á sviði milliverðlagningar og að höfðu samráði við skattrannsóknarstjóra. Þá voru drög að frumvarpinu lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda og eftir athugasemdir frá umsagnaraðilum tóku drögin breytingum þar sem í nokkrum tilvikum var tekið tillit til ábendinga sem bárust. Ég vænti þess að áhugi verði á því að halda því samtali áfram hér undir þinglegri meðferð.

Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.