150. löggjafarþing — 63. fundur
 24. feb. 2020.
aðgengi hælisleitenda að almenningssamgöngum.
fsp. SÞÁ, 343. mál. — Þskj. 391.

[16:58]
Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil gera aðstöðu hælisleitenda eða þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd að umræðuefni, sérstaklega þeirra sem búa á Ásbrú. Útlendingastofnun úthlutar íbúum í búsetuúrræðinu Ásbrú vissulega strætómiðum til að sinna erindum vegna umsókna sinna á höfuðborgarsvæðinu, t.d. vegna viðtala hjá Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála og Rauða krossinum, sem og til að nýta sér þjónustu sérfræðilækna og sálfræðinga. Þetta er eftir því sem mér skilst allt í samræmi við alþjóðlegar viðmiðanir og það er gott og blessað. Strætókort fá þeir hins vegar einungis sem gildir í innanbæjarsamgöngum í Reykjanesbæ. Þó að þetta nægi til þess að vera í samræmi við alþjóðlegar viðmiðanir velti ég fyrir mér hvort þetta sé samt nóg að okkar mati til að rjúfa félagslega einangrun þessa hóps. Á hana hefur margoft verið bent.

Ég beini því þeirri spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra hvort ráðherra telji að sú tilhögun að veita hælisleitendum, sem vistaðir eru í bæjarfélögum í grennd við höfuðborgarsvæðið, einungis aðgang að almenningssamgöngum innan viðkomandi sveitarfélags sé fullnægjandi og dugi til að rjúfa einangrun þessa hóps.

Í framhaldinu spyr ég hvort ráðherra stefni að því að breyta þessari tilhögun svo að t.d. hælisleitendur sem búa á Ásbrú í Reykjanesbæ eigi hægara með að nýta sér strætisvagnasamgöngur til Reykjavíkur.

Þetta skiptir máli því að margoft hefur komið fram í umfjöllun að einmitt þeir hælisleitendur sem búa þarna búi við mikla félagslega einangrun. Sem betur fer er þetta betra í ýmsum öðrum búsetuúrræðum annars staðar, hvort sem þau eru rekin af sveitarfélögum eða öðrum aðilum, (Forseti hringir.) og þess vegna finnst mér mikilvægt að spyrja hæstv. ráðherra út í akkúrat þessi mál.



[17:01]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það er alltaf mikilvægt að við skoðum þróun í útlendingalöggjöfinni, bæði varðandi veitingu á vernd en líka þá þjónustu sem við bjóðum upp á meðan fólk bíður eftir þeirri niðurstöðu. Hælisleitendur þurfa að geta sinnt erindum sínum og náð sér í nauðsynlega þjónustu. Þeim er tryggður aðgangur, líkt og hv. þingmaður kom inn á, að gjaldfrjálsum almenningssamgöngum eins og reglugerð um útlendinga kveður á þar sem í 28. gr. segir orðrétt um samgöngur:

„Útlendingastofnun, eða eftir atvikum sveitarfélag sem Útlendingastofnun hefur samið sérstaklega við, skal tryggja umsækjanda um alþjóðlega vernd gjaldfrjálsar almenningssamgöngur vegna erinda sem hann kann að eiga vegna umsóknar sinnar.“

Í samræmi við þetta fá þau sem dvelja í Reykjanesbæ strætómiða vegna heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu til að mæta í viðtöl og birtingar hjá Útlendingastofnun og viðtöl hjá talsmanni. Jafnframt fá hinsegin umsækjendur sérstaka aukamiða til að mæta á fund eða ráðgjöf hjá Samtökunum '78 og annað þannig að það er verið að reyna að bæta ýmsa þjónustu sem er ekki í boði í því sveitarfélagi sem hér er um rætt. Allir fá strætókort til innanbæjarferða og það verður auðvitað að hafa hugfast í þessu og þegar við tölum um félagslega einangrun að Reykjanesbær er fjórða stærsta sveitarfélag landsins með rúmlega 19.000 íbúa og bærinn sjálfur býður upp á mjög fjölbreytta þjónustu og afþreyingu sem hælisleitendur geta nýtt sér eftir því sem þeir kjósa. En hér er kannski mest verið að líta til þeirrar þjónustu sem ekki er í boði þar eins og hjá Samtökunum '78, og þar hefur þá verið sá sveigjanleiki að bjóða upp á strætómiða varðandi fundi eða ráðgjafa sérstaklega þar.

Spurt er hvort tilhögunin sé fullnægjandi til að rjúfa einangrun. Ég tel ekki hægt að rökstyðja með fullnægjandi hætti að það geti kallast að búa við einangrun að vera í Reykjanesbæ sem er stórt sveitarfélag og býður upp á mikla þjónustu og það eru ekki nein sérstök áform um að breyta þessu fyrirkomulagi. Við viljum auðvitað tryggja að fólk geti sinnt þeim erindum og fengið þá þjónustu sem ekki er í boði á því svæði og geti nýtt sér almenningssamgöngur til að nýta þá þjónustu sem aukalega þarf sem bara er hægt að nálgast á höfuðborgarsvæðinu.

Málefni þessi hafa verið í brennidepli um nokkurt skeið og hafa breyst mikið á undanförnum árum og því er alltaf sjálfsagt að velta fyrir sér hvaða þjónustu við ætlum að veita og hvernig við ætlum að forgangsraða henni. Ég held að mörg framfaraskref hafi verið stigin í þessu og þetta er nokkuð sem við erum alltaf með í skoðun enda hafa sjaldan fleiri hælisleitendur verið í þjónustu hjá Útlendingastofnun en núna. Það hefur breyst gríðarlega á síðustu tíu árum eða svo og fjöldinn aukist hratt á síðustu fimm árum. Svo skoðar maður fjármuni sem málaflokkurinn hefur til ráðstöfunar og hvernig við getum nýtt þá sem best svo að fólk fái fljótt svör og geti sem fyrst hafið aðlögun að íslensku samfélagi en sé líka með nauðsynlega þjónustu á meðan það er í þjónustu hjá undirstofnunum okkar.

Það er eðlilegt að spyrja slíkra spurninga en eins og komið hefur fram eru ekki sérstök áform um að breyta þessu fyrirkomulagi. Hér held ég að sveigjanleiki sé mikilvægur eins og við sjáum varðandi hinsegin umsækjendur þar sem um er að ræða þjónustu sem ekki er hægt að fá í Reykjanesbæ þótt það sé stórt sveitarfélag.



[17:05]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir ágætisspurningar. Mig langar að leggja það til málanna að mér finnst virkilega mikilvægt að ræða um aðgengi flóttamanna að almenningssamgöngum. Mér finnst líka mjög mikilvægt að velta upp þeirri spurningu sem ég held að við þurfum að spyrja oftar og víðar en hér hvort það sé eðlilegt að Útlendingastofnun sé sú stofnun sem tekur stjórnvaldsákvarðanir og sú sama og veitir félagsþjónustu og að þetta komi allt saman úr sömu hítinni. Ég er ekki viss um að þetta sé endilega gott fyrirkomulag. Ég er ekki viss um að það setji endilega upp rétta hvata að það kosti Útlendingastofnun að halda uppi umsækjendum um alþjóðlega vernd á sama tíma og hún á að taka ákvarðanir um hvort viðkomandi eigi að hljóta alþjóðlega vernd.

Ég held að þetta samtal þurfi að eiga sér stað en (Forseti hringir.) hafi ekki átt sér stað af nægilega miklum krafti og að þetta sé stefnumótun sem þurfi að fara í. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé til skoðunar í ráðuneytinu.



[17:07]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir að vekja athygli á þessu máli og hæstv. ráðherra fyrir ágæt svör. Efnislega hef ég ekki mikil smáatriði að koma inn á. Ég kem hingað aðeins til að segja að ég efast um að margir þjóðfélagshópar séu viðkvæmari og í viðkvæmari stöðu en fólk sem bíður eftir úrskurði ef það er hælisleitendur. Mér finnst það skylda okkar út frá því að vera mennsk að gera allt hvað í okkar valdi stendur til að gera stöðu fólks í slíkri stöðu sem bærilegasta, hvort sem það felst í auknum strætómiðum hingað eða þangað, bíómiðum, leikhúsmiðum eða hvað það er. Ímyndum okkur að vera í þessari stöðu og veltum fyrir okkur hvernig við myndum vilja haga tíma okkar.



[17:08]
Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem stungu sér inn í umræðuna. Mér finnst alltaf jákvætt þegar það gerist og þetta verður eins og lítil sérstök umræða um eitthvert mál. Mér finnst alltaf jákvætt að fá fram fleiri sjónarmið þegar við erum að ræða fyrirspurnir til ráðherra.

Ég þakka einnig hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þó að þau séu ekki alveg þau sem ég vonaðist eftir fannst mér hæstv. ráðherra samt vera með jákvætt viðhorf í sínum málflutningi. Mér finnst líka jákvætt að hinsegin umsækjendur skuli fá strætómiða til að sækja fundi hjá Samtökunum '78. Það sýnir hins vegar að það er svolítið verið að velja fyrir fólk hvað er talið það mikilvægt að viðkomandi fái strætómiða til að sækja fundi og viðburði. Þó að þetta sé auðvitað jákvætt og gott tel ég að það væri miklu betra ef fólk gæti sjálft bara valið hvað það vill sækja. Við vitum alveg að í höfuðborginni er alls konar þjónusta í boði og alls konar hlutir í gangi sem ekki eru í boði þó að um stórt sveitarfélag sé að ræða.

Svo langar mig að nefna beint í lokin að ég held að það sé líka ástæða til að auka við þá aðstöðu sem er á Ásbrú. Til að mynda er erfitt (Forseti hringir.) að komast þar í líkamsræktaraðstöðu þannig að fólk hefur mjög lítið að gera. Við þurfum að bæta í, sérstaklega með þá hluti sem eru ekki mjög kostnaðarsamir eins og líkamsræktaraðstaða til að fólk sitji ekki bara, stari út í loftið og bíði örlaga sinna.



[17:10]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þessa umræðu hér og hv. þingmönnum sem tóku þátt í henni. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við séum alltaf að skoða alla þætti þessarar löggjafar og þeirra reglugerða sem heyra undir þennan málaflokk. Þar er af mjög mörgu að taka og mjög mikilvægt að við veltum þessu upp. Hér er það hvaða þjónustu við erum að veita. Eins og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé kom inn á er þetta fólk í afar viðkvæmri stöðu og bíður málalykta í sínu máli á Ásbrú. Að mínu mati þarf að vera ákveðinn sveigjanleiki til að mæta þörf eins og er ekki gert í Reykjanesbæ.

Það er rétt hjá hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur að það verður svolítið valkvætt hverju er mætt en þótt almenn þjónusta sé ekki í boði erum við samt að veita almenningssamgöngur innan Reykjanesbæjar.

Síðan kom hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir einnig inn á annað mál um það hvort þjónustan eigi að vera á hendi Útlendingastofnunar. Þannig hefur það verið hér og er svo sem víða en við sjáum líka dæmi þess annars staðar að hún sé í ólíkum höndum. Þetta er nokkuð sem ég hef örlítið skoðað en ég veit ekki hvort það hefur verið skoðað ítarlega. Við þyrftum að skoða reynslu annarra landa sem hafa þjónustuna í ólíku lagi. Ég veit að Útlendingastofnun leggur sig alla fram við að veita góða þjónustu og að vera sveigjanleg einmitt í þessum reglum innan þeirra fjárheimilda sem hún þó hefur.

Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu og tel mikilvægt að við getum rætt einstaka þætti útlendingalöggjafarinnar með þessum hætti. Því oftar, því betra.