150. löggjafarþing — 69. fundur
 4. mars 2020.
störf þingsins.

[15:01]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þrátt fyrir að það heyri ekki síst upp á okkur hér á þingi að klára mál sem varða stuðning til einkarekinna fjölmiðla sem búa við erfitt rekstrarumhverfi er ljóst að við eigum mikið af frábæru fjölmiðlafólki sem vinnur ómetanlegt starf fyrir íslenskt samfélag. Það er mikil gróska í íslenskri fjölmiðlun eins og tilnefningar til blaðamannaverðlaunanna bera vitni um en þau verðlaun verða einmitt afhent núna á föstudaginn.

Í gærkvöldi var Kveikur svo með enn eina sterka umfjölluninni á RÚV, umfjöllun sem líklega lét fáa sem á horfðu ósnortna. Umfjöllunarefnið var fátækt í íslensku samfélagi. Þó að staðan komi því miður ekki endilega á óvart var erfitt og sorglegt að upplifa veruleika fólks í okkar litla samfélagi sem býr við fátækt í langan tíma, ólst jafnvel upp við fátækt og er jafnvel þess vegna utan garðs í íslensku samfélagi, mætir fordómum og þarf að beita allri sinni kænsku til að ná endum saman. Það er einfaldlega ömurleg tilhugsun og óásættanleg staðreynd að það fái ekki öll börn tækifæri til að dafna á Íslandi.

Í þættinum var bent á skýrslu um fátækt sem kom út fyrir sléttum sjö árum á vegum samstarfshóps um enn betra samfélag. Útgangspunktur vinnunnar var að stuðningur samfélagsins ætti að stuðla að mannlegri reisn frekar en að vera í formi ölmusu, ganga ætti út frá styrkleikum fólks frekar en veikleikum. Staðreyndin er sú að það þarf mikinn styrk til að komast af við þær aðstæður sem þeir fátækustu búa við í samfélagi okkar. Í þessari skýrslu eru margar og fjölbreyttar tillögur til úrbóta og tillögur til úrbóta liggja víða þannig að í stað þess að skipa í frekari hópa og nefndir er hægt að taka ákvarðanir strax og grípa til aðgerða.

Til að byrja með þarf að tryggja húsnæði, tryggja öllu fólki skjól. Við getum ekki og eigum ekki að sætta okkur við samfélag þar sem börn mæta sársvöng í skólann og fjölskyldur ráða í þokkabót ekki við að greiða gjaldið fyrir skólamáltíðirnar. Getum við ekki sammælst um þá forgangsröðun að grípa til aðgerða sem þarf til að útrýma þessu strax?



[15:03]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Búnaðarþingi er nýlokið. Þar var á einu bretti skipt um stjórn Bændasamtakanna og nýjar áherslur boðaðar. Full ástæða er til að óska nýrri forystu velfarnaðar og að henni auðnist að færa landbúnaðinn nær nútímanum, kröfum neytenda og aukinni nýsköpun. Það verður ekki síst gert með því að endurhugsa styrkjakerfi landbúnaðarins frá grunni, hafa það skilvirkt, opið og gagnsætt. Það blasir við að beinn fjárhagslegur stuðningur við landbúnaðinn nemur mörgum milljörðum króna í kerfi sem er lokað og ógagnsætt. Fyrsta skref nýrrar bændaforystu ætti að vera að kalla eftir því að upplýsingar um ráðstöfun þessa fjár verði öllum aðgengilegar, niður brotið eftir styrkþegum og tegund styrkja eins og tíðkast um alla Evrópu. Það væri sannarlega yfirlýsing um breytta starfshætti. Þarna eiga bændur sjálfir að taka forystu. Traust almennings og stuðningur við bændur eru verðmæti sem þeir verða að gæta sín á að glutra ekki niður.

Nýlega lagði ég fram fyrirspurn um stuðning við sauðfjárbú sem hæstv. landbúnaðarráðherra treysti sér ekki til að svara og bar því við að það væri óheimilt. Það gladdi mig því að sjá grein í Kjarnanum í dag eftir Ólaf Arnalds þar sem hann greinir frá því að úrskurðarnefnd upplýsingamála hafi úrskurðað honum í vil en hann falaðist einmitt eftir upplýsingum af svipuðum toga.

Ég trúi því að hæstv. landbúnaðarráðherra muni vinda bráðan bug að því að svara fyrirspurn minni sem hann áður neitaði. Ég mun enn fremur óska eftir frekari upplýsingum um ráðstöfun styrkja í landbúnaði. Raunar hef ég hug á að beita mér fyrir lagasetningu um skyldu hins opinbera til að birta opinberlega gögn um alla þá sem njóta styrkja og ívilnana til atvinnusköpunar eða tiltekinna verkefna. Það er liður í því að auka traust og gagnsæi í samfélaginu.



[15:05]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þann 8. mars nk. eru 30 ár liðin frá stofnun Stígamóta. Stígamót voru stofnuð sem samtök kvenna gegn kynferðisofbeldi. Aðdragandi þess var að það voru nokkrir sjálfboðahópar kvenna sem höfðu komið að álíka málum og ákváðu að taka höndum saman og stofna samtök. Stígamót, staðurinn þar sem stígar mætast, voru stofnuð á baráttudegi kvenna árið 1989. Þarna var stigið stórt skref og mikilvægt í réttindabaráttu kvenna. Núna starfa Stígamót sem ráðgjafar- og stuðningsmiðstöð fyrir bæði konur og karla sem hafa verið beitt hvers kyns kynferðisofbeldi.

Virðulegi forseti. Mig langar að nota þetta tækifæri til að segja: Takk. Takk, þið konur sem stigu þetta skref. Takk fyrir hönd þeirra kvenna sem fengu þarna tækifæri til að stíga fram og létt af sér þungri byrði og fengu áheyrn og þar með bata. Takk, þið konur sem stigu þetta skref og stöðvuðu þá þöggun sem viðhafðist á þessum tíma í samfélaginu okkar. Fyrir 30 árum hafði þessu málefni ekki verið sinnt af heilbrigðiskerfinu og lítt af dómskerfinu. Þrátt fyrir að sannarlega mætti finna viðurlög vegna kynferðisofbeldis í lögum þurftu þeir sem lentu í kynferðislegu ofbeldi að klífa sextugan hamarinn í leit að réttlæti.

Fyrsta áratug Stígamóta unnu þau að mikilvægasta verkefninu en það var að standa upp og opna þessa umræðu og berjast þar með fyrir bættu samfélagi og því að umræða um kynferðisofbeldi væru opin og viðurkennd. Þegar sú umræða fór af stað tók samfélagið við sér og sem betur fer hafa félags- og heilbrigðisyfirvöld í dagstyrkt umhverfi sitt í átt að heilbrigðari umræðu í þessum málum. Umræðan hefur líka opnað á afleiðingar ofbeldisins og þar með á fjölbreytta meðferð til að styrkja þolendur til að lifa með því. Þrátt fyrir að markmið Stígamóta hafi náðst með því að opna umræðuna í þjóðfélaginu og viðurkenna skelfilegar afleiðingar þessa ofbeldis verður samfélagið stöðugt að halda þessum boltum á lofti.



[15:07]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég segi: Takk RÚV fyrir Kveikþáttinn í gærkvöldi. Í honum kom eftirfarandi fram orðrétt, með leyfi forseta:

„Tugþúsundir Íslendinga búa við fátækt sem takmarkar möguleika þeirra. Samkvæmt tölum Hagstofunnar eru 28.000–35.000 manns undir lágtekjumörkum, og eru þar með fátækir, þar af allt að 10.000 börn undir 16 ára aldri.“

Þá kom einnig fram að stór hópur fólks sem fær félagslegar bætur, örorkubætur, atvinnuleysisbætur, ellilífeyri eða er í láglaunastörfum er undir lágtekjumörkum. Svo er annar hópur sem er rétt fyrir ofan lágtekjumörk.

Hvernig er að búa við fátækt, jafnvel allt sitt líf og hvernig er að alast upp í fátækt? Hvaða áhrif hefur fátækt á fólk og fjölskyldur? Hjá fólki sem býr alla ævi við fátækt lækka lífslíkurnar um 10–12 ár. Meðalævi styttist um 10–12 ár hjá þeim fátæku miðað við þá ríku. Þetta er fáránlegt og okkur til háborinnar skammar. Þarna undir eru einstæðir foreldrar, öryrkjar, láglaunaforeldrar og börn þeirra. 10.000 börn sem alast ekki bara upp í fátækt heldur 3.000 í sárafátækt. Ekki fá þau sömu tækifæri og önnur börn og eiga því á hættu að glíma við fátækt, sárafátækt og heilsuleysi allt sitt líf. Fátækir geta ekki beðið lengur en samt bíða þeir enn eftir réttlætinu, bíða og bíða og verða að neita sér um hollt fæði, heilbrigðisþjónustu, lyf og að búa við mannsæmandi húsakost. Nei, föst í heljargreipum fátæktar í boði ríkisstjórnar eftir ríkisstjórnar. Þess vegna var Flokkur fólksins stofnaður. Þess vegna erum við Inga Sæland á Alþingi. Við erum númer eitt, tvö og þrjú að berjast fyrir því að enginn búi við fátækt, hvað þá sárafátækt sem er ömurlegt að sé til í samfélagi okkar í dag. Það furðulega í þessu samhengi er að það kostar þjóðfélagið meira að halda 28.000–30.000 manns í fátækt heldur en að útrýma fátæktinni strax.

Flokkur fólksins segir: Hættum strax t.d. að skatta fátækt. Við höfum efni á því en höfum ekki efni á því að gera það ekki.



[15:10]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrir skömmu áttum við þarfa umræðu í þinginu um nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins. Fyrir örfáum dögum ákvað ráðherra að leggja af Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Það er sannarlega áhyggjuefni hvað tekur við.

Það er ólíkt hlutskipti að fást við nýsköpun, vísinda- og þróunarstörf á landsbyggðinni eða hér á suðvesturhorninu. Það er algjört lykilatriði að sprotar fái að dafna að þessu leyti um landið allt. Við eigum nokkra slíka og ég nefni bara af handahófi í mínu kjördæmi, Kerecis á Ísafirði, BioPol á Skagaströnd og Verið á Sauðárkróki, Skaginn 3X á Akranesi og Ísafirði, sem raunar er ekki sprotafyrirtæki heldur öflugt framleiðslufyrirtæki, burðarás í atvinnulífinu. Allt ber þetta vitni um hugvit, áræði og dirfsku. Þeir sem starfa á landsbyggðinni nefna í mín eyru að þeir virðist eiga erfiðara uppdráttar að afla sér styrkja til þróunarstarfa og nýsköpunar. Sumir þeirra segja að trúverðugleikinn virki öðruvísi en hjá þeim sem starfa nær styrkjaveitendum, eru þeim sýnilegri, kunnugri, að traust og trú á verkefnið úti um land vanti. Oft sé um huglæga þætti í umsóknum að ræða og þá geti þetta skipt máli.

Opinberum starfsmönnum hefur fækkað á landsbyggðinni og nú er úti um Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sex stöðugildi en voru flest 13 á landsbyggðinni. Nýsköpunarmiðstöð hefur stutt í gegnum tíðina lítil sprotafyrirtæki með þekkingu og leiðbeiningum varðandi rannsóknarstyrki. Það hefur slegið nokkuð á aðstöðumun sem birtist líka í miklum ferðakostnaði þegar leita þarf aðstoðar lykilstofnana á höfuðborgarsvæðinu hér syðra.

Virðulegur forseti. Það er grundvallaratriði að við náum að fjölga fólki með sérfræðiþekkingu á landsbyggðinni, efla fjölbreytileika og möguleikana til að sækja um í harðri samkeppni um rannsóknarstyrki. Þarna virka þróunarsetur og nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðvar úti um landið hreinlega eins og bræðslupottar fyrir hugmyndir og nýsköpunarverkefni. Hér þurfum við að sækja fram og hvika hvergi.



[15:12]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég eins og fleiri varð hugsi í gærkvöldi eftir umfjöllun Kveiks um fátækt á Íslandi. Fátækt er meinsemd sem á ekki að líðast í okkar ríka samfélagi. Ástæðurnar fyrir því að fólk missir fótanna eru auðvitað margvíslegar en sama hvernig gefið er í upphafi, sama hvaða áföll dynja yfir, þá á hið félagslega net okkar að grípa fólk, hjálpa því að komast á fætur og sjá til þess það geti lifað með reisn. Að búa í hjólhýsi í köldu landi um vetur uppfyllir ekki þau skilyrði.

Ég hyggst leggja fram fyrirspurn til félags- og barnamálaráðherra um það hversu margir eru í þeirri stöðu að vera búsettir á Íslandi en búa í húsnæði sem er ekki skráð í fasteignaskrá. Ég tel mikilvægt að við veltum fyrir okkur hvernig við getum komið sem best til móts við þennan hóp þannig að allir hér á landi hafi kost á viðunandi húsnæði. Það á ekki að skipta máli í hvaða sveitarfélagi maður býr þegar kemur að því hvernig hið félagslega net virkar, eins og kom fram í gær. Áskorunin er auðvitað sú hvort við getum borið gæfu til þess saman að finna leiðir þannig að Ísland sé ekki bara ríkt samfélag heldur líka réttlátara samfélag þar sem öryggisnetin grípa þá sem hrasa, þar sem allir landsmenn eiga í öruggt hús að vernda, þar sem börn alast ekki upp við skort og þrúgandi áhyggjur.

Þetta réttláta samfélag er ekki verkefnið sem klárast. Það er áskorun sem endurnýjast í sífellu. Við stefnum í rétta átt á þessu kjörtímabili með hækkun barnabóta um hundruð þúsunda til fjölskyldna með lægstu tekjurnar, með breytingum á skattkerfi og með aðgerðum á sviði húsnæðismála, margt sem hefur nú þegar skilað árangri. Tilkoma óhagnaðardrifinna leigufélaga og stóraukið samstarf ríkis og sveitarfélaga á sviði húsnæðismála hefur létt á þrýstingnum á húsnæðismarkaði en við erum ekki komin í mark því að markið færist. Ríki og sveitarfélög þurfa í sífellu að endurmeta aðgerðir þannig að hægt sé að koma til móts við þann hóp sem hefur í engin hús að venda eða býr í ósamþykktu og óásættanlegu húsnæði, þannig að félagslega kerfið okkar dugi til þess að ná settum markmiðum, þannig að enginn þurfi að festast í fátæktargildru. Ég hef ekki lausnina en með því að leggja við hlustir, með því að fara að ráðum þeirra sem best til þekkja um hvernig við drögum úr fátækt tel ég að við getum færst nær því réttláta samfélagi sem Ísland á að sjálfsögðu á að vera.



[15:14]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að tala um matvælaframleiðslu á Íslandi. Það er verið að vinna að matvælastefnu fyrir Ísland og mér finnst mjög mikilvægt að inn í þá stefnu sé tekin sú mikla matvælaframleiðsla sem er núna í sjókvíaeldi, bæði í laxi, regnbogasilungi og líka uppi á landi. Það er verið að tala um að auka mjög framleiðslu vítt og breitt um heiminn í sjókvíaeldi og þar erum við Íslendingar þátttakendur. Það eru áform um að auka mjög framleiðslu hér heima, t.d. hafa á Bíldudal í febrúar verið unnin og seld um 1.000 tonn sem eru um 12.000 máltíðir. Í fyrra var þar slátrað um 10.000 tonnum en það eru áform um að slátra þar 12.000 tonnum á þessu ári. Þetta er gífurlegt magn og við þurfum að byggja upp þannig innviði að við getum staðið með þessari nýju grein sem á eftir að afla okkur Íslendingum mikilla gjaldeyristekna og ekki veitir af. Hér var umræða um fátækt og ekki veitir okkur af að fá fjármagn í ríkiskassann til þess einmitt að standa með fátæku fólki í landinu og bæta þeirra kjör.

Markaðir úti hafa verið að lokast fyrir laxi en þegar þeir opnast aftur, t.d. í Kína, þá erum við með þannig samninga við Kína að við eigum auðveldara með að koma hráefni okkar þar á markaði heldur en margir aðrir, eins og Færeyingar. Heildarmarkaður fyrir lax í heiminum eru 2 milljónir tonna á ári svo að þetta eru gífurlega mikil og stór tækifæri fyrir okkur sem þjóð að vera þátttakendur í matvælaframleiðslu og selja afurðir frá Íslandi.



[15:17]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Nú stendur til að flytja börnin Ali, Kayan, Saja, Jadin og foreldra þeirra með valdi til Grikklands. Ég segi með valdi vegna þess að skiljanlega vill þessi fjölskylda ekki flytja úr örygginu á Íslandi yfir í ómannúðlegar og óviðunandi aðstæður á Grikklandi, sem vissulega má segja að sé að sligast undan álagi. Ég segi með valdi vegna þess að íslenska ríkið, þessi ríkisstjórn, ætlar ekki að gefa þessari fjölskyldu val um að búa hér og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Ég segi með valdi vegna þess að verklag við brottvísun flóttamanna felur oft í sér að börn eru sótt af lögreglu um miðja nótt til að flytja þau úr landi gegn vilja þeirra.

Virðulegur forseti. Það er ekkert í núverandi lagaramma sem skyldar okkur til þess að flytja börn í lögreglufylgd til Grikklands. Þvert á móti höfum við skyldum að gegna gagnvart börnum, hagsmunum þeirra og öryggi. Þvert á móti höfum við ríkar heimildir og sterka siðferðislega skyldu til að vernda þessi börn, bjóða þau velkomin og gefa þeim frið. Það eina sem þarf er pólitískur vilji en sá vilji er ekki fyrir hendi. Auðvitað kemur það mér ekki á óvart að hæstv. dómsmálaráðherra Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir haldi áfram margra ára verklagi Sjálfstæðisflokksins um kerfislæga ómennsku við flóttafólk og til að hafa það á hreinu var hæstv. forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur fullkomlega kunnugt um þetta áralanga verklag Sjálfstæðisflokksins þegar hún gekk til samstarfs við þann flokk. Hún talaði enda um að með samstarfinu væri hún að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.

Ég skora á hæstv. forsætisráðherra að forgangsraða upp á nýtt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:18]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í umræðu um Covid-19 upp á síðkastið hef ég orðið var við það í okkar góða samfélagi að fólk hafi tilhneigingu til að benda svolítið hvert á annað, spyrji t.d. hvort atvinnurekendur eigi ekki að greiða laun fyrir fólk sem er í sóttkví, stéttarfélögin eigi að gera það, verði fólk bara að taka þetta á sig sjálft, eins og þegar það er fast í óveðri eða einhverju þess háttar.

Mig langar að koma hingað upp og hvetja alla Íslendinga og alla sem búa í þessu landi til að muna það að þegar við tökumst sameiginlega á við ógn eins og þessa, þar sem hagsmunir okkar allra liggja undir, þá verðum við og eigum að sýna samstöðu með því fólki sem færir fórnir til að verja samfélagið. Fólk sem þarf að þola sóttkví er að færa ákveðna fórn. Það er ekki lítið mál fyrir hvern sem er að missa það mikið úr vinnu og svo miklar tekjur, sér í lagi núna þegar við erum í verkfalli sem hefur mikil áhrif á getu fólks til að sinna vinnu sinni.

Nú snýst þetta ekki endilega um reglur, ekki endilega um það hvort ríkið ætti að hækka skatta eða hvort atvinnurekendur ættu að gera hitt eða þetta. Ég myndi bara óska þess og vona að atvinnurekandinn sé þolinmóður gagnvart starfsmanni sínum, að viðskiptavinurinn sé þolinmóður gagnvart atvinnurekandanum, að við séum öll skilningsrík á þær fórnir sem fólk, sumt okkar, þarf að færa fyrir samfélagið allt. Sýnum samstöðu í þessu. Það er sjálfsagt að gagnrýna aðgerðir yfirvalda, sem ég er viss um að eru ekki fullkomnar í þessu dæmi frekar en öðru. En þegar kemur að einstaklingi til einstaklings, borgara til borgara, þá eigum við að sýna samstöðu, sér í lagi ef við sjáum fram á erfiða tíma, sem við vonum auðvitað öll að verði ekki.



[15:21]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegur forseti. [Þingmaður sprautar hreinsigeli í lófann og nuddar saman höndum.] Þetta tók samtals 12 sekúndur, þ.e. sú sjálfsagða aðgerð sem heilbrigðisyfirvöld og sóttvarnalæknir og fleiri eru búnir að leggja til við okkur að við förum öll í, gerum sem oftast, tekur samtals 12 sekúndur af tíma okkar. Það eru sprittbrúsar og sprittstandar úti um allt þinghús og orðið mjög víða um samfélagið. Notum þá. Þannig verjum við ekki bara okkur sjálf heldur líka þá sem við þurfum virkilega að verja, þ.e. þá aðila sem verst standa gagnvart því að fá erfiðar sýkingar eins og Covid-19 veiran hefur reynst vera.

Það er full ástæða til að þakka sérstaklega viðbragðsaðilum. Það er ástæða til að þakka sérstaklega sóttvarnalækni, heilbrigðiskerfinu öllu og ekki síst almenningi í landinu fyrir það hvernig hann hefur brugðist við sjálfsögðum leiðbeiningum og upplýsingagjöf frá sóttvarnalækni. Við erum að berjast við faraldur á heimsvísu sem hefur dánartíðni einhvers staðar á bilinu 0,5–8%. Ef þið haldið, ágætu hv. þingmenn, að 8% séu frá einhverju þróunarlandi er ekki svo. 8% dánartíðnin er frá Bandaríkjum Norður-Ameríku. Hálfa prósentið er í Suður-Kóreu.

Umfram allt: Förum eftir leiðbeiningum, sprittum okkur, því að þetta er verkefni sem við verðum að leysa saman.



[15:23]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni, um þau mál sem við ræddum í velferðarnefnd í morgun og sendum við þeim sem standa í broddi fylkingar í þessum málum, Þórólfi Guðnasyni og Víði Reynissyni, baráttukveðjur. Þeir standa sig vel með þeirra fólki.

Mig langar að gera að umtalsefni að íbúum á Suðurnesjum hefur fjölgað um 32% frá árinu 2013, úr rúmlega 21.000 í 27.000 íbúa. Næstmesta fjölgunin á Suðurlandi er 17,5%. Af þessum fjölda eru um 23% með erlent ríkisfang. 60% af þeim sem eru atvinnulausir suður frá eru með erlent ríkisfang, fólk sem kom hingað þegar mestu skiptir og okkur vantaði starfsfólk. Stór hluti þessa hóps er að verða atvinnulaus. Á sama tíma eru framlög á Suðurnes með því alminnstu sem gerist. Það virðist að frá því á árinu 2013, þegar ég fór að fylgjast sérstaklega vel með þessu, ég settist á þing, þá höfum við Suðurnesjamenn verið mjög aftarlega á merinni þegar kemur að framlögum til samfélagsins. Ég velti því fyrir mér hvort það sé í rauninni eðlilegt að í þessum sal sé þegnum landsins, árum saman og ár eftir ár, mismunað á þennan hátt. Fjárlög eiga heldur ekki að mismuna þegnum þessa lands. Það kemur í ljós í nýlegri úttekt sem Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum lét gera að á hvern íbúa í Reykjanesbæ er greitt sem samsvarar 71.000 kr. í heilsugæslustöðina. Næstlægsta framlagið er á Heilbrigðisstofnun Norðurlands 102.000 kr., Heilbrigðisstofnun Vesturlands er með 110.000 kr. og Heilbrigðisstofnun Suðurlands er með 121.000 kr. Svona framlög og svona mismunun er óþolandi og er ekki bjóðandi lengur.



[15:25]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra annars vegar og fjármálaráðherra hins vegar segja að ráðstöfunartekjur hafi hækkað svo mikið á undanförnum árum. Síðan 2011 hafa ráðstöfunartekjur samkvæmt tekjusögu.is hækkað um heil 23%, það er ekkert smáræði. Einstæð móðir í fyrstu tekjutíund með eitt til tvö börn hefur hækkað um 29%, það er ekkert smáræði. Á sama tíma hefur leiguvísitalan hækkað um 77,7%. Það er ekkert smáræði og það er dálítið það sem kom fram í Kveikþáttnum sem var sýndur í gær, rót vandans sem var rakinn þar er húsnæðisvandi. Húsnæðisvandi er helsta birtingarmyndin en þar er undirliggjandi heilbrigðisvandi, geðheilbrigðisvandi, kynslóðarvandi og stéttarvandi. Það er stéttarvandi af því að þegar maður elst upp í fátækt þá kann maður síður á möguleikana til að velja atvinnu þegar maður klárar grunnskóla eða jafnvel framhaldsskóla. Fólk þekkir bara miklu færri möguleika og stígur inn í annað umhverfi en aðrir hafa alla jafna aðgang að.

Það er mjög áhugavert að fylgjast með þróun þess hvernig við höfum tæklað fátækt á Íslandi. Í rauninni er hún ekki mikil. Það er ekki til nein greining á því hvað það kostar að laga það vandamál sem fátækt er eða bara á því hvað fátækt kostar yfirleitt. Í grein í Fréttablaðinu um helgina fer Sif Sigmarsdóttir yfir skýrslu í Englandi þar sem segir að fátækt kosti þjóðarbúið 82 milljarða punda út af ýmsum heilsufarsvandamálum. Hún spyr að lokum hvort við höfum ekki efni á að laga fátæktarvandann þegar hann kostar okkur í raun svona mikið.



[15:27]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég ætla í örfáum orðum að bregðast við ræðu hv. þm. Guðjóns Brjánssonar áðan varðandi Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að hæstv. nýsköpunarráðherra Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hefur boðað að Nýsköpunarmiðstöð Íslands verði lögð niður í núverandi mynd. Mér fannst þingmaðurinn hins vegar ranglega gefa í skyn að með því yrði öllum þeim verkefnum sem hafa verið á hendi þeirrar stofnunar hætt og niðurstaðan yrði með einhverjum hætti minni stuðningur við nýsköpun í landinu en áður.

Í því samhengi er rétt að fram komi að þessi tillaga ráðherra — sem hún kynnir snemma, á að taka gildi um næstu áramót og gert er ráð fyrir mikilli vinnu í aðdraganda þess — á sér rætur í mikilli stefnumótun sem unnin var á síðasta ári um nýsköpunarstefnu fyrir Ísland og þar er svo sannarlega ekki gert ráð fyrir því að um minni stuðning, beinan eða óbeinan, við nýsköpun verði að ræða en áður, þvert á móti.

Hins vegar er verið að endurskoða stofnanafyrirkomulagið og við verðum í opinberri umræðu, bæði hér á þingi og annars staðar, að gera greinarmun á því þegar verið er að ræða um stofnanaumgjörð, eins og á þessu sviði, og svo hins vegar um raunverulegan stuðning við þau verkefni sem um er að ræða. Enginn sem hefur hlýtt á hæstv. ráðherra eða fylgst með umræðum um þessi mál á að vera í vafa um það að vilji hennar og ríkisstjórnarinnar stendur til þess að efla nýsköpunarumhverfi í landinu. En hins vegar er stofnanafyrirkomulag eitthvað sem þarf að taka til endurskoðunar með reglulegum hætti og það er akkúrat það sem ráðherrann er að boða.



[15:30]
Þorgrímur Sigmundsson (M):

Herra forseti. Samgöngur á landsbyggðinni er lúta að umhverfi flugvalla hafa fyrst og fremst verið í formi hátíðarræðuhalda. En hver er hin raunverulega staða og framtíðarsýn samgönguráðherra í þessum efnum? Við getum tekið sem dæmi Egilsstaðaflugvöll en nú hefur rekstri hans verið komið á forræði Isavia til eins árs sem er í raun ekkert annað en feluleikur á ríkisútgjöldum. Áður hafði verið áætlað 18 milljónum í hann til fimm ára. Akureyrarflugvöllur fær klink þrátt fyrir hátíðarræður um mikilvægi hans.

En vellirnir eru fleiri. Það má í þessu samhengi nefna Húsavíkurflugvöll. Milljónirnar sem áætlaðar eru í hann til fimm ára eru teljandi á fingrum annarrar handar. Þar er staðan þannig, herra forseti, að húsnæði vallarins fær ekki eðlilegt lágmarksviðhald og tækjakostur er hreint með ólíkindum. Mokstursbíll og sópur koma frá Akureyri þegar þeir töldust ekki nothæfir þar lengur og eru starfsmenn Húsavíkurflugvallar nánast í fullri vinnu við að halda þessum græjum gangandi. Eins var með sanddreifingarbíl, hann kom líka frá Akureyri þegar Akureyringar gátu ekki lengur notað hann. Og þetta heldur áfram, herra forseti, nú síðast hjólaskófla sem var ónothæf til moksturs á flugvelli á Akureyri. Hún er núna á Húsavíkurflugvelli. Því er eðlilegt að maður spyrji sig: Er það í samgönguáætlun hæstv. samgönguráðherra að gera Húsavíkurflugvöll að einhvers konar ruslahaug fyrir Akureyrarflugvöll?

Herra forseti. Þó að Þingeyingar séu almennt hlynntir varðveislu gamalla samgöngutækja þá sætta þeir sig ekki við að úreld og ónothæf tæki séu notuð til að halda uppi annarri aðalsamgönguæð héraðsins.



[15:32]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Fyrir nokkrum árum voru málefni norðurslóða fyrst og fremst málefni vísindamanna og sérvitringa. Svo er ekki lengur. Mikilvægi norðurslóða hefur farið mjög vaxandi samfara hlýnun loftslags og bráðnun hafíss. Mannfjöldaþróun og alþjóðavæðing hefur og mun í auknum mæli valda sókn inn á svæðið. Auknir möguleikar til flutningsleiða og auðlindanýtingar verða til.

Málefni norðurskautsins hafa því fengið aukið vægi í alþjóðastjórnmálum. Ísland er norðurslóðaríki og við eigum gríðarlega ríkra hagsmuna að gæta á norðurslóðum. Gæta þarf að viðkvæmu vistkerfi norðurslóða og mikilvægt er að þróunin á svæðinu sé friðsæl og sjálfbær. Norðurslóðamál eru í senn utanríkismál og umhverfismál.

Þjóð sem í aldanna rás hefur átt allt sitt undir fiskveiðum verður að leggja mikla áherslu á heilbrigði hafsins. Við höfum séð áhrif loftslagsbreytinga á fiskigengd og mikilvægt er að rannsaka enn meira, auka þekkingu og vita hvað er í vændum ásamt því að leita leiða til að draga úr fyrirsjáanlegum breytingum.

Öll helstu ríki heims hafa markað sér stefnu í norðurslóðamálum óháð því hvort ríkin séu norðurslóðaríki eða ekki. Stefna Íslands í málefnum norðurslóða er frá árinu 2011 þegar þingsályktun var samþykkt í þessum sal. Það er því orðið tímabært að endurskoða þá stefnu. Það fór því vel á því að í formennskutíð okkar í Norðurskautsráðinu legði utanríkisráðherra til að þingmannanefnd yrði skipuð til að endurskoða þessa stefnu. Mér hefur verið falið að leiða þá nefnd en í henni sitja fulltrúar frá öllum flokkum á þingi. Ég vænti góðs samstarfs og fjörugrar, upplýsandi og skemmtilegrar umræðu um ógnanir og tækifæri Íslands á norðurslóðum. Ég vona líka að okkur lánist að komast að sameiginlegri niðurstöðu um drög að endurskoðaðri stefnu Íslands í norðurslóðamálum, stefnu sem við getum svo rætt og vonandi samþykkt á þinginu.

Ég hef mikla trú á því, virðulegur forseti, að Ísland hafi gríðarleg tækifæri þegar kemur að norðurslóðamálum. Ég myndi vilja sjá Ísland verða mekka vísindarannsókna í norðurslóðamálum og við gætum verið einhvers konar heimahöfn fyrir nýsköpun á sviði umhverfis- og norðurslóðamála. (Forseti hringir.) Ég held að hér séu mikil tækifæri undir og ég hlakka til komandi vinnu.