150. löggjafarþing — 69. fundur
 4. mars 2020.
sérstök umræða.

jafnt atkvæðavægi.

[15:34]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur góðfúslega samþykkt að taka þátt í sérstakri umræðu um misvægi atkvæða í alþingiskosningum og þakka ég fyrir það. Einnig hlakka ég til að heyra hin ýmsu sjónarmið talsmanna annarra flokka. Þetta er umræðuefni sem skiptir fólki hratt í fylkingar, iðulega þá stórhöfuðborgarsvæði annars vegar og landsbyggðarkjördæmi hins vegar. Ætlun mín með að hefja þessa umræðu er ekki sú að sýna fram á ágæti annarrar hliðar umfram hinnar því að í þessari umræðu eru tvö grundvallaratriði í ákveðinni keppni, jafnvel mótsögn, hvort við annað og spurningin sem mig langar til að svara á endanum er hvort við getum sett okkur lýðræðislegt kerfi sem tekur tillit til þeirra beggja.

Annað grundvallaratriðið er jafnt vægi atkvæða. Hitt grundvallaratriðið er réttur íbúa á landsbyggðinni og víðar til virkrar lýðræðislegrar hagsmunagæslu.

Eitthvert misvægi atkvæða er í rauninni óhjákvæmilegt að einhverju leyti svo lengi sem landinu er skipt í kjördæmi þannig að það er í lagi að eitthvert svigrúm sé til staðar en sem dæmi mælir OECD ekki með því að misvægi atkvæða fari yfir 10%. Í dag er þó staðan hvergi nálægt því að vera svo góð á Íslandi. Atkvæði í Norðvesturkjördæmi er næstum því tvöfalt á við atkvæði í Suðvesturkjördæmi, þ.e. 99% sterkara. Samkvæmt lögum má þessi munur ekki verða meira en 100% því að þá er farið í að breyta þingmannafjölda. Af þessum ástæðum þarf lítið til til að koma til að Norðvesturkjördæmi missi þingmann samkvæmt 9. gr. laga um kosningar til Alþingis og færi þá þingmannatala fámennasta kjördæmisins í dag, Norðvesturkjördæmisins, úr átta niður í sjö. Færi sá þingmaður til Suðvesturkjördæmisins færi þingmannatala þess úr 13 í 14 og væri þá tvöfaldur þingmannafjöldi Suðvesturkjördæmis á við Norðvesturkjördæmi. Samt sem áður væri atkvæði Norðvesturkjördæmis með 60% meira vægi en atkvæði í Suðvesturkjördæmi þannig að hallinn væri áfram langt úr hófi fram. Með öðrum orðum væri áfram verulegt misvægi atkvæða og Norðvesturkjördæmi væri með enn færri málsvara en áður.

Í 40. gr. frumvarps til nýrrar stjórnarskrár er kveðið á um að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vegi jafnt eftir því sem frekast er unnt og er þar með viðurkennt að ekki sé endilega mögulegt að hafa þau fullkomlega jöfn svo lengi sem landið er kjördæmaskipt. Þá er í sömu grein heimild en ekki skylda til að kjördæmaskipta landinu og enn síður tiltekin sérstök tala. Allt þetta vekur eðlilega spurninguna um hvort eina leiðin til að hafa viðunandi jafnvægi atkvæðastyrks í landi með svo fáum þingmönnum sé að gera allt landið að einu kjördæmi. Mögulega. Það eru kostir og gallar við það.

Vík ég þá að hinu grundvallaratriðinu sem er sjálfsákvörðunarréttur fámennari byggðarlaga. Þegar stungið er upp á að sameina landið í eitt kjördæmi kemur strax fram áhyggjan, sem að mínu mati er rökrétt, að verði landið að einu kjördæmi muni þungamiðja ákvarðana ávallt snúast um Stór-Reykjavíkursvæðið og skilja landsbyggðarkjördæmin eftir. Það má svo sem spyrja hvers vegna hagsmunagæslu ætti frekar að skipuleggja eftir landsvæði en t.d. aldurshópum eða kyni, en eftir stæði samt sem áður að líklega er það rétt. Pólitísk hagsmunagæsla á landsbyggðinni yrði erfiðari en ella og af samtölum mínum við kjósendur á landsbyggðinni má ráða að nógu erfið þyki hún fyrir.

Óttinn er við raunverulegt vandamál, nefnilega umboðsleysi og lýðræðislegan vanmátt, að ákvarðanir séu teknar á Stór-Reykjavíkursvæðinu án tillits til aðstæðna úti á landi ef þingmenn eru ekki kosnir sérstaklega fyrir hönd landsbyggðarkjördæmanna sjálfra. Meira eða minna alltaf þegar eitthvað á að gera úti á landsbyggðinni sem Íslendingar allir geta haft skoðun á skynjar fólk mikið vantraust í sinn garð eins og að fólk á landsbyggðinni geti ómögulega tekið upplýsta ákvörðun um virkjun hér eða fiskeldi þar. Þá verður skyndilega sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga háður því að ákvörðunin sé í takt við ákvarðanir teknar í Reykjavík. Slík skilyrði fyrir sjálfsákvörðunarrétti gera hann að engu.

Ekki er nóg með það heldur eru hagsmunir innan stórra kjördæma einnig mjög ólíkir, kannski sérstaklega Norðvesturkjördæmis, enda himinn og haf milli aðstæðna í Borgarnesi og á Ísafirði sem dæmi. Þannig myndi ekki heldur duga að búta einfaldlega fjölmennu kjördæmin niður, í fyrsta lagi vegna ólíkra hagsmuna innan stórra en fámennra kjördæma og í öðru lagi vegna þess að það krefðist stjórnarskrárbreytingar sem að vísu væri kærkomin þeim sem hér stendur.

Virðulegi forseti. Ég gæti haldið áfram en næsta rúma hálftímann sem þessi umræða stendur yfir ætla ég að hlusta vel. Ég hlakka til að heyra hin ólíku sjónarmið í þessum efnum og þakka fyrir fram þeim sem taka þátt.



[15:39]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda, Helga Hrafni Gunnarssyni, fyrir að setja á dagskrá mál sem er undirstöðuatriði í hverju lýðræðissamfélagi. Þá er mikilvægt að rifja upp söguna því að umræðan um vægi atkvæða hefur ekki alltaf bara snúist um landshluta. Þegar almennar kosningar voru fyrst teknar upp var nefnilega kosningarrétturinn takmörkuð gæði, réðst af eignastöðu fólks, tekjum þess og þeim sköttum sem þær skiluðu. Það er áhugavert að lesa söguna um þetta. Til að mynda var ég að glugga í nýja bók eftir Thomas Piketty þar sem hann fjallar um kosningakerfið í Svíþjóð á 19. öld og fram til 1911 þar sem einn einstaklingur gat, ef hann átti nægar eignir og skilaði nægum skatttekjum, ráðið yfir allt að 50% atkvæða í því kjördæmi sem hann kaus í. Þegar kosningarréttur var innleiddur á Íslandi, fyrst 1843 með tilskipun Danakonungs, náði hann einungis til karlmanna sem áttu jörð, a.m.k. 10 hundraða dýrleika, þannig að þessi eignaskiptingarumræða í tengslum við atkvæði var mjög áberandi við upphaf hinna lýðræðislegu kosninga.

Sem betur fer erum við nú komin fram hjá því kerfi þar sem eignastaða fólks ræður kosningarrétti en um leið hafa vaknað knýjandi spurningar um atkvæðavægi milli ólíkra landshluta. Eins og hv. þingmaður benti á hefur þróunin verið í þá átt að jafna vægi atkvæða og stækka kjördæmin samhliða breyttri dreifingu byggðar í landinu. Frá árinu 1944 hefur stjórnarskránni þrisvar verið breytt í þessu skyni, árin 1959, 1984 og 1999. Með stjórnarskipunarlögum frá árinu 1999 var núverandi skipulagi komið á og þá var horfið frá þeirri kjördæmaskipan sem innleidd var 1959 og tiltekið að kjördæmi skyldu vera sex eða sjö. Sú nýbreytni var tekin upp í stjórnarskrá að krafist er tveggja þriðju hluta atkvæða á Alþingi til að breyta lögum um kjördæmamörk og tilhögun og úthlutun þingsæta en ekki þarf að breyta stjórnarskránni sjálfri. Þingmenn sem kosnir eru beint eru 54 en þingmenn í svokölluðum jöfnunarsætum eru níu en aðeins stjórnmálasamtök með yfir 5% fylgi koma til greina við úthlutun jöfnunarsæta.

Með þessari breytingu voru reglur stjórnarskrár um kosningar einfaldaðar og jöfnuður í vægi atkvæða aukinn þótt enn sé misvægi milli kjördæma allt að því tvöfalt. Núverandi ákvæði stjórnarskrárinnar, eins og þeim var breytt, heimila breytingar á kjördæmamörkum með almennum lögum séu þær samþykktar með tveimur þriðju hluta atkvæða á Alþingi. Hugsanlega væri hægt að nýta þessa heimild til að jafna vægi atkvæða, eins og hv. þingmaður nefndi áðan, með einhvers konar uppbroti kjördæma.

Kosningalögin mæla einnig fyrir um breytingar á fjölda kjördæma og kjörinna þingmanna í einstökum kjördæmum ef misvægi atkvæða fer yfir leyfilegt hámark samkvæmt ákvæðinu. Ef svo fer fram sem horfir gæti svo farið, eins og hv. þingmaður nefndi, að slíkt misvægi færi yfir mörk á milli Norðvesturkjördæmis og Suðvesturkjördæmis. Alveg eins og lýðræðissjónarmið mæltu með því að eigna- og tekjustaða skyldi ekki ráða kosningarrétti manna mæla þau almennt með aukinni jöfnun á vægi atkvæða. Leyfilegt misvægi er nú allt að 100%. Ef við horfum til landanna í kringum okkur er misvægi milli einstakra kjördæma mest í Noregi þar sem vægi atkvæða er mest í nyrstu byggðum, allt að 150% meira miðað við suðrið, en almennt er þó atkvæðavægi ámóta í flestum fylkjum Noregs.

Eftirlitsnefnd ÖSE gagnrýndi misvægi atkvæða hér á landi í úttekt á þingkosningum 2009 og ÖSE hefur einnig gagnrýnt Noreg fyrir það sama, en þessi umræða hefur haldist í hendur við þau sjónarmið að landið verði þá eitt kjördæmi.

Þá komum við að þeim spurningum sem hv. þingmaður varpaði hér fram. Hverju erum við að fórna við það að landið verði eitt kjördæmi? Þetta var til umfjöllunar í rökræðukönnun sem haldin var um endurskoðun stjórnarskrárinnar um m.a. forseta og framkvæmdarvald, persónukjör, kjördæmaskipan og atkvæðavægi. Það var nokkuð ljóst að fleiri voru sammála því eftir umræðurnar á þeim fundi að jafnt vægi atkvæða væri mikilvægasta markmið breytingar sem gera ætti á kjördæmaskiptingu. Við umræður á þessum rökræðufundi má segja að stuðningur hafi aukist við jöfnun atkvæðavægis. Hins vegar eru til ýmsar leiðir og þær þurfa ekki allar að snúast um að gera landið að einu kjördæmi sé okkur umhugað um það að tryggja einhvers konar dreifingu milli landshluta og tryggja að öll sjónarmið eigi fulltrúa á Alþingi óháð búsetu.

Nefnt hefur verið að hægt væri að fara einhvers konar millileið, þ.e. blanda saman landskjöri, kjördæmakjöri og persónukjöri. Það myndi vissulega flækja kerfið frá því sem nú er en ég er ekkert hrædd við flækjur (Forseti hringir.) ef markmiðin eru rétt og breytingar eru gerðar af skynsemi og gagnsæi. Ég hef hins vegar ekki tekið afstöðu til þess. Ég vil ítreka, af því að nú hringir forseti bjöllu, (Forseti hringir.) að þetta er ekki mál með beinlínis einfaldri lausn eða sem verður leyst með einu pennastriki og því fagna ég þessari umræðu hv. málshefjanda.



[15:45]
Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta mál á dagskrá. Þau eru mörg og fjölþætt, vandamálin sem við á Alþingi þurfum að takast á við hverju sinni og finna lausnir á. Sjálfur tel ég þetta ekki vera eitt af þeim mest aðkallandi sem eru uppi á borðum um þessar mundir. Þó að atkvæðavægi sé vissulega misjafnt á milli kjördæma er atkvæðavægi milli flokka jafnað með býsna fullnægjandi hætti að mínu mati. Ég held að frávikin sem eru frá því að flokkur fái heilan viðbótarþingmann út frá raunverulegum þingstyrk á landsvísu séu — við getum rifjað upp umræðuna eftir síðustu kosningar þar sem Framsóknarflokkurinn fékk, ef ég man rétt, einum þingmanni meira en Samfylkingin. Það olli töluverðum usla. Ég held að það að einn þingmaður sé aukalega í Framsóknarþingflokknum samanborið við Samfylkinguna sé ekki vandamál sem kalli sérstaklega á að þetta kerfi verði tekið upp í heild sinni.

Á sama tíma held ég að það sé nauðsynlegt að þetta verði ekki rætt bara mjög þröngt. Við verðum líka að horfa á stöðu landsbyggðarinnar gagnvart hinum arminum, framkvæmdarvaldinu, þar sem stofnanakerfi ríkisins, öll ráðuneytin samkvæmt stjórnarskrá, verður staðsett í höfuðborginni og í rauninni allur kostnaður, og aðgengi landsbyggðar að stjórnsýslunni er miklum mun þrengra en þeirra sem búa á svæðinu milli Hvítár og Hvítár ef ég nota þá afmörkun. Ég hvet til þess að ekki verði rokið af stað í þetta mál með það að leysa slík risavandamál að endrum og sinnum lendi einn aukaþingmaður í Framsóknarflokknum (Forseti hringir.) en ekki Samfylkingunni.



[15:47]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég held að þegar við nálgumst þessi mál þurfum við að ræða þau í heildarsamhengi eins og menn hafa komið inn á. Ef ég mætti sjálfur velja eitthvert tiltekið svið stjórnarskrárinnar sem ég teldi að ætti að endurskoða er það akkúrat þetta. Ég hef verið andvígur ýmsum hugmyndum sem hafa komið upp um breytingar á stjórnarskrá á undanförnum árum en ef ég ætti að velja af mínum óskalista væri það breyting á atkvæðavægi, kosningakerfi og kosningafyrirkomulagi í landinu.

Ég nálgast þetta þannig að þingmenn eru kosnir sem fulltrúar fyrir fólk, ekki fyrir ferkílómetra, landsvæði eða annað þess háttar. Þess vegna þarf að nálgast málið út frá því að fólk, hvar sem það býr á landinu, búi við jafnan rétt að þessu leyti. Ég hef ekki viljað ganga svo langt að gera landið að einu kjördæmi. Ég held að ákveðin verðmæti séu fólgin í því að þingmenn séu kosnir fyrir afmarkaðri hluta landsins frekar en að landið allt sé eitt kjördæmi. Ég held að það tengi þingmennina og umbjóðendur þeirra betur þannig að ég viðurkenni að út frá reiknilegum forsendum getur verið um það að ræða að hægt sé að una við einhverja mismunun. Mismunurinn er í dag of mikill að mínu mati og það er verðugt verkefni að finna leiðir til að jafna vægið. Það er hægt að gera að einhverju leyti innan núverandi ramma en ég lýsi sjálfan mig alveg opinn fyrir því að skoða aðrar leiðir, hvort sem þær fela í sér fjölgun kjördæma, frekara uppbrot þeirra eða annað það fyrirkomulag sem getur leitt til þess að (Forseti hringir.) mismunurinn minnki frá því sem nú er.



[15:50]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu sem er góð, gagnleg og mikilvæg. Ég er þingmaður Suðvesturkjördæmis þar sem atkvæði kjósenda hafa minna vægi en sums staðar annars staðar á landinu. Það er sem sagt litið svo á að mikilvægara sé að aðrir og fámennari landshlutar hafi hér fulltrúa en það svæði sem ég er kjörinn fyrir, m.a. með þeim afleiðingum að sá flokkur sem ég er fulltrúi fyrir, Samfylkingin, hefur einum fulltrúa færri en ella. Ég tek ekki undir það sjónarmið að það sé alveg sérstakt fagnaðarefni.

Rökin fyrir þessu snúast um valdeflingu þeirra sem fjarri valdastofnunum búa sem eru vissulega gild sjónarmið. Það er talið mikilvægt að rödd allra heyrist og að allir hafi áhrif hvað sem líður margmenni. Gott og vel, en mér finnst hins vegar að við eigum að reyna að komast sem næst þeirri reglu að einn maður hafi eitt atkvæði. Mér finnst það réttlátt.

Almennt talað hef ég vissar efasemdir um hugtakið þjóð eins og það er oft notað í opinberri umræðu, eins og margir vilji nota það með ákveðnum greini og tala um þjóðina. Það er talað um þjóðina eins og nokkurs konar lífveru sem hafi bara einn hug, einn vilja og eitt hjarta. Ég held að samfélag okkar sé samsett úr mörgum ólíkum hópum sem hafa ólíka hagsmuni og ólíka sýn. Ég held að til séu margir þjóðarviljar og mér finnst að þessi samkoma hér eigi sem mest að endurspegla marga ólíka þjóðarvilja.

Ég held að við kæmumst næst því að endurspegla hina mörgu ólíku þjóðarvilja úti í samfélaginu (Forseti hringir.) ef hér væri eitt kjördæmi og síðan væru ákvarðanir um hagsmuni heimabyggðanna sem mest færðar heim í hérað.



[15:52]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa umræðu því að eins og fyrirkomulagið er nú hér á landi er mikilvægt að við veltum þessum málum fyrir okkur reglulega. Pólitískt jafnrétti felst ekki endilega í jöfnu vægi atkvæða eins og manni virðist við fyrstu sýn og var raunar ágætlega farið yfir af upphafsmanni umræðunnar áðan. Pólitískt jafnræði getur kannski einmitt verið tryggt með misvægi atkvæða. Yfir það fara þeir Birgir Guðmundsson og Grétar Þór Eyþórsson, sem starfa við Háskólann á Akureyri, ágætlega í fræðigrein frá 2013 þar sem þeir fjalla um vægi atkvæða og pólitískt jafnrétti og leitast við að skýra það í tengslum við lýðræðislegt stjórnarfar. Þeir komast að þeirri niðurstöðu að jafnréttið geti falist í ýmsu öðru.

Óneitanlega felst pólitísk slagsíða og aðstöðumunur í því að þjóðþing starfa oft á einum stað og þannig fær nærumhverfi þinganna óhjákvæmilega meira vægi en það umhverfi sem fjær er. Starfsmenn Alþingis koma t.d. flestir af höfuðborgarsvæðinu. Þegar ég hóf störf hér áttaði ég mig líka fljótlega á því að gestir nefnda eru á köflum býsna þröngur hópur. Þar kemur sama fólkið aftur og aftur í hverju málinu á fætur öðru, mikill meiri hluti frá stofnunum og félögum á höfuðborgarsvæðinu, þótt vissulega séu undantekningar í málum sem sérstaklega varða landsbyggðina eins og byggðaáætlun og samgönguáætlun.

Víða í heiminum er skilningur á því sjónarmiði að eðlilegt sé að atkvæðavægi sé landsbyggðinni í hag í samræmi við þann skilning að þéttbýlið í höfuðborgum njóti nálægðarinnar við miðstöð pólitísks og efnahagslegs valds. Þetta er t.d. viðurkennt bæði í Noregi og Bandaríkjunum. (Forseti hringir.) Hversu mikið misræmið má hins vegar verða er svo önnur spurning.



[15:54]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni. Í grunninn snýst jafnvægi atkvæða um prinsipp, að lýðræðisleg áhrif allra borgara landsins séu jöfn. Við búum öll saman í þessu landi undir sömu lögum og berum öll sömu réttindi og skyldur. Ég hef heyrt því haldið fram að byggð um landið hreinlega leggist af ef atkvæðavægið verði jafnað. Að mínu viti gæti það ekki verið fjær sanni. Ég tel það vera valdeflandi fyrir landsbyggðina að eyða þeirri hugmynd að þingmenn séu fyrst og fremst og sérstaklega að vinna að hagsmunum, gjarnan skammtímahagsmunum, einstakra landshluta eða byggðarlaga, hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli. Við erum of fámenn þjóð til að réttlæta pólitísk hrossakaup og kjördæmapot sem fylgir misvægi atkvæða. Við þurfum samkennd, skilning og yfirsýn sem fæst með því að tryggja að þingmenn vinni að því að gera landið allt samkeppnishæfara um lífsgæði, framfarir og öryggi.

Við í Viðreisn munum halda áfram að tala fyrir jöfnun atkvæðavægis þar til það verður tryggt í stjórnarskrá, berjast fyrir því að tryggja jafnrétti kjósenda til sjávar og sveita. Í því liggja almannahagsmunir og nú er komið í ljós, svo ég vitni í orð hæstv. forsætisráðherra í samtali ríkisstjórnarinnar við þjóðina í tengslum við stjórnarskrárvinnuna, að jöfnun atkvæðavægis er forgangsmál í hugum fólksins í landinu. Það kemur ekki á óvart. Núna er boltinn hins vegar hjá ríkisstjórninni. Hvað gera flokkar sem einna helst hafa hagnast á misvægi atkvæða? Hagsmunir hverra verða núna settir í forgang? Getum við ekki sammælst um að fara þá leið að jafna þetta óréttlæti? Leiðirnar eru sannarlega til staðar. Það hefur komið fram í umræðunni hér. Þær eru margar, a.m.k. fleiri en ein. Það er bara kominn tími til að taka ákvörðun og klára þetta mál. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:57]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir þessa umræðu og forsætisráðherra fyrir að taka þátt í henni. Ég held að við séum hérna að tala um grundvöll lýðræðisins. Ég get ekki verið meira ósammála Bergþóri Ólasyni, þingmanni Miðflokksins, sem ræddi um þetta.

Hvað er lýðræði? Hvað er jafnvægi og hvað jafnrétti? Ef við ætlum að hafa lýðræði, jafnrétti og jafnvægi verðum við að byrja hér. Ég held að þetta sé nefnilega einmitt meinið. Þess vegna erum við ekki komin lengra í jafnrétti kynjanna og jafnrétti í þjóðfélaginu. Við erum enn með ójafnréttið sem virkar í stjórnarskránni. Er það eðlilegt að í mínu kjördæmi, Suðvesturkjördæmi, 70.000 manna kjördæmi, séu alltaf tveir fyrir hvern einn í öðru kjördæmi? Þetta getur ekki staðist. Þetta á ekki að vera svona og þetta er ekkert lýðræði. Það er ekkert jafnræði í þessu.

Þar af leiðandi verðum við líka að spyrja þegar verið er að tala um 5%-regluna, að 5% fylgi þurfi til að komast á þing: Hvað erum við þá að tala um mörg dauð atkvæði í Suðvesturkjördæmi eða um landið í heild sinni? Við erum alltaf að búa til eitthvert kerfi sem veldur ójafnrétti. Þetta þyrftum við helst að klára strax. Við segjumst vera lýðræðisþjóð og við berjum okkur á brjóst og segjum: Já, já, við ætlum að hafa jafnrétti, við ætlum að vera með jafnræði og við ætlum að sjá til þess að allir séu jafnir fyrir lögum í þessu landi, en við gerum það ekki. Við byrjum ekki hér. Hér eigum við að byrja og sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að við séum lýðræðisríki og að allir séu jafnir.



[15:59]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Í kosningunum 2013 féllu niður dauð atkvæði jafn mörg og allir kjósendur í Norðvesturkjördæmi eins og þeir leggja sig. Í þarsíðustu kosningum hefði þáverandi ríkisstjórn ekki getað verið mynduð ef atkvæðavægi og talning atkvæða væri jafnari. Sú ríkisstjórn byggði á kerfisbundinni lýðræðisskekkju. Það er ekki skrýtið að þar hafi orðið pólitískur óstöðugleiki.

Núverandi ástand úti um allt land, á landsbyggðinni eins og á höfuðborgarsvæðinu, er núverandi fyrirkomulagi að kenna. Kvótakerfið er afleiðing núverandi fyrirkomulags í lýðræðinu, byggðastefnan, jöfnunarsjóðurinn og allt þetta. Þetta er afleiðing þess hvernig við stundum stjórnmálin í dag. Ég skora á fólk að segja: Er þetta gott kerfi fyrir landsbyggðina? Ekki fæ ég þau skilaboð þegar ég flakka um landið og spyr hvernig gangi. Allir eru að kalla á miklu meiri vinnu, miklu meiri athygli, miklu betri byggðastefnu o.s.frv. Hið aukna atkvæðavægi landsbyggðarinnar virðist samt ekki vera að skila sér. Vandamálið er nefnilega valdaójafnvægið. Píratar leggja áherslu á sjálfsákvörðunarrétt upp á nálægð að gera og þar skiptir fjárhagslegt sjálfstæði gríðarlega miklu máli. Við tölum um útsvarshlutdeild í t.d. virðisaukaskatti, eignarskatti, fyrirtækjaskatti og þess háttar. Það að vera ekki fjárhagslega sjálfstæður eins og sveitarfélögin eru ekki núna býr til valdaójafnvægi. Valdaójafnvægi núverandi kerfis verður ekki lagað nema með meira sjálfstæði sveitarfélaga sem kæmi þá í stað geðþótta núverandi kjördæmapots. Völdum er misskipt í núverandi kerfi. Jafnt atkvæðavægi fæst bara með meiri valdeflingu sveitarstjórnarstigsins og með því að fækka kjördæmum eða fjölga þingmönnum. Ekkert annað er í boði.



[16:01]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í því fulltrúalýðræði sem við búum við er mikilvægt að valdið sé nálægt fólkinu og að kjósendur upplifi að fulltrúar þeirra á þingi og í sveitarstjórnum ræði þau málefni sem brenna á kjósendum hvar sem þeir búa og vinni að framgangi þeirra. Jafnframt verða kjósendur að finna fyrir því að kosningakerfið sé sanngjarnt og að ólík sjónarmið úr ólíkum áttum fái pláss í umræðunni. Engin kerfi sem maðurinn hefur skapað eru fullkomin. Við ættum því ávallt að þora að taka umræðuna um hvernig við getum betrumbætt þau og þróað áfram. Þannig verða framfarir og tel ég að framfarir sem ætlað er að efla lýðræðið og grunnstoðir þess séu sérstaklega mikilvægar.

Staðan hér á landi er sú að við búum í bæði fámennu og strjálbýlu landi. Annars vegar býr mikill meiri hluti landsmanna á höfuðborgarsvæðinu og í nærliggjandi sveitarfélögum sem er tiltölulega lítið og þéttbýlt landsvæði í hinu íslenska samhengi. Hins vegar býr minni hluti landsmanna á víð og dreif um mjög stórt og mjög dreifbýlt landsvæði. Þannig erum við með þrjú kjördæmi á stórhöfuðborgarsvæðinu sem eru með meiri hluta þingmanna og þrjú landsbyggðarkjördæmi sem ná öll yfir gríðarlega stór landsvæði og innihalda fjölbreyttar byggðir og byggðaform. Óneitanlega má segja að aðstæðurnar séu nokkuð ýktar þegar við tökum tillit til lykilþátta í þessari umræðu, fámenni, stærð landsins og strjálbýli en jafnframt það háa hlutfall landsmanna sem hefur kosið að búa á suðvesturhorninu. Er kjördæmakerfinu sem nú er við lýði þannig ætlað að skapa ákveðið samhengi milli fjölda kjósenda og fjölda þingmanna en einnig að tryggja að raddir úr ólíkum áttum af landsbyggðinni heyrist í umræðunni. Að mínu mati var t.d. kosningin í stjórnlagaþingi áminning um að gæta þurfi að jafnvægi milli landshluta alveg sama hvaða aðferðir við notum. Í Washington hafa þeir ekki þingmenn og það er líklega út af einhverju. Áskorun stjórnmálanna og samfélagsins alls er að halda áfram að þróa fulltrúalýðræðið og rökræða nýjar og ferskar hugmyndir til að bæta það. Samtímis verðum við að taka tillit til þeirra sérstöku aðstæðna sem við búum við hér á þessu litla landi.



[16:03]
Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Hér eiga sér stað ágætar umræður og ýmsir möguleikar nefndir í þá veru að leiðrétta það mikla óréttlæti sem sumir upplifa að felist í núverandi kosningakerfi. Ég vil bara ítreka það sem ég kom inn á áðan, það er býsna góð jöfnun á milli flokka undir núverandi kerfi. Flokkar endurspegla innan tiltölulega lítilla skekkjumarka það atkvæðavægi sem þeir fá á landsvísu og ef tillögur eru uppi um að vilji manna sé að komast að fullkomu jafnvægi verður það væntanlega ekki gert af neinu viti nema með því að gera landið að einu kjördæmi. Þá verður staðan sú að ekki er víst að það hafi mikil áhrif á baráttusæti Sjálfstæðisflokksins, hver verði í 4. eða 5. sæti landslista Sjálfstæðisflokksins. Sá frambjóðandi verður í hvíldarinnlögn í kosningabaráttunni. Hv. þm. Haraldur Benediktsson yrði sennilega settur í eitt af baráttusætunum og Brynjar Níelsson í annað og svo mætti lengi telja. Ég er ekki viss um að landsmenn upplifi sérstaklega meira lýðræði í því að vera að slást um einn lista hvers flokks á landsvísu samanborið við það sem nú er.

Ég ítreka það sem ég kom inn á áðan, við verðum að ræða þetta í stærra samhengi. Aðgengi landsbyggðar að stjórnsýslunni er með allt öðrum hætti en þeirra sem búa á milli Hvítánna tveggja.

Hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir kom inn á gestakomur í nefndum og annað slíkt. Fjölmörg sjónarmið eru uppi sem þarf að taka á og ræða, (Forseti hringir.) önnur en akkúrat það hvort við viljum skipta kjördæminu einhvers staðar í miðri götu eða á 3. hæð í blokk einhvers staðar í Breiðholtinu.



[16:05]
Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir þessa umræðu. Mér finnst verðugt að við ræðum þetta málefni hér. Ég ætla að byrja á að segja að ég get mjög vel skilið og ætla ekki að verja verulegt og ósanngjarnt misvægi milli atkvæða. Síðan getum við deilt um hvað er sanngjarnt og eðlilegt í þeim efnum. Ég held að það verði alltaf að vera. Ég held að það sé hluti af skipulagi okkar og lýðræðiskerfi. Viljum við tryggja fulltrúakjör dreift yfir landið? Rétt eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir nefndi höfum við einar kosningar sem þetta kristallaðist mjög vel í, stjórnlagaráðskosninguna, þar sem einungis þrír fulltrúar af landsbyggðinni fengu brautargengi ef mig misminnir ekki.

Að því sögðu langar mig til að varpa spurningu inn í þessa umræðu: Hefur þetta misvægi atkvæða búið til einhverja óeðlilega stöðu? Er Norðvesturkjördæmi sem svo oft er nefnt í þessari umræðu með mikinn atkvæðaþunga í eitthvað sérstaklega öfundsverðri stöðu? Haldið þið að íbúar á Drangsnesi eða í Vestur-Húnavatnssýslu upplifi að þeir hafi borið meira úr býtum um skiptingu og áhrif sem ákveðin eru á Alþingi en íbúi í Suðvesturkjördæmi? (Gripið fram í.) Ég held að það sé nákvæmlega ekki þannig. Ég myndi miklu frekar vilja, rétt eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi í innleggi sínu fyrr í þessari umræðu, skoða þetta raunverulega eftir margháttuðum leiðum. Ein leið er sú að endurskoða kjördæmaskipanina. Ég hef sjö ára reynslu af því að starfa í risastóru landsbyggðarkjördæmi, þekki þau sjónarmið sem þar eru og held að það sé miklu frekar að við brjótum þau upp og nálgumst út frá endurskoðaðri kjördæmaskipan í sambland við það (Forseti hringir.) að takast á við þennan atkvæðamun.



[16:08]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka upphafsmanni umræðunnar kærlega fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga efni. Umræðan um jöfnun atkvæðisréttar er samofin grundvallarhugmyndum um lýðræði og borgaraleg réttindi. Í lýðræðisríkjum kemur allt vald frá fólkinu í landinu og hér í dag hverfist umræðan um að fólkið í landinu, þ.e. þau okkar sem hafa kosningarrétt, standi jafnfætis, að hér ríki jafnræði en ekki ójafnræði. Það er grundvallarréttur fólks að geta gengið til kosninga og að allir geti með atkvæði sínu þannig haft áhrif á stefnu og stjórn ríkisins. Við í musteri lýðræðisins tölum oft um jafnan atkvæðisrétt eins og það skipti ekki máli, eins og einhver önnur lögmál eigi að gilda, eins og það sé eðlilegt að á Íslandi ríki ójafnræði milli landsmanna þegar kemur að vægi atkvæða, ójafnræði vegna búsetu á sama tíma og okkur þætti algjörlega fráleitt að láta slíkt ójafnræði á vægi atkvæða gilda vegna annarra þátta, eins og kyns, stéttar eða trúar.

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu hefur sinnt kosningaeftirliti um heim allan, bæði þar sem lýðræðishalli er þekkt ógn en einnig í ríkjum sem þykja hafa sterkar lýðræðisrætur eins og Ísland. Það hefur hún einmitt gert og komið í kjölfarið með ábendingar sem íslenskum stjórnvöldum hefur því miður ekki enn þá tekist að bregðast við. Ábendingar þeirra lúta einmitt að þessum lýðræðishalla, að það sé ólýðræðislegt og brot á grundvallarrétti fólks að nærri tvöfaldur munur sé á vægi atkvæða eftir því hvar fólk býr á landinu. Það er ekkert eðlilegt við að búseta kjósanda skerði þennan grundvallarrétt til lýðræðislegs valds. Þessu verðum við að breyta.



[16:10]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni þessa sérstöku umræðu um jafnt atkvæðavægi og um leið þakka innlegg hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur í umræðuna. Hér hefur komið fram að þetta er grundvöllur í okkar lýðræðisskipulagi og það má auðvitað spyrja hvort sú nálgun að jafna atkvæðavægi með öllu með því að fara úr því skipulagi sem við höfum og vera með eitt kjördæmi, ef það yrði gert að fullu, myndi endilega tryggja það sem menn kalla pólitískt jafnrétti.

Ég held, virðulegi forseti, á hvorn veginn sem er, eftir að hafa hlustað á þessa umræðu, að á þessum jafnræðiskvarða séu rökin fremur en áður og fyrr einhlít í hvora áttina sem er. Núverandi fyrirkomulag er ekki gallalaust fremur en annað. Hvar sem við myndum lenda á þessum kvarða til að nálgast pólitískt jafnrétti eða forðast einhvers konar misvægi eða valdaójafnvæg gæti til að mynda orðið mun meira ójafnvægi með tilliti til landsvæða ef landið yrði allt að einu kjördæmi. Við förum þá leið í dag að stilla þetta einhvern veginn af með tilliti til kjördæma og hv. málshefjandi tók fram hér að einhvers konar misvægi væri einhvers konar samþykki fyrir því að það væri til staðar.

Í frumvarpi til stjórnarskipunarlaga frá 145. þingi segir m.a., með leyfi forseta, að gallarnir við að landið yrði eitt kjördæmi væru „að þingmenn verði of fjarri kjósendum sínum samfara minnkandi áhrifum dreifbýlisins hvað fjölda þingmanna varðar“. Flokksræði gæti aukist. (Forseti hringir.) Það liggur fyrir að hjá stærri stjórnmálaflokkum yrði um nokkurs konar sjálfskjör að ræða hjá efstu frambjóðendum. Þetta eru svipuð rök og við heyrum hér í dag. (Forseti hringir.) Ég held að við verðum að stilla af þennan kvarða til að ná sem mestu jafnræði á þessu sviði.



[16:13]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Hún hefur verið um margt fróðleg og kemur kannski ekki á óvart að afstaða þingmanna virðist vera bundin póstnúmerum. Það er í takt við það hvort flokkar hagnist eða tapi á núverandi fyrirkomulagi. Það kemur kannski ekki á óvart, mér skilst að þannig hafi þetta alla tíð verið og ekki hægt að ná vitrænni umræðu í þinginu um kjördæmaskipan fyrr en hægt var að sýna þingmönnum fram á hvernig þeir kæmu sjálfir út úr breytingum á kjördæmaskipaninni. Það er auðvitað miður því að á endanum er þetta afskaplega einfalt og skýrt mál. Er maður með hálft atkvæði eða heilt? Það er það sem málið snýst um. Eru það mannréttindi að sumir kjósendur í þessu landi hafi hálft atkvæði á við aðra kjósendur, að kjósendur í Suðvesturkjördæmi séu með hálfan atkvæðisrétt samanborið við kjósendur í Norðvesturkjördæmi? Það er allt flækjustigið í þessu máli og það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að núverandi ríkisstjórnarflokkar hafi takmarkaðan áhuga á að breyta þessu, að þetta sé ekki meðal forgangsatriða þeirra flokka við endurskoðun á stjórnarskrá, þrátt fyrir að kjósendur segi annað. Kjósendur segja nefnilega skýrt: Þetta er það mikilvægasta sem við þurfum að breyta í stjórnarskránni, þetta er það sem skiptir mestu máli. Það er auðvitað það sem skiptir mestu máli, það eru einfaldlega sjálfsögð mannréttindi að allir kjósendur sitji við sama borð, að öll njótum við sama kosningarréttar, að ég helmingi ekki kosningarrétt minn, svo dæmi sé tekið, með því að flytja úr Norðvesturkjördæmi í Suðvesturkjördæmi. Þetta er ekki flóknara. Einfaldast er að breyta því með því að gera landið að einu kjördæmi. Sjálfsagt getum við fundið aðrar lausnir en við þurfum að breyta fyrirkomulaginu. Við getum breytt því, eigum að gera það fyrir næstu kosningar og ekki hika neitt við það.



[16:15]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að tala um jafnrétti í kosningum og höfum farið út um víðan völl hérna. Það sem er kannski furðulegast er uppstillingin landsbyggð gegn höfuðborg. Ég held að hún sé í gegnum einhverja rörsýn fjórflokksins sem hefur stjórnað hérna og komið þessu kerfi á. Ég tel mig ekki bara þingmann Kragans og ekkert fyrir landsbyggðina. Ég á systkini, ættingja og vini úti um allt land og ég held að það sé kominn tími til að við þorum að horfast í augu við það og segja hreinlega að við séum að og eigum að berjast fyrir alla landsmenn. Það er grundvöllurinn í þessu. Við verðum líka að horfast í augu við það, eins og hefur komið fram í tölfræðinni, hversu rosalega mörg atkvæði detta niður dauð. Horfum á Kragann versus Suðurland þar sem er nærri því helmingur. Annar aðili er með 70.000 manns á bak við sig, hinn 36.000. Annar fær tíu þingmenn, hinn fær 13. Þarna liggur við að ætti að vera 20 á móti tíu.

Þetta köllum við jafnrétti og lýðræði. Þetta getur ekki staðið svona og á ekki að vera svona, að maður tali um að erfitt sé að ræða þetta og fari í skotgrafir um hvort maður hagnast eða tapar atkvæðamagni við að fá lýðræði. Mér gæti ekki verið meira sama. Þetta snýst ekki um það, þetta snýst einfaldlega um að lýðræðishugsunin sé rétt, að allir séu jafnir.

Ég segi fyrir mitt leyti eins og hefur komið hérna fram: Myndum við sætta okkur við að þeir sem eru í Kraganum borgi fulla skatta en þeir sem eru í Norðvesturkjördæmi borgi hálfa skatta á við þá? Nei, við myndum aldrei sætta okkur við það. Þess vegna eigum við ekki að sætta okkur við að það sé hálft atkvæði í Kraganum á móti heilu annars staðar.



[16:17]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka öllum sem tóku þátt í umræðunni fyrir um margt áhugaverð sjónarmið. Því miður mun mér ekki endast tíminn til að fjalla nógu ítarlega um þetta mál hér í annað sinn frekar en venjulega þegar kemur að sérstökum umræðum. Ég er búinn að kvarta undan því áður.

Ég vil nefna nokkur atriði. Í fyrsta lagi verð ég að segja að ég get ekki fallist á að tvöfalt atkvæðavægi sé eðlilegt eða í lagi. Mér finnst það eiginlega ekki koma til greina. 60% finnst mér allt of mikið líka. Auðvitað viljum við hafa það jafnt og ég á mjög erfitt með sjónarmið sem gefa eitthvað annað í skyn. Mér finnst þetta augljóst en það er svo sem hægt að rífast um það vegna þess að það er kannski grunnhugmynd.

Afstaða okkar til þessa máls finnst mér ekki mega ganga út frá því hvort kjördæmi okkar verði svona eða hinsegin eða flokkurinn okkar hagnist eða tapi á því. Mér finnst það ekki vera rétt leiðsögn. Þetta snýst um meira grundvallaratriði. Að sama skapi megum við ekki gleyma hinu grundvallaratriðinu. Þetta snýst ekki bara um atkvæðavægið, þetta snýst um það hvers vegna sumir tali fyrir því að þetta misvægi sé í lagi. Það er vegna þess að það er ekki jafnrétti alls staðar um landið eftir því hvar fólk býr. Við verðum að bera virðingu fyrir því sjálf. Ég benti t.d. á að ekki sé sama aðgengi að stjórnvöldum á landsbyggðinni eins og í Reykjavík. Það er rétt. Getum við gert eitthvað í þessu? Hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir fór út í þetta og sömuleiðis hv. þm. Bergþór Ólason. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson fór aðeins út í fjárhagslegt sjálfstæði og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson nefndi skatta í þessu samhengi. Er eitthvað fráleit hugmynd að hafa skattafslátt sums staðar af einhverjum málefnalegum ástæðum? Það getur varðað fjárhagslegt sjálfstæði, t.d. að virðisaukaskatturinn renni til sveitarfélaga, a.m.k. að hluta. Þetta eru allt hugmyndir sem er hægt að ræða til að koma til móts við áhyggjurnar sem valda því að fólk aðhyllist misvægi atkvæða.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, virðulegi forseti, enda hef ég ekki tíma en ég þakka enn og aftur fyrir umræðuna. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Bergþór Ólason sagði, við eigum að ræða þetta í stærra samhengi og þakka ég honum fyrir innlegg hans og öllum öðrum sem tóku hér til máls.



[16:19]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það hefur verið áhugavert að hlusta á þessa umræðu og raunar merkilegt að hlusta á þá sem hafa verið með bollaleggingar um að allt snúist þetta um það hverjir hagnist á breytingum og hverjir tapi á þeim. Ég get ekki fallist á að það sé eitthvað sem við eigum að hafa uppi á borðum í svona umræðu. Við þurfum að ræða málið út frá grundvallaratriðum.

Ég er Reykvíkingur að ætt og uppruna. Ég er þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður og alla tíð frá því að ég var kosin á þing hef ég litið svo á að mínar skyldur væru miklu ríkari en svo að þær takmörkuðust við legu Miklubrautarinnar um Reykjavík. Ég hef alltaf litið á mig sem þingmann alls landsins og einmitt þess vegna geri ég mér grein fyrir því að aðstæður fólks á þessu landi eru mjög mismunandi, ekki bara hvað varðar aðgengi að stjórnvöldum. Þær eru mismunandi hvað varðar aðgengi að þjónustu, hvað varðar samgöngur og fjarskipti. Þar höfum við Reykvíkingar og höfuðborgarsvæðið haft vinninginn umfram önnur landsvæði þrátt fyrir misvægi atkvæða. Við þurfum að horfast í augu við það þegar við ræðum um þetta, eins og mér fannst hv. málshefjandi gera í báðum sínum innleggjum.

Hins vegar er ég á því út frá grundvallarsjónarmiðum að við eigum að jafna atkvæðavægi en eins og ég nefndi vegna þessara sjónarmiða, vegna þess að gæðunum er ekki endilega alveg jafnt skipt milli höfuðborgarsvæðis og hinna dreifðu byggða og alls ekkert innbyrðis milli hinna dreifðu byggða, skiptir máli að við veltum líka fyrir okkur leiðum og hvort leiðin sé að gera landið að einu kjördæmi eða hvort leiðin sé að fara einhverja blandaða leið eins og við höfum séð gert annars staðar. Þegar þessu var breytt í Færeyjum var um leið aukið vægi persónukjörs samhliða því að gera landið að einu kjördæmi, svo dæmi sé tekið. Hvort hugsanlega mætti fara þrískipta leið.

Mér finnst áhugavert að heyra þingmenn tala um forgangsröðun í þeirri vinnu sem nú stendur yfir á vettvangi formanna flokkanna við endurskoðun stjórnarskrár. Mig langar þá bara að upplýsa hv. þingmenn og segja þeim þær fréttir að sú endurskoðun er á borði formanna flokkanna. Það plan sem þar er unnið eftir var lagt á það borð. Það er ekki sérstök áætlun ríkisstjórnarinnar heldur er hún einmitt til stöðugrar umræðu á þessum vettvangi þannig að ef hv. þingmenn hafa athugasemdir við það (Forseti hringir.) og telja að þetta sé sérstakt plagg ríkisstjórnarinnar minni ég á að næsti fundur formanna flokkanna er 13. mars.