150. löggjafarþing — 69. fundur
 4. mars 2020.
launasjóður íslensks afreksíþróttafólks, fyrri umræða.
þáltill. HVH o.fl., 524. mál. — Þskj. 866.

[19:27]
Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um launasjóð íslensks afreksíþróttafólks. Þeir sem flytja þessa þingsályktunartillögu eru þingflokkur Samfylkingarinnar. Þingsályktunartillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram frumvarp til laga um launasjóð fyrir afreksíþróttafólk. Tilgangur sjóðsins verði að auka fjárhagslegt öryggi afreksíþróttafólks og auka möguleika þess á að helga sig íþróttaiðkun sinni. Ráðherra leggi frumvarpið fram eigi síðar en á 151. löggjafarþingi.“

Frú forseti. Með tillögu þessari er lagt til að mennta- og menningarmálaráðherra verði falið í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra að undirbúa og leggja fram frumvarp til laga um launasjóð íslensks afreksíþróttafólks. Tilgangur launasjóðsins yrði að skapa afreksíþróttafólki í landinu fjárhagslegan grundvöll til iðkunar á íþrótt sinni. Horfa mætti til launasjóðs stórmeistara í skák sem og launasjóða listamanna þar sem starfslaun eru greidd umsækjendum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Með því að greiða afreksíþróttafólki starfslaun aukast réttindi og öryggi þess. Mikilvægt er að við undirbúning og við útfærslu starfslaunasjóðs afreksíþróttafólks verði unnið náið með Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands og sveitarfélögum.

Árangur íþróttafólks okkar hefur vakið athygli um allan heim. Við eigum afreksfólk í fjölmörgum íþróttagreinum sem hefur aukið hróður Íslands á Ólympíuleikum, heimsmeistaramótum og Evrópumótum. Flutningsmenn tillögunnar telja að tímabært sé að stjórnvöld styðji betur við íslenskt íþróttafólk, fyrirmyndir æsku landsins.

Afreksíþróttafólk á Íslandi sendi frá sér yfirlýsingu varðandi kjör sín í desember 2019. Þar segir:

„Eftir íþróttaferilinn stendur margt íslenskt afreksíþróttafólk uppi með skuldir á bakinu og réttindalaust. Afreksíþróttafólk hefur ekki lífeyrisréttindi, stéttarfélagsaðild, atvinnuleysisbætur, aðgengi að sjúkra- og starfsmenntasjóði, né réttindi til fæðingarorlofs svo eitthvað sé nefnt.“

Í skýrslu vinnuhóps frá 2017 um endurskoðun á reglum afrekssjóðs ÍSÍ er t.d. fjallað um mikilvægi þess að afreksíþróttafólk geti einbeitt sér að æfingum og keppni samhliða því að njóta lágmarkstekna vegna framfærslu og nauðsynlegra útgjalda. Segir þar, með leyfi forseta:

„Bjóða þarf upp á beina styrki til íþróttamanna í formi mánaðarlegra „framfærslustyrkja“ þar sem íþróttamaðurinn hefur fullan ráðstöfunarrétt á tekjunum.“

Af þessum orðum, sem og þeim sem áður hefur verið vitnað til, má glöggt sjá að þeir styrkir sem afreksíþróttafólki hafa staðið til boða hafa iðulega verið notaðir í beinan kostnað íþróttafólksins vegna þátttöku á alþjóðlegum mótum erlendis en ekki framfærslu á æfingatíma.

Ýmislegt annað væri vert að benda á sem má finna í greinargerð með þingsályktunartillögunni en ég ætla ekki að orðlengja þetta heldur leggja til að að umræðu lokinni verði þessu máli vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.



[19:30]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur kærlega fyrir framsöguna og fyrir að leggja fram þetta þarfa mál. Það vill svo til að þingflokkur Viðreisnar er ásamt nokkrum öðrum þingmönnum með sambærilegt mál sem hefur verið lagt fram. Ef svo fer fram sem horfir verður það á dagskrá á þingi innan skamms. Það felur í stuttu máli í sér að Alþingi feli hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að móta heildstæða stefnu um afreksfólk í íþróttum og að stefnan verði tímasett samhliða því að tryggður verði fjárhagslegur stuðningur.

Í stóru myndinni erum við að tala um sömu markmið og stóra málið er að við gerum eitthvað í þessu. Hv. þingmaður fór vel yfir það í greinargerð sinni hvar skórinn kreppir. Það verður ekki bæði sleppt og haldið í þessu. Ef við ætlum okkur að hafa afreksíþróttamenn okkar til ánægju og yndisauka fyrir þjóðina alla, ef svo má segja, og síðan sem fyrirmyndir fyrir unga fólkið okkar sem er að stíga sín fyrstu skref þurfum við að búa þannig að þessum hópi að sómi sé að og að honum sé unnt að sinna þessum málum.

Ég velti fyrir mér hvað hv. þingmanni þætti, ef það mál sem ég tala um hér kemst á dagskrá fljótlega og það verði ekki til þess að tefja það mál sem hér er verið að mæla fyrir, um að farið yrði saman í þetta og við myndum sameina krafta okkar í að vinna þetta mál sem best. Ég er alveg klár á því að við fengjum þingheim með okkur í það. Hvernig líst hv. þingmanni á það?



[19:32]
Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið og fagna því máli sem þingmenn Viðreisnar hafa lagt fram. Það mál rímar mjög vel við þetta mál. Stundum er sagt að stórir hugar séu oft sammála og hugsi á svipuðum nótum og ég held að við getum algjörlega komist að samkomulagi um að mál þingflokks Viðreisnar og mál þingflokks Samfylkingarinnar tali saman.

Við erum að tala um fyrirmyndir fyrir íslensk ungmenni, við erum að tala um lýðheilsumál og við erum síðast en ekki síst að tala um jafnræði íslensks afreksíþróttafólks á erlendri grundu þegar það mætir því íþróttafólki sem það keppir við sem býr þá við allt aðrar aðstæður en afreksíþróttafólk á Íslandi sem þarf að vinna fullan vinnudag samhliða íþróttaiðkuninni.

Ég held að þessi mál vinni mjög vel saman.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allsh.- og menntmn.