150. löggjafarþing — 70. fundur
 5. mars 2020.
undirboð í ferðaþjónustu.

[10:37]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Útbreiðsla kórónuveirunnar er farin að hafa víðtæk áhrif, m.a. á ferðaþjónustu víða um heim og þar með talið á Íslandi. Með fækkandi ferðamönnum, ekki síst þegar það gerist skyndilega, harðnar samkeppnin og fyrirtækin leita allra leiða til að spara.

Það hefur verið töluverð umræða hér á landi síðustu ár um starfsemi og undirboð erlendra rútufyrirtækja. Það er alls ekki ástæða til að alhæfa um þau öll en gagnrýnin hefur kannski snúið að því að þau fyrirtæki sem vilja koma sér undan því að vera hér í eðlilegri og heiðarlegri samkeppni við íslensk fyrirtæki hafa kannski getað gert það óþarflega auðveldlega. Íslenskir ferðaþjónustuaðilar eru langt frá því að vera þeir einu með þessar áhyggjur og í Danmörku hafa yfirvöld brugðist við með því, og gerðu rétt fyrir síðustu áramót, að breyta túlkun á reglugerð Evrópusambandsins sem nær til gestaflutninga og takmarka þannig þann starfstíma sem erlendar rútur geta verið í landinu niður í sjö daga og herða skráningu. Ekki síst hafa þau hert viðurlög við brotum á þessum reglum með kyrrsetningu rúta og töluvert háum sektargreiðslum. Þeir sem þekkja til í danskri ferðaþjónustu segja að þessar aðgerðir hafi skilað góðum árangri gegn þessari svokölluðu sjóræningjastarfsemi.

Nú er svo komið að ferðakaupstefnur svokallaðar hafa verið mjög uppteknar af neikvæðum áhrifum kórónuveirunnar á ferðaþjónustuna. Það er einfaldlega slagur fram undan, slagur sem við Íslendingar munum þurfa að taka þátt í. Það hafa komið upp áhyggjur af því að mörg fyrirtæki freistist í ljósi aðstæðna til að fara út á þessi svokölluðu gráu svæði. Þá er spurningin sú: Erum við eitt af þessum gráu svæðum í þessum bransa? Erum við tilbúin þar?

Undir lok síðasta árs kölluðu aðilar í Samtökum ferðaþjónustunnar eftir því að hér yrði farin svipuð leið og í Danmörku með hertu eftirliti með þessum erlendu rútufyrirtækjum. Mig langar því til að spyrja hæstv. samgönguráðherra — og ég átta mig á því að ég er hér eiginlega að biðja hann um að setja á sig hatt ferðamálaráðherra og mögulega fjármálaráðherra líka, en ég trúi því að hann standi undir þessu — um stöðuna hér. Erum við á einhvern hátt að bregðast við þessari stöðu og þá hvernig?



[10:40]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir þessa fyrirspurn, hún er mikilvæg. Eins og hér hefur komið fram er kannski ekki hægt að alhæfa um öll fyrirtæki en þessi hætta hefur verið fyrir hendi. Við höfum séð þessa þróun og hún hefur farið vaxandi og hefur augljóslega mjög neikvæð áhrif. Þess vegna höfum við verið að skoða hvaða leiðir séu til til að koma í veg fyrir þetta með einhverjum hætti. Þetta er flókið ferli, eins og hv. þingmaður kom hér inn á, þessi gistilandaheimild er í raun gefin út af landinu sem rútufyrirtækið er frá og síðan hafa menn verið inni í einhverju alþjóðlegu regluverki. Hér hefur það verið túlkað í tollalögum þannig að þetta sé heimilt til eins árs.

Þegar þær hugmyndir komu fram hjá Dönum sem þeir hafa verið að innleiða tókum við strax til skoðunar að fylgja þeim eftir. Ég hef átt fund með kollega mínum, danska ráðherranum, og sérfræðingar mínir eru komnir í beint samband við danska samgönguráðuneytið um það einfaldlega að fylgja þeim eftir. Stundum erum við kaþólskari en páfinn í því að framfylgja einhverjum evrópskum regluverkum og sjáum ekki fyrir okkur leiðirnar út úr því. Ég er aftur á móti þeirrar gerðar að ég vil leita allra leiða þegar við erum að verja íslenska hagsmuni og jafnvel stundum aðeins að skora á hólm hið evrópska regluverk. En þegar land eins og Danmörk, sem er innan Evrópusambandsins, gerir það, þá hef ég sagt: Ég vil fylgja þeirra fordæmi. Við erum að fylgjast mjög náið með því hvernig þeir vinna þetta og við erum að setja upp sambærilegt prógramm. Undirbúningur þeirra var þannig að þeir höfðu dálítið samband við þessi fyrirtæki og komu upplýsingum á framfæri um hvað þeir ætluðu að gera. Kannski eru viðbrögðin því orðin meiri nú þegar þó svo að regluverkið sé ekki farið að bíta.



[10:42]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er gott að vita að þetta er í fullum gangi. Þessi umræða um að vera kaþólskari en páfinn hefur stundum komið upp hjá okkur og til að halda þeirri líkingu áfram þá eru Danir alveg ótrúlega trúlausir í þeim efnum. Þeir eru ansi lunknir við að finna leiðir og það er hollt og gott að líta stundum til þeirra vegna þess að þeir eru sannarlega Evrópusambandsland sem við erum ekki, því miður.

Ferðakaupstefnur eins og allar góðar kaupstefnur fara annars vegar fram á hinum opinbera vettvangi og svo eru það samtölin sem eiga sér stað í bakherbergjunum. Ástæða þess að ég kem hingað upp er sú að frá þessum kaupstefnum berast fréttir, sem eru ekkert sérlega góðar, af því að ákveðnir aðilar frá þessum löndum, sem við vitum að nýta sér þessi gráu svæði, flytji þau skilaboð að fjölga eigi rútum hér á landi vegna þess að hér sé þrátt fyrir allt enn hægt að fara þessa leið á meðan verið er að herða að annars staðar. Ég veit að Norðmenn eru t.d. að skoða það að koma á sambærilegu kerfi og Danir. Ég fagna því að verið er að vinna í þessu á fullu og ég vona að það komist til framkvæmda sem fyrst.(Forseti hringir.)

Ég veit að fyrir tveimur eða þremur árum óskaði ríkisskattstjóri eftir upplýsingum um erlend ferðaþjónustufyrirtæki, þar með talið rútufyrirtæki, hér á landi, og það er, (Forseti hringir.) eins og hæstv. ráðherra kemur inn á, töluvert flókið að sækja þessar upplýsingar. Kannast ráðherra við að þessar upplýsingar liggi fyrir hjá ríkisskattstjóra?



[10:43]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Forseti. Varðandi þá fyrirspurn gæti ég trúað því að þær upplýsingar liggi fyrir í fjármálaráðuneytinu. Mér er ekki kunnugt um það en við getum aflað þeirra. Það breytir því ekki að ég er á þeirri skoðun að þetta sé nauðsynlegt ferli. Þetta var ekki hugsað svona. Þegar kerfið var sett upp var það hugsað þannig að rútufyrirtæki í einu landi gæti farið með hóp og keyrt um í því landi í einhverja daga og farið svo heim. Og það er það sem Danir eru að reyna að setja upp með þessari sjö daga reglu. Síðan er þetta aðeins flóknara því að auðvitað getur starfsmaðurinn kannski verið þarna í mánuð en hann þarf þá að fara heim. Við þurfum að horfa á það að það getur komið til samspils nokkurra ráðuneyta í þessu samhengi en ég held að það sé mjög mikilvægt að fylgja þessu eftir vegna þess að ef glufur eru í kerfi þá er það bara þannig alþjóðlega að menn finna þær í þeim löndum og nýta sér þær, hvort sem er í þessum geira eða einhverjum allt öðrum hlutum samfélagsins.

Við erum á fullu að reyna að fylgja því eftir mjög nákvæmlega (Forseti hringir.) hvernig Danir ganga fram í þessu og munum í það minnsta taka upp sams konar reglur ef ekki ganga lengra.