150. löggjafarþing — 70. fundur
 5. mars 2020.
flensufaraldur og fátækt.

[10:45]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Covid-19 veiran er núna að ná hámarki en á sama tíma er virkilega slæm flensa í gangi, flensa sem hefur einhvern veginn horfið og enginn talar um, sú versta flensa sem ég hef orðið vitni að og ekki er ég nú unglamb. Þessi flensa ræðst illa á öndunarfæri fólks og veldur því að fólk er með hósta og er allt að því að kafna í þrjá mánuði eftir að hafa fengið hana. Ekkert er rætt um þetta. Og ég spyr mig: Fólk sem er með þessa flensu í hámarki, í hversu mikilli áhættu er það gagnvart Covid-19 veirunni? Eru einhverjar ráðstafanir í gangi til að kortleggja þá sem eru núna með þessa slæmu flensu og verja þá fyrir Covid-19 veirunni?

Síðan er annað sem hefur komið á daginn. Það eru 28.000–35.000 manns sem lifa í fátækt og þar af eru 10.000 börn, þar af 3.000 börn í sárafátækt. Við erum að tala um hóp fólks sem þarf að neita sér um hollt fæði, heilbrigðisþjónustu og lyf og býr ekki við mannsæmandi húsakost. Þetta er viðkvæmasta fólkið og þetta er fólkið sem því miður er að tapa allt að tíu árum af ævi sinni vegna lélegs fæðis og þar af leiðandi er þetta líka fólkið sem hefur ekki efni á því að kaupa spritt, þetta er fólkið sem hefur ekki efni á því að fara í einangrun. Það á ekki matarbirgðir. Hvað er verið að gera fyrir þetta fólk? Er verið að hjálpa því? Er verið að kortleggja þörfina? Er séð til þess að þeir sem eru verst staddir og sérstaklega þeir sem eru með börn geti mætt því að þurfa að fara í einangrun? Vegna lélegs fæðis, lélegs húsnæðis sem þetta fólk er búið að lifa við í áratugi, er heilsufarslegt ástand þess mjög slæmt.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er þetta kortlagt? Er vitað um hverjir eru þarna og hvað á að gera fyrir þetta fólk?



[10:47]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Það mæðir auðvitað töluvert á innviðum samfélagsins alls í ástandi sem þessu. Á Íslandi ríkir í dag almannavarnaástand, hættustig almannavarna. Einmitt núna er hlutverk heilsugæslunnar og 1700 símans mjög mikið. Þar er verið að svara spurningum af öllu tagi. Fólk hefur áhyggjur af ýmsu, m.a. því sem hv. þingmaður nefnir hér. Það er auðvitað staðreynd að einkenni Covid-19 líkjast mjög inflúensusýkingu og eins og inflúensa getur Covid-19 komið fram í alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingu og lungnabólgu sem kemur oft fram sem öndunarerfiðleikar á fjórða til áttunda degi veikinda þegar um er að ræða Covid-19.

Það sem við getum ráðlagt og gerum í 1700 símanum og gerum gagnvart þeim sem hafa samband við heilsugæsluna er að ráðleggja fólki að fara vel með sig eins og alltaf er. Ef fólk hefur ástæðu til að ætla að það gæti verið um smit að ræða er því ráðlagt að það verði tekin prufa og það hefur verið gert í yfir 300 tilvikum hér þar sem það hefur verið kannað.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um fátækt og stöðu þeirra sem eru efnalitlir við kringumstæður sem þessar. Það er full ástæða til að tala um það. Þess vegna skiptir miklu máli að við erum að stíga skref í áttina að því að draga úr gjaldtöku í heilsugæslunni og tryggja að fólk verði ekki fyrir tekjuskerðingu við það að fara í sóttkví, það er nú í gangi í samtali milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar. Já, við erum svo sannarlega að hugsa um þá þætti sem hv. þingmaður velti hér upp.



[10:49]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ég vona heitt og innilega að það sé verið að gera eitthvað. En ég ætla að venda mínu kvæði í kross og spyrja hana um annað sem ég las um daginn en varðar líka börn. Er það rétt að frá og með 1. janúar hafi verið breytt reglugerð sem snertir börn sem þurfa á hjálpartækjum að halda eins og spelkum og innleggjum í skó og kostnaður við það hafi stórlega hækkað? Fólk hafi farið úr því að þurfa ekki að borga neitt upp í yfir 100.000 kr., fyrir börn sem þurfa nauðsynlega á þessu að halda? Þetta er auðvitað skelfileg tala. Ef hjón í láglaunastörfum með barn sem þarf á spelkum að halda þurfa allt í einu að borga 100.000 kr. þá segir það sig sjálft að þau hljóta að spyrja sig: Hef ég efni á því? Hvaða afleiðingar hefur það ef það hefur ekki efni á því að hjálpa barni með snúinn fót sem þarf spelkur?

Er það rétt að búið sé að breyta þessari reglugerð þannig að þessum einstaklingum sé neitað um styrki fyrir innlegg í skó og spelkur?



[10:51]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Á mínum tíma í heilbrigðisráðuneytinu höfum við ráðstafað umtalsverðu fjármagni til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga. Við höfum verið að horfa til heilsugæslunnar og til tannlækninga öryrkja og aldraðra sem hv. þingmaður og ég höfum rætt í þingsal áður. Við erum að tala um tilteknar aðgerðir til að draga úr greiðsluþátttöku að því er varðar hjálpartæki og að því er varðar stuðning við börn sem fæðast með klofinn góm og fjölskyldur þeirra. Allar þessar ákvarðanir sem hafa verið teknar eru til að bæta kjör almennings í landinu og til að draga úr hættu á því að almenningur búi við mismunun í aðgengi að heilbrigðisþjónustu vegna efnahags. Þetta veit hv. þingmaður að hefur verið mér mjög mikið hjartans mál og ég hef lagt mikla áherslu á þessa þætti í mínu starfi.

Hvað varðar einstakar ákvarðanir eða einstaka hópa og það sem hv. þingmaður er að spyrja um tel ég að þarna hljóti að vera um einhvern misskilning að ræða sem ég mun leita svara við.