150. löggjafarþing — 70. fundur
 5. mars 2020.
tekjuskattur, 1. umræða.
frv. HallM o.fl., 543. mál (persónuarður). — Þskj. 897.

[16:39]
Flm. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt. Með þessu frumvarpi er lagt til að óráðstafaður persónuafsláttur verði greiddur út til einstaklinga, óháð því hvort þeir eru með skattskyldar tekjur eða ekki. Samkvæmt gildandi lögum fellur persónuafsláttur niður sem er ekki ráðstafað samkvæmt 67. gr. A laga um tekjuskatt. Með frumvarpinu er lögð til sú breyting að hafi persónuafslætti ekki þegar verið ráðstafað til greiðslu tekjuskatts, útsvars eða auðlegðarskatts verði hann greiddur út til einstaklinga.

Slíkt form á tekjuskatti hefur verið nefnt neikvæður tekjuskattur og felur í sér að grunnupphæð sem nú er lögfest í formi persónuafsláttar verði alltaf greidd skilyrðislaust til allra sem eiga slíkan rétt. Það fyrirkomulag myndi sérstaklega nýtast ungu fólki og námsmönnum sem margir hverjir afla lítilla tekna en safna í stað þess skuldum í formi námslána. Ef námsmönnum væri greiddur út ónýttur persónuafsláttur á meðan á námi stæði gætu einhverjir þeirra mögulega tekið lægri námslán eða hreinlega bara látið enda ná saman.

Það fyrirkomulag sem er nú við lýði gerir þá kröfu að viðkomandi hafi að lágmarki um 160.000 kr. í tekjur á mánuði til að geta fullnýtt persónuafslátt sinn. Það segir sig sjálft að kjör þeirra sem eru undir þeim tekjumörkum eru bágborin. Þess vegna mun óráðstafaður persónuafsláttur renna að langmestu leyti til þeirra sem hafa litlar eða engar tekjur. Sá hópur samanstendur m.a. af ungu fólki, fjölskyldufólki, nemendum og öðrum sem hafa litlar almennar tekjur en einnig þeim sem þiggja fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum og þeim sem af einhverjum ástæðum eiga ekki rétt á slíkri aðstoð.

Kostnaður við þessa breytingu hefur þegar verið kannaður. Í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar á 148. löggjafarþingi segir að heildarupphæð ónýtts persónuafsláttar tekjuárið 2016 hafi verið 10.512 millj. kr. en 10.477 millj. kr. tekjuárið 2017. Því má gera ráð fyrir að kostnaður við slíka breytingu verði um 10,5 milljarðar kr. Það er mikilvægt að reikna inn í dæmið að lækkun á skattbyrði þeirra sem eru tekjulægstir í samfélaginu leiðir af sér sparnað annars staðar í samfélaginu. Þannig leiða þessi auknu útgjöld íslenska ríkisins það af sér að útgjöld lækka á öðrum stöðum. Sem dæmi má nefna þann óhjákvæmilega kostnað sem leggst á ríkið þegar fólk lifir við fátækt, t.d. kostnað vegna heilbrigðis- og félagsþjónustu og í refsivörslukerfinu.

Forseti. Við sáum það í Kveiksþættinum á þriðjudaginn að hver einasta króna aukalega skiptir máli fyrir þá sem minnst hafa á milli handanna. Við sáum einnig að núverandi nálgun á velferðarkerfið með sínum skilyrðingum og skerðingum hefur skilað okkur 28.000–35.000 manns, þar af 10.000 börnum sem lifa í fátækt.

Forseti. Þetta hlýtur að vera misheppnuð tilraun. Við hljótum að þurfa að endurskoða þetta kerfi. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að greiðsla óráðstafaðs persónuafsláttar telst ekki til tekna hjá móttakanda og hefur þar af leiðandi hvorki áhrif á greiðslur móttakanda frá Tryggingastofnun eða sveitarfélagi né aðrar greiðslur sem kunna að vera tekjutengdar. Þar með kemur útgreiðslan ekki til skerðingar á öðrum framfærslugreiðslum móttakanda.

Hugmyndin um neikvæðan tekjuskatt eða það sem ég hef kallað persónuarð var sett á blað fyrir um 80 árum. Einn helsti talsmaður hennar er Milton Friedman en hann er þekktasti hagfræðingur frjálshyggjunnar. Sú útgáfa sem hér er til umræðu, útgreiðsla ónýtts persónuafsláttar á Íslandi, er meira að segja ívið minni í sniðum en upprunalega hugmyndin að neikvæðum tekjuskatti þar sem persónuafsláttur á mánuði er mjög lágur. Tækifærin sem felast í aðgerðinni eru engu að síður fjölmörg. Rætt hefur verið um hvernig borga eigi fyrir útgreiðslu persónuarðs. Það er langt frá því að vera óyfirstíganlegt vandamál. Upphæðin er hófleg og vel hægt að gera ráð fyrir henni án þess að setja rekstur ríkisins á hliðina. Fjórðungur upphæðarinnar ratar beint aftur inn í kerfið í formi virðisaukaskatts. Framlög til LÍN munu lækka að einhverju marki. Fljótlega mun svo árangur aðgerðarinnar tikka inn, t.d. í minni kostnaði við brottfall nemenda en hann hleypur á tugum milljarða á hverju ári.

Áður en útgreiðsla persónuafsláttar myndi hefjast þyrfti að ræða hvernig best væri að mæla árangur af aðgerðinni. Þarna er um ákveðna tilraunastarfsemi að ræða og þyrftu ríkið, menntastofnanir og atvinnulífið í heild að skoða árangurinn í víðara samhengi en eingöngu efnahagslegu. Rannsóknir sem hafa farið fram á svipuðu fyrirkomulagi erlendis gefa til kynna að útgreiðsla ónýtts persónuafsláttar gæti haft jákvæð áhrif á fjölmarga velsældarvísa sem ríkisstjórnin kynnti í skýrslu sinni um velsældarhagkerfið, t.d. aukið heilbrigði, minna álag og hærra menntunarstig en einnig aukinn kaupmátt og betri skuldastöðu heimilanna.

Forseti. Með þeirri einföldu breytingu að greiða út persónuafsláttinn til þeirra sem engar tekjur hafa eða mismuninn til þeirra sem fullnýta ekki persónuafsláttinn er hægt að stíga lítið fyrsta skref í þá átt að tryggja öllum ákveðnar grunntekjur. Í núverandi efnahagskerfi myndi þessi aðgerð helst nýtast námsmönnum en um leið opnar hún margar dyr og gæti orðið byrjunin á hugarfarsbreytingum í samfélagskerfinu okkar. Hún gæti orðið stökkpallur að næstu skrefum með það að leiðarljósi að breyta skattalegum ívilnunum og bótakerfum yfir í skilyrðislausa grunnframfærslu til að tryggja að allir geti átt jafnan hlut í okkar samfélagslegu verðmætum, óháð stöðu þeirra og tekjum.



[16:45]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að fara aðeins ítarlegar út í kostnað og hagnað í þessu máli. Árið 2013 kom út skýrsla frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þar sem var farið yfir þjóðhagslegan kostnað af brotthvarfi nemenda. Það er svo áhugavert að ef við skoðum hvar útgreiddur persónuarður myndi dreifast einna helst er það einmitt til ungs fólks, m.a. á framhaldsskólastiginu, þar sem atvinnuhlutfall er þokkalega hátt, og einnig meðal háskólanemenda. Upphæðin sem myndi greiðast, þ.e. persónuafslátturinn, jafnast nánast á við LÍN-lán þegar viðkomandi býr í heimahúsnæði. Á þeim forsendum gæti viðkomandi algjörlega sloppið við lán og við vinnu með námi sem leiðir alla jafna af sér betri árangur í námi. Fólk klárar hraðar og er ólíklegra til að falla brott úr námi. Þá á eftir að nefna hversu mikill þjóðhagslegur arður er af því að fá fullmenntað fólk út í atvinnulífið fyrr, fólk sem er ekki með skuldir á bakinu.

Samkvæmt skýrslu Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu var þjóðfélagslegur kostnaður af brottfalli árið 2012 metinn á 52,4 milljarða kr. Hver nemandi í brottfalli kostaði þá um 14 millj. kr. í hvert skipti sem er miklu lægri upphæð en greiðist á ári fyrir persónuafsláttinn þegar allt er tekið til þar. Vissulega er kostnaður upp á 10,5 milljarða miðað við svör fjármálaráðherra við fyrirspurn minni en þarna er miklu stærra samhengi, þótt bara sé horft á brottfallið sem vissulega er verið að reyna að berjast gegn og hefur náðst einhver árangur í líka. Það er hægt að taka allt öðruvísi stefnu en núverandi stjórnvöld eru að gera, t.d. með að mennta þjóð þar sem lagt er til að fella burt hluta af þeim lánum sem voru tekin og fyrir mjög marga nemendur yrði jafnvel ekki þörf að taka lán. Allur sá kostnaður sem fer í gegnum lánin myndi minnka sem og vaxtakostnaður og í rauninni kostnaður ríkisins við að reka lánasjóðinn á þeim forsendum. Þau vanskil sem koma stundum upp þar telja á móti.

Brottfallið telur á móti 10,5 milljarða kostnaði. Það er svo margt sem segir að það að fara í grunnframfærslu sem er ekki tekið tillit til varðandi skerðingar eða neitt sé rosalega jákvætt réttlætisskref og réttindaskref líka að það er eiginlega bara einfalt út frá stærðfræði. Ef við skoðum tölurnar sem við höfum séð í þessu máli væri mjög skrýtið að taka það skref ekki til fulls.



[16:50]
Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegi forseti. Það er gaman að ræða þessa hugmynd öðru sinni núna í vetur. Við tókum sérstaka umræðu um þetta mál í janúarlok og þar, eins og núna, finnst mér grundvallarspurningin vera hvort aðgerð af þessu tagi yrði til þess að draga úr fátækt, eins og mér finnst skína í gegnum málflutning framsögumanns að sé grunnhugsunin. Ég held að við getum öll sameinast um að það skipti máli.

Þá stendur eftir spurningin hvort þetta sé skilvirkasta leiðin til að útrýma fátækt. Þegar við erum að tala um 11,2 milljarða kr. útgjöld — það er talan sem ráðherra nefndi í umræðunni í janúar — er þetta enginn smáræðisbiti. Þess vegna kemur á óvart eftir umræðuna í janúar að við séum enn með þessa útfærslu sem dreifir peningunum óháð þörf til allra sem ekki fullnýta persónuafsláttinn sinn. Af þessum 11,2 milljörðum á síðasta ári hefðu t.d. 3 milljarðar runnið til 16 og 17 ára einstaklinga. Það fólk er tekjulágt en að sama skapi er það ekki endilega með sömu útgjaldaþörf og þeir sem eldri eru og komnir með fjölskyldu. Það að vera tekjulág á ákveðnu tímabili er nefnilega ekki það sama og að vera fátæk. Ég held að 3 milljarðar til 16 og 17 ára einstaklinga myndu ekki vinna gegn fátækt að neinu ráði.

Eins eru mögulega búnir til hvatar með þessu sem þyrfti að greina áður en til kæmi, t.d. hvati gegn því að hækka grunnlaun lágtekjuhópa. Það myndi ekki bara hafa áhrif á þá hópa sem í eru vel að merkja oftar en ekki konur í yfirgnæfandi meiri hluta, það myndi ekki bara hafa áhrif á ráðstöfunartekjur þeirra í dag, heldur hafa stigvaxandi áhrif inn í ellina þar sem væntanlega yrði ekki greitt iðgjald af útgreiddum persónuafslætti og þar með yxi bil í réttindum á ellilífeyri. Er það þó nóg fyrir.

Þá myndi þetta líka skekkja stöðu heimavinnandi maka hátekjufólks. Við erum stöðugt að reyna að draga úr hvötum til að fólk hverfi af vinnumarkaði vegna þess að hagræni hvatinn er ekki til staðar. Með frumvarpinu er lagt til að búa til hagræna hvata til þess einmitt að þessir einstaklingar, oftast konur, verði heima frekar en að vera úti á vinnumarkaði.

Við eigum hins vegar kerfi sem gætu alveg notað þessa 11,2 milljarða á skilvirkan hátt þannig að þeir skili sér til fólks sem býr við fátækt. Við eigum t.d. barnabótakerfi sem er löngu gengið sér til húðar og þarf að endurskoða frá grunni til að það komi peningunum í hendur ungs fólks, fjölskyldufólks, fólks sem er í námi og hefur litlar tekjur. Í því sambandi er hægt að benda á skýrslu sem var unnin fyrir BSRB á síðasta ári þar sem barnabótakerfið á Íslandi var borið saman við hin Norðurlöndin og þar kom í ljós að gríðarleg tækifæri eru í því að laga það kerfi. Þótt ekki væri nema broti af þeim 11,2 milljörðum, sem hér er lagt til að dreifa blindandi yfir samfélagið, yrði beint hnitmiðað að hópunum sem mest þurfa á því að halda gætum við einmitt gert þar sem ég held að við hljótum öll að vera sammála um, við gætum útrýmt fátækt. Við gætum tekið þessa 11,2 milljarða og útrýmt fátækt á einu bretti með hnitmiðaðri aðgerð. Ég er bara óskaplega hræddur um að þetta frumvarp sé ekki sú aðgerð. Ef það er raunin, ef það er niðurstaða nefndarinnar sem fær málið nú til meðhöndlunar, getum við nýtt þessa peninga betur en í gegnum það að greiða út persónuafslátt.



[16:55]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kemur mér pínulítið á óvart að hv. þingmaður telji þennan pening til 16–17 ára sem eru að hefja sinn framhaldsmenntaveg ekki vera einmitt tæki til þess að sporna við brottfalli. Tækifæri til menntunar er eitt öflugasta tækið okkar í baráttu við fátækt, að byrja á byrjuninni. Við byrjum á byrjuninni á þeim stað að fólk missi ekki af því tækifæri og þá erum við búin að stíga rosalega stórt skref í átt að því að koma í veg fyrir fátækt í framtíðinni. Þetta útilokar að sjálfsögðu ekki nein önnur úrræði. Eins og hv. þingmaður bendir á er barnabótakerfið gjörsamlega úr sér gengið og í tengslum við örorkumat og ýmislegt svoleiðis er fullt af óhagkvæmni í gangi sem væri hægt að gera ýmislegt við og kannski án þess að það kostaði meira.

Það að byrja á skilyrðislausri framfærslu kemur í veg fyrir þetta vandamál sem einkennir núverandi kerfi, fátæktargildru. Fólk er fast í því að geta ekki gert neitt því að þá missir það framfærsluna áður en það getur farið að afla sér menntunar eða atvinnutekna. Það endar í því að það dettur í láglaunastörf þar sem það fær ekki meira en það fær í almennri framfærslu í gegnum almannatryggingar eða annað slíkt. Það á tvímælalaust að byrja á skilyrðislausri framfærslu sem er ekki skert. Það að byrja á þeim stað þar sem fólk missir fyrst af tækifærinu til að losa sig úr fátækt, þegar það er að hefja menntagönguna, er tvímælalaust öflugasta tækið okkar í baráttu við fátækt í framtíðinni.



[16:57]
Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að súmmera það sem hv. þingmaður sagði niður í þrjú orð: Mennt er máttur. Við erum sammála um það. Við erum sammála um að ein besta leiðin til að næstu kynslóð vegni betur en þeirri fyrri sé að menntunarstig hennar sé sem hæst og að jafn aðgangur sé að menntakerfinu. Staðan er hins vegar ekki sú að allir 16–17 ára einstaklingar búi við skort í foreldrahúsum. Þess vegna grunar mig að skilyrðislaus framfærsla til allra þessara einstaklinga sem kostar 3 milljarða nýtist ekki jafn vel og skilyrtur stuðningur upp á sömu upphæð til þeirra einstaklinga sem glíma einmitt við fátækt og hefðu mest upp úr því að ganga menntaveginn. Þeir þurfa að fá stuðning. Það er kannski nefndarinnar að komast að því vegna þess að ekkert stendur um það í greinargerð frumvarpsins. Það er engin greining sem býr að baki þessu heldur erum við þingmaðurinn hér bara að taka þetta dálítið á innyflunum og tilfinningunni. Þetta þarf að greina ofan í kjölinn út frá mjög mörgum breytum.



[16:59]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þarna er grundvallarmunurinn einmitt á því sem er skilyrt eða skilyrðislaust varðandi ákveðið jafnræði. Getum við fundið lausn þar sem við gætum á mjög öruggan hátt sem ekki er bundinn neinum villum komið þessum fjármunum, ekki öllum 3 milljörðunum heldur bara einhverjum hluta af þeim eða kannski öllum 3, frekar á stað þar sem þeirra er virkilega þörf?

Öll kerfi eru í grunninn dálítið gölluð og það að búa til skilyrðingar býr til glufur. Þess vegna er svo mikilvægt að leggja grunninn dálítið flatan fyrir alla, óháð aðstæðum, óháð stöðu foreldra eða neinu sem tengist því. Um leið og við byrjum að búa til skilyrði byrjum við að búa til glufur sem einhverjir geta fallið ofan í. Ef við erum með grunninn góðan sem við getum síðan byggt ofan á með ákveðnum skilyrðum fellur fólk aldrei neðar en á grunninn. Það er það sem þetta snýst um þegar allt kemur til alls, að byrja a.m.k. á því að hafa stöðugan grunn. Þess vegna er þetta hugmyndafræðileg framsetning á frumvarpinu og þess vegna erum við að tala um þetta á þeim nótunum. Sá grunnur er nauðsynlegur til að gera glufurnar grynnri þegar við komum að skilyrtu úrræðunum.



[17:01]
Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Almennar og skilyrðislausar aðgerðir þurfa ekkert endilega að vera í því formi sem er í þessu frumvarpi, að rétta fólki tékka einu sinni í mánuði. Það væri t.d. hægt að taka 3 milljarða og bjóða upp á ókeypis framhaldsskóla. Það kostar dálítið að vera í framhaldsskóla, námsbækur, skráningargjöld og allt það. Það væri hægt að taka eitthvað af þessum peningi og gera leikskólann gjaldfrjálsan. Það myndi koma ungu barnafólki mjög vel. Það má hugsa sér ókeypis skólamáltíðir eða ókeypis frístundir fyrir börn. Þetta eru almennar aðgerðir sem myndu væntanlega kosta minna en 11,2 milljarða en myndu skila sér beint til einstaklinganna sem þingmaðurinn nefnir hérna.

Eins og hann sagði erum við bara að henda hugmyndum á loft. Þetta þarf að greina og 11,2 milljarðar eru peningar sem geta breytt mjög miklu. Þess vegna væri mjög leiðinlegt að setja upp kerfi sem myndi dæla út 11,2 milljörðum á ári án þess að þeir skiluðu tilsettum árangri.



[17:02]
Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Ég kem skælbrosandi í pontu, mér finnst þetta svo skemmtileg umræða. Hins vegar tóku margir eftir og nefndu í sérstöku umræðunum sem voru fyrir ekkert svo löngu að allir sáu í gegnum þessa tilraun. Við erum bara að tala um borgaralaun hérna. Þetta eru fyrstu skrefin í átt að borgaralaunum enda er neikvæði tekjuskatturinn hans Miltons Friedmans nákvæmlega sami hluturinn. Það er bara verið að gera það í gegnum skattkerfið og á öðruvísi hátt en borgaralaunin. Niðurstaðan er engu að síður sú sama og þetta er bara fyrsta skrefið í átt að því.

Nú ætla ég aðeins að skjóta á hv. þingmann í andsvari mínu. Það sem mér þykir svo áhugavert er að mér hefur fundist þeir sem eru hefðbundið vinstri sinnaðir hafa tilhneigingu til að hallast í átt að gífurlega mikilli forræðishyggju í vantrausti sínu á því að einstaklingurinn geti ákveðið sjálfur hvað honum er fyrir bestu. Þá heyrir maður fólk nefna að það sé hrætt við að við séum að gefa fólki peninga af því að peningunum væri betur varið í að bjóða upp á ókeypis framhaldsskóla eða ókeypis frístundir fyrir börn. Ég er alveg sammála því að það væri frábært að hafa ókeypis frístundir fyrir börn og ókeypis framhaldsskóla en við hérna inni vitum ekki alltaf hvað fólki er fyrir bestu. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á þetta, t.d. að þegar kemur að hjálparstarfi í fátækum löndum segi aðilar frá ríkum löndum: Hei, við skulum setja peningana í að byggja þetta upp, skóla hérna eða vatnsbrunn hérna. Svo kemur raunverulega í ljós að það sem fólkið þurfti á að halda var eitthvað allt annað. Þegar stofnanir ákveða að gefa fólki bara peninginn beint og sjá hvað það gerir gerast stórkostlegustu hlutirnir, hlutir sem engum hefði dottið í hug að gera, og allt í einu er komið heilt þorp sem er farið að þrífast af því fólkið fékk peningana í hendurnar sjálft og fékk sjálft að ákvarða í hvað það ætlaði að verja þeim. Fólkinu var treyst fyrir því að setja peningana í eitthvað sem var mikilvægt fyrir það og samfélagið allt. (Forseti hringir.) Það er það sem þetta snýst um, það er það sem borgaralaun og neikvæður tekjuskattur og persónuarður snýst um, að treysta fólki til að nýta peninginn á þann hátt sem aðstoðar það við að þrífast.



[17:05]
Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við getum náttúrlega kallað það hvað sem er, en ég held að það sé ekki forræðishyggja að vilja að fjármunir sem eiga að ganga til að uppræta fátækt nýtist til þess. (Gripið fram í.) Af þeim 11,2 milljörðum sem rynnu úr ríkissjóði, yrði þetta frumvarp að lögum, vitum við bara ekkert hvort svo yrði. Það þarf að greina.

Til að þingmaðurinn hafi ekki áhyggjur af því að ég sé að finna upp á einhverri afstöðu sjálfur vil ég benda á skýrslu sem var unnin fyrir BSRB. Samtök launafólks tala fyrir bættu barnabótakerfi, þau tala fyrir því að draga úr gjaldtöku í opinberri þjónustu og þau tala fyrir því að ríkið stigi þannig inn og styðji við þá hópa sem helst þurfa aðstoðar við. 11,2 milljarðar myndu nýtast til að græja það komplett. Þá næðum við utan um alla þá hópa sem eru taldir upp í greinargerðinni.

Þingmaðurinn kallar það forræðishyggju að hlusta á greiningar frá verkalýðshreyfingunni, (HallM: Það sagði ég ekki.) en ég kalla það bara skynsemi.



[17:06]
Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Nei, að sjálfsögðu styð ég að barnabótakerfið sé tekið í gegn og lagað enda er fáránlegt hvað bæturnar byrja að skerðast við lágar tekjur. Það þarf að laga.

Þetta er ný nálgun, þetta er ný hugsun en málið verður ekki byggt á lofti. Þetta er samtal sem er búið að eiga sér stað í hundruð ára. Margar rannsóknir hafa verið gerðar og þegar hv. þingmaður talar um að við séum að kasta 11,2 milljörðum á glæ í eitthvert verkefni sem við vitum ekki hvort muni virka má nefna að fjölmargar rannsóknir styðja við það að þetta muni skila sér til baka. Það er sparnaður í heilbrigðiskerfinu, sparnaður í félagsmálakerfinu, sparnaður í refsivörslukerfinu og eins og kollegi minn, hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, sagði áðan er þetta sparnaður í brottfalli nemenda.

Að sjálfsögðu er ég sammála því að það þurfi að greina málið, enda talaði ég um það í ræðu minni að áður en við færum af stað í einhverja svona breytingu þyrftum við að finna góða leið til að mæla árangur. Það er nokkuð sem við gerum allt of lítið af þegar við erum að prófa nýja hluti. Við breytum lögum og gerum eitthvað nýtt en svo er enginn að mæla árangurinn, ekkert er fylgst með og við vitum ekkert hvort það virkar eða ekki. Það þarf að gera, en við megum heldur ekki hika við að prófa nýja nálgun og sjá hvernig hún virkar. Ég er talsmaður þess að við stundum meiri tilraunastarfsemi þegar kemur að því að finna ný kerfi og nýjar leiðir sem þjóna hagsmunum okkar og samfélagsins betur. Mér finnst greinilegt að skilyrðingar og skerðingar í núverandi kerfi virka ekki fyrir okkur. Við sjáum það bara í fátæktinni sem þrífst hér. Við höfum ekki enn getað kippt í lag og ég legg til að við prófum eitthvað nýtt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[17:09]
Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki eitthvað sem ég finn upp hjá mér að segja að við vitum ekki hvort þessi aðgerð muni virka heldur er það bara einföld ábending um að hvergi í þessu skjali stendur hvernig þetta muni virka. Þetta hefur ekki verið greint eins og þingmaðurinn sagði. Það þarf að greina hvernig þetta nýtist til að uppræta fátækt. Það þarf að greina hvernig þetta dreifist á hópa, hvort þetta skili sér til þeirra sem þurfa.

Svo þarf að greina kynjavinkilinn, eins og ég nefndi í upphafsræðu minni, hvort þessi tilraunastarfsemi yrði til þess að halda lágtekjuhópum kvenna áfram niðri, hvort þetta myndi halda áfram utan vinnumarkaðar heimavinnandi konum sem yrðu annars á of lágum tekjum til að það myndi gagnast heimilinu. Svona mat verður að eiga sér stað áður en við tökum þetta mál til einhverrar frekari afgreiðslu og ég reikna með að nefndin geri það allt saman mjög rækilega.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.