150. löggjafarþing — 72. fundur
 12. mars 2020.
aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna veirufaraldurs, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:27]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin skilgreindi í gær útbreiðslu Covid-19 sem heimsfaraldur. Stofnunin lýsir yfir áhyggjum vegna hraðrar útbreiðslu veirunnar og sömuleiðis áhyggjum af aðgerðaleysi margra ríkja. Hún lýsti því líka yfir að það væri ekki of seint að bregðast við og draga verulega úr skaðanum.

Ég vil segja það hér í byrjun þessarar umræðu að íslensk stjórnvöld voru vel undirbúin fyrir þennan faraldur. Það er í algerum forgangi hjá heilbrigðisyfirvöldum að hefta útbreiðslu veirunnar, hlífa fólki í veikri stöðu og lágmarka þannig álag á heilbrigðiskerfið. Ég vil þakka öllu því fólki sem hefur staðið vaktina síðastliðnar vikur hjá almannavörnum, embætti landlæknis, sóttvarnalækni og Landspítalanum og öllu starfsfólki heilbrigðiskerfisins og almannavarna fyrir viðbrögð þeirra, aðgerðir og upplýsingagjöf sem ég held að við getum öll verið sammála um að hafi verið til mikillar fyrirmyndar og borið þann árangur að draga úr frekara smiti hérlendis hingað til.

Þá er einnig mikilvægt að segja hér að mér hefur þótt ánægjulegt að sjá hve almenningur almennt hefur tekið þessa stöðu alvarlega og fylgt þeim leiðbeiningum og tilmælum sem stjórnvöld hafa sett fram. Það skiptir máli hvernig við gerum hlutina og í lýðræðissamfélagi eins og okkar er upplýsingagjöf lykilatriði. Þar hafa þessir aðilar svo sannarlega staðið vaktina á milli annarra krefjandi verkefna. Það er eðlilegt nú þegar miklar blikur eru á lofti í efnahagsmálum og fólk veltir því fyrir sér bæði hvernig faraldurinn muni þróast en líka þeim áhrifum sem hann mun hafa á efnahagslífið. Stjórnvöld munu ekki hika við að beita öllum þeim úrræðum sem við eigum tiltæk, hvort sem er á sviði efnahagsmála eða heilbrigðismála, til að mæta afleiðingunum til að tryggja öryggi og velferð landsmanna allra, því að um það snýst þetta. Þar skiptir miklu máli að við séum markviss í aðgerðum okkar en líka að við gerum okkar besta til að miðla upplýsingum. Ég vil þakka hér sömuleiðis í upphafi þessarar umræðu formönnum flokkanna fyrir góðan fund áðan. Á morgun munu stjórnvöld eiga fund með aðilum vinnumarkaðarins til að fara yfir þær aðgerðir sem er nauðsynlegt að ráðast í til þess að þetta tímabundna ástand verði ekki varanlegt fyrir fjölskyldur og heimili í landinu.

Ákvörðun forseta Bandaríkjanna í gær um ferðabann frá fjölmörgum löndum Evrópu, þar á meðal frá Íslandi, er áfall sem mun hafa mikil áhrif á efnahagslífið umfram það sem áður hafði verið reiknað með. Íslensk stjórnvöld hafa þegar mótmælt þessari ákvörðun af fullum þunga og gert bandarískum stjórnvöldum grein fyrir þeim mótmælum.

Það er svo, herra forseti, að Covid-19 faraldurinn er ógn við heilsu almennings og ógn við efnahag ríkja. Þó að um tímabundið ástand sé að ræða er óvissa um það hver áhrif faraldursins verða nákvæmlega og hversu lengi þau munu vara. Nú þegar hefur hægt verulega á útbreiðslu veirunnar í Kína þar sem faraldurinn kom fyrst fram. Það eru jákvæðar fréttir en þó er ljóst að á síðustu dögum hefur svartsýni aukist verulega þó að alþjóðastofnanir og greiningaraðilar séu varfærin í spám sínum og þrátt fyrir aðgerðir ýmissa ríkja og seðlabanka um heim allan til að örva atvinnulífið og draga úr óvissunni. Síðustu fréttir gærdagsins um flugbann Bandaríkjanna frá Evrópu næstu 30 daga hafa þegar haft mikil áhrif á hlutabréfamarkaði, úrvalsvísitalan lækkaði um nærri 9% í morgun og bréf í Icelandair um 23%. Það má því segja að þessi faraldur skeki öll opin hagkerfi í heimi og Ísland er að sjálfsögðu engin undantekning enda lítið hagkerfi, opið hagkerfi og berskjaldað fyrir ytri áhrifum af þeim toga sem hér um ræðir þó að við séum vel í stakk búin og staða þjóðarbúsins sé góð til að takast á við vandann.

Neikvæð áhrif þessa faraldurs eru þegar farin að koma fram og birtast m.a. í ört minnkandi eftirspurn sem leiðir til tekjusamdráttar og rekstrarerfiðleika fyrirtækja sem þau munu þurfa að bregðast við. Minnkandi eftirspurnar er þegar farið að gæta í ferðaþjónustu og flugrekstri en hún mun koma fram víðar. Þá er enn fremur ljóst að vandkvæði kunna að hljótast af því ef aðföng til framleiðslu berast ekki. Undirbúningur stjórnvalda hefur miðað að því að gera ráð fyrir hinu versta svo að hægt sé að grípa til viðeigandi aðgerða sem létta höggið fyrir fólkið í landinu og gefa okkur viðspyrnu í efnahagslífinu.

Gjörbreyttar efnahagshorfur þýða að forsendur fjármálastefnunnar eru brostnar og vinna við endurskoðun hennar er þegar hafin og fjármálaáætlun verður að sama skapi lögð fram í maí í stað þess að vera lögð fram á næstu dögum og þá gerum við ráð fyrir að nauðsynlegar forsendur liggi fyrir.

Við þurfum, herra forseti, að horfa til bæði skammtímaviðbragða og langtímaviðbragða til að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin, annars vegar þess áfalls sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir, fordæmalaust á okkar sögulegu tímum þó að við getum lesið um ýmsa heimsfaraldra í gömlum annálum í allt annars konar samfélagi en við byggjum nú. Síðan þurfum við að leggja drög að viðbrögðum til næstu ára til þess að tryggja að við komum ekki aðeins standandi úr þessum hremmingum heldur getum brátt farið aftur að blása til sóknar eftir að við munum núna pakka í vörn.

Til að vinna gegn slakanum á næstu árum hefur ríkisstjórnin undirbúið fjárfestingarátak sem felur í sér stórauknar fjárfestingar af hálfu ríkisins til að veita örvun og viðspyrnu í efnahagslífinu. Ég legg á það þunga áherslu að slíkar fjárfestingar þurfi að vera fjölbreyttar og þær þarf að meta út frá ólíkum sjónarmiðum, annars vegar eru hinar hefðbundnu verklegu framkvæmdir á sviði samgangna og bygginga og við vitum að þar er mikil uppsöfnuð þörf. Hins vegar þurfum við að huga að fjárfestingum í tækni, hugviti, þekkingu, rannsóknum, nýsköpun, skapandi greinum, sem við vitum líka að skipta okkur máli til lengri tíma og geta haft áhrif strax. Við hlustum á það sem við erum að heyra utan úr samfélaginu, utan úr feltinu. Það skiptir máli að við fjárfestum í þessum greinum til lengri tíma til að fjölga stoðum efnahagslífsins.

Viðbrögðin til skamms tíma verða margvísleg og munu miða að því að styðja þá einstaklinga og fyrirtæki sem þurfa mest á því að halda vegna faraldursins. Það er besta og skilvirkasta kreppuinnspýtingin og ég vil ítreka það sem ég hef áður sagt hér að aðgerðir stjórnvalda vegna lífskjarasamningsins í fyrra nýtast vel nú, hvort sem það eru skattalegar aðgerðir sem munu skila almenningi auknum ráðstöfunartekjum á hárréttum tímapunkti, innspýting í félagslegt húsnæði sem skiptir svo sannarlega máli núna eða aðrar félagslegar aðgerðir sem munu skipta okkur máli til að geta tekist á við þessa kreppu.

Við kynntum á þriðjudaginn nokkrar aðgerðir til að styðja við fyrirtækin í landinu. Þar var m.a. fjallað um það hvernig við gætum rýmkað lausafjárstöðu bankanna, hvernig við gætum stutt við fyrirtækin með því að veita þeim fresti á gjalddögum til að fleyta þeim yfir þann öldugang sem nú stendur yfir, hvernig við gætum stuðlað að aðgerðum til að örva eftirspurn og einkaneyslu, markaðsátak þegar glugginn opnast og við sjáum fram á það að fólk vilji fara ferðast aftur og við vísuðum þar einnig til þess fjárfestingarátaks sem Alþingi mun eiga eftir að fjalla um og setja svip sinn á.

Ég vil líka nefna fleiri aðgerðir og þá sérstaklega lagafrumvarp sem von er á inn á þing á næstu dögum og varðar tryggingu á því að laun verði greidd til allra þeirra sem eru í sóttkví. Það lagafrumvarp byggir á samkomulagi stjórnvalda, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem kynnt var í síðustu viku og miðar að því að við munum öll leggja okkar af mörkum þannig að enginn þurfi að óttast um afkomu sína meðan hann er í sóttkví.

Ég vil vekja athygli þingheims á því að ekki eru allar þjóðir að beita því úrræði sem er sóttkví sem við höfum beitt óspart vegna þess að við erum í þeirri einstöku aðstöðu að geta haft meiri yfirsýn yfir smit hér á landi en margar aðrar stærri þjóðir sem eru ekki með jafn fáar inngönguleiðir í landið og við búum að, verandi eyja með einn alþjóðaflugvöll. En fyrir þessu var ekki gert ráð í lögum og þess vegna mun koma fram lagafrumvarp hér á næstu dögum þar sem gert er ráð fyrir því að tryggja þessar aðgerðir.

Ég gæti talað lengi enn en sé að það styttist í tímanum en ég vil segja það að markviss og traust viðbrögð skipta sköpum í aðstæðum eins og við glímum nú við. Aðgerðir stjórnvalda munu miða að því að styðja við atvinnulífið og fólkið í landinu, enda er það tengt órjúfanlegum böndum. Það skiptir máli að þær verði réttlátar og þær verði skynsamlegar og við það munum við leitast. En gerum okkur grein fyrir því sem hér erum að íslenskt samfélag stendur frammi fyrir mikilli áskorun. Það er áskorun sem er mikilvægt að við mætum í sameiningu og leggjum öll okkar af mörkum til að sigrast á henni. Þar er hlutverk okkar allra mikilvægt, bæði ríkisstjórnar en ekki síður þingsins. Við þurfum öll að sýna forystu til þess að við getum tekist á við þessa áskorun sómasamlega.

Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja það að þessar hremmingar verði tímabundnar og íslenskt samfélag standi sterkara á eftir en áður. Við þurfum sem samfélag að standa saman við þessar aðstæður og það skiptir máli að við öll sendum þau skýru skilaboð út í samfélagið. Ef við berum gæfu til þess þá hef ég ekki áhyggjur af því að okkur muni ekki lánast að gera þetta eins vel og við getum. Við vitum að þetta verður erfitt en staðan er góð, innviðirnir eru traustir. Við höfum alla möguleika á því að mæta þessari áskorun með sóma.



[14:38]
Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir opnunarinnlegg sitt í þessari umræðu. Staðan er snúin en nú skiptir mestu máli að viðbrögðin séu ákveðin, markviss og til þess fallin að skila okkur í rétta átt. Í augnablikinu held ég að óhætt sé að segja að hættumeira sé að undirskjóta en yfirskjóta hvað aðgerðir varðar. Það er mikið áhyggjuefni þegar öflugir ferðaþjónustuaðilar upplifa það sem svo að ástandið sé hættumeira núna en 11. september og eftirmálar þess atburðar á sínum tíma. Ég legg áherslu á að við erum á stað sem er býsna uggvænlegur hvað þennan hluta efnahagslífsins varðar sem er jafn stór og raunin er hér heima þar sem ferðaþjónustan á í hlut.

Það er talað um að staðan sé fordæmalaus og hún er mjög snúin, en við verðum líka að minna okkur á að við höfum oft séð það svart áður. Lykilatriðið til að ná okkur út úr snúinni stöðu hefur alltaf verið það að nálgast málið með opnum augum, leita lausna og keyra þær í gegn. Ekki vinnst mikið í núverandi stöðu á því að fresta málum. Mér finnst sem betur fer ríkisstjórnin hafa a.m.k. að hluta til bætt í í dag hvað fyrirsjáanleg viðbrögð varðar því að ég lýsti því yfir seinast í gær að mér þætti hafa farið mjög hægt af stað hvað viðbrögð hins opinbera varðar.

Við horfum fram á þríþætta þörf fyrir aðgerðir. Í fyrsta lagi eru aðgerðir sem snúa að óveðrinu sem varð í desember. Þar steig ríkisstjórnin fram 28. febrúar sl. með viðbrögð sín. Síðan eru það viðbrögðin núna vegna kórónuveirunnar og þeirra miklu áhrifa sem hún hefur á ferðaþjónustuna. Loks er atriði sem við megum ekki gleyma og mér þykir hafa fallið milli skips og bryggju undanfarna daga og vikur í umræðunni, hin almenna kólnun hagkerfisins sem hefur blasað við frá seinni parti síðasta árs. Í þeim efnum verður ekki beðið miklu lengur með að taka meðvitaðar ákvarðanir um innspýtingu sem þarf að eiga sér stað, bæði hvað varðar innviðauppbyggingu og það að stíga til baka hvað hina miklu sókn hins opinbera varðar í skatta og gjöld af atvinnulífinu. Ég ætla ekki að tala um að veita súrefni inn í atvinnulífið heldur verður ríkið núna að taka minna af því sem atvinnulífið skapar en verið hefur undanfarið.

Hvað varðar fyrstu tvo þættina sem ég nefndi, óveðrið í desember og kórónuveiruna, má segja að ríkisstjórnin sé búin að sýna á fyrstu spilin en hefur jafnframt flaggað því að töluvert sé eftir sem passar við þann tón sem hefur borist frá atvinnulífinu síðustu daga, að það hefði verið gott merki að ríkisstjórnin ætlaði að stíga inn. Það þótti þó mjög óútfært sem þar var sagt frá.

Það sem ég nefndi áðan er í rauninni tvíþætt núna sem við stöndum fyrir af bráðaaðgerðum. Annars vegar eru þau atriði sem snúa að minni skattheimtu og því að skilja meira af súrefninu eftir í atvinnulífinu. Þar höfum við í Miðflokknum lagt til að gistanáttagjaldið verði varanlega lagt af og ríkisstjórnin hefur nú stigið inn og tilkynnt að það verði gert, a.m.k. tímabundið til að byrja með.

Ég tel skynsamlegt að við skoðum það að færa ferðaþjónustuna aftur niður í lægra virðisaukaskattsþrepið þar sem hún var áður.

Við í Miðflokknum höfum lagt það til að viðbótarlækkun á tryggingagjaldinu sem nemur heilu prósentustigi verði keyrð í gegnum kerfið núna strax. Prósentustig í tryggingagjaldinu liggur á milli 15 og 20 milljarða þannig að sú aðgerð ein mun skilja eftir, ef við miðum við frá og með nokkurn veginn núna og til ársloka, sennilega 10–12 milljarða í atvinnulífinu sem ekki er vanþörf á núna.

Við viljum jafnframt nefna að það verður að útfæra leið að því að fyrirtæki geti haldið fólki í vinnu í meira mæli en nú stefnir í. Stór og öflug fyrirtæki sjá fram á miklar uppsagnir á næstu dögum og vikum. Fyrir kerfið í heild, svo ég leyfi mér að nota það vonda hugtak, er miklu mikilvægara að fólk haldist við störf þannig að fyrirtækin séu tilbúin að komast á almennilega ferð eftir að birtir til en að fólk lendi af fullum þunga á atvinnuleysisskrá og þurfi einhvern veginn að byrja á hálfgerðum núllpunkti að vinna sig inn í kerfið aftur. Ég held að töluverðu sé til fórnandi að fjárfesta í því að halda uppi atvinnustigi á næstu vikum og mánuðum.

Atriði sem koma til eru frestanir gjalddaga enda eru staðgreiðslur strax á mánudaginn, svo dæmi sé tekið. Fleiri slíkir þættir myndu sýna að stjórnvöld væru komin á tærnar og ætluðu að taka á ástandinu. Við verðum líka að nálgast það þannig að það sé tímabundið. Við verðum að horfa á það þannig að aðgerðir sem við grípum til núna séu til þess ætlaðar að atvinnulífið í heild sinni og ferðaþjónustan sérstaklega verði tekju- og atvinnuskapandi þegar birtir til. Það er gríðarlega verðmætt.

Hinn bráðaþátturinn sem ég vil nefna líka er innspýting í innviðauppbyggingu, fjárfestingar hins opinbera. Við í Miðflokknum höfum lagt til að farið verði í 150 milljarða skuldsettan framkvæmdapakka á næstu þremur árum sem er raunveruleg innspýting sem mun skipta máli. Það þarf að senda þessi merki fljótt. Það þýðir ekki að mínu mati að senda þessi merki í sumarbyrjun eða jafnvel síðar, það þarf að komast af stað með verk í útboðum og þar fram eftir götunum hið fyrsta þannig að menn geti nýtt sumarið vel og upplifað það að aðgerðirnar skili inn súrefni, bæði hvað varðar það að ríkið stígi til baka með skattheimtu og hins vegar með þessari beinu innspýtingu í framkvæmdir.

Eins og ég segi þurfum við að tryggja að atvinnulífið og þá ferðaþjónustan sérstaklega verði í eins þokkalegri stöðu og mögulegt er þegar þessi veiruáhrif víkja. Við megum þó á sama tíma ekki gleyma öðrum þáttum efnahagslífsins. Við höfum orðið fyrir til að mynda loðnubresti tvö ár í röð sem hefur veruleg áhrif á þeim svæðum þar sem slík vinnsla er stunduð og veiðar. Við horfum upp á kólnun atvinnulífsins í heild sinni, ekki bara út af kórónuveirunni eða aðgerðum Bandaríkjaforseta í nótt. Við því verðum við að bregðast og í allri umræðunni um stuðning vegna launagreiðslna til fólks í sóttkví vegna kórónuveirunnar hefur lítið verið fjallað um hagsmuni og þarfir einyrkja og smærri fyrirtækja almennt. Ég vil bara halda því til haga hérna að við pössum upp á þessa hópa sem eru kjarnahópar þegar allt er talið saman í íslensku atvinnulífi. Þessa hópa þurfum við að passa sérstaklega þó að auðvitað sé mikilvægt að líta til með kerfislega mikilvægum fyrirtækjum. Enginn efast um að aðgengi þeirra að ríkisstjórn og stjórnsýslu er miklu bærilegra en einyrkjanna, þeirra sem missa tekjustreymið niður hér um bil innan dagsins þegar ástand eins og þetta skapast.



[14:46]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við glímum ekki aðeins við afleiðingar Covid-19 á heilsu fólks og efnahag heldur glímum við einnig við niðursveiflu í hagkerfinu sem faraldurinn gerir svo enn dýpri. Í þessari stöðu verðum við að verja velferðarkerfið, vinna gegn atvinnuleysi og styðja við atvinnulífið og rekstur heimila í landinu. Við verðum að hafa augun á heildarmyndinni og grípa til nauðsynlegra aðgerða strax en leggja um leið línurnar til lengri tíma. Það er afar mikilvægt að tryggja áframhaldandi rekstur fyrirtækja og vinna gegn frekara atvinnuleysi eins og hægt er. Málið varðar atvinnu og afkomu fólks og fyrirtækja. Það er því algjört grundvallaratriði að heildarsamtök á vinnumarkaði komi að ákvörðunum stjórnvalda og samráð við sveitarfélög er nauðsynlegt.

Við í Samfylkingunni erum tilbúin til samstarfs og viljum hafa áhrif á ákvarðanir ríkisstjórnarinnar. Við þurfum að vanda okkur en vera jafnframt fljót að hugsa. Við eigum ekki að gera hvað sem er heldur það sem er rétt, gott og æskilegt í þessari stöðu. Við eigum að flýta þeim aðgerðum sem við þurfum hvort sem er að fara í, svo sem þeim sem vinna gegn hamfarahlýnun og undirbúa okkur fyrir tæknibyltinguna sem þegar er hafin, byggja fleiri almennar íbúðir og mæta húsnæðisvanda og háu leiguverði.

Við í Samfylkingunni leggjum áherslu á að tryggingagjald verði lækkað og þar verði horft sérstaklega til smærri fyrirtækja sem fyrirsjáanlegt er að verði verst úti. Frestun á greiðslu virðisaukaskatts kemur einnig til greina, að bankarnir sýni skilning og sveigjanleika og keyri ekki fyrirtæki í þrot á meðan faraldurinn gengur yfir. Bankar þurfa að hafa getu til að koma til móts við fyrirtæki, svo sem með skammtímalánum eða greiðslufrestun. Þegar framkvæmdir í samgöngum eru ákveðnar þá skiptir máli að velja mannaflsfrekar framkvæmdir líkt og brúargerð. Verkefnin þar eru næg með allar einbreiðu brýrnar og þær stærri sem bíða. Einnig ætti að flýta framkvæmdum sem vinna gegn loftslagsvanda, svo sem vinnu við borgarlínu og þeim sem auðvelda orkuskipti í samgöngum og búa til hvata fyrir fyrirtæki til að ráðast í grænar fjárfestingar.

Það verður að meta áhrif aðgerða á mismunandi hópa samfélagsins og á kynin. Gamla leiðin er að ríkið mæti kreppu með nýjum karlastörfum en það eru ekki bara karlar sem eru atvinnulausir eða verða atvinnulausir á næstunni. Atvinnuleysi hefur farið hratt vaxandi og nú eru rétt um 10.000 manns atvinnulausir. 3.900 hafa verið án vinnu í sex mánuði eða lengur og um 1.800 manns lengur en í 12 mánuði. Fleiri konur en karlar búa við langtímaatvinnuleysi og atvinnuleysisbætur eru í sögulegu lágmarki miðað við lægstu laun. Konur eru fjölmennari en karlar í þjónustustörfum og líklegt er að í ástandinu muni einkaneysla skreppa saman og þá um leið fækkar störfum í þjónustugeiranum. Fjölgun starfa í vegagerð og byggingarframkvæmdum mun því ekki duga ein og sér.

Á meðan faraldurinn gengur yfir verður fjölmennum viðburðum frestað. Tilkynningar um frestun árshátíða, tónleika og annarra skemmtana eru nú þegar farnar að berast. Þau sem vinna á þessum sviðum verða af tekjum en eru oft ekki í þeirri stöðu að ganga að sjúkrasjóðum eða öðrum sjóðum vísum. Sjálfstætt starfandi fólk á ýmsum sviðum missir vinnu vegna minni eftirspurnar eða missir vinnu vegna veikinda eða einangrunar. Til að leysa þennan tímabundna vanda ætti að setja á stofn sjóð sem sækja mætti í til að tryggja afkomu þessa hóps sem annars stendur berskjaldaður.

Ferðaþjónustan, atvinnugrein sem hefur vaxið með ósjálfbærum hraða hér á landi, mun finna illilega fyrir ástandinu. Fyrirséð er að einhverjar fjárfestingar sem ráðist hefur verið í muni ekki borga sig og nú súpum seyðið af því hversu værukær stjórnvöld hafa verið í atvinnumálum undanfarin ár. Ferðaþjónustan er stoð í atvinnulífinu sem þolir ekki mikla ágjöf. Því er mikilvægt að stjórnvöld finni leiðir til að renna fleiri og sterkari stoðum undir atvinnulífið.

Stórauka þarf fjármagn til nýsköpunar og til að hlúa að sprotum í atvinnulífinu sem eru líklegir til að vaxa vel. Fjármagn til skólanna og símenntunar þarf einnig að auka myndarlega og gefa fólki tækifæri til að styrkja stöðu sína og nýta hæfileika og starfskrafta með nýjum hætti ef núverandi atvinna glatast. Síðast en ekki síst verður að skapa heilbrigðiskerfinu strax svigrúm til að bregðast við fordæmalausri stöðu. Á meðan við siglum þennan ólgusjó er mikilvægt að við leggjumst öll á árarnar en við verðum að hafa hraðar hendur og gera niðursveifluna eins sársaukalitla og stutta og mögulegt er.



[14:51]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við megum þakka fyrir það þegar við verðum fyrir áfalli eins og því sem nú dynur á okkur að hafa búið í haginn þegar við lifðum betri tíma. Við höfum notað undanfarin ár til að gera upp skuldir, bæta stöðu okkar gagnvart útlöndum, safna í forða, gjaldeyrisforða, og við höfum í mörg ár skilað miklum afgangi. Allt þetta kemur okkur mjög til góða þegar við stöndum nú frammi fyrir krefjandi aðstæðum. Af hálfu Seðlabanka Íslands var því lýst þannig í gær að við hefðum líklega aldrei í sögunni verið jafn vel undir það búin að takast á við efnahagslegar þrengingar eins og á við í dag. Samtök atvinnulífsins hafa sömuleiðis lýst yfir ánægju með áform stjórnvalda þegar kemur að því að leysa þann skammtímavanda sem við stöndum frammi fyrir. Vissulega hefur ekki öllu verið svarað um þær aðgerðir en mikilvægast af öllu er að segja strax í upphafi: Við munum ekki sitja með hendur í skauti, við munum stíga fram, við ætlum að mæta fyrirtækjum, við ætlum að bjarga því sem bjargað verður og við erum tilbúin til að ganga langt til að gera einmitt það. Við ætlum að nýta þá stöðu sem við höfum skapað okkur til þess að gera einmitt það. Mál munu koma inn í þingið eftir því sem aðstæður leyfa, þ.e. nauðsynlegur undirbúningstími þarf auðvitað að eiga sér stað eða nauðsynlegur aðdragandi. Við stefnum að því að koma miklu í verk í þessum mánuði.

Mér finnst mjög mikilvægt að halda því skýrt til haga að við erum hér fyrst og fremst að fást við tvíþættan vanda sem við stöndum frammi fyrir. Ég vil setja heilbrigðisvandann í fyrsta sæti. Við stöndum frammi fyrir þeirri ógn að sú staða geti skapast, ef við náum ekki að stilla nægilega vel saman strengi hér innan lands með samhentu átaki allra, að þolmörk heilbrigðiskerfisins ráði ekki við stöðuna. Það er það versta sem getur gerst. Það er undir okkur sjálfum komið að verulegu leyti hvernig úr því spilast. Við sjáum það frá öðrum löndum að með markvissum aðgerðum er hægt að hafa veruleg áhrif á útbreiðsluhraða þessarar veiru sem smitast mjög ört milli manna. Þetta er algjört grundvallaratriði og verður að koma fremst vegna þess að þarna er um að ræða ógn við heilsu landsmanna. Hingað til hefur það gengið ágætlega. Það er ekki hægt að halda öðru fram en að okkar færasta fólk hafi staðið sig til fyrirmyndar vel í brúnni á erfiðum tímum. Það eru ekki margar vikur síðan málið var ekki einu sinni á dagskrá hér í þinginu eða í þjóðfélaginu. En þetta er staðan í dag og það er ástæða til að hrósa þeim sem hafa farið fyrir aðgerðum til þess að leiðbeina landsmönnum um það hvernig við getum lágmarkað hættuna á því ástandi, sem ég var hér að lýsa að við viljum forðast og aðrar þjóðir eru því miður að fást við með hrikalegum afleiðingum.

Síðan eru það skammtímaefnahagsaðgerðir. Við erum á árinu 2020 að sjá skell. Við trúum því að þetta verði tímabundið ástand. Það getur hins vegar enginn sagt hversu langur tíminn verður. Það er ekkert loforð þarna úti um að eftir að við höfum náð tökum á útbreiðslu veirunnar muni ferðafólk strax taka að streyma til Íslands. Þessu hefur enginn lofað. Við getum ekkert gengið út frá því í okkar áætlunum. En við verðum einfaldlega gera okkar besta og á meðan þetta ástand varir þá þurfum við að hjálpa fyrirtækjum í gegnum erfiðan tíma með því að veita lausafjárfyrirgreiðslu. Það mun ríkissjóður gera eftir öllum mögulegum leiðum. En það eru ekki auðveldar ákvarðanir sem þingið þarf að taka í þessu efni. Ég get tekið sem dæmi að það eru tugir milljarða á gjalddaga á mánudaginn. Tugir milljarða. Á að veita hlutfallslegan afslátt? Á að setja þak á greiðslufrestinn, þ.e. á það sem má fresta greiðslum á o.s.frv.? Þetta eru ákvarðanir sem við erum að taka til skoðunar í dag og munum leggja fyrir þingið, vonandi á morgun á þingfundi, til umræðu og vonandi til afgreiðslu. Það er dæmi um stóra ákvörðun sem við höfum ekki mikinn tíma til að hugsa um en verðum að bregðast við.

Sömuleiðis verður fjármálakerfið að sinna sínu hlutverki. Við ætlum fjármálakerfinu að sinna fyrirtækjum og heimilum við þessar aðstæður. Nú þegar sjáum við að Seðlabankinn er byrjaður að hreyfa sig. Við sjáum lægstu vexti í sögunni. Það skiptir máli. Það dugar ekki sem einstök aðgerð til að leysa hvers manns vanda. En það skiptir verulega miklu máli vegna þess að það veitir ákveðið svigrúm og súrefni. Sömuleiðis munu aðgerðir sem snúa að fjármálaeftirlitshlutverki Seðlabankans geta skipt máli eins og fram hefur komið í umræðunni og mun áfram verða til umræðu af hálfu bankanna eftir því hvernig úr spilast. Þar erum við augljóslega að ræða um það að bönkunum sé betur gert kleift að sinna hlutverki sínu í þessu efni, að greiða fyrir frestun gjalddaga, frekari lánafyrirgreiðslu o.s.frv. Í mjög einföldu máli þá gengur ekki á sama tíma að það sé rekin mjög aðhaldssöm stefna gagnvart fjármálakerfinu þegar þessar aðstæður hafa skapast. Við höfum verið að gera kröfu um söfnun í forða hjá bankakerfinu á undanförnum árum vegna þess að við höfum verið að fara í gegnum góðæri. Nú koma erfiðari tímar og þá hljótum við að þurfa aðeins að gefa lausari tauminn fyrir fjármálakerfið án þess að fara fram úr okkur.

Þetta verður gríðarlega mikilvægt tímabil. Ég ætla að lýsa því yfir hér að ég hef trú á því að mestu mistökin sem við gætum gert hér í þinginu væru að ganga allt of skammt. Það væri betra fyrir okkur að nýta þá góðu stöðu sem við búum yfir til að gera rétt rúmlega það sem þarf vegna þess að sameiginlega tjónið af því að gera of lítið of seint getur orðið miklu meira en tilkostnaðurinn af því að gera aðeins of mikið.

Þetta vildi ég segja um efnahagslega þáttinn sem við stöndum frammi fyrir nú til skamms tíma, í nærtímanum. Síðan í þriðja lagi, sem hefur verið komið inn á í dag, verðum við um leið að hafa getu til að horfa aðeins lengra inn í framtíðina. Ég vil þakka fyrir það að mér heyrist vera góður skilningur á því í þinginu að ríkisstjórnin hefur að minni tillögu ákveðið að slá á frest framlagningu fjármálaáætlunar og taka fjármálastefnuna til endurskoðunar. Mér sýnist að það sé góður skilningur á þessu í þinginu. En það þýðir ekki að verkið verði eitthvað léttara fyrir það að við fáum meiri tíma heldur verðum við að nýta tímann vel og komast að góðri og skynsamlegri niðurstöðu til að viðhalda trúverðugleikanum í opinberum fjármálum við breyttar aðstæður. Það felur m.a. í sér að við teflum fram áætlun sem sýnir hvernig við komumst út úr þessari stöðu sem fyrst þannig að við nýtum þá góðu viðspyrnu sem við höfum í dag í lægri skuldastöðu, í mikilli landsframleiðslu í öllum alþjóðlegum samanburði, til þess að nota komandi ár til sóknar. Og já, ég er sammála þegar menn segja að það hljóti að felast í því að fara í fjárfestingarátak.

Þegar maður horfir svona á stöðuna og trúir því að okkur takist hér á þinginu og annars staðar í stjórnkerfinu að taka réttar ákvarðanir til að fást við þá skammtímaniðursveiflu sem við stöndum frammi fyrir þá er engin ástæða til annars en að vera bjartsýn á þann tíma sem þá tekur við. Það eru augljóslega allar aðstæður til þess að ferðaþjónusta á Íslandi geti að nýju blómstrað, augljóslega. En hvaða tíma það tekur er ekki gott að segja í dag og við þurfum að sýna hvert öðru þolinmæði hvað það snertir að hingað til þingsins getum við eingöngu látið frá okkur fara bestu upplýsingar á hverjum tíma og eins og sakir standa hafa þær haft tilhneigingu til að breytast nánast frá degi til dags. Upplýsingar frá því í síðustu viku, um mögulegar sviðsmyndir út árið 2020, eru einfaldlega úreltar í dag. Og það kann að vera að sviðsmyndirnar haldi áfram að breytast með þeim hætti. Við þurfum að sýna þolinmæði til að lifa við þær aðstæður og taka engu að síður ákvarðanir eftir því sem aðstæður krefjast þegar útsýnið er jafn lítið og ég er hér að lýsa.



[15:01]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Við lifum á miklum óvissutímum sem krefjast þess af okkur öllum að standa saman og hugsa vel hvert um annað. Við í þingflokki Pírata munum svo sannarlega ekki láta okkar eftir liggja. Við munum róa öllum árum að því að styðja ríkisstjórnina í góðum verkum og bjóða fram aðstoð og lausnir við aðsteðjandi vanda í efnahagslífinu sem og samfélaginu í heild. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur fyrir að flytja okkur þessa skýrslu. Ég leyfi mér að taka hana á orðinu þegar hún tjáði okkur fyrr í dag að hún væri opin fyrir framlagi okkar, vilji heyra hugmyndir okkar, enda gildi einu hvaðan gott komi. Ég vona líka að hæstv. forsætisráðherra taki því jafn vel þegar okkur finnst ríkisstjórnin vera á rangri leið og hlusti þegar við í minni hlutanum sinnum mikilvægu aðhaldshlutverki okkar gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Forseti. Ríkisstjórnin hefur tilkynnt að aukinn kraftur verði settur í framkvæmdir á vegum opinberra aðila á yfirstandandi ári og þeim næstu og því fagna ég. Við hljótum að vilja fjárfesta í framkvæmdum sem búa okkur undir framtíðina samhliða því að bæta lífsgæði okkar allra. Hér er ég að tala um fjárfestingu í grænum innviðum, fjárfestingu í heilbrigðiskerfinu og fjárfestingu í hugviti og nýsköpun sem nýtist okkur til framtíðar. Við leggjum til að ríkisstjórnin flýti framkvæmdum við byggingu nýs Landspítala til að efla atvinnustig í landinu og til að við séum betur búin undir hættur sem þessar í framtíðinni. Við leggjum til að ríkisstjórnin fjárfesti í heilbrigðisstarfsfólkinu okkar sem sýnir það og sannar á hverjum degi að þau eru ómissandi hlekkur í samfélaginu. Við leggjum til að ríkisstjórnin fjárfesti í umhverfisvænni sprotastarfsemi sem eykur matvælaöryggi, bætir orkunýtingu og endurvinnslu og stuðlar að sköpun hringrásarhagkerfis sem vex í takt við náttúruna. Við leggjum til að við fjárfestum í fólkinu okkar og framtíð þess með afgerandi hætti. Og við munum leggjast gegn því af öllum krafti, standi til að þessi staða verði notuð til að skera niður í félagslegum innviðum á altari brauðmolakenningarinnar.

Forseti. Ríkisstjórnin hefur tilkynnt að forsendur fjármálastefnu séu brostnar. Í ljósi fyrirséðs samdráttar í hagkerfinu er einnig einsýnt að þær forsendur sem ríkisstjórnin gefur sér fyrir því að drífa sig í að selja Íslandsbanka hafa líka brostið. Ég kalla eftir því að ríkisstjórnin snúi frá þeim fyrirætlunum sínum og leiti frekar leiða til þess að nýta bankana í eigu ríkisins til að verja hagkerfið og fjárfesta í fólkinu sem það byggir.

Virðulegi forseti. Á tímum sem þessum eru margir uggandi um heilsu sína og framtíð og skiljanlegt að um sig grípi kvíði, jafnvel ótti, um afdrif okkar og fólksins sem okkur þykir vænt um. Ég er ekki hingað komin til að halda því fram að það sé ekkert að óttast, enda er það ekki satt. Það er eðlilegt að hafa áhyggjur og það er eðlilegt að óttast þá heilsufarsvá sem nú gengur yfir heimsbyggðina. Öll erum við jú mannleg og það er mannlegt og eðlilegt að óttast um líf sitt og sinna og leita allra leiða til að lifa af. Á tímum sem þessum er mannlegt og eðlilegt að vilja beita öllum tiltækum ráðum til að verja sig og sína og ekki seinna en strax. Vissulega liggur á að bregðast við hratt og örugglega en við skulum ekki gleyma hvað við erum að verja. Við erum að verja fólkið okkar og við erum að verja samfélagið okkar og til þess verðum við að verja lýðræðið okkar. Lýðræðið er í mestri hættu þegar vá stendur fyrir dyrum og ákall er um afgerandi og afdrifaríkar aðgerðir af hálfu stjórnvalda.

Ég vil því hvetja hæstv. forsætisráðherra til að hafa þessi sjónarmið í huga nú þar sem strax er farið að örla á því að gefa eigi óþarfaafslátt af lýðræðinu og réttarríkinu í ljósi aðstæðna. Hér er ég að vísa í lagafrumvarp sem mæla á fyrir síðar í dag sem gefur hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra heimild til að aftengja lög um sveitarstjórnir eins og þau leggja sig án þess að fyrir því liggi ásættanleg rök né nauðsynlegar takmarkanir.

Virðulegi forseti. Við viljum að stjórnvöld geti tekið nauðsynlegar ákvarðanir og farið í hnitmiðaðar aðgerðir til að bregðast við neyð en við viljum líka að réttindi okkar sem borgara í lýðræðislegu samfélagi séu virt. Þess vegna megum við ekki láta óttann stjórna okkur né villa okkur sýn. Leyfum honum frekar að vera okkur drifkraftur til að þora að takast á við vandann á yfirvegaðan og framsækinn hátt. Þorum að hugsa stórt og þorum að grípa til aðgerða sem hagnast samfélaginu í heild til langrar framtíðar.



[15:07]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og hæstv. forsætisráðherra fyrir að fara hér yfir stöðuna og boðaðar aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum. Það hefur komið mjög vel fram í umræðunni að heilbrigðiskerfið hefur skiljanlega verið í algjörum forgangi aðgerða og verður áfram meðan þetta gengur yfir. Eins og margir aðrir vil ég nota tækifærið til að þakka heilbrigðiskerfinu í heild, yfirvöldum og þeim aðilum sem bera ábyrgð á þessum þætti, hæstv. heilbrigðisráðherra, sóttvarnalækni, landlækni og fulltrúa almannavarna, sér í lagi í því teymi sem hefur birst okkur daglega með miðlun upplýsinga um ástandið, smitþróun, viðbrögð, áætlanir og mikilvæga þætti sem snúa að okkur öllum og hjálpar okkur öllum að hugsa um náungann. Það er til fyrirmyndar hvernig að þessu hefur verið staðið og hvernig upplýsingum hefur verið komið á framfæri. Nú þegar við erum óhjákvæmilega að ræða stöðuna, efnahagslegar afleiðingar og hvernig við bregðumst þar við getum við lært af þessu hversu mikilvægt það er að miðla upplýsingum og koma þeim stöðugt á framfæri af öryggi og festu.

Hæstv. ríkisstjórn hefur þegar boðað fjölmargar aðgerðir sem hægt er að fara í strax á tekjuhlið ríkisfjármála, með peningamál á hendi Seðlabankans og átt samráð við Samtök fjármálafyrirtækja sem hafa með bankana að gera. Þetta eru allt aðgerðir sem er hægt að fara í strax og mjög mikilvægt að koma á framfæri nú þegar. Þetta eru helst aðgerðir sem leggja áherslu á að halda atvinnulífinu gangandi og verja þær grunnstoðir sem mynda hagkerfið, sem er auðvitað heimilin og fyrirtækin. Allar aðgerðir hljóta og verða að miða að því að gefa þeim færi á að halda sér gangandi. Enginn dregur dul á að þetta verður ekki auðvelt. Þetta er skafl sem við verðum að vaða í gegnum samstiga og það mun mynda högg á hagkerfið, fyrirtækin og heimilin. Þriðja stoðin, hið opinbera, ríki og sveitarfélög, getur með aðgerðum sem þessum mildað höggið. Ég held að við verðum að horfa þannig á þetta og trúa að höggið verði skammvinnt. Við höfum gert ýmislegt á undanförnum misserum til að mæta því sem við köllum sveiflu í efnahagslífinu. Þar má nefna framlag stjórnvalda til að lenda kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Þetta eru 80 milljarðar sem samanstanda af tekjuskattslækkun, húsnæðisaðgerðum, barnabótum, bótum í fæðingarorlofi og fleira. Þetta hefur sitthvað að segja.

Fyrir rúmri viku kynnti hæstv. stjórn líka pakka til að mæta þeim veikleikum í innviðum okkar sem birtust okkur í óveðrinu í desember. Allt þetta hefur sitt að segja. Við rákum ríkissjóð inn á þetta ár með 10 milljarða halla. Allt þetta eru aðgerðir til að mæta sveiflu í efnahagslífinu. Við erum ekki á þeim stað núna, við erum ekki að horfast í augu við þessa stöðu. Þetta er fordæmalaus staða, og miklu stærra og meira sem við förum í gegnum — en það er skammvinnt. Það vill til að við erum með drjúgan gjaldeyrisvaraforða. Við höfum búið í haginn og við getum gert mjög mikið. Við erum í stöðu til þess.

Ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra. Það eru til dæmi úr sögunni þar sem það er mjög mikilvægt að gera meira en minna við svona kringumstæður. Ég hvet líka hæstv. ríkisstjórn til að haga málum með sama hætti og gert hefur verið þegar kemur að heilbrigðisþættinum. Þetta eru tveir þættir sem við verðum að hafa í algjörum forgangi nú um stundir og miðla upplýsingum eins reglubundið og mögulegt er og aðgerðum vindur fram á sviði efnahagsmála. Við verðum að gera það af sama öryggi og festu og við eigum að hafa umburðarlyndi fyrir því að fyrsti upplýsingafundur hæstv. ríkisstjórnar í þessum boðuðu aðgerðum hafi verið meira rammi og ekki nákvæm útfærsla en við fáum þó mjög fljótlega að sjá í þinginu útfærðar tillögur sem snúa að þeim aðgerðum sem boðaðar voru.

Það er mjög mikilvægt að við miðlum upplýsingum um það hvað verið er að gera hverju sinni. Það dregur úr óvissu. Óvissa við þessar aðstæður verður alltaf mikil en það dregur úr óvissu og við hættum að tapa huganum í einhverja heildarmynd sem enginn sér inn í heldur höldum athyglinni á því sem við getum gert og erum að gera.

Myndum þannig samstöðu að allar aðgerðir verji stöðu fyrirtækja og heimila og mildum höggið með þeim aðgerðum. Ég styð allar þær aðgerðir sem hafa verið boðaðar og eru allar skynsamlegar. Ég skal þó viðurkenna að ég sé jafnframt fyrir mér þegar á líður að ekki þurfi að bíða mjög lengi með tillögur á útgjaldahlið ríkisfjármála. Það má koma með viðspyrnupakka og innspýtingu á þá hlið í fjáraukaformi. Ekkert í lögunum segir að fjáraukinn þurfi að bíða fram á haust, að það þurfi bara að vera einn fjárauki, og af því að það hefur verið í umræðunni að koma með fjárfestingarviðspyrnu hvet ég hæstv. ríkisstjórn til að koma sem fyrst með slíka pakka, miðla upplýsingum um þá og koma með þá inn í þingið. Við tökum við þeim hér og vinnum úr þeim öll sem einn maður. Ég er alveg fullviss um það.

Eins og ég segi hafa skynsamlegar tillögur verið nefndar í fyrstu atrennu og við munum sjá nánari útfærslu á þeim. Við höfum þegar séð vaxtalækkun hjá Seðlabankanum, séð dregið úr bindiskyldu og séð boðaðar aðgerðir varðandi sveiflujöfnunarauka sem auka lausafé í bönkunum til að gefa súrefni þeim fyrirtækjum sem lenda í vanda. Svo eru aðgerðir á tekjuhlið ríkisfjármálanna.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að við höfum í huga og trúum því að þetta sé skammvinnt ástand sem kostar átak. Við stöndum efnahagslega vel og erum með sterkt heilbrigðiskerfi. Enginn fer í grafgötur með að þetta verður ekki auðvelt en við munum samstiga gera það sem gera þarf og meira en minna. Við eigum að hugsa allar ákvarðanir með hag heildarinnar og með réttlæti og skynsemi að leiðarljósi. Ég legg áherslu á það hér að óvissa veldur alltaf ákveðnu óöryggi. Allt sem dregur úr óvissu — og þar er upplýsingamiðlunin mjög mikilvæg og hvernig upplýsingum er komið á framfæri — hjálpar okkur öllum að halda okkur að verki. Það veitir ákveðna hugarró. Einstaklingur kann að missa sig í óviðráðanlegri heildarmynd en í heild ryðjum við þessum hindrunum úr vegi. Hver og einn þarf á því að halda að finna sig í sínu hlutverki og ég hvet hæstv. ríkisstjórn til að huga að þessu, halda áfram eins og hingað til með heilbrigði í forgangi og daglega miðlun upplýsinga og viðbragða. Þegar kemur að viðbrögðum á efnahagshliðinni þarf að sama skapi að upplýsa reglubundið og markvisst um allar þær aðgerðir sem við förum í og í því gildir meira en minna.



[15:16]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu. Hún er mikilvæg, það er mikilvægt að þingið komi strax að mögulegum efnahagsaðgerðum þegar svo fordæmalaust áfall skellur á hagkerfinu okkar eins og við stöndum núna frammi fyrir. Það er rétt að byrja á að hrósa stjórnvöldum og heilbrigðisyfirvöldum fyrir það hvernig tekið hefur verið á stærsta málinu í þessu, þeirri heilbrigðisvá sem blasir við okkur. Það er mjög hughreystandi að sjá hvernig okkar færustu sérfræðingar upplýsa þjóðina frá degi til dags, fræða okkur um það hvernig okkur beri að hegða okkur, hvernig við getum brugðist við, lágmarkað hættu á smiti og hjálpað heilbrigðiskerfinu að takast á við þennan vanda. Þetta er mjög traustvekjandi og verður ekki hrósað nægilega vel. Það er auðvitað mikilvægt að við hlítum öll þeim fyrirmælum sem veitt eru frá degi til dags.

Þegar kemur að efnahagsmálunum verðum við að horfast í augu við það að við vitum ekki frekar en aðrar þjóðir hvað er fram undan. Þetta er óvenjuleg staða vegna þeirrar miklu óvissu sem henni fylgir og afskaplega erfitt að segja til um hvað næstu vikur og mánuðir muni bera í skauti sér. Það gerir það svo mikilvægt að stjórnvöld dragi með efnahagsráðstöfunum sínum eins og unnt er úr þeirri óvissu sem fram undan er, geri fyrirtækjum og almenningi eins ljóst og skýrt og hægt er til hvaða ráðstafana verði gripið og til hvaða ráðstafana sé unnt að grípa til að draga úr þessu höggi.

Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er tvíþættur. Við erum að glíma við langvarandi niðursveiflu. Þessi efnahagsniðursveifla hófst fyrir rúmu ári og henni hefur því miður ekki verið mætt af nægjanlegri festu af þessari ríkisstjórn sem magnar upp áhrifin á atvinnulífið ofan í niðursveifluna. Við megum ekki gleyma því að ferðaþjónustan er búin að vera í mjög hörðu árferði í rúmt ár, sennilega eitt og hálft ár. Það gerir henni erfiðara en ella að takast á við það mikla högg sem kemur núna. Þess vegna þurfa viðbrögðin að vera skýr, afgerandi og fumlaus. Það er það sem ég sakna enn í yfirlýsingum stjórnvalda. Það vantar skýrleika. Hvað verður gert? Það er hughreystandi að heyra hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra tala um að við munum gera það sem þarf, en á allra næstu dögum þarf að skýrast nákvæmlega hvað felst í því.

Ég vek athygli á þeim mikla mun sem felst annars vegar í blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar á þriðjudaginn sem var harla innstæðulítill, því miður, mjög óskýr um aðgerðir, og hins vegar yfirlýsingu fjármálaráðherra Breta fyrir þingi í gær sem lagði fram mjög skýrar, tölusettar aðgerðir sem ríkisstjórn Bretlands hyggst ráðast í upp á 30 milljarða punda. Það samsvarar, ef við umreiknum það á höfðatölu hjá okkur, rétt tæpum 30 milljörðum kr. Það voru skýrar og afgerandi aðgerðir sem tóku mið af því sem mestu máli skiptir til skemmri tíma, að lina höggið fyrir almenning og fyrirtæki.

Hvað erum við að glíma við þar? Það er erfitt að reka fyrirtæki þegar tekjugrundvöllurinn hrynur undan rekstrinum nánast yfir nótt. Það er það sem ferðaþjónustan horfir framan í núna. Það er engin leið að sjá fyrir endann á því. Það þýðir að hætta verður á að viðbrögð fyrirtækjanna verði öfgafull, m.a. í uppsögnum, og geti ef ekki er á móti brugðist við með skýrum aðgerðum af hálfu stjórnvalda leitt til þess að það sem ætti að vera skammvinnt en mikið högg gæti orðið langvinn efnahagsniðursveifla. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að viðbrögðin séu skýr og nægjanlega mikil.

Við þurfum að hjálpa fyrirtækjum sem geta ekki gert annað en að fækka fólki við þessar kringumstæður. Það þarf að skapa svigrúm fyrir fyrirtæki til að geta sett fólk á atvinnuleysisbætur tímabundið með skömmum fyrirvara til þess einfaldlega að koma í veg fyrir að valkosturinn verði ella gjaldþrot. Það sem er hættulegast í þessu er að fyrirtæki sem standa frammi fyrir því að geta ekki fækkað fólki nægilega hratt eigi engan annan kost en að fara í gjaldþrot. Þess vegna er mikilvægt að nýta tímabundin úrræði til að færa fólk yfir á atvinnuleysisbætur til að fyrirtækin verði til staðar þegar við rísum svo aftur upp eftir það högg sem nú dynur á okkur.

Við megum ekki gleyma einyrkjum, sjálfstætt starfandi fólki sem á ekki uppsagnarrétt, veikindarétt eða neitt þess háttar. Stjórnvöld þurfa að taka undir með þessum hópi, gæta þess að réttindi hans til veikinda, atvinnuleysisbóta o.s.frv. séu til staðar og ganga frekar lengra en skemmra í þeim efnum. Í aðgerðaáætlun Breta er gert ráð fyrir því að allt að 20%, fimmtungur, vinnandi fólks kunni að vera í veikindaorlofi þegar veiran gengur hvað harðast yfir. Það er gríðarlegur baggi á litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Það þarf að horfa til þess í aðgerðum stjórnvalda hvernig hægt er að létta á þeirri fjárhagslegu byrði sem fylgir. Þetta eru skammtímaaðgerðirnar sem þurfa að vera afgerandi og nægjanlega miklar til að hjálpa að koma atvinnulífinu og fólkinu okkar í gegnum skaflinn fram undan.

Til lengri tíma litið megum við heldur ekki gleyma því að við þurfum að grípa til afgerandi fjárfestingaráforma á þessu ári, framkvæmda og fjárfestinga sem ráðist verði í sem allra fyrst þannig að vor og sumar nýtist okkur í framkvæmdunum og að við náum að byggja upp aðra atvinnuvegi á móti því höggi sem ferðaþjónustan er að fara að taka á sig.

Við megum heldur ekki gleyma því að hér kunna að leynast tækifæri eins og alltaf er í áföllum. Það getur vel verið að í skapandi greinum, tæknifyrirtækjunum okkar, kvikmyndaframleiðslu eða öðru leynist tækifæri við þessar kringumstæður. Þau þurfum við að nýta, gera það sem þarf, m.a. með jafnvel auknum stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki og kvikmyndaframleiðslu og annað þess háttar til að skapa störf þar sem tækifæri kunna að skapast.

Ég held að það sem mestu máli skipti sé að fyrstu aðgerðirnar núna sem verður að grípa til og kynna á næstu dögum séu afgerandi og til þess fallnar að létta verulega undir með atvinnulífinu til að koma í veg fyrir að það sem vonandi verður skammtímahögg breytist í langtímaefnahagslægð. Þar horfi ég til tryggingagjalds. Ég teldi skynsamlegt annars vegar að horfa til lækkunar þess til lengri tíma litið og jafnvel að fella það niður tímabundið gagnvart annaðhvort völdum atvinnugreinum eða atvinnulífinu í heild. Það verður líka að huga að því að það er mjög erfitt að kortleggja í þessari óvissu hversu víðfeðm áhrifin verða fyrir atvinnulífið allt. Hvernig við tökum síðan á atvinnuleysinu og skattalækkunum til lengri tíma litið er gríðarlega mikilvægt.

Síðast en ekki síst er lykilatriði að við í þessum sal stöndum saman, leggjumst öll á árarnar og grípum til þeirra úrræða sem nauðsynleg eru. Það kallar á gott samstarf meiri hlutans við minni hlutann á þingi, góða upplýsingagjöf, að þessir fordæmalausu erfiðleikar í íslensku efnahagslífi séu ekki notaðir til að slá pólitískar keilur, hvorki af hálfu meiri hluta né minni hluta, heldur að við tökumst á við þennan vanda eins og hann er. Við erum öll í sama bátnum. Við verðum öll fyrir áhrifum af þessu og við getum öll lagt okkar af mörkum til að tryggja að við komumst í gegnum þetta (Forseti hringir.) með sem minnstu tjóni.



[15:26]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við stöndum nú frammi fyrir hnattrænni ógn. Óvinurinn er ósýnilegur, hann er lítt þekktur og óútreiknanlegur. Samt verður það á endanum óvinurinn sjálfur sem mun gefa þann höggstað á sér sem dugar okkur til sigurs. Við vitum að Covid-19 veiran þolir ekki sápuþvott. Við vitum einnig að með aðgerðum sem hægja á smiti getur heilbrigðisþjónustan okkar sinnt þeim sem eru í mestri hættu. Við vitum að þegar ónæmi hefur verið byggt upp gengur faraldurinn yfir.

Við þurfum að muna að hér er um tvenns konar ógn að ræða, yfirvofandi heilsufarsógn og svo efnahagshremmingar. Í báðum tilfellum eru umfangið, tímalengdin og áhrifin enn óþekktar stærðir. Fyrst og fremst er það heilsufarsógnin, baráttan við lítt þekkta lífveru. Aðferðir hennar eru að talsverðu leyti óþekktar þó að þekking aukist dag frá degi. Vísindamenn um heim allan keppast við að skilja þessa ógn betur. Við þurfum að verja viðkvæma hópa fyrir smitum líkt og sóttvarnalæknir sagði í Kastljósi í gærkvöldi. Þar berum við öll mikla ábyrgð.

Við berum einnig ábyrgð á því að fara eftir tilmælum almannavarna, þrífa hendur, vera heima ef við finnum fyrir einkennum og allt þetta sem við vitum að reynist vel. Við þurfum líka að taka upp símann, hringja í ættingja og vini sem búa kannski einir og hafa verið slæmir til heilsunnar, spyrja þá hvernig þeim líði og hvort þá vanti eitthvað, t.d. úr búðinni.

Við megum ekki gleyma mennskunni og við getum ekki hætt að lifa lífinu þrátt fyrir þessa ógn. Það skiptir máli hvaðan upplýsingar koma. Okkar færasta fólk er í framlínunni þessa dagana. Það fólk færir okkur upplýsingar eins fljótt og auðið er. Við skulum hlusta á almannavarnir, landlækni, sóttvarnalækni, heilbrigðisstarfsfólkið okkar og helstu sérfræðinga úr þeirra hópi.

Svo er það efnahagurinn, en þar blasir við alvarlegt ástand. Það er gjörólíkt því áfalli sem við urðum fyrir í bankahruninu. Það eru skammtímaáhrif af því að ferðamönnum snarfækkar. Þau koma til með að verða mun meiri eftir síðasta útspil Bandaríkjamanna. Þó að erfitt sé að meta hversu mikil áhrifin eru má líkja því við að fá loðnubrest í hverjum mánuði sem þetta ástand varir. Þetta hefur verið erfiður vetur og eflaust líður mörgum eins og hann muni engan endi taka.

En það eru ekki bara vondar fréttir. Útflutningur sjávarafurða jókst um 17 milljarða milli áranna 2018 og 2019 og þorskurinn skilaði okkur 20% meiri verðmætum. Þetta skiptir máli. Við Íslendingar kunnum að glíma við aflabrest. Við kunnum að glíma við óþekktar aðstæður og við gerum það saman. Félagslegu kerfin okkar sem hafa verið byggð upp í gegnum árin og styrkt síðustu ár af ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur munu skila sínu. Við njótum þess líka að ríkissjóður og þjóðarbúið stendur vel og getur tekist á við áföll. Mikilvægt fyrsta skref var kynnt í síðustu viku þegar aðilar vinnumarkaðarins og ríkið náðu samkomulagi um að tryggja öllum laun sem fara í sóttkví. Þegar launafólk axlar sameiginlega ábyrgð á því að lágmarka útbreiðslu veirunnar á það auðvitað ekki að bitna á kjörum þess.

Eins og við þekkjum kynnti ríkisstjórnin á þriðjudaginn fyrstu aðgerðir í efnahagsmálum. Þær snúa að því að verja hér efnahagslegan en jafnframt félagslegan stöðugleika. Það er ekki hægt að aðskilja þessa tvo hluti, enda snýst þetta ekki um fyrirtæki eða almenning því að eins og við vitum verða vandamál fyrirtækja að vandamálum almennings og öfugt. Þess vegna er mikilvægt að reyna að koma í veg fyrir að fólki verði sagt upp með því að tryggja lífvænlegum fyrirtækjum lausafé. Það þarf að huga sérstaklega að ýmsum hópum sem hugsanlega falla milli skips og bryggju í mótvægisaðgerðum, t.d. einyrkjum.

Landlæknir líkti baráttunni við kórónuveiruna og þann sjúkdóm sem hún veldur við stríð fyrir nokkrum dögum. Í þeirri baráttu breytast orrusturnar frá degi til dags og það getur verið ástæða til að banna og loka í dag og leyfa og opna hinn daginn. Það sem gert er þarf að byggja á grunni bestu þekkingar á hverjum tíma og það mun reyna á okkur öll á næstu mánuðum að taka ákveðið og yfirvegað á málum. Það má hafa efasemdir um að sú ákvörðun Bandaríkjaforseta að loka Bandaríkjunum í mánuð sé skynsamleg. Því ætla ég að leyfa mér að fagna því að utanríkisráðherra hafi nú þegar mótmælt þeirri ákvörðun við sendiherra Bandaríkjanna. Mismunandi og misvísandi viðbrögð ríkisstjórna gætu gert illt verra í baráttunni við veiruna.

Það er líka mikilvægt að muna að þetta er tímabundið ástand, jafnvel þó að það gæti á einhverjum tímapunkti virst heil eilífð. Í rauninni finnst manni í dag eins og þetta sé heil eilífð þó að það sé ekki nema rétt rúm vika. En hver veit? Í baksýnisspeglinum gæti þetta tímabil hafa varað stutt. Sama hvernig fer munum við kljást við þetta saman, heilbrigðisyfirvöld, stjórnvöld, almenningur og atvinnulíf. Við erum öll í sama báti og saman munum við gera það sem til þarf.



[15:31]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem fer hérna fram sem sýnir hvernig við getum unnið saman og komið á umræðu þegar þörf er á. Í nýjustu fréttatilkynningu sem ég hef fengið í dag kemur fram að 103 einstaklingar hafi greinst með Covid-19 hér á landi. Frá því í gærkvöldi hafa 15 tilfelli af veirunni sem veldur Covid-19 sjúkdómnum verið greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Samtals hafa 103 einstaklingar verið greindir hér á landi, 80 smit tengjast ferðum erlendis, 23 innanlandssmit. Uppruni flestra þessara smita er rakinn til Norður-Ítalíu eins og við vitum og skíðasvæða í Ölpunum. Þrjú smit hafa greinst frá einstaklingum sem komu hingað frá Bandaríkjunum.

Um 1.000 sýni hafa verið tekin í heild. Þetta segir okkur að af hverjum tíu sýnum sem hafa verið tekin er einn sýktur. Við erum í þeirri furðulegu stöðu að við erum eiginlega komin á svipaðan stað og við vorum á fyrir hrun. Við verðum og eigum að læra af því sem þar var gert. VR var að senda frá sér tilkynningu og þar kemur skýrt fram að verðtryggð húsnæðislán verði fryst tafarlaust. Hvers vegna er þessi tilkynning komin til? Jú, við vitum hvernig fór í hruninu fyrir tugþúsundum heimila og við verðum líka að átta okkur á því að þeir einstaklingar sem þar urðu undir og misstu heimili sín eru að reyna í dag að byggja upp heimili sín aftur. Þeir geta ekki lent í nákvæmlega því sama og skeði á þeim tíma þegar verðbólgan fór fram úr öllu og verðtryggingin var ekki tekin úr sambandi. Okkur ber skylda til að sjá til þess að það verði gert og það strax.

Þá er einnig í gangi illvíg flensa þar sem einkennin eru ótrúlega lík Covid-19. Örugglega eru margir skelfingu lostnir yfir því hvort þeir eru með Covid-19 veiruna eða þessa venjulegu flensu. Sem betur fer ætlar Kári í Íslenskri erfðagreiningu að sjá til þess og byrja að skima fyrir henni og fólk getur þá fengið upplýsingar um það hvora veiruna það hefur.

Landspítali – háskólasjúkrahús er að fresta öllum aðgerðum nema lífsnauðsynlegum frá 12.3.–15.3. vegna þess að 11 starfsmenn Landspítalans eru í einangrun. 11 í einangrun og 92 í sóttkví. Þetta sýnir okkur svart á hvítu hversu alvarlegt ástandið er. Hæstv. forsætisráðherra talaði um laun í sóttkví. Það er frábært en í því samhengi megum við alls ekki gleyma þeim sem minnst mega sín í þessu þjóðfélagi, fólki sem hefur verið skilið eftir, liggur við að sagt hafi verið við það að það geti bara étið það sem úti frýs vegna þess að fullt af því hefur ekki efni á, ekki bara í byrjun mánaðarins eftir að hafa fengið lífeyrislaun sín útborguð, að kaupa mat heldur þarf að reiða sig á hjálparstofnanir. Þetta fólk hefur ekki efni á spritti, þetta fólk hefur ekki efni á mat. Þetta fólk þarf að fá hjálp og okkur ber að sjá til þess. Ég hef fulla trú á því að ríkisstjórnin muni sjá til þess með sveitarfélögunum að enginn þarna heima þurfi að hafa áhyggjur af því hvort hann eigi til matar eða ekki.

Noregur og Danmörk hafa gripið til mjög strangra aðgerða. Við erum ekki enn komin á þann stað en allt bendir til að við munum sennilega fara á þann stað. Þá þurfum við, eins og áður hefur verið sagt, að huga að því að allir sitji við sama borð. Mestu máli skiptir að aðgerðum verði hrundið af stað sem fyrst, að aðgerðir komi ekki til framkvæmda í haust heldur núna fyrir ferðaþjónustufyrirtæki. Ferðaþjónustan nær hámarki á sumrin og við verðum að sjá til þess að lítil og meðalstór fyrirtæki fái alla þá hjálp sem þau þurfa á að halda vegna þess að þar er okkar gullegg, þar er aðalstarfsemi og mesta vinnu að hafa. Okkur ber skylda til að sjá til þess að þar verði vel tekið á og að þau lifi af þá krísu sem nú er í gangi.

Það þarf að tryggja að rekstur Icelandair verði ekki fyrir miklum skakkaföllum. Það er nauðsynlegt að við höfum a.m.k. eitt flugfélag sem flýgur til og frá landinu og við verðum að senda Bandaríkjamönnum skýr skilaboð um að við líðum ekki að þeir setji á okkur ferðabann.

Mikilvægt er að grípa til félagslegra aðgerða. Veiran hefur áhrif á þá sem reiða sig á félagslega aðstoð samfélagsins, eins og ég sagði áðan, og það þarf að athuga hvort efla þurfi aðstoð við fólk með fötlun og sjúkdóma. Mikilvægt er að efla mönnun á sjúkrastofnunum og umönnunarstofnunum, sambýlum og annarri samfélagsþjónustu. Við þurfum að undirbúa aðgerðir sem hægt verður að grípa til ef stór hluti fólks sem sinnir umönnunarstörfum þarf að fella þau niður vegna veikinda eða vegna þess að þau fara í sóttkví eins og hefur komið fram á Landspítalanum. Ef við fjölgum tímabundnum stöðugildum í þessum greinum getum við samtímis fyrirbyggt mönnunarvanda ef faraldur versnar og dregið úr atvinnuleysi. Það þarf að tryggja betur aðstoð til hinna fátæku eins og ég hef komið inn á. Ríkisstjórnin þarf að grípa til aðgerða sem koma í veg fyrir að fátækt fólk sem veikist eða þarf að fara í sóttkví verði fyrir tekjumissi eða útgjaldaaukningu vegna þess.

Við verðum að sjá til þess að allir fái þá aðstoð sem á þarf að halda. Við verðum líka að hafa í huga að við erum með stóran hóp af fólki þarna úti, um 30.000 manns, sem er í fátækt og hefur lifað í fátækt áratugum saman, fátækt sem hefur valdið því að heilsa þess hefur versnað og er mun verri en annarra þegna þjóðfélagsins. Það hefur sýnt sig að það er að missa um tíu ár af ævi sinni vegna fátæktar, lélegs fæðis og lélegrar heilbrigðisþjónustu, af því að það hefur ekki efni á öðru. Þetta verðum við að tryggja vegna þess að við höfum gert það að einhverjum vana að skilja þetta fólk eftir uppreiknað samkvæmt neysluvísitölu, ekki látið launavísitöluna fylgja því. Við verðum líka að tryggja og sjá til þess að þeir sem eru á lífeyrislaunum, öryrkjar, eldri borgarar og atvinnulausir, lægst launaða fólkið í landinu, fái líka nýgerða kjarasamninga. Við eigum að tryggja að þeir verði ekki lakar settir en þeir sem eru á lægstu launum í þjóðfélaginu og því ber líka að þakka og við eigum að sjá til þess og eigum að vera viðbúin því að standa saman vegna þess að þetta varðar okkur öll. Við eigum að sjá til þess að enginn verði skilinn út undan. Við berum ábyrgð á því að hlutirnir gangi upp eins og til var sáð.



[15:39]
Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Það verður seint fullþakkað fyrir fumlaus viðbrögð þeirra sem hafa staðið í framlínunni í baráttunni við Covid-19 og það munar líka um að stjórnvöld treysta fagfólki til að meta stöðuna hverju sinni. Þannig hafa ákvarðanir verið teknar með almannahagsmuni að leiðarljósi en ekki með handahófskenndum hætti eins og við sáum því miður dæmi um í Bandaríkjunum í nótt.

Þó að staðan í dag kalli á bráðaaðgerðir þýðir það ekki að við megum missa sjónar á þeim grunngildum sem við viljum standa vörð um. Árin eftir hrun láðist t.d. allt of oft í viðbrögðum að meta áhrif aðgerða á stöðu ólíkra hópa og stöðu kynjanna. Áherslan var meiri á steypu utan um kerfin okkar en fjárfestingu í fólkinu sem heldur kerfinu gangandi. Afleiðingar þessa gætir enn í heilbrigðiskerfinu sem nú mæðir einmitt mest á.

Sama má segja um mikilvægi þess að hafa sem víðtækast samráð. Stundum held ég að Jóhanna Sigurðardóttir, þegar hún var forsætisráðherra, hafi byrjað hvern dag þegar hún opnaði augun á því að hugsa hvern hún ætti að hringja í þann dag, hvern hún þyrfti að tala við. Oftar en ekki voru aðilar vinnumarkaðarins efst á blaði. Þess vegna kom nokkuð spánskt fyrir sjónir þegar ríkisstjórnin kynnti aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum Covid-19 að ekki skyldi hafa verið rætt við samtök launafólks strax frá fyrstu stundu, kannski sérstaklega vegna þess hversu mikið vinnumarkaðurinn hefur breyst á undanförnum árum. Nú er stór hluti fólks með erlendan bakgrunn og sívaxandi hluti launafólks er ekki í föstu ráðningarsambandi heldur í verktakatengdri vinnu. Þessir hópar kunna hæglega að fara á mis við þau félagslegu úrræði sem kerfið okkar býður upp á.

Hvað aðgerðirnar sjálfar varðar sem ríkisstjórnin kynnti á þriðjudag voru viss vonbrigði að sjá hversu ómótaðar þær voru. Vonandi bætist kjöt utan á beinin á næstu dögum. Sá liður sem kemst næst því að vera fullmótaður og skýr er niðurfelling á gistináttaskatti. Í besta falli er það sýndarmennska sem litlu skilar í þágu ferðaþjónustunnar. Í versta falli eru flokkarnir tveir í ríkisstjórn sem alltaf hafa haft horn í síðu þessa gjalds að nýta tækifærið til að koma því út úr sögunni.

Viðbrögð við tímabundnum hremmingum vegna Covid-19 geta hins vegar nýst til að byggja upp til framtíðar. Aðgerðirnar geta stutt við réttlát og sanngjörn umskipti í þágu loftslagsmála, til að auka jöfnuð, styðja skapandi greinar, (Forseti hringir.) rannsóknir og nýsköpun. Þannig eigum við að mæta miklum áskorunum, alveg eins og við mætum öllum öðrum verkefnum sem við stöndum frammi fyrir hér í sal með því að búa til betra samfélag.



[15:43]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Þegar vá stendur fyrir dyrum, eins og nú er svo sannarlega, er mikilvægt að viðbrögð stjórnvalda séu bæði markviss og fumlaus. Þannig verða viðbrögðin að vera til að koma í veg fyrir meiri skaða en ella hefði orðið og til þess fallin að efnahagslífið, þessi svokölluðu hjól atvinnulífsins, komist sem fyrst á sinn eðlilega snúning eftir að váin er um garð gengin. Líklegt er að efnahagsleg áhrif af heimsfaraldrinum verði víðtæk um heim allan en Íslendingar búa svo vel að hafa greitt niður skuldir, byggt upp varasjóði og nú er atvinnuleysið reist á fleiri stoðum en bara fyrir nokkrum árum síðan.

Herra forseti. Blikur hafa verið á lofti allt síðasta ár um að efnahagslífið væri á leið ofan í öldudal eftir vandamál í flugrekstri, loðnubrest, fækkun í komum ferðamanna og síðar óvissu um framtíð álframleiðslu í Straumsvík. Á yfirstandandi þingi hefur Miðflokkurinn kallað eftir aðgerðum til að bregðast við ástandinu, til að mynda með myndarlegri lækkun tryggingagjalds en stjórnvöld áætluðu. Nú í vetur, ofan á allt þetta, höfum við þurft að takast á við afleiðingar af fádæma óveðri sem opinberaði okkur að innviðir raforku- og fjarskiptakerfis okkar væru alls ekki eins traustir og við mörg hver hugðum og kalla á viðamiklar aðgerðir. Og undanfarnar vikur, herra forseti, höfum við þurft að búa okkur undir loðnubrest annað árið í röð. Nú tökumst við á við kórónuveiruna sem virðist ætla að verða mikill skellur fyrir efnahag heimsins. Við þurfum síst af öllu að stjórnvöld séu ósýnileg í krísuástandi. Landsmenn þurfa á því að halda að stjórnvöld taki af skarið og komi með markvissar og fumlausar aðgerðir í samráði við þá sem máli skipta.

Við búum við þá staðreynd að staða þjóðarbúsins er almennt góð, skuldastaða ríkissjóðs góð og til staðar er verulegur erlendur gjaldeyrisforði. Við erum því vel í stakk búin til að takast á við tímabundinn vanda en við verðum að vanda til verka og ganga fumlaust til aðgerða.

Herra forseti. Ég fagna því að sumum ábendingum Miðflokksins, sem við nefndum þrístökk í þágu atvinnulífs, hefur ríkisstjórnin tekið vel. Þær ganga m.a. út á stórátak á þremur árum í uppbyggingu innviða, þar á meðal stórauknar samgönguframkvæmdir, nema hvað þar er ekki gengið nægilega langt að okkar mati. Önnur tillaga Miðflokksins gekk út á að bindiskylda bankanna yrði lækkuð og hefur Seðlabankinn nú lækkað hana myndarlega og er það vel. Þá fagna ég yfirlýsingum seðlabankastjóra um að hann útiloki ekki verulega lækkun vaxta til viðbótar þeirri vaxtalækkun sem þegar hefur verið tilkynnt. Þá hefur Miðflokkurinn einnig lagt til að minnka skattaáþján atvinnulífsins, að tryggingagjaldið verði lækkað strax um eitt prósentustig umfram áform stjórnvalda en þar yrði komið verulega á móts við þarfir atvinnulífsins sem hefur kallað eftir þessari aðgerð, lækkun tryggingagjalds, árum saman. Samstaða, skynsemi og rökhugsun, herra forseti, mun í erfiðum aðstæðum koma okkur best að gagni.



[15:47]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil biðja þingheim allan og þjóðina að fara rúm 11 ár aftur í tímann, til haustsins 2008. Þá voru fallegir haustdagar og Ísland nýbúið að vinna silfur á Ólympíuleikunum, Kaupþing var stærra en Adidas og Carlsberg, a.m.k. á pappírunum. Íslenskt fyrirtæki var fjórða stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims og annað íslenskt fyrirtæki var stærsti framleiðandi ferskra matvæla í Bretlandi.

En svo hrundi allt. Grunnstoðir hagkerfisins hrundu og í raun stoðir alls samfélagsins. Það vill svo til að ég er einn af fáum núverandi þingmönnum sem upplifðu þetta ástand sem þingmaður í þessu húsi á þeim tíma. Ég var formaður viðskiptanefndar Alþingis og varaformaður annars stjórnarflokks þess tíma og því í hringiðunni. Óvissan var algjör hér innan húss sem og utan. Ég man eftir þingflokksfundum þar sem þingmenn bókstaflega grétu. Þjóðin fór að hamstra mat og frystikistur. Sérhver fjölskylda varð fyrir áhrifum af hruninu, bæði efnahagslega og félagslega. Atvinnuleysi þrefaldaðist, verðbólgan fór upp í 18%, gengi krónunnar féll um 50% og 90% af hlutabréfamarkaðnum þurrkuðust út. Samanlagt fall íslensku bankanna þriggja varð þriðja stærsta gjaldþrot sögunnar.

Þetta voru fordæmalausir tímar sem enginn ætlaði að upplifa aftur. Núna stöndum við frammi fyrir mjög erfiðum tíma, en við höfum gert það áður og það fyrir einungis 11 árum. Við eigum að draga lærdóm af því sem við gengum þá í gegnum. Sá lærdómur var okkur mjög kostnaðarsamur og þess vegna er ég að rifja upp þessa sögu.

Herra forseti. Eftir hrun tók við ríkisstjórn sem Samfylkingin leiddi. Flokkur núverandi forsætisráðherra var einnig í þeirri ríkisstjórn. Það var ríkisstjórn sem hafði sterkar félagslegar áherslur á oddinum — ólíkt þeirri sem nú situr. Hér ætla ég að leyfa mér að vera nokkuð krítískur í garð ríkisstjórnarinnar, enda vil ég hvetja hana til góðra verka og benda henni á lausnir. Skoðum níu punkta sem draga fram muninn á því hvernig þáverandi ríkisstjórn tók á erfiðu ástandi og síðan hvernig þessi ríkisstjórn tekur á málum, hefur a.m.k. gert hingað til.

1. Í hruninu fyrir 11 árum lagði ríkisstjórn Samfylkingarinnar fram sérstaka græna fjárfestingaráætlun til að mæta niðursveiflunni. Þessi ríkisstjórn hefur ekki gert það og virðist hún fyrst og fremst enn þá hugsa á mjög gamaldags og karllægum nótum þegar kemur að innviðafjárfestingum.

2. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar setti yfir 100 millj. kr. í barnabætur og vaxtabætur á sínu kjörtímabili. Það er helmingi meira en þessi ríkisstjórn gerir.

3. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar opnaði sérstaklega alla skóla til að mæta auknu atvinnuleysi. Ekkert slíkt sést hjá þessari ríkisstjórn og það þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi nú þegar tvöfaldast síðan þessi ríkisstjórn tók við.

4. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar stórefldi Tækniþróunarsjóð, en þessi ríkisstjórn ákveður að skera framlög til þessa lykilsjóðs niður um 20% á milli ára.

5. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar jók opinbera hlutdeild í fjármálafyrirtækjum, en þessi ríkisstjórn stefnir á að koma fjármálafyrirtækjum úr eigu almennings og til ríkra fjármagnseigenda.

6. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar stórjók veiðileyfagjöld svo hægt væri að fjármagna velferðarkerfið og græna hagkerfið, en þessi ríkisstjórn fer í hina áttina og hefur lækkað veiðileyfagjöld um helming.

7. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar réðst í risavaxið markaðsátak undir formerkjunum Inspired by Iceland, en lítið bólar á sambærilegu átaki hjá þessari ríkisstjórn, a.m.k. enn þá.

8. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar felldi niður virðisaukaskatt af vinnu iðnaðarmanna til að örva hagkerfið, en þessi ríkisstjórn hefur hingað til svæft slíkt mál sem er nú þegar í nefnd þingsins.

9. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar hlífði eins og kostur var Landspítalanum á miklum niðurskurðartímum, en á vakt þessarar ríkisstjórnar í miðju góðæri hefur ástandinu á bráðamóttöku spítalans verið lýst sem neyðarástandi. Neyðarástand er orð sem starfsfólk spítalans hefur sjálft notað.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þessi atriði er sú að ég vil koma góðum hugmyndum áleiðis til ríkisstjórnarinnar en ég vil líka draga fram að það skiptir máli hverjir stjórna. Það skiptir máli hvað er gert og það skiptir máli hvað er ekki gert. Á svona óvissutímum þurfa þeir sem leiða landið að rísa undir nafni og í hreinskilni sagt finnst mér ríkisstjórnin ekki gera það. Að afnema gistináttagjald upp á 300 kr. á nótt sem hingað til er megintillaga ríkisstjórnarinnar er, með fullri virðingu, ekki neitt sem munar um.

Herra forseti. Mikið finnst mér dapurleg heimssýn formanns Sjálfstæðisflokksins sem birtist í orðum hans frá því í morgun þegar hann segir:

„Þegar svona krísur koma upp er hver sjálfum sér næstur.“ (Forseti hringir.)

Nei, herra forseti. Við komumst upp úr svona krísu einmitt með því að standa saman, vinna saman, taka tillit til annarra og horfa lengra en á eigið nef.



[15:54]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Ég vil þakka fyrir þessa umræðu hér í dag og byrja á því að segja það sem aðrir hafa komið inn á, að tíminn fram undan verður erfiður fyrir okkur sem samfélag. Það verða áföll í ferðaþjónustu og það þarf að hafa augun sérstaklega á samhengi ferðaþjónustunnar í íslensku efnahagslífi. Ferðaþjónustan skapar allt að 40% útflutningstekna okkar sem samfélags og rúm 8% af vergri landsframleiðslu. Ólíkt því sem áður var eru fá lönd í heiminum eins háð ferðaþjónustu og Ísland. Það er ekki hægt að tala um efnahagsmálin annars vegar og áhrif á ferðaþjónustuna hins vegar. Ferðaþjónustan fer um alla kima samfélagsins og höggið á hana mun hafa afleiðingar alls staðar annars staðar.

Við megum auðvitað aldrei missa sjónar á því að mikilvægasta verkefnið okkar er að hægja á útbreiðslu veirunnar til að hún fari ekki fram úr þolmörkum heilbrigðiskerfisins. Það er grunnverkefnið. Við treystum þeim sérfræðingum í almannavörnum og heilbrigðismálum sem stýrt hafa þeim viðbrögðum og ég verð að hrósa þeim og þeirri upplýsingagjöf sem verið hefur undanfarna daga, og það gagnsæi sem henni fylgir, sem skiptir máli í veröld þar sem falsfréttir fljúga mjög auðveldlega. Viðbrögðin hafa verið skynsamleg og fumlaus og íslenska þjóðin hefur lagst á árarnar með okkur og sýnt mikla ábyrgð gagnvart því sameiginlega verkefni okkar að tefja útbreiðslu veirunnar.

Strax fyrsta virka dag eftir að fyrsta veirusmitið greindist hér á landi, mánudaginn 2. mars, kölluðum við saman Stjórnstöð ferðamála til að ræða áhrifin á íslenska ferðaþjónustu og hvernig við gætum lágmarkað þau. Á þeim fundi voru nefndar ýmsar hugmyndir, t.d. afnám gistináttaskatts og kröftugt markaðsátak erlendis til að sækja aftur ferðamenn þegar ferðaviljinn í heiminum glæðist á ný. Viku síðar er búið að ákveða að ráðast í þessar aðgerðir og margar fleiri. Fyrirtæki fá kost á gjaldfresti á opinberum gjöldum til að létta þeim róðurinn meðan þessi alda gengur yfir. Gistináttaskatturinn verður felldur niður tímabundið sem auðvitað ræður ekki úrslitum eitt og sér, en skiptir þó verulegu máli og ekki skal gert lítið úr því að það hefur verið eitt helsta baráttu- og hagsmunamál fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu. Við ætlum í stórt markaðsátak þegar þetta tímabundna ástand verður liðið hjá til að taka þátt í þeirri hörðu samkeppni um athygli ferðamanna sem þá mun bresta á og við verðum tilbúin til að verja til þess meiri fjármunum en áður hafa sést í þessum tilgangi, enda er hér um tugmilljarða gjaldeyristekjur að tefla. Þessi áform hafa verið kynnt og undirbúningur er í fullum gangi. Það er ekki rétt að ekkert bóli á þeim hugmyndum, þær eru þegar í farvegi. Við gerum ráð fyrir 1,5 milljörðum í átakið og atvinnugreinin sjálf mun í kjölfarið ráðast í söluátak fyrir um 3 milljarða kr. Væntingar okkar eru að með þessu megi milda höggið af töpuðum gjaldeyristekjum sem getur numið allt frá 30–50 milljörðum samanborið við að gera ekki neitt. Það er skynsamlegt vegna þess að örvun á eftirspurnarhlið ferðaþjónustu er líklega ein skilvirkasta leiðin til að lágmarka tjónið fyrir íslenskt efnahagslíf.

Herra forseti. Umhverfið breytist klukkustund frá klukkustund. Óvænt ferðabann Bandaríkjaforseta gagnvart flestum Evrópulöndum setur að sjálfsögðu mjög stórt strik í reikninginn. Það er þetta með alvöruleiðtoga; sumir vilja hampa alvöruleiðtogum fyrir alvöruviðbrögð en það er þvert á móti ábyrgðarhluti alvöruleiðtoga að haga viðbrögðum að ígrunduðu máli með heildarsamhengi að leiðarljósi. Þótt ferðabannið gildi ekki um Bandaríkjamenn sjálfa er líklegt að það dragi úr ferðum þeirra til Evrópu, bæði vegna þeirrar ásýndar sem bannið gefur Evrópu og vegna þess að þeir munu þurfa að sæta einhvers konar skimun við heimkomuna og verða að koma heim í gegnum tiltekna flugvelli. Bandaríkjamenn hafa undanfarin ár verið fjölmennastir í hópi ferðamanna til landsins. Í fyrra voru þeir tæp hálf milljón eða næstum fjórðungur ferðamanna. Ef við skoðum þá tilteknu mánuði sem um ræðir komu 38.000 Bandaríkjamenn til Íslands í mars í fyrra og 26.000 í apríl. Og þó að 30.000 manns séu ekki nema 1,5% af árlegum fjölda ferðamanna til landsins eru þetta mjög miklir hagsmunir og við það bætast að sjálfsögðu áhrif ferðabannsins á flug Icelandair yfir Atlantshafið. Meðalútgjöld bandarískra ferðamanna voru í fyrra 16% hærri en meðalútgjöld allra þannig að hér er ekki bara um stóran markað að ræða heldur líka verðmætan markað sem birtist í því að þó að Bandaríkjamenn hafi verið um 23% ferðamanna í fyrra voru þeir ábyrgir fyrir um 30% af útgjöldum ferðamanna. Við sjáum viðbrögðin úr greininni. Formaður Félags fyrirtækja í hótelrekstri og gistiþjónustu telur að hátt í þriðjungur allra bókana hverfi á meðan ferðabannið varir. Hann bendir á að mars og apríl séu rólegasti tíminn í íslenskri ferðaþjónustu og þess vegna hefði tímasetningin í sjálfu sér ekki getað verið betri en hann bætir við, með leyfi forseta: Þeir sem hafa þraukað veturinn í von um betri tíð í sumar, þeir sjá ekki fram á betri tíð. Við höfum heyrt dæmi um allt að 50% samdrátt hjá einstaka fyrirtækjum fyrir sumarið og áhrifin verða gríðarlega mikil. Við vinnum að fleiri aðgerðum til að létta undir með greininni og öðrum, eins og því úrræði að setja fólk í lægra starfshlutfall og að atvinnuleysistryggingar brúi það sem vantar upp á full laun til að draga úr fjöldauppsögnum. Við þekkjum það úrræði úr bankahruninu og hljótum að sjálfsögðu að skoða það alvarlega.

Við erum í aðstæðum sem kalla á afgerandi viðbrögð. Ég vil ítreka að mikilvægasta verkefnið er eftir sem áður að tefja útbreiðslu kórónuveirunnar, gera það sem þarf til að standa vörð um þau okkar sem ráða síður við að fá veiruna. Þótt það sé auðvitað fyrst og fremst til að verja líf okkar og heilsu er það líka mikilvægt efnahagslega að við komumst sem farsælast í gegnum þessa erfiðleika. Í góðum og fumlausum viðbrögðum okkar við þessari áskorun felast líka tækifæri til að verða aftur eftirsóknarverður áfangastaður ferðamanna. Við erum sterkt samfélag og það er margt við okkar samfélag sem gerir okkur vel í stakk búin til að fara í gegnum þetta. Við erum öll á sama báti og það þýðir að við förum í gegnum þetta saman.



[16:00]
Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Frá síðasta hruni hefur verið talað um mikilvægi þess að búa í haginn fyrir næsta áfall til að við getum staðist álagið þegar það áfall brysti á. Nú er það komið og skiptir þá miklu máli að viðbrögðin einkennist af þekkingu og framtíðarsýn og séu til þess fallin að tryggja réttindi og öryggi borgaranna ásamt efnahagslegri framtíð Íslands. Það er tilhneiging þegar áföll skella á að týnast í skammtímahugsun og björgunaraðgerðum og á meðan björgunaraðgerðir eru gríðarlega mikilvægar þá er það einmitt á svona tímum sem við höfum tækifæri til að sýna styrkleikann og hugvitið sem við búum yfir með því að horfa líka til framtíðar. Markaðir landsins og heimsins skjálfa eins og Reykjanesið í dag. Verð er að hrynja, verðmæti að glatast og margar af undirstöðum landsins standa höllum fæti. Ef skilaboðin úr þessum sal eða úr Stjórnarráðinu eða Seðlabankanum eða hvaðan sem er úr stjórnkerfinu eru óskýr eða einkennast af hræðslu eða óðagoti er óumflýjanlegt að viðbrögðin í samfélaginu endurspegli það með frekari tilheyrandi áföllum fyrir íslenska þjóð. En ef við sendum skýr skilaboð um að við ætlum ekki bara að standa okkur vel heldur gefa í munu markaðir elta.

Forseti. Nú er tækifæri til að gera betur en við höfum gert í góðu árferði. Lykilskref í efnahagslegum aðgerðum er að flýta framkvæmdum sem myndu styðja við hagkerfið og búa til störf, t.d. með því að flýta uppbyggingu borgarlínunnar og með því að flýta framkvæmdum við byggingu nýs Landspítala. Þannig gætu einhverjir verkhlutar klárast í ár og væri það góð byrjun og í anda þess sem við höfum séð erlendis sem viðbrögð við Covid-19. Aðgerðirnar þurfa einnig að taka mið af þeim raunveruleika sem blasir við launafólki og bótaþegum í efnahagslegum þrengingum. Við ættum að leggja áherslu á að ljúka sanngjörnum og réttlátum kjarasamningum við þær stéttir sem enn eiga lausa kjarasamninga, sérstaklega þær sem vinna innan heilbrigðiskerfisins. Við þurfum að auka verulega fjármagn í bótakerfin, einfalda skilyrðin og jafnvel afnema þau alveg.

En gleymum ekki í þessu öllu þörfinni á að halda áfram að vinna í átt að kolefnishlutleysi. Nú væri ágætt að fresta óskipulegum hugmyndum ríkisstjórnarinnar um að leggja Nýsköpunarmiðstöð Íslands af og þess í stað búa til meira svigrúm fyrir uppbyggingu umhverfisvænna sprotafyrirtækja. Þá mætti jafnframt hefja samstarf við innlend iðnaðarfyrirtæki sem hafa mikla framleiðslugetu um að búa til lækningatæki og búnað sem fer að skorta á heimsvísu. Almennt eigum við marga öfluga atvinnuvegi sem gætu hreinlega vaxið og dafnað vel undir núverandi kringumstæðum, hugverkaiðnaðurinn, tölvuleikir, hugbúnaður, kvikmyndagerð og svo fjölmargar greinar sem eru upp á sitt besta þegar hugvit Íslendinga fær tækifæri til að blómstra. Setjum aukið fjármagn í Tækniþróunarsjóð og styðjum við þær greinar sem geta sveiflað á móti samdrættinum sem við sjáum núna í ferðaþjónustunni.

Margt annað þarf að gera til að tryggja bæði stöðugleika hagkerfisins og styrkleika sjálfvirku jöfnunartækjanna, hvort sem það er heilbrigðiskerfið, almannatryggingar eða burðir lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Við verðum að gera áþreifanlegar, skýrar og tímasettar áætlanir um hvernig við ætlum að bregðast við óumflýjanlegum afleiðingum þessa heimsfaraldurs.

Við horfum einnig fram á það að halli kunni að verða á ríkissjóði næstu ár en það er raunveruleiki sem þarf ekki að óttast. Skuldastaðan er lág og við höfum augljós tækifæri til að styrkja við íslenskt efnahagslíf með því að heimila frekari skuldsetningu ríkissjóðs. Ríkissjóður gegnir lykilhlutverki hér. Við verðum að tryggja að í þeirri efnahagslægð sem nú ríður yfir verði ekki gripið til viðamikilla aðhaldsaðgerða sem munu koma til með að kæla hagkerfið enn frekar. Við eigum að nota fjármuni til að styrkja efnahaginn og um leið nota þá peninga sem við höfum til þess að búa til betra samfélag og auka velsæld. Sjaldan hefur verið jafn mikil þörf á því einmitt að ríkissjóður leiði sókn samfélagsins fram á við. Nú er tíminn til að snúa vörn í sókn og ekki einungis einblína á að bjarga því sem hægt er að bjarga heldur byggja upp, sækja fram og móta framtíðina.



[16:05]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir ágæta umræðu. Ég greini um margt samstöðu í þessum sal í greininni, samstöðu um það að skammtímaaðgerða er þörf til að styðja við atvinnulífið í landinu til að fleyta því yfir þessar tímabundnu þrengingar. Ég greini samstöðu um þá hugsun að í öllum okkar aðgerðum verðum við að tryggja velferð og réttindi fólksins í landinu, að það sé ávallt okkar leiðarljós í því sem við gerum. Ég greini líka samstöðu um að fólk vill sjá fjölbreyttar fjárfestingar, fjölbreyttar aðgerðir, að fjárfestingar snúist ekki bara um að leggja fleiri vegi, sem er vissulega mikilvægt, heldur þurfum við að horfa til fjölbreytni, grænna lausna, skapandi greina, nýsköpunar og rannsókna.

Ég greini líka samstöðu um traust á heilbrigðisyfirvöldum okkar, á því fólki sem er vakið og sofið yfir því að tryggja velferð okkar allra, tryggja að við náum að hemja útbreiðslu veirunnar, að við náum að hægja á faraldrinum til að tryggja að innviðir okkar standist álagið og hefur gefið sig allt í það. Það er mikilvægt.

Ég hlýt að segja að sá munur er á mér og hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni að ég var á staðnum, ég var í ríkisstjórninni 2009–2013, og eftir það sem við gengum í gegnum þá saman, þeir flokkar sem þá sátu í ríkisstjórn, dytti mér ekki í hug að halla orði á félaga mína í Samfylkingunni og mér dytti ekki heldur í hug að þeim sem þá voru á staðnum dytti í hug að halla orði á þann sem til að mynda stóð í stafni í fjármálaráðuneytinu, hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, sem með þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, leiddi þá ríkisstjórn og þá endurreisn sem hún stóð fyrir. Mér dytti ekki í hug að gera lítið úr því að þarna voru tveir flokkar sem þurftu að takast á við stór verkefni. Ég held að þegar við horfum á stöðuna eins og hún er í dag skipti einmitt máli að hafa verið á staðnum þegar það gekk yfir og átta sig á að við þurfum að vera með langtímasjónarmiðin á hreinu, kunna að meta það sem allir eru að gera og átta okkur á því að við erum öll mikilvæg í verkefnunum fram undan, hvort sem við erum hluti af ríkisstjórn eða Alþingi.

Það er horft til þess sem við gerum og við eigum mikil tækifæri í að gera það vel. Ástandið er tímabundið og við höfum tækifæri í því að standa okkur í gegnum það.