150. löggjafarþing — 72. fundur
 12. mars 2020.
upplýsingalög, 1. umræða.
stjfrv., 644. mál (réttarstaða þriðja aðila). — Þskj. 1095.

[16:40]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á upplýsingalögum, nr. 140/2012. Forsaga málsins er sú að þann 16. mars 2018 skipaði ég nefnd um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis sem var m.a. falið að fara yfir gildandi upplýsingalög og meta hvort þörf væri á lagabreytingum. Nefndin skilaði frumvarpi og eins og hv. þingmenn rekur minni til var afgreitt frumvarp á síðasta löggjafarþingi, samanber lög nr. 72/2019, en með þeim voru gerðar ýmsar breytingar á upplýsingalögum. Meðal annars var gildissvið laganna víkkað út þannig að þau næðu yfir stjórnsýsluþætti starfsemi Alþingis og dómstóla og kveðið var á um skyldu ráðuneyta til frumkvæðisbirtingar upplýsinga úr málaskrám sínum en sú skylda tekur gildi um næstu áramót.

Við meðferð frumvarpsins á Alþingi barst hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd umsögn frá Samtökum atvinnulífsins þar sem lagðar voru til frekari breytingar á upplýsingalögum sem varða réttarstöðu svokallaðra þriðju aðila, þ.e. þeirra sem geta átt hagsmuna að gæta af því að aðgangur verði veittur að tilteknum upplýsingum. Í kjölfarið voru tillögurnar teknar til skoðunar í forsætisráðuneytinu og niðurstaðan sú að hluti þeirra gæti verið til bóta miðað við gildandi rétt.

Réttur almennings til aðgangs að gögnum í vörslu opinberra aðila lýtur ýmsum takmörkunum, þar á meðal vegna einkahagsmuna einstaklinga og mikilvægara fjárhags- eða viðskiptahagsmuna fyrirtækja og annarra lögaðila. Þegar beiðni um gögn getur varðað hagsmuni þriðja aðila telst hann hins vegar ekki aðili máls í skilningi stjórnsýslulaga og hefur takmarkaða möguleika á því að hafa áhrif á niðurstöðu um rétt beiðanda til aðgangs. Þannig nýtur þriðji aðili hvorki andmælaréttar né réttar til að krefjast endurskoðunar á ákvörðun um að veita aðgang að gögnum ef hann telur að hún muni skaða hagsmuni sína.

Það er hins vegar oft nauðsynlegt að afla afstöðu þriðja aðila til afhendingar gagna sem þá varða. Í 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga er því kveðið á um að stjórnvaldi eða þeim sem hefur beiðni til afgreiðslu sé heimilt að skora á þann sem upplýsingar varða að upplýsa hvort hann telji að þær eigi að fara leynt. Þessi regla felur í sér útfærslu á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins sem kveður á um að mál skuli vera nægjanlega upplýst til að unnt sé að taka ákvörðun í því. Í framkvæmd skortir hins vegar oft á að opinberir aðilar afli afstöðu þriðja aðila til afhendingar gagna áður en gagnabeiðni er afgreidd. Með 1. gr. frumvarpsins er því lagt til að orðalagi ákvæðisins verði breytt á þá leið að skylt sé að afla slíkrar afstöðu nema það sé augljóslega óþarft.

Með orðalaginu „augljóslega óþarft“ er til að mynda horft til tilvika þar sem afstaða þriðja aðila getur, að mati þess sem hefur beiðni til afgreiðslu, ekki haft nein áhrif á rétt beiðanda til aðgangs. Atvik geta verið þannig að löng framkvæmd, t.d. úrskurðarframkvæmd úrskurðarnefndar um upplýsingamál, segir til um að almenningur eigi rétt á tilteknum upplýsingum þó að það sé fjallað um hagsmuni þriðja aðila. Þá getur verið að afstaða þriðja aðila til afhendingarinnar liggi þegar fyrir og þá er augljóslega óþarft að afla hennar að nýju. Sama gildir þegar upplýsingarnar sem um ræðir hafa þegar birst opinberlega með lögmætum hætti og aðgangur beiðanda getur því ekki stefnt hagsmunum þriðja aðila í hættu. Loks kann að vera að umbeðnar upplýsingar varði einkahagsmuni margra þriðju aðila þar sem hagsmunir hvers og eins eru eðlislíkir og tiltölulega auðvelt að taka afstöðu til þess hvort þeir vega þyngra en hagsmunir þess sem óskar aðgangs. Í slíkum tilvikum, eins og ég hef nefnt hér, kann að vera augljóslega óþarft að afla afstöðu allra þessara aðila til þess að aðgangur verði veittur. Tilvik þar sem kemur til greina að beita þessari reglu eru hér ekki tæmandi talin heldur þarf að fara fram mat í hvert sinn sem beiðni berst um aðgang að gögnum um það hvort þau lúti að nægjanlega ríkum einkahagsmunum þriðja aðila til að skylt sé að afla afstöðu hans til afhendingarinnar.

Eins og ég vék að fyrr í ræðu minni hefur þriðji aðili takmarkaða möguleika á því að leita réttar síns ef hann telur að ákvörðun um aðgang að gögnum stefni hagsmunum sínum í hættu. Í raun er ekki um annan kost að ræða en að sækja skaðabætur fyrir tjónið sem hlýst af afhendingunni en engin leið til að koma í veg fyrir það. Sama gildir þegar úrskurðarnefnd um upplýsingamál kveður upp úrskurð sem þriðji aðili telur að muni leiða til tjóns fyrir sig. Með frumvarpinu er því lagt til að þriðji aðili fái rétt til að krefjast frestunar á réttaráhrifum úrskurðar nefndarinnar á meðan málið er borið undir dómstóla.

Samkvæmt 24. gr. upplýsingalaga getur stjórnvald eða annar aðili sem fellur undir gildissvið laganna sent úrskurðarnefndinni slíka kröfu ef viðkomandi telur nauðsynlegt að bera úrskurð nefndarinnar undir dómstóla. Fallist nefndin á það skal málið lagt fyrir dóm innan sjö daga frá birtingu ákvörðunar um frestun og óskað eftir því að það hljóti flýtimeðferð fyrir héraðsdómi. Ef beiðni um flýtimeðferð er synjað skal málið höfðað innan sjö daga frá synjuninni. Í framkvæmd hefur úrskurðarnefndin litið svo á að með heimild til að fresta réttaráhrifum séu fyrst og fremst höfð í huga tilvik þar sem í húfi eru tiltölulega mikilvægir hagsmunir, ekki síst hagsmunir einkaaðila sem gætu verið skertir með óbætanlegum hætti ef veittur yrði aðgangur að gögnum eða upplýsingum um þá í andstöðu við ákvæði upplýsingalaga eins og þau kynnu síðar að verða skýrð af dómstólum. Með hliðsjón af því er lagt til í 3. gr. frumvarpsins að viðkomandi einkaaðilar fái rétt til að krefjast frestunar réttaráhrifa í eigin nafni en heimild til frestunarinnar verði bundin sömu skilyrðum og gildir um hinn kærða í málinu.

Réttur þriðja aðila til að krefjast frestunar réttaráhrifa úrskurðar er háður því að viðkomandi hafi raunhæfan möguleika á því að vita að slíkur úrskurður hefur verið kveðinn upp. Er því lagt til með 2. gr. frumvarpsins að úrskurðarnefndin sendi þriðja aðila afrit úrskurðar þegar kveðið er á um skyldu til að veita aðgang að gögnum sem varða mikilvæga og virka einkahagsmuni þriðja aðilans.

Loks er í frumvarpinu gerð sú tillaga að Framkvæmdasýsla ríkisins geti skipst á vinnugögnum við opinbera aðila sem stofnunin aðstoðar án þess að þau missi stöðu sína sem vinnugögn í skilningi upplýsingalaga. Almenna reglan er sú að veita ber aðgang að vinnugögnum ef þau hafa verið afhent utanaðkomandi en vegna hlutverks Framkvæmdasýslunnar við búning opinberra framkvæmda þykir rétt að ýmis undirbúningsgögn sem berast á milli hennar og opinberra aðila geti áfram notið verndar.

Herra forseti. Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði ýmsar breytingar á upplýsingalögum í þeim tilgangi að bæta og skýra réttarstöðu þriðja aðila, þ.e. þeirra sem geta átt hagsmuna að gæta af því að veittur verði aðgangur að tilteknum upplýsingum samkvæmt lögunum. Breytingunum er ekki ætlað að stuðla að takmörkunum á upplýsingarétti almennings heldur er markmið að tryggja eins og kostur er að afstöðu þriðja aðila sé aflað þegar tilefni er til. Þá verður að telja eðlilegt að einstaklingar og fyrirtæki fái heimild til að bera úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál um einkahagsmuni sína undir dómstóla með sömu skilyrðum og opinberir aðilar hafa nú samkvæmt upplýsingalögum.

Herra forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og 2. umr. að þessari lokinni.



[16:48]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þetta mál. Ég er með nokkrar spurningar. Vissulega finnst mér mikilvægt að bæta réttarstöðu þriðja aðila og það er mikilvægt að við séum öll viss um okkar réttarstöðu þegar kemur að framfylgd upplýsingalaga. Ég tel að það sé okkur öllum til gagns að það liggi skýrt fyrir hvernig það er. Það skiptir máli hvernig við nálgumst þetta viðfangsefni og hvort mögulegra mótvægisaðgerða sé þörf ef líklegt þykir að málsmeðferðartími fyrir úrskurðarnefnd upplýsingamála lengist fyrir vikið, að það taki fjölmiðla og einstaklinga lengri tíma að fá lausn sinna mála hjá úrskurðarnefndinni vegna þeirra auknu krafna sem gerðar eru á úrskurðarnefndina og vegna þess nýja möguleika að kæra á úrskurði frá þriðja aðila geti frestað réttaráhrifum ákvörðunar úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Ég vil því fyrsta kastið spyrja hæstv. ráðherra: Stendur til að efla úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem því nemur að hún geti tekist á við þann langa hala mála sem hefur verið mjög tímafrekt að takast á við? Hefur ráðherra einhverjar hugmyndir um hvað það þýðir ef einstaklingur kærir og óskar eftir frestun réttaráhrifa í núverandi stöðu í dómskerfinu? Hvað þýða það mikla tafir? Er hægt að fara í venjulegt ferli hjá dómstólum? Mun það jafnvel taka ár að fá niðurstöðu úr því máli? Hefur hæstv. ráðherra metið hvaða áhrif þetta kunni að hafa á t.d. fjölmiðla sem hafa kannski lítið með þær upplýsingar að gera ári síðar?



[16:50]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir andsvarið. Ég vil í fyrsta lagi segja að við höfum verið að vinna að því að styrkja aðbúnað úrskurðarnefndarinnar með auknu mannahaldi og aldrei hafa fleiri úrskurðir verðið kveðnir upp. Hins vegar er málsmeðferðartíminn enn of langur því að það eru allmörg mál á borði nefndarinnar, það verður ekkert litið fram hjá því.

Hv. þingmaður spyr: Mun þetta lengja tímann? Í fyrsta lagi erum við að setja mjög þrönga tímafresti inn í frumvarpið. Í öðru lagi er þetta ekki víðtæk heimild. Ef við lítum til þeirra tilvika þar sem opinberir aðilar hafa verið að óska eftir því að fá þessar undanþágur hafa komið 30 beiðnir og aðeins verið fallist á tvær, af því að heimildin er þröng fyrir opinbera aðila. Við erum að leggja til sambærilega heimild fyrir einkaaðila í þessu tilviki en eigum ekki von á því að það hafi endilega nein skriðuáhrif á málsmeðferðartíma almennt og alls ekki málsmeðferðartíma nefndarinnar því að þetta snýst í raun bara um það sem gerist eftir að nefndin kveður upp úrskurð sinn.



[16:52]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar en ég er kannski enn svolítið að spyrja hvort það hafi verið skoðað hversu langan tíma beiðni um frestun á réttaráhrifum geti tafið málsmeðferð. Er hægt að fara í venjulegt dómsmálaferli eða hvernig var það metið hvernig slík málsmeðferð myndi fara fram? Svo leikur mér forvitni á að vita hvað geri það að verkum að lögð eru til í frumvarpinu þau nýmæli að gagnasendingar á milli opinberra aðila um framkvæmdir á vegum ríkisins skuli teljast vinnugögn. Hvers vegna þurfti að fara sérstaklega í þær aðgerðir og hver var rökstuðningurinn á bak við það að takmarka aðgengi að þessum upplýsingum miðað við kannski aðrar framkvæmdir eða aðrar aðgerðir sem stofnanir ríkisins standa í en þurfa samt sem áður að sætta sig við að verði að upplýsingalagaskyldum gögnum við viðskipti milli stofnana?



[16:53]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, við horfum til þess að gefinn sé þröngur frestur til að leita eftir þessari undanþágu, sjö dagar, og síðan sé það flýtimeðferð fyrir dómstólum fari svo að úrskurðarnefndin fallist á það. Ég nefndi hér hlutföllin eins og þau hafa verið gagnvart opinberum málum þannig að við erum fyrst og fremst að segja að sama regla gildi milli opinberra aðila og einkaaðila. Í því eru fólgin ákveðin jafnræðisrök og við töldum rétt — ef hv. þingmann rekur minni til þeirra umsagna sem bárust við upplýsingalagafrumvarpið á sínum tíma — að bregðast við þessu. Við teljum að með því að hafa rammann þröngan og heimildirnar þröngar feli þetta ekki í sér takmarkanir á upplýsingarétti almennings.

Hvað varðar Framkvæmdasýsluna nýtur hún ákveðinnar sérstöðu sem sú stofnun sem í raun annast opinberar framkvæmdir, hvaða nafni sem þær kunna að nefnast, þ.e. byggingarframkvæmdir. Þetta er í raun vegna ábendinga sem hafa borist um að mikilvægt sé að geta afhent vinnugögn og þau séu áfram bundin trúnaði sem vinnugögn áður en þau verða endanleg við undirbúning margháttaðra slíkra framkvæmda. Við vildum taka tillit til þess. Það kann að vera að eitthvað svipað, og ég tel að nefndin ætti kannski að ræða það, gæti til að mynda átt við um Vegagerðina sem er hin stóra framkvæmdastofnunin. Það þekki ég ekki. En þetta er vegna ábendinga sem við fengum frá Framkvæmdasýslu ríkisins.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til stjórnsk.- og eftirln.