150. löggjafarþing — 74. fundur
 13. mars 2020.
staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald, 2. umræða.
stjfrv., 659. mál (frestun gjalddaga). — Þskj. 1119, nál. m. brtt. 1124, nál. 1125.

[14:25]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum tryggingagjald. Þetta er frestun gjalddaga.

Líkt og kemur fram í nefndarálitinu fjallaði nefndin um málið og fékk á sinn fund fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins og átti auk þess fund eða símafund réttara sagt með Snorra Olsen, ríkisskattstjóra, og Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.

Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lög um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, annars vegar og lög um tryggingagjald, nr. 113/1990, hins vegar. Í ákvæðinu verði kveðið á um frestun gjalda helmings þeirra greiðslna sem voru á gjalddaga 1. mars samkvæmt lögum til 1. apríl nk. og eindagi hinna frestuðu greiðslna verði 14 dögum síðar eða 15. apríl.

Eins og þingmenn vita er með frumvarpinu stigið fyrsta skrefið í þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur boðað til að bregðast við skyndilegum og ófyrirsjáanlegum efnahagsvanda vegna Covid-19 heimsfaraldurs. Í greinargerð með frumvarpinu segir að aðgerðirnar miði að því að draga úr tjóni, tryggja að neikvæð áhrif á líf og efnahag vari sem skemmst og skapa aðstæður fyrir öfluga viðspyrnu í kjölfarið. Þá segir enn fremur:

„Markviss og traust viðbrögð skipta sköpum við aðstæður eins og nú eru uppi vegna COVID-19 faraldursins. Þegar má merkja áhrif hans í efnahagslífinu en með viðbrögðum eins og hér eru lögð til má draga verulega úr þeim áhrifum og með því verja íslenskt efnahagslíf.“

Samþykkt frumvarpsins hefur þau áhrif að launagreiðendum verður heimilt að halda eftir að helmingi greiðsla á grundvelli 20. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda annars vegar og 10. gr. laga um tryggingagjald hins vegar, sem að óbreyttu væru á eindaga 16. mars fram til 15. apríl. Frumvarpið hefur jafnframt þau áhrif að viðurlög sem lögin kveða á um að beita skuli vegna greiðsludráttar frestast hvað þær greiðslur varðar. Álagi samkvæmt 28. gr. staðgreiðslulaga verður því ekki beitt á helming greiðslu sem var á gjalddaga 1. mars fyrr en 16. apríl. Að sama skapi leggjast dráttarvextir ekki á vangreidd tryggingagjöld, samanber 3. málslið 1. mgr. 10. gr. laga um tryggingagjald, hvað varðar helming þess hluta sem var á gjalddaga 1. mars, fyrr en 16. apríl.

Í framsöguræðu ráðherra um frumvarpið skoraði ráðherra á þau fyrirtæki sem hafa til þess bolmagn að nýta ekki þá heimild til greiðslufrestunar sem veitt er með frumvarpinu heldur standa í fullum skilum eins og til stóð 16. mars. Meiri hlutinn tekur undir þessa áskorun og bendir á að til þess að aðgerðir á borð við þessa skili sem bestum árangri sé nauðsynlegt að tryggja breiða samstöðu. Þá bendir meiri hlutinn á að hluti þeirra sem standa eiga skil á þeim greiðslum sem frumvarpið varðar eru opinberir aðilar. Eðlilegt er að þessir aðilar standi skil á fullum greiðslum 16. mars eins og til stóð en nýti ekki þá heimild sem í frumvarpinu felst.

Herra forseti. Meiri hlutinn leggur síðan til nokkrar tæknilegar breytingar á ákvæðum þannig að skýrt verði kveðið á um dagsetningar. Þá er lagt til að orðalag 2. gr. frumvarpsins verði samræmt 2. málslið 1. mgr. 10. gr. laga um tryggingagjald. Breytingunum er ætlað að auka skýrleika ákvæðanna en er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif á frumvarpið.

Eins og fyrr segir er þetta frumvarp fyrsta skref í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að bregðast við þeim vanda sem að steðjar. Það er mikilvægt að frumvarpinu verði fylgt eftir með markvissum aðgerðum sem styðji við tilgang þess og tryggi eins og frekast er unnt að markmið þess um að draga verulega úr neikvæðum áhrifum heimsfaraldursins og verja íslenskt efnahagslíf náist.

Herra forseti. Aðeins út fyrir þetta nefndarálit. Að gefnu tilefni þá hygg ég að ég geti talað fyrir hönd allra í efnahags- og viðskiptanefnd þegar við segjum: Við munum hafa gott og náið samstarf við ríkisstjórnina og við ætlumst til þess að til okkar sé leitað og við fáum að taka þátt í að móta þær tillögur og þær aðgerðir sem gripið verður til.

Hv. þingmenn Smári McCarthy og Þorsteinn Víglundsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara sem þeir hyggjast gera grein fyrir í ræðu hér á eftir. En undir þetta álit skrifa hv. þingmenn Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Birgir Þórarinsson, Smári McCarthy, með fyrirvara, Ólafur Þór Gunnarsson, Þorsteinn Víglundsson, með fyrirvara, og Willum Þór Þórsson.



[14:31]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að fagna því sérstaklega sem hv. þm. Óli Björn Kárason sagði áðan. Hann sagði nákvæmlega það sem við í Viðreisn lögðum áherslu á á formannafundinum í gær, að það yrði virkt og öflugt samband við þingið. Við eigum öfluga einstaklinga innan bæði efnahags- og viðskiptanefndar og fjárlaganefndar sem eiga að vera bæði stuðningur við ríkisstjórnina, ráðgjafi hennar og samtalsaðili. Ég fagna sérstaklega þessum orðum formanns nefndarinnar af því að ég tel þau mikilvæg.

Ég verð að segja í fyllstu einlægni, herra forseti, að ég hef óttast að allt þetta tal ríkisstjórnarinnar væri innihaldslaust þus. Það sem af er þessu kjörtímabili höfum við ekki haft góða reynslu af því að efla þingið, efla samtalið, efla þingsköpin og samstarf þings og löggjafarvaldsins annars vegar og framkvæmdarvaldsins hins vegar. Það hefur ekki verið fram til þessa og þess vegna skiptir máli að við höldum áfram þannig á spilunum að við vinnum saman í þessu, að við stöndum saman, því að það er auðvelt að fara aðrar leiðir. Við erum með 360.000 veirusérfræðinga í landinu þessa dagana. Ég undirstrika það að í dag styðjum við að sjálfsögðu og hlustum á það sem okkar góða þríeyki segir, Alma, Þórólfur og Víðir.

Ég fagna þessu en fyrst ég er komin hingað upp langar mig að spyrja hv. þingmann eins af því að ég er ekki í nefndinni. Hv. þingmaður segir: Mikilvægt er að fylgja þessari leið eftir til að tryggja tilgang frumvarpsins. Telur hann að hægt hefði verið að fara fleiri leiðir við þessa útfærslu til þess að tryggja ekki bara stóru fyrirtækjunum ákveðið svigrúm heldur ekki síður (Forseti hringir.) litlu og meðalstóru fyrirtækjunum?

(Forseti (SJS): Forseti leyfir sér að segja að hann lítur svo á að allir hv. þingmenn séu öflugir, ekki bara nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[14:33]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég skildi hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur þannig að við værum töluvert öflugri í efnahags- og viðskiptanefnd en kannski aðrir. En látum það liggja á milli hluta. (Gripið fram í: Þetta er nú bara fundarstjórn.) [Hlátur í þingsal.] Þegar við erum að glíma við vanda, sem ég held að við séum öll sannfærð um eða vonumst til að sé tímabundinn, reynir á að við getum unnið saman. Ég hygg að það sé farsælast til niðurstöðu ef við náum að sameinast en það kallar líka á að við berum gæfu til að fara ekki á uppboðsmarkað, að við séum ekki í kapphlaupi hvert við annað að bjóða betur. Það á við um ríkisstjórnarflokkana og það á líka við um stjórnarandstöðuna. Freistnivandinn fyrir okkur, bæði í ríkisstjórn og stjórnarandstöðu, er til staðar. Þess vegna skiptir máli að við vöndum okkur og náum eins góðri samstöðu og hægt er.

Spurt er hvort einhverjar aðrar leiðir hafi komið til umræðu. Já, það var tekist á um það í nefndinni. Ég taldi ekki hægt með þeim tímaramma og þeirri tímapressu að gera annað en að fara fram með frumvarpið með þeim hætti sem ber hér að með mjög skömmum fyrirvara, eins og allir þingmenn vita. Við þurfum að afgreiða þetta mál hér í dag og gera að lögum. Ég vonast til þess að við getum það þó að það sé núningur og þótt menn geti haft mismunandi skoðanir. Sjálfur hefði ég kannski farið örlítið aðra leið, ég ætla ekki að rekja það, en ég sætti mig við þessa leið. Ég hygg að þegar Samtök atvinnulífsins segja að þetta sé gott fyrsta skref og ríkisskattstjóri segir að þetta gangi upp og (Forseti hringir.) að svona sé best að gera þetta sé skynsamlegt að halda áfram. Við erum að búa til svigrúm til að takast á við vandann til framtíðar.



[14:36]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er mikilvægt að taka á vandanum þannig að við bjóðum upp á einhverjar framtíðarlausnir sem geri Ísland sterkara þegar við erum komin upp úr þessum öldudal og þá um leið samkeppnishæfara og kannski vonandi feti framar en önnur lönd til að takast á við ýmsar áskoranir. Ég undirstrika að samráðið má ekki vera einhliða. Samráðið má ekki bara felast í því að stjórnarandstaðan komi hingað og segi: Við verðum að standa saman, og stjórnin sjálf komi og segi: Við þurfum að standa saman, og það felist bara í því að ríkisstjórnin komi með einhliða tillögur og ekkert samtal eða samráð sé í gangi.

Af hverju er ég að segja þetta? Til að koma í veg fyrir upphlaup sem getur ekki bara verið uppboðsmarkaður af hálfu stjórnarandstöðu eða tiltekinna flokka þar, heldur er það ekki síður innan stjórnarflokkanna sem ég óttast að menn fari í eitthvert uppboðskapphlaup.

Ég brýni bæði formann efnahags- og viðskiptanefndar og aðra stjórnarþingmenn til að muna það, og alla þingmenn hér inni, að samtalið skiptir máli. Ef við virðum það ekki getur fjandinn orðið laus. Þetta er einfaldlega brýning mín til hv. þingmanns sem ég fagnaði sérstaklega að sagði áðan að hann óskaði eftir meira samtali, eins og ég skildi hann, við fjármálaráðherra og eftir atvikum ríkisstjórnina. Það er öflugt fólk, hvort sem það er öflugra eða ekki, í efnahags- og viðskiptanefnd sem og í fjárlaganefnd og þeim nefndum sem þurfa að takast á við hin ýmsu flóknu viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir. Það er enginn hér inni, sama hvaða flokki hann tilheyrir, fullyrði ég, sem mun draga eitthvað af sér við það að leysa flókin viðfangsefni samtímans.



[14:38]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé akkúrat rétt sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði, það er nefnilega freistnivandi hjá báðum. Ég hygg að ég hafi sagt að það sé freistnivandi hjá okkur sem erum í ríkisstjórn og líka hjá stjórnarandstöðunni að fara á einhvers konar uppboðsmarkað. Ég vara við því. Ég tek undir með hv. þingmanni, ef við berum gæfu til að vinna dálítið þétt saman og taka höndum saman mun okkur takast að leysa það verkefni sem við þurfum að leysa. Það breytir ekki því að við eigum eftir að takast á um ýmislegt. Við verðum örugglega ekki sammála um allar þær aðgerðir sem grípa þarf til. Það er eðlilegt að við tökumst á, en við getum engu að síður unnið saman og komist vonandi að sameiginlegri niðurstöðu í sem flestum málum. Sum þeirra verða mjög erfið, það þarf að taka erfiðar ákvarðanir og þá reynir á að við höfum kjark, þor og pólitískt bein til að taka þær ákvarðanir.



[14:39]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Þann minni hluta skipa sú sem hér stendur, fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni. Frumvarpinu er ætlað að bregðast við skyndilegum og ófyrirséðum efnahagsvanda vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Heimild er veitt fyrirtækjum að fresta helmingi greiðslna tryggingagjalds og staðgreiðslu skatta. Er mikilvægt að markmiðið með öllum þeim aðgerðum sem stjórnvöld grípa til verði að lágmarka efnahagslegan skaða sem faraldurinn hefur í för með sér og að samfélagið eigi möguleika á að rétta hratt úr kútnum þegar faraldurinn hefur gengið yfir.

Í þessu nefndaráliti nefnir fulltrúi Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd nokkrar leiðir sem skoða ætti til minnka þann skaða sem heimilin og fyrirtækin í landinu verða fyrir á meðan heimsfaraldur og efnahagslægð varir. Við styðjum frumvarpið en viljum með nefndarálitinu leggja áherslu á að þessi aðgerð ein og sér dugar ekki. Það er mikilvægt að fleiri aðgerðir verði boðaðar útfærðar svo skýrt verði hvað tekur við.

Gjalddagi virðisaukaskatts er 5. apríl og minni hlutinn vill að skoðað verði að heimila einnig frestun á þeirri greiðslu.

Ásamt því að fresta greiðslu opinberra gjalda sem fyrirtæki eiga að standa skil á er mikilvægt að fyrirtæki fái atvinnuleysisbætur fyrir að halda fólki í hlutastörfum.

Bankar þurfa að sýna stöðunni skilning og veita sveigjanleika. Mikilvægt er að fyrirtæki verði ekki keyrð í þrot meðan faraldurinn gengur yfir. Bankarnir þurfa að hafa getu til að koma til móts við fyrirtæki, svo sem með skammtímalánum eða greiðslufresti.

Lágir vextir og aukin ríkisútgjöld til opinberra fjárfestinga munu einnig verða til þess að flýta viðsnúningi.

Samhliða því að stjórnvöld leiti leiða til að vinna gegn atvinnuleysi með aðgerðum sem létta fyrirtækjum stöðuna þarf að huga að fólki sem þrátt fyrir þær aðgerðir missa vinnuna. Minni hlutinn vill að þeim tilmælum verði beint til banka og lífeyrissjóða að veita atvinnulausum frest til að greiða vexti og afborganir af húsnæðislánum. Hugsanlega getur ríkið beitt eigendastefnu til að hafa áhrif á þá stöðu. Mikilvægt er einnig að skoða möguleika á því að lækka tímabundið yfirdráttarvexti. Þá þarf að auðvelda fólki að endurfjármagna húsnæðislán en slík aðgerð mun skila sér í lægri greiðslubyrði heimilanna.

Samstarf við sveitarfélög gæti einnig leitt til þess að fasteignagjöld verði lækkuð eða greiðslum frestað hjá fólki sem missir vinnuna.

Minni hlutinn telur afar brýnt að hækka atvinnuleysisbætur nú vegna þess að þær eru í sögulegu lágmarki miðað við lágmarkslaun. Einnig ætti að taka til skoðunar að hækka greiðslur Tryggingastofnunar í samræmi við lágmarkslaun. Dæmi eru um ríki sem hafa farið þá leið að hækka greiðslur til lífeyrisþega og atvinnulausra í niðursveiflu, m.a. til að auka eftirspurn í hagkerfinu.

Tryggja þarf fólki laun sem þarf eða hefur þurft að fara í sóttkví. Forsætisráðherra hefur boðað að lagt verði fram frumvarp í þá veru og slíka aðgerð styður minni hlutinn.

Á meðan faraldurinn gengur yfir verður fjölmennum viðburðum frestað. Tilkynningar um frestun árshátíða, tónleika og annarra skemmtana hafa verið margar og nú hefur samkomubann verið boðað. Starfsfólk í þeim geirum sem verða af tekjum vegna þessa er oft ekki í þeirri stöðu að ganga að sjúkrasjóðum eða öðrum sjóðum vísum. Sjálfstætt starfandi fólk á ýmsum sviðum missir viðurværi vegna minni eftirspurnar eða vegna veikinda eða einangrunar. Til að leysa þennan tímabundna vanda ætti að setja á stofn sjóð sem sækja mætti í til þess að tryggja afkomu þess hóps sem annars stendur berskjaldaður.

Mikilvægt er að meta áhrif aðgerða stjórnvalda á mismunandi hópa samfélagsins og greina áhrifin eftir kynjum. Konur eru fjölmennari en karlar í þjónustustörfum. Líklegt er að á næstunni muni einkaneysla dragast saman og störfum í þjónustugeiranum fækka samhliða. Fjölgun starfa í vegagerð og byggingariðnaði mun því ekki duga ein og sér.

Forseti. Það er nauðsynlegt að stjórnvöld fylgist með því hvort útflutningsfyrirtæki flytji gjaldeyrishagnað af viðskiptum sínum heim. Hugsanlega eykst hvati hjá þeim sem ekki treysta á krónuna til að flýja í aðra stöðugri gjaldmiðla. Slíkt gæti fellt krónuna hratt og orðið til áhlaups á hana með slæmum afleiðingum fyrir heimilin og samfélagið allt. Við slíkri hættu verða stjórnvöld að vera búin og tilbúin til að grípa til aðgerða.

Að lokum þetta. Við glímum ekki aðeins við afleiðingar Covid-19 á heilsu fólks og efnahag heldur glímum við einnig við niðursveiflu í hagkerfinu sem faraldurinn gæti gert enn dýpri.

Í þessari stöðu verðum við að verja velferðarkerfið, vinna gegn atvinnuleysi og styðja við atvinnulífið og rekstur heimila í landinu. Gæta þarf að því að enginn gleymist þegar aðgerðir stjórnvalda eru ákveðnar. Samráð við stjórnarandstöðuna á Alþingi, heildarsamtök á vinnumarkaði og við sveitarfélög er nauðsynlegt og grundvöllur góðs árangurs og sáttar.



[14:45]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Við í Viðreisn styðjum allar aðgerðir sem gripið verður til til að létta undir með atvinnulífinu í þeirri stöðu sem nú er uppi. Ég get hins vegar ekki annað en sagt, eins og ég kom að í máli mínu líka í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra áðan þegar mælt var fyrir málinu, að ég tel að það hefði þurft að ganga lengra. Tekist var á um þetta, m.a. í umræðum í efnahags- og viðskiptanefnd. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar kom inn á það í máli sínu að hann vildi ekki efna til einhverra pólitískra yfirboða. Þetta snýst ekkert um það. Fyrir það fyrsta er auðvitað mjög mikilvægt að ríkisstjórn sem boðar samráð stundi samráð en komi ekki með mál svo seint inn í þingið að skilaboðin séu að hér sé ekkert svigrúm til annars en að samþykkja það sem lagt er fyrir. Það er ekkert svigrúm eða tími til neinnar efnislegrar umræðu. Við megum alls ekki hrófla með neinum hætti við þessu því að þá fellur málið um sjálft sig af tímaskorti. Það eru ekki boðleg vinnubrögð í samráði og rétt að minna á að ríkisstjórnin sjálf boðaði á blaðamannafundi, sem var heldur innihaldsrýr, á þriðjudaginn var aðgerðir einmitt í þá veru að veita gjaldfresti. Það var nægur tími til að hafa fullt samráð við minni hlutann til að eiga vandað samtal um það til að tryggja að aðgerðin sem gripið er til núna, sem er sú fyrsta sem raunverulega hönd á festir, sem einhver áhrif hefur sem gripið er til, myndi duga til.

Ég minni líka á orð hæstv. fjármálaráðherra og fjölmargra sem rætt hafa hér í þessari umræðu: Tryggjum að við gerum frekar of mikið en of lítið í fyrstu lotu.

Ég hef sjálfur staðið í þeim sporum í svona kringumstæðum að reka fyrirtæki þar sem sjóðstreymið er að þorna upp hraðar en nokkurn órar fyrir, að þurfa að hafa áhyggjur af því að geta borgað laun um næstu mánaðamót, að þurfa að hafa áhyggjur af því hvernig eigi að standa skil á reikningum, hvernig eigi að standa skil á opinberum gjöldum, rimlagjöldum sem háar sektir og viðurlög eru við að greiða ekki. Þess vegna hefði ég viljað ganga lengra í þessum efnum.

Ég ætla hins vegar ekki, eða við í Viðreisn, í einhver pólitísk yfirboð hér með því að leggja fram breytingartillögu. Það er augljóst að enginn vilji var til þess af hálfu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar að ræða einhverjar mögulegar aðrar útfærslur á þessu máli sem gætu komið sér betur, sérstaklega fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Ég segi enn og aftur: Ég sakna þess að ríkisstjórnin sýni skýrt að hún átti sig á alvarleika stöðunnar sem við erum að glíma við, að hún átti sig á hversu bráður þessi vandi er. Þetta eru fyrirtæki úti um allt atvinnulíf, lítil og meðalstór fyrirtæki sér í lagi, sem eru einfaldlega í lífróðri þessa dagana. Þau eru að berjast fyrir lífi sínu. Þau eru að taka ákvarðanir um það hvort þau þurfi að fara í víðtækar uppsagnir eða jafnvel gjaldþrot. Við erum þegar farin að heyra fréttir af fyrstu gjaldþrotunum.

Við þær kringumstæður eigum við hér að gera allt sem við getum til að létta undir. Þetta er bráðabirgðaráðstöfun til eins mánaðar. Ég tel að við hefðum getað sýnt meiri metnað, við hefðum getað gengið lengra og mér þykir miður að við höfum ekki notað það tækifæri því að það er stærsta tækifærið sem við höfum til að liðsinna atvinnulífinu og núna getum við sagt í það minnsta næsta hálfa mánuðinn eða mánuðina. Þess vegna kalla ég eftir því að ríkisstjórnin stundi betri vinnubrögð, komi tímanlegar með málin inn í þingið og hafi betra samráð við minni hlutann á þingi þannig að við getum einmitt með góðri samvisku staðið saman að þeim ákvörðunum sem hér eru teknar og getum sameiginlega tryggt að þær gangi nægjanlega langt.



[14:50]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þegar vá stendur fyrir dyrum er nauðsynlegt að við sýnum ákveðna samstöðu og samvinnu og reynum að vinna vel úr málum, eins vel og hægt er hverju sinni. Viðbrögð við þessari veiru eru af tvennu tagi, annars vegar er heilbrigðishliðin sem snýst um að tryggja að heilbrigðiskerfið virki og að almannavarnir geti sinnt sínu hlutverki og sömuleiðis að grípa til nauðsynlegra aðgerða þegar þeirra er þörf. Það hefur m.a. verið sýnt í dag. Sú hlið hefur gengið býsna vel. Hins vegar er efnahagslega hliðin sem snýst um að verja fyrirtækin og heimilin í landinu og passa upp á að allt muni áfram ganga vel, bæði í gegnum veirutímabilið en líka þegar því lýkur. Nú er þetta ágæta frumvarp komið og það er auðvelt að styðja það. Þetta er eðlileg og góð aðgerð í rétta átt. Það er líka auðvelt að reyna að bjóða betur, það er auðvelt að detta í einhvern popúlískan ham og reyna að þykjast vera með betri lausn sem snýst um hærri tölur, lengri fresti o.s.frv. Ég ætla ekki að detta í þann ham en vil samt benda á að hluti af markmiðinu sem við hljótum öll að hafa hér er að samvinnan sem við þurfum að sýna gangi í allar áttir, að ríkisstjórnin komi til allra og tali við alla á þinginu um hvað sé best að gera, hvaða hugmyndir séu í boði, að leitast sé við að útfæra bestu mögulegu hugmyndir hvers tíma en ekki bara þær sem er hægt að kokka upp á einni kvöldstund í fjármálaráðuneytinu. Ég er ekki að segja að þetta séu vondar hugmyndir. Þetta er fín lausn í bili og kaupir tíma til að koma með stærri, betri og nákvæmari aðgerðir í næstu viku.

Ég vil biðla til ríkisstjórnarinnar um að fara að hafa minni hlutann á þingi í samráði um hvað skuli gera næst og ekki síst að horfa til þeirra ákvarðana sem önnur lönd eru að taka. Rétt í þessu var boðað til töluverðra aðgerða í Þýskalandi sem m.a. var lýst sem „basúku“ af fjármálaráðherra landsins. Ég veit ekki hvort það eru endilega bestu mögulegar aðgerðir. Ég get ekki sagt að ég hafi verið neitt rosalega ánægður með aðgerðir Þýskalands á heilbrigðissviðinu til þessa þannig að ég veit ekki hvort fjármálahliðin sé endilega sú rétta, en ef við erum ekki opin fyrir þeim möguleikum sem eru í boði, ef við erum ekki opin fyrir því að ræða alla möguleika, ef við erum ekki líka tilbúin að skoða hvort tilteknar prósentur og tilteknar aðgerðir séu þær réttu á hverjum tíma, er hætt við því að við missum af einhverjum tækifærum. Og núna megum við ekki við því að missa tækifæri. Núna verðum við að standa okkur vel með því að horfa opið á möguleikana sem eru fyrir hendi, hlúa að heilbrigðishliðinni, hlúa að efnahagskerfinu og í öllu falli koma sterkari undan þessu öllu ef við mögulega getum.

Síðasti punkturinn minn er að það er ákveðin hætta á að fólk hlaupi í vörn, pakki saman þegar svona stendur á, en ég held að við ættum á efnahagslegu hliðinni að reyna að nota þetta sem tækifæri til að geta gert betur en við hefðum annars gert. Það er ákveðinn vandi við að reyna að búa til tækifæri úr alvarlegum vandamálum en samstaða getur skilað alveg merkilega miklu. Við skulum láta reyna á hana.



[14:54]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Miðflokkurinn styður þetta mál. Það er gott, svo langt sem það nær. Miðflokkurinn er á nefndaráliti meiri hlutans og það er jákvætt sem kom fram á fundi nefndarinnar fyrir skömmu, að Samtök atvinnulífsins eru ánægð með frumvarpið. Maður spyr óneitanlega hvort þessi aðgerð dugi. Dugar þetta litlum og meðalstórum fyrirtækjum? Það var svolítið sérstakt innan nefndarinnar að það gætti pirrings hjá formanni nefndarinnar yfir því að við ræddum hugmyndir og aðrar útfærslur, hvort þetta dygði o.s.frv. Ég tek undir það sem hv. þm. Þorsteinn Víglundsson sagði þegar hann rakti þetta mál hér aðeins áðan, að í svona máli sem er gríðarlega mikilvægt að full samstaða ríki um og skili þeim árangri sem stefnt er að er fullkomlega eðlilegt að menn geti reifað ýmsar útfærslur á málinu innan nefndarinnar án þess að formaður og meiri hlutinn sé pirraður yfir því og vilji í raun og veru ekki ræða málið frekar. Það finnst mér ekki gott veganesti inn í það sem fram undan er. Hér eru mörg mál sem á eftir að ræða eins og fram hefur komið, aðstoð þegar kemur að atvinnulausum og þeim sem eru að missa vinnuna, virðisaukaskattsmál og annað slíkt. Það eru fjölmörg mál sem á eftir að ræða í þessu samhengi og mér finnst þetta ekki byrja nógu vel, a.m.k. eins og ég upplifði á nefndarfundi efnahags- og viðskiptanefndar áðan.

Vonandi verður breyting á því. Hv. formaður nefndarinnar, Óli Björn Kárason, boðaði í ræðu sinni áðan að að hann myndi beita sér fyrir samstarfi við minni hlutann. Ég ætla rétt að vona að það standi þá, að það séu ekki bara falleg orð sem sögð eru og síðan þegar kemur að því að standa við þau verði menn pirraðir, æstir og reiðir yfir því að menn komi með einhverjar hugmyndir. Það eru ekki þau vinnubrögð sem við eigum að viðhafa hér í svona stóru máli og það eru ekki þau vinnubrögð sem þjóðin vill sjá. Við eigum að koma með sameiginlegar lausnir sem allir geta verið sáttir við og duga til að mæta þeim fordæmalausu aðstæðum sem við stöndum frammi fyrir. Auðvitað eru allir af vilja gerðir til að gera sitt besta í þeim efnum.

Miðflokkurinn leggur áherslu á að þetta er tímabundin aðgerð. Það þarf varanlegar aðgerðir sem við eigum öll að standa að og það á að eiga samráð við alla flokka í öllum aðgerðum. Þetta er að okkar mati ágætt fyrsta skref eins og sagt er. Við megum þó ekki gleyma því, herra forseti, og það ber að hafa í huga að miðað við óbreytt ástand verður ekkert auðveldara að borga síðar. Verður eitthvað auðveldara að borga 1. apríl en á gjalddaganum 1. mars? Það er það sem blasir við. Ég held nefnilega einmitt að þá sjáum við að eitt af þessum brýnu verkefnum er núna að koma okkur af ferðabannslista Bandaríkjanna sem er alveg ótrúleg aðgerð af vinaþjóð okkar í Atlantshafsbandalaginu sem við eigum varnarsamstarf við. Hver dagur í þeim efnum er okkur gríðarlega dýr þannig að það er forgangsmál að reyna að koma okkur af þeim lista. Ég vænti þess að utanríkisráðherra beiti öllum sínum ráðum í þeim efnum í næstu viku þegar hann kemur til með að hitta utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Ég vil líka nefna í þessu sambandi að fylgjast mjög vel með stöðu krónunnar og genginu. Það er mikilvægt að bregðast við ef sýnt þykir að gengið muni falla óeðlilega hratt, að við grípum inn í það vegna þess að það hefur áhrif á heimilin í landinu, gerir það að verkum að lán landsmanna hækka, fer út í verðlagið o.s.frv. og þá erum við komin út í hluti sem við viljum alls ekki sjá.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, að það verði gott samstarf við stjórnarandstöðuna í þessum efnum. Við í Miðflokknum erum tilbúin í allt samstarf. Við höfum góðar hugmyndir og vonandi verður hlustað á okkur í þeim efnum.

Ég vil aðeins að lokum, herra forseti, koma inn á það sem stendur í nefndarálitinu og formaður nefndarinnar, hv. þm. Óli Björn Kárason, nefndi í ræðu sinni. Neðarlega í nefndarálitinu er vikið að hvötum fyrir þau fyrirtæki að borga á mánudaginn sem geta það. Það er mikilvægt í mínum huga að þau fyrirtæki sem geta borgað geri það. Ég hefði viljað sjá einhvers konar útfærslu hvað þetta varðar, einhvers konar hvata til þessara fyrirtækja vegna þess að það munar að sjálfsögðu um að þetta komi inn í ríkissjóð á réttum tíma.

Að öðru leyti styðjum við í Miðflokknum þetta mál og leggjum áherslu á að hér er jákvætt fyrsta skref í aðgerðum sem þarf að ríkja samstaða um og þarf að skila tilætluðum árangri.



[15:00]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að taka undir með samflokkskonu minni, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, þar sem hún gerði grein fyrir okkar sjónarmiðum. Þau verkefni sem við teljum að þurfi að fara í eru ekki tæmandi en þau gefa vísbendingu um að við erum tilbúin með hugmyndir og lausnir og leggjum áherslu á hvert sjónum verður beint þegar aðgerðirnar verða tilkynntar og samþykktar. Ég vil líka taka undir með öðrum þeim þingmönnum sem hér hafa rætt um mikilvægi samráðs. Þeir flokkar sem sitja í stjórnarandstöðu hafa á bak við sig tæplega helming kjósenda og í lýðræðissamfélagi eins og við þekkjum það hefur minni hlutinn líka sín áhrif. Við höfum í sjálfu sér fengið góð loforð frá formönnum ríkisstjórnarflokkanna fyrir því að það verði gert. Við verðum að sjá um að því verði fylgt eftir af heilum hug og það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Þorsteins Víglundssonar, þá verður það líka að vera með þeim hætti að það virki ekki eins og upplýsingaskylda heldur gefist nægt ráðrúm til að fjalla um og varpa mismunandi ljósi á þær tillögur sem vissulega koma oftast þá frá ríkisstjórninni.

Hv. þm. Þorsteinn Víglundsson vitnaði til orða hæstv. fjármálaráðherra um að nú dugi kannski að gera meira en minna. Að vissu leyti getur það verið rétt en að öðru leyti lýsir það því hversu viðkvæm staðan er vegna þess að við höfum heldur ekki ótæmandi sjóði og þurfum þess vegna að passa okkur á að þær aðgerðir sem ráðist verður í verði markvissar og beinist að þeim og til þeirra sem þurfa virkilega á þeim að halda. Ég er ekki viss um að öll fyrirtæki í landinu, risafyrirtæki okkar í sumum atvinnugreinum, þurfi kannski jafn nauðsynlega á því að halda að fá afslátt af tryggingagjöldum og lítil og meðalstór fyrirtæki þurfa vissulega.

Ég þekki líka ágætlega, eins og hv. þingmaður, að reka fyrirtæki sem var lítið í viðkvæmum geira í gegnum hrun þannig að ég þekki að þá þarf að grípa með máttugum hætti inn í. Þess vegna styð ég þetta frumvarp, það er einungis frestur í nokkra daga til að koma með heildstæðari, betri og markvissari lausnir sem við þurfum helst að koma öll að. Þetta frumvarp er ekkert ósvipað því og að við sendum Vegagerðina út á land til að ryðja veg og í stað þess að ýta snjónum út af veginum ýtti hún skaflinum á undan sér. Það getur verið nauðsynlegt til að komast yfir eina heiði en eftir mánuð bíður okkar þessi skafl sem hefur stækkað vegna þess að þeim áhrifum mun fjölga sem þetta efnahagshögg hefur á okkur.

Á síðustu dögum er mikið búið að tala um áhrifin á ferðaþjónustuna. Við megum ekki gleyma því að ekki er þannig að atvinnugreinar í landinu keyri einhvers konar samhliða brautir og séu ekki tengdar. Höggið sem ferðaþjónustan fær kannski fyrst núna er í veitinga- og þjónustugeiranum og hjá listafólki. Það er mikilvægt að greiða úr aðstæðum þess fólks. Það mun fljótt hafa áhrif á aðrar greinar, smiðir þurfa að mæta upp á hótelin og laga hótelherbergin, þvottahús þurfa að þvo línið, hönnuðir þurfa að halda áfram með verkefni og svo má lengi telja þannig að við erum einfaldlega að glíma við aðstæður þar sem áhrifin munu mjög fljótt ná út í allar greinar atvinnulífsins. Þannig þurfum við að hugsa þetta en við þurfum líka að passa okkur að taka hugmyndina um að gera meira en minna ekki það langt að við sóum fjármunum. Við verðum að beina fjármununum til þeirra hluta sem virkilega þurfa til að koma okkur í gegnum þennan skafl. Þar eigum við ekki síst að tala um það fólk sem hér stendur höllustum fæti, heimilin í landinu sem verða fyrir miklu höggi.

Að því sögðu mun ég ásamt öðrum í stjórnarandstöðunni halda því fast á lofti að við höfum ýmislegt fram að færa. Við getum og viljum vinna með ríkisstjórn að þessu erfiða verkefni en til þess verður ríkisstjórnin að virða loforð sín um að hafa okkur með.