150. löggjafarþing — 76. fundur
 17. mars 2020.
aðstoð við skjólstæðinga TR.

[13:55]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í þeirri ótrúlegu stöðu sem þjóðfélag okkar er í í dag vegna Covid-19 veirunnar hef ég enn miklar áhyggjur af þeim sem verst eru settir í okkar þjóðfélagi, af fólki sem er í þeirri skelfilegu stöðu að hafa áhyggjur af stöðu sinni vegna veirunnar og þeirrar staðreyndar að það hefur ekki nægan lífeyri frá TR til að standa undir matvælakaupum og öðrum nauðsynjum. Ég spyr því hæstv. félags- og barnamálaráðherra eftir umræðu okkar í síðasta óundirbúna fyrirspurnatíma, og ég vona heitt og innilega að hann sé ekki að fela sig undir pilsfaldi sveitarfélaganna með því að setja allt á þau: Sveitarfélögin eiga að sjá um sína skjólstæðinga en skjólstæðingar hæstv. félags- og barnamálaráðherra eru þeir sem fá greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og þeir sem þar eru undir eru líka með börn og það er hans ráðuneytis að sjá um að það gangi vel.

Ég spyr um Mæðrastyrksnefnd, Hjálparstarf kirkjunnar og Fjölskylduhjálp Íslands. Ætlar ríkisstjórnin að styrkja þessa aðila til þess að þeir geti haldið úti matargjöfum og staðið undir því sem þarf að gera?

Síðan er annað sem hefur gleymst og það eru þeir einstaklingar sem eru úti á landi. Nafli heimsins er ekki hér í Reykjavík. Það er fólk úti á landi sem fær bætur frá Tryggingastofnun ríkisins, öryrkjar og eldri borgarar, sem hefur ekki tækifæri til að hafa samband út af matvælaaðstoð. Hvað á að gera fyrir það fólk? Ég spyr: Tekur hann ekki undir það að við virkjum Mínar síður hjá Tryggingastofnun ríkisins? Gerum það þannig að fólk sem hefur áhyggjur, og veit hvernig á að fara þangað inn, getur farið þangað inn, geti komið áhyggjum sínum á framfæri. Ætlar hann að sjá til þess að styrkja þessa einstaklinga sem þurfa virkilega á því að halda, hvort sem það er fyrir matvælum, lyfjum eða öðru, til að bjarga sér á þessum tímum? Við erum að hjálpa þeim sterku sem eru í fjármálakerfinu. En við megum ekki gleyma þessu fólki.



[13:57]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Allir þeir málaflokkar sem heyra undir félagsmálaráðuneytið snúa að hópum sem eru í mjög viðkvæmri stöðu og þarfnast í rauninni sérstakrar umgjarðar. Það er ánægjulegt frá því að segja að við höfum verið að vinna að þessu síðustu sólarhringa, og ég kynnti það m.a. fyrir velferðarnefnd í gær, með hvaða hætti við ætluðum að ná utan um þetta verkefni. Hv. þingmaður nefndi einn hóp sem sannarlega þarf að vakta og líka allt í kringum landið miðað við það að aðstæður geta átt eftir að þyngjast talsvert meira áður en fer að létta til. Þess vegna gengum við frá því formlega í morgun, þ.e. félagsmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarstjórnarráðuneytið, að setja upp sérstakt viðbragðsteymi sem leitt verður af þessum þremur aðilum, með starfsfólki frá öllum þessum aðilum, samhliða bakvarðasveit sem er verið að setja af stað þannig að hægt verði að kalla út bakverði í félagsþjónustu fyrir þessa viðkvæmu hópa og að tekið sé frá fjármagn í sérstakan viðbragðssjóð til að bregðast við.

Í þessum hópi verða fulltrúar sveitarfélaga vegna þess að við verðum að hafa sveitarfélögin með. Þar er nærþjónustan, m.a. allt í kringum landið af því að þingmaðurinn talaði um landsbyggðina. Þetta viðbragðsteymi mun funda í fyrsta skipti á morgun. Í þessari vinnu munum við tengja alla þá hagsmunaaðila sem tengjast inn í þennan málaflokk, hvort sem það er Öryrkjabandalagið, Þroskahjálp, Landssamband eldri borgara, sveitarfélögin allt í kringum landið eða önnur af þeim fjölmörgu félagasamtökum sem sinna mikilvægum störfum í íslensku samfélagi. Það mun svo sannarlega reyna á það næstu vikurnar hvernig okkur tekst að halda utan um þetta í sameiningu. Þetta verður áskorun en við ætlum í gegnum þetta og við ætlum í gegnum þetta í góðu samstarfi við alla þessa aðila og líka við velferðarnefnd þingsins eins og ég áréttaði á fundi mínum með nefndinni í gær.



[13:59]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin og ég styð hann heils hugar í þessu og vona heitt og innilega að þetta komist til framkvæmda og það fljótt. Við verðum líka að horfa aftur í tímann og horfa á söguna. Hvernig var í hruninu? Hverjir voru skildir eftir? Það var þessi hópur. Hann var skertur um 10% en fékk það ekki leiðrétt. Hann er eini hópurinn sem ekki hefur fengið það leiðrétt afturvirkt alla tíð síðan þá. Og þetta er eini hópurinn sem hefur verið lofað aftur og aftur að króna á móti krónu skerðing færi. Það eru enn 65 aurar á móti krónu. Þetta er hópurinn sem hefur verið svikinn hingað til og ég vona svo heitt og innilega að við tökum höndum saman núna og sjáum til þess að sá hópur fái þá þjónustu sem hann á að fá og fái það réttlæti núna.

Ég vil líka fá svar: Ætlar ríkisstjórnin að styrkja þær hjálparstofnanir sem eru með matvælaúthlutun? Ætlar hún að styrkja þær fjárhagslega þannig að fólk geti fengið útbýtt d-vítamíni, c-vítamíni, lýsi og því sem þetta fólk þarf nauðsynlega á að halda og er sennilega ekki oft á innkaupalista þess?



[14:01]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan erum við að setja upp þetta viðbragðsteymi sem ætlunin er að hefjist strax handa á morgun við að fara yfir fjölmörg atriði sem þegar eru byrjuð að koma upp og eru að koma upp daglega í einstaka sveitarfélögum, hjá einstaka hópum, og skipuleggja með hvaða hætti verði brugðist við. Í því sambandi sagði ég líka að við myndum taka til hliðar ákveðið fjármagn til að tryggja að enginn yrði skilinn eftir í þeim áskorunum sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir.

Þannig að svar mitt við þessari fyrirspurn er: Við erum búnir að setja þetta formlega samstarf af stað. Menn munu hefjast handa strax á morgun. Í framhaldinu munu þessar áskoranir verða teknar fyrir. Varðandi það hvernig þær verða leystar þá treysti ég á að allir þeir fjölmörgu aðilar sem munu þarna leggja í púkkið muni komast að því hvaða lausn sé best. Síðan eru sveitarfélögin og ríkisvaldið tilbúin til þess að veita fjármagn ef á þarf að halda og þá í afmörkuð atriði sem ég treysti að komi út úr þessari vinnu. Þetta er eitt þeirra atriða.