150. löggjafarþing — 79. fundur
 20. mars 2020.
störf þingsins.

[10:32]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Á þessum tímum erum við í aðstæðum sem við þekkjum eiginlega ekki. Þetta eru aðstæður sem við verðum þó að takast á við og þess vegna erum við komin í þá stöðu nú að við getum ekki talað um mig og þig, ég og þú, heldur erum við öll í þessum aðstæðum. Við verðum að taka höndum saman og sérstaklega eins og staðan er í dag gagnvart þeim sem minnst mega sín í þessu samfélagi, fólki með undirliggjandi sjúkdóma, þeim sem verst hafa haft það vegna fátæktar í okkar samfélagi.

Mæðrastyrksnefnd hefur opnað aftur og Fjölskylduhjálp Íslands er byrjuð að dreifa matarbökkum. Það er verið að hjálpa og það er verið að gera góða hluti, en meira þarf til. Það þarf líka að hjálpa fólki úti á landsbyggðinni því að þar er stór hópur sem einnig þarf hjálpar við. Við þurfum að passa upp á að óttinn grípi ekki öll völd af okkur. Geðhjálp hefur opnað síma til að aðstoða og við verðum líka að passa upp á að fara ekki offari í því að einangra og skilja að. Því miður hefur komið upp sú staða að í allri okkar einangrun, þar sem við erum að reyna að vernda okkar eldri borgara, að við erum að aðskilja hjón sem er ekki gott. Það getur valdið bæði kvíða og meiri erfiðleikum þannig að við verðum að hugsa aðeins um þá sem minnst hafa. Þess vegna ber okkur skylda til að taka höndum saman. Við sýndum það í velferðarnefnd og við getum sýnt það á þingi að þetta er ekki stjórnarandstaðan eða stjórnin, þetta erum við öll sem þurfum að taka á þessu. Núna er það það sem við þurfum að gera, standa saman og sjá til þess að við tökum á þessu og leysum þetta.



[10:35]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Hið daglega amstur er öðruvísi í dag en það var í gær. Jafn einföld athöfn og að fara í búðina er allt öðruvísi og fólk veit ekki alveg hvað það á að gera við jafn mikilvægar hefðir og afmælisveislur og jarðarfarir. Hvað gerist um næstu mánaðamót er stærri spurning en venjulega fyrir gríðarlega marga landsmenn og sú spurning er alla jafna ansi stór. Í dag afgreiðum við nokkur frumvörp sem eiga að hjálpa til við að svara spurningum. Þau eru ekki endanleg svör og ekki fullkomin svör en þannig eru svör mjög oft, sérstaklega þegar aðstæður eru erfiðar og erfitt að spá um hvað gerist á allra næstu dögum. Væri hægt að gefa betri svör? Já, auðvitað. En getum við gefið betri svör? Nei, ekki núna.

Höfum í huga að allir eru að reyna að gera sitt besta, ríkisstjórn og þing. Kennarar taka á sig gríðarlegt álag til að sinna menntun barna okkar í þessu ástandi. Fjölskyldur eru í gríðarlegu dagskrárpúsluspili þar sem það er næstum full vinna að fylgjast með öllum tilkynningum um skipulag skóla og vinnu. Ég treysti mér ekki til að reyna að útskýra hvað heilbrigðisstarfsfólk er að afreka, ég er ekki nægilega góður í því að fara með orð til að segja frá því á nægilega sanngjarnan hátt. En það sem ég get sagt er að það getur enginn unnið starf þess betur. Það sem ég get hins vegar sagt og vísað í almennar sögulegar heimildir er: Þetta reddast. Á þingi er venjulegt fólk sem á börn og fjölskyldur, eins og allir aðrir. Starf okkar er að taka ákvarðanir byggðar á sannfæringu okkar. Við getum ekki gert það allt en við getum gert ansi mikið. Við getum ekki sinnt verkefnum heilbrigðisstarfsfólks en við eigum að geta passað upp á að heilbrigðisstarfsfólk sé til staðar.

Kæru þingmenn. Gerum okkar besta og það sem við getum til að þetta reddist.



[10:37]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Þetta eru fordæmalausar aðstæður. Í björgunarsveitunum nálgast menn verkefni sem mikil óvissa er um með því að nota oft þau orð að tímabært sé að taka fram stóru sleggjuna. Þá bregðast menn við með öllu því sem til er í vopnabúrinu til að nálgast þann vettvang sem þarf að sækja að úr ýmsum áttum með þeim leiðum sem mögulegar eru. Við þessar aðstæður er tímabært að taka fram stóru sleggjuna í samfélaginu og það er í raun nauðsynlegt. Það er mikilvægt að horfa til margra þátta. Við horfum til brýnna verkefna þar sem þarf að bregðast við gagnvart atvinnulífi, samfélaginu öllu og launafólki, tryggja að áfallið verði sem minnst, að fyrirtæki nái að halda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt og að við komumst í gegnum þá tímabundnu erfiðleika sem veiran veldur.

Meira þarf þó til. Það þarf að horfa til lengri tíma. Það er mikilvægt fyrir okkur að taka þessari stöðu sem áminningu um það hversu mikilvægt það er fyrir fámenna þjóð í stóru landi sem byggir á ríkum náttúruauðlindum að horfa til fleiri þátta í uppbyggingu þess sem efnahagskerfi okkar byggir á. Við eigum einstök tækifæri í þeim efnum. Núna er tímabært fyrir okkur að horfa til þess hvernig við getum aukið og örvað fjárfestingu atvinnulífsins á þeim sviðum þar sem áhugi og möguleikar eru til staðar. Við þurfum að horfa til þess að víkja sterku og erfiðu regluverki til hliðar um stund. Við þurfum að setja það í algjöran forgang að þeir sem geta farið í fjárfestingar og byggt upp atvinnulíf geti það, ég nefni t.d. laxeldi plús allt það sem hið opinbera getur gert í innviðaframkvæmdum, en sérstaklega þurfum við að horfa til atvinnulífsins, lagningar vega, raflagna, uppbyggingar laxeldis og þeirra hvata sem verða til þess að auka bjartsýni og örva fjárfestingu í atvinnulífinu þannig að við komum með sem öflugasta viðspyrnu út úr þessum erfiðleikum.



[10:39]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í dag greiðum við atkvæði um tvö frumvörp sem koma frá ríkisstjórninni og taka utan um stóran hóp fólks sem má eiga von á nokkurri röskun á sínu daglega lífi, annars vegar frumvarp sem grípur þá sem lenda í samdrætti fyrirtækja og hins vegar frumvarp vegna tímabundinna greiðslna til fólks sem þarf að sæta sóttkví.

Ég vil nota tækifærið og þakka velferðarnefnd fyrir góða umfjöllun og mikla vinnu við málið. Það var einhugur um að koma þessu máli sem fyrst í gegn. Með stuðningi ríkisstjórnarinnar náðust fram ítarlegri og öflugri aðgerðir en farið var af stað með. Gera má ráð fyrir því að Covid-19 muni ganga hér yfir á einhverjum mánuðum og eru stjórnvöld að taka málið föstum tökum. Fyrir liggur að einhverjar raskanir verða tímabundið á hefðbundnu lífi borgaranna en stjórnvöld stefna á að lágmarka þær. Samheldni þjóðarinnar skiptir máli og hefur hún sýnt það í verki með því að fara eftir leiðbeiningum almannavarna og landlæknis sem er gríðarlega mikilvægt. Þannig komumst við standandi niður úr þessu falli. Þegar rykið sest verður hægt að fara af fullum krafti í að efla atvinnulífið. Verður það m.a. gert með þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur boðað, eins og með öflugu markaðsátaki í ferðaþjónustu og með því réttum við við einn stærsta atvinnuveg landsins.

Það er líka þekkt að upp úr krísum myndast ný tækifæri, eins og kom í ljós í síðustu krísu. Þjóðarskútan mun rétta við og það þekkjum við öll sem búum á landi elds og ísa og stöndum saman nú sem fyrr.

Í dag eru vorjafndægur. Nú eru dagur og nótt jafningjar, myrkur og ljós takast á. Á morgun nær dagurinn yfir. Vonin er að brátt heyrist vorfuglar kvaka. Við getum haldið í þá vissu á jafn skrýtnum tímum sem uppi eru núna.



[10:41]
Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. „Ísland klappar fyrir heilbrigðisstarfsfólki“ heitir viðburður sem verður klukkan sjö í kvöld þar sem Íslendingar eru hvattir til að fara út í dyragætt, fara út á svalir, fara út á pall og klappa fyrir heilbrigðisstarfsfólki. Þetta er að fyrirmynd viðburðar á Tenerife. Um viðburðinn í kvöld segir, með leyfi forseta: „Heilbrigðisstarfsfólkið í landinu okkar á svo sannarlega hrós skilið fyrir alla þá óeigingjörnu vinnu sem það hefur unnið núna síðustu vikur.“

Ég vil bæta við að þegar við fórum að skoða stöðu heilbrigðismála þegar ég datt inn á þing 2013 og vorum að gera fjárlög fyrir 2015 sögðu allar yfirstofnanir heilbrigðiskerfisins að það vantaði upp á til þess að þær gætu tryggt öryggi sjúklinga. Þegar við skoðuðum stöðuna kom í ljós að það bjuggust allir við því að heilbrigðiskerfið myndi fara niður, að við myndum ekki ná að halda uppi fyrsta flokks heilbrigðiskerfi eftir hrunið. En það er það sem heilbrigðisstarfsfólkinu okkar tókst. Því tókst að halda uppi fyrsta flokks heilbrigðiskerfi þrátt fyrir niðurskurðinn í hruninu, sem er skiljanlegur og var alla vega að miklu leyti nauðsynlegur. Heilbrigðisstarfsfólkið hélt kerfinu uppi. Það er bara þannig að við getum treyst heilbrigðisstarfsfólkinu okkar, við getum alltaf leitað til þess og treyst á að það standi sig. En það þurfti samt fyrsta læknaverkfall sögunnar til að læknar fengju hækkun, það kostaði 4 milljarða kr. að hækka laun þeirra. Þess vegna voru sett lög á verkföll hjúkrunarfræðinga 2015. Það var varað við manneklu. Hver er staðan núna? Við erum að uppskera núna og nú er kominn tími til að spýta í. Á sama tíma segir Félag hjúkrunarfræðinga á Íslandi okkur að enn einn árangurslaus samningafundur hafi verið haldinn fyrir tveimur dögum á milli samninganefndar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og samninganefndar ríkisins, (Forseti hringir.) sem er á ábyrgð hæstv. fjármálaráðherra. Þetta er ekki boðlegt. Það þarf að ná samningum strax við hjúkrunarfræðinga.

En í kvöld klukkan sjö ætlum við að fara út í dyragætt eða út á svalir og klappa fyrir heilbrigðisstarfsfólkinu okkar.



[10:44]
Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Hæstv. forseti. Við lifum á ótrúlegum tímum, fordæmalausum í nútímasamfélagi, og við skulum vona að það sem þjóðin er að fara í gegnum núna muni styrkja hana og verða til þess að efla samhug og samvinnu fólks í framtíðinni — sem verður björt, því hef ég alla vega fulla trú á. En hvað er það sem við getum treyst á í þessum erfiðu aðstæðum? Eitt af því er okkar eigin landbúnaðarframleiðsla. Það er gott að vita til þess að hér er framleiðsla á mjólk, kjöti, eggjum og grænmeti sem við getum treyst á og á að vera í boði fyrir neytendur, og ekki þarf að treysta fullkomlega á aðrar þjóðir í því. Mjólk, egg og grænmeti er framleitt hér á hverjum degi og kjötbirgðir eru góðar. Afurðastöðvar og bændur munu gera sitt besta til að tryggja að dreifing matvæla verði eins hnökralaus og hægt er þannig að tryggja megi að afurðir komist á markað. Einnig er áhugavert að sjá að verslunin er farin að kalla eftir styrkingu landbúnaðarkerfisins í þessu ástandi hvað varðar innlenda framleiðslu, til að mynda í grænmeti. Fram kom á vef Morgunblaðsins í morgun að verslunarfyrirtækið Samkaup hefði skorað á hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að ýta undir innlenda grænmetisframleiðslu í boðuðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna ástandsins. Leiddar eru líkur að því í bréfi þessu, samkvæmt fréttinni, að grænmetisframleiðsla í heiminum muni dragast saman og nú þegar séu tafir á flutningsleiðum. Þarna er sleginn nýr tónn hjá versluninni og hún er greinilega tilbúin að ganga í lið með bændum og fólkinu í landinu. Sá sem hér stendur lýsir hér með yfir stuðningi við þessar hugmyndir Samkaupa. Það á að nota tækifærið núna og inn í framtíðina og efla innlenda framleiðslu þjóðinni allri og landbúnaði til heilla.



[10:46]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það er varla ofsagt að við tökumst með heimsbyggðinni allri á við vanda sem er margbrotinn og hefur víðtækar afleiðingar. Sem betur fer erum við svo heppin að búa í samfélagi sem er að mörgu leyti vel í stakk búið til að standa af sér þær sviptingar sem nú ganga yfir. Á þessari stundu er óvissan mikil og það skapar áhyggjur um allt samfélagið af heilsu, öryggi og afkomu fólks og fyrirtækja. Það er skylda stjórnvalda og stjórnmálamanna að draga úr áhyggjum og ótta um heilsu og afkomu. Heilbrigðis- og almannavarnakerfið hefur staðið sig vel, tekið á málum af festu, gripið til aðgerða og miðlað upplýsingum og leiðbeiningum til landsmanna af yfirvegun. Það er ómetanlegt.

Það er alltaf vandi að stjórna og fara með vald og sá vandi vex þegar margþættur vandi blasir við, þegar grípa þarf til róttækra aðgerða og grípa inn í gangverk samfélagsins með afgerandi hætti. Þess vegna er afar brýnt að við gleymum því ekki, og allra síst ríkisstjórnin, að við þessar aðstæður þurfa stjórn og stjórnarandstaða að koma saman að því að móta þær aðgerðir sem grípa þarf til. Það blasir við, þótt öll vonum við það besta, að allar líkur séu á því að það taki misseri og jafnvel einhver ár að koma öllum hlutum í samt lag. Afleiðingarnar verða á borði stjórnmálanna og þess vegna þarf að mynda samstöðu um hvað beri að gera, ella er hætt við að ofan á allt annað bætist erfiðar pólitískar þrætur sem munu ekki bæta ástandið.

Herra forseti. Þess vegna brýni ég þá ríkisstjórn sem hefur lagt sérstaka áherslu á það í stjórnarsáttmála sínum að auka veg og virðingu Alþingis og styrkja aðkomu þess að vinnu stjórnvalda (Forseti hringir.) til að vanda sig í næstu skrefum og tryggja aðkomu okkar allra að mótun aðgerða og framkvæmd þeirra. Það er best að fara þá leið og þannig náum við mestum og bestum árangri við að takast á við þann vanda sem að steðjar.



[10:48]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla auðvitað að fjalla um það sama og flestir aðrir í þessum ræðustól, þ.e. ástandið vegna kórónufaraldursins. Ræða mín mun þó ekki fjalla um heilsufarslegar aðgerðir okkar til undirbúnings þess að faraldurinn leggist á með auknum þunga eða álag faraldursins á heilbrigðiskerfið. Þar standa heilbrigðisstéttirnar þétt saman og standa sig með afbrigðum vel. Þar kemur líka í ljós hvers virði almannavarnakerfið er því að þar er lyft grettistaki á hverjum degi í beinni útsendingu.

Ég ætla ekki að fjalla um efnahagslegar ákvarðanir vegna þessa. Þar er lögð nótt við dag að undirbúa atvinnulífið og þjóðina undir þau áföll sem augljóslega eru í aðsigi. Þar er mikilvægt að stjórnmálamenn úr öllum flokkum standi saman og vinni að því, ekki einungis á þinginu heldur þarf einnig víðtæka samvinnu við sveitarstjórnarfólk.

Ég ætla að tala um þriðja atriðið, félagslegar afleiðingar. Ég ætla að tala um einmanaleikann og einangrunina sem margir finna til þessa dagana. Fólk óttast eðlilega að vera innan um annað fólk og það er fjöldi fólks, sérstaklega eldra fólk, sem lifir nú í ótta og einangrun og ræða mín er hvatning til félagasamtaka, einstaklinga og stjórnkerfisins alls að reyna að leggja hönd á plóginn og finna leiðir til að rjúfa þessa einangrun með einhverju móti. Ég heyri fréttir af því að mjög margir, félagasamtök og aðrir, séu að reyna það. Margt af því sem ég hef séð er vel gert en ég óttast þessar afleiðingar sérstaklega, að þegar upp verður staðið verði þetta langtímaafleiðingarnar, að fólk hafi einangrast. Við verðum að finna leiðir til að reyna að rjúfa þá einangrun.



[10:51]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og margir þingmenn hafa komið inn á lifum við fordæmalausa tíma, en einmitt á svona stundum brýst mennskan í okkur fram og við sýnum að við skiptum hvert annað máli. Þetta hefur komið fram í velferðarnefnd sem hefur unnið vel saman undir traustri forystu formannsins. Hún er búin að skila af sér tveimur gríðarlega mikilvægum málum undanfarna daga sem eru afgreidd út úr nefndinni í samstöðu. Nefndin hefur í sameiningu unnið að þeim breytingartillögum og lagfæringum sem þarf til að gera málin eins vel úr garði og kostur er. Þetta er til fyrirmyndar.

Ríkisstjórnin stígur einnig með sínum aðgerðum afar mikilvæg skref. Þau koma ekki öll í einu, enda vitum við ekki frá degi til dags hvernig staðan verður á morgun. Skrefin sem eru tekin eru þó markviss í þá átt að taka smátt og smátt utan um þá aðila sem á því þurfa að halda á hverjum tíma. Það er gríðarmikilvægt.

Almenningi ber einnig að þakka á svona stundum því að almenningur tekur á sig í þúsundatali að vera í sóttkví til að vernda samborgarana, til að tryggja að útbreiðsla faraldursins verði hægari en hún yrði ella. Þetta er gríðarmikilvægt.

Einnig er ástæða til að þakka starfsfólki þingsins fyrir viðbrögð þess og framlag til stöðunnar eins og hún er núna. Hér eru allar hendur á dekki og hér eru allir að vinna að því að láta hlutina ganga. Það er til mikillar fyrirmyndar.

Saman munum við komast í gegnum þessa krísu eins og aðrar krísur sem íslensk þjóð hefur komist í. Það er ánægjulegt að sjá, og ég ítreka það, (Forseti hringir.) herra forseti, að hér innan húss standa menn saman og ganga saman í verkin.



[10:53]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti leyfir sér að taka undir orð hv. þingmanns um þakkir til starfsfólks Alþingis enda hafði forsætisnefnd það með í samþykkt sinni í gær að færa starfsfólki Alþingis sérstakar þakkir fyrir ómetanleg störf við erfiðar aðstæður.



[10:53]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Nú ber nýrra við. Hér hafa verið fluttar einar tíu eða ellefu ræður og ég get tekið undir eiginlega allt sem allir ræðumenn hafa sagt hér að framan. Það gerist ekki á hverjum degi. Ég verð þó að segja af þessu tilefni að það sem af er undanfarna daga hefur starfið í þinginu gengið með ágætum. Þótt auðvitað hafi komið upp álitamál um hitt og þetta hafa menn reynt að leysa úr því þannig að allir geti verið þokkalega sáttir við. Það er mikilvægt að það verði unnið þannig áfram af hálfu bæði stjórnar og stjórnarandstöðu að hægt sé að halda frið um þau skref sem við þurfum að stíga, eins og kostur er. Það er ekki útilokað að skoðanir kunni að vera skiptar um einstaka aðgerðir sem gripið er til og á einhverjum tímapunkti þarf hugsanlega að höggva á hnúta í því sambandi. Það er ekki sjálfgefið að við verðum öll sammála um niðurstöðuna í öllum málum en meðan við getum rætt hlutina málefnalega, meðan við getum unnið með vönduðum hætti að úrlausn þeirra viðfangsefna sem að okkur snúa er gríðarlega mikilvægt að við vinnum málin þannig að allir hafi sömu sýn á markmiðin þó að okkur kunni að greina með einhverjum hætti á um leiðir í einstökum tilvikum.

Störf þingsins verða auðvitað undirlögð vegna þeirra viðfangsefna sem við þurfum að glíma við. Ég varð var við það úti í bæ að þegar sagt var að starfsáætlun þingsins hefði verið tekin úr sambandi skildu sumir það þannig að þingið væri farið heim og ætlaði ekkert að gera. Það er misskilningur. Þetta þýðir að hin reglubundnu störf verða með nýjum og ólíkum hætti. En við tökumst á við þau viðfangsefni sem þingið þarf að glíma við í þessu ástandi.



[10:56]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það eru óvenjulegir tímar sem kalla á óvenjulegar aðgerðir stjórnvalda. Gömlu kreppuaðgerðirnar, að beita peningastefnu til að lækka vexti og ríkisfjármálunum til að byggja vegi og brýr, duga ekki einar og sér. Samráð er nauðsynlegt um markmið og leiðir, samráð ríkisstjórnarinnar við stjórnarandstöðuna, við heildarsamtök á vinnumarkaði og við sveitarfélögin. Það sem við gerum í stöðunni nú hefur áhrif á hvernig samfélagið verður í stakk búið til að rétta úr kútnum eftir að faraldurinn hefur gengið yfir og það segir líka til um hvernig samfélagið mun þróast til lengri tíma.

Þessa stundina er fólkið í landinu að hugsa um heilsu sína og ástvina sinna og hvernig heilbrigðiskerfið ræður við vandann þegar enn fleiri smitast. Áhyggjur af efnahag koma seinna. En stjórnvöld verða að vera tilbúin strax til þess að taka á efnahagslegum vanda sem augljóslega verður stór og aðgerðirnar verða bæði að vera til skamms tíma, vegna aðstæðna sem lagast þegar faraldurinn hefur gengið yfir, og til lengri tíma, því að það mun ekki allt lagast af sjálfu sér á nokkrum vikum.

Við vorum að glíma við niðursveiflu þegar heimsfaraldur skall á sem gerir niðursveifluna enn dýpri. Aðgerðirnar munu varða afkomu fólks og fyrirtækja í landinu. Aðgerðirnar munu varða heilbrigðiskerfið og innviði og aðgerðirnar munu skipta máli fyrir framtíðina og ná yfir kjörtímabil. Við í Samfylkingunni höfum reynt að koma okkar hugmyndum á framfæri í gegnum nefndarálit í efnahags- og viðskiptanefnd, með greinum í blöð og færslum á netinu. Áherslur okkar snúa að því að verja vinnu fólks, velferð og heilbrigði í bráð og lengd. Þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra sem kjörin erum hér á Alþingi. Við skulum gera þetta saman en þá þurfum við líka að tala saman.



[10:58]
Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að taka undir þær þakkir sem hafa verið fluttar hér til íslensks heilbrigðisstarfsfólks. Ég hygg að það sé nauðsynlegt fyrir okkur hér á þingi að koma þeim skýru skilaboðum til þessa ótrúlega fólks að við munum tryggja það að a.m.k. skorti ekki fjármuni til að takast á við þær hættur sem steðja að okkur. Hér á næstu dögum og í dag, raunar á eftir og síðan á næstu dögum, er það okkar verkefni að tryggja að gripið verði til aðgerða í efnahagsmálum til að tryggja efnahag íslenskra fyrirtækja og íslenskra heimila. Það er alveg ljóst að þær eru umfangsmiklar. Seðlabankinn spilar þar auðvitað stórt og mikið hlutverk og hefur þegar gripið til ráðstafana sem munu skipta gríðarlega miklu máli. Hér í dag munum við vonandi samþykkja frumvarp félagsmálaráðherra um hlutabætur í atvinnuleysi sem skipta launafólk á Íslandi miklu og fyrirtækin einnig. Og á næstu dögum verða kynntar enn frekari og mjög umfangsmiklar aðgerðir.

En það er líka alveg ljóst að við verðum að vera tilbúin til þess að grípa til frekari aðgerða á komandi dögum og vikum því að staðan breytist dag frá degi. Við þurfum stundum að hafa hröð handtök, taka ákvarðanir hér án þess að vera að velta fyrir okkur stundum ágreiningsmálum vegna þess að hraðinn skiptir miklu og við þurfum að bera gæfu til þess í þingsal og í nefndum að afgreiða mál fljótt og vel.



[11:00]
Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Eins og aðrir þakka ég viðbragðsaðilum og starfsfólki þingsins fyrir að láta hlutina ganga hér í samfélagi okkar. Mig langar að koma inn á það að við erum að fara að afgreiða tvö mál í dag sem skipta töluvert miklu máli og reyndar mjög miklu máli. Annað málið tekur m.a. á þeim sem eiga rétt á launum. Ríkissjóður virðist ætla að standa undir allt að 75% af launum starfsmanna í stað 50%. Við þökkum nefndinni, sérstaklega stjórnarandstöðunni, fyrir að hafa fengið það í gegn að hlutfallið sé hækkað. Hins vegar eru fyrirtæki fyrir utan þetta hús sem ekki eiga peninga fyrir þeim 25% sem upp á vantar. Það eru fyrirtæki sem fá engar tekjur, mörg sem hafa engar tekjur og munu ekki hafa neinar tekjur á næstu vikum og mánuðum. Þessi fyrirtæki hafa verið í fjárfestingum og skulda væntanlega þar af leiðandi töluverða fjármuni. Við þurfum að mæta þeim hópum.

Það sem við þurfum að gera núna er að taka mjög stórar og fljótar ákvarðanir. Við eigum að byrja á því að veita öllum greiðsluskjól, bæði heimilum og fyrirtækjum — strax. Við verðum að gera það strax. Ef það vantar einhverjar útfærslur vinnum við úr þeim eftir á. Við þurfum að gera þetta einn, tveir og þrír. Við þurfum að fella tryggingagjaldið niður strax til lengri tíma litið þannig að fyrirtækin geti séð fram í tímann. Við eigum að gera ráðstafanir og vera viðbúin því að geta tekið vísitölu neysluverðs úr sambandi ef þarf á að halda. Við eigum að vera tilbúin með þetta.

Það er fullt af aðgerðum sem við eigum að vera reiðubúin að fara í án þess að þurfa að velta fyrir okkur útfærslum og afleiðingum fyrr en við erum búin að tilkynna og ákveða hvað við ætlum að gera. Það þarf að hugsa hratt, fast og ákveðið og til þess er stjórnarandstaðan reiðubúin til að vinna með ríkisstjórninni ef boðið er upp á það samtal sem ekki hefur verið hingað til. Við erum tilbúin, við erum með fullt af hugmyndum og við erum gjarnan tilbúin til að koma þá að borðinu og reyna að leysa þessi mál með stjórnarliðum ef upp á það verður boðið.



[11:02]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það er á tímum sem þessum sem í ljós kemur hvaða mann við höfum að geyma, hvert og eitt og saman. Það blasir við að nú strax og á næstu vikum munu koma þeir tímar að við sem þurfum að taka ákvarðanir fyrir alla aðra, eða flesta aðra, munum þurfa að taka mjög erfiðar ákvarðanir, flóknar ákvarðanir. Við þurfum að takast á við mjög flókin úrlausnarmál sem óneitanlega fylgja þeim aðstæðum sem öll heimsbyggðin er í. En það er líka á tímum eins og þessum sem í ljós kemur hve nauðsynlegt er að hlusta. Það hefur komið fram hjá fleirum en einum fulltrúa stjórnarandstöðunnar að stjórnarandstaðan er fús að vinna með ríkisstjórninni, hjálpa til, leggja gott til, taka á málum fljótt og vel og afgreiða mál fljótt og vel, en gerir að sama skapi þær kröfur til ríkisstjórnarmeirihlutans að hann hlusti, að hann hlusti á góðar tillögur sem koma fram frá stjórnarandstöðunni. Í því sambandi vil ég minna á tilkynningu sem Miðflokkurinn sendi út nýverið í nokkrum liðum þar sem farið er yfir mál sem gætu horft til heilla fyrir flesta.

Ég vil líka hvetja til þess að þegar stærstu aðgerðirnar eru boðaðar hafi ríkisstjórnin samráð við stjórnarandstöðuna og kynni stjórnarandstöðunni þær tillögur og þær áætlanir sem stjórnin hefur áður en þær verða gerðar opinberar, t.d. á blaðamannafundum. Ég held að það yrði til heilla til að við getum öll unnið saman að því erfiða verki sem fram undan er. Við skulum ekki vera hugdeig, við skulum horfa upp og horfa fram á við.