150. löggjafarþing — 79. fundur
 20. mars 2020.
heimsfaraldurinn og viðbrögð við honum.

[11:34]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Það sem er kannski fallegast við þetta litla samfélag okkar er sú samstaða sem skapast á tímum sem þessum þar sem allir taka höndum saman, eins og við gerum öll núna, og hjálpast að við að lágmarka dreifingu veirunnar, lágmarka heilsufarslegan skaða af þeirri vá sem við erum að glíma við. Maður finnur svo vel að þrátt fyrir alla þá óvissu og þann ótta sem er í samfélaginu stendur þjóðin saman sem einn maður. Það skiptir miklu máli og við finnum líka að það er krafa til þess að við sem hér störfum stöndum líka saman sem einn maður í viðbrögðum, bæði hvað varðar hina miklu heilsufarslegu vá en ekki síður hvað varðar hina miklu efnahagslegu vá sem við erum að glíma við. Hún verður umtalsverð, þetta verður mikið högg til skamms tíma litið en það mun líka fylgja okkur eitthvað áfram. Okkar bíða bæði brýn verkefni í bráð en líka í lengd. Það er gott að hafa í huga og þess vegna er svo mikilvægt að við séum raunverulega að starfa saman, að meiri hlutinn, sem á endanum stýrir talsvert för um að hve miklu leyti hann hefur minni hlutann með í ráðum, upplýsi minni hlutann um þær sviðsmyndir sem verið er að vinna með og af hverju gripið er til þessara aðgerða en ekki einhverra annarra.

Ég brýni því hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórn til að efla samráðið til muna. Það hefur ekki verið til neinnar fyrirmyndar, sérstaklega ekki varðandi þær efnahagsaðgerðir sem við vitum að eru handan við hornið til kynningar en höfum ekki fengið að sjá neitt innan í. Það er ágætt að hafa það í huga. Við skulum draga lærdóm af því sem gerðist í hruninu þar sem einmitt þessi sama samstaða breyttist því miður í mikla reiði. Við vitum að af þessum áskorunum verður tjón. (Forseti hringir.) Fólk mun verða fyrir miklum missi og skaða og af því getur hlotist mikil reiði. Við þurfum öll sem hér störfum að vinna saman að því að koma í veg fyrir að slíkt fari úr böndunum.



[11:36]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil aftur þakka fyrir þennan tón sem ég heyri í þinginu um viljann til samstöðu um stórar og mögulega erfiðar ákvarðanir. Ég heyri það sem sagt er, að menn hefðu viljað hafa samráðið dýpra á undanförnum dögum. Ég get eiginlega ekki annað sagt við því en að í ráðuneytum, eins og t.d. í mínu ráðuneyti, hefur þurft að leggja nótt við nýtan dag til að ná einfaldlega utan um stöðuna, leggja mat á hana og safna saman í tillögugerð. Meira að segja hefur verið algjört lágmarkssamráð innan stjórnarinnar og á ríkisstjórnarfundi sem stóð í morgun voru margir ráðherrar að sjá í fyrsta skipti útfærslur að hugmyndum og ríkisstjórnin að fá tækifæri til að ræða innbyrðis.

Ég er allur af vilja gerður til að eiga það samstarf sem kallað er eftir en þegar Stjórnarráðið er að störfum eins og á við þessa dagana, þar sem mér bárust tölvupóstar með upplýsingum kl. 2.30 í nótt og það er unnið hreinlega allan sólarhringinn, er það viss áskorun. Ég vonast til þess að eftir að við komum samtalinu af stað um fyrstu tillögur ríkisstjórnarinnar sem fylgja í kjölfar málanna sem þegar hafa komið fram skapist aðeins meira svigrúm til að sjá a.m.k. nokkrar vikur fram í tímann. En við erum núna í algjöru bráðaástandi þar sem er sterkt ákall um viðbrögð og við þurfum að bregðast við því.

Ég vil bara taka fram, af því að fyrr í morgun undir liðnum um störf þingsins var talað um að mikilvægi þess að stjórnarandstaðan fengi kynningu á málum áður en þau yrðu gerð opinber, að ég get staðfest að það stendur til að setjast niður með stjórnarandstöðunni áður en tillögur verða gerðar opinberar.



[11:38]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þetta svar og fagna því að það standi til. Ég hef fullan skilning á því að þetta eru fordæmalausar aðstæður og fordæmalausar ráðstafanir sem við þurfum að grípa til í ríkisfjármálum, fordómalausar vonandi líka svo að slegið sé á létta strengi með það.

Það er mikilvægt að við séum öll með sömu myndina fyrir framan okkur þegar við tökumst á við þetta af því að öll höfum við sama verkefnið, að tryggja að þær aðgerðir sem gripið er til hér gagnist sem best, komi í veg fyrir sem mest tjón og lágmarki skaðann sem af þessu ástandi kann að hljótast. Við sáum það í góðu starfi velferðarnefndar með þau mál sem við erum að fara að ræða hér á eftir að þetta samstarf getur verið bæði mjög gott og mjög gagnlegt. Ég vona svo sannarlega að það muni einkenna samstarf minni hluta og meiri hluta í gegnum þessar aðgerðir bæði í bráð og lengd af því að öll höfum við það sama markmið að tryggja að þjóðin komi sem sterkust út úr þessari stöðu.



[11:40]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að það verði augljósir samstarfsfletir milli stjórnar og stjórnarandstöðu í framhaldinu vegna fjöldamargra mála sem augljóslega eru að koma á okkar dagskrá. Ég gæti nefnt sem dæmi að við stefnum að því að koma með fjármálastefnu og fjármálaáætlun að vori sem augljóslega munu ekki geta fengið þá þinglegu meðferð í tíma sem undir venjulegum kringumstæðum væri í boði. Það kallar á miklu nánara samstarf og samvinnu um allan aðdraganda og meðferð þess máls í þinginu.

Í augnablikinu stöndum við frammi fyrir hreinlega ákveðnu neyðarástandi þar sem tekjur í einstaka fyrirtækjum falla um meira en helming í mörgum tilvikum. Ég heyrði af dæmi í vikunni þar sem eitt fyrirtæki, sem hefur 300 viðskiptamenn, fékk greiðslur frá tveimur þeirra á eindaga. Það er þessi staða sem við ætlum næst að bregðast við og er svo mikið kallað eftir.