150. löggjafarþing — 79. fundur
 20. mars 2020.
tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví, 2. umræða.
stjfrv., 667. mál. — Þskj. 1131, nál. 1155, breytingartillaga 1156.

[13:50]
Frsm. velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. velferðarnefndar um frumvarp til laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að sýna merki þess að vera sýktir. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund stóran hóp gesta, sem ég ætla nú ekki að fara að telja hér upp, frá ýmsum hornum samfélagsins og atvinnulífinu; sjálfstætt starfandi einstaklinga, listamenn, námsmenn, fólk í ferðaþjónustu, fólk frá stórfyrirtækjum, frá Þroskahjálp og fleiri.

Markmiðið með frumvarpinu er að tryggja að atvinnurekendur, sem greiða launamönnum er sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, laun á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til og með 30. apríl 2020, geti sótt um greiðslur vegna launakostnaðar. Sama á við um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví á sama tímabili en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda. Þá er lagt til að lögin skuli gilda um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem verða fyrir launatapi þar sem þeir sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda á framangreindu tímabili. Með frumvarpinu er stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni. Skilyrði fyrir greiðslum eru m.a. að launamaður hafi ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða að hluta þaðan sem hann sætir sóttkví, þ.e. hafi ekki getað sinnt fjarvinnslu.

Frumvarpið er hluti af viðbrögðum ríkisstjórnar Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands, samanber yfirlýsingu þar um, við breyttum aðstæðum á vinnumarkaði til að bregðast við Covid-19 faraldrinum.

Aðeins um gildissvið frumvarpsins. Nefndin fjallaði sérstaklega um gildissvið þess en í 1. gr. er lagt til að lögin taki til greiðslna til atvinnurekanda — svo að þetta sé alveg skýrt — sem hafa greitt launamönnum sem sæta sóttkví laun á tímabilinu frá 1. febrúar til og með 30. apríl 2020. Enn fremur gildi lögin um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví á sama tímabili en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda vegna rekstrarörðugleika eða tekjufalls. Þarna er verið að tryggja það að launamaðurinn geti, í þeim tilvikum þegar atvinnurekandi getur ekki borgað laun, sótt þessar tilteknu greiðslur sjálfur. Í þriðja lagi gildir frumvarpið um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví á sama tímabili.

Fyrir nefndinni komu fram ábendingar um nauðsyn þess að útvíkka gildissviðið þannig að það nái til þeirra tilvika þegar foreldri eða forráðamaður þarf að annast barn vegna þess að það er í sóttkví án þess að vera sýkt og foreldrið getur af þeim sökum ekki sinnt vinnuskyldu sinni að öllu leyti eða að hluta. Þá kom fram að þannig geti verið að barn sem er í sóttkví sé ekki veikt og þarfnist ekki umönnunar nema sökum þess að það getur ekki verið eitt heima vegna ungs aldurs. Auk þess var bent á að eldri systkini sem eru t.d. í menntaskóla eða háskóla séu nú heima vegna lokunar þeirra stofnana og því ekki þörf á viðveru foreldra. Þess vegna væri þetta mögulega óþarfi. Nefndin fjallaði um þetta og tekur í því sambandi fram að samkvæmt almennum kjarasamningum er réttur til launaðra fjarvista vegna veikinda barna afmarkaður við 13 ára aldur barns en í þessu sambandi, þegar kemur að sóttkví, er ekki um veikindi að ræða en engu síður aðstæður sem geta í einhverjum tilfellum krafist þess að foreldri sé heima með barn og geti ekki sinnt vinnuskyldu sinni. Nefndin telur rétt að taka fram að þrátt fyrir röskun á skólastarfi þurfi nemendur í menntaskólum og háskólum að sinna öllu sínu námi nú í fjarnámi. Nefndin telur með hliðsjón af framangreindu rétt að útvíkka gildissvið frumvarpsins til að mæta þessum sjónarmiðum, og gera ekki öðrum fjölskyldumeðlimum að sinna þessu meðfram sinni fjarvinnslu eða fjarnámi, og leggur því til breytingu á frumvarpinu þess efnis, þ.e. að annað foreldri eða forsjáraðili eða forráðamaður fái þessar greiðslur þurfi viðkomandi að vera heima vegna sóttkvíar.

Nefndin fjallaði einnig um stöðu foreldra barna undir 18 ára sem fá þjónustu samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og þurfa að sæta sóttkví. Nefnd voru dæmi um að foreldrar eða aðrir aðstandendur gætu ekki sinnt starfsskyldum sínum eða þyrftu að minnka starfshlutfall sitt vegna þess. Nefndin telur nauðsynlegt að mæta þessum sjónarmiðum og leggur til breytingu á frumvarpinu í þá veru. Þá leggur nefndin til að Vinnumálastofnun geti kallað eftir upplýsingum frá félagsþjónustu sveitarfélaga í tengslum við þessa breytingu.

Ég vek athygli þingsins á að við erum að tala um eldri hóp í þessu tilviki. Þegar talað er um börn í sóttkví almennt er miðað við 13 ára aldur sem er almennt í kjarasamningum. Þar er alltaf talað um 13 ára og yngri þar sem foreldrar eiga veikindarétt vegna veikra barna. En þegar kemur að fötluðu fólki með langvarandi stuðningsþarfir sem þarf að sæta sóttkví erum við með aldursmarkið 18 ára. Af hverju 18 ára? Vegna þess að þar er ákveðin umönnunarskylda foreldra samkvæmt barnalögum. Þess vegna var miðað við 18 ára aldurinn vegna aðstæðna þeirra. Börn eldri en 13 ára, sem ekki glíma við stuðningsþarfir, eru talin geta verið heima í sóttkví án þess að foreldri sé þar allan daginn.

Einnig komu fram sjónarmið um að gildissvið yrði útvíkkað þannig að það næði einnig til foreldra sem þurfa að vera heima með börnum sínum vegna skertrar starfsemi í leik- og grunnskólum vegna samkomubanns, ekki vegna sóttkvíar. Það er auðvitað það sem við erum að glíma við í samfélaginu öllu og kann að vera að breytist enn meira ef upp kemur hreinlega útgöngubann eins og er verið að grípa til víðs vegar um heiminn, að skólar loki alveg. Núna er skert starfsemi í leik- og grunnskólum vegna samkomubanns. Það var fjallað töluvert um þetta í nefndinni vegna þess að aðstæður fólks eru mismunandi. Sumir hafa ekkert bakland til að skiptast á að vera með barni sem ekki fær fullan skóladag eða fulla skólaviku eða leikskóla. Við töluðum sérstaklega um aðstæður einstæðra foreldra og ekki síst aðstæður einstæðra foreldra sem eru af erlendu bergi brotnir og hafa ekki stórt fjölskyldunet. Samfélagið verður að horfa sérstaklega til þess hvernig við ætlum að mæta þeim hópi því að þar eru einstaklingar sem eru mögulega líka búnir með allan sinn orlofsrétt vegna þeirra verkfalla sem hafa staðið yfir og standa sums staðar enn yfir í sveitarfélögum um land allt. Þó að Reykjavíkurborg sé búin að semja þá eru verkföll enn þá annars staðar í öðrum sveitarfélögum. Það þarf einhvern veginn að taka á þessu.

Nefndin tekur undir mikilvægi þess að tekið verði tillit til þeirrar flóknu stöðu sem fjölskyldufólk er í og beinir til ráðherra að kanna það við þá vinnu sem fram undan er vegna faraldursins. Engu að síður var tekin ákvörðun um það í þessu tiltekna máli að útvíkka þetta ekki utan um allan þennan hóp af því að hér erum við eingöngu, svo það sé áréttað, að fjalla um það þegar fólk er skikkað til að fara heim vegna sóttkvíar, bara vegna sóttkvíar, ekki annarra utanaðkomandi þátta.

Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að sóttkví verði skilgreind þannig að einstaklingi sé gert að einangra sig eins og kostur er, einkum í heimahúsi, samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda þegar hann hefur mögulega smitast af sjúkdómi en sýnir ekki merki þess að vera sýktur. Fram kom á fundi nefndarinnar að einstaklingur á rétt til greiðslu í sóttkví eins oft og slík tilmæli koma frá sóttvarnalækni. Þetta er ekki eitt einstakt tilvik, maður getur þurft að fara í 14 daga sóttkví og svo aftur í sóttkví mánuði síðar vegna annarra aðstæðna. Þannig að þetta er ekki eitt einstakt tilvik. Þá kom einnig fram að réttindi einstaklinga til launa í sóttkví breytast ef staðfest er að einstaklingur greinist með Covid-19. Þá virkjast hefðbundinn veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum. Það þarf að árétta varðandi einstakling í sóttkví að hér er um að ræða rétt vinnuveitanda til að sækja einhvers konar bætur í þessu ástandi. Maður getur séð fyrir sér lítinn vinnustað þar sem eru tíu starfsmenn og fimm þeirra þurfa að fara í sóttkví eða jafnvel allur vinnustaðurinn. Stundum er það kannski þannig að fimm einstaklingar þurfa að fara í sóttkví og þá verður algjört tekjufall á vinnustaðnum á sama tíma. Starfsmennirnir halda óskertum launum. Þarna eru stjórnvöld að grípa inn í þannig að vinnustaðurinn fari ekki hreinlega í gjaldþrot út af því tekjufalli sem verður við að missa marga starfsmenn út.

Nefndin fjallaði einnig um stöðu sjálfstætt starfandi einstaklinga en í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að undir þá skilgreiningu falli hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega eða með öðrum reglulegum hætti skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald. Í 7. gr. frumvarpsins er lagt til að skilyrði fyrir greiðslum til sjálfstætt starfandi einstaklinga verði m.a. að sjálfstætt starfandi einstaklingur sé með opinn rekstur auk þess að hafa staðið í skilum á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðslu skatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda a.m.k. þrjá mánuði á næstliðnum fjórum mánuðum fyrir umsóknardag, samanber d-lið. Þetta er það sem var í frumvarpinu.

Fyrir nefndinni komu fram ábendingar um að í framkvæmd væri almennt litið til rekstrar undanfarinna 12 mánaða. Nefndin telur nauðsynlegt að samræmis sé gætt í skilgreiningu 3. gr. og skilyrðum 7. gr. fyrir greiðslum og leggur til að við d-lið bætist: eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum ríkisskattstjóra. Við erum þá með þetta 12 mánaða fyrirkomulag en ekki bara þriggja mánaða eins og hafði verið í frumvarpinu.

Nefndin leggur til að réttur sjálfstætt starfandi einstaklinga hvað varðar viðmið fjárhæðar greiðslna verði sambærilegur við rétt launamanna og leggur því til að miðað verði við mánaðarlegar meðaltekjur hans í stað 80%, eins og var í frumvarpinu. Við erum að tala um heildargreiðslurnar, meðaltekjurnar en ekki 80% bara hjá sjálfstæðum og 100% hjá launamönnum.

Það eru aðrar breytingar. Nefndin leggur til smávægilega lagfæringu á 10. gr. frumvarpsins um heimild til upplýsingaöflunar þannig að skýrt sé að Vinnumálastofnun hafi heimild til öflunar og eftirfarandi vinnslu nauðsynlegra upplýsinga við framfylgd laganna auk breytinga á fyrirsögn þeirrar greinar.

Loks leggur nefndin til að fyrirsögn frumvarpsins breytist þannig að orðin „að sýna merki þess“ falli brott. Er þetta gert vegna þess að einstaklingar geta sýnt merki þess að vera sýktir af Covid-19 án þess að vera það þar sem einkennin líkjast hefðbundnum flensueinkennum. Eftir því sem þessi skrambans veira fer víðar þá er þetta auðvitað eins og með önnur leiðindi, manni finnst alltaf líklegra og líklegra að hver einasti hnerri og hver einasti hósti hljóti að vera þessi Covid. Þannig að merki þess geta ekki orðið tilefni til þess að viðkomandi eigi rétt. Maður þarf að vera sýktur til að hefðbundinn veikindaréttur gildi, ekki bara að vera með merki þess að vera með Covid, af því að maður getur verið með hvað sem er annað.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem eru tilgreindar á sérstöku skjali. Það hafa orðið nokkrar breytingar sem ég hef farið yfir sem ég ætla ekki að lúslesa en ég fór yfir helstu breytingar í ræðunni.

Allir nefndarmenn skrifa undir þetta mál, það er sú sem hér stendur, formaður velferðarnefndar, Ólafur Þór Gunnarsson, Ásmundur Friðriksson, Anna Kolbrún Árnadóttir, ritar undir þetta með fyrirvara, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Halldóra Mogensen, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Vilhjálmur Árnason og áheyrnarfulltrúi Viðreisnar, Hanna Katrín Friðriksson, er samþykk áliti þessu.

Í lok þessarar kynningar á nefndarálitinu vil ég þakka hv. velferðarnefnd fyrir afskaplega vönduð störf. Þetta hefur verið mjög annasamur tími frá því fyrir helgi að koma þessu öllu saman, eitthvað sem maður hélt jafnvel að væri einfalt mál og þyrfti engar breytingar en kallaði svo á breytingar á nánast öllum ákvæðum frumvarpsins eða svo gott sem, fjölmargar breytingar. Frumvarpið kom auðvitað til nefndarinnar með miklu hraði og það kallar á mörg augu sem koma að lagfæringum á því. Ég vil þakka nefndinni kærlega fyrir alla þá vinnu sem þar átti sér stað og þá samstöðu sem nefndarfólk hefur sýnt í þessari viku sem hefur hreinlega verið til fyrirmyndar. Ég vil líka þakka þeim fjölmörgu aðilum utan úr samfélaginu sem hafa komið til nefndarinnar í fjarfundi, komu með ábendingar, sent okkur alls konar ábendingar í tölvupóstum, í umsögnum, símtölum, í smáskilaboðum og hvaðeina. Þessi samstaða hefur verið alveg mögnuð. En síðast en ekki síst vil ég þakka starfsfólki Alþingis og nefndasviðs kærlega fyrir þeirra mikla starf á síðustu sólarhringum. Þau eiga svo sannarlega hrós skilið og fá vonandi vænan konfektkassa fyrir vikið.



[14:07]
Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Þetta verður ekki löng ræða hjá mér í þetta skiptið. Ég vil byrja á að þakka formanni velferðarnefndar, hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur, fyrir að flytja okkur þetta nefndarálit. Eitt sem mig langar að koma á framfæri og hv. þingmaður kom aðeins inn á í sinni ræðu, og er minnst á í nefndarálitinu á bls. 2, er staða þeirra sem þurfa að vera heima með börn vegna skipulags sem þeir ráða ekki við, skipulags skóla eða einhvers annars þar sem börnin eru send heim og foreldrar þurfa að vera heima hjá þeim. Þetta þýðir tekjutap fyrir einhverja, einhverjir eru að nýta orlofið sitt í þetta og þess háttar, mögulega eiga einhverjir góða vinnuveitendur sem líta á þetta sem veikindadaga o.s.frv. Ég hefði viljað að frumvarpið, þegar það kom til þingsins, hefði tekið á þessu. Hér stendur að nefndin brýni ráðherra til að horfa til þessa og er það mjög gott, það er ánægjulegt að nefndin skuli gera það. En mig langar að nota tækifærið til að skora á nefndina, fyrst formaðurinn er í salnum, að fylgja því fast eftir að það komi tillögur frá ráðuneytinu eða ráðuneytið komi til viðræðna við nefndina um hvernig megi útfæra þetta því að það er drjúgur hópur fólks víða um land sem nú er heima hjá sínum börnum að kenna þeim eða að hafa ofan af fyrir þeim með öðrum hætti. Síðan langar mig að nefna það sem einhverjir hafa nefnt líka, varðandi 13 ára aldurstöluna. Manni finnst eðlilegt að miða við grunnskólaaldurinn, sá hluti er allur hjá sveitarfélögunum hvað það varðar. Þetta er það tvennt sem ég vildi koma á framfæri að svo komnu máli.

Við eigum örugglega eftir að fjalla oftar um sóttkví og þann vanda sem fylgir því þegar samfélagið er að stórum hluta í sóttkví og jafnvel einhverjir í einangrun, en það eru nokkur atriði sem ég held að við verðum að reyna að kippa í liðinn sem allra fyrst.



[14:10]
Frsm. velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og vildi aðeins koma inn í þessa umræðu varðandi börnin, fjölskyldurnar og allt það. Við vorum lengi vel að reyna að finna leið til þess að taka utan um þennan hóp og hafa hann inni. Við fengum heimsókn frá fulltrúum Þroskahjálpar. Við fengum ábendingar frá Geðhjálp. Það er verið að loka deildum þar sem þeir sem eiga við geðræn vandamál að stríða dvelja langdvölum og til skemmri tíma, sem fara núna heim. Það er verið að fækka rúmum á öldrunarstofnunum þannig að aldraðir eru að fara heim, þurfa sólarhringsumönnun. Við byrjuðum á fjölskyldum barna en svo þegar við áttuðum okkur á því að þetta er víðtækara vandamál þá ræddum við í nefndinni við hæstv. félagsmálaráðherra og okkur var tjáð að þar eigi sér nú þegar stað vinna til að skoða hvað er hægt að gera í þessu. Hún er farin af stað með fjölda hagsmunaaðila, með skólasamfélaginu, ég veit að sveitarfélögin eru í þessu samstarfi og ég veit að fulltrúar frá Þroskahjálp og Geðhjálp og fleiri eru þar inni og fjöldinn allur af hagsmunaaðilum. Þannig að þetta er stærri hópur en svo að við gætum gripið hann í þessu tiltekna máli. Það átti bara að varða sóttkvína og við urðum að þrengja sviðið aftur og fjalla um það út frá því. Ég vildi bara koma því að. Þetta er ekki spurning, þetta er bara upplýsingagjöf.



[14:12]
Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að þakka þingmanni fyrir þessar upplýsingar, þetta var einmitt punktur á blaðinu hjá mér sem ég gleymdi að spyrja um, varðandi öryrkja og þá sem eru ekki jafn heppnir og við hin, að geta verið heima og haft einhvern til að vera hjá og eitthvað slíkt. En ég bíð þá bara spenntur og við hin eftir því hvað kemur frá blessuðu ráðuneytinu um þennan hóp. Ef ekki þá verðum við einfaldlega að fara í þetta sjálf.



[14:13]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Þetta eru góðar viðbætur við frumvarp sem leit ekki út fyrir að vera flókið en breytingarnar eru kannski flóknari. Það er frábært að bjóða laun til foreldra barna undir 13 ára aldri sem hafa fengið tilmæli um að vera í sóttkví. Ábendingar voru gefnar um að huga að foreldrum barna með skerta skólaþjónustu sem er einmitt sérstaklega erfitt fyrir einstæða foreldra, eins og framsögumaður benti á í ræðu sinni, og að réttur sjálfstætt starfandi einstaklinga verði sambærilegur á við réttindi launafólks er einnig mjög mikilvægt.

Af því að við erum að tala um sóttkví langar mig örstutt að nýta tækifærið og dýfa tánum aðeins í tölfræðina. Við Íslendingar erum svo rosalega sérstök með það að vinna allt út frá höfðatölutölfræði. Núna eru 409 staðfest smit og þegar maður ber það saman við Bandaríkin sem eru með þúsund sinnum fleiri íbúa en Ísland eða svo myndi það þýða um 400.000 smit í Bandaríkjunum. Það er að sjálfsögðu ekki komið því að í tölulegum upplýsingum eru staðfest smit um 255.000 í heiminum eins og hann leggur sig. Það getur verið rosalega skemmtileg leikfimi að bera saman við höfðatölu allt það sem gerist á Íslandi miðað við annars staðar í heiminum en það er líka varhugavert. Við vitum það og gerum dálítið grín að því hvernig við reiknum allt út frá höfðatölu en þegar kemur að svona dæmum kemur pínulítið niður á okkur sú áhugaverða staðreynd að Ísland vinnur allt úr frá höfðatölu. Þegar við notum hana í alvörusamanburði verður myndin pínulítið skekkt. Í þessu tilviki erum við örugglega með einna bestu og nákvæmustu tölurnar um fjölda staðfestra smita í öllum löndum. Við vinnum þessa tölfræði vel en hún er ekki góð þegar á að nota hana til að byggja á einhverja spádóma um hversu slæmt allt er eða eitthvað því um líkt. Förum varlega með þetta.



[14:16]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. velferðarnefnd fyrir góða vinnu í þessu máli undir stjórn formanns. Það er til fyrirmyndar hvernig þau tvö mál sem við erum að tala um í dag hafa verið unnin og afar gleðilegt að við skulum ná að leysa úr eins flóknum verkefnum og hér er um að ræða á þennan hátt á svo stuttum tíma. Það er sannarlega til fyrirmyndar og vonandi merki um það sem verður í þeim málum sem við þurfum óhjákvæmilega að vinna í tengslum við þann faraldur sem nú geisar.

Þær breytingartillögur sem eru fluttar eru allar til batnaðar. Sumar þeirra var nánast fyrirséð við flutning málsins að þyrftu að koma til, aðrar komu fram í vinnu nefndarinnar. Raunar hefur ítrekað komið fram hjá stjórnvöldum undanfarna daga að vegna þess hversu hratt staðan breytist kunni það að verða í mjög mörgum málum sem við flytjum hér að þau verði næstum orðin úrelt, a.m.k. ekki eins nákvæm og hnitmiðuð og þau þyrftu að vera, jafnvel þegar þau koma til afgreiðslu. Í ástandi eins og þessu sem við erum í núna er aldrei hægt að sjá alla hluti fyrir. Það er aldrei hægt að taka utan um alveg alla þætti en eins og ræðumenn hafa komið að á undan mér er vinna í gangi í félagsmálaráðuneytinu til að reyna eftir fremsta megni að grípa þá aðila sem kynnu einhverra hluta vegna að bera skarðan hlut frá borði vegna þessara fordæmalausu aðstæðna.

Ég held hins vegar að ekki sé hægt að draga fjöður yfir það að auðvitað mun allt samfélagið að einhverju leyti þurfa að bera byrðar og jafnvel lenda í einhvers konar erfiðleikum vegna þessa máls. Byrðarnar verða þó léttari ef fleiri koma að því að bera þær.

Mig langar að hnykkja á því sem er kannski einna mikilvægast í breytingunum, atriðum sem snúa að umönnun barna en þó sérstaklega að umönnun þeirra barna og ungmenna sem þurfa að sækja þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þetta er afar viðkvæmur hópur og gríðarlega mikilvægt að nefndin skuli hafa fengið ábendingar utan úr samfélaginu um að bregðast við stöðu hans en jafnframt að nefndin skuli í fullri samstöðu taka ákvörðun um að breyta þessum ákvæðum frumvarpsins.

Í öðru lagi var í vinnu nefndarinnar komið töluvert inn á stöðu sjálfstætt starfandi einstaklinga, einyrkja sem oft og tíðum eru í þannig starfi að verkefni falla niður um þessar mundir, m.a. vegna óvilja margra til að vera úti á meðal fólks, annars vegar vegna samkomubannsins en hins vegar vegna sinnar persónulegu stöðu. Því er mjög mikilvægt að tekið sé betur utan um réttindi þessa fólks í þeim breytingartillögum sem nefndin flytur. Þetta er mikilvægt og ég taldi rétt, herra forseti, að koma þeim skilaboðum á framfæri. Enn og aftur flyt ég hv. velferðarnefnd kærar þakkir sem og starfsfólki þingsins sem hefur unnið gott verk við að koma málinu hingað.