150. löggjafarþing — 81. fundur
 23. mars 2020.
aðstoð við fyrirtæki.

[10:33]
Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Vissulega eru mjög óvenjulegir tímar hér á landi og um heim allan. Um allan heim er verið að grípa til aðgerða sem ekki hafa sést áður eða í það minnsta er langt síðan þær hafa sést. Við verðum öll vör við það ástand sem nú ríkir með einum eða öðrum hætti. Við sjáum á okkar vinnustað, Alþingi, hvernig hlutirnir eru en úti í samfélaginu eru tugþúsundir einstaklinga sem hafa verulegar áhyggjur af framtíðinni, af því hvað koma skal og hvað hægt er að gera til að lifa af næstu mánuði og misseri. Ríkisstjórnin hefur kynnt ákveðnar tillögur og fagna ég þeim. Ég vil hrósa fjármálaráðherra fyrir að koma fram með þær. Við erum hins vegar ekki alveg sammála um að þetta sé rétt aðferðafræði eða nógu langt gengið. Það er nokkuð sem við hljótum að taka umræðu um í þingsal eða í nefndum eftir því hvernig hlutirnir þróast.

Nú eru mögulega fjölmörg fyrirtæki, sérstaklega í ferðaþjónustu, sem hafa engar tekjur. Núna er engin innkoma og verður engin innkoma næstu mánuðina. Hvernig eiga þessir aðilar að fara að ef þeir eiga að borga 25% af launum til að halda starfsmönnum ef þeir hafa enga innkomu? Þeir hafa skuldbindingar og fjárfestingar en ekkert kemur í kassann. Ég get ekki séð að þessi fyrirtæki geti í raun gengið inn í það fyrirkomulag sem þarna var sett af stað.

Mig langar líka að heyra ráðherra útskýra fyrir mér hvernig hægt sé að rökstyðja og treysta fjármálastofnunum, bönkunum, fyrir því að velja úr hvaða fyrirtækjum á að hjálpa og hverjum ekki. Eins og ég skil þessar tillögur munu fjármálastofnanir, bankarnir, velja úr þá sem fá aðstoð. Verður það þannig að þeir sem ekki fá aðstoð en telja sig vera með góð fyrirtæki geti leitað eitthvað annað og fengið álit einhvers annars á stöðu sinni?



[10:35]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir góðar undirtektir við okkar fyrstu útspilum núna um helgina sem eru stærstu skref sem stigin hafa verið í efnahagsráðstöfunum hér á landi. En þeim er ekki fylgt eftir með orðunum: Þetta er nóg. Þeim er fylgt eftir með orðunum: Þetta er það sem við teljum rétt að gera á þessu stigi málsins og við trúum að muni koma til aðstoðar fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir tekjuhruni, svo dæmi sé tekið, og fjölskyldum og einstaklingum úti um allt samfélag sem hafa áhyggjur af framtíðinni. Við viljum létta áhyggjum af fólki og erum hér með mjög markviss úrræði sem grípa inn í þá stöðu að fjöldinn allur af fólki, eins og t.d. yfir 90%, sýndist mér, af starfsfólki Icelandair, er að missa starfshlutfall. Ríkið kemur inn í þá stöðu.

Ég vil ítreka að við erum ekki að fullyrða eitt eða neitt um það að þetta sé nóg. Það eru sterk rök fyrir því að ef þessi krísa dregst á langinn þurfum við að gera meira. Ef við veltum því fyrir okkur að þetta ástand muni leiða til þess að skuldir safnist upp í samfélaginu yfir tíma erum við í raun og veru fyrst og fremst að horfa á spurninguna: Hvar munu þessar skuldir safnast upp? Við vitum að ríkissjóður mun taka á sig verulega aukna skuldsetningu en við vitum á sama tíma að fyrirtækin þurfa að auka skuldsetningu sína. Einhvers staðar eru þó mörk á því hvað þau geta gengið langt. Það er alveg augljóst að við ætlum ekki að koma út úr þessari lægð þannig að við séum með það sem við kölluðum á sínum tíma zombí-fyrirtæki, uppvakninga sem geta sig ekki hreyft, hafa enga getu til að gera nokkurn hlut vegna þess að skuldirnar eru þeim orðnar ofviða.

Ég ætla að koma inn á það aðeins í síðara svari hvernig við sjáum fyrir okkur að fyrirgreiðsla verði veitt í kerfinu en við ætlum að gera mikla kröfu til þess að viðskiptabankarnir standi sig og nýti það svigrúm sem Seðlabankinn er að gefa þeim til að standa við bakið á þeirra viðskiptamönnum.



[10:38]
Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Já, við getum verið sammála um að það er mikilvægt að fyrirtæki sem það geta nýti sér þessa möguleika. Það er hins vegar þannig að ekki eru öll fyrirtæki lífvænleg, eru ekki með góðan rekstur, hafa kannski ekki getað safnað í sjóði vegna fjárfestinga og þess háttar og hafa því ekki möguleika á að nýta sér þetta, lítil ferðaþjónustufyrirtæki svo dæmi sé tekið þar sem menn eiga bara ekki sjóði til að mæta þessum 25%. Ég hef áhyggjur af því. Sum þessara fyrirtækja hafa t.d. haft samband og spurt: Hvað er í þessu fyrir okkur? Ég á ekki peninga fyrir mánaðamótin næstu, fyrir laununum, vegna þess það er engin innkoma, það er núll, ég þarf að borga af lánum og tryggingar o.s.frv. Þetta er áhyggjuefni.

Síðan held ég að það sé mjög mikilvægt, í ljósi þess að við hljótum hafi lært eitthvað af bankahruninu þegar bankarnir fóru í það að velja hverjir fengu að lifa og hverjir ekki, að vera með það alveg kristaltært að bankarnir geti ekki valið þá sem þeim hugnast og þóknast. Það verður að vera algjört gagnsæi og þeir sem telja sig hlunnfarna í því verða að getað leitað eitthvert annað til þess að fá úrlausn sinna mála eða niðurstöðu.



[10:39]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég sé þetta þannig að fyrirtæki eins og það sem hv. þingmaður er að lýsa hér, sem hefur tapað tekjum að verulegu leyti, jafnvel öllu leyti, er dæmi um fyrirtæki sem við erum að reyna að teygja okkur til. Slíkt fyrirtæki ætti að mínu mati að fá fyrirgreiðslu í sínum viðskiptabanka þannig að afborganir falli niður á næstunni og þeim verði einfaldlega fleytt aftast á lánið sem er til staðar. Þar fyrir utan eru brúarlánin sniðin að slíkum fyrirtækjum vegna þess að við segjum að þau eru einmitt til þess að geta staðið undir launagreiðslum, leigu, aðfangakaupum og öðru slíku.

Tíminn einn getur síðan leitt fram hvort við þurfum hreinlega að fara í að létta skuldum þar sem þær eru að safnast óeðlilega fyrir hjá fyrirtækjum sem eiga í eðlilegu árferði fyrir sér framtíð. Hversu langt á að ganga í því er ekki gott að segja akkúrat í dag og við verðum einfaldlega að halda áfram að stíga ölduna, meta þau úrræði sem við höfum þegar gripið til, hvernig þau eru að virka og hvar þurfi mögulega að ganga lengra. (Forseti hringir.) Ég tel að við séum búin að stíga mjög myndarlega inn í stöðuna þannig að menn eigi ekki að þurfa að hafa áhyggjur alveg á næstunni.