150. löggjafarþing — 81. fundur
 23. mars 2020.
vandræði ferðaþjónustunnar.

[10:41]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra mun mæla fyrir aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19 heimsfaraldursins að loknum þessum dagskrárlið. Aðgerðirnar miða flestar að því að gefa fyrirtækjum sem missa tekjur tímabundið möguleika á að lifa dýfuna af og taka aftur til starfa þegar faraldurinn er genginn yfir. Það er vissulega mikilvægt og margar góðar tillögur þar á meðal. Ferðaþjónustan, sem fyrir skellinn var stærsta atvinnugreinin á Íslandi og stóð undir tæpum 9% af landsframleiðslu í fyrra, stendur nú berskjölduð. Ferðaþjónusta er svo að segja hrunin úti um allan heim og sama má segja um greinina hér heima. Mörg hótel og gistiheimili er í miklum vanda. Í sumum þeirra er engin starfsemi þessa dagana, allt í frosti og starfsmenn komnir á atvinnuleysisbætur.

Ég vil spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort hann reikni með því að ferðaþjónustan taki við sér á þessu ári eða hvort hann telji að það geti tekið greinina langt fram á næsta ár eða lengur að rétta eitthvað úr kútnum. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru tímabundnar og almennar. Líklegt er að ferðaþjónustan þurfi frekari aðstoð sem beinist sérstaklega að greininni. Mun hæstv. ráðherra nýta rýmri heimildir um ríkisstyrki sem Evrópusambandið og Eftirlitsstofnun EFTA hafa gefið út vegna þessa ástands og ef nauðsyn krefur óska eftir undanþágu frá Eftirlitsstofnun EFTA til að beina aðgerðum sérstaklega að t.d. hótelum, gistiheimilum og flugi? Á heimasíðu ESA er að finna viðmiðunarreglur og þar eru nefndar mögulegar undanþágur fyrir ríkisstyrki til ferðaþjónustu í þessu ófremdarástandi.



[10:43]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er engin leið að segja nákvæmlega hvenær botninum verður náð hjá ferðaþjónustunni. Ég held að við séum ekki búin að finna botninn. Ég held að mjög erfiðir mánuðir séu fram undan. Það er útilokað að fullyrða neitt um það hvort ferðamönnum taki að fjölga á ný, mánuð fyrir mánuð, í sumar, svo dæmi sé tekið. Það er bara ekki tímabært að fullyrða neitt um það. Ég er alveg sannfærður um að áhrifin af þessari krísu munu teygja sig inn á næsta ár en við munum finna einhvern tímann á þessu ári, að mínu áliti, einhvers konar viðspyrnu. Ég segi þetta vegna þess að ég trúi því að þetta sé tímabundið ástand, að faraldurinn gangi yfir og að hlutirnir muni að nýju á þessu ári komast smám saman í eðlilegra horf. En við munum hins vegar ekki endurheimta stöðu ferðaþjónustunnar á þessu ári og mögulega ekki heldur á næsta ári. Allar okkar aðgerðir miða hins vegar að því að ef það léttir eitthvað til, það birtir til að nýju, þá verðum við tilbúin til þess að nýta tækifærin í þeirri stöðu.

Það er rétt sem hér kemur fram að menn hafa rýmkað mjög heimildir fyrir ríkisaðstoð og mér finnst sjálfsagt að við nýtum okkur það. Ég tel reyndar að það sem við erum að gera í dag sé dæmi um að við erum að spila inni í því nýja rými. Við teljum ekki að við séum að rekast á ríkisaðstoðarreglur með brúarlánunum sem við höfum nefnt. En ég myndi vilja biðja menn um að gæta sig á því að beina sjónum sínum eingöngu að ferðaþjónustunni. Það er alveg augljóst að fyrirtæki sem eru bara lauslega tengd ferðaþjónustu verða fyrir gríðarlegum skakkaföllum. Eigum við að taka bara leigubíla, svo dæmi sé tekið af handahófi um einhverja sem sjá hrun í tekjum sínum þrátt fyrir að vera kannski ekki beint starfandi í ferðaþjónustunni sem slíkri? Svona væri lengi hægt að telja, það væri hægt að ganga upp allan Laugaveginn og benda til hægri og vinstri handar á fyrirtæki sem verða fyrir áhrifum en eru kannski ekki skilgreind í venjulegu tali sem ferðaþjónustufyrirtæki.



[10:45]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það var athyglisvert en ég vil þó hvetja ráðherrann til að teikna upp þá sviðsmynd í ráðuneyti hans hvernig beita mætti sértækum aðgerðum og beina þeim að fyrirtækjum sem ættu í erfiðleikum með að reisa sig við á stuttum tíma þegar við réttum úr kútnum.

Herra forseti. Heilbrigðiskerfið er fyrsta varnarlínan þegar ógn steðjar að og það sannast rækilega í núverandi ástandi. Gott og sterkt heilbrigðiskerfi varðar þjóðaröryggi. Heilbrigðiskerfið okkar er undir miklu álagi og það mun þurfa aukið fjármagn svo ekki myndist verulegur hallarekstur á yfirstandandi ári. Ekkert er hins vegar um aukið fjármagn til heilbrigðiskerfisins í fjáraukanum sem við ræðum síðar í dag og ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort við getum ekki treyst því að halli í ár verði bættur þannig að heilbrigðisstofnanir þurfi ekki að skera niður þjónustu (Forseti hringir.) á næsta ári til að vinna upp hallann sem myndast á þessu ári.



[10:46]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög mikilvægt atriði sem hv. þingmaður kemur inn á sem tengist heilbrigðiskerfinu. Við erum að boða það í þessum fjárauka að annar fjárauki muni koma síðar á árinu til að sækja heimildir fyrir margt sem er fyrirséð á útgjaldahliðinni í dag en var það ekki þegar fjárlög voru samþykkt. Þar er heilbrigðisþjónustan augljóslega efst á blaði. Við höfum almennan varasjóð til að sækja í og eins og sakir standa teljum við að við séum ekki á leiðinni inn í neinn bráðavanda varðandi þetta og að nýr fjárauki muni koma að gagni.

Að öðru leyti varðandi fyrirtækin er auðvitað margt sem kemur til greina sem við þurfum að stíga frekari skref í. Við getum séð fyrir okkur ýmiss konar aðgerðir til að styðja enn frekar við fyrirtækin ef við teljum þess þörf; endurgreiðslu skatta, niðurfellingar skatta, tímabundið eða jafnvel varanlega, afskriftir skulda í bankakerfinu. Allt eru þetta augljósar aðgerðir sem getur þurft að grípa til ef ganga þarf lengra þannig að við sitjum ekki eftir krísuna uppi með ofskuldsett fyrirtæki sem geta sig hvergi hreyft, fjárfest, ráðið til sín fólk og látið til sín taka. (Forseti hringir.) Við þurfum að koma aftur sem fyrst á eðlilegu ástandi.