150. löggjafarþing — 81. fundur
 23. mars 2020.
verðtrygging lána.

[10:48]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Nú þegar Covid-veiran er á fullu að herja á heimilin óttast ég mjög — og ég ætla að verða eiginlega eins og gömul grammófónplata sem hjakkar alltaf í sama farinu — um ekki bara fólkið í landinu heldur heimilin. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hvað ætlar hann að gera í sambandi við verðtrygginguna? Verðbólgudraugurinn mun koma upp og það mun koma stökkbreyting á verðtryggð lán heimilanna. Eins og við vitum að skeði í hruninu mun það bitna á þúsundum heimila ef ekkert verður að gert. Ég vil bara fá svar núna strax við spurningunni: Hvað ætlar fjármálaráðherra að gera í þessu? Er hann tilbúinn að taka verðtrygginguna úr sambandi á heimilislán, á lánin hjá heimilum, núna strax? Við getum gert þetta einn, tveir og þrír, bara til að róa fólk niður. Ætlar hann að bíða þangað til að þeir sem eiga minnst í húsnæðinu eru búnir að missa allar sínar eigur? Hvenær á að gera þetta? Ég vil fá svar við því.

Síðan vil ég líka fá svar við því hvers vegna ekkert er í pakkanum hjá honum um það hvernig á að styðja við einstaklinga sem eru verst settir á Íslandi. Það er unnið fyrir barnafólk en það eru einstaklingar sem eru svo illa staddir að þeir eru að reyna að halda húsnæðinu með svo lágar bætur og svo lágt útborgað að það er útilokað. Þetta fólk getur ekki einu sinni keypt sér mat, getur ekki einu sinni farið út í búð og náð í mat af því að það á ekki pening.

Síðan er annað í þessu. Af hverju eru ekki lagðir peningar í Hjálparstarf kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálpina til að þessir einstaklingar geti keypt t.d. lýsi, C-vítamín og D-vítamín? Það hefur komið fram að þetta hjálpar. Setjum þarna peninga í að hjálpa þessu fólki. Ég vil fá að sjá hvað ráðherra er að gera í því. Hvenær verður þessi hópur undir?



[10:50]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hér um verðtrygginguna og lýsir áhyggjum af þróun hennar. Enn sem komið er er ekki hægt að lesa út úr viðbrögðum markaðsaðila annað en að markaðurinn geri ekki ráð fyrir miklu verðbólguskoti. Ég vek athygli á því að eftir yfirlýsingu Seðlabankans frá því í morgun hafa vextir á verðtryggðum lánum fallið niður í 0%, ekki bara til skamms tíma heldur allt fram til ársins 2026. Markaðurinn gerir ráð fyrir því að vextir verði lágir, ekki bara á þessu ári heldur mörg næstu ár eftir yfirlýsingar Seðlabankans frá því í morgun. Þetta skiptir miklu þegar spurt er hvernig aðgerðir stjórnvalda geti haft áhrif á hag heimilanna.

Seðlabankinn hefur skyldur að lögum til að halda aftur af verðbólgunni og hann ver trúverðugleika sinn til að sinna því verkefni með þeim tækjum og tólum sem hann hefur. Ég tel ekki tímabært að grípa til sérstakrar lagasetningar vegna verðbólgu og verðtryggingar. Ég tel reyndar að ef við færum út í slíkar aðgerðir mætti efast um traust okkar á því að þessir hlutir verði í lagi.

Ég vek líka athygli á því vegna umræðunnar um verðtryggð lán að hafi menn raunverulegar áhyggjur af því að verðbólga sé á leiðinni ættu menn ekki að gleyma því að ræða um stöðu þeirra sem hafa tekið óverðtryggð lán í stórauknum mæli á undanförnum árum vegna þess að þeirra greiðslubyrði um hver mánaðamót mun hækka miklu meira en hinna sem hafa verðtryggð lán og njóta í raun og veru skjóls af henni. Ég tel að aðgerðir okkar horfi einmitt til fólksins í landinu, ekki bara fyrirtækjanna, af því að hér er rætt um einstaklinga. Að öðru leyti tek ég bara undir með hv. þingmanni þegar hann talar um ýmsar hjálparstofnanir. Við eigum að standa við bakið á þeim.



[10:52]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ákveðin teikn eru á lofti. Við erum búin að sjá gengi evrunnar fara úr 136 í 150 og dönsku krónuna og allt gengið á fleygiferð upp. Þetta þýðir á mannamáli að allar vörur munu hækka. Allt mun hækka sem er einmitt ávísun á verðbólguskot.

Þó að vextirnir séu 0 segir það ekki alla söguna. Við verðum jafnframt að átta okkur á því hverjir taka verðtryggð lán. Það eru þeir sem hafa lægstu launin vegna þess að þar er greiðslubyrðin minnst. Hverjir taka óverðtryggð lán? Þeir sem eru á hæstu laununum, þeir sem geta þar af leiðandi borgað mun hærra hlutfall af sínum tekjum í afborganir af íbúðalánum. Þetta segir okkur að það er himinn og haf á milli þessara einstaklinga. Ég vona heitt og innilega að þið takið það inn í ef í ljós kemur að verðbólgan er að fara af stað. (Forseti hringir.) Ég fagna því einnig að þið ætlið að setja fjármuni inn í hjálparstofnanir svo að þær geti sinnt þeim sem minnst mega sín.



[10:54]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að segja það varðandi gjaldmiðilinn okkar að hann hefur staðið sig vel að undanförnu. Hann hefur gagnast vel. Það er eðlilegt við þessar aðstæður að gengi íslensku krónunnar gefi nokkuð eftir. Við erum hér að ræða um algjört hrun hjá mörgum ferðaþjónustuaðilum, ekki satt? Þegar við horfum aðeins víðar yfir sviðið sjáum við að íslenska krónan er að veikjast t.d. gagnvart bandaríska dollaranum bara u.þ.b. jafn mikið og aðrar smáar myntir eru að gera. Við skulum ekki gleyma því hvaða viðspyrna felst í þessu. Það má leyfa sér að velta upp þeirri spurningu hvort það gæti ekki verið raunin að einstaka ríki myntbandalagsins, evrunnar, myndu gjarnan vilja eiga inni veikingu á borð við þá sem hv. þingmaður er að lýsa áhyggjum af. Ætli Ítalirnir myndu ekki vilja gefa nokkuð fyrir ákveðna veikingu (Forseti hringir.) síns gjaldmiðils um þessar mundir?