150. löggjafarþing — 81. fundur
 23. mars 2020.
vinna nefnda við stjórnarfrumvörp.

[11:02]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það er óhætt að segja að þetta eru undarlegir tímar sem við erum að fara í gegnum núna. Auðvitað er heilsuváin þar brýnasta viðfangsefnið en það er líka alveg ljóst að þau mál sem við erum að taka hér til umfjöllunar í þinginu í dag munu skipta alveg gríðarlega miklu máli. Það skiptir að mínu viti mjög miklu að innan þings skapist góð samstaða því að þessi mál þarf að vinna hratt og örugglega. Hér þarf að skapast góð samstaða um afgreiðslu þeirra og nauðsynlegar breytingar eða betrumbætur sem á þeim kann að þurfa að gera.

Þetta er ekki tími pólitískra yfirboða en þetta er heldur ekki tími fyrir gagnrýnisleysi eða meðvirkni. Það verður meiri hlutinn sem mun slá tóninn um það hvernig þinginu tekst til við afgreiðslu þessara mála í vikunni og því langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki sé alveg öruggt að meiri hluti í bæði fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd sé með skýr skilaboð frá ríkisstjórninni og skýrt umboð til að ráðast í þær breytingar sem þarf að gera á þessum málum og til að tryggja gott samstarf í nefndunum, milli minni hluta og meiri hluta. Við þessar kringumstæður er alveg sama hvaðan góðar hugmyndir koma, mestu máli skiptir að nefndirnar nái vel saman um þær breytingar sem þarf að gera og gangi lengra eftir því sem þurfa þykir.

Því vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Er ekki alveg öruggt að þeim málum sem við erum að taka til 1. umr. í dag og afgreiðslu og vinnslu núna í vikunni á leifturhraða fylgi þau skýru skilaboð frá ríkisstjórninni að hér sé umboð til að vinna með þau og líkt og gert var í velferðarnefnd með hlutaatvinnuleysisbætur að betrumbæta eins og þurfa þykir?



[11:04]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir jákvæðan tón sem ég finn fyrir í þinginu um að eiga gott samstarf og segi að af minni hálfu og okkar í ríkisstjórninni stendur ekkert annað til en að eiga sem allra best samstarf um niðurstöðu þessara mála. Það er hægt að segja um aðgerðir ríkisstjórnarinnar að þessar tillögur eru ekki lagðar fram á grundvelli einhverrar vísindalegrar rannsóknar heldur þarf meira að leika ákveðna pólitíska list við að skapa nauðsynlegt traust og senda út rétt skilaboð um að við ætlum að standa öll saman í gegnum erfiðan tíma. Umfang aðgerðanna er ekki endanlegt en það hefur sín ytri mörk eins og við leggjum þetta núna fyrir þingið. Við fylgjum því eftir með því að segja að við munum áfram þurfa að fylgjast mjög náið með stöðunni.

Almennt myndi ég þess vegna vil ég segja að við ættum að geta verið sammála um að stöðugt endurmat þarf að eiga sér stað eftir því hvernig úr spilast næstu vikurnar. Samt sem áður er mikilvægt að klára þessi skref. Ég ætla ekki að standa í vegi fyrir því að menn geri breytingar eftir því sem ástæða þykir til. Ég get nefnt eitt dæmi um mál sem ég held að við ættum að reyna að hraða afgreiðslu á og ætti ekki að taka miklum breytingum í grundvallaratriðum, þ.e. það er umfang fjárfestingarátaksins. Ég vonast til að geta lagt fyrir ríkisstjórn á morgun þingsályktunartillögu um verkefnin sem eiga að fylla þessa 15 milljarða sem við ræðum hér í dag. Í samstarfi við þingið finnst mér sjálfsagt að við ræðum einstök verkefni, innbyrðis áherslur og annað þess háttar, en ég myndi síður vilja sjá menn fara í kapphlaup um að segja að það sé hægt að koma út öðrum 10 milljörðum eða öðru á kostnað ríkissjóðs að þessu sinni vegna þess að við þykjumst hafa farið nokkuð nákvæmlega yfir það hvað er raunhæft að geta gert í sumar. (Forseti hringir.) Við erum bara rétt að byrja þessa umræðu. Ég mun ekki segja þinginu fyrir hvernig það á að afgreiða málin fyrir fram.



[11:07]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég held að einmitt við þessar kringumstæður sé mjög mikilvægt og það er bara rík krafa um það í samfélaginu að við sem hér störfum snúum bökum saman og vinnum sem einn maður að lausn á þeim brýnu vandamálum sem við er að etja. Það er alveg ljóst að forgangurinn í þeim málum sem hér er verið að ræða eða forgangurinn í þeirri vinnu, bæði í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, hvað varðar mögulegar breytingar eða lagfæringar hlýtur alltaf að snúa að bráðaaðgerðunum, því sem hefur áhrif næstu tvo til þrjá mánuðina. Við sjáum auðvitað að staðan versnar frá degi til dags, hefur verið að versna í raun og veru stöðugt á meðan ríkisstjórnin hefur haft þessi mál til meðhöndlunar. Því má vel vera að það þurfi að ganga lengra í einhverjum tilvikum eða þurfi að gera einhverjar breytingar.

Því fagna ég því að hæstv. ráðherra taki vel í þessa málaleitan. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þingið hafi gott umboð til að vinna þessi mál (Forseti hringir.) vel og vandlega og í góðu samstarfi. Ég vona svo sannarlega, og við í Viðreisn munum leggja okkar af mörkum hvað það varðar, að okkur takist vel til.



[11:08]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það verður líka að segjast eins og er að þingið er í viðbragðsstöðu vegna útbreiðslu veirunnar og ég vonast til að nefndinni gangi vel að fást við verkefnið við þær aðstæður sem við búum við í dag. Ég sé enga ástæðu til annars en að það geti tekist vel.

Stjórnkerfið mun styðja við þessa vinnu og svara spurningum eftir því sem við getum. Það er alveg ljóst að fjölmargir aðilar munu vilja hafa skoðun á þessum aðgerðum en fyrstu viðbrögð eru jákvæð, verð ég að segja. Mér finnst ég skynja jákvæð viðbrögð frá Samtökum iðnaðarins, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum ferðaþjónustunnar. Það gefur vísbendingar um að okkur sé að takast að koma því út í samfélagið og koma því til skila að við tökum stöðuna mjög alvarlega og séum tilbúin að ganga mjög langt til að styðja við rekstur í landinu, slá skjóli (Forseti hringir.) yfir störfin og leggja þannig grunn að samstöðu um framhaldið.