150. löggjafarþing — 82. fundur
 23. mars 2020.
fjáraukalög 2020, 1. umræða.
stjfrv., 695. mál. — Þskj. 1172.

[13:34]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2020 sem er að finna á þskj. 1172. Með þessu frumvarpi eru lagðar fyrir Alþingi tillögur um breytingar á fjárheimildum ýmissa málefnasviða og málaflokka vegna þeirra aðstæðna í efnahagslífinu sem eiga sér varla hliðstæðu á seinni tímum. Innihald frumvarpsins byggir á samþykkt ríkisstjórnarinnar hinn 10. mars 2020 um aðgerðir í sjö liðum til að mæta efnahagslegum áhrifum faraldursins af völdum kórónuveirunnar. Hér er um að ræða nokkrar afmarkaðar breytingar á gildandi fjárlögum sem lúta að tilteknum hlutum mótvægisráðstafana stjórnvalda í tengslum við það áfall á efnahag landsins sem af faraldrinum hlýst. Frá því að ríkisstjórnin gaf yfirlýsingu á sínum tíma hafa hlutirnir þróast. Við höfum eftir því sem aðstæður hafa leyft tekið tillit til þess og gripið til nánari útfærslu á einstaka stefnumarkandi atriðum. Þetta frumvarp er lagt fram samhliða öðrum ráðstöfunum í ríkisfjármálum, annars vegar á sviði skattamála og hins vegar vegna ráðstafana sem varða greiðsluerfiðleika fyrirtækja. Það má gera ráð fyrir að þetta frumvarp verði hið fyrra af tveimur til fjáraukalaga fyrir árið 2020. Að öðru óbreyttu má ætla að hið síðara verði lagt fram á haustmánuðum venju samkvæmt, á 151. löggjafarþingi. Í því frumvarpi má gera ráð fyrir að afla þurfi frekari fjárheimilda, m.a. til að mæta auknum útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs á yfirstandandi ári og öðrum kostnaði af völdum heimsfaraldurs sem ekki rúmast innan fjárheimilda almenns varasjóðs fjárlaga þegar kostnaðaráhrifin liggja betur fyrir.

Það er eðlilegt að spurt sé hvort ekki hafi verið tilefni til að koma með ráðstafanir vegna aukinna útgjalda sem augljóst er að verða, t.d. í heilbrigðiskerfinu, en við teljum á þessum tímapunkti að slík óvissa sé um umfangið að best fari á því að við fleytum því inn í fjárauka haustsins, auk þess sem við höfum varasjóðinn til að mæta einhverjum mismun.

Útbreiðsla kórónuveirunnar og ráðstafanir til að hamla útbreiðslu hennar hafa þegar haft víðtæk efnahags- og samfélagsleg áhrif. Því miður er við því að búast að þessi áhrif muni aukast á næstu vikum. Útlit er fyrir verulegan samdrátt í ferðaþjónustu, sumir segja algjört stopp, og við sjáum að hótel loka hvert á fætur öðru þessa dagana, auk þess sem einkaneysla og atvinnuvegafjárfesting mun dragast saman. Þá eru við slíkar aðstæður allar líkur á að atvinnuleysi aukist verulega á komandi vikum og mánuðum og það jafnvel þrátt fyrir hlutabótaleiðina sem við höfum lögfest. Efnahagsforsendur breytast því nær dag frá degi og nær ómögulegt er að spá fyrir um þróun hagstærða næstu misseri. Nú þegar er þó ljóst að víða munu hagkerfi dragast saman í ár, auk þess sem atburðir undanfarinna vikna hafa leitt til verulegrar lækkunar á eigna- og hrávörumörkuðum.

Íslenska þjóðarbúið er hins vegar vel í stakk búið til að takast á við áföll. Dregið hefur úr skuldsetningu fyrirtækja og heimila, auk þess sem gjaldmiðlamisvægi eigna og skulda er alls ekki fyrir hendi í sama mæli og áður átti við, t.d. í aðdraganda fjármálahrunsins, þ.e. falls bankanna. Þá var slíkt gjaldmiðlamisvægi sérstakt vandamál.

Loks er rétt að minnast á sterka stöðu ríkissjóðs. Við höfum greitt upp skuldir á undanförnum árum og höfum notið mikils vaxtar í landsframleiðslunni sem kemur sér vel núna. Þessu til viðbótar er eigin- og lausafjárstaða viðskiptabankanna sterk. Gjaldeyrisforði Seðlabankans hefur aldrei verið stærri og erlendar eignir hagkerfisins eru meiri en skuldir. Erlend staða þjóðarbúsins er því sterk og hætta á gengishruni og hárri verðbólgu er lítil. Það er því ekki ástæða til að ætla annað á þessu stigi en að núverandi samdráttarskeið verði skammvinnt en menn geta haft ólíkar skoðanir á því hvað er skammur tími eða langur þegar jafn mikið áfall verður eins og við horfum upp á núna, jafn mikið tekjuhrun hjá mörgum. Þá skiptir hver dagur máli en við verðum að sætta okkur við það enn um sinn að töluverð óvissa er um það hversu hratt hagkerfi okkar og reyndar hagkerfi heimsins muni ná jafnvægi á ný.

Virðulegi forseti. Eins og áður hefur komið fram er í þessu frumvarpi um að ræða tillögur um ný verkefni og auknar heimildir sem varða útgjaldamál sem voru ófyrirséð við afgreiðslu fjárlaga og teljast nú orðin brýn eða óhjákvæmileg. Í frumvarpinu er farið fram á að fjárheimildir ríkissjóðs á árinu 2020 verði auknar um 21,1 milljarð en það svarar til um 2% hækkunar á heildarfjárheimildum í gildandi fjárlögum. Umfang tillagnanna skýrist þó, eins og ég hef áður nefnt, af fáum en stórum útgjaldamálum.

Í 4. gr. frumvarpsins eru einnig lagðar til breytingar á heimildarákvæðum í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2020.

Hér ætla ég að víkja nánar að meginefni frumvarpsins. Í fyrsta lagi er lagt til að ráðherra fái heimild til að veita framlög í sérstaka tímabundna flýtingu framkvæmda og fjárfestinga til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu með arðbærum fjárfestingum sem auka eftirspurn eftir vinnuafli og auka framleiðslugetu hagkerfisins til lengri tíma litið. Verklag okkar hefur verið það að skilyrði fyrir framlögum til slíkra verkefna, eins og við höfum undirbúið þessar tillögur sem munu koma fyrir þingið í sérstöku þingskjali í þingsályktunartillögu, þ.e. skilyrði fyrir því að verkefni rati á listann hjá okkur er að þau geti hafist eigi síðar en 1. september nk. og verði að fullu lokið eigi síðar en 1. apríl 2021. Þetta hefur verið þumalputtareglan í undirbúningi okkar að þessu fjárfestingarátaki, finna verkefni sem eru mannaflsfrek, eru arðbær og hægt að ráðast í strax.

Í öðru lagi er lagt til að veita ráðherra heimild til að auka hlutafé í opinberum félögum í því skyni að auka fjárfestingargetu þeirra á árinu 2020. Þetta skiptir líka máli og þetta spilar saman. Ég ætla ekki að úttala mig um þetta hér en það kann að vera að einstaka fyrirtæki, mögulega t.d. Isavia, komi að gagni að fá einhvers konar framlag ef menn vilja flýta eitthvað áformum. Það getur spilast þannig að það skipti máli að ríkissjóður styðji við fyrirtæki út af lánaskilmálum til að styrkja efnahaginn og tryggja að vilji menn ráðast í framkvæmdir sem voru fyrirhugaðar en geta skipt miklu máli, t.d. út af atvinnuástandinu á Suðurnesjum, að ráðast fyrr í framkvæmdir, viðhald og uppbyggingu á svæðinu, bæði vegna varanlegra rekstrarfjármuna sem þeir eru þarna með og nýbygginga sem fyrirhugað er að reisa. Þetta nefni ég bara sem stakt dæmi en þetta tvennt mun spila mjög vel saman. Við förum nánar ofan í fjárfestingarátakið þegar þingsályktunartillagan kemur fyrir þingið en við höfum reynt að vera með flóru af fjárfestingum sem munu gagnast samfélaginu öllu.

Í þriðja lagi er lagt til í þessu frumvarpi að ráðherra verði veitt heimild til gerðar samnings við Íslandsstofu um kynningar- og markaðsátak erlendis á árunum 2020–2021. Samninginn myndi ferðamálaráðherra gera en hér er um það að ræða að ætlunin er að bregðast við neikvæðum áhrifum heimsfaraldursins á íslenska ferðaþjónustu. Ég ætla bara til gamans að geta þess að í morgun fékk ég sendingu í símann um slíkt átak sem Portúgalar eru þegar byrjaðir að dreifa þar sem er talað inn í þetta ástand, talað um mikilvægi þess að allir taki þátt í að hindra útbreiðsluna en minnt á það hvaða tækifæri liggja til að endurnæra sig andlega og líkamlega í framtíðinni þegar leiðir opnast að nýju og koma og heimsækja Portúgal. Þessar herferðir eru sem sagt þegar farnar af stað. Við höfum tekið ákvörðun um að verja 1,5 milljörðum í að undirbúa slíkt átak og það verður sett í loftið þegar okkar besta fólk telur það tímabært.

Í fjórða lagi er lagt til að ráðherra sé heimilt að staðfesta ráðstöfun til markaðsátaks til stuðnings íslenskri ferðaþjónustu. Hér er horft til átaks innan lands sem getur falið í sér hvatningu til ferðalaga með útgáfu innstæðu til allra íbúa 18 ára og eldri.

Í fimmta lagi felst í frumvarpinu heimild til handa ráðherra til að leita samninga við Seðlabanka Íslands um að bankinn annist fyrirgreiðslu af hálfu ríkissjóðs til að auðvelda viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi. Þrátt fyrir að eigin- og lausafjárstaða bankanna sé sterk og vextir hafi lækkað mikið er hætt við að sú áhætta sem einkennir efnahagslífið dragi úr vilja lánastofnana til lánveitinga, jafnvel til fyrirtækja sem geta átt sér bjarta framtíð þegar birtir til í hagkerfinu. Þetta er m.a. vegna þess að veðstaða slíkra fyrirtækja getur verið óhagstæð til lántöku. Fyrirgreiðslunni er ætlað að auka möguleika fyrirtækja í tímabundnum vanda til að afla sér tímabundins lausafjár með því móti að ríkissjóður ábyrgist helming slíkrar viðbótarlántöku. Við lánveitingarnar skulu lánastofnanir uppfylla nánari skilyrði sem ráðherra setur í samningi við Seðlabankann. Hér er gert ráð fyrir því að kveðið verði á um það í samningnum að ríkissjóður tryggi Seðlabankanum skaðleysi vegna þess kostnaðar sem hann kann að verða fyrir vegna slíkrar fyrirgreiðslu, enda er aðgerðin ekki hluti af hefðbundinni starfsemi Seðlabankans. Samningur ráðherra við Seðlabankann skal eftir föngum tryggja endurgreiðslu slíkra viðbótarlánveitinga og miða við að heildaráhætta ríkissjóðs vegna þeirra geti að hámarki numið 35 milljörðum kr. sem eru rétt um 1% af landsframleiðslu.

Í greinargerð með frumvarpinu er nánar vikið að þeirri hugmyndafræði sem býr að baki. Við höfum stillt upp lagaákvæði sem ætti með greinargerðinni að vera góður grundvöllur til að taka ákvörðun um þetta. Við sjáum fyrir okkur að það endurspeglist síðan í samningi milli ríkisins og Seðlabankans sem segir í greinargerðinni eða leiðbeiningum úr þinginu eftir þinglega meðferð. Í greinargerðinni má sjá allar helstu útlínur þessara mála. Við horfum til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir 40% tekjutapi eða meira vegna þessa faraldurs. Við horfum til þess að ríkisábyrgðin eigi að tryggja hagstæðari kjör en ella væri, að bankar geti lánað á hagstæðari kjörum. Það verður að endurspeglast í kjörunum að ríkissjóður standi þarna að baki með ábyrgð. Við gerum auðvitað ráð fyrir því í þessari útfærslu að þar sem bankinn verður sjálfur að taka hluta af útlánatapsáhættunni séu í grunninn teknar ákvarðanir um slíkar lánveitingar á viðskiptalegum forsendum en þó með ríkisábyrgðinni sem við segjum hreinlega í frumvarpinu að við verðum að gera ráð fyrir að reyni á. Við sláum því fram í frumvarpinu og menn verða að virða það til betri vegar vegna óvissunnar að ekki er hægt að setja nákvæma tölu á það en við segjum: Við tökum frá í okkar bókum helminginn af þessari fjárhæð og gerum ráð fyrir að hún geti tapast. Það sýnir við hvaða aðstæður við búum. Með svipuðum hætti hljóta bankarnir að þurfa að nálgast málið, að það er ekki hægt að umgangast þessar aðstæður með sama hætti og á við í venjulegu árferði.

Hugsunin er að teygja sig til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir 40% tekjutapi, að þessi lán nýtist til að standa straum af kostnaði við laun, leigu, birgðahald og aðfangakaup. Við göngum út frá því að lánin verði ekki nema u.þ.b. tvöfaldur launakostnaður síðasta árs, það eru efri mörkin sem við horfum til. Við horfum sérstaklega til fyrirtækja þar sem launahlutfallið er a.m.k. 25% af heildarkostnaði.

Ég ætla að segja að lokum að í öllum okkar aðgerðum erum við auðvitað ekki að smíða þessi úrræði til að koma fyrirtækjum sem hafa verið í vanda sérstaklega til hjálpar. Við horfum meira til fyrirtækja sem eru að lenda í vanda vegna ástandsins. Það væri ekki góð ráðstöfun af okkar hálfu á Alþingi að reyna að leysa uppsafnaðan gamlan vanda fyrirtækja sem ekki hefur tekist að að laga hjá sér reksturinn, að koma með úrræði í dag sem ættu að fleyta þeim eitthvað áfram ef fyrirséð er að jafnvel þótt ástandið lagist verði reksturinn ekki í lagi. Þetta finnst mér nauðsynlegt að nefna. Við verðum að vera hreinskilin með þetta.

Með því að ríkissjóður kemur hér með allt að 35 milljarða ábyrgð og tekur helming áhættunnar gætu lán af þessum toga náð allt að 70 milljarða fjárhæð, 2% af landsframleiðslu. Ég segi aftur að það er ofboðsleg óvissa um hvernig úr þessu spilast. Mögulega viljum við ganga lengra eftir því hvernig úr spilast á komandi mánuðum. Ég skal líka segja hreint út að það kann að vera að við þurfum að gera breytingar á endurgreiðsluskilmálunum sem við erum hérna með. Við horfum á þetta sem 18 mánaða ríkisábyrgð, að hún eigi að falla niður eftir 18 mánuði. Kannski verðum við í þeim sporum í haust eða snemma á næsta ári að þurfa að taka það aftur upp, ekki er hægt að útiloka það, og meira að segja ef þessi krísa dregst á langinn að falla frá kröfu um endurgreiðslu eins og við leggjum þetta upp. Við verðum samt að leggja af stað með þá grundvallarhugsun að þetta séu lán sem beri að endurgreiða en vegna þess hversu slæm staðan er kann að reyna á ríkisábyrgðina og það er ekki öruggt að öll þessi lán endurheimtist. Þetta ræðst allt af framhaldinu.

Í sjötta lagi eru í frumvarpinu lagðar til auknar lántökuheimildir ríkissjóðs vegna fjármögnunar þeirra aðgerða sem lúta m.a. að auknum fjárfestingum, markaðsátaks til að kynna Ísland, tekjufalls ríkissjóðs út af sveiflujöfnuninni og eins vegna frestunar gjalddaga á sköttum og gjöldum og hugsanlegs kostnaðar vegna veitingar ábyrgða á lán viðskiptabanka til fyrirtækja.

Loks er í sjöunda lagi gert ráð fyrir auknum fjárheimildum til viðeigandi málaflokka ráðuneyta sem nema allt að 21,1 milljarði. Vegur þar þyngst 15 milljarða fjárheimild til að ráðast í sérstakt fjárfestingarátak. Einnig er lagt til að veita 3,1 milljarð í sérstakan barnabótaauka og að lokum 3 milljarða til markaðs- og kynningarátaks erlendis og innan lands eins og ég hef hér rakið.

Að öðru leyti vísa ég til nánari umfjöllunar um tillögurnar í athugasemdum við einstaka málaflokka. Þá vek ég athygli á því í tengslum við hlutverk og umfang fjáraukalaga að í 24. gr. laga um opinber fjármál er kveðið á um almennan varasjóð A-hluta ríkissjóðs. Skilyrði fyrir ráðstöfun úr honum eru sams konar og þau sem gilda um frumvarp til fjáraukalaga, þ.e. varasjóðnum er ætlað að bregðast við útgjöldum sem eru tímabundin, ófyrirsjáanleg og óhjákvæmileg. Mat ríkisstjórnarinnar er að best fari á því að þau verkefni sem eru megininntak þessa frumvarps verði að svo stöddu ekki fjármögnuð með framlögum úr almenna varasjóðnum heldur óskað eftir heimildum með sérstökum fjáraukalögum. Því er ekki gert ráð fyrir því að nýta fjárheimildir sjóðsins vegna þessara mála heldur mun ráðstöfun fjárheimilda hans ákvörðuð samhliða vinnslu frumvarps til annarra fjáraukalaga sem verður lagt fram í haust.

Virðulegi forseti. Ég tel mig hafa farið yfir helstu þætti þessa frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 2020 og legg til að því verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar þingsins sem fær málið til skoðunar.



[13:54]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í upphafi míns máls hvetja hæstv. ráðherra til góðra verka og get fullyrt úr þessum stól að Samfylkingin styður að sjálfsögðu allar góðar hugmyndir sem þaðan berast. Ég veit að hér eru allir að reyna að gera sitt besta. Mig langar hins vegar að draga fram nýstárlega hugmynd í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er. Við hæstv. ráðherra þekkjum neyðarástand, þegar bankahrunið varð sátum við báðir á þingi og þá þurfti að hugsa hratt og þurfti að hugsa út fyrir boxið. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra sé til í að styðja það að við hleypum fleiri að stefnumótun og hugsun þegar kemur að leiðum og lausnum við þessari krísu. Hér á ég ekki bara við stjórnarandstöðuna heldur ekki síður fólk og fyrirtæki í landinu. Hér mætti setja á fót einhvers konar rafrænan þjóðfund þar sem fjármálaráðherra og ríkisstjórn myndu kalla eftir tillögum úr atvinnulífinu og frá almenningi um hvernig við getum öll brugðist saman við þessari vá. Þetta verður erfiður tími. Við getum svo sannarlega komist upp úr þessu (Forseti hringir.) en þetta væri að mínu mati sniðug hugmynd til að nýta sér hugmyndaauðgi íslensks atvinnulífs og íslenskra heimila.



[13:56]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil taka það fram að ég er svo sannarlega opinn fyrir því að horfa í kringum mig og hlusta eftir ábendingum og tillögum. Það er alltaf spurning hvernig best er að skapa slíkan vettvang. Það hefur ekki verið skortur á því að atvinnulífið hafi komið ábendingum til okkar. Þeim hefur rignt yfir okkur í raun og veru. Við höfum sömuleiðis verið að horfa til ábendinga frá alþjóðastofnunum og þær hafa verið þó nokkuð margar. Við erum komin með sæmilegt yfirlit nú þegar yfir skattalegar ráðstafanir flestra ríkja í kringum okkur, í sérstakri skýrslu, þannig að allt þetta höfum við verið að skoða. Ég held að vandinn við að ganga alla leið og skapa sérstakan vettvang fyrir þetta sé að tryggja að hann sé sveigjanlegur og skilvirkur en ekki of þunglamalegur. En ég held að á þessu stigi máls séum við í raun og veru að vinna í þessu samráði á fleiri en einum vettvangi, bæði hér í þinginu, í Stjórnarráðinu og annars staðar.



[13:57]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það væri einmitt sniðugt að útvíkka aðeins þetta samráð. Reynslan sýnir að hinir stóru eiga ágætisaðgengi að stjórnvöldum hverju sinni og ég held að við þurfum að hafa í huga að hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi eru lítil og meðalstór fyrirtæki, ábyrgð fyrir um 70% af starfsfólki og 70% af heildarlaunum í okkar samfélagi má rekja til lítilla og meðalstórra fyrirtækja og að langstærstum hluta reyndar til örfyrirtækja. Ég hef einfaldlega áhyggjur af því að þessi fyrirtæki eigi hugsanlega ekki nægilega gott aðgengi eða málsvara þegar kemur að því að móta þær lausnir sem þarf að ráðast í. Það er fyrst og fremst mín nálgun. Rafrænn þjóðfundur myndi henta þeim fyrirtækjum vel að mínu mati en sömuleiðis auka aðgengi almennings. Auðvitað er það ríkisstjórnarinnar og þingsins að meta hvað er gert með þær hugmyndir. En út af þessari fordæmalausu og fáheyrðu stöðu held ég að það væri mjög sniðugt að við opnuðum þetta meira. Þegar svona bjátar á er engin stjórn eða stjórnarandstaða, ekkert hægri eða vinstri. Þá getum við unnið öll saman og ég held að það væri afskaplega mikilvægt ef við næðum að fá þjóðina (Forseti hringir.) með í þá hugmyndavinnu og sömuleiðis myndi það hugsanlega skapa meiri sátt þegar kemur að þeim aðgerðum (Forseti hringir.) sem loks verður ráðist í.



[13:58]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil bara þakka fyrir þann jákvæða tón sem ég finn fyrir varðandi það að við störfum saman að því að finna lausnir og ég ætla ekki að útiloka neitt varðandi það hvernig við sköpum vettvang til þess.



[13:59]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við sýndum það í velferðarnefnd að það er hægt að vinna saman og þar gekk mjög vel með þau tvö mál sem við afgreiddum hér síðast fyrir þingið og vonandi verður svoleiðis áfram. En mig langar að spyrja ráðherra: Hvers vegna í ósköpunum er í þessu frumvarpi 20.000 kr. greiðsla til þeirra sem eru með yfir 11 milljónir í árslaun? Hver er rökstuðningurinn fyrir þeim barnabótum? Hvers vegna er svona nauðsynlegt fyrir þá einstaklinga að fá þessar 20.000 kr.?

Síðan er annað sem mig langar líka að spyrja um og það er í sambandi við bankana, það er talað um 35 milljarða á bankana. En er það ekki á ríkið? Ríkið á bankana að stærstum hluta. Þetta eru 70 milljarðar á ríkið sjálft vegna þess að ríkið hlýtur að bera ábyrgð á þeim bönkum sem það á, þetta hlýtur að vera sami eigandinn.



[14:00]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að ríkið er aðaleigandi tveggja kerfislega mikilvægra banka. Í Landsbankanum eru hluthafarnir reyndar fleiri en íslenska ríkið en það er öðruvísi hjá Íslandsbanka. Engu að síður eru þetta sjálfstæðir lögaðilar og lúta regluverki og gilda samkeppnisreglur um það hvernig þeir ganga fram á markaði. Þeir geta ekki hagað sér eins og um ríkissjóð væri að ræða, en ég held að ég skilji alveg hvað hv. þingmaður er að fara.

Varðandi barnabæturnar held ég að segja megi að grunnhugsunin sé sú að það sé eðlilegt að lægri fjárhæð komi til þeirra sem eru fyrir ofan þessi tekjumörk, það myndi endurspegla hæsta skattþrepið. Það er rétt u.þ.b. 600 milljóna viðbótarkostnaður af því að börn þeirra sem eru fyrir ofan þetta viðmiðunarmark séu tekin með. Ætli það sé ekki óhætt að segja að grunnhugsunin (Forseti hringir.) sé sú að þetta eru fjármunir sem vonast er til að nýtist börnunum, ekki foreldrunum.



[14:01]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin. Jú, nýtist börnum þeirra sem hæst launaðir eru. En þörfin er bara miklu meiri hinum megin. Ég hefði viljað sjá 600 milljónir fara til þeirra sem virkilega þurfa á því að halda.

Svo er annað sem mig langar að spyrja um. Það eru 1,5 milljarðar til Íslandsstofu í átak. Er ekki nú þegar búið að setja ákveðna peninga inn í Íslandsstofu? Og af hverju bara Íslandsstofu? Ætti ekki að dreifa þessum peningum til fleiri, ekki bara til Íslandsstofu? Hvers vegna er hún ein þarna undir, hver er hugsunin á bak við það? Ef við erum að fara í átak væri mjög sniðugt, varðandi þá sem núna eru að segja upp gistingu og annað, að hvetja þá til að koma í haust eða fljótlega aftur. En ég spyr: Af hverju bara Íslandsstofa?



[14:02]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Íslandsstofu er ætlað að sinna markaðssetningu á Íslandi erlendis og vera eins og farvegur og vettvangur fyrir markaðsmál Íslands í útlöndum. Þegar við fórum í markaðsherferðina sem gekk undir nafninu Inspired by Iceland þá tókst mjög vel til í samstarfi við Íslandsstofu. Hér er gengið út frá því að Íslandsstofa verði eins konar milliliður og framkvæmdaraðili að átaki þar sem þessir peningar fara fyrst og fremst í að birta auglýsingar og vinna þær, þeir verði ekki eftir hjá milliliðnum Íslandsstofu. Varðandi fjárhæðirnar er þetta í hlutfalli við árlegan rekstrarkostnað Íslandsstofu, rúmlega það sem þar er undir, þ.e. þetta er eins og allt umfang Íslandsstofu og rúmlega það.



[14:04]
Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra framsöguna. Það gefst ekki mikill tími hér, með eina mínútu til ráðstöfunar, til að fara djúpt í hlutina, en það er eitt atriði sem mig langar til að nefna og það er það sem í framsögu hæstv. ráðherra var kallað fimmta atriðið. Það snýr að 50% ríkisábyrgð á útlánum, allt að 70 milljörðum, með helmingsábyrgð, 35 milljarða ábyrgð ríkisins. Í fyrsta lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherrann: Í kynningunni í Hörpu frá því á laugardaginn var þetta atriði tilgreint sem 81 milljarður. Er eitthvað annað þarna inni en tvisvar sinnum 35, þ.e. 70 milljarðar, sem skýrir þetta?

Hins vegar hef ég áhyggjur af því að aðgerðin verði svolítið ómarkviss vegna þess að það er auðvitað nýbúið að losa um töluvert fé til nýrra útlána innan bankanna með breytingu Seðlabankans m.a. á bindiskyldu og sveiflujöfnunarreglum. Hefur (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra ekki áhyggjur af því að tapsáhætta bankanna, sem er 50% innan þessa ramma, muni virka verulega letjandi á það að þessi lausn verði nýtt yfir höfuð?



[14:05]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi 81 milljarðinn, þar er í raun verið að taka með áhrifin af því á útlánagetu bankanna að lækkun bankaskattsins er flýtt. Það eykur útlánagetu bankanna og getur komið til viðbótar við það svigrúm sem ríkisábyrgðin veitir. Ég held að það sé einfaldlega þannig að bankarnir verða í fyrsta lagi að standa með sínum fyrirtækjum. Það segir í greinargerð með frumvarpinu að þetta sé hugsað þannig að það reyni fyrst á þessa lánalínu eftir að aðalviðskiptabankar fyrirtækjanna hafa veitt þeim eðlilega fyrirgreiðslu miðað við stöðu máls. En hvað þarf til að koma þeim yfir þröskuldinn? Það er ekki gott að meta. Við verðum einfaldlega, og sérstaklega þegar við eigum nú tvo ríkisbanka, að reyna að virkja og nýta þennan risaefnahagsreikning sem bankarnir (Forseti hringir.) hafa til að taka þátt í því að koma okkur upp úr þessari holu. Ríkisábyrgð upp á helming á að skila miklu í því tilliti.



[14:06]
Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra hvað það varðar að lykilatriðið er auðvitað að ýta undir það að bankarnir nýti sér það svigrúm sem þeir hafa. En ég hef áhyggjur af því að þessi lausn komi í raun ekki til eiginlegrar skoðunar fyrr en eftir að tiltölulega tímafrekt ferli verður búið að eiga sér stað, hvað það varðar að bankarnir nýti það svigrúm sem þeir hafa eftir tilslakanir Seðlabankans. Það er í raun það sem ég vildi velta upp hér, hvort það væri ástæða til að nýta mögulega þetta svigrúm til að byggja inn einhvern hvata til þess að bankarnir, sem eru auðvitað að miklum hluta í eigu ríkissjóðs í augnablikinu, hreyfi sig hraðar, ef svo má segja, gagnvart útlánasvigrúminu sem þegar hefur verið skapað með tilslökunum Seðlabankans, þ.e. þessum 350 milljörðum.



[14:08]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni þegar hann bendir á að þetta þarf að vera skilvirkt. Menn þurfa að fá skjót svör. Það má ekki vera of umfangsmikið og þunglamalegt kerfi að baki aðgengi að þessum lánum. Við munum í frágangi samnings við Seðlabankann reyna að búa þannig um hnútana að það liggi alveg skýrt fyrir í hvaða tilvikum fyrirtæki ættu að eiga rétt á lánum af þessum toga. Það held ég að sé í raun og veru besta leiðin, að leikreglurnar séu skýrar þannig að ekki þurfi hvort tveggja til langt samtal milli fyrirtækis og fjármálastofnunar og síðan aftur á milli fjármálastofnunar og Seðlabankans. Það getur verið spurning upp á líf og dauða fyrir sum fyrirtæki að þurfa ekki að bíða eftir þessu, að slíkt þunglamalegt ferli sé ekki til staðar. En ég tek fram að við erum hér að fara sömu leið og mörg önnur þjóðríki eru að gera,(Forseti hringir.) m.a. Norðurlöndin, og við hljótum að geta fundið útfærslu á þessu sem virkar.



[14:09]
Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef áður sagt að þetta sé ekki tími pólitískra yfirboða en ég verð að viðurkenna að þegar kemur að fjárfestingaráformunum í þessum pakka hefði ég viljað sjá að við gætum gengið lengra en þetta. Við verðum að hafa það í huga að við höfum verið að svelta innviðafjárfestingu árum saman, raunar allar götur frá hruni. Við höfum verið langt undir meðaltali í fjárfestingu hins opinbera. Ég átta mig á því að fyrirvarinn er skammur núna en ég hefði búist við því að það væri töluverður listi af opinberum framkvæmdum sem hægt væri að ráðast í. Mig langar að nefna nokkur dæmi. Við erum með frumvarp frá hæstv. samgönguráðherra um einkafjármögnun m.a. tveggja framkvæmda sem ættu að geta farið af stað á þessu ári. Nú kann að vera einhver óvissa um hvernig hægt sé að standa að eða fjármagna slík verkefni en það væri alla vega eðlilegt að veita svigrúm til þess að hægt væri að taka þau beint í gegnum ríkissjóð ef með þyrfti. Það væri ágætt að heyra í fyrra svari sjónarmið hæstv. ráðherra hvað þetta varðar.



[14:10]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við fórum í þessa vinnu þannig að við báðum stjórnkerfið allt, öll ráðuneyti, að tína til öll þau verkefni sem viðkomandi ráðuneyti töldu að hægt væri að ráðast í strax á þessu ári. Úr varð töluverður verkefnalisti sem var unnið áfram með og þetta var niðurstaðan eftir töluvert mikla yfirlegu, að það væri raunhæft að koma allt að 15 milljörðum út strax á þessu ári af þessum hugmyndum öllum. Til viðbótar gætu komið verkefni, eins og ég hef verið að nefna hér í dag, í gegnum opinberu hlutafélögin. Við höfum kannski ekki endilega séð allt sem máli getur skipt þar enn þá. Þar á ofan gætu sveitarfélögin farið í sérstakt átak. Til viðbótar við allt þetta gætum við klárað frumvarpið sem vísað var til (Forseti hringir.) um fjárfestingar með einkaaðilum og bætt því ofan á. Þegar allt þetta er saman tekið þá erum við að tala um gríðarlega stórt fjárfestingarátak í heildina.



[14:12]
Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég ætla ekki að elta þennan þráð neitt lengra. Ég hygg að við getum gert meira þarna. Það eru tveir aðrir þættir sem mér finnst mikilvægt að horfa líka til sérstaklega. Við höfum farið í gegnum mjög erfiðan vetur þegar kemur að raforkuinnviðum okkar. Það er alveg ljóst að þar þarf að ráðast í mikið fjárfestingarátak og þar gæti ríkið komið inn með talsverða innspýtingu af eigin fé, ekki endilega af þörf þessara fyrirtækja heldur til þess að koma í veg fyrir gjaldskrárhækkanir á dreifingarkostnaði því að þar er bara reiknað upp eftir ákveðnu reikniverki. En það er alveg ljóst að í endurnýjun og uppbyggingu byggðalínu og nauðsynlegum innviðaframkvæmdum í flutningsmannvirkjum mætti spýta verulega í. En kannski er stærsta málið í þessu, og það sem ég sakna mest, hjúkrunarrýmin sem allt of lítið hefur verið gert í allt of lengi. Mjög lengi hefur verið talað, af hálfu þessarar ríkisstjórnar, um þörf á átaki en ekki sést neitt í það í þessum áformum. Ég spyr bara: Ef ekki nú, hvenær þá?



[14:13]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla í öllum aðalatriðum að lýsa mig sammála hv. þingmanni um innviðina og raforkukerfið. Varðandi hjúkrunarheimilin höfum við verið að bæta við fjármunum og höfum tekið frá marga milljarða, allt frá því að við settum stjórnarsáttmálann saman, til þess að hraða uppbyggingu þeirra. Reyndar er ég þeirrar skoðunar, fyrst við förum út í umræðu um hjúkrunarheimilin, að taka þurfi það fyrirkomulag allt upp með rótum. Mér finnst við vera komin út í ógöngur varðandi það hvernig það kerfi virkar. Það að við séum að ræða það hér hversu mikla fjármuni við ætlum að setja í steypu til að byggja einhverjar staðlaðar íbúðartegundir hjúkrunarheimila finnst mér sýna að við erum ekki að ganga í takt við tímann. Ég myndi vilja sjá fara sem fyrst af stað vinnu við að endurhugsa alla fjármögnun ríkisins á hjúkrunarheimilum þannig að við værum fyrst og fremst að hugsa til þess að fjármagn fylgdi heimilisfólki (Forseti hringir.) og við myndum fara í stóraukið samstarf við þriðja geirann, sjálfseignarstofnanir sem eru góðar í að reka þessi heimili til framtíðar.



[14:14]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Í upphafi máls míns vil ég óska hæstv. ráðherra og ráðuneyti hans góðs gengis í þeirri vinnu sem fram undan er. Ég veit mætavel að þetta er ekki auðvelt og ég veit að fólk í öllum ráðuneytum er að gera sitt besta. Úr þessum stól vil ég einnig ítreka þakkir mínar til allra sem starfa að almannavörnum, við heilbrigðisþjónustu og að skólamálum sem standa í ströngu í því ástandi sem við búum við. Það er talsvert talað um að þetta séu fordæmalausar tímar og þeir eru það en það eru einungis 11 ár síðan íslenskt atvinnulíf og samfélag gekk í gegnum erfiða tíma í kjölfar bankahrunsins. Það vill svo til að bæði sá sem hér stendur og hæstv. fjármálaráðherra studdu saman ríkisstjórnina sem þá var að störfum sem þurfti að taka fyrstu skrefin þegar einn meginatvinnuvegur Íslands varð fyrir meiri háttar hruni. Nú er það að gerast aftur og það skiptir máli að við séum, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, tiltölulega samstiga í verkefnunum fram undan. Það er einfaldlega of mikið í húfi og það skiptir máli. Þetta gerðu Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin á sínum tíma, það var gott samstarf við aðila vinnumarkaðarins en líka við stjórnarandstöðuna og almenning í landinu.

Ég varpaði fram þeirri hugmynd áðan að kannski væri ráð að setja á fót rafrænan þjóðfund til að kalla eftir góðum hugmyndum frá almenningi og fyrirtækjum, ekki síst frá litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem geta orðið út undan þegar stórar aðgerðir eru ákveðnar. Þessi hugmynd finnst mér ekki geta verið til skaða og ágætt að reyna að fá sem flesta að borðinu og nýta sér hugmyndaauðgi íslensks atvinnulífs og almennings.

Ferðaþjónustan er augljóslega að fara að ganga í gegnum mikla erfiðleika, það eru 30.000 bein störf í ferðaþjónustunni, rúmlega þrisvar sinnum meira en var í fjármálalífinu þegar bankahrunið varð. Við sjáum að hlutfall ferðaþjónustunnar er svipað og hlutfall bankaþjónustunnar var árið 2008 og verðmætasköpunin af erlendum ferðamönnum var um 70% af því sem var í ferðaþjónustunni. Í nýsamþykktu frumvarpi félagsmálaráðherra er talað um að þessi staða gæti haft áhrif á allt að 18.000 störf þannig að við þurfum að vanda okkur við að tryggja og verja störfin. Ég hef talsverðar áhyggjur af atvinnuleysinu eins og ég veit að allir þingmenn hafa. Við þurfum að huga sérstaklega að hópi atvinnulausra og ekki gleyma því að nú þegar eru tæplega 10.000 manns atvinnulaus. Þetta er fljótt að telja og fólk sem lifir frá einum launatékka til næsta gæti lent í talsverðum vandræðum og þá skiptir máli að ríkið komi myndarlega inn og tryggi og verji atvinnu eftir því sem best er hægt.

Mig langar að fara yfir nokkra þætti sem mér finnst frekar jákvæðir í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar. Allir vinna átakið um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu iðnaðarmanna finnst mér gott mál. Við réðumst í það eftir bankahrunið og það gafst vel. Það er ánægjulegt að þessi heimild sé útvíkkuð og látin ná til heimilisaðstoðar. Ég hélt fyrr í vetur ræðu um að skynsamlegt væri að gera það. Ég velti því samt fyrir mér og beini þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort við ættum að útvíkka þessa heimild. Við munum skoða það í nefndinni, væntanlega efnahags- og viðskiptanefnd frekar en fjárlaganefnd. Það mætti skoða hvort útvíkka ætti heimildina enn frekar og láta hana ná til efniskaupa annars vegar og hins vegar til vinnu utan byggingarstaðar, utan heimilis. Ég held að við ættum að skoða þær leiðir til að stuðla að aukinni neyslu og fyrst og fremst fjárfestingum. Það er ljóst að þær munu dragast allverulega saman. Þetta er gott úrræði sem við skulum útvíkka. Hugsum aðeins stærra.

Í öðru lagi finnst mér barnabótaaukinn sniðug hugmynd og styð hana. Mér finnst upphæðin reyndar svolítið rýr, 3 milljarðar, en auðvitað telur þetta allt saman. 3 milljarðar eru einungis 0,3% af ríkisútgjöldunum. Þingnefndin mun skoða þetta en það er ljóst að margar barnafjölskyldur verða fyrir talsverðu áfalli.

Í þriðja lagi fannst mér gjafabréfið vegna kaupa á innlendri ferðaþjónustu líka hljóma nokkuð vel. Í mínum huga er þetta útgáfa af svokölluðum þyrlupeningum. Það er verið að reyna að auka einkaneyslu á sama tíma og hagkerfið dregst mjög hratt saman og vextir eru lágir. Auðvitað hefur upphæðin verið gagnrýnd fyrir að vera fulllág, 5.000 kr. á hvern fullorðinn, en kannski er hægt að bæta í.

Í fjórða lagi er markaðsátak í ferðaþjónustu jákvætt. Við þurfum að ráðast í heilmikið markaðsátak í ferðaþjónustu og það er langtímaverkefni sem allir styðja. Ég vil draga það líka fram að málin sem voru samþykkt í síðustu viku og lutu að hlutabótum og launum í sóttkví eru einnig afskaplega jákvæð og ég held að mörg fyrirtæki muni nýta sér heimild um að ríkið greiði allt að 75% af launum á þessum erfiðleikatímum. Ég velti hins vegar fyrir mér hvað gerist hjá þeim fyrirtækjum sem hafa ekki einu sinni efni á að greiða 25% laun og neyðast til að loka, annars vegar fyrirtæki sem neyðast til að loka vegna algjörs hruns í tekjum og hins vegar fyrirtæki sem neyðast núna til að loka vegna tilmæla sóttvarnayfirvalda. Stendur til að mæta þeim fyrirtækjum? Þau eru fjölmörg, þetta eru litlu fyrirtækin, jafnvel örfyrirtæki. Íslenskt atvinnulíf byggist fyrst og fremst á litlum og meðalstórum fyrirtækjum og aðallega á örfyrirtækjum, þ.e. fyrirtækjum sem eru með einn starfsmann og upp í níu. Við þurfum að muna eftir þeim. Ég veit að margir boltar eru á lofti en ég vil nefna þetta sérstaklega, þetta er nokkuð sem við þurfum að hafa í huga.

Það er aðeins búið að gagnrýna ríkisstjórnina. Maður fer kannski varlega í að gagnrýna ríkisstjórnina, á þessum tímapunkti viljum við bara sjá það góða í tillögunum og ýmislegt er jákvætt í þeim. Auðvitað þarf að gera meira og ráðherra hefur sjálfur sagt að hér verði meira gert. Fyrir helgi var kynnt að þessi aðgerðapakki væri upp á 230 milljarða. Með sanngirni má segja að bein innspýting ríkissjóðs sé einungis um 70 milljarðar, þ.e. einn þriðji. Mér finnst við geta gert betur þar. Ríkissjóður er skuldlítill og ég bind vonir við að við spýtum meira í í þessum efnum. Ég skynja á tali þeirra ráðherra sem hafa talað í dag að hér verði bætt í.

Við sjáum í fjáraukalagafrumvarpinu sem fer til fjárlaganefndar að einungis er gert ráð fyrir 21 milljarði. Í hlutfalli við fjárlög upp á 1.000 milljarða er það ekki svo mikið, rúmlega 2% aukning fjárheimilda. Að vísu er búið að boða annan fjárauka sem er jákvætt. Ýmislegt vantar í þennan fjárauka. Núna er ekki sett króna í heilbrigðisstofnanir en búið er að segja að það komi seinna. Ég velti fyrir mér af hverju það sé ekki í þessum fjárauka. Það þarf að tryggja að heilbrigðisstofnanir fái þá fjármuni sem þær þurfa. Hér er þverpólitísk samstaða um að það verði gert en við þurfum að muna eftir að gera það.

Samhliða þessu vil ég í þessari ræðu minnast á það sem ég nefndi fyrr í dag í fyrirspurn minni til heilbrigðisráðherra. Að sjálfsögðu þarf ríkið núna að klára kjarasamninga við hjúkrunarfræðinga. Það gengur auðvitað ekki, það sjá allir, að hafa hjúkrunarfræðinga samningslausa. Þeir eru búnir að vera það í meira en ár. Hjúkrunarfræðingar eru lykilviðbragðsaðilar í því ástandi sem nú ríkir og við hljótum að geta samið við þá hratt og vel. Þá er ég að meina í þessari viku. Það vill svo til að það er samningafundur með hjúkrunarfræðingum á morgun og eins og ég gerði gagnvart heilbrigðisráðherra hvet ég sérstaklega fjármálaráðherra til að klára samninga við þessa lykilstétt. Hjúkrunarfræðingar hafa svo sannarlega svarað okkar kalli, bæði þeir sem eru starfandi núna en líka hjúkrunarfræðingar sem eru komnir á eftirlaun, þeir eru unnvörpum búnir að skrá sig í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar, tilbúnir að leggja sitt af mörkum, og nú finnst mér komið að okkur í þessum sal að svara þeirra kalli. Klárum kjarasamninginn, látum hjúkrunarfræðinga fá góðan kjarasamning og sérstakt álag út af þessu ástandi. Þið getið ímyndað ykkur álagið sem er núna á heilbrigðisstofnunum og því miður eru allar líkur á að álagið muni aukast til muna. Þetta er fólk sem setur sig beinlínis í hættu, bara við það að mæta í vinnuna þar sem það vinnur við að vernda okkur hin og hjúkra. Klárum þetta endilega með sóma, herra forseti.

Ég hef áhyggjur af þeim sem núna eru atvinnulausir og þeim sem eru að verða atvinnulausir. Ég hef líka áhyggjur af námsmönnum. Atvinnuhorfur námsmanna í sumar og vor eru nánast engar. Þetta eru hópar sem vinna tilfallandi störf, oft í ferðaþjónustu, hópar sem við megum ekki gleyma. Ég veit að ríkisstjórnin er ekki búin að leggja fram öll spil sem hún hefur á hendi. Það er búið að segja að meira eigi eftir að koma og þess vegna vil ég nota ræðustólinn til að draga fram hvað hægt er að gera meira og muna eftir ákveðnum hópum. Námsmenn eru þar á meðal.

Mér finnst brúarlánin nokkuð sniðug leið. Það þarf bara að gæta að skilyrðum þeirra lánveitinga, hverjir munu fá lánin o.s.frv. Það er spurning hversu vel brúarlánin henta litlum þjónustufyrirtækjum sem standa ekki í einhverjum fjárfestingum. Aftur er ég að reyna að draga umræðuna að því að við pössum lítil og meðalstór fyrirtæki, þau eru að fara að lenda í miklum vanda. Þetta eru fyrirtæki í þjónustugeiranum, hundruð fyrirtækja í ferðaþjónustu og við þurfum að muna eftir þeim. Ég hef miklar áhyggjur af þeim. Síðan eru kerfislega mikilvæg fyrirtæki eins og Icelandair sem þarf að huga sérstaklega að.

Mig langar að rifja upp ákveðnar leiðir sem við fórum eftir bankahrunið. Ég minnist ítrekað á bankahrunið vegna þess að þá réðust stjórnvöld í margs konar aðgerðir til að milda höggið og það er óþarfi fyrir okkur að finna aftur upp hjólið. Eftir bankahrunið er heil verkfærakista sem við getum leitað í. Eitt af því sem var skoðað á þeim tíma var yfirtaka og ég held að núverandi forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, hafi lagt fram frumvarp um yfirtöku á þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum. Ég veit að við erum ekki komin þangað en við þurfum að huga að því hvernig fer með stóru og kerfislega mikilvægu fyrirtækin. Þetta er ekki auðvelt, ég átta mig algjörlega á því, en Icelandair er í erfiðleikum eins og öll flugfélög í heiminum og við þurfum að huga sérstaklega að því hvort ríkið yfirtaki það einfaldlega eða hvernig það verður. Væntanlega verður allt skoðað í þeim efnum. Icelandair er fyrirtæki sem er lífæð okkar gagnvart umheiminum, ekki bara í fólksflutningum heldur líka í fraktflutningum.

Við þurfum líka að gæta okkar á því að þjóðnýta ekki bara tapið og einkavæða hagnaðinn. Mér finnst allt í lagi að í svona neyðarástandi eignist ríkið fyrirtæki, hvort sem það er í flugi eða öðru, til að bjarga starfsemi fyrirtækisins. Ég er ekki að tala um að bjarga hluthöfunum, heldur starfseminni, tryggja að starfsemin haldi áfram og bjarga störfunum. Það var gert í bankahruninu, þá voru sett sérstök lög um stofnun opinbers hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja. Þar var opinbert hlutafélag stofnað sem hafði m.a. heimild til að eignast eignarhluti í viðkomandi fyrirtækjum. Þetta er uppbyggjandi leið sem ég er að reyna að tefla fram og hvet ráðherra til að skoða sérstaklega í ástandinu sem nú ríkir.

Ég vil líka minnast á framtakssjóðinn sem lífeyrissjóðirnir settu á fót eftir hrun. Lífeyrissjóðirnir keyptu fyrirtæki, reistu þau við og seldu síðan aftur þegar vel var gengið frá öllu saman. Þetta er leið sem ég held að við ættum að skoða í þessu fordæmalausa ástandi.

Auðvitað er freistandi að fara að hnika til tölum en væntanlega skoða báðar nefndirnar vel hvort hér sé hægt að auka aðeins í barnabótaaukann og skoða hugsanlega auknar fjárfestingar. Af fjárfestingarhlutanum sem er upp á 15 milljarða fara bara rúmir 2 milljarðar í nýsköpun og græna hagkerfið. Ég velti fyrir mér hvort ekki sé hægt að auka aðeins þar í. Ég varpa því fram til viðkomandi nefndar hvort við getum ekki lagt meiri áherslu á græna hagkerfið og þannig lausnir, nýsköpun og rannsóknir. 2 milljarðar eru einungis 0,2% af ríkisútgjöldunum.

Herra forseti. Við í Samfylkingunni styðjum allar góðar tillögur og við munum að sjálfsögðu reyna að bæta í þær og gera þær betri, koma með nýjar hugmyndir og kalla eftir frekari viðbrögðum. Eins og hér hefur komið fram eru þetta fyrstu skref þessarar aðgerðaáætlunar. Margt er fram undan og ég held að allir séu sammála um að hér þurfi að gera meira og hafa regluverkið þannig að jafnræði og almennar leikreglur gildi (Forseti hringir.) þannig að sómi sé að og að íslenskt atvinnulíf geti vonandi risið aftur tiltölulega hratt.



[14:30]
Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Við fáumst nú við fjáraukalög í mars sem segir sitt um ástandið sem við stöndum frammi fyrir. Í þessu fjáraukalagafrumvarpi er að finna nokkrar aðgerðir til að bregðast við afleiðingum Covid-faraldursins á Íslandi. Til að byrja með er lagt til að auka útgjöld um 21 milljarð sem skiptist þannig að ferðaþjónustan fær 3 milljarða, barnabætur eru hækkaðar um rétt rúma 3 milljarða auk sértækra fjárráðstafana upp á 15 milljarða. Að auki er lögð til heimild um að taka allt að 140 milljarða kr. lán til að ráðstafa í samræmi við ákvæði þessara fjáraukalaga. 140 milljarðar eru sjö sinnum hærri upphæð en sá 21 milljarður sem ég nefndi, en útskýringin á því virðist vera að gefnar eru auknar heimildir í 4. gr. frumvarpsins um að auka hlutafé í opinberum félögum, veita framlög í sérstakt tímabundið fjárfestingarátak til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu og að lokum gera samning við Seðlabanka Íslands um að bankinn veiti fyrirgreiðslu til að auðvelda viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja. Af þessu leiðir að 119 milljarðar renna óskiptir til þessara þriggja opnu heimildarákvæða. Það tryggir vissulega ákveðinn sveigjanleika í erfiðum og breytilegum aðstæðum en á sama tíma framselur Alþingi viðamikið fjárveitingavald til ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin verður því að fara varlega og freistast ekki til að misfara með það vald. Píratar munu sinna virku eftirliti með því. Ef einhverjum er treystandi til að sinna virku eftirliti þegar kemur að vinnu fjárlaganefndar með fjárheimildir Alþingis er það hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, fulltrúi Pírata í fjárlaganefnd.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru kynntar sem mestu aðgerðir Íslandssögunnar á sama tíma og ýjað er að því að meiri aðgerða sé líklega þörf. Það að Alþingi láti ríkisstjórnina fá fjárheimildir upp á 119 milljarða í aðgerðir eins og tímabundið fjárfestingarátak og viðbótarlán til fyrirtækja býður upp á margs konar misnotkun þar sem lítil eða engin takmörk eru bundin við þær fjárheimildir. Því væri ráð að setja svipuð skilyrði um þessar fjárheimildir og voru sett vegna lánaheimildar ríkisins til Íslandspósts, að ríkisstjórnin þurfi að gera þinginu grein fyrir útgjaldaákvörðunum sem byggja á þeim fjárheimildum sem eru veittar í þessum lögum. Þetta getur hv. fjárlaganefnd gert. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, fulltrúi Pírata í nefndinni, kallar eftir því og leggur til að sett verði sérstök skilyrði um hvernig megi haga þessu með tilliti til þeirra aðstæðna sem við glímum við.

Í greinargerð frumvarpsins er fjallað um sérstaka 15 milljarða fjárfestingarátakið og hvernig fjármunir í því átaki skiptist. Þar fara 6 milljarðar í samgöngumannvirki, 2,3 í önnur innviðaverkefni, 2 í viðhald fasteigna, rúmlega 1,7 í rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar, rúmlega 1,3 í Stafrænt Ísland og önnur upplýsingatækniverkefni, rúmlega 1 í nýbyggingar og meiri háttar endurbótaverkefni og að lokum 500 milljónir í orkuskipti og grænar lausnir. Við sjáum að meiri hluta fjármuna í þessu sérstaka átaki á að ráðstafa í vegagerð, nýbyggingar og viðhald á húsum, sem sagt steypu og malbik. Ég þarf að upplýsa hér að ég hef hagsmuna að gæta þegar meiri peningar eru settir í malbik sem starfsmaður á plani í malbiki í 23 sumur. Þess á milli hef ég ferðast, farið í háskóla og sinnt þingstörfum. Það er ýmislegt sem maður hefur haft fyrir stafni. Ég mun ekki samþykkja veggjöld nema að það sé samstaða landsmanna um slíkt, ég mun að sjálfsögðu láta þjóðarviljann ráða. Samstaða er aldrei mikilvægari en nú og ekki má nota faraldurinn til að fara í aðgerðir sem eru mjög umdeildar og samstaða er ekki um. Fólk mun þá upplifa að verið sé að nota neyðina og hunsa nauðsynlegt ákall um samstöðu. Slíkt væri óábyrgt. Ef menn ætla að fara þá leið verða þeir að ganga úr skugga um að almenn sátt sé í samfélaginu um þá útfærslu. Annað væri óábyrgt.

Það er jákvætt að við séum að auka fjárfestingu í stafrænum lausnum, skapandi greinum og nýsköpun. Sömuleiðis er framlag til orkuskipta og grænna lausna fagnaðarefni, en fjárfesting í öllu þessu samanlögðu er þó ekki nema helmingur af þeim fjármunum sem ætlaðir eru í vegaframkvæmdir. Konur eru ólíklegri til að vinna í byggingariðnaði og í vegagerð. Því væri óskandi að sjá meiri kraft settan í fjárfestingar sem virka atvinnuskapandi fyrir konur. Ætti fjárlaganefnd að grípa það sjónarmið á lofti og skoða hvað hægt er að gera í þeim efnum. Frekari aðgerðir ríkisstjórnar í framhaldinu ættu líka að taka mið af því og fram kemur að í undirbúningi sé enn stærra fjárfestingarátak á árunum 2021–2023 sem er óskandi að taki mið af því.

Hér er verið að gefa ríkinu heimild til að heimila gerð samnings við Íslandsstofu um kynningar- og markaðsátak erlendis á árunum 2020–2021 til að bregðast við neikvæðum áhrifum heimsfaraldursins á íslenska ferðaþjónustu. Það er sjálfsagt að veita þessa heimild. Þegar heimsfaraldurinn verður yfirstaðinn getur þetta gagnast vel við að ná okkur upp. Það er alls óvíst hvort eða þá hvenær ferðaþjónustan á möguleika á að ná sér á strik aftur. Hún mun á endanum gera það, en hvenær? Það er stóra spurningin. Við vitum ekki hvenær aðgerðum vegna Covid-19 verður aflétt og þess vegna er skynsamlegt að styðja strax við innviði og störf sem við vitum að eiga möguleika á að fara í sókn í dag, á tímum faraldurs. Við höfum mörg tækifæri til að styðja við skapandi greinar, sprota og frumkvöðla sem geta skapað nútímalegar hátæknivörur sem afla tekna, óháð því hvort samkomubann er í gildi eða ekki. Þar má nefna hugbúnað, tónlist, bíómyndir, bækur, tölvuleiki og borðspil. Aðeins þau störf sem hægt er að vinna að mestu yfir internetið, selja og dreifa þrátt fyrir félagslega fjarlægð og samkomubann munu dafna á tímum heimsfaraldurs. Efnahagsaðgerðir á kostnað almennings verða að taka tillit til þess.

Í rauninni er ekki margt annað sem þarf að segja um frumvarpið miðað við þau skilaboð sem fylgdu kynningu þess um að þessar ráðstafanir væru fyrstu skref sem þyrfti að taka.



[14:38]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Eins og ég nefndi fyrr í umræðu um frumvarp ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs, kórónuveirunnar, fögnum við í Miðflokknum almennt aðgerðum sem miða að því að bæta stöðu fólks og fyrirtækja í þeim fordæmalausu aðstæðum sem við erum komin í. Mikilvægt er að bregðast hratt við og að við göngum samhent til verka í því að lágmarka það efnahagslega tjón sem því miður blasir við okkur. Staðan er alvarleg. Þess vegna þurfa úrræði sem þessi að ganga vel fyrir sig og mæta þeim miklu erfiðleikum sem fyrirtæki mörg hver koma til með að horfa fram á og einstaklingar sem koma til með að missa störf sín vegna þessa.

Allir hafa skilning á nauðsyn þessa frumvarps en engu að síður er nauðsynlegt að horfa á það með gagnrýnum augum, ekki síst vegna þess að það felur í sér heilmikil fjárútlát fyrir ríkissjóð og heimild til lántöku upp á 140 milljarða kr.

Þegar frumvarp sem þetta er lagt fram, frumvarp sem felur í sér mikil útgjöld fyrir ríkissjóð og hefur verið unnið í flýti, er nauðsynlegt að vanda til verka og forðast öll mistök og allt flækjustig þegar kemur að framkvæmd málsins þannig að við rennum ekki út á tíma í þessum mikilvægu aðgerðum. Það er ekki síður mikilvægt að frumvarpið gagnist þeim best sem þurfa mest á þessum aðgerðum að halda og sem fyrr er nauðsynlegt að gæta ráðdeildarsemi með opinbert fé eins og kveðið er á um í lögum.

Í fyrsta lagi vil ég segja að þær tillögur sem birtast í frumvarpinu eru að mínu viti of flóknar og nauðsynlegt að einfalda þær. Það er hætta í svokölluðum sérstökum ákvörðunum sem er aldrei gott þegar vandinn er svo víðtækur sem raun ber vitni. Það þarf að hlúa að fyrirtækjunum og heimilunum í landinu og við í Miðflokknum tökum heils hugar undir það. Við erum með sérstakar tillögur í þeim efnum sem ég rakti fyrr í morgun.

Frumvarpið felur m.a. í sér efnislega að almenningur, þ.e. skattgreiðendur, mun lána fyrirtækjum í vanda peninga. Hins vegar liggur ekki nægilega ljóst fyrir með hvaða skilyrðum og á hvaða kjörum almenningur mun lána féð. Það verður að vera tryggt að ríkissjóður og skattgreiðendur séu ekki að lána eða bjarga fyrirtækjum þar sem eigendur eða stjórnendur hafa greitt háar arðgreiðslur á síðustu árum, að ríkissjóður láni ekki fyrirtækjum sem hafa verið að kaupa eigin bréf eða veita stjórnendum háa bónusa og kauprétti. Ríkissjóður á að aðstoða og bjarga einstaklingum og heimilum sem raunverulega þurfa á því að halda en ekki fyrirtækjum sem þurfa ekki á því að halda. Hæstv. fjármálaráðherra lagði áherslu á það fyrr í dag að fyrirtæki sem þyrftu ekki á þessari fyrirgreiðslu að halda myndu ekki leita eftir henni. Ég tek heils hugar undir að það á að vera markmiðið og það þarf að vera tryggt að þau fyrirtæki sem þurfa á þessu að halda njóti fyrirgreiðslunnar en síður þau sem þurfa ekki á því að halda.

Það er rétt að nefna í þessu samhengi að Alþýðusamband Íslands hefur ályktað á þann veg að ef ákveðið verður að veita fyrirtækjum ríkisábyrgð á skuldum sínum eigi ríkisstjórnin að veita heimilum sem lenda í greiðsluerfiðleikum ríkisábyrgð með sama hætti, hvort sem er vegna húsnæðislána eða annarra íþyngjandi skuldbindinga.

Hafa þarf í huga að hluthafar í þeim fyrirtækjum sem fá stuðning verða með einhverjum hætti að borga þann stuðning til baka. Þá á ég ekki við að bankinn fái lánið til baka í svokallaðri lánalínu ríkissjóðs. Hluthafar mega ekki komast upp með að vera án svokallaðra áhættuvarna og fá svo ríkisstuðning í formi lánveitingar frá banka með ríkisábyrgð. Þá er í raun verið að verðlauna áhættutöku og það er óásættanlegt að forstjórar og framkvæmdastjórar haldi síðan áfram að fá há laun, kauprétti o.s.frv. í þeim fordæmalausu aðstæðum sem við erum í og ríkissjóður er að koma inn í.

Nauðsynlegt er að skýra með hvaða hætti ríkisábyrgð á nýjum lánum til fyrirtækja verður háttað. Verður gert ráð fyrir því að veðið skiptist jafnt á milli bankans og ríkisins ef um lán gegn veði er að ræða eða heldur bankinn því alfarið fyrir sig? Hæstv. fjármálaráðherra lýsti því yfir í andsvari að þessu yrði skipt og nauðsynlegt að það komi fram. Einnig nefndi hæstv. ráðherra að ríkisábyrgðin yrði til 18 mánaða. Það er væntanlega í endurskoðun eftir því sem okkur berast meiri upplýsingar og við sjáum hvernig aðstæður þróast í efnahagslífi okkar og hversu hratt við náum okkur aftur á strik þegar veiran verður komin í burtu. Vonandi hverfur hún sem fyrst.

Í reynd er þetta í annað skipti á stuttum tíma sem stærsta atvinnugrein landsins hrynur. Nú er það ferðaþjónustan, en bankakerfið hrundi 2008 eins og við þekkjum öll. Segja má að það sem blasi við sé umfangsmeira en bankahrunið og muni hafa meiri áhrif í öllu hagkerfi landsins. Við þekkjum öll hvað gerðist í bankahruninu með krónuna og verðtrygginguna. Við getum ekki útilokað að slíkt endurtaki sig en vonandi kemur ekki til þess. Stjórnvöld þurfa hins vegar að vera viðbúin og taka þá vísitöluna úr sambandi ef veður skipast snögglega með þeim hætti.

Þegar frumvarpið var kynnt á fundi fjárlaganefndar kom sérstaklega fram að þessi mikilvægu atriði hefðu ekki verið ofarlega á borðinu í útfærslu ríkisstjórnarinnar, þ.e. hratt gengisfall krónunnar, útstreymi gjaldeyris og að verðbólgan tæki stökk. Hins vegar kom fram að ekki væri útilokað að sú þróun gæti farið af stað. Auk þess kom fram að ekki hefði verið rætt um að grípa inn í verðtrygginguna. Ég hef áhyggjur af því, herra forseti, að þessir mjög svo mikilvægu þættir hafi ekki verið ofarlega á borðinu eins og sagt var. Það er beinlínis lífsnauðsynlegt að hafa aðgerðaáætlun sem lýtur að þeim aðstæðum sem við höfum áður lent í með alvarlegum afleiðingum fyrir heimilin í landinu.

Næst vil ég, herra forseti, víkja aðeins að hinum svokölluðu brúarlánum og hlutalaunum með aðkomu Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég tel þetta of seint fram komið vegna þess að það er augljóst að þetta tekur of langan tíma og er of flókið í framkvæmd. Það þarf að einfalda ferlið. Það þarf að ræða innan nefndarinnar hvernig hægt sé að gera það. Við þurfum að hafa í huga lítil og meðalstór fyrirtæki vegna þess að þau eru ekki síður mikilvæg en önnur fyrirtæki. Aðgerðirnar þurfa að vera almennar og aðgengilegar. Til dæmis ætti að skoða útfærslu sem ég vil kalla nýsköpunarlaun, þ.e. að ríkið greiði laun þeirra sem eru heima, greiði starfsfólki og fyrirtækjum laun í þeim efnum, þannig að þeir sem eru heima geti nýtt tímann til að þróa hugmyndir og nýsköpun. Það er okkur mjög mikilvægt í þeim aðstæðum sem við erum í núna. Það er mikilvægt að við reynum að nýta þá starfskrafta sem þurfa að vera heima vegna ástandsins til að koma með nýjar hugmyndir og að sem flestir séu virkir. Það er öllum fyrir bestu. Gefa ætti fyrirtækjum tækifæri til að fá svokölluð nýsköpunarlán frá ríkinu til t.d. þriggja ára til að nýta tímann í að þróa hugmyndir.

Skilmálar lánafyrirgreiðslunnar eru í raun sérkafli sem verður að fara mjög vandlega yfir, bæði hvað varðar hagsmunaárekstra og að hún verði ekki of flókin, eins og ég rakti sérstaklega. Þarna verður að ríkja algjört gagnsæi.

Að mínum dómi er verið að gefa bönkunum verulega eftir, bönkum sem hafa verið með háar arðgreiðslur og hafa verið að kaupa upp eigin bréf. Það verður að gera þá kröfu að hluthafar skili því til baka, þ.e. með eigin fé annars staðar, til að mæta þessum áföllum. Ég held að það sé líka nauðsynlegt að menn hugi að kaupréttaráætlunum sem t.d. einkabankinn Arion banki hefur samþykkt. Þetta þarf allt að vera til skoðunar þegar lánafyrirgreiðslan og lækkun bankaskattsins verður að veruleika.

Í frumvarpinu er fjallað um aðkomu Seðlabanka Íslands sem ábyrgðaraðila að þessum lánum og lánum banka til fyrirtækja. Á sama tíma hefur Seðlabankinn haft eftirlit með fjármálafyrirtækjum sem var áður í höndum Fjármálaeftirlitsins. Hér er ljóst að um ákveðinn hagsmunaárekstur er að ræða. Þetta er eitt af klassískum dæmum sem voru nefnd gegn sameiningu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans, þ.e. að Seðlabankinn er ábyrgðaraðili, lánveitandi og eftirlitsaðili, samanber samninga milli Seðlabankans og bankanna um slíkar ábyrgðir. Hagsmunaárekstrar af þessu tagi eru óæskilegir.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um ýmsar fjárheimildir en hins vegar er nauðsynlegt að útfæra nánar með hvaða hætti þær eru og hvaða verkefni er um að ræða. Vissulega er yfirlit í frumvarpinu um þetta á bls. 13 en það er bara almennt. Hæstv. ráðherra gat þess að útfærslan yrði í formi þingsályktunartillögu og hefði verið æskilegt að hægt hefði verið að upplýsa um verkefnin í þessari umræðu. Hið sama á við um samning við Íslandsstofu og samning við Seðlabankann. Þeir liggja ekki fyrir. Þarna er verið að færa framkvæmdarvaldinu veruleg völd til að útfæra þessa hluti nánar og þar er mikilvægt að huga að eftirliti og gagnsæi. Það er alltaf hætta á hagsmunaárekstrum.

Líklega er það sem er lagt upp með í frumvarpinu of lítið og úrræðin koma of seint fyrir marga. Það er stutt í næstu mánaðamót. Tillögurnar taka ekki til þess hvernig eigi að mæta þeim fyrirtækjum sem sjá fram á 90% samdrátt nánast á einni nóttu eða kannski tveimur vikum. Þau fyrirtæki hafa lítinn aðgang að fjármagni og lausafé og hætt er við að næstu mánaðamót verði viðkomandi fyrirtækjum erfið. Það er hætta á því að vandinn margfaldist í kerfinu á stuttum tíma og við þurfum að vera viðbúin því og grípa inn í.

Það er rétt að nefna í þessu samhengi bæði sóttvarnafrumvarpið og hlutalaunin. Þar eru mjög þröng skilyrði. Það þarf að tækla þann vanda sem er uppi hjá fyrirtækjum sem hafa engar tekjur og hafa misst þær nánast á einni nóttu eins og ég nefndi. Sá vandi getur líka verið ekki bara bundinn við viðkomandi fyrirtæki, hann getur bitnað á leigusala vegna þess að leigan er ekki greidd, hann getur bitnað á banka vegna þess að lán eru ekki greidd, hann getur bitnað á birgjum vegna þess að vörur eru ekki keyptar o.s.frv.

Síðan er nauðsynlegt að skilyrði varðandi lánveitingar og ábyrgðir Seðlabankans séu gagnsæ og skýr, eins og ég sagði áðan. Við stöndum frammi fyrir bráðavanda, það er ljóst, og þess vegna er brýnt að bregðast hratt við og að fyrirmæli til ríkisbankanna um aðkomu þeirra séu skýr og að allt ferlið verði sem einfaldast. Mögulega er þetta fyrsta skrefið sem á eftir að útfæra nánar og miða við hvernig aðstæður þróast.

Ég læt þetta verða síðustu orð mín að þessu sinni, herra forseti, og mun leggja mitt fram fyrir hönd Miðflokksins í fjárlaganefnd þegar frumvarpið verður rætt. Ég vænti þess að nefndin standi öll saman í því mikilvæga verkefni sem fram undan er.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til fjárln.